Fótboltasaga mín 96/100: Kvikmyndastjörnurnar

25. ágúst 1990. Þróttur 3 : ÍK 1

Pabbi er gamall Þróttari. Lykilorðið í þessari setningu er „gamall“, því hann æfði og spilaði með Þrótti sem smápatti þegar hann bjó á Lynghaganum og Þróttur var ennþá á Grímsstaðaholtinu.

Þetta fannst mér gríðarlega merkilegt og spurði ítrekað út í fótboltaferilinn. Þær sögur voru flestar á einn veg: hvað Þróttararnir hefðu verið kjöldregnir í hverjum leik, liðið ekki verið fullskipað eða þjálfarinn dottið í það og gleymt að mæta með búningana. Samkvæmt einni sögunni léku þeir við Val eða KR á móti sterkum vindi og voru 5:0 undir í hálfleik, en sáu fram á betri tíð í seinni hálfleik. Í leikhlénu datt á dúnalogn og Þróttur tapaði 10:0.

Ég efast um að pabbi hafi mætt á fótboltaleik frá fermingu og langt fram á fullorðinsár. Og eftir að famelían flutti í Frostaskjólið gerðist hann KR-ingur. Það tók ég aldrei gilt. Í mínum huga var ekkert hægt að skipta um lið, pabbi hefði valið Þrótt um 1960 (eða Þróttur valið hann, eftir því hvernig á það er litið) og undan því yrði ekkert komist. Þess vegna var ég reglulega að stinga upp á því að við skelltum okkur saman á Þróttarleik.

Loksins skapaðist hentugt tækifæri eina ágústhelgina 1990. Bikarúrslitin fóru fram á sunnudegi, svo ekki var spilað í efstu deild þessa helgi. Þróttarar voru hins vegar á nýja heimavellinum sínum við Sæviðarsund og gátu komist upp í næstefstu deild á ný, eftir tveggja ára eyðimerkurgöngu í gömlu þriðjudeildinni.

Árið áður höfðu Þróttararnir talið sig áskrifendur að toppsætinu, en mátt hafa sig alla við að detta ekki niður í fjórðudeild, þar sem ákveðið hafði verið að steypa SV- og NA-riðlunum saman í eina deild og lið þurfu að ná fjórða sæti til að hanga uppi.

1989 voru það Grindavík og ÍK sem slógust um að fara upp og Grindvíkingar höfðu betur. Framhald þeirrar sögu ættu flestir að þekkja.

Þetta voru árin þar sem ÍK menn voru ítrekað hársbreidd frá því að komast í hóp þeirra næstbestu. 1990 bitust ÍK og Haukar um annað sætið í deildinni á eftir Þrótturum sem voru langsterkastir, enda með miklu öflugari hóp en hin liðin.

Það var fjölmennt á vellinum. Þetta var nefnilega fyrir þá tíma þegar íslenskir áhorfendur hættu að mæta á leiki hér heima um leið og enski boltinn byrjaði. Þróttarar voru í hátíðarskapi en Kópavogsbúar stressaðri, enda með jafn mörg stig og Haukar fyrir umferðina. Hafnfirðingarnir áttu léttar viðureignir fyrir höndum svo möguleikar ÍK fólust í sigri og að komast framúr Haukum á markatölu frekar en að veðja á að Gaflararnir myndu misstíga sig.

Ég vissi ekki alveg hvað mér ætti að finnast. Að nafninu til hafði ég dregið pabba hálfnauðugan á völlinn undir því yfirskyni að styðja Þróttara upp um deild. En á sama tíma vildi ég miklu frekar að litla krúttlega Kópavogsliðið færi upp en Haukar, þó ekki væri nema vegna þess að Haukarnir hefðu jú spilað þarna uppi en ÍK aldrei. (Og svo hef ég ekki enn fundið þann fótboltaáhugamann sem ekki fannst ÍK-treyjan töff.) Þróttararnir máttu alveg við því að tapa, því útilokað var annað en þeir myndu landa stigum gegn Ísfirðingum og arfaslöku liði TBA frá Akureyri.

En þessar vangaveltur voru óþarfar. Herra Þróttur, Sigurður Hallvarðsson heitinn, skoraði fyrsta markið snemma leiks með góðu skoti. Sigurður naut virðingar allra fyrir að spila með sínum mönnum í neðri deildum, þrátt fyrir ítrekuð boð um að ganga til lið við ýmis efstudeildarfélög.

ÍK átti aldrei raunhæfa möguleika á að komast aftur inn í leikinn, hvað þá eftir að Haukur Magnússon skallaði í netið skömmu síðar, 2:0. Í seinni hálfleik skoraði Sigurður Hallvarðsson aftur. Ekkert óvænt við það. Hann setti sautján mörk í jafn mörgum leikjum í deildinni þetta sumar.

Á lokamínútunum minnkaði ÍK muninn, en það skipti engu. Þróttarar kysstust, föðmuðust og tolleruðu lykilmenn á meðan Kópavogsbúar gengu hnípnir af velli, vitandi að draumurinn væri úti… þótt vafalítið hafi þá ekki grunað að endalok sjálfs félagsins nálguðust.

Ég var hnugginn fyrir þeirra hönd. ÍK-liðið var líka fullt af kunnum köppum. Þannig kannaðist maður vel við markahrókinn Steindór Elísson, sem síðar átti eftir að spreyta sig í Frambúningnum og Eyjamanninn og fyrrum Framarann Ómar Jóhannsson þekkti ég líka. Í hópnum var líka Lúðvík Bergvinsson, rauðbirkni varnarjaxlinn sem er ekki jafn klókur á tölvur og Andrés Jónsson almannatengill, en hvort hann lék þennan leik man ég ekki.

Helgi Kolviðsson var ungur og efnilegur leikmaður í ÍK-liðinu, þótt líklega hafi fá grunað að hann yrði sú knattspyrnukempa að vera skrifaður inn í bíómynd (Íslenska drauminn). Og svo var líka Davíð Garðarsson í hópnum. Um hann mætti hæglega gera bíómynd líka.

Og talandi um bíómyndir. Vonandi klárar Auðun Georg fljótlega heimildarmyndina sem hann er með í smíðum um ÍK. Ég mun mæta á fyrstu sýningu, en skilja pabba eftir heima.

(Mörk Þróttar: Sigurður Hallvarðsson 2, Haukur Magnúss. Mark ÍK: Hörður Magnússon)