Fótboltasaga mín 93/100: Guð

16. september 2006. Fram 1 : HK 0

Árið 2013 fór jarðskjálftabylgja um bókmenntaheiminn þegar fréttist af óbirtum sögum eftir J. D. Salinger, þar á meðal smásögu sem væri rekti aðdraganda Bjargvættsins í grasinu. Sögurnar birtust á skrárskiptasíðum á netinu og allir urðu óskaplega spenntir, en samt einhvern veginn vissir um að þetta yrði alltaf antiklímax… dáldið eins og fá aftur nammið sem manni þótti svo gott í æsku.

Íslenskur fótbolti átti sitt J. D. Salinger-móment fáeinum misserum fyrr. Og svo ég sé alveg heiðarlegur, varð ég miklu spenntari fyrir því (þó vissulega á kvíðafullan hátt) en einhverri forsögu vælukjóans Holdens Caulfields. Þetta var endurkoma Arnljóts.

Þær gerast varla meiri fótboltaklisjurnar en velta því fyrir sér hvort þessi eða hinn leikmaðurinn hefði getað orðið sá besti. En það átti svo sannarlega við um Arnljót Davíðsson. Þegar Framarar gerast nostalgískir og rifja upp gullöldina um miðjan níunda áratuginn fara nöfnin að fljúga: Ormslev, Gummarnir… Birkir og Friðrik í markinu… Kiddi Err á miðjunni, já og Pétur Arnþórs – það var nú meiri naglinn! Ómar Torfa, Ormarr, Jón Sveinsson að sóla alla í eigin vítateig! – Og svo er það Arnljótur.

Arnljótur var einn af þessum leikmönnum sem var orðinn frægur um fermingu. Það eru nokkur dæmi um þetta í fótboltasögunni: strákar á grunnskólaaldri sem voru frægir langt út fyrir raðir síns félags. Siggi Jóns var þannig leikmaður. Andri Sigþórs og Gummi Ben líka. Og auðvitað Eiður Smári.

Mig minnir að það sé mynd af Arnljóti í Íslenskri knattspyrnu 1981. Þá var hann þrettán ára og hafði skorað skrilljón mörk á móti einhverjum slátrunarlömbunum í yngriflokkaleik eða unglingalandsleik. Íslandsmeistarasumarið okkar 1986 kom hann við sögu í ellefu leikjum af átján, átján ára gamall. Geiri El notaði hann sem varamann á sama hátt og hann notaði yfirleitt ungu strákana sína: skipti öðrum inná þegar tuttugu mínútur voru eftir og hinum í blálokinn. (Geiri skildi aldrei neitt í þessari vitleysu að bæta við þriðja varamanninum.)

Árið eftir var Arnljótur notaður á sama hátt og komst enn ekki á markaskoraralistann. Meistaraárið 1988 var hann hins vegar aðalmaður og skoraði sex sinnum í sautján leikjum. Framtíðin var björt og Arnljótur myndi skora sjittlóds af mörkum næstu misserin áður en hann hæfi óhjákvæmilegan atvinnuferil í Evrópu og yrði jafnfrægur og Hófí og Jón Páll.

Nema hvað, eitthvað hrökk í baklás hjá okkar manni. Hann lenti í meiðslum sumarið 1989, en það sem verra var (frá sjónarhorni stuðningsmanna, ekki hans sjálfs), þá fann hann víst Guð. Hjá kaþólskum Suður-Ameríkubúum gengur upp að trúa bæði á fótbolta og drottinn allsherjar, en hjá okkur prótestöntunum í norðrinu hefur þessi samsetning aldrei virkað.

Frelsaður tók Arnljótur ekki þátt í nema átta leikjum og skoraði einu sinni sumarið 1990. Svo lá leiðin í ÍBV og Val. Hann var í ÍR-liðinu sem komst upp í úrvalsdeildina öllum að óvörum 1997 og lék hálft tímabilið með þeim þar, þangað til Framarar (komnir í harða fallbaráttu) fengu hann aftur heim um mitt mót. Í lok tímabilsins 1998 lagði Arnljótur loks skóna á hilluna.

…þar til árgangamót Fram 2006 var haldið.

Árgangamót ganga út á að mynduð eru lið með keppendum úr einstökum árgöngum gamalla leikmanna. Þeir keppa á móti, detta í það um kvöldið og félagið fær pening í kassann. 1968-liðið fór á kostum og enginn var betri en Arnljótur. Og í partýinu á eftir kviknaði brjáluð hugmynd!

Addi Davíðs tók skóna niður úr hillunni og lék með Framliðinu það sem eftir lifði sumars. Fram var í næstefstu deild, með langlangbesta mannskapinn í deildinni og því ekki spurning um hvort heldur hvernig við færum upp.

Það væri gaman ef ég hefði getað látið pistilinn fjalla um bikarsigurinn á Haukum, þar sem Arnljótur skoraði fyrsta markið eftir endurkomuna eða 3:3 jafnteflið í Garðabænum þar sem hit mark sumarsins leit dagsins ljós, en ég sá hvorugan leikinn. Var fyrir austan þegar Stjörnuleikurinn var, en hef ekki hugmynd um hvers vegna ég komst ekki á Ásvelli á bikarinn.

Og þar sem reglur þessarar bloggraðar (ég veit, þetta er fáránlegt orð) krefjast þess að ég hafi horft á viðkomandi leik í eigin persónu eða í beinni útsendingu í sjónvarpi, þarf ég að velja lokaleikinn – kveðjuleik Arnljóts Davíðssonar.

Reyndar fínn leikur. Fram : HK á Laugardalsvellinum. Verið var að taka þjóðarleikvanginn í gegn þetta sumarið svo við sátum í litlu stúkunni við austurendann, sem var mun passlegra á fámennum leikjum næstefstudeildar. Fram var löngu komið upp og búið að tryggja sér titilinn. Maður mætti því bara af skyldurækni og gömlum vana. Helsta spennan var hvort Jónas Grani skoraði mark eða tvö og yrði næstmarkahæstur á eftir Helga Sig.

Hvorki Helgi né Jónas Grani skoruðu, heldur Ingvar Ólason í seinni hluta fyrri hálfleiks. Það var eina mark leiksins. HK-ingar voru hins vegar öllu stressaðri. Lið Gunnars Guðmundssonar var spútnik ársins og kæmist upp í efstu deild í fyrsta sinn, svo fremi að Fjölnir myndi ekki vinna KA á Akureyri með miklum mun (eða HK á sama hátt tapa mjög stórt).

Taugarnar voru þandar hjá Kópavogsbúum svo líklega hefði Fram getað skorað 2-3 í viðbót hefðu menn nennt því eða almennilega kunnað við það, en Fjölni tókst ekki að skora fyrir norðan og undir lokin skoraði Hreinn Hringsson fyrir gulklædda Akureyringa. HK-menn trylltust í stúkunni.

Þegar flautað var til leiksloka tók við kyndug uppákoma. Framararnir sem unnu leikinn, voru kátir og klöppuðu fyrir sínu fólki og sungu Sigga-sagga. En tapliðið ærðist á sama tíma. Gamlir menn felldu tár. Meðan fulltrúi KSÍ rétti Frömurunum bikarinn, voru gestirnir að tollera mann og annan með silfurverðlaunin um hálsin. Krúttlegt!

Og Arnljótur? Fékk hann heiðursskiptinguna í lokaleiknum? Nei, þetta var Geiri El að stjórna og hann tók ekki þátt í svona drama. En hann gaf þó Gesti Inga Harðarsyni sínar einu meistaraflokkssekúndur fyrir Fram undir lokin, þegar Daði Guðmunds var orðinn lúinn. Næsta sumar verður Gestur Ingi mögulega loksins úrvalsdeildarleikmaður með Leikni Reykjavík. Er hann J. D. Salinger sinnar kynslóðar?

(Mark Fram: Ingvar Ólason)