Fótboltasaga mín 95/100: Silfrið

9. apríl 1989. Luton 1 : Nottingham Forest 3

Áður en ég las bókina Damned United, um Brian Clough og þá sérstaklega ævintýralegar vikur hans í stjórasætinu hjá Leeds, átti ég alltaf erfitt með að skilja dálæti enskra fótboltaáhugamanna á Brian Clough. Hann virkaði á mig eins og hálfgerð bulla sem mönnum þærri sjarmerandi af því að þeir gætu speglað sjálfa sig í honum, búralega klæddri fyllibyttu sem segði hlutina umbúðalaust. Eins konar svar enska boltans við „stjórnmálamönnum að vestan“. Tilvitnanirnar í karlinn sem víða mátti lesa voru sumar svo sem hnyttnar, en fjarri því jafn hillaríös og margir vildu vera láta

Damned United varð til þess að ég tók Clough að nokkru leyti í sátt. Fattaði í það minnsta að hann væri talsvert flóknari persóna er skrípamyndin Harry Redknapp svo dæmi sé tekið.

Vorið 1989 fannst mér Brian Clough hins vegar ennþá vera ofmetinn vitleysingur. Evrópumeistaratitlar 1979 og 80 hefðu mín vegna eins getað verið á nítjándu öld. Og ég var svo sem vanur því að Nottingham Forest væri gott efstu deildar lið og skildi ekki afrekið sem maðurinn vann fáeinum árum fyrr.

Nottingham Forest-menn voru sjálfir í þynnku eftir gullmisserin í lok áttunda áratugarins. Það var ekki endalaust hægt að rifa upp sigrana á Hamborg og Malmö. Þú vilt alltaf fá eitt fix í viðbót.

Það var því glorhungrað lið Nottingham Forest sem mætti Luton í úrslitum deildarbikarsins vorið 1989. (Og um vorið, vel að merkja! Úrslitin voru í apríl en ekki í marsbyrjun eins í seinni tíð.) Luton var á hinn bóginn búið að svala mesta titlaþorstanum með frægum sigri á Arsenal í sömu keppni árið áður, eins og áður hefur verið rakið á þessum vettvangi. Sjálfur var ég meira að segja ótrúlega afslappaður fyrir leiknum – fannst þetta orðið sjálfsagður hlutur að sjá mína menn í sjónvarpinu spila á Wembley.

Ég var líka frekar sigurviss, sem kann að virðast skrítið í ljósi þess að Luton var í fallbaráttu en Forest lauk keppni í þriða sæti, reyndar langt á eftir toppliðunum. En á góðum degi var Luton-liðið bara fjári gott og ég var rígmontinn af því að fyrr á tímabilinu vann Luton stærsta sigur leikársins, 6:1 gegn Southampton. „Six past Shilton“ er enn sungið á góðum dögum á Kenilworth Road.

Bjartsýnin virtist ekki tilefnislaus. Þegar Mick Harford kom okkur yfir með skallamarki (hvað annað?) í fyrri hálfleik, var maður svekktastur að munurinn væri ekki meiri þar sem Ricky Hill hafði komist einn á móti markmanni skömmu áður eftir æðislega sending frá Kingsley Black. (Ó, hvað hann var góður leikmaður!) Og hver átti sendinguna á Harford í markinu? Auðvitað Danny Wilson, spyrjið ekki svona kjánalega!

Snemma í seinni hálfleik átti Danny Wilson aðra sendingu inn í teiginn í átt til Harfords. Sendingin var léleg og fór beint á Terry Wilson. Miðvörðurinn hrasaði hins vegar og allt í einu var Harford kominn í opið marktækifæri, en átti greinilega ekki von á þessum fáránlegu mistökum og tókst ekki að skora. Þarna hefðum við getað klárað leikinn.

Steve Hodge fékk víti eftir að Les Sealey braut á honum, að því er virtist að nauðsynjalausu þar sem boltinn var á leiðinni útaf). Nigel Clough jafnaði úr vítaspyrnunni og þar með var loftið farið úr blöðrunni. Neil Webb fór illa með rangstöðuvörn Luton og skoraði 2:1 og Clough innsiglaði sigurinn með því að skjóta milli fóta Steve Fosters (mannsins með ennisbandið) og í bláhornið.

Forest hampaði titlinum og Clough dansaði stríðsdans, meðan snyrtimennið og Luton-stjórinn Ray Harford (engin ættartengsl) stóð prúður hjá. Harford gerði síðar góða hluti sem aðstoðarstjóri hjá Blackburn en stóð ekki undir því að vera einn í stjórasætinu á þeim bænum.

Gömlu Luton-stuðningsmennirnir voru sérstaklega hnuggnir yfir úrslitunum í ljósi þess að það voru líka helvítin í Forest sem unnu okkur í bikarúrslitunum 1959, í eina FA Cup-úrslitaleik Luton í sögunni. Í það skiptið hafði Luton verið sigurstranglegra með Syd Owen sem fyrirliða, enskan landsliðsmann sem var valinn leikmaður ársins 1958-59.

Þeir yngri jöfnuðu sig fljótt. Jújú, auðvitað hefði verið voðalega gaman að vinna helvítið hann Clough og enn skemmtilegra að pönkast á Watford-mönnum með tvo deildarbikarmeistaratitla að baki en einn… en við hefðum samt aldrei fyllst sömu nostalgíu yfir þessum titli og Arsenal-leiknum árið áður. Hann verður alltaf númer eitt.

(Mark Luton: Mick Harford. Mörk Nottingham Forest: Nigel Clough 2, Neil Webb)