Déja vu

Bíddu – hvernig er aftur sameiginlega söguskoðunin um hvað hafi klikkað í aðdraganda efnahagshrunsins?

Er hún ekki eitthvað á þá leið að eftirlitsstofnanirnar hafi klikkað? Kapítalistar séu þjóðflokkur – ekki ólíkt böldnum strákum – sem muni alltaf reyna að komast upp með eins mikið og þeim er leyft. Þess vegna hefur voða lítið upp á sig að skamma peningamennina fyrir það þegar allt fer í vaskinn, aðalmálið er að eftirlitið sé í lagi og kippi í taumana þegar þurfa þykir…

Var það ekki nokkurn veginn svona?

Í fréttum dagsins og kvöldsins er FME vondi kallinn. Fjármálaeftirlitið vogaði sér nefnilega að fara að rugla í stjórnum skilanefnda gömlu bankanna og fokkaði þar með upp allskonar viðkvæmum samningaviðræðum. Meiri apakettirnir!

En var þetta ekki einmitt alltaf svona? Var það ekki einmitt þannig á þenslutímanum að þá sjaldan eftirlitsstofnanirnar reyndu eitthvað að derra sig, fengu þær yfir sig skammirnar fyrir þvergirðingshátt? Drógu ekki upplýsingafulltrúar bankanna einmitt upp þá mynd að eftirlitsbatteríin væru skipuð aulabárðum sem föttuðu ekki hvernig alvöru bissness virkaði? Jújú, auðvitað væri nauðsynlegt að hafa Fjármálaeftirlit og aðrar álíka stofnanir – en menn yrðu nú að hafa vit á að spilla ekki viðkvæmum samningum þar sem mikið væri undir…

Var þetta ekki eitthvað á þessa leið?

Og ætlum við ekkert að læra af reynslunni?