Fótboltasaga mín 74/100: Aukakílóin

1. júlí 2003. Fram 4 ; Haukar 2 (eftir framlengingu)

Listi yfir óþolandi fótboltatengd fyrirbæri: nr. 341,  leikmenn sem alltaf skora á móti félaginu manns, þangað til þeir skipta yfir í liðið og eru þá úti að skíta.

Guðmundur Steinarsson er nánast orðabókarskilgreiningin á þessu. Einhvern veginn virtist sama hvort Framarar léku vel eða illa gegn Keflavík – alltaf skyldi Guðmundur Steinarsson pota inn marki, yfirleitt í leikslok.

Það vakti því nokkra eftirvæntingu þegar Guðmundur gekk til liðs við Fram fyrir sumarið 2003, frá dönsku félagi (Keflavík var í næstefstu deild). Baldur Bjarnason ákvað líka að taka skóna fram á ný. Ef hann héldist heill og með traustan markaskorara frammi, ætti Framliðið hæglega að vera nógu gott til að hafna um eða fyrir ofan miðja deild.

En Baldur var ekki heill. Hann var frá vegna meiðsla hálft og farinn að haltra í byrjun seinni hálfleiks þegar honum tókst að spila. Og Guðmundur Steinarsson hafði greinilega tekið of vel á því í pulsunum og síldinni í Danmörku. Hann var svakalega þungur og klaufi þegar hann komst í færi.

Það var ferlega dapurt að horfa upp á Fram í fyrstu umferðunum. Eftir fjóra leiki voru tvö stig í húsi, bæði eftir hálfgerð heppnisjafntefli gegn KR og ÍA. Stjórnin fór á taugum, rak Kristinn R. Jónsson án þess að vita hvern ætti að ráða í staðinn. Að lokum tókst að pína Steinar Guðgeirsson í að taka við keflinu – þó þannig að markmannsþjálfarinn Guðmundur Hreiðarsson þurfti að stýra liðinu í einum bikarleik. (Sem er skemmtilegt pöbbkvisskjúríosítet sem engir nema skæðustu nirðir muna eftir.)

Undir stjórn Steinars náði Fram einum af sínum frægu viðsnúningum. Var í botnsætinu fyrir lokaumferðina, en sjapp undir lokin. Þá Guðmundur Steinarsson hins vegar á bak og burt – fór aftur til danska liðsins síðsumars, eftir að hafa mistekist að skora í ellefu deildarleikjum.

En Guðmundur skoraði þó mark. Það var í sextán liða úrslitum gegn Haukum á Laugardalsvellinum.

Haukar voru um þessar mundir þokkalegt lið í næstefstu deild. Þorsteinn Halldórsson þjálfaði og leikmennirnir voru nánast allir óþekktir. Þetta leit út fyrir að vera passlega viðráðanlegur andstæðingur, einkum eftir að Framararnir unnu sinn fyrsta deildarleik fáeinum dögum fyrr í Kaplakrika.

Haukar pökkuðu í vörn og Framliðið hafði litla hugmynd um hvernig stjórna ætti leik eða brjóta niður varnarmúr. Í fyrri hálfleik gerðist sáralítið. Eftir hlé breyttist ekkert og Steinar þjálfari missti þolinmæðina og bjó sig undir tvöfalda skiptingu, þar sem Viðar Guðjónsson og Andri Fannar Ottósson kæmu inná fyrir Frey Karlsson og Guðmund Steinarsson.Varamennirnir stóðu tilbúnir á hliðarlínunni þegar Kristján Brooks náði sending fyrir markið og Guðmundur potaði boltanum yfir línuna. Við þessar aðstæður hefðu sumir þjálfarar freistast til að bíða með skiptinguna, en ekki Steinar. Guðmundur fagnaði markinu langþráða og var strax á eftir skipt útaf.

Skiptingunni hafði verið ætlað að auka sóknarþungann, en um leið og hún hafði farið fram og Haukarnir tóku miðju byrjuðu Framarar að draga sig til baka. Haukarnir sem höfðu ekki sýnt neina tilburði til að sækja fikruðu sig framar á völlinn og fengu allt það pláss sem þeir þurftu. Og í hvert sinn sem Haukarnir fengu aukaspyrnu eða horn fóru allir Framararnir í vörnina. – Þá hegðun hef ég aldrei skilið í fótbolta. Það er einfaldlega rökréttara að hafa einn mann frammi, sem gerir það að verkum að andstæðingarnir þurfa að halda tveimur í vörninni en að senda alla í eigin vítateig, svo hitt liðið geti sent alla fram.

Haukarnir voru svo sem ekkert að sýna neinn stjörnuleik, en þeir hlutu að jafna. Rétt fyrir leikslok braut Ómar Hákonarson af sér: víti og jöfnunarmark. Djöfuls bögg!

Sem betur fer höfðu Hafnfirðingarnir klárað tankinn á að reyna að krækja í jöfnunarmarkið. Framararnir óku yfir þá þvera í byrjun framlengingarinnar, þar sem Ómar og Andri Fannar skoruðu báðir. Haukarnir kröfsuðu í bakkann með marki, en Ómar Hákonarson kláraði leikinn endanlega undir lokin.

Haukasigurinn lagði ekki grunninn að neinu bikarævintýri. Í næstu umferð fór Fram í Frostaskjólið og tapaði að vanda. En aðalmálið var hanga í deildinni. Það tókst og sumarið eftir lék Fram í deild þeirra bestu ásamt Keflvíkingum. Í lokaumferðinni komu Keflvíkingar í heimsókn á Laugardalsvöllinn og hver var í liði þeirra annar en Guðmundur Steinarsson. Hann skoraði að sjálfsögðu.

(Mörk Fram: Guðmundur Steinarsson, Ómar Hákonarson 2, Andri Fannar Ottósson. Mörk Hauka: Kristján Ómar Björnsson, Ómar Karl Sigurðsson)