Fótboltasaga mín 100/100

 14. maí 1983. Manchester City 0 : Luton 1

Þann 22. janúar í fyrra birti ég fyrstu færsluna af þessum fótboltaminningum mínum. Ég ákvað strax í upphafi að kaflarnir yrðu hundrað talsins og hver um sig myndi fjalla um einn leik sem ég hefði horft á í sjónvarpi, hlustað á í útvarpi eða séð í eigin persónu. Tímamörkin sem ég setti mér var frá 1983, þegar ég byrjaði að fylgjast með fótbolta fyrir alvöru, til 2013. Það eru engin verðlaun fyrir að benda á að það séu strangt til tekið 31 ár en ekki 30.

Nú rétt tæpu ári síðar er komið að leiðarlokum, þó enn séu ýmsir merkilegir leikir ótaldir. Þannig liggja heilu bikarúrslitaleikir Framara óbættir hjá garði. Luton-leikurinn sem fór á til Barrow með fríðu föruneyti sömuleiðis. Stórleikir HM-sögunnar eru illa dekkaðir og svo mætti lengi telja. Alltaf hef ég samt haldið mig við upphaflegu reglurnar.

Þar til núna.

Hundraðasti og síðasti pistillinn fjallar um leik sem ég varð ekki vitni af sjálfur, enda átti ég þess ekki kost. En það er samt leikur sem ég hef lesið svo mikið um og heyrt svo oft rifjaðan upp að mér finnst ég vera vitni. Og það er leikur sem reyndist svo örlagaríkur. Sennilega afdrifaríkasti leikur fótboltasögu minnar.

Það var á vormánuðum 1983 sem fótboltafárið greip mig heljartökum. Rétt er að taka fram að mamma er ósammála þessari kenningu minni og bendir á að ég hafi legið yfir fótboltaúrslitum í blöðunum frá því að ég varð læs fimm ára og það eru til sögur sem ég skrifaði í sjö ára bekk, sem voru endalaus frásögn af ímynduðum fótboltaúrslitum og smáliðum sem unnu titilinn þvert á allar væntingar.

Hvað sem þessum úrtöluröddum líður kýs ég að miða við veturinn 1982-83. HM á Spáni var ekki fyrr búið en ég fékk áhuga á því og á afmælinu mínu í apríl árið eftir fékk ég aðra ef ekki báðar bækurnar um Spánarmótið. Um svipað leyti þurfti ég að velja mér lið á Englandi, í stað þess að daðra við nokkur félög og velja fyrir hvern leik.

Aston Villa var augljós kostur, þar sem nafnið var töff, búningurinn nokkuð flottur og liðið gott. En vandinn var að besti vinur minn á þeim tíma hélt með Aston Villa – átti meira að segja lúður með fána merktan þeim, sem var dýrgripur. Varla gat ég farið að apa svo augljóslega eftir honum.

Luton var annar kostur. Nafnið var grípandi og litasamsetningin í hvítum og appelsínugulum búningnum ágæt. Og það sem meira máli skipti: Luton-lið Davids Pleats voru nýliðar í efstu deild. Almennt fékk Luton þá umsögn í blöðunum að vera lítið félag, skipað ungum leikmönnum og var hlaðið lofi fyrir að reyna að leika sóknarbolta og halda knettinum á vellinum í stað þess að leiðast út í enskar háloftaspyrnur. Og svo voru svartir leikmenn í stórum hlutverkum, sem var framandi og spennandi. Brian Stein var einatt kallaður „blökkumaðurinn Brian Stein“ í frásögnum af leikjum.

Í vikunni fyrir lokaumferðina ákvað ég að láta vaða og tilkynnti vinum og ættingjum að ég væri orðinn Luton-maður. Það var kjörkuð ákvörðun í ljósi stöðunnar í deildinni.

Luton tapaði 1:5 á heimavelli fyrir Everton í næstsíðustu umferð á sama tíma og Birmingham og Manchester City unnu bæði og komust í 47 stig, einu meira en Luton í fallsætinu. Reyndar átti Luton leik til góða, en það var gegn yfirburðaliði Liverpool svo 0:3 skellur fylgdi í kjölfarið á þriðjudagskvöldinu. Þessi úrslit þýddu bara eitt: Luton varð að vinna Manchester City á Main Road í síðustu umferðinni og senda gestgjafana niður um deild.

Ég varði laugardeginum á Neshaganum hjá afa og ömmu. Þar var litasjónvarp öfugt við svarthvíta tækið heima á Hjarðarhaganum og mun meira pláss til að leika sér eða liggja í bókum. Ég æfði langstökk, þrístökk og stangarstökk á ganginum. Stangarstökkið gekk út á að ég hróflaðu upp sófapullum og notaði gamlan göngustaf sem langafi hafði átt til að svippa mér yfir. Með saumamálbandið hennar ömmu gat ég svo slumpað á lengdina á stökkunum og borið saman við tölur á fyrstu nútímaólympíuleikunum eins og þær birtust í bókinni um sögu Ólympíuleikanna sem ÍR gaf út árið 1956. Mér sýndist ég ekki eiga langt í að ná þeim.

Íþróttaþáttur sjónvarpsins byrjaði ekki fyrr en klukkan fimm og Enska knattspyrnan klukkan 18:45. En þar voru hvort sem er bara sýnd mörkin frá síðustu umferð (slátrunin gegn Everton). Heimildir mínar um gang mála hafa því verið úr Íþróttaþætti útvarpsins í umsjón Samúels Arnar.

Á sama tíma í Manchester komst Luton lítið áleiðis. City-menn létu sér nægja að halda jöfnu og þrumuðu öllum boltum sem nálguðust vítateginn út í hafsauga. Þar til fimm mínútur voru til leiksloka…

Brian Stein, nei afsakið… blökkumaðurinn Brian Stein átti þá sendingu fyrir markið sem hefði ekki átt að skapa mikla hættu. En völlurinn var þungur og leikmenn líka, svo markvörður Manchester City sló boltann ekki nema rétt út fyrir teig þar sem Júgóslavinn Raddy Antic… já, sá Raddy Antic – þessi sem þjálfaði Atletico Madrid – kom aðvífandi og lét vaða. Skotið var þokkalega fast og ágætlega hnitmiðað og lak einhvern veginn í gegnum alla þvöguna, 0:1!

Raddy Antic… já, sá Raddy Antic – þessi sem þjálfaði Real Madrid – hafði skorað, 34 ára gamall varnarjaxlinn og á leiðinni í límverksmiðjuna! Enn í dag er kröftugur hópur sem vill að reist verði í miðbæ Luton stytta af Raddy Antic… já, þeim Raddy Antic – þessum sem þjálfaði Barcelona. Það yrði viðeigandi minnisvarði um Raddy Antic… já, þann Raddy Antic – þessum sem þjálfaði serbneska landsliðið.

Myndbandsupptökur staðfesta að það sló þögn á 42.000 áhorfendur á Main Road við markið. Og hvorki leikmenn né áhorfendur voru komnir úr lostinu þegar dómarinn flautaði til leiksloka og einhver frægustu gleðiviðbrögð enskrar knattspyrnusögu brutust út þegar David Pleat hleypur eins og barn í asnalega sniðnu gráu jakkafötunum sínum um allan völl. Þetta var „stórasta land í heimi“-móment þeirra Englendinga eða Ingólfur Hannesson að smella kossinum á Gauja Þórðar. Sláið þessu bara upp á Jútúb. Eða smellið á beint á tengilinn.

 

Það leið hálfur mánuður þar til ég fékk að sjá markið. Bikarúrslitaleikurinn vikuna á eftir milli Brighton og Manchester United fór í framlengingu, sem þýddi að Enska knattspyrnan frestaðist um viku. Reynið að útskýra þetta fyrir einhverjum sem fæddur er um aldamótin!

Luton hékk uppi og var meðal þeirra bestu til 1992. Eftir þennan leik var sambandið varla í verulegri hættu. Luton voru mínir menn þennan vordag 1983 og það breytist ekki úr þessu. Hins vegar er mér stórkostlega til efs að þetta ástarsamband hefði lifað eða raunar byrjað fyrir alvöru ef litla liðið frá Hattaraborginni hefði farið niður strax í fyrstu tilraun. Luton hefði eins getað spilað í Rússlandi og annarri deildinni á Englandi fyrir íslenskan krakka á níunda áratugnum. Takk strákar!

(Mark Luton: Raddy Antic… já, sá Raddy Antic – þessi sem þjálfaði Oviedo. Nei, ókey – ég er hættur núna.)