Fótboltasaga mín 1/100

Það er í tísku að skrifa hundrað færslna bloggbálka. Hér mitt framlag – þar sem ég hleyp fram og til baka í sögu minni sem fótboltaáhugamanns og tek fyrir einn leik í hverri færslu. Lofa samt ekki daglegum skrifum, heldur sletti ég í einn og einn pistil þegar ég nenni:

10. maí 1983. Fram 3 : Víkingur 2

Það er best að byrja á byrjuninni. Fyrsta leiknum.

Ég ólst upp á knattspyrnulausu heimili. Mamma og pabbi höfðu engan áhuga á fótbolta þegar ég var krakki. Móðir mín, sundrottningin úr Ægi, hefur aldrei nennt að setja sig inn í fótbolta og þótt pabbi hafi æft með Þrótti sem strákur, mætti hann ekki á völlinn svo árum skipti. Það er helst á allra síðustu árum að hann er farinn að fylgjast aðeins með og nær jafnvel leik eða tveimur á hverju sumri. Í dag þykist hann halda með KR. Svona fer þrjátíu ára búseta í Frostaskjólinu með menn.

En vorið 1983 var ég nýorðinn átta ára. Ég var var ekki undir stjórn Jaruzelskis heldur Gunnars Thoroddsens, sem hlýtur að teljast skárri kostur. Við bjuggum í lítilli blokkaríbúð á Hjarðarhaganum, nánar tiltekið í „Kennarablokkinni“ sem er syðsta íbúðarblokkin við götuna. Við áttum ekki sjónvarp. Það var að hluta til afleiðing af blankheitum foreldra minna, en að hluta til menningarpólitísk ákvörðun. Þau voru ungir róttæklingar sem tóku uppeldi barna sinna alvarlega og vissu að sjónvarp gerði börn að slefandi fávitum.

Þótt mamma og pabbi hefðu ekki áhuga á fótbolta, þá hafði afi minn það. Harri afi, Haraldur Steinþórsson framkvæmdastjóri BSRB, bjó á Neshaganum og ég var með annan fótinn hjá honum og Þóru ömmu. Afi hafði verið formaður í Fram seint á sjötta áratugnum, áður en hann hellti sér útí verkalýðspólitíkina og hætti eiginlega að mæta á leiki. En hann var samt Framari og ég vissi það og vildi vera Framari líka eins og Harri afi.

Og út um gluggann á eldhúsinu í litlu íbúðinni okkar á 3ju hæð í Hjarðarhaga 30 gat ég séð Melavöllinn. Melavöllurinn var í hjarta hverfisins. Við krakkarnir í blokkinni lékum okkur umhverfis hann á sumrin og það fór ekki á milli mála þegar eitthvað mikið var á seyði, bílastæðin fylltust og hróp og köll bárust um hverfið.

Ég þráði að sjá fótboltaleik á Melavellinum: fá að fara inn fyrir gulmálaða bárujárnsgirðinguna. Ekki að ég vissi mikið um fótbolta, annað en það sem ég sá í ensku knattspyrnunni í sjónvarpinu á laugardögum (einmitt heima hjá afa og ömmu, því þau buðu til kvöldverðar á hverju einasta laugardagskvöldi).

Eftir endalaust rex og pex, lét pabbi loksins undan. Hann hnippti í afa og við fórum allir þrír á völlinn og horfðum á Fram og Víking. Pabbi hafði örugglega ekki mætt á meistaraflokksleik frá fermingu. Afi hafði varla sést á Framleik í mörg ár og var vafalítið allan tímann að heilsa gömlum vinum og kunningjum.

Ég man nánast ekkert eftir leiknum, en ég man hvað ég var heillaður allan tímann. Það eina sem mig rámar í er að Víkingarnir fengu vítaspyrnu og skoruðu, en voru látnir endurtaka hana og þá varði Frammarkvörðurinn. Það var Guðmundur Baldursson sem þetta sumar var aðalmarkvörður Fram nítján ára gamall eða þar um bil.

Og já, leikurinn var úrslitaleikur Reykjavíkurmótsins. Framarar voru með fáránlega ungt lið sem öllum bar saman um að væri gríðarlega efnilegt, en hafði tekist að falla um deild og var sigurstranglegasta liðið í 2. deild. Víkingar voru Íslandsmeistarar. Eins og venjulega hafði verið hrært í reglunum og nú var aukastig gefið fyrir að skora þrjú mörk í leik. Með 3:2 sigrinum nældi Fram því í aukastigið og varð Reykjavíkurmeistari. Samt man ég ekki eftir neinni verðlaunaafhendingu í leikslok. Kannski pabbi og afi hafi teymt mig hrekklausan í burtu áður en að henni kom.

En þarna kviknaði eitthvað. Þennan dag varð ég að knattspyrnuáhugamanni.

(Mörk Fram: Hafþór Sveinjónsson, Guðmundur Torfason, Gísli Hjálmtýsson. Mörk Víkings: Ómar Torfason, Gunnar Gunnarsson.)

* * *

Athugasemd: Iss, maður er strax farinn að klúðra! Mér bent á að Gummi Baldurs sé nokkrum árum eldri en ég vildi gera hann í þessari færslu. Fall er fararheill.

Breiðablik heima (bikar):

Sumarið 1983 byrjaði ég að fylgjast með íslenskum fótbolta. Ég var átta ára og bjó rétt hjá Melavellinum. Snemma komumst við krakkarnir upp á lagið með að klöngrast yfir girðinguna við norðanverða stúkuna með því að klifra eftir vírnetinu sem afmarkaði byggingarsvæði Þjóðarbókhlöðunnar. Þarna rifnuðu margar flíkur.

Stundum vorum við krakkarnir bara að leika okkur í stúkunni. Stundum voru leikir í gangi og þá horfði maður. Það voru þó sjaldnast stórstjörnur að spila. Flestir leikirnir voru milli fjórðudeildarliða: Ármanns, Víkverja, Óðins, Árvakurs og annarra slíkra. Einhverju sinni sat ég og horfði á leik þar sem óvenjumikið virtist undir, slæðingur af áhorfendum og meira lagt í umgjörðina (kveikt á vallarklukkunni). Það var toppslagur í B-riðli fjórðudeildar milli ÍR og Stjörnunnar.

Upp frá þessu hef ég alltaf átt erfitt með að viðurkenna ÍR og Stjörnuna sem efstudeildarlið í fótbolta. Samt erum við Framarar að fara að leika við þá í bikarúrslitum eftir hálfan mánuð – og það sem „litla liðið“.

Horfði á leik Fram og Blika í gegnum rússneska vefsíðu sem neyddi mig á 5 mínútna fresti til að horfa á 20 sekúndna auglýsingu um furðulega tölvuleiki, broskallaþjónustu eða táningsstelpur sem þráður mig að sögn. Myndgæðin voru léleg og útsendingin skrykkjótt – en það er ekki hægt að kvarta.

Blikarnir voru ekki sjálfum sér líkir. Reyndar var fyrri hálfleikurinn mjög svipaður því sem gerðist í deildarleik liðanna á Laugardalsvelli fyrr í sumar – þá mættu Blikar varla til leiks og við yfirspiluðum þá í fyrri hálfleik. Í þeim leik settum við bara eitt mark fyrir hlé, en núna voru þau tvö. Orri Gunnarsson kom inn í bakvörðinn og stóð sig ágætlega. Einhverra hluta vegna var norski varnarmaðurinn sem fenginn var til liðsins í glugganum ekki einu sinni á bekknum.

Og talandi um Norðmenn. Þessi norski kantmaður sem lék með Selfossi er ekki að heilla mig, a.m.k. ekki enn sem komið er.

Framararnir eru fljótir fram á við og því vopni var ítrekað beitt. Kristinn Ingi er fáránlega fljótur og þótt hann sé ann bara skugginn af sjálfum sér frá því í fyrra, þá eru andstæðingarnir svo skíthræddir við hann að það eitt léttir öðrum í liðinu lífið. Almarr er leikmaður sem blómstrar í bikarleikjum og átti einn sinn besta leik í sumar. Hólmbert ógnaði vel og átti stóran þátt í fyrsta markinu (þar sem hann var a.m.k. alveg við það að vera rangstæður). Skot hans var varið en frákastið hrökk til Kristins Inga sem vippaði yfir Gunnleif. Almarr sótti svo víti með harðfylgi. Hólmbert er sjálfskipuð vítaskytta liðsins og breytti stöðunni í 2:0. (Ég spyr mig þó hvort ekki væri nær að láta t.d. Hewson taka vítin.)

Í seinni hálfleik hlutu Blikar að hressast, en skoruðu þó ekki fyrr en eftir fágæt mistök Lowings, sem gaf þeim í raun markið og kom Kópavogsbúum inn í leikinn. Ögmundur varði nokkrum sinnum vel. Hann er klárlega sá markvörður hérna heima sem staðið hefur sig best í sumar. Lengra komust gestirnir hins vegar ekki og maður spyr sig hvort lið þeirra hafi í raun og veru viljað jafna leikinn og lenda í framlengingu með mikilvægan Evrópuleik handan við hornið.

Og enn og aftur er Fram komið í bikarúrslit. Fjórir síðustu bikarúrslitaleikir hafa tapast, svo tölfræðin gefur ekki tilefni til bjartsýni. En það er þó eitthvað til að hlakka til næsta hálfa mánuðinn. Allt getur gerst í úrslitaleik og gjaldkerinn má í það minnsta vera ánægður.

…já og maður leiksins? Almarr.

Stóra Aronsmálið

Hvers vegna varð Arons-nafnið svona vinsælt á Íslandi? Þegar ég var pjakkur, hét enginn Aron og ef maður rakst á einhvern með þessu nafni, lá beint við að áætla að viðkomandi væri ættaður frá Bandaríkjunum. (Áttaði mig ekki á kaldhæðninni í þessari setningu fyrr en eftir að ég sló hana inn.) En fyrir svona 25 árum breyttust viðhorfin og í dag er vart þverfótað fyrir íþróttamönnum sem heita Aron að fornafni eða millinafni.

Var það einhver bíómynd sem kom nafninu í tísku? Fjandakornið, ekki tengist þetta Aron í Kauphöllinni? Nei, það getur ekki verið.

En einn af þessum Aronum er sem sagt kominn í fréttirnar af því að hann ætlar að spila fótbolta fyrir landslið Bandaríkjanna en ekki Íslands. Í kjölfarið hófst umræða um réttmæti þess að knattspyrnumenn velji sér landslið. Eins og til að gulltryggja að umræðan leiddist út í tóma vitleysu ákvað KSÍ að blanda sér í málin með ótrúlega klaufskri og fýlulegri yfirlýsingu. Ef litla stúlkan með eldspýturnar hefði haft almannatengslafulltrúa Knattspyrnusambandsins væri hennar líklega minnst sem eins af alræmdustu pýrómönum sögunnar.

Afstaða KSÍ er á þá leið að Aron Jóhannsson (22 ára strákur úr Fjölni sem fæddist í Alabama og bjó þar í 2-3 ár) sé augljóslega Íslendingur og eigi því ekkert með að spila fyrir annað land en Ísland, punktur og basta. Pirringslegur og yfirlætisfullur tónninn í yfirlýsingunni stuðaði flesta lesendur og kölluðu á fyrirsjáanlegar og réttmætar ásakanir um tvöfeldni: hvað með Izudin Daða Dervic sem lék 14 landsleiki fyrir Íslands hönd?

Aðrir íþróttamenn af erlendum uppruna sem keppt hafa fyrir Ísland voru líka dregnir fram. Flestir eru handboltamenn, en á listanum eru líka frjálsíþróttamenn, sundfólk, skákmenn og dáður fimleikakappi. Dæmin voru misgóð. Þannig var Rúnar Alexandersson ríkisfangslaus unglingur sem tilheyrði rússneska þjóðernisminnihlutanum í Lettlandi. (Þar í landi er brotið gegn mannréttindum þessa hóps, en Vestur-Evrópubúum er sama því Lettland er í Nató og okkur almennt illa við Rússa.) Aðrir hafa varla til landsins komið en nýtt íslenskan uppruna afa síns eða ömmu til að komast á stórmót af smálandakvóta.

Einstaklingsíþróttirnar eru spegilmynd hópíþróttanna í þeim skilningi að snjöllum hópíþróttamönnum er „refsað“ fyrir að koma frá smálandi en í einstaklingsgreinunum er verra að hafa ríkisfang milljónaþjóðar. Þokkalega sterkur bandarískur sundmaður getur komist á Ólympíuleika fyrir lítið Evrópuland meðan tuttugu betri samlandar hans þurfa að sitja heima, þar sem Ólympíufarseðlar Bandaríkjanna eru takmörkuð auðlind.

Frá persónulegu sjónarhorni íþróttamannsins er þetta svo sem skiljanlegt, ef við gefum okkur að það sé rökrétt og eðlileg hegðun íþróttamanna (og jafnvel mannskepnunnar sjálfrar) að nota hverja glufu sem býðst. Og ef svo fer að slíkur íþróttamaður nær óvæntum árangri, þá vefst það sjaldan fyrir hinum nýju „samlöndum“ hans að endurskrifa söguna og gera sem mest úr tengslunum. Allir græða – ekki satt?

En auðvitað er svona vegabréfaflakk ekki án fórnarlamba. Ef markmiðið með Ólympíuleikunum væri einungis að tefla saman bestu keppendum í hverri grein væri boðið upp á langhlaup með glás af Kenýa- og Eþíópíubúum en engum fulltrúum heilu heimsálfanna. Íþróttahreyfingin hefur komist að þeirri niðurstöðu að betra sé að ná fram blöndun og hleypa lakari keppendum annarra þjóða inn á kostnað stekari hlaupara öflugustu landanna. Það er því gegn anda reglnanna þegar þau lönd fylla sætin sín með keppendum sem hafa sáralítil raunveruleg tengsl við landið.

Það sama gildir um fótboltann. Núverandi reglur FIFA um keppnisrétt með landsliðum urðu ekki til upp úr þurru. Þær komu til fyrir um áratug eftir að farinn var að myndast markaður þar sem brasilískir knattspyrnumenn með glæný vegabréf frá löndum sem þeir voru nýfluttir til eða höfðu jafnvel aldrei búið í, fóru að skjóta upp kollinum í landsliðum – einkum vellríkra olíuvelda í arabaheiminum.

Ýmsir þeirra sem hafa tjáð sig um stóra Arons-málið, hafa lýst þeirri skoðun að íþróttamenn eigi að fá að keppa fyrir hvaða land sem þeir vilja og annað sé gamaldags þjóðremba. En viljum við í raun þess háttar millilandakeppnir? Allan veturinn horfum við á fótboltakeppnir félagsliða þar sem gildir sú regla að þeir stóru og ríku soga til sín bestu og dýrustu leikmennina og vinna eiginlega alltaf. Bestu leikmenn lakari deildanna eru einn af öðrum keyptir til liða í deildum sem eru ofar í goggunarröðinni og á toppnum sitja 10-20 ofurklúbbar sem drottna yfir öðrum.

Félagsliðafótboltinn er fínn en liggur styrkur landsliðaboltans ekki einmitt í því að þar ráða önnur lögmál? Landsliðsþjálfarar hafa úr afmörkuðu mengi leikmanna að ráða og þurfa að taka ákvarðanir í samræmi við það. Yrði landsliðakeppnin á einhvern hátt skemmtilegri ef bestu leikmennirnir teldu það keppikefli að leika með því landi sem væri „aðal“ hveju sinni? Ef stóru vangavelturnar fyrir næsta HM yrðu um það hvort Suarez ætlaði að gerast Argentínumaður, Breti eða Spánverji – því hann hefði svo mikinn metnað? Værum við þá ekki alveg jafn vel sett að horfa bara á Meistaradeildina út í það óendanlega?

Geir Þorsteinsson er klunni og KSÍ er einstaklega illa lagið að höndla erfiðar aðstæður, en það gerir það þó ekki að verkum að sambandið hafi ekkert til síns máls. Enginn efast um að fyrir Fjölnismanninn frá Alabama væri það spennandi að fá að keppa í úrslitakeppni HM. En það efast heldur enginn um að það hefði verið voða gaman fyrir alla líttþekktu brasilísku leikmennina að spila landsleiki fyrir Óman eða Sameinuðu arabísku furstadæmin. Og það væri eflaust líka mikið stuð fyrir Suarez að eiga séns á heimsmeistaratitli sem Spánverji…

En erum við þá alveg á móti því að leikmenn séu gjaldgengir í landslið ríkja þar sem þeir fæddust ekki eða ólust upp? Nei, að sjálfsögðu ekki. Fullt af fólki flytur búferlum á lífsleiðinni og gerist borgarar annarra ríkja. Og auðvitað verður afstaðan til þeirra keppenda sem svo stendur á með alltaf hræsnisfull.

Við erum himinlifandi með Alexander Petersson í handboltalandsliðinu – en það er líka vegna þess að auk þess að skora fullt af mikilvægum mörkum, mætir hann eftir leikina og talar við Dolla á hálfbjagaðri íslensku og fer reglulega í blaðaviðtöl um ást sína á landinu. Hversu djúpt það ristir er í sjálfu sér aukaatriði, en við stuðningsmenn landsliðsins verðum jafn kát og aðdáendur knattspyrnufélags þegar nýkeypti framherjinn fagnar fyrsta markinu með því að kyssa merki félagsins á brjóstinu á sér.

Og þá erum við kannski komin að því sem pirrar mig mest í tengslum við stóra Aronsmálið. Það er einmitt að það vantar leikþáttinn: Það vantar viðtölin þar sem leikmaðurinn segist eiga hlýjar bernskuminningar frá Bandaríkjunum og hvernig hann hafi í raun alla tíð litið á sig sem hálfgerðan Bandaríkjamann og grátið þegar liðið féll úr keppni á HM 2002, blablabla…

Í staðinn er bara boðið upp á fréttatilkynningu sem vísar í persónulegan metnað – tækifæri leikmannsins til að komast á stórmót og vinna fræga sigra og leika undir stjórn frægs þjálfara. Hefði ekki í það minnsta mátt blöffa smá liðshugsun?

KR heima: 11/22

Síðustu fimmtán árin eða svo hef ég setið við hliðina á Val Norðra á Framleikjunum. Þá sjaldan annar okkar missir af leik, sendir hinn sms með reglulegum skýrslum um gang mála. Á sunnudagskvöldið var Valur staddur í Kaupmannahöfn og sendi mér skilaboð þar sem hann afþakkaði beina sms-lýsingu – tímamismunurinn væri 2 klst. og gæti alveg beðið til morguns að fá upplýsingar um það hvaða rauðhærða barn hefði komið af bekknum og skorað fyrir KR í uppbótartíma.

Og einhvern veginn finnst manni þetta vera saga viðureigna okkar gegn KR síðustu ár – það skiptir engu máli hvort Framararnir eru á hælunum eða spila eins og Brasilía, alltaf vinnur KR 2:1 eftir soft-víti eða að einhver rauðhausinn skalli í netið úr horni á síðustu andartökunum.

Það var því lítið tilefni til bjartsýni fyrir leikinn. Leiktíminn reyndar sniðugur. Hvers vegna ekki að reyna þetta oftar – kl. 21 á sunnudegi er þrælfínn tími. Enginn þarf að puðrast fyrr heim úr sumarbústaðnum eða sleppa sunnudagssteikinni og með bara besta mál að nota flóðljósin í Laugardalnum, nóg kostuðu þau nú.

Fyrri hálfleikurinn minnti á leikinn gegn Blikum, nema að þessu sinni léku andstæðingarnir vel líka. Jón Gunnar Eysteinsson var í miðverðinum ásamt Ólafi Erni. Það væri synd að segja að Jón Gunnar væri uppáhaldsleikmaðurinn minn. En í þessum leik var hann mjög góður. Það skyldi þó aldrei vera að hann virki betur sem miðvörður en miðvallarleikmaður.

Eina mark fyrri hálfleiks kom eftir góðan undirbúning Almarrs og fína afgreiðslu Hólmberts. Mörkin hefðu að ósekju mátt vera tvö – og ekki í fyrsta sinn sem Framarar fara inn í leikhléið með þá tilfinningu í maganum.

Í seinni hálfleik bakkaði Framliðið mikið. Ólafur Örn hafði þá þurft að yfirgefa völlinn, sem Ríkharður leysti með því að senda Lowing í miðvörðinn og Benedikt Októ í bakvörðinn – sá síðarnefndi átti mjög góðan leik. Fáir í deildinni hlaupa jafn hratt enda tókst honum að pakka Óskari Erni KR-ingi saman í leiknum.

Með vaxandi sóknarþunga KR gat það aldrei verið nema tímaspursmál hvenær jöfnunarmarkið kæmi. Aðeins frammistaða Ögmundar (sem er einmitt besti markvörður deildarinnar) kom í veg fyrir að það sæi dagsins ljós fyrr. Eftir jöfnunarmarkið voru allir í stúkunni vissir um að næsta Vesturbæjarmark kæmi innan tíðar. En Ríkharður átti ás uppi í erminni: Kristinn Inga.

Samuel Hewson átti frábæra stungusendingu þar sem Kristinn stakk alla af sér og setti boltann fram hjá áttavilltum Hannesi Þór, 2:1. Síðustu mínúturnar pakkaði Fram í vörn, en var þó ekkert fjær því að skora en gestirnir.

Maður leiksins? Tjah, það væri klisja að velja Ögmund. Steven Lennon var líka mjög drjúgur. Vel samt Samuel Hewson að þessu sinni.

Grótta úti (bikar):

Það er engin skýrsla um FH-leikinn. Við fjölskyldan fórum í sveitina með vinafólki, svo ég missti af fyrsta leiknum í sumar. Það var víst bara ágætt eftir á að hyggja.

* * *

Aldrei þessu vant var logn á Seltjarnarnesi í kvöld. Fullt af fólki, enda stærsti leikur Gróttumanna í fleiri ár. Hewson var í leikbanni, svo Jón Gunnar fór inn á miðjuna. Lowing var settur í miðvörðinn við hlið Ólafs Bjarnar og Benedikt Ottó í bakvörðinn. Áhugaverð tilraun og sjálfsagt að halda henni áfram. Lowing er líklega besti miðvörðurinn okkar og óþarfi að binda hann í bakvarðardjobbinu ef hægt er að leysa málið öðru vísi.

Grótta pakkaði í vörn frá fyrstu mínútu. Framarar sóttu stíft í byrjun og hefðu með smáheppni getað drepið leikinn á fyrstu mínútunum. Um miðjan fyrri hálfleikinn kom fyrsta markið. Hólmbert skallaði niður í teiginn og líklega má þakka gervigrasinu  að boltinn skaust ekki beint útaf heldur endaði hjá Almarri sem skoraði vel.

Fram fékk nokkur tækifæri til að bæta við mörkum, en alltof oft virtust menn ætla að sóla sig alla leiðina í gegn eða reyndu sendingar inn á teiginn sem stóru miðverðirnir hjá Seltjarnarnesliðinu áttu ekki í vandræðum með að skalla frá. Eftir því sem leið á leikinn urðu varnarmenn Gróttu öruggari með sig og þeim fór að ganga betur að verjast Frömurum.

Í heimsfótboltanum held ég með Úrúgvæ – ekki hvað síst vegna þess hvað lið þeirra getur leikið þéttan varnarleik þar sem allir taka þátt. Fyrir vikið hlýt ég að hrífast af baráttunni í Gróttuliðinu. Frábær vinnsla og varnarleikur!

Um miðjan seinni hálfleikinn sáu allir í stúkunni hvað var að gerast. Framsóknin hélt áfram, án þess að nein opin færi sköpuðust. Grótta spilaði hins vegar upp á skyndisóknir, vitandi að eitt og eitt færi myndi líta dagsins ljós. Jöfnunarmarkið kom þegar kortér var til leiksloka eftir óskaplegt hnoð þar sem Ögmundur leit ekki vel út. Framarar fóru á taugum og einhvern veginn varð maður hálf feginn þegar flautað var til loka venjulegs leiktíma.

Í framlengingunni héldu Framarar áfram að sækja án þess þó að valda öftustu varnarlínu heimamanna verulegum vandræðum. Markvörður Gróttu þurfti t.a.m. afar sjaldan að grípa inní – sem var líklega eins gott þeirra vegna, því hann virtist afar brothættur.

Allir voru farnir að búa sig undir vítakeppni, En hversu oft hefur maður ekki séð litlu liðin í bikarkeppninni fá mark í andlitið á lokaandartökunum? Sú varð raunin að þessu sinni eftir „soft“ víti.

Aron Albertsson, táningur sem kom frá Breiðabliki, var þriðja skipting Framara í leiknum. Þegar mínúta var til leiksloka prjónaði hann sig framhjá einum Gróttumanninum – vissi af honum fyrir aftan sig, lyfti upp fætinum og beið eftir því að vera hlaupinn niður. Það gekk eftir. – Línuvörðurinn flaggaði víti, en Kristinn Jakobsson var kominn með gula spjaldið í hendurnar. Ég er nánast viss um að hann ætlaði að dæma markspyrnu og spjalda Aron, en fór eftir aðstoðardómaranum og gaf vesalings Gróttumanninum áminningu til þess að líta ekki aulalega út með spjaldið í lúkunum.

Lennon afgreiddi svo vítið snyrtilega. Stórkostlegri niðurlægingu afstýrt og sæti í undanúrslitum í höfn.

Framararnir í stúkunni deildu talsvert sín á milli um vítið. Allir voru sammála um að þetta hefði verið lítil snerting, en þeir jákvæðari í hópnum tóku þá línu að „strákurinn hefði sótt þetta mjög vel“.

Framari leiksins? Tjah, er siðlaust að nefna Aron fyrir að hafa staðið sig vel í að fiska víti? Segjum þá bara Viktor Bjarki frekar en ekki neinni.

Pant fá Breiðablik heima – það þarf að leiðrétta ákveðinn misskilning frá síðasta leik.

 

Breiðablik heima: 9/22

Einhverra hluta vegna hefur Fram tak á Breiðablik. 2010 þegar Blikar urðu Íslandsmeistarar, tóku Framarar 4 stig af þeim. Ég kann ekki að skýra ástæður þessa – læt mér nægja að kætast yfir að það sé amk eitt lið sem eigi í vandræðum með okkur.

Það var ein óvænt breyting á byrjunarliði Fram. Haukur Baldvinsson kom inn fyrir Dóra sem hefur líklega þurft að jafna sig eftir að einn Eyjafanturinn stímdi inn í síðuna á honum í síðasta leik. Það þarf alvöru högg til að koma Dóra út úr liðinu. Hann er vinnuhesturinn í liðinu og því smkv. skilgreiningu uppáhald stuðningsmanna. Haukur hefur ekki heillað mig í sumar, en í þessum leik var hann fínn. Óheppinn að skora ekki, en Gunnleifur í Blikamarkinu átti líka stórleik. Gunnleifur og Ömmi eru klárlega tveir bestu markmenn Íslands um þessar mundir.

Fyrri hálfleikurinn var það besta sem ég hef séð til Framara í sumar. Við pökkuðum Kópavogsbúum saman. Lennon sprengdi upp vörn þeirra að vild. Sama gilti um Almarr. Og Lowing virtist ætla að spila sig inn í landsliðið… skoska landsliðið það er.

Áttum fullt af færum og hefðum átt að vera 3-4 mörkum yfir í hálfleik. En bara eitt mark leit dagsins ljós – og þá voru það bakverðirnir tveir sem voru að verki. Lowing plataði einn Blikann upp úr skónum og sendi fyrir, einhver skallað frá og boltinn barst fyrir fætur Halsman sem var vel fyrir utan vítateig en setti boltann í hornið (með vinstri) eins og besti framherji.

Í seinni hálfleik sannaðist hvílíkt klúður það var að hafa bara skorað einu sinni. Almarr fór útaf í hálfleik, meiddur. Blikarnir komu ákveðnir til leiks og skyndilega snerist taflið við. Þeir sóttu linnulítið en Framarar voru andlausir. Ömmi hélt okkur á floti með nokkrum glæsimarkvörslum. Ólíklegustu menn klikkuðu í varnarleiknum og smátt og smátt dró meira af liðinu. Ekki hjálpaði að slakur dómari leyfði endalausar bakhrindingar (einkennismerki liða sem Óli Kristjáns þjálfar) með þeirri undantekningu þó að Hólmbert mátti ekki snerta nokkurn andstæðing án þess að flautað væri.

Það kom ekkert á óvart þegar Blikar jöfnuðu og í raun máttum við teljast heppnir að tapa þessu ekki hreinlega. Jafntefli ásættanleg úrslit miðað við allt og allt.

Maður leiksins var Halldór Arnarsson sem er óvænt orðinn byrjunarliðsmaður eftir að Bjarni Hólm meiddist. Óvenjulegt að sjá miðvörð falla svona hratt og örugglega inn í lið.

ÍBV úti: 8/22

Versta fótboltaferð mín til Eyja var fyrir mörgum árum. Flogið var frá Bakka. Man ekki hvernig ég komst þangað – hvort það var í liðsrútunni eða á bíl einhvers stuðningsmannsins. Allir voru kátir og frekar bjartsýnir.

Um leið og lent var á Vestmannaeyjaflugvelli féllu fyrstu regndroparnir. Og svo fleiri. Og svo enn fleiri. Í hálfleik var ég orðinn hundblautur. Í leikslok var ekki þurr þráður á mér. ALLT var blautt: nærfötin, sokkarnir… Pappírskvittanir og sneplar sem ég hafði geymt í seðlaveskinu eyðilögðust. GSM-sími mannsins við hliðina á mér dó og fór í ruslatunnuna.

Að sjálfsögðu var flugið fellt niður. Við þurftum því að finna okkur hótel (sem voru ekki útgjöld sem reiknað hafði verið með í fjárhagsáætlun mánaðarins). Ég skreið inn á herbergi, vatt þau föt sem hægt var að vinda. Ofnarnir voru rafmagnsofnar sem ekki mátti setja föt á. Eftir skamma hvíld var svo haldið aftur út, í hundblautum fötunum og farið á næsta bar. Þar var nokkrum bjórum slátrað – og það sem verra var, viskýi.

Vaknaði þunnur daginn eftir. Fötin ennþá rök. Klæddi mig í leppana. Ekkert flug. – Enduðum á að sigla heim með Herjólfi til Þorlákshafnar. Leiðinlegt í sjóinn og ég ennþá þunnur. (Hefur komið fram að ég var blautur líka?) Og auðvitað töpuðum við helvítis leiknum.

Með þetta sem mælistiku, er erfitt að vera of fúll yfir leiknum á sunnudaginn. Famelían gerði úr þessu ferðalag. Gistum tvær nætur í fínu veðri í Eyjum og skoðuðum allt það helsta. Leikurinn var ekki upp á marga fiska. Framararnir fremur hugmyndasnauðir og ógnuðu lítið fram á við. Í seinni hálfleik var ÍBV miklu ákveðnara og hefði skorað fyrr ef ekki væri fyrir 1-2 góðar vörslur frá Ömma. ÍR-ingurinn spilaði annan leikinn í röð í miðverðinum, að þessu sinni eftir að Bjarni Hólm meiddist. Slapp þokkalega frá sínu. Það er drjúgt að hafa nothæfan varnarmann á bekknum. 1:0 tap og svo sem bara í samræmi við gang leiksins. Sjitt happens, ég kom þó amk þurr heim.

Framari leiksins: Ólafur Örn Bjarnason.

Falur fertugur: Safn til sögu íslenskrar teiknimyndasagnaútgáfu

Vorið 1973 hóf ný teiknimyndasaga göngu sína á íþróttasíðum hollenska dagblaðsins Algeneen Dagblad. Höfundurinn var John le Noble, blaðamaður á íþróttadeildinni og teiknarinn Toon van Driel – saman kölluðu þeir félagarnir sig Toon & Joop. Sögurnar fjölluðu um knattspyrnuliðið F.C. Knudde, sem nefndist upp á íslensku Fótboltafélagið Falur.

Falsliðið er skipað fáráðlingum og hefur að geyma flestar staðalmyndir knattspyrnunnar: lánlausa markmanninn, nautheimska varnarfantinn, teprulega suður-ameríska leikmanninn og ráðalausa þjálfarann. Þrátt fyrir rýran mannauð standa Falsmenn uppi sem sigurvegarar í lok hvers ævintýris, fyrir runu heppilegra tilviljanna eða vegna bellibragða hins siðblinda Nebba flippara – aðalstyrktaraðila félagsins og umsvifamikils sölumanns hrekkjaleikfanga.

Óhætt er að kalla Falsara Íslandsvini, því þegar farið var að gefa ævintýri þeirra út á bókarformi árið 1978 lá leiðin til Íslands í tveimur af þremur fyrstu sögunum. Fyrsta bókin, Falur á heimavelli, kynnir helstu persónur til sögu og gerist að öllu leyti í Hollandi. Önnur bókin, Falur í Argentínu, lýsir því þegar Falsmenn hlaupa í skarðið fyrir hollenska landsliðið á HM í Argentínu 1978 og vinna að sjálfsögðu, eftir æfingaferð til Íslands. Þriðja bókin, Falur á Íslandi, gerist svo öll á Fróni.

 

Mörgæsir og hreindýrasleðar

Ísland þeirra Toons og Joops kemur þó kunnugum spánskt fyrir sjónir. Innfæddir búa í snjóhúsum, ferðast um á hunda- og hreindýrasleðum, éta heilsoðna hvali í hvert mál og knattspyrnuvöllurinn er skautasvell alsett mörgæsum. Ferðalagið milli meginlandsins og Íslands var sömuleiðis óvenjulegt, þar sem leikmenn voru sendir með rörpósti á vegum Flugleiða.

Síðar áttu leiðir Falsmanna eftir að liggja til enn fleiri landa, svo sem á söguslóðir sápuóperunnar Dallas, til fundar við blóðsugur og næturdýr í Transylvaníu, á sléttur Afríku og út í geiminn. Nýjar sögur héldu áfram að bætast við bókaflokkinn fram á miðjan tíunda áratuginn og urðu þær um 35 að lokum, auk fjölda safnrita með stökum skrítlum frá fyrstu árum sagnaflokksins. Á dögunum kom svo út veglegt fjörutíu ára afmælishefti þar sem saga Fótboltafélagsins Fals er rakin í máli og myndum.

Þessi ævintýri fóru þó fram hjá íslenskum lesendum, því einungis þrjár sögurnar voru gefnar út hér á landi af forlaginu Erni og Örlygi árin 1979, 1980 og 1981. Í dag seljast góð eintök af þessum bókum fyrir 5.000 krónur í íslenskum fornbókaverslunum.

 

Frávik í bókaútgáfu

Það er í sjálfu sér merkilegt að nokkur Falsbók hafi komið út á Íslandi yfirhöfuð. Teiknimyndasöguútgáfa stóð í miklum blóma á áttunda og níunda áratugnum, en bókaforlögin Iðunn og Fjölvi sátu ein að markaðnum, ef frá er talið Setberg sem gaf út sögurnar um Steina sterka. Örn og Örlygur höfðu ekki fyrr blandað sér í þessa samkeppni.

Í öðru lagi vekur athygli að Falsbækurnar voru hollenskar, en á teiknimyndasögusviðinu standa Hollendingar algjörlega í skugganum á grönnum sínum sunnan landamæranna. Belgísk útgáfufyrirtæki hafa um áratugaskeið pundað út teiknimyndasögum á frönsku sem náð hafa mikilli útbreiðslu í krafti stærðar málsvæðisins. Má þar nefna sagnaflokka á borð við Tinna, Sval og Val, Lukku Láka, Yoko Tsuno og Strumpana.

Belgísk/franska teiknimyndahefðin er öflug og vinsælustu sögur hennar eru þýddar á fjölda tungumála. Frönskumælandi þjóðirnar gefa hins vegar lítið fyrir teiknimyndasögur á öðrum tungumálum og hirða sjaldnast um að þýða þær. Hollenskir teiknimyndahöfundar geta því sjaldnast vænst þess að skrifa fyrir stóran lesendahóp. Falsbækurnar voru því lítt kunnar utan Hollands og voru til að mynda ekki gefnar út á hinum Norðurlöndunum, eftir því sem næst verður komist. Þetta skiptir talsverðu máli varðandi Ísland, þar sem nær allar teiknimyndaútgáfur þessara ára voru hluti af samprenti með dönskum útgáfufyrirtækjum. Falsbækurnar voru á hinn bóginn sjálfstætt útgáfuverkefni, filmusettar hjá Prentstofu G. Benediktssonar en prentaðar á Ítalíu.

Í þriðja lagi verður ekki fram hjá því litið að frá listrænu sjónarhorni rista sögurnar um Fótboltafélagið Fal grunnt. Teikningarnar eru hráar og grófar, bakgrunnsmyndir einfaldar og litavinna einföld. Þótt sögurnar njóti vinsælda í Hollandi, rata þær nær aldrei inn á vefsíður eða gagnabanka um teiknimyndasögur heimsins og á Wikipediu er aðeins að finna tvær fremur yfirborðskenndar greinar, á hollensku og á þýsku.

 

Blaðað á flugvelli

Sagan á bak við útgáfuævintýrið hófst þegar ungur Verslunarskólanemi, Ólafur Garðarsson (síðar lögmaður og kunnasti umboðsmaður íslenskra knattspyrnumanna erlendis) var á flugvelli í Vínarborg að leita sér að lesefni á leið til Íslands. „Ég fann ekki neitt á ensku og greip því þýska útgáfu af þessari teiknimyndasögu. Mér fannst hún skemmtileg og sá að þetta gæti fallið í kramið“, segir Ólafur.

Þegar heim var komið gekk Ólafur á fund Örlygs Hálfdánarsonar með bókina góðu. „Maður var alltaf á höttunum eftir aukapening á framhaldsskólaárunum og seinna í Háskólanum og þýðingar voru mjög hentugt aukaverkefni. Ég sýndi Örlygi bókina og bauðst til að þýða hana fyrir tiltekna upphæð, ef hann sæi um að tryggja öll útgáfuréttindi. Hann gekkst að þessu og við handsöluðum samkomulag og sáum aldrei ástæðu til að skrifa undir eitt eða neitt, enda stóð Örlygur samviskusamlega við allt sitt.“

Fyrsta Fals-bókin var sem sagt þýdd úr þýsku og það sama gildir um þriðju bókina. „Miðjubókin barst hins vegar aldrei á þýsku, einhverra hluta vegna“, segir Ólafur. „Þegar komið var í algjört óefni neyddist ég því til að setjast niður með orðabók og snara henni úr hollensku. Það var nú reyndar ekkert stórmál, þýskan og hollenskan eru keimlík tungumál og þýðingin var nú ansi frjálsleg.“

Viðtökur lesenda voru góðar og bækurnar seldust vel, enda teiknimyndasöguútgáfa afar ábatasöm á Íslandi á þessum árum. Ekki varð þó framhald á útgáfunni og segir Ólafur ástæðuna ekki hafa verið slaka sölu heldur hafi hann kosið að snúa sér að öðrum verkefnum.

Víkingur úti (bikar):

Það var rosalega fínt veður í Ólafsvík og vallarstæðið er mögulega það flottasta á landinu. Þar með eru góðu tíðindin af bikarleik Fram og Víkings upptalin.

 

Halldór Arnarsson kom inn í Framliðið fyrir Ólaf Örn, sem er væntanlega meiddur. Að öðru leyti var þetta sama byrjunarlið og búast mátti við. Fyrri hálfleikur var afar tilþrifalítill. Heimamenn ógnuðu sáralítið og Framarar skoruðu eitt mark án þess að fara nokkru sinni úr öðrum gír. Lennon átti heiðurinn að markinu, þótt Almarr hefði skorað.

Í byrjun seinni hálfleiks virtist Fram ætla að klára leikinn og fékk þrjú góð færi á stuttum tíma. Ekkert þeirra rataði þó í netið.

Þegar tæpur hálftími var eftir fóru Almarr og Kristinn Ingi báðir meiddir af velli og þótt skyndilega datt botninn úr miðjuspilinu. Víkingar fóru að sækja nokkuð stíft og enginn varð hissa þegar þeim tókst að jafna. Það sem eftir leið leiks og í framlengingunni máttu Ólafsvíkingar teljast líklegri ef eitthvað er.

Vítakeppnin var bara vítakeppni og við unnum.

Það er erfitt að velja Framara leiksins. Ögmundur fékk eitt erfitt skot á sig og varði það vel. Ætli Almarr fái samt ekki titilinn, ekki vegna þess að manni hafi fundist hann eiga neinn stjörnuleik þegar hann var inná heldur vegna þess hvað munaði um hann þegar hann fór útaf.

Varð steinhissa þegar heim var komið og ég leit á umfjallanir á fótboltasíðunum, þar sem leikurinn fékk bara nokkuð góða einkunn og frammistaða heimamanna var talin mjög góð. Það bendir til að þetta verði langt og erfitt sumar á Snæfellsnesinu.

Fjórðungsúrslitin bíða. Víkingur Reykjavík á útivelli væri fínt. Líka ágætt að fara á Kópavogsvöllinn.