Fótboltasaga mín 94/100: Afmælisgjöfin

11. maí 1986. Fram 2 : Valur 1

Ég á litla minnisbók frá Fjölvís. Allir fundir sem ég þarf að mæta á þurfa að rata í hana, annars gleymi ég þeim, tvíbóka mig eða það sem verra er. Snemma á hverju ári fer ég inn á KSÍ-vefinn og skrifa niður alla leiktíma Framliðsins. Það minnkar líkurnar á að ég geri eitthvað heimskulegt, eins og að taka að mér launavinnu eða sinna ástvinum meðan það er deildarleikur.

Reyndar skrái ég líka niður alla Reykjavíkurmóts- og deildarbikarleiki. Ekki vegna þess að ég stefni að því að mæta á þá alla – en það er alltaf gott að hafa möguleikann.

Þetta gerði ég samviskusamlega fyrir ári síðan og á leikjalistanum var Meistarakeppni KSÍ, viðureign Íslandsmeistara og bikarmeistara fyrra árs: KR og Fram. Fyrsti meistarakeppnisleikur Framara frá 1991.

Ég var í makindum heima í tölvunni þegar ég rambaði inn á fótbolta.net og sá á skjánum tilkynningu um beina textalýsingu frá leiknum og að Kjartan Henry væri búinn að skora. Steinhissa greip ég í minnisbókina og fór svo inn á KSÍ-vefinn. Leiktímanum hafði verið breytt á síðustu stundu og fyrri hálfleikur að verða búinn. Ég kastaði kveðju á fjölskylduna og brunaði inn í Laugardal.

Þar sátu 300 hræður og horfðu á frekar tilþrifalítinn leik sem lauk með 2:0 sigri KR, þar sem Framarar hefðu raunar átt að ná að jafna 1:1. Yfirbragðið var eins og á riðlakeppnisleik í deildarbikarnum og að mönnum þætti í raun hálfgert vesen að þurfa að spila svona viku fyrir Íslandsmót með meiðslahættu og leikmenn sem kynnu ekki að meta gervigras. Svo var líka hálfkalt þótt sólin væri á lofti, svo lítil stemning var fyrir að bíða eftir verðlaunaafhendingu.

Fyrir nostalgískan son níunda áratugarins var þetta frekar ömurlegt sjónarspil. Ég mundi þá tíma þegar Meistarakeppni KSÍ var alvöru leikur og titillinn „Meistarar meistaranna hljómaði“ ekki jafn bjánalega og þegar MorfÍs-krakkarnir krýna „Ræðumann Íslands“.

Vorið 1986 fórum við afi saman á meistaraleikinn, sem um þær mundir var yfirleitt spilaður á Kópavogsvelli. Völlurinn var reyndar drullusvað og við mættum aðeins of seint því að gamli maðurinn (sem var reyndar bara 61 árs þarna) ætlaði að vera klókur og leggja í einhverri íbúðagötunni skammt frá. En þetta var auðvitað Kópavogur svo við villtumst út í ófærur.

Loks rötuðum við þó á réttan stað og höfðum svo sem ekki misst af miklu. Það voru nærri þúsund manns á vellinum og Valsmenn líklega nokkru fleiri, enda sérstakur hátíðisdagur hjá þeim: Valur fagnaði 75 ára afmæli þennan dag og hafði því sérstakan hvata til sigurs.

Þjálfararnir tefldu fram sínum sterkustu liðum. Örn Valdimarsson, Arnljótur Davíðs og Þórður Marelsson voru þó í byrjunarliði Framara en Gummi Torfa, Ormarr Örlygs og Kristinn Err á bekknum. Hjá Valsmönnum var Stefán Arnarson í markinu en Guðmundur Hreiðarsson á bekknum, en þeir börðust um markmannsstöðuna þetta sumarið.

Völlurinn var lélegur og Valsmennirnir frekar slappir. Framararnir áttu engan stjörnuleik heldur. Voru til að mynda miklu betri fáeinum dögum fyrr þegar liðið vann KR í úrslitum Reykjavíkurmótsins og Valsara í undanúrslitunum þar á undan. Fram var þó alltaf líklegra til að skora og hefði væntanlega gert það að lokum þótt farsakenndur varnarleikur og markvarsla hefðu ekki komið til.

Eftir um hálftíma leik ætlaði Guðni Bergsson að sparka í burtu aðvífandi knetti en hitti ekki. Allt í einu var Arnljótur Davíðsson kominn einn á móti Stefáni markverði og skoraði með fallegu skoti.

Niðurlæging Guðna var þó hjóm eitt miðað við klúðurganginn í seinna marki Framara. Snemma í seinni hálfleik var kom vonlaus sending inn á Gumma Steins sem var í gæslu tveggja Valsmanna og þess utan ekki með hávöxnustu mönnum. Svona eins og til að sýna lit náði Guðmundur þó að reka fram kollinn nokkuð fyrir utan vítateig í átt til Stefáns í markinu. Boltinn skoppaði hægt eftir vellinum svo Guðmundur náði að snúa sér við og var að skokka til baka þegar hann heyrði furðublandin fagnaðaróp félaga sinna: nafni minn hafði líklega eytt of mikilli orku í að velta því fyrir sér hvert ætti að senda boltann og missti hann í gegnum klofið og þaðan í markið. Aumingja séra Friðrik!

Guðni Bergsson náði að laga stöðuna með góðu skoti undir lokin, en sigurinn var aldrei í hættu. Framarar fögnuðu nafnbótinni, þótt væntanlega hafi tíu ára gömlu stuðningsmennirnir verið hrifnæmari en þeir eldri og harðnaðri. Vissulega eilítið svekkjandi að bæði mörkin hafi verið hálfgerð skítamörk, einkum þar sem Gauti Laxdal og Steinn Guðjónsson áttu báðir miklu flottari þrumuskot í stöng og þverslá. En Valsmenn gengu ekki hlæjandi til sængur á afmælisdaginn og það var jú fyrir öllu.

(Mörk Fram: Arnljótur Davíðsson, Guðmundur Steinsson. Mark Vals: Guðni Bergsson)