25. febrúar 2001. Hearts 7 : Dunfermline 1
Þegar við Palli frændi hittumst, berst talið oftast nær að Hearts. Sjálfur fylgist ég með því hvort Hearts vinnur eða tapar í deildinni og gef mér tíma í að horfa á einn og einn leik, einkum ef andstæðingarnir eru Hibs. Palli er hins vegar harðari og hefur yfirleitt á reiðum höndum upplýsingar um leikmannahópinn og ekki síður eignarhaldið, en mesti hasarinn í kringum Hearts síðustu árin hefur verið utanvallar.
Sjálfur á ég nokkurn þátt í þessum brennandi áhuga frænda. Þegar ég var í Edinborg skólaárið 2000 til 2001, höfðu þeir Palli og Stebbi Kalli (við erum bræðrasynir) samband. Þeir voru á leiðinni á Liverpool-leik og flugu að mig minnir í gegnum Glasgow. Leiktíminn og flugtímarnir voru þannig að þeir þurftu að drepa heilan dag og þá þótti henta að líta í heimsókn til mín. Ætli Steinunni móður þeirra hafi ekki líka hugnast betur að vita af bræðrunum 17 og 21 árs undir minni leiðsögn en einum á ókunnum borgarstrætum?
Þennan dag tók Hearts á móti Dunfermline, sem bjargaði okkur frá því að hanga á söfnum. Það var reyndar skítaveður í Edinborg. Þessi andstyggilegi febrúarnæðingur sem er einhvern veginn svo miklu kaldari en sambærilegt veður á Íslandi. Klukkutíma fyrir leik skall meira að segja á snjóbylur svo tvísýnt var hvort leikið yrði.
Hearts : Dunfermline hljómaði ekkert sérstaklega sexy, þótt Edinborgarliðið væri að leika nokkuð vel þennan veturinn. Viðureignin átti þó eftir að koma gleðilega á óvart.
Dunfermline var úti að skíta frá fyrstu mínútu. Stephane Adam, franski framherjinn, skoraði strax eftir fimm mínútur. Norður-Írinn Andy Kirk breytti stöðunni í í 2:0 og aðalstjarnan okkar, Colin Cameron, skoraði 3:0 eftir hálftíma leik. Það gaf þó ekki nógu góða mynd af gangi leiksins. 6:0 hefði verið nær lagi.
Adam skoraði seinna mark sitt fyrir hlé og helsta von Dunfermline virtist sú að veðrið versnaði og leikurinn yrði blásinn af.
Cameron kom Hearts í 5:0 á upphafsmínútum seinni hálfleiks. Gestirnir minnkuðu muninn en Hearts átti tvö síðustu mörkin: Kirk og slóvaski landsliðsmaðurinn Tomaschek. Leiknum lauk á kúnstugan og ljóðrænan hátt, þar sem plastpoki fauk um völlinn. Í einni vindhviðunni tók hann sig á loft um leið og boltinn skoppaði framhjá. Knötturinn endaði í plastpokanum og dómarinn gat ekki stillt sig um að flauta strax til leiksloka.
Eftir leikinn settumst við inn á einhverri knæpunni, þar sem bræðurnir fengu sér kóka kóla en ég bjór. Við Stebbi spjölluðum um daginn og veginn, en Palli var eins og í losti. Upplifun hans af leiknum hafði nánast verið trúarleg, eins og mannanna sem sáu Sex Pistols spila í Manchester eða Utangarðsmenn í Kópavogsbíói og ákváðu strax að verða pönkarar.
(Stephane Adam 2, Andy Kirk 2, Colin Cameron 2, Róbert Tomaschek. Mark Dunfermline: Jason Dair)