Fulli karlinn: Fótboltasaga mín 11/100

12. október 1983. Ísland 0 : England 3

Ég bjó í kennarablokkinni við Hjarðarhagann frá fæðingu til níu ára aldurs. Kennarablokkin bar það nafn vegna þess að hún hafði verið byggð af byggingarfélagi kennara. Samt átti brytinn Baui afabróðir minn (sem dó áður en ég fæddist, en  sonur minn heitir beint eða óbeint í höfuðið á) heima í þessari blokk og foreldrar mínir fluttu inn á hann.

Kennarablokkin var yndislegur staður fyrir barn. Þar var allt morandi í krökkum og við lékum okkur linnulaust saman í hverfinu eða í kjallarahvelfingunum undir húsinu.

Það merkilega var samt að þótt blokkin okkar (sem er sú næsta við hús Raunvísindastofnunar) væri troðfull af börnum, var blokkin við hliðina (sem mig minnir að hafi verið Símamannablokkin) nánast barnlaus. Að minnsta kosti man ég aldrei eftir að hafa leikið við neitt barn úr þeirri blokk. Nema Anítu.

Aníta var jafngömul mér. Amma hennar og afi bjuggu á Hjarðarhaganum en hún ólst að miklu leyti upp hjá þeim. Afinn var gárungur en átti til að segja sömu brandarana nokkuð oft. „Trúir þú því að afi minn át steinbít eftir að hann var dauður?“ – var uppáhaldsbrandarinn. Eftir að hann sagði mér þessa skrítlu í fimmta sinn endaði ég á að svara „Tjah, varla hefur hann étið lifandi steinbít!“ Karlinn var steinhissa og ákvað samstundis að ég væri snillingur. Upp frá því mátti hann aldrei sjá mig án þess að rifja upp hversu snöggur ég væri til svars og lunkinn að leysa gátur.

Einhverra hluta vegna vorum við Aníta ein að leika okkur á októberkvöldi 1983. Við ætluðum inn á Melavöllinn sem þá var vinsælt leiksvæði. Það var hægt að fara í eltingaleik í stúkunni eða gramsa í ruslahrúgunum við íshokkývöllinn. Yfirleitt var auðvelt að komast inn, þótt nokkrar flíkur rifnuðu í gaddavír eða fengu tjöruklessur af grindverkinu. Sjaldnast var amast mikið við okkur, jafnvel þótt leikir væru í gangi.

En þetta kvöld stóð eitthvað aðeins meira til og vallarvörður rak okkur frá. Ísland var að keppa við England og það skildum við strax að hlyti að vera stórmerkilegt. Í mörg ár gaf ég mér að þetta hefði verið B-landsleikur, en fór síðar í dagblöðin og fann út að þetta hefur verið U18 ára landsleikur í forkeppni Evrópumótsins.

Við héldum áfram að sniglast í kringum völlinn, gægðumst reglulega yfir girðinguna og fylgdumst með leiknum úr fjarska. Meðan við vorum að þessu kom aðvífandi – eða öllu heldur aðveltandi – maður sem hafði fengið sér 4-5 drykkjum of mikið á Hótel Sögu. Hann talaði eitthvað við okkur og var hinn vinalegasti og vildi svo endilega fá að vita hver staðan væri í leiknum. Við klifruðum og gátum staðfest að England væri að vinna 0:3. Fyrir þessar upplýsingar lét hann okkur hafa 500 krónu seðil.

Fyrir átta ára krakka árið 1983 voru 500 krónur svimandi upphæð. Ætli það hafi ekki verið svipað og 10 þúsundkallinn núna? Við hlupum ofsakát heim og fórum að leggja drög að því hvernig mætti eyða þessari risasummu. Í dag yrði það líklega lögreglumál ef fullir karlar færu að gauka peningum að ókunnum börnum úti á götu.

Lokatölur leiksins urðu Ísland 0 : England 3. Ætli Englendingunum hafi ekki brugðið að vera boðið upp á malarvöll fyrir unglingalandsleik? Ætli alþjóðaknattspyrnusambandið viðurkenni ennþá malarvelli í milliríkjakeppni og ef ekki, hvenær skyldi því hafa verið breytt? Spyr sá sem ekki veit.

Íslenska liðið var ágætlega mannað. Sigurður Jónsson var aðalkempan, en af öðrum kunnuglegum nöfnum má nefna Andra Marteinsson, Ólaf Þórðarson, Jón Sveinsson og Örn Valdimarsson. Haukur Bragason var í markinu.

Þegar rennt er yfir enska liðið staðfestist að unglingalandsleikir eru engine trygging fyrir að menn verði stórstjörnur. Teddy Sheringham var því miður ekki með á Melavellinum, en hann var kominn í enska liðið í seinni viðureigninni sem fram fór ytra hálfum mánuði síðar. Í þeim leik var Luton-goðsögnin Mark Stein líka kominn í hópinn.

En á Melavellinum voru fáir leikmenn sem náðu að verða fyrirsætur í Shoot! Eða Match. Derby-stuðningsmenn muna þó eftir Michael Forsyth, sem skoraði fyrsta markið. Enginn kannast við Martin Lambert sem skoraði hin tvö. Hann var á mála hjá Brighton en fékk fá tækifæri og varði níunda áratugnum í að spila með nokkrum evrópskum neðrideildaliðum.

Gary Porter náði fullt af leikjum í vörninni hjá Watford. Markvörðurinn Perry Suckling þótti víst efnilegur og Wikipedia segir að hann hafi verið talinn framtíðarlandsliðsefni, en ferillinn farið í vaskinn eftir að hann stóð í markinu hjá Crystal Palace í 9:0 tapinu gegn Liverpool.

David Lowe átti nokkur ár hjá Ipswich og víðar, svo Gunnar Sigurðarson gæti kunnað á honum deili. Einhverjir muna kannski eftir Garry Parker sem lék með Luton, Nottingham Forest, Aston Villa og Leicester. Og sá síðasti í hópnum til að fá sínar frægðarfimmtánmínútur var David Kerslake, sem var bráðabirgðastjóri hjá Cardiff fyrr í vetur áður en samið var við hvimleiða Norðmanninn.

(Mörk Englands: Michael Forsythe, Martin Lambert 2.)

 

Stelpurnar: Fótboltasaga mín 10/100

7. júní 1988. KR 4 : Fram 1

Ég var ömurleg karlremba sem táningur. Mér til varnar gildir það líklega um flesta táningsstráka. Ég var líka „mansplaining“ týpan – taldi mig gríðalega mikinn jafnréttissinna (átti meira að segja lesendabréf í Veru!) og gat sett á langa fyrirlestra um hvað konur væru grátt leiknar í samfélaginu og ættu skilið að fá hærri laun og meiri ábyrgð.

Samt setti ég aldrei spurningamerki við að í öllum stjórnunum og nefndunum sem ég sat í voru eiginlega bara strákar og stelpurnar sem duttu inn hættu fljótlega að taka þátt. Ég var í strákaspurningaliði í gaggó. Ég var í strákaræðuliði í gaggó. Ég var í bara í strákaræðuliðum í menntó – með einni undantekningu – og öll menntaskólaspurningaliðin mín voru bara skipuð strákum. Ég sat í ritnefndum: bara strákar. Eina stelpan sem ég átti í teljandi samskiptum við í gegnum félagsstörf í skóla var Dalla Ólafsdóttir í stjórn Framtíðarinnar. Mér fannst hún frek, en líklega var hún samt mesti diplómatinn í stjórninni.

Og svo fór ég að þjálfa ræðulið út um hvippinn og hvappinn. Ræðumennirnir voru eiginlega alltaf strákar. Stundum valdi ég stelpur en fannst ég aldrei geta þjálfað þær almennilega eða ná nógu miklu út úr þeim. Þess vegna bjó ég mér til kenningu um að einungis kvenræðuþjálfarar gætu náð því besta út úr stelpum. Rökin fyrir þessu voru þau að Erna Kaaber og Kristín Eysteinsdóttir gætu gert góða hluti með stelpur í Kvennóliðinu.

En samt var ég rosalega jafnréttissinnaður. (Það var ekki búið að meinstríma hugtakið femínismi á þessum tíma, annars hefði ég kallað mig femínista.) Reyndar var ég á því að jafnrétti kynjanna væri að mestu náð. Konurnar þyrftu bara að reyna örlítið betur og að eftir fáein ár yrði allt í þessu fína, enda hefði mín kynslóð verið alin upp við jafnrétti en ekki ömurlegt afturhald.

Þetta var sérlega slæmt þegar kom að íþróttunum. Ég og vinir mínir gátum flatmagað fyrir framan sjónvarpsskjáinn heilu síðdegin og horft á fótbolta eða hverjar þær íþróttir sem í boði voru. Og ekki vantaði sleggjudómana: kvennafótbolti var varla íþrótt! Og fyrir þessu gátum við talið mikil rök um áhugaleysi kvenna, líkamlegt atgervi, hversu fáar fótboltakonurnar væru miðað við karlana o.s.frv. Þessu ruddum við út úr okkur fyrir framan Þóru systur sem er fimm árum yngri en ég og hefði eflaust haft betra af því að heyra margt annað en þus í eldri strákum um að konur næðu ekki máli í íþróttum.

Hér má skjóta því inn að þau íþróttaafrek sem þó hafa verið unnin í kjarnafjölskyldunni eru kvennanna: mamma er sunddrottning úr Ægi, Þóra systir er margfaldur unglingameistari í frjálsum fyrir Ármann og Steinunn konan mín vann til verðlauna á skíðum fyrir Fram. Sjálfur tók ég reyndar félagshollustuna fram yfir karlrembuna og mætti reglulega á leiki með Framstelpum í handboltanum.

Enn í dag horfi ég sáralítið á kvennafótbolta. Einhverra hluta vegna hef ég aldrei náð að tengja við hann á sama hátt og karlaboltann. Engu að síður horfi ég jöfnum höndum á kvenna- og karlahandbolta. Líklega snýst þetta fyrst og fremst um ólíkt gengi Framara á þessum tveimur vígstöðvum.

Fram lagði niður kvennafótboltaliðið sitt í byrjun níunda áratugarins í fáránlega fruntalegri aðgerð sem miðað einkum að því að spara æfingartíma á grasvellinum í Safamýri. Þótt Framararnir hefðu séð eftir þessu strax árið eftir og endurreist kvennaflokkinn náði hann aldrei aftur flugi og liðið strögglaði í 2. deildinni í mörg ár. Enginn horfði á 2. deild kvenna á þessum árum. Það þótti gott ef línuverðirnir höfðu fyrir að mæta.

Sumarið 1987 álpuðust Framstelpur svo til að vinna 2. deildina. Það reyndist Pyrrhosar-sigur. Árið eftir töpuðu Framarar hverjum einasta leik nema einum. Sá var á móti hinum nýliðunum í deildinni, Ísfirðingum. Fram og Ísafjörður luku keppni með 47 mörk í mínus í fjórtán leikja móti. Lokaleikurinn á Hlíðarenda fór 10:0 fyrir Val.

Þessar hrakfarir drápu liðið. 1989 sendi Fram ekki lið til keppni (það ár voru bara níu meistaraflokkslið kvenna með á Íslandsmótinu). Tilraunir til að endurvekja meistaraflokkinn nokkrum misserum síðar runnu út í sandinn og það er ekki fyrr en á allra síðustu árum að Frömurum hefur tekist að halda úti meistaraflokki kvenna sem virðist lífvænlegur.

Eini leikurinn sem ég sá þetta slæma sumar 1988 var viðureign KR og Fram. Hún fór fram í Frostaskjólinu. Ekki þó á aðalvellinum heldur á grasæfingasvæðinu sem yngri flokkarnir spila á. Og það var ójafn leikur.

Lokatölurnar voru 4:1, en þær segja ekki nema hálfa sögu. Frammarkið kom út billegri vítaspyrnu á lokamínútunum og KR hefði getað skorað miklu fleiri mörk. Mögulega kom það Framstúlkum til bjargar að Guðrún Jóna Kristjánsdóttir var í stuði og skoraði öll mörkin. Fljótlega fóru félagar hennar nefnilega að spila upp á hana, væntanlega í von um að setja eitthvað met.

Ég fór ekki á fleiri leiki. Það er nefnilega fátt ömurlegra en að mæta á völlinn þegar maður veit að liðið manns á engan séns – ekki minnstu vonarglætu. Það liðu tuttugu ár þar til ég horfði næst á kvennafótbolta öðruvísi en í sjónvarpi. Kannski meira um það síðar.

 (Mörk KR: Guðrún Jóna Kristjánsdóttir 4. Mark Fram: Kristín Þorleifsdóttir.)

Breiðholtið: Fótboltasaga mín 9/100

 14. júlí 1996. Leiknir 0 : Fram 4

Það versta við að falla niður um deild fyrir stuðningsmenn „stórs félags“ eru leikirnir við liðin sem eru fyrir „neðan manns virðingu“. Ég veit að þetta hljómar hrokafullt – og auðvitað er þetta hrokafullt – en svona er það nú samt. Erfiðasta stund Skagamanna á komandi sumri verður þegar þeir mæta í Vesturbæinn og neyðast til að spila við KV sem jafningja. KR-ingarnir, Valsmennirnir og Framararnir á internetinu munu heldur ekki stilla sig um að nudda þeim upp úr því.

Það var grautfúlt fyrir okkur Framara að falla sumarið 1995, örfáum árum eftir að hafa verið besta lið landsins. Dvölin í næstefstu deild var þó ekki sem verst. Margir leikir unnust og margir hverjir með miklum mun. Flestir andstæðingarnir báru líka kunnugleg nöfn, lið sem reglulega skutu upp kollinum í efstu deild: Þróttur, KA, Þór, Víkingur og FH. Meira að segja Völsungar höfðu átt sín tvö ár í sólinni.

En svo var það Leiknir…

Leiknir árið 1996 var allt annað mál en Leiknir árið 2014. Leiknir Reykjavík er í dag félag sem menn reikna með í næstefstu deild. Enginn yrði hissa þótt liðið hitti á gott sumar eitthvert árið og kæmist upp í efstu deild. Það er í það minnsta öllu líklegra en að ÍR-ingarnir fari þangað á ný.

En 1996 var Leiknir í allt annarri stöðu. Leiknir var lið sem átti í hugum flestra heima einhvers staðar niðri hjá Reyni Sandgerði, Létti, Aftureldingu eða Gróttu. Nú voru þeir nýliðar í 2. deild og augljóslega alltof lítill fiskur í stórri laug.

Leikurinn í Breiðholti í áttundu umferðinni var sá erfiðasti og skrítnasti þetta sumarið. Skrítnastur vegna þess að flestir áhorfendurnir héldu með báðum liðum. Fram átti sterk ítök í Breiðholtinu. Efnilegir fótboltastrákar (og jújú, bara strákar – við ræðum um kynjapólitíkina síðar í þessum færslum) fóru helst í Fram úr Breiðholtsliðunum. Fólkið í Fellunum var því margt hvert vant því að halda með Fram í efstu deild á móti KR og Val, en Leikni í fjórðu deildinni á móti firmaliðum og sveitavörgum. Það leið því öllum hálfkjánalega þegar þessi lið mættust í alvöru leik.

Framararnir voru ferlega slappir í leiknum. Umferðina á undan slátruðum við Þórsurum 8:0 og lékum eins og hugur manns. Í umferðinni á eftir töpuðum við heins vegar fyrir FH 1:5 í leik sem hefði getað farið miklu verr. Ég held að ég hafi aldrei séð Framara lélegri en í þessum FH-leik, nema þá helst í Leiknisleiknum.

Þetta var ömurlegur fótboltaleikur. Framararnir náðu varla sendingu sín á milli. Samspilið var ekkert, heldur ætluðu menn bara að klára þetta á einstaklingsframtaki – sem var svo sem ekki galin hugmynd. Í það minnsta skoruðum við nóg.

Leiknismenn voru eins og hrædd dýr. Liðið hafði halað inn fimm stig í fyrstu þremur umferðunum en svo farið að síga á ógæfuhliðina. (Þeir luku keppni með sex stig.) Um leið og Þorbjörn Atli skoraði fyrsta markið var úr þeim allur vindur. Bjössi skoraði annað, lagði upp það þriðja sem Ágúst Ólafsson skoraði og þar á milli átti Anton Björn eitt skallamark. Ég hef aldrei séð lið leika jafn illa en skora samt fjögur mörk.

Reyndar hefðu mörkin getað verið fleiri og sjálfur ber ég nokkra ábyrgð í því máli. Þetta sumarið mættum við Gústi Hauks, gamall MR-skólafélagi og spurningaljón, alltaf saman á leiki og sátum hlið við hlið. Okkur þótti leikurinn lélegur og eyddum orku í að láta dómgæsluna fara í taugarnar á okkur, einkum þátt línuvarðarins sem aldrei tókst að vera í línu heldur flaggaði eftir ágiskunum.

Þegar við höfðum tvisvar eða þrisvar horft upp á kolvitlausa rangstöðudóma fórum við að senda honum tóninn (ég er ekki stoltur af því hversu duglegur ég er við að skammast yfir dómurum). Eitthvert skiptið kom sending inn fyrir Leiknisvörnina þar sem einn Framarinn stóð 3-4 metrum fyrir innan, hljóp í gegn og setti knöttinn í markið. Línuvörðurinn fylgdi með og sýndi engin merki um að ætla að flagga. Við Gústi rákum upp hæðnishlátur og spurðum hvort hann væri ekki að grínast? Hann leit örsnöggt flóttalega til okkar og lyfti svo upp flagginu. Gott ef það var ekki Ágúst Ólafsson sem hefði klárað mótið með einu markinu meira ef við hefðum haldið okkur saman.

Það furðulega við stemninguna á leiknum var að það virtist enginn hafa neina sérstaka nautn af því að sjá Framarana raða inn mörkum. Framararnir á vellinum vissu að við værum ekki að leika vel og enginn óskaði Leikni ills, enda var Pétur Arnþórsson við stjórnvölinn hjá þeim og var enn gríðarlega vinsæll hjá stuðningsmönnum Fram. Undir lokin fékk einn leiknismaðurinn rauða spjaldið fyrir klaufalegt brot á miðjum velli – en enginn klappaði. Þess í stað heyrðist tautað e-ð um að „þetta hefði nú verið óþarflega harður dómur“ og að dómarinn hefði nú alveg mátt sleppa þessu.

Ég er ekki viss um að viðbrögðin verði þau sömu í leik KV og Skagamanna í sumar.

 (Mörk Fram: Þorbjörn Atli Sveinsson 2, Anton Björn Markússon, Ágúst Ólafsson)

Sveitin: Fótboltasaga mín 8/100

23. júlí 1986. KR 2 : Fram 6

Pabbi er frekar skynsamur náungi. Samt fær hann stundum afar vondar hugmyndir. Sú versta var þegar hann stakk upp á því að þótt ég ætlaði ekki að fermast gæti ég engu að síður gengið til prestsins. Hvers vegna í ósköpunum hefði ég átt að fórna því í hálfan vetur að sofa út á laugardagsmorgnum til að mæta að ástæðulausu á einhverja fyrirlestra?

Viðlíka vond var hugmyndin sem skaut upp kollinum á hverju einasta ári: hvort mig langaði ekki að prófa að fara í sveit? Pabbi og bræður hans voru allir sendir í sveit á sumrin og fannst það æði. Í mínum huga var einn stórkostlegur galli á þessari hugmynd: Íslandsmótið fór fram á sumrin og í Reykjavík.

Það lengsta sem hægt var að teyma mig, var í sumarbúðir í Kjarnholti í Biskupstungum. Þar dvaldi ég í tvær vikur sumarið 1986.

Mig minnir að ég hafi bara skemmt mér ágætlega í sumarbúðunum. Kynntist einhverjum strákum sem ég gleymdi strax aftur. Þarna voru einhverjar skepnur, en ég í gegnum tíðina lítið skipt mér af fjórfætlingum nema með milligöngu afurðastöðva. Og jú, það voru kvöldvökur með leikritum. Sjálfur tróð ég upp með dagskrá sem samanstóð af skástu djókunum úr Íslenzkri fyndni, sem til var á bænum. Það er nú titill sem lofar meiru en hann getur staðið við.

Og svo voru það kvöldin með beinu útsendingunum. Á þessum árum voru íþróttaþættir vinsælt útvarpsefni á kvöldin. Og það voru ekki sportrásir eins og hjá Dodda litla í dag, með tónlistarflutningi og svo stuttum tilkynningum milli laga um framvindu mála í leikjum kvöldsins. Nei, þetta voru alvöru útvarpslýsingar með einum aðalleik og svo skipt reglulega á menn á öðrum völlum um leið og dró til tíðinda.

Allir fjórir leikirnir í fjórðungsúrslitunum í bikarkeppninni voru leiknir sama kvöldið og Íþróttarásin fylgdist vel með. Ég fékk lánað útvarpstækið úr eldhúsinu og stillti því upp í gluggakistu þar sem ná mátti þokkalegum gæðum á útsendingunni. Ég lá límdur yfir lýsingunni og í hvert sinn sem dró til tíðinda í einhverri viðureigninni hljóp ég um allt og miðlaði fréttunum. Mér kom ekki annað til hugar en að allir hinir krakkarnir iðuðu í skinninu að fá fréttir af FH : ÍBK, Víkingi : Val, Breiðablik : ÍA – að ég tali nú ekki um KR : Fram.

KR : Fram var aðalleikur kvöldsins. KR-liðið á þessum árum var reyndar frægt fyrir leiðindi. Þetta sumar hafnaði KR í fjórða sæti með 21 skorað mark – samanborið við 39 mörk Framara. Það var þó hátíð miðað við það sem gerst hafði þremur árum fyrr, þegar KR-ingar náðu öðru sæti á neikvæðri markatölu 18:19 í 18 leikjum!

Hvað sem því leið gátu KR-ingar skorað í þessum leik. Þeir komust í 2:0 og sú var staðan eftir meira en klukkutíma leik. Meira að segja 11 ára gamli Stefán – sem alltaf hafði tröllatrú á að stríðsgæfan gæti snúist – var orðinn nokkuð svartsýnn. En Framarar komu til baka. Jöfnuðu 2:2 og knúðu fram framlengingu. Voru raunar óheppnir að vinna ekki í venjulegum leiktíma.

Í framlengingunni hrundi KR-liðið. Framarar skoruðu fjórum sinnum og unnu 2:6. Mér er til efs að finna megi margar framlengingar í íslensku fótboltasögunni þar sem annað liðið skoraði fjögur mörk – hvað þá leiki með sex marka sveiflu 2:0 í 2:6.

Ég hljóp vitaskuld um allt hús eftir hvert einasta mark Framara í framlengingunni. En flestir hinna krakkanna voru bara í einhverjum leikjum: stelpurnar að mynda leynifélag og strákarnir að reyna að gægjast inn á þær eða e-ð álíka. Ég man enn hvað ég var undrandi á skeytingarleysi þeirra og að meira að segja krakkar sem kölluðu sig KR-inga ypptu bara öxlum og héldu áfram að leika sér með mikilvægan bikarleik í útvarpinu…

(Mörk KR: Björn Rafnsson, Ásbjörn Björnsson. Mörk Fram: Guðmundur Torfason, Kristinn R. Jónsson, Pétur Ormslev 3 og Guðmundur Steinsson)

Glímufélagið: Fótboltasaga mín 7/100

24. apríl 1990. Fram 11 : Ármann 0

Ég var á bólakafi í félagslífi á gagnfræðaskólaárunum. Sat í ritstjórn skólablaðsins, var í ræðuliðinu og formaður Málfundafélags Hagaskóla í tvö ár. Tók reyndar við því embætti eftir kosningu gegn Líf Magneudóttur flokkssystur minni. Auk þessa var í nokkurs konar vísi að ungliðahreyfingu herstöðvaandstæðinga, sem bjó til plaköt og hengdi upp í miðbænum.

Það hefur því greinilega verið laust kvöld í félagslífinu úr því að ég ákvað að skella mér á viðureign Fram og Ármanns í Reykjavíkurmótinu vorið 1990. Ég fór einn á leikinn, en oft fór ég ásamt Baldri félaga mínum sem bjó í Litla-Skerjó. Hann var Framari í fótbolta en Valsari í handbolta. Það þótti ekki tiltökumál á þessum árum.

Allir Reykjavíkurmótsleikir fóru fram á gervigrasinu í Laugardal, sem var strax þarna farið að láta á sjá. Leikmenn voru hræddir við meiðsli og spiluðu ekki nema á hálfum dampi. Þess utan byrjaði æfingatímabilið miklu seinna svo hugtakið „vorbragur“ var afar viðeigandi.

Það voru mistök að mæta á leikinn. Mér drepleiddist. Þekkti engan, enda varla kjaftur á vellinum. Það var svo sem nóg af mörkum – en það var ekkert varið í að mala Ármenninga. Ármann var fjórðudeildarklúbbur en fékk að hanga með í Reykjavíkurmótinu af gömlum vana, meðan t.d. Víkverji var ekki með þrátt fyrir að eiga mun sterkara lið. Það er tómt ólán að leika við lið sem eru svona miklu neðar í deildarkeppninni: sigur er merkingarlaus en tap eða jafntefli botnlaus niðurlæging.

Nokkrum árum síðar var Reykjavíkurmótinu skipt upp í A-deild og B-deild. Þegar þær voru svo aftur sameinaðar í lok tíunda áratugarins var knattspyrnudeild Ármanns að líða undir lok. Þetta var því einn allra síðasti mótsleikur Fram og Ármanns.

Reyndar voru það Framarar sem áttu stærstan þátt í að Ármenningar fóru að spila fótbolta. Það var hópur Framara sem kom knattspyrnudeildinni þar á laggirnar á sjöunda áratugnum. Heimildum ber ekki saman um hvort það voru bara strákar sem komust ekki í lið og vildu fá að spila meira eða hvort einhver djúpstæðari ágreiningur hafi legið að baki. Steinn Guðmundsson, faðir Guðmundar Steinssonar, var aðalþjálfari meistaraflokks og árin 1970 og 1971 höfnuðu Ármenningar í öðru sæti í næstefstu deild – en aðeins eitt lið komst upp.

Allnokkrir Framarar hófu feril sinn með Ármanni í pollabolta, en þeim efnilegri var yfirleitt bjargað yfir í Safamýrina strax í fimmta flokki. Markvörðurinn Friðrik Friðriksson er dæmi um þetta.

Fram og Fylkir mættust í bikarúrslitaleiknum 2003 og að venju var samkoma í Framheimilinu fyrir leik. Þangað mætti meðal annars Baldur Bjarnason. Baldur, sem er mögulega flottasti leikmaður sem ég hef séð spila í Framtreyjunni, hafði þó leikið mun lengur með Fylki og var ekki tíður gestur á vellinum. Það var því nokkuð um hvískur og augngotur. Að lokum lét einn gamall stuðningsmaður vaða og spurði spurningarinnar sem brann á öllum: „Sæll Baldur, gaman að sjá þig hér. En ég hefði haldið að þú værir Fylkismaður.“ – Baldur var sallarólegur og svaraði um hæl: „Neinei, ég hef alltaf verið Ármenningur.“

(Mörk Fram: Ríkharður Daðason 4, Arnljótur Davíðsson 3, Pétur Ormslev, Guðmundur Steinsson, Baldur Bjarnason og Viðar Þorkelsson)

Landsfundurinn: Fótboltasaga mín 6/100

 7. nóvember 2003. Thurrock 1 : Luton 1

Kosningarnar 2003 urðu vonbrigði fyrir VG. Búist hafði verið við fylgisaukningu en í staðinn tapaði flokkurinn manni og íhaldið og Framsókn fengu áframhaldandi umboð til að stjórna landinu, rétt eftir að hafa gengist í ábyrgð fyrir Íraksstríðinu. Næstu mánuðina sleiktu menn sárin, en á landsfundinum í nóvember var bráin farin að hýrna á mannskapnum. Varaformannsembættið lá á lausu og Katrín Jakobsdóttir ætlaði að bjóða sig fram.

Landsfundurinn var haldinn í Hveragerði og þar voru mikil partý milli funda. Sögur gengu um hörðustu djammarana sem ákváðu að skella sér berrassaðir í heita pottinn seint um nóttina, en urðu kindarlegir þegar þeir mættu fyrstu morgunhönunum. Við Steinunn gistum á hótelinu, en ungliðarnir voru velflestir á ódýrara gistiheimili í grenndinni. Á sunnudagsmorgninum var enginn úr þeirra röðum uppistandandi eða með nægilegri rænu til að þeir kæmu að gagni, svo Steinunn var pínd í uppstillingarnefnd, skelþunn og vansvefta. – Sem sagt: fínn fundur.

En það var eitt vandamál. Daginn sem fundurinn var settur, átti Luton leik í fyrstu umferð enska bikarsins í beinni sjónvarpsútsendingu. Allt benti til að þetta yrði eini sjónvarpsleikur Luton á keppnistímabilinu. 2003-04 var liðið í þriðju efstu deild og frekar vonlítið um að komast í umspil. Útileikur gegn Thurrock náði hins vegar að vekja athygli Sky-stöðvarinnar. Thurrock var mörgum deildum neðar og í fyrsta sinn komið í aðalkeppni enska bikarsins. Viðureignin var því færð yfir á föstudagskvöld og sýnd beint.

Mér fannst ómögulegt að vita af Luton í sjónvarpinu, en vera sjálfur lokaður inni á fundi að hlusta á VG-fólk tala um kosningaúrslit. Dagana á undan hringdi ég því í alla pöbba í Hveragerði og á Selfossi, en í ljós kom að engir buðu upp á fótbolta á föstudagskvöldum.

Þá var bara eitt í stöðunni: keyra til Reykjavíkur. Ég byrjaði því daginn á að skutla Steinunni austur fyrir fjall, verða mér út um fundargögni og spjalla við fólk. Brunaði svo í bæinn og náði inn á Ölver nánast á sömu mínútu og flautað var til leiks. Vertinn varð frekar pirraður að þurfa að kveikja á útsendingunni fyrir einn mann – sem þess utan keypti engan bjór heldur bara hamborgara og kókglas.

Og leikurinn var ferlegur. Thurrock-stuðningsmennirnir voru að upplifa sína stærstu stund og liðið barðist eins og ljón. Lutonmenn voru sérhlífnir og ætluðu greinilega ekki að gera meira en þurfti og bíða eftir að heimamenn sprengdu sig. Sú taktík virtist ætla að virka. Emmerson Boyce skoraði á 39. mínútu og þá hefði björninn átt að vera unninn og eitt til tvö mörk að fylgja í kjölfarið.

Annað kom á daginn. Thurrock færði sig upp á skaptið í seinni hálfleik og sótti með vaxandi þunga á meðan Luton hugsaði bara um að halda fengnum hlut. Þetta var einn af þessum leikjum þar sem allir sáu hvað var að fara að gerast – þ.e. allir nema þjálfari liðsins sem lá í vörn. Ég hef aldrei skilið það fyrirbæri í fótboltanum. Hvernig getur maður sem hefur það sem aðalstarf að þjálfa fótboltalið verið blindur á að liðið hans er komið í nauðvörn og mun fá á sig mark?

Thurrock jafnaði þegar tíu mínútur voru eftir.  Og á lokasekúndunum mátti engu muna að leikurinn tapaðist þegar Tresor Kandol. leikmaður sem Luton hafði losað sig við nokkrum misserum áður, klúðraði dauðafæri. Bjartsýnismaður hefði bent á að seinni leikurinn yrði þó á Kenilworth Road og þar vann Luton vissulega 3:1. En það var engin Pollýanna í mér á leiðinni aftur til Hveragerðis, þar sem ég reyndi að eyða öllum spurningum um hvernig leikurinn hefði verið.

En Kata vann varaformannskjörið!

(Mark Thurrock: Terry Bowes. Mark Luton: Emmerson Boyce)

Slátrunin: Fótboltasaga mín 5/100

7. nóvember 1987. Manchester City 10 : Huddersfield 1

„Hvað segir þú um stöðu Vilhjálms?“ – spurði einhver blaðamaðurinn Davíð Oddsson fyrir margt löngu og var þar augljóslega að vísa til Vilhjálms Þ. sem kominn var í klandur í borginni. „Hvað segir þú um stöðu Huddersfield?“ – svaraði Davíð og þóttist ekkert skilja. Tilsvarið þótti hnyttið.

Það fer tvennum sögum af því hversu mikinn áhuga Davíð hafi á fótbolta. Hann mun reyndar vera Framari, en ég hef þó alltaf reynt að stilla mig um að láta hann njóta þess. Hafi Davíð fylgst með enska boltanum á unglingsárum sínum gæti hann munað eftir tiltölulega öflugu Huddersfield-liði. Mín kynslóð tengir Huddersfield hins vegar bara við einn leik.

Á seinni hluta níunda áratugarins fengu fótboltaáhugamenn eina beina útsendingu í viku frá Englandi. Það var laugardagsleikurinn, sem enginn mátti missa af. Markaskorurum í öðrum leikjum á getraunaseðlinum var skotið upp á skjáinn, en þeir óþolinmóðu vildu vera nokkrum mínútum á undan silakeppunum í útsendingarstjórninni og hlustuðu á knattspyrnuþátt BBC á langbylgjunni.

Stundum gerðist það að auglýstir sjónvarpsleikir frestuðust á síðustu stundu, t.d. vegna veðurs. Þá brugðu ensku sjónvarpsmennirnir oft á það ráð að flytja búnað sinn yfir á næsta völl þar sem eitthvað var á seyði. Landafræðin réði þar meiru en sjálfar viðureignirnar.

Það voru þessi sjónarmið sem réðu því að leikur Manchester City og Huddersfield var sýndur í nóvember 1987. Þessa helgi áttu Liverpool og Nottingham Forest að mætast, liðin í fyrsta og fjórða sæti efstu deildar. En á síðustu stundu fékk Bobby Robson landsliðsþjálfari Englands leiknum frestað vegna yfirvofandi landsleiks.

Þó ákvörðunin hafi ekki verið tekin samdægurs, hefur sjónvarpsstöðin væntanlega verið búin að bóka hótelherbergi fyrir tökuliðið og senda myndavélarnar norður í land. Öðruvísi er erfitt að skilja þá ákvörðun að velja viðureign City og Huddersfield.

Manchester City var um þessar mundir rétt fyrir neðan miðja næstefstu deild, en Huddersfield átti martraðartímabil, eitt og yfirgefið á botninum. Eftir að hafa rekið stjórann snemma um haustið tók Malcolm MacDonald við. Þetta tímabil varð til þess að drepa þjálfunaráhuga þessarar gömlu Luton-goðsagnar (sem sumir aðrir tengja kannski við Newcastle eða Arsenal). Hann þjálfaði aldrei aftur fótboltalið þrátt fyrir að vera rétt innan við fertugt.

Ég geri ráð fyrir að fréttirnar af útsendingu frá Huddersfield-leik hafi vakið gleði mína. Á þessum árum „safnaði maður liðum“. Nýtt lið séð í sjónvarpi = nýr kross í kladdann.

Ekkert gat þó búið mann undir það sem í vændum var. Huddersfield-liðinu var gjörsamlega slátrað. 3:0, 5:0, 7:0… Ég hafði aldrei séð svona tölur í alvöru fótboltaleik.

Og allt í einu var ég (sem vafalítið hélt með botnliðinu í upphafi leiks) farinn að æsast upp í hvert sinn sem City fór framar á völlinn. Ég varð svekktur þegar Huddersfield fékk víti og minnkaði muninn í 9:1 undir lokin – en aftur kátur þegar tveggja stafa tölunni var náð á lokamínútunni. Mér fannst gaman að horfa upp á litla liðið sundurspilað og niðurlægt. Það er nú ekkert til að vera sérstaklega upp með sér yfir, en svona virkuðu jú rómversku hringleikahúsin líka.

(Mörk Manchester City: Paul Stewart 3, Tony Adcock 3, David White 3, Neil McNab. Mark Huddersfield: Andy May)

Útskriftin: Fótboltasaga mín 4/100

 11. júní 1998. Chile 1 : Austurríki 1

Ég útskrifaðist úr sagnfræðinni vorið 1998. Kláraði á sex önnum sem var fátítt, enda áttu ansi margir nemendur það til að ýta BA-ritgerðinni á undan sér. Þar spilaði inní að skólinn stóð sig afleitlega í að halda nemendum að verki. Nemendur völdu sér ritgerðarefni og skiluðu svo eftir dúk og disk einhverjum hlemmum, sem oft og tíðum voru afrakstur alltof mikillar vinnu miðað við einingafjölda.

Ef eitthvað var ólu kennararnir á þessu. Ekkert hámark var á lengd ritgerða og í náminu var okkur bent á úrvals BA-ritgerðir, sem í raun voru hálfgildings mastersritgerðir og auðvitað slógu þær tóninn. Ritgerðin mín var rúmar hundrað síður, reyndar með nokkuð stóru letri.

Á vormisserinu meðan ég vann að ritgerðaskrifunum var ég ráðinn til Rafmagnsveitunnar að sjá um Minjasafnið. Það átti að vera eins árs verkefni, en teygðist svo allhressilega. Ég hafði hálft í hvoru reiknað með að fresta útskrift til haustsins til að geta snurfusað ritgerðina, en þegar leið að skiladegi rak ég augun í launatöflu og fattaði hversu mörgum þúsundköllum það munaði á mánuði að hafa gráðuna. Þar sem ég var í húsnæðiskaupahugleiðingum tímdi ég ekki að bíða með launahækkunina til haustsins og náði að skila inn handriti á allra-allra-allra síðasta séns, með því að láta Gísla Gunnarsson bíða frameftir í Árnagarði til að smeygja ritgerðinni inn á skrifstofu eftir lokun.

Og þar með var komið að brautskráningu á sjálfan þjóðhátíðardaginn. Það varð úr að halda smáveislu. Öðrum þræði vegna þess að ég hafði ekkert gert í kringum tvítugsafmælið nokkrum misserum fyrr. Það voru pantaðar snittur og pabbi galdraði fram köku sem hann hafði látið tertuskreytingarkonu útí bæ skreyta með myndum af Gasstöð Reykjavíkur – en BA-ritgerðin var einmitt um sögu hennar.

En hvað þá með sjálfa seremóníuna? Ég hlakkaði ekkert sérstaklega til að sitja í marga klukkutíma í Laugardalshöll að hlusta á rektor þylja upp nöfn mörghundruð manna og taka í spaðann á þeim. Og svo þurfti jú eitthvað að undirbúa partýið.

Málið leystist með sjónvarpsdagskránni. Heimsmeistarakeppnin í Frakklandi stóð yfir og á sama tíma og útskriftarathöfnin stæði yfir yrði leikur Chile og Austurríkis í sjónvarpinu.

Nú var leitun að minna áhugaverðum leik á mótinu. Chile var tveggja manna lið byggt utan um Salas og Zamorano. Austurríki var gríðarlega óspennandi og Toni Polster næstur því að vera þekkt nafn. – En þegar kemur að riðlakeppni HM er ekki spurt að slíku. Í fyrstu tveimur umferðunum eða svo er enginn leikur svo óspennandi að maður gefi honum ekki séns. Oftar en ekki endar það svo á algjörri fótboltamettun fljótlega eftir að komið er í útsláttarkeppnina og maður verður þeirri stundu fegnastur þegar mótinu loksins lýkur.

Chile : Austurríki var skólabókardæmi um þetta. Tvö frekar leiðinleg lið mættust í leik sem engum að óvörum varð frekar leiðinlegur. Riðillinn hafði þann eina tilgang að finna út hvaða lið myndi hafna í öðru sæti á eftir Ítölum og þar með mæta Brasilíu í næstu umferð. En leiðindi eða ekki – þetta voru a.m.k. HM-leiðindi og heima sat ég og horfði á leikinn.

Líkt og á móti Kamerún í fyrstu umferðinni, tryggðu Austurríkismenn sér jafntefli með marki á lokamínútunni. Í lokaleiknum gegn Ítölum skoruðu þeir líka á 90.mínútu, en töpuðu þeim leik 2:1. Það hlýtur samt að vera einhvers konar met að ljúka stórmóti með þrjú mörk – sem öll voru skoruð í uppbótartíma.

Síðar lauk ég MSc-gráðu í Edinborg, en tímdi hvorki né nennti að fara út í útskriftina og lét bara senda mér skjalið. Þegar Steinunn kláraði BA-gráðuna sína skrapp hún í heimsókn austur til Norðfjarðar og ekki nenntum við á MA-útskriftina hennar, enda kosningabarátta fyrir Alþingiskosningarnar í fullum gangi. Við erum greinilega ekki útskriftatýpur, enda tökum við væntanlega hvorugt doktorinn – menn verða víst að mæta í vörnina…

(Mark Chile: Marcelo Salas. Mark Austurríkis: Ivica Vastic)

Mágurinn: Fótboltasaga mín 3/100

23. ágúst 2003. HK 4 : Þór 1

Áhuga okkar hjóna á fótbolta er mjög misskipt. Steinunn segist hafa séð einn fótboltaleik á ævinni. Það var vináttuleikur Íslands og Færeyja sem leikinn var í Neskaupstað fyrir löngu, þar sem allir bæjarbúar mættu. Tengdamóðir mín er viðlíka áhugasöm um íþróttina fögru.

Gvendur mágur minn (sem er reyndar aldrei kallaður Gvendur, mér finnst það bara svo skemmtilegt gælunafn) spilaði hins vegar fótbolta – og gerir jafnvel enn með hipsteraliðinu Mjöðm. Þegar við Steinunn byrjuðum saman síðla árs 2001 var hann að æfa með HK, reyndar af síminnkandi krafti.

Ég fylgdist að sjálfsögðu með því á KSÍ-vefnum hvernig HK-liðinu gengi og hafði alltaf á bak við eyrað að kíkja á leik ef vel stæði á. Færið gafst síðla sumars 2003. Þriðji flokkur HK var á fljúgandi siglingu í B-deild Íslandsmótsins og á góðri leið með að tryggja sér sigurinn þar á kostnað Breiðabliks, sem þykir ekki leiðinlegt í þem hluta Kópavogsins.

HK tók á móti Þór í Fagralundi á virku kvöldi í frábæru veðri. Okkur var boðið í mat til tengdó og ég tilkynnti að ég ætlaði að skella mér á leikinn. Greinilegt var að mæðgunum þótti það hin furðulegasta hugmynd og greinilega aldrei haft ímyndunarafl í að mæta og horfa á strákinn spila. (Hér væri viðeigandi að koma með hugvekju um nútímabörn sem upplifa ekki annað en foreldrana sitjandi yfir hverri einustu túrneringu eða íþróttamóti.)

Og ég trítlaði niður í Fagralund. Leið auðvitað eins og boðflennu, enda mæta engir á yngriflokkaleiki aðrir er aðstandendur, nokkrir stjórnarmenn frá viðkomandi íþróttafélagi og fáeinir skólafélagar. Því síður gat ég gírað mig í að fara að klappa eða hrópa með öðru liðinu. Gvendur mágur sat líka á bekknum þar til að kortér var eftir, þegar honum var skipt inn á í vörnina. Þá var leikurinn löngu búinn og staðan orðin 4:1 fyrir heimamenn.

HK var miklu betra liðið og allir vissu hver væri bestur. Rúrik Gíslason var mesta efnið og framtíðaratvinnumaður. Ekkert tók ég hins vegar eftir Aroni Einari Gunnarssyni í Þórsliðinu og því síður markverðinum Arnóri Þór Gunnarssyni í Þórsliðinu eða Ólafi Bjarka Ragnarssyni í HK-vörninni, sem eru víst landsliðsmenn í ruðningi og peysutogi í dag. Svona er maður nú blindur á umhverfi sitt.

(Mörk HK: Sigurður Víðisson 2, Þórhallur Siggeirsson, Guðmundur Atli Steinþórsson. Mark Þórs: Þorsteinn Ingason.)

* * *

Viðbót: Guðmundur Einar uppástendur að hann hafi lagt upp fjórða mark HK og að ég hafi hrósað honum sérstaklega fyrir sendinguna. Mögulega er því mótavefur KSÍ rangur að þessu leyti (og ekki í fyrsta sinn).

Krókurinn: Fótboltasaga mín 2/100

2. júlí 1991. Tindastóll 2 : Haukar 3

Sumarið eftir Hagaskóla fékk ég frábæra vinnu í nokkrar vikur. Ég var ráðinn sem handlangari í byggingarvinnu á Sauðárkróki. Tildrögin voru þau að Teddi, sem um þær mundir var giftur frænku minni, rak ásamt Pétri félaga sínum lítið byggingafyrirtæki. Fyrirtækið hefur reyndar stækkað aðeins í seinni tíð, en á þessum árum verkefnin færri og ekkert verk of smátt til að eigendurnir gripu ekki sjálfir í hamarinn.

Þeir Teddi og Pétur unnu talsvert fyrir ÁTVR og sinntu meðal annars ýmsum viðhaldsverkefnum í útsölunum á landsbyggðinni. Verkið á Sauðárkróki kom þannig til að tilkynnt var um smálekavandamál í áfengisverslun bæjarins, en þegar á hólminn var komið reyndist vandinn stærri og þá var ákveðið í skyndingu að skella upp hallandi þaki og klæða kofann með Steni-plötum.

Við fórum fjórir í verkið: ég, Teddi og tveir smiðir. Þetta var tarnavinna, þar sem farið var í tvígang norður í u.þ.b. tvær vikur í senn og unnið alla daga vikunnar frá 8 til 22. Við sváfum saman í stóru herbergi í gistingu á vegum Hótels Mælifells og átum hádegis- og kvöldverð á hótelinu alla daga. Það eyðilagði fyrir mér pönnusteikta rauðsprettu fyrir lífstíð.

Það var svo sem lítið annað gert en að vinna. Við brugðum okkur þó á barinn í nokkur skipti og þá helst á mánudags- eða þriðjudagskvöldum þegar einu gestirnir voru túristar. Þetta voru fyrstu fylleríin mín sem náðu máli – og ólíkt þægilegra að fikra sig áfram með bjór á bar en með vodkablöndu í gosdrykkjaflösku í bíó eða niðrí miðbæ.

Ég rakaði inn peningum, en það var enginn fótbolti. Fyrir tíma internetsins voru íþróttasíður Moggans og DV eina leiðin til að fylgjast með gangi mála og það var ferlegt að vita af Íslandsmótinu fyrir sunnan en vera upp á dagblöð og útvarp kominn.

Tindastóll á Sauðárkróki var þetta árið á hraðri leið niður úr næstefstu deild. 2-3 árum fyrr hafði Tindastóll virst á beinu brautinni og eflaust einhverjir Skagfirðingar gælt við að komast upp í efstu deild. En það er erfitt að halda út á litlum stöðum og þetta sumarið voru Sauðkrækingar ferlega slappir. Þetta var árið þar sem Skagamenn voru niðri með hjörð af tvítugum strákum sem báru svo uppi meistaralið þeirra næstu árin. Á hinum enda töflunnar sátu svo lið Tindastóls og Hauka – hvort öðru lakara.

Sauðkrækingar unnu einn leik, gerðu eitt jafntefli og töpuðu sextán. Þótt fótboltaþorstinn væri mikill megnuðu Tindastólsleikirnir því sjaldnast að fá mig til að taka pásu frá vinnunni. Fágæt undantekning var leikur Tindastóls og Hauka. Loksins virtist viðráðanlegur andstæðingur kominn í heimsókn!

En Haukarnir unnu 2:3, en heimamenn gátu svekkt sig á einhverjum klúðruðum dauðafærum í lokin. Og hinn leikurinn gegn Haukum tapaðist líka. Eini sigurinn þetta sumarið var gegn Grindvíkingum – en þau úrslit kostuðu líka Grindvíkinga annað sætið í deildinni og Þórsarar undir stjórn Luka Kostic fóru upp um deild.

Og já, litla byggingafyrirtækið hét Eykt.

(Mörk Tindastóls: Grétar Karlsson, Sigurjón Sigurðsson. Mörk Hauka: Rúnar Sigurðsson, Kristján Kristjánsson 2.)