Fótboltasaga mín 76/100: Sénsinn

15. júní 1989. Ísland 0 : Austurríki 0

Hvenær byrja ferðaskrifstofurnar að selja miðana á EM í Frakklandi 2016? Þess verður varla langt að bíða, þar sem annar hver knattspyrnuunnandi er þegar farinn að reikna íslenska liðið í úrslitakeppnina. Það getur þó ekki endað í tárum?

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Íslendingar hafa gælt við sæti í úrslitakeppni. Fyrsta forkeppnisævintýrið var í aðdraganda Ólympíuleikanna í Róm 1960. Við vorum í riðli með Noregi og Danmörku. Þrátt fyrir að hafa tapað fyrir Dönum á heimavelli í fyrsta leik, töluðu Íslendingar sig upp í að eiga séns – þyrftu „bara“ að vinna í Kaupmannahöfn. Engin verðlaun fyrir að giska á hvernig það endaði.

Svo liðu mörg, mörg ár. Ísland var þokkalega heppið með dráttinn í forkeppni HM 1990. Sovétmenn voru langbestir, en þar á eftir komu nokkur lið sem álitin voru á par við okkur eða í það minnsta ekki öllu betri: Austur-Þýskaland, Austurríki og Tyrkland.

Sigfried Held var landsliðsþjálfari, sem fótboltanirðinum í mér fannst stórmerkilegt. Held hafði verið vestur-þýskur landsliðsmaður á sjöunda áratugnum og keppti á HM bæði 1966 og 1970. Hann var meira að segja nafngreindur í skrítnu bókinni um HM í Mexíkó 1970 sem þýdd hafði verið úr þýsku og sem maður las í döðlur. (Já, það er víst ennþá hipp og kúl að segjast hafa gert e-ð í döðlur, samkvæmt mínum bestu heimildum.)

Held bauð þó ekki upp á skemmtilegan bolta. Landsliðið var skipað Ólafs Þórðarsonar og Péturs Arnþórssonar-týpum og hugsaði fyrst og fremst um að reyna að halda hreinu. Tvö jafntefli og eitt tap í þremur fyrstu leikjunum gaf heldur ekki sérstakt tilefni til bjartsýni.

En svo kom jafnteflið í Moskvu. Ég held að ég hafi aldrei orðið jafn hissa yfir fótboltaleik og þegar Halldór Áskellsson jafnaði á lokamínútunum á Lenin-vellinum. Öllum bar saman um að þetta væru bestu úrslit íslenska landsliðsins. Betra en sigurinn á Austur-Þjóðverjum með bakfallsspyrnu Búbba eða 5:4 gegn Svíum á Melavellinum mannsaldri fyrr.

Og þá fórum við að reikna…

Þótt keppnin í riðlinum væri bara hálfnuð og Ísland enn án sigurs, þá vorum við á leiðinni til Ítalíu. Sovétmenn myndu vinna riðilinn, en keppnin um annað sætið var galopin. Tyrkirnir með fimm stig í fimm leikjum. Austurríkismenn með þrjú í þremur, við þrjú í fjórum en Austur-Þjóðverjar þrjú í fimm. Næsti leikur myndi ráða öllu: Ísland gegn Austurríki.

Ég var í bæjarvinnunni þetta sumarið og þar var ekki um annað talað dagana fyrir leikinn. Sjálfur hafði ég aldrei lifað mig sérstaklega inn í landsleiki, en þarna hlutu allir að hrífast með. Ég keypti mér miða. Mann sannast sagna ekki hvort ég fór einn, en finnst það ekki ólíklegt.

Það voru tíuþúsund manns á vellinum og ég hafði aldrei séð annað eins. Hávaðinn var ærandi og Ísland byrjaði í stórsókn. Austurríkismennirnir lágu til baka og litu greinilega á jafntefli sem fín úrslit á útivelli. Skiljanlega, tveggja sitga reglan var enn við lýði í landsleikjum.

Það var varið á línu austurríska landsliðsins. Íslenskt mark var dæmt af (líklega réttilega) og skotið í stöng. Mesta reiði vakti þó þegar dæmd var óbein aukaspyrna innan vítateigs fyrir hindrun á Ásgeiri Sigurvinssyni en ekki víti. Maður mundi varla eftir að hafa séð óbeina aukaspyrnu innan teigs áður. TURK-182.

Leiknum lauk 0:0 og Austurríkismenn fögnuðu. Þar með mátti draumurinn heita úti. Ég tróðst inn í strætó og ók heim á leið, moldfúll og sannfærður um að þarna hefði eini sénsinn okkar farið. Aldrei aftur myndi Ísland verða svo heppið með riðil og aldrei aftur yrðu ytri aðstæður okkar svo heppilegar. Önnur eins úrslit og jafntefli í Moskvu væri eitthvað sem ekki gerðist nema á hálfrar aldar fresti.

Upp frá þessu hefur mér alltaf verið illa við Austurríkismenn á stórmótum og kættist mjög þegar þeir féllu úr leik á Ítalíu eftir drepleiðinlega leiki gegn Ítölum og Tékkum.