Fótboltasaga mín 86/100: Orðhákurinn

8. janúar 2006. Luton 3 : Liverpool 5

Mike Newell myndi sóma sér vel sem söguhetja í tragískri skáldsögu. Hann er snjall knattspyrnustjóri, mögulega sá besti sem þjálfað hefur Luton frá því á níunda áratugnum, en skapgerðarbrestir og þvergirðingsháttur hefur gert það að verkum að honum hafa ekki boðist nein þjálfunarstörf frá 2009.

Hann var á mála hjá ungmennaliði Liverpool og þótt hann væri látinn fara þaðan aðeins sautján ára gamall, eignaðist hann marga vini á Anfield. Þannig var hann einn af líkmönnunum í útför Bob Paisleys og skilgreindi sig alltaf fyrst og fremst sem Liverpool-mann, meira að segja meðan hann var á mála hjá Everton (nokkuð sem var mjög í takt við hans karakter). Á löngum ferli spilaði Newell með gullaldarliði Blackburn á fyrri hluta tíunda áratugarins, með Leicester í tvö ár og í eitt og hálft ár með Luton, 1986-87, þar sem hann skoraði m.a. fræga þrennu á móti Liverpool.

Þjálfaraferillinn hófst hjá Hartlepool, þaðan sem Newell var nánast hrakinn með heykvíslum af óánægðum stuðningsmönnum. Skömmu síðar komst Luton í eigu Johns Gurney, glæpamanns og fábjána, sem rak vinsælt þjálfarateymi og réð Newell í staðinn á grunni símakosningar sem nær örugglega var rigguð. Newell var líklega eini alvöru þjálfarinn sem vildi koma nálægt Gurney, sem stýrði félaginu í greiðslustöðvun á mettíma. Newell hélt hins vegar djobbinu og vann stuðningsmennina hægt og bítandi á sitt band.

Illu heilli kom hann sér reglulega í blöðin með hvatvíslegum ummælum. Þannig varð hann búri ársins þegar hann lýsti því yfir að konur ættu ekki að fá að vera línuverðir. Þegar hann var beðinn um að útskýra mál sitt, sagðist hann vera karlremba og stoltur af því. – Annar og alvarlegri skandall sem tengdist Newell var þegar hann ljóstraði upp um ólöglegar greiðslur til umboðsmanna undir borðið. Með því taldi hann sig vera að fletta ofan af meinsemd í knattspyrnuheiminum og ýta á eftir því að Breska knattspyrnusambandið kæmi skikk á málin. Afleiðingin varð sú að knattspyrnusambandið gaf umboðsmönnunum áminningu til málamynda en refsaði Luton. Í kjölfarið fóru svo flestir umboðsmenn að sniðganga Luton meðan það var undir stjórn Newells.

Stærsta stund Newells sem knattspyrnustjóra var væntanlega á móti Liverpool í þriðju umferð bikarkeppninnar árið 2006.

Evrópumeistararnir komu í heimsókn á Kenilworth Road í augljósum sjónvarpsleik. Sjálfur mætti ég á Ölver og sat til borðs með Framaranum og Púlaranum Steingrími Sævarri Ólafssyni. Þar ræddum við um Framliðið og pólitíkina og biðum eftir leiknum. Salurinn var fullur af Liverpoolmönnum sem bjuggu sig undir þægilegan sigur.

Liverpool tefldi fram nokkurn veginn besta liði, með þeirri undantekningu þó að Scott Carson var í markinu. Benitez hefur væntanlega búist við varnarsinnuðu Luton-liði sem pakka myndi í vörn og treysta á skyndisóknir eða föst leikatriði með turninn Steve Howard einan frammi. Það reyndist misskilningur.

Mike Newell skrifaði skringilega og þruglkennda hugvekju í leikskránna um að stífur varnarleikur væri svik við íþróttina og lofaði að blása til sóknar. Hann stóð við það. Luton pressaði stíft og sótti á mörgum mönnum frá fyrstu mínútu. Carson hafði nóg að gera og það stemningin á Ölveri fór að verða skrítin.

Eftir kortér virtist þó sem leikaðferð Newells ætlaði að koma honum í koll. Gerrard kom gestunum yfir og rauðklæddir töldu að björninn væri unnin. Ég varð hnugginn og félagi Steingrímur reyndi að stappa í mig stálinu.

En Newell hélt sínu striki. Luton hélt áfram að pressa og eftir hálftíma opnaði Steve Robinson rangstöðuvörn Liverpool upp á gátt (eins og hann virtist gera að vild allan leikinn) og Howard lék sér að markverðinum og jafnaði leikinn. Ég stökk á fætur, öskraði og sló hnefunum út í loftið. Umhverfis mig brostu Liverpool-menn yfir þessum barnalegu gleðilátum. Í hinum enda salarins heyrðis einn annar maður klappa og hrópa.

Rétt fyrir leikhlé skoraði Robinson svo sjálfur og breytti stöðunni í 2:1. Aftur spratt ég á fætur og fagnaði tryllingslega. Gaurinn hinu megin hrópaði líka. Augnaráðið frá mönnunum í rauðu treyjunum var ekki alveg eins vingjarnlegt í þetta skiptið, en þeir gátu þó fúslega viðurkennt að forystan væri sanngjörn.

Eftir hlé hélt djöfulgangurinn áfram. Liverpool fékk víti, en Beresford í markinu hjá okkur varði auðveldlega slaka spyrnu frá Cissé. Newell rak sína menn framar á völlinn. Hann var ekkert hættur.

Rowan Vine slapp í gegnum Liverpool-vörnina og var kominn einn á móti Carson markverði sem braut á honum, að því er virtist rétt fyrir utan vítateig. Augljóst rautt spjald að því er virtist, en dómarinn ákvað að láta gult spjald duga en færa brotið þess í stað inn í vítateig! Howard skoraði úr vítinu. Dauðaþögn skall á í Ölveri.

Sagði ég dauðaþögn? Ónei, ekki alveg. Tveir menn hrópuðu upp yfir sig. Ég og gaurinn í hinum endanum – Stefán Sæbjörnsson Framari (Stebbi málari). Við hlupum hvor til annars, föðmuðumst og rákum upp stríðsöskur. Augljóst var af svipnum á mönnunum í kring að húmorinn fyrir okkur tveimur var alveg horfinn.

Líklega hefðum við verið lamdir nokkrum mínútum síðar ef Steve Finnan hefði ekki varið skalla frá Howard á marklínu.

Newell stóð enn á hliðarlínunni og sagði sínum mönnum að sækja. En orkan var senn á þrotum. Liverpool-leikmennirnir náðu fljótlega vopnum sínum og ferskir fætur komu inná af bekknum. Sinama Pongolle minnkaði muninn fimm mínútum eftir að hafa komið inn fyrir Sissoko.

Xabi Alonso jafnaði metin þegar tuttugu mínútur voru eftir og Pongolle kom gestunum yfir fimm mínútum síðar. Skyndilega urðu gestirnir á Ölveri öllu drýgindalegri. Þegar komið var fram í uppbótartíma settu Luton-menn allt í sóknina og Beresford fór fram í einu horninu, Liverpool vann boltann og Alonso skoraði í tómt markið frá eigin vallarhelmingi. Melurinn!

En jæja, við Stebbi málari vorum þó ekki lamdir.

(Mörk Luton: Steve Howard 2, Steve Robinson. Mörk Liverpool: Steven Gerrard, Sinama Pongolle 2, Xabi Alonso 2)

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *