Fótboltasaga mín 85/100: Pungsparkið

18. september 1991. KR 0 : Torino 2

Kennedy-móment karlmanna af minni kynslóð var þegar Búlgarinn Trifon Ivanov varði þrumuskot eins þýska leikmannsins í fjórðungsúrslitunum á HM 1994 með pungnum. Það small í og Berti Vogts spurði í forundran: „Hvað brast þar svo hátt?“ – „Heimsmeistaratitillinn úr hendi þér, stjóri“, svaraði einhver á bekknum.

Meðan sá ófrýnilegi Ivanov engdist á vellinum, þjáðist heimsbyggðin með honum. Þannig er það alltaf á fótboltaleikjum þegar knötturinn syngur í slátri einhvers leikmannsins. Í eitt augnablik brýst mennskan út meðal áhorfenda sem fyllast samúð og flökurleikatilfinningu. Fáeinum sekúndum síðar bráir hún þó af stuðningsmönnum hins liðsins sem hlæja og skemmta sér.

Eitt eftirminnilegasta íslenska pungskotið var á Laugardalsvelli haustið 1991. Það var raunar eitt af fáu sem var minnisstætt við viðkomandi leik.

KR-ingar kepptu í Evrópukeppni félagsliða og andstæðingarnir voru ekki af verri endanum: Torino frá Ítalíu. Ég mætti á leikinn. Torino hefur verið mitt lið á Ítalíu, væntanlega frá því að maður las um gullaldarliðið sem fórst í flugslysinu á fimmta áratugnum og breytti varanlega valdahlutföllum á Ítalíu.

1991 var Ítalía líka flottasta knattspyrnulandið. Þar voru bestu leikmennirnir. Enski boltinn á RÚV var fínn til að horfa á sköllótta menn kljást í drullusvaði, en sunnudagsleikirnir frá Ítalíu á Stöð 2 var það sem horfa skyldi á til að sjá færni og snilli.

Þetta sama ár hafði Torino endað í fimmta sæti og komist í Evrópukeppni, meðal annars á kostnað Juventus. Það þótti Torino-mönnum ekki leiðinlegt.

Og liðið var hörkugott. Luca Fusi, gamli Napoli-maðurinn, var í aðalhlutverkinu á miðjunni ásamt Rafael Vázquez, Spánverjanum sem komið hafði frá Real Madrid. Síðar átti Vázques eftir að ganga til liðs við Marseilles og svo aftur til Real Madrid. Á þessum árum var nálega óþekkt að spænskir leikmenn spiluðu utan heimalandsins.

Frammi var Giorgio Bresciani, rétt rúmlega tvítugur strákur sem var meðal markahæstu manna veturinn 1990-91 og talinn gríðarlegt efni. Hann náði þó aldrei að endurtaka leikinn og varði tíunda áratugnum í flakk frá liði til liðs, þar sem hann spilaði 5-10 leiki á hverjum stað. Við hlið hans var Brasilíumaðurinn Walter Casagrande, sem fótboltanördið ég mundi eftir frá HM 1986, þar sem hann kom við sögu í öllum riðlakeppnisleikjunum. Það var leikmaður sem átti góðan lyfjafræðing.

Spenntastur var ég þó fyrir að sjá Enzo Scifo. Belginn snjalli var einn af mínum uppáhalds leikmönnum. Hann átti frábært tímabil og átti einna stærstan þátt í að Torino hafnaði í þriðja sæti næsta vor. En hann var því miður ekki í liðinu á Laugardalsvelli vegna meiðsla.

Stjörnuliðið frá Torino ætlaði greinilega ekki að eyða meiri orku í leikinn gegn þeim röndóttu en nauðsyn krefði. Ítalirnir fóru aldrei upp úr öðrum gír, en þurftu svo sem ekki að gera neitt meira. Casagrande lagði upp mark fyrir bakvörðinn Roberto Mussi eftir tuttugu mínútur. Þegar kortér var eftir gulltryggði Enrico Annoni sigurinn 0:2. Torinomenn hefðu svo sem getað skorað 1-2 mörk í viðbót, en sáu ekki tilganginn.

Mörkin voru ekki hápunktur leiksins, sem fyrr sagði. Það var atvikið í fyrri hálfleiknum þegar varnarjaxlinn Sigurður Björgvinsson stökk fyrir sendingu eins Ítalans og varði hana… með pungnum. Það mátti heyra andvarp í stúkunni frá þúsund munnum. Boltinn hélst inná og á einhvern ofurmannlegan hátt tókst Sigurði að finna orku og þrek til að teygja sig eftir honum og spyrna útaf áður en sá ítalski slyppi í gegn.

„Ætlar mannhelvítið ekki að leggjast í jörðina?“ – hugsuðu allir viðstaddir og hrylltu sig. Þessar fáeinu sekúndur sem liðu áður en boltinn fór útaf virtust óratími. En um leið og knötturinn var kominn úr leik steig Sigurður eitt eða tvö skref, rétti svo aðra höndina á loft og hneig til jarðar eins og hann hefði verið skotinn. Það fór drjúgur tími í að stumra yfir honum.

KR sá svo aldrei til sólar í seinni leiknum, þar sem heimamenn skoruðu fjögur mörk á átta mínútum og sex alls. Þetta var líka gott ár hjá Torino í UEFA-keppninni. Boavista, AEK Aþenu og B 1903 (sem síðar rann inn í FC København) voru öll meðal fórnarlamba liðsins, uns Real Madrid var rutt úr vegi í undanúrslitum. Í fyrri úrslitaleiknum skoraði Casagrande bæði mörkin gegn Ajax, en Hollendingarnir náðu þó jafntefli og unnu svo á súrasta mögulega hátt: á útivallarmörkum með því að ná markalausu jafntefli á heimavelli í seinni viðureigninni. Þá hefur leikmönnum Torino væntanlega liðið eins og eftir spark í punginn.

(Mörk Torino: Roberto Mussi, Enrico Annoni)

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *