Fótboltasaga mín 83/100: Rangfærslurnar

21. maí 2000. Grindavík 3 : Fram 0

Ein af mörgum dagvinnum mínum (sem ég vinn þó að óþarflega miklu leyti á nóttunni) er að semja fyrir spurningaþátt í sjónvarpi. Þátturinn hefur mikið áhorf og er mikilvæg stofnun í helgarrútínu fjölda fólks. Það hefur því miklar skoðanir á því hvernig ég vinn vinnuna mína.

Stundum er ég skammaður fyrir að semja of þungar spurningar. Það gerist helst vikuna eftir að eitthvert liðið hefur átt slæman dag og fengið sárafá stig. Þessar skammir heyrast sjaldnast eftir viðureignir þar sem bæði lið eru í stuði og svara flestöllu rétt. Samt eru spurningarnar allar úr sama potti. Skrítið!

Mest er ég samt skammaður ef ég skýt inn fótboltaspurningum. Nokkur hluti áhorfendahópsins hefur skömm á fótbolta og telur sig ofsóttan af boltabullum í samfélaginu. Samt skýt ég reglulega inn einni og einni fótboltaspurningu af skömmum mínum. Það gerir hrokkna hárið (þið skiljið sem lásuð bókina um Láka jarðálf).

Á dögunum samdi ég spurning sem var vitlaus. Það er að segja: svarið sem ég fiskaði eftir var rétt en upplýsingar í spurningunni voru rangar. Ég tók fram að Willum Þór Þórsson og Bjarni Benediktsson hefðu báðir leikið í efstu deild karla í knattpspyrnu, en bað liðin um að nefna þriðja manninn sem það hefði gert – sá hefði setið á þingi frá árinu 2007. Við þeirri spurning var aðeins eitt svar: Höskuldur Þórhallsson, sem raðaði inn mörkum fyrir KA í næstefstu deild og var í kjölfarið keyptur til Fram.

Höskuldur var ekki sá slakasti sem við fengum til liðs við okkur það sumarið. Hann var stór og sterkur, þótt ekki reyndist hann sama markamaskínan í efstu deildinni og nyrðra.

Feillinn er hins vegar sá að Höskuldur var ekki einn. Brynjar Níelsson er kunnur Valsari og þótti mikið efni í boltanum á sínum tíma. Ég vissi að hann átti unglingalandsleiki að baki en hafði lagt skóna á hilluna í kringum stúdentinn. Síðar lék hann með Fylki í neðri deildunum og vann titla í eldri flokki. Ég missti hins vegar af því að Brynjar byrjaði aftur með Valsmönnum sumarið 1982 og tók þátt í fimm leikjum. Fjölmiðlar eru þegar farnir að hía á mig útaf þessu.

Það sem er hins vegar öllu vandræðalegra fyrir mig, er sú staðreynd að fimmti þingmaðurinn á í reynslubankanum leiki í efstu deild karla. Nánar tiltekið sex mínútur í tveimur leikjum árið 2000, fáeinar til viðbótar nokkrum árum þar á undan og meira að segja varamennsku í bikarúrslitaleik. Og til að bíta höfuðið af skömminni var ég vitni að fimm af þessum mínútum.

Sumarið 2000 mættum við Framarar bjartsýnir til leiks. Okkur var spáð fjórða sæti, reyndar langt á eftir KR, ÍA og ÍBV – en við hefðum svo innilega sætt okkur við að vera bestir allra hinna.

Guðmundur Torfason var nýr þjálfari liðsins og nánast skipt um lið. Fjórtán leikmenn hurfu á braut (svo láta menn eins og flóttinn mikli í ár sé eitthvað einsdæmi!) Þar á meðal fór Höskuldur Þórhallsson í Gróttu. Í staðinn komu þrír fyrrum leikmenn aftur úr atvinnumennsku: Þorbjörn Atli, Kristófer Sigurgeirsson og Valur Fannar. Þá kom óvenjuskaplegur danskur framherji, að minnsta kosti ef horft er til þess hversu óheppnir Framarar höfðu verið við val á útlendingum fram til þessa. Þróttarar lögðu til tvo leikmenn: Fjalar Þorgeirsson sem yfirgaf okkur með fúkyrðum á miðju sumri og Ingvar Ólason sem átti eftir að reynast ástsæll og þrautseigur leikmaður Fram.

Þetta endaði allt í tárum og við björguðum okkur ekki frá falli fyrr en í lokaumferðinni. Ekkert nýtt svo sem í því. En í hraðmótinu í byrjun Íslandsmótsins gátum við ennþá látið okkur dreyma. Leikjaröðin var þó óheppileg: heimaleikir gegn KR og ÍBV í fyrstu og þriðju umferð. Þar á milli var erfiður útileikur gegn Grindavík.

Við ókum þrír saman til Grindavíkur í maílok: ég, Valur og Rabbi. Líklega höfum við Valur pínt Rabba til að keyra og fengið okkur bjór í bílnum. Sjálfur hef ég vafalítið boðið fram bílinn minn, vitandi að það yrði ekki þegið enda skrjóðarnir mínir sjaldnast fallnir til aksturs milli kjördæma.

Ég nenni ekki að leita uppi veðrið þennan dag, þótt vafalítið megi finna það á netinu. Gef mér að það hafi verið strekkingsvindur.

Þorbjörn Atli var í byrjunarliðinu. Nema hvað, maðurinn heitir í höfuðið á fjallinu sem gnæfir yfir Grindavík! Hann var hins vegar ekki heill. Var það ekki allt sumarið og varð því ekki markakóngurinn sem við veðjuðum á. Hann byrjaði samt af krafti. Við áttum nokkrar fínar sóknir í blábyrjun og virtumst ætla að sauma að heimamönnum – einkum þar sem helvítið hann Sinisa Kekic var ekki með. Kekic virtist alltaf vinna okkur, hvort sem hann lék í vörn eða sókn. Ég hef ekki hatast jafnmikið við og dást jafnmikið að nokkrum útlendingi í íslenska boltanum.

En þótt Kekic væri fjarri góðu gamni, var Paul McShane með. Og hann afgreiddi okkur. Eftir þokkalegar sóknir í upphafi náði McShane skyndisókn og skoraði eftir rúmar tuttugu mínútur. Eftir það eltum við og reyndum að sækja, en Grindvíkingarnir lágu til baka og þurftu ekki mikið að hafa fyrir hlutunum. Á lokamínútunum þegar allt var komið í óefni bættu þeir við marki og svo því þriðja í uppbótartíma. Fyrra markið var úr víti. Ólafur Örn Bjarnason, sem átti síðar eftir að reynast okkur Frömurum drjúgur, tók vítaspyrnuna. Hver fiskaði? Auðvitað Paul McShane.

Á 86. mínútu skoraði Paul McShane sitt annað mark, fullkomnaði niðurlægingu okkar Framara og virtist einhvern veginn kippa teppinu undan fótum tímabilsins strax í byrjun. Um leið og boltinn lá í netinu stökk Jankovic þjálfari til og gerði tvölfalda skiptingu. Annars vegar til að gefa áhorfendum kost á að klappa skapbráða Skotanum lof í lófa – en hins vegar til að koma (mis)ungum leikmönnum á skrá yfir efstudeildarmenn.

Annar þeirra var þrjátíu og átta ára leikmaður, Páll Valur Björnsson, núverandi þingmaður Bjartrar framtíðar.

(Mörk Grindavíkur: Paul McShane 2, Ólafur Örn Bjarnason)

* * *

(16.des. Örlítið leiðrétt eftir ábendingu)