Skyldi Davíð Þór vera illa við að ég bloggi um keppnina sína? Það mætti ætla – í það minnsta spurði hann um mig í einni viðureign kvöldsins og er þar með búinn að gera mig vanhæfan til að skrifa um hana. Látum samt vaða:
Húsvíkingar sendu þrjá nýnema til leiks gegn Borgarholtsskóla. Þeir settu sér skynsamlegt markmið, að ná tíu stigum. Það tókst. Borghyltingar luku keppni með 21 stig. Þetta er alveg sjónvarpstækt lið – en það hlýtur að vera lágmarkskrafan í Grafarvoginum í seinni tíð.
Iðnskólinn í Reykjavík var því miður með dapurt lið. Eyjamenn hirtu 18 stig í fremur léttri keppni, en verða seint taldið þungavigt í næstu umferð.
Að lokum sigraði lunkið Kvennaskólalið slaka Breiðhyltinga. Kvennó er á mjög svipuðu róli og ansi mörg liðanna sem komin eru í aðra umferð og gætu slysast í sjónvarpið. Heyrðist einn maður bera uppi liðið.
Allar viðureignirnar þrjár voru ójafnar og úrslitin í raun ljós mjög snemma. Við þær aðstæður finnst mér algjör óþarfi að vera mikið að brjóta upp keppnina með því að rifja upp hver staðan sé. Þess vegna gæti spyrill skotið því að í framhjáhlaupi um miðja keppni og svo séu nákvæm úrslit tilkynnt í lokin. Samanburður á stigatölu Iðnskólanna í Rvík. og Hfn. var t.d. alveg óþarfur. – Á sama hátt finnst mér, þegar viðureignir eru jafnar og spennandi, að spyrill og stigavörður eigi að vera duglegri við að rifja upp stöðuna. Ekki bara rígbinda sig við handritið.
Á tímabili fannst mér aðeins of hátt hutfall hraðaspurninganna vera á þá leið að spurt var um mannsnafn – og þá karlmannsnafn. Það getur þó vel verið að þessi tilfinning standist ekki tölfræðilega rýni. Hins vegar sakna ég spurninga með t.d. þrjá valkosti, eins og ég notaði talsvert. Dæmi: Hvaða ár gerðist XXX – 1936, 1956 eða 1976? Með þeim er heppnisþátturinn minni en í já/nei-spurningum og þær bjóða upp á ýmsa möguleika.
Á morgun keppa Selfyssingar við Norðfirðinga. Sem eftirlætistengdasonur Norðfjarðar hlýt ég að standa með mínu fólki. Gott ef Hrönn hefur ekki líka yfirumsjón með liðinu.
Á grunni reynslu síðustu ára ætti Hraðbraut ekki að eiga í minnstu vandræðum með VMA. Synd hvað þessi fornfrægi Akureyrarskóli hefur daprast í keppninni í seinni tíð. Sömu sögu má raunar segja um Fjölbraut við írmúla, sem á erfiða keppni fyrir höndum gegn Egilsstöðum.
Lausleg leit sýnir að ME verður með stelpu í liðinu. Sunnlendingar hafa enga stelpu innanborðs. VMA er sömuleiðis með strákalið, sem segist reyndar vera búið að æfa vel og reglulega. Upplýsingar eru ekki tiltækar um Neskaupstaðarliðið, Hraðbraut eða írmýlinga.
# # # # # # # # # # # # #
Amnesty International mótmælir fimm ára afmæli fangabúðanna í Guantanamo á Lækjartorgi kl. 17 á morgun, fimmtudag. Þangað mæta allir góðir menn og fordæma pyntingar og mannréttindabrot. Enginn ætti að þurfa að þola slíka meðferð – ekki einu sinni Moggabloggið!