Ágúst 1983. Knattspyrnufélagið Skörungur : Knattspyrnufélag Tómasarhaga (úrslit óljós)
Lengi hélt ég að aðalbókasafn Borgarbókasafnsins hefði að geyma nálega allar bækur sem út hefðu komið á íslensku. Hinn þekkti og aðgengilegi ritaði menningarheimur var samkvæmt því varðveittur í barnabókaherberginu á annarri hæð og því fjarri því óraunhæft markmið að komast yfir hann allan.
Sérstaklega átti þetta við um allar þær bækur sem fjölluðu um fótbolta. Það var sagan um Tómas miðframherja, sænsku þjóðfélagslega meðvituðu sögurnar um knattspyrnuliðið Hæðagerði, ensku þjóðfélagslega ómeðvituðu sögurnar um knattspyrnuliðið United í skringilegum smábrotsbókum, ævisögur Eusebio, Pele, Glenn Hoddles, Ásgeirs Sigurvinssonar, Alberts Guðmundssonar, sögu Liverpool, Tottenham, West Ham, Manchester United, bækurnar tvær um HM 1982 og sú skrítna um HM 1970 sem þýdd var úr þýsku. Lokakaflinn úr Við í vesturbænum eftir Leo Löve féll líka undir þessa skilgreiningu.
Uppáhaldið var samt hundgömul strákabók sem þýdd var úr ensku: Ellefu strákar og einn knöttur. Hún sagði frá fótboltaóðum drengjum sem stofnuðu félagið Sköflung (því það væri harðasta bein mannslíkamans) og unnu fræga sigra.
Innblásinn af þessum sögum þráði ég að stofna fótboltalið. Alvöru lið sem uppfyllti öll skilyrði þess að komast í mótaskrá KSÍ: nafn, heimavöllur, aðalbúningur, varabúningur, stofnár, stjórn og formaður dómaranefndar.
Við krakkarnir í kennarablokkinni á Hjarðarhaganum vorum alltaf að stofna félög um allan fjandann, sem flest voru gleymd á viku. Fótboltafélagið mitt átti hins vegar að lifa og þá yrði upprunasagan að vera á hreinu. Þess vegna tók ég niður minnispunkta.
Samkvæmt minnisblöðunum stofnaði ég félagið við annan mann í stúkunni á Melavelli snemma sumars 1983, átta ára gamall. Næstu dagana fékk ég aðra stráka úr blokkinni til að ganga til liðs við félagið. Það var kannski ekki fullkomlega auðsótt, þar sem ég gerði kröfu um stofnframlag í félagssjóð. Nákvæmlega hvers vegna ég taldi þörf á félagssjóði er óljóst, en strákaliðin í bókunum voru alltaf að basla við að safna peningum til að kaupa bolta eða búninga, svo þetta tilheyrði greinilega.
Nokkrum dögum síðar fékk félagið nafnið Skörungur – sem hljómar grunsamlega líkt Sköflungsnafninu úr Ellefu strákum og einum knetti, en var væntanlega einnig undir áhrifum frá Emil í Kattholti, þar sem eldskörungar eru oft í veigamiklu hlutverki.
Skörungur fékk liðsbúning: gula Puma-treyju með bláu hálsmáli og rönd á ermum. Þetta var reyndar KA-treyja, en Sigtryggur vinur minn átti svona treyju og ég gat skælt aðra slíka út. Þá voru tveir komnir í eins búning, sem var ágætis byrjun.
Næstu vikurnar bætti ég inn sundurlausum athugasemdum um fjölgun eða fækkun liðsmanna og nákvæma stöðu sjóðsins. Utanumhald félagsskrár og fjármála virtist mun veigameira atriði í starfseminni en beinar æfingar.
Seint í ágúst dró til tíðinda. Eldri krakkarnir í blokkinni, sem sjaldan gáfu sig að fótbolta fóru að sparka sín á milli á lóð blokkarinnar. Þau áttu vini á Tómasarhaganum og ákveðið var að blása til kappleiks: Kennarablokkinn gegn liðinu af Tómasarhaganum. Mér tókst að sannfæra mitt fólk um að miklu betra væri að mæta til leiks undir merkjum Skörungs.
Þetta varð hörð rimma á alltof þröngum velli meðfram norðurhlið blokkarinnar. Yngstu keppendurnir voru 7-8 ára og höfðu helst þann tilgang að þvælast fyrir. Atkvæðameiri leikmennirnir voru 11-12 ára og með ólíkt meiri reynslu af fótbolta. Minnispunktarnir mínir eru furðufámálir um úrslit þessa fyrsta og eina leiks Skörungs. Líklega unnu óbermin af Tómasarhaganum. Sjálfur fékk ég högg á hausinn snemma leiks og hafði mig lítið í frammi eftir það. Treyjuna átti ég í mörg ár en ekki hef ég hugmynd um hvað varð um félagssjóðinn.
(Markaskorar óþekktir)