„Þá læt ég Bítlana baula á Tarzan. Lokað fyrir Páli.“ (Karl, 6 ára)
Hótanir eru veigamikill þáttur í mannlegri tilveru. Dóttir mín er að verða fimm ára. Í samfélagi leikskólabarna ganga hótanir að miklu leyti út á hverjum verði boðið (eða öllu heldur ekki boðið) í afmælisveislur. Vægi slíkra hótana stendur í beinu sambandi við það hversu langt er í afmælisdaginn.
Þjóðir og þjóðaleiðtogar skiptast á hótunum ekki síður en leikskólabörn. Eðli þeirra hótana er nokkuð frábrugðið því sem gerist á Sólhlíð (þótt munurinn sé reyndar oft minni en ætla mætti). Þar skiptir auðvitað máli stærð og styrkur viðkomandi þjóða. Stór samfélög geta að jafnaði sett fram veigameiri hótanir en þau sem minni eru.
Held samt að ógnanirnar gerist varla mikið slappari en: „Bíðiði bara! Einhvern þessara daga verður ísinn á Norðurpólnum bráðnaður. Og þá er aldrei að vita nema að við munum reisa risastóra höfn á Húsavík eða Reyðarfirði eða eitthvað. Og vitiði hvað – úr því að þið eruð svona ömurlegir – þá munum við bara leyfa Kínverjum og Rússum að nota nýju fínu höfnina okkar, ekki ykkur! Hah!“ (Ólafur, 66 ára)