27. ágúst 2013. Fram 3 : Stjarnan 3 (6:4 eftir vítakeppni)
Framarar eru góðir í undanúrslitaleikjum. Frá því að bikarkeppni KSÍ var komið á legg árið 1960 hefur Fram aðeins einu sinni tapað í undanúrslitum en átján sinnum farið með sigur af hólmi. Það er mögnuð tölfræði. Þetta væri þeim mun ánægjulegra ef ekki kæmi til tilhneiging Framara, einkum í seinni tíð til að tapa bikarúrslitaleikjunum sjálfum.
Fram varð bikarmeistari 1989 er tapaði svo fyrir KR, Fylki, Val og Breiðabliki í fjórum næstu úrslitaleikjum sínum. Úrslitaleiksdagar voru farnir að vera ansi þrúgandi, einkum þar sem við bættist tilhneiging karlaliðsins í handboltanum að tapa bikarúrslitaleikjum. Fram hefur einu sinni unnið bikarúrslitaleik karla í peysutogi en níu sinnum tapað, þar af fjórum sinnum frá aldamótum. Bömmer.
2013 komst Fram enn og aftur í úrslitaleik á Laugardalsvelli. Kringumstæðurnar voru þó ekki vænlegar. Þorvaldur Örlygsson hætti óvænt og fyrirvaralaust snemma móts. Ríkharður Daðason tók við keflinu og hélt liðinu á sömu slóðum 7.-8. sæti nánast allt mótið, þar til í lokaleikjunum að það seig örlítið neðar í töflunni. Stjarnan var hins vegar lið á uppleið og reynslunni ríkari eftir tap gegn KR í úrslitum árið áður.
Flestir veðjuðu á að Stjarnan ynni sinn fyrsta stóra titil og stuðningsmennirnir voru furðulega borubrattir. Á sama tíma var engin pressa á Framliðinu. Samt var maður furðubjartsýnn þann 17. ágúst.
Sú bjartsýni gufaði upp eftir örfáar mínútur þegar Stjarnan fékk billega vítaspyrnu. (Hver dæmir ódýrt víti eftir fimm mínútur í bikarúrslitaleik?) Viktor Bjarki var vissulega klunni í brotinu, en það var líklega fyrir utan teig. Eftir kortér negldi Hólmbert í slá og Jordan Halsman fylgdi á eftir með skalla. Boltinn virtist augljóslega fara inn fyrir línuna, en Kristinn Jakobsson og félagar sáu það ekki.
Undir lok hálfleiksins tóku Stjörnumenn öll völd. Veigar Páll kom þeim í 2:0 og litlu mátti muna að staðan væri 3:0 þegar flautað var til leiksloka, en sambland af röngum ákvörðunum Stjörnumanna og afbragðsvarnarleikur Ólafs Arnar Bjarnasonar öftruðu því.
2:0 undir í hálfleik var svo sem alveg nógu slæmt og stemningin gallsúr undir stúkunni í hléi. Við Framarar eyddum orkunni í að tuða yfir Kristni Jakossyni, harma vítið og gráta markið sem við vorum rændir. Stjörnumenn voru drýgindalegri og bjuggu sig undir 4-5 marka sigur.
Eftir innan við tíu mínútur af seinni hálfleik opnaðist leikurinn á ný. Almarr sprengdi upp Stjörnuvörnina sendi á Hólmbert, sem lét verja hjá sér en fylgdi svo eftir í frákastinu, 2:1 og skyndilega fóru Garðbæingar að ókyrrast.
Eftir markið opnaðist leikurinn og bæði lið sköpuðu sér færi. Aron Bjarnason, sautján eða átján ára gamall, kom inná og byrjaði strax að reyna að sóla sig í gegnum Stjörnuvörnina. Aron varð strax eftirlæti stuðningsmanna.
Þegar 25 mínútur voru eftir jafnaði Almarr með skalla eftir sending frá Halsman. Skotinn litli átti sinn langbesta leik í bláa búningnum. Hann reyndi árangurslaust fyrir sér með Blikum sumarið eftir, en er núna á mála hjá Cowdenbeath í Skotlandi. Vonandi gengur það vel.
Jöfnunarmarkið virtist hafa tekið alla orku Framara, því Stjarnan sótti stíft á eftir og komst fljótlega í 3:2. Í annað sinn í leiknum féll mér allur ketill í eld.
Stjarnan reyndi að drepa leikinn og Framarar komust lítið áleiðis. Ríkharður skipti í þriggja manna vörn og sendi Daða Guðmundsson inná. Ekki var þó gott að segja hvort um taktíska skiptingu var að ræða eða byggða á nauðsyn, þar sem Ólafur Örn var gjörsamlega úrvinda. Það er raunar sjálfstætt rannsóknarefni hversu mikið hann gat leikið þetta sumar með skrokkinn lemstraðan.
Þegar allt virtist búið tók Samuel Hewson aukaspyrnu af löngu færi, lyfti fyrir markið þar sem Hólmbert fékk að stökkva einn upp og skalla fyrir Almarr sem jafnaði. Ó, hvað við hlógum! Skyndilega varð ég sannfærður um að Fram yrði bikarmeistari. Kristinn Jakobsson hefði auðveldlega getað stytt biðina eftir því óumflyjanlega með því að dæma víti í uppbótartíma þegar Hólmberti var hrint, en gerði ekki.
Í framlengingunni voru bæði lið örmagna. Framvörnin virkaði brothætt og Orri Gunnarsson allt í einu kominn í miðvörðinn, væntanlega í fyrsta sinn á ferlinum. Það fór því ónotatilfinning um áhorfendur Frammegin þegar Tryggvi Bjarnason kom inná undir lokin, að því er virtist til að gnæfa yfir alla aðra í framlínunni. Mikið var því gott að sjá hann skokka aftur í vörnina. Ríkharður 1 : Logi Ólafsson 0.
Vítakeppnin hófst. Bæði lið skoruðu úr fyrstu spyrnu (Hólmbert og Ólafur Finsen). Hewson kom okkur í 2:1 en annað árið í röð þrumaði Garðar Jóhannsson í þverslá. Falleg hefð!
Halsman skoraði 3:1 og í næstu spyrnu varði Ögmundur frá Halldóri Orra Björnssyni! Löwing hefði getað verið óvænt hetja, en Ingvar Jónsson varði lélega spyrnu hans auðveldlega. En það kom ekki að sök. Ömmi varði næsta víti og Fram fagnaði fyrsta stóra titlinum í 23 ár! Ef marka má ljósmyndir skemmti ég mér vel í Framheimilinu um kvöldið.
(Mörk Fram: Hólmbert Aron Friðjónsson, Almarr Ormarsson 2. Mörk Stjörnunnar: Halldór Orri Björnsson 2, Veigar Páll Gunnarsson)