Spark

Á Fréttablaðinu í­ morgun var fjallað um knattspyrnuspilið og spurningaþáttinn sem ég hef verið að sýsla við upp á sí­ðkastið. Hafði hálft í­ hvoru búist við að hvort tveggja ætti að vera leyndarmál eitthvað lengur – en nú er hægt að leggja spilin á borðið.

Sí­ðsumars var ég ráðinn í­ að semja spurningar fyrir borðspil um fótbolta sem kemur út í­ næsta mánuði. Reyndar hafði málið verið nefnt við mig í­ vor, en þá var ég á leiðinni í­ feðraorlof og útgefandinn gat ekki svarað af eða á um hvort ráðist yrði í­ verkefnið.

Eftir að rásmerkið kom tók við móðir allra spurningasamninga – þar sem ég samdi með aðstoð góðra manna, mörgþúsund spurningar á örfáum vikum í­ ágúst. Öll kvöld og allar helgar fóru í­ þetta helví­ti, en niðurstaðan varð bærileg – vona ég.

Á lokaspretti þessarar vinnu, hitti útgefandi spilsins stjórnendur Skjás eins og Enska boltans að máli, til að kanna hvort áhugi væri á einhverju samstarfi – t.d. með léttum spurningaleik í­ tengslum við beinar útsendingar frá leikjum í­ ensku. Skemmst er frá því­ að segja að fólkið á Skjánum komst strax að þeirri niðurstöðu að þetta væri spennandi dæmi. Ég labbaði inn á fund í­ þeirri trú að hugmyndin væri sú að við myndum mæta í­ stúdí­ó í­ hálfleik á 5-6 leikjum, gefa nokkur spil og rabba við lýsendur – en niðurstaðan varð sú að gera átta tæplega hálftí­ma spurningaþætti. Upptökur skyldu hefjast u.þ.b. hálfum mánuði sí­ðar.

Satt best að segja hafði ég miklar efasemdir um hugmyndina í­ fyrstu. Eftir að hafa fylgst með því­ hjá Sjónvarpinu hversu mikil vinna er í­ kringum þætti á borð við Gettu betur, þótti mér fyrirvarinn fáránlega skammur og hugmyndirnar um uppbyggingu þáttarins í­ lausu lofti.

Tvennt varð til að breyta þessari skoðun minni. Toppmaður var fenginn í­ að pródúseta þáttinn. Eftir að spjalla við Benna í­ kortér, efaðist ég aldrei um að hann vissi hvað hann syngi. Þá varð út að Þórhallur Dan, gamli Fylkismaðurinn sem nú leikur með Fram, myndi sjá um þáttinn með mér. Við Tóti erum talsvert ólí­kar týpur, en smullum strax saman.

Um helgina var blásið til leiks. Fjórir þættir teknir upp á laugardeginum og fjórir á sunnudeginum. Markmiðið var að búa til létt og skemmtilegt efni. Spurningarnar voru valdar út frá skemmtanagildi og þáttarstjórnin og dómgæslan tók sömuleiðis mið af því­.

Ég er spurningaleikjanörd – og stend við það sem eftir mér er haft í­ Fréttablaðinu að það er alltof lí­tið af spurningakeppnum í­ útvarpi og sjónvarpi. Spurningaleikir af þessu tagi þurfa lí­ka að vera fjölbreytilegir. Það er fí­nt að hafa keppni eins og Gettu betur, þar sem liðin æfa eina og vitfirringar og menn taka sig háalvarlega, þar sem minnstu dómaramistök leiða til blaðaskrifa og illdeilna. Við ættum lí­ka að hafa einstaklingskeppnir af þessu tagi – í­ anda Mastermind, eins og Stöð 2 reyndi raunar í­ árdaga.

Samhliða alvarlegu keppnunum þarf lí­ka að hafa léttari keppnir, þar sem úrslitin eru í­ aukahlutverki og skemmtanagildið er aðalmálið. Það er einmitt léttleikinn í­ Popppunkti sem gerir það að verkum að ég hef svo gaman að þeim þætti. Reyndar finnst mér Dr. Gunni taka sjálfan sig of alvarlega í­ dómarahlutverkinu. Hann hefur margsinnis í­ þáttunum verið stí­fur og þver í­ ójöfnum viðureignum, þar sem hægðarleikur hefði verið að hygla tapliðinu.

Fleiri spurningaleiki í­ sjónvarp!

# # # # # # # # # # # # #

Á kvöld át barnið sinn fyrsta skammt af graut. Ég sem var einmitt orðinn svo klár í­ að hita pela…