26. maí 1993. Marseille 1 : AC Milan 0
Í bók minni um sögu Fram segi ég frá því þegar ég hélt í klukkustund að ég hefði tryggt Fram Íslandsmeistaratitil. Hjartað ólmaðist í brjósti mínu og ég gegnum kollinn flugu hugsanir um hvort betra væri að hlaupa strax í fjölmiðla eða hvort ég ætti að bíða með að varpa sprengjunni þar til bókin kæmi út.
Málið var þannig vaxið að í kringum 1920 var mikill losarabragur á mótshaldi knattspyrnumanna. Nokkur mót voru haldin, hvert með sitt nafnið og enginn sérstakur greinarmunur gerður á milli þeirra. Þannig áttu blöðin til að rugla því saman um hvaða titil værið leikið hverju sinni.
Eftir að hafa legið yfir handritaðri skýrslu um leiki ársins 1920 og borið saman við allar mögulegar heimildir, gat ég ekki séð betur en að ég hefði komið auga á villu – að keppninni um Íslandshornið (sem Valsmenn stofnsettu) hefði verið ruglað saman við sjálft Íslandsmótið (sem Framarar sáu um). Þetta þýddi að ég hafði tryggt Frömurum nítjánda Íslandsmeistaratitilinn!!!
Nánari athugun leiddi í ljós að villan lá í frumheimildinni og að óskhyggja hafði ráðið því að mér fannst aðrar heimildir styðja hana. – Bömmer!
Eftir á að hyggja var kannski ágætt að ég reyndist hafa á röngu að standa. Fram hefði að sönnu grætt titil, en um leið hefðu Víkingar misst Íslandsmeistaratitil og það sinn fyrsta í sögunni. Ég hefði ekki unnið keppnina um vinsælustu stúlkuna í Víkinni það árið.
Og það er líka eitthvað rangt við afturvirkar breytingar á töflum yfir landsmeistara. Tökum sem dæmi titlana sem Juventus var svipt á Ítalíu, en Inter Milano fékk í staðinn. Það er kauðskt að fá skráð á sig titla mörgum árum síðar, eftir að hafa verið svikinn um fagnaðarlætin.
Í Frakklandi létu menn nægja að svipta Marseille 1992-93 titlinum, en krýndu enga nýja í staðinn. Ef ég man rétt íhugaði UEFA að gera slíkt hið sama við Evrópumeistaratitilinn þeirra sama ár, en féll svo frá því eða endurskoðaði ákvörðunina.
Það var hörkuúrslitaleikur á Ólympíuleikvangnum í Munchen. Andstæðingarnir voru AC Milan, lið sem manni var meinilla við en gat ekki annað en borið virðingu fyrir.
Marseille voru mínir menn. enda boðberar nýrra tíma í Evrópuboltanum. Frakkarnir voru að byrja að punda út ungum, góðum leikmönnum og þeir höfðu afrísku tenginguna sem átti eftir að breyta svo miklu. Tveimur árum áður hafði Marseille mætt í úrslitaleik sömu keppni sem sigurstranglegra liðið gegn Rauðu stjörnunni frá Belgrað. Það var mögulega leiðinlegasti úrslitaleikur sögunnar, þar sem Júgóslavarnir reyndu aldrei að halda boltanum, heldur sendu hann beinlínis til andstæðinganna og vörðust svo í 120 mínútur, til að vinna í vítakeppni.
Gegn Milan var það fremur hlutverk Frakkanna að vera varfærna liðið. Ekki það að liðið hans Tapie (sem reyndist sá sjoppulegi bílasali sem hann leit alltaf út fyrir að vera) gæti ekki sótt. Alen Boksic var aðalmarkaskorarinn þetta árið og virtist á leiðinni með að verða einn af bestu framherjum Evrópu, en fór svo Ítalíu og náði aldrei sömu hæðum. Við hans hlið var Franck Sauzée, sem elti Bocksic suður á bóginn og koðnaði niður í Atalanta.
Didier Deschamps var fyrirliðinn, Barthez var í markinu, Rudi Völler var reynsluboltinn fremst á miðjunni og Marcel Desailly tengdi saman vörn og miðju. En enginn þessara manna skoraði þó markið sem skildi á milli liðanna. Það gerði varnarjaxlinn Basile Boli með skalla eftir hornspyrnu. Internetið segir mér að hann eigi son sem spili fyrir Stabæk. Talandi um hnattvæðingu!
Sigur Marseille var ekki sá fallegasti, en á einhvern hátt virtist réttlætinu fullnægt frá því tveimur árum áður. Það kaldhæðnislega var þó að Jean-Pierre Papin, aðalmaðurinn 1991, hlaut aftur silfrið – núna sem varamaður í liði AC Milan. Það var ekki fyrr en síðar að í ljós kom að mögulega hafði titillinn ekkert með réttlæti eða sanngirni að gera.
Bernard Tapie, eigandi Marseille, var ástríðusvikahrappur sem mútaði og svindlaði hvenær sem færi gafst og hvort sem hann þurfti á því að halda eða ekki. Í riðlakeppninni sem fleytti Marseille í úrslitaleikinn (leikið var í tveimur fjögurra liða riðlum í stað fjórðungsúrslita, þar sem sigurvegararnir fóru beint í úrslit) virðist fé hafa verið borið á dómara í amk einum leik, rússneskum andstæðingum byrluð ólyfjan og reynt að múta leikmönnum Rangers til að taka ekki þátt. Titillinn frá 1993 er þó enn í dag sá eini sem Frakkar hafa unnið í stærstu keppni Evrópuboltans.
(Mark Marseille: Basile Boli)