Þór heima: 7/22

Það myndaðist kvíðahnútur í maganum þegar Þorvaldur Örlygsson sagði upp störfum óvænt og skyndilega. Toddi var almennt mjög vel liðinn af stuðningsmönnum Fram – sem og leikmönnum. Maður var því skíthræddur um að los kæmist á mannskapinn og allt gæti farið í hönk.

Þær áhyggjur reyndust ástæðulausar. Undir stjórn Ríkharðs og Auðuns unnu Framarar í Keflavík (vissulega hálfgerðan heppnissigur) og í dag voru Þórsarar lagðir að velli vandræðalítið.

Þór Akureyri er ekki sérstaklega gott fótboltalið. Það eru reyndar talsvert mörg slök fótboltalið í deildinni í ár. Vörnin þeirra lekur mörkum (20 mörk á sig í 7 leikjum er alltof mikið) og miðjan er veik.

Það var samt ekkert sérstakt í spilunum sem benti til að Framarar væru að fara að skora fyrr en um miðjan fyrri hálfleikinn þegar Hólmbert náði góðri rispu og negldi í slánna og inn. Boltinn fór augljóslega í höndina á Hólmberti, en þetta var leikur þar sem dómarinn ákvað að flauta aldrei á það þegar leikmenn handléku knöttinn.

Sagt er um fótboltann að stundum sé hann „stöngin út“ – stundum „stöngin inn“. Í dag var þetta meira svona „sláin inn“. Skömmu eftir mark Hólmberts náði Lennon að skalla í slá og inn úr þröngu færi. 2:0 í hálfleik eftir að Framarar höfðu í raun ekki átt nema þrjú alvöru færi og Þórsarar 3-4 hálffæri.

Þór minnkaði muninn eftir aulagang í Framvörninni á upphafsmínútum seinni hálfleiks og við í stúkunni krossuðum okkur og sáum fram á barning og nauðvörn. Gestirnir héldu hins vegar ekki einbeitingunni og Hólmbert skoraði nánast í næstu sókn. Í stöðunni 3:1 gáfust Þórsarar upp og Framarar gengu á lagið. Lennon lagði frábærlega upp þriðja mark Hólmberts – sem mér skilst að hafi þar með skorað fyrstu þrennu sumarsins í efstu deild karla. Hólmbert verður því væntanlega valinn maður umferðarinnar, þótt í raun hafi Lennon verið bestur í leiknum.

Hverjir aðrir stóðu sig vel? Jú, það mætti nefna Viktor Bjarka sem átti sinn besta leik í sumar áður en hann þurfti að fara út af eftir smáhnjask efitr rúman klukkutíma. Hewson og Dóri voru líka traustir á miðjunni. Síðustu tíu mínúturnar fékk einhver átján ára gutti að spreyta sig. Á honum kann ég engin deili nema að hann heitir Aron. Það sannar ekki neitt, annar hvor gutti á þessum aldri heitir Aron.

Maður leiksins: Steven Lennon

Keflavík úti: 6/22

Við töpum alltaf í Keflavík. Og það er alltaf kalt. Nema 2008 þegar við unnum Keflvíkinga í lokaumferðinni og rændum meistaratitlinum fyrir framan 5.000 manns eða e-ð álíka. Það er því ekkert skrítið þótt maður sé smástund að jafna sig á sigri í Keflavík í þokkalegu veðri.

Furðulegur leikur undir stjórn nýja þjálfarateymisins. Byrjuðum illa. Keflvíkingarnir voru sannast sagna mun sterkari og tóku völdin á miðjunni um miðbik fyrri hálfleiksins. Eftir það hélt Ögmundur okkur inni í leiknum með nokkrum frábærum markvörslum einn á móti Keflvíkingum. Eitt skotið small svo í slánna. Eftir 35 mínútur var maður farinn að horfa ískyggilega mikið á klukkuna að telja niður í leikhléð.

En ákvað einn Keflvíkingurinn að færa okkur leikinn á silfurfati. Hann hrinti skoska bakverðinum sem ég er ekki enn búinn að læra hvað heitir (Haslam, Halsam?) og fékk rauða spjaldið fyrir. Í kjölfarið blésu Framarar til fágætrar sóknar og Hólmbert skoraði eftir augnabliks kæruleysi í Keflavíkusvörninni. 0:1 í hálfleik, eftur að hafa verið á hælunum allan tímann.

Framararnir komu sjálfsöruggir til leiks eftir hlé og fyrstu fimmtán mínúturnar vorum við miklu betri. Splundruðum varnarlínu Keflvíkinga ítrekað, þar sem rangstöðutaktíkin þeirra reyndist afar brothætt. Í einu slíku tilvikinu komst Steven Lennon í gegn og skoraði. Mér fannst hann rangstæður og stuðningsmenn Keflvíkinga urðu foxillir, en aðrir þóttust hafa séð þetta betur og Keflvíkingarnir hefðu bara klikkað. Verður gaman að sjá upptökuna í sjónvarpinu.

Strategía Keflvíkinga til að jafna metin var sú helst að senda háa bolta fram á við, sem Bjarni Hólm og Ólafur Örn áttu ekki í miklum vandræðum með að skalla frá. Ánægjuleg tilbreyting að það séum ekki við að reyna háar sendingar gegn hávöxnum miðvörðum. Í raun var óskaplega lítið að gerast í sóknarleik heimamanna þar til fremur slakt skot small í hausnum á Bjarna Hólm, breytti um stefnu og hafnaði í netinu, 1:2.

Við tóku 20 mínútur af stressi, en Keflvíkingarnir voru orðnir of þreyttir manni færri á þungum velli til að nýta sér veikleika Framliðsins. Fágætur útisigur á velli sem geymir fáar góðar minningar. Maður leiksins Ögmundur Kristinsson.

 

19:34

Leikur Japans og Ástralíu í Asíuforkeppni HM í fótbolta hefst kl. 19:34 á japönskum tíma. Ég minnist þess ekki að hafa séð leik tímasettan með slíkri nákvæmni fyrr. Myndi líta á þetta sem einhvers konar brandara ef ekki væri um Japani að ræða. Væru þeir ekki einmitt nógu bilaðir til að ákveða að hefja leik fjórar mínútur yfir hálfa tímann?

Nú þarf ég að reikna út tímamismuninn milli Íslands og Japan til að geta haft annað augað á leiknum. Asíuforkeppnin er nefnilega óvenjuspennandi að þessu sinni. Tíu lið eru eftir í keppninni. Þau leika í tveimur fimm liða riðlum og komast tvö efstu sætin úr hvorum riðli beint á HM í Brasilíu. Liðin í þriðju sætunum keppa innbyrðis um umspilsrétt gegn einu Suður-Ameríkulandinu.

Í öðrum riðlinum voru Japanir og Ástralar taldir öruggir um sigur, en Írak líklegasti þriðja sætis kandídatinn. Óman og Jórdanía áttu svo að reka lestina.

Það hefur hins vegar allt gengið á afturfótunum hjá Ástralíu, sem er með einn sigur og þrjú jafntefli í fimm leikjum. Ósigur í Japan kl. 19:34 gæti farið langt með að koma andfætlingum úr keppni. Japan mistókst á hinn bóginn að verða fyrsta liðið fyrir utan gestgjafana til að tryggja sér sæti í úrslitunum þegar liðið tapaði fyrir Jórdaníu í síðasta leik. Fyrir vikið geta Japanir ekki leyft sér að slaka á alveg strax og þurfa eitt stig úr lokaleikjunum gegn annað hvort Ástralíu eða Írak.

Kraftaverk eitt getur komið í veg fyrir að Japan vinni riðilinn, en hvað með annað sætið? Jórdanía er með sjö stig og tvo leiki eftir. Ástralía sex stig og þrjá leiki. Óman sex stig en aðeins tvo leiki. Írak á botninum með fimm stig en þrjá leiki eftir. Síðar í dag mætast Óman og Írak í leik sem ræður því hvort soldánsdæmið í mynni Persaflóa nær að hanga áfram í baráttunni.

Jórdanía er samt öskubuskuævintýrið sem flestir hljóta að vonast eftir. Liðið er hvorki sögulegt stórveldi í Asíuboltanum né keyrt áfram af óhóflegum olíuauði. Niðurstaða: Áfram Japan og megi Óman og Írak gera jafntefli!

***

Í hinum riðlinum er staðan líka í hnút. Líbanon situr á botninum með fjögur stig og er úr leik. Katar er sömuleiðis í vondum málum með sjö stig og bara tvo leiki til góða. Til að eiga minnstu von um áframhaldandi keppni verða gestgjafarnir 2022 að vinna Írani á heimavelli í dag. Íran er líka með sjö stig en þrjá leiki eftir.

Vinni Suður-Kóreumenn í Líbanon á eftir, kemst liðið á toppinn. Suður-Kórea er sem stendur með tíu stig og þrjá leiki eftir. Toppliðið frá Úsbekistan er hins vegar með ellefu stig en spilar ekki í dag. Úsbekar eru ein af stórþjóðum Asíuboltans en hafa aldrei komist á HM. Það hlýtur eiginlega að breytast núna.

Vill maður ekki alltaf ný lið á HM? Áfram Katar og Líbanon í dag…

 

Skaginn úti, Stjarnan heima, Valur úti (bikar)

Er ég alveg að fokka upp þessari bloggseríu? Best að hreinsa upp gamlar syndir og slá þrjár flugur í einu höggi:

Ég mætti upp á Skaga kvöldið fyrir maraþonræðuna. Það var e.t.v. fífldirfska í ljósi þess að það var rok og frekar kalt. Fékk ekki kvef, en það var það jákvæðasta við leikinn.

Þegar ég skrifaði um fótbolta fyrir Moggann fyrir hundrað árum tók ég leik á Skaganum. Í blaðamannastúkunni var búið að hengja upp blað sem sýndi vindrósir og töflu yfir vindhraða á Skipaskaga og í Reykjavík. Þar voru færð rök fyrir því að í raun væri ekki vindasamt á Skaganum – gott ef það væri ekki meira logn þar en í höfuðborginni. Svona má ljúga með tölfræði.

Það er alltaf rok á Skaganum. Og þetta var einn af þessum leikjum sem einkenndist af veðuraðstæðum. Framarar yfirspiluðu heimamenn í fyrri hálfleik með sterkan vind í bakið. Markvörður Skagamanna var góður, varnarmennirnir heppir og sumir Framararnir óskynsamir (Lennon skaut t.d. ALLTAF á markið).

En leikmenn ÍA eru aldir upp á þessum velli og kunna miklu betur en nokkrir aðrir að spila í þessum veðuraðstæðum. Þeir skoruðu úr sinni einu sókn í fyrri hálfleiknum – á lokasekúndunni. Annað mark fylgdi í kjölfarið snemma í seinni hálfleik. Svo tókst Skagamönnum að drepa leikinn og spilamennska Framara varð sífellt örvæningarfyllri. Framari leiksins: Hólmbert Aron Friðjónsson.

***

Fram og Stjarnan hafa oft átt fjöruga markaleiki. Síðasti leikur á Laugardalsvelli var ekki einn þeirra. Stjörnuliðið í ár er alls ekki eins vel spilandi og skemmtilegt og verið hefur síðustu ár. Er Logi með svona mikið leiðinlegri stíl en Bjarni? Sem fyrr voru Framarar betri í fyrri hálfleik (við erum meistarar fyrri hálfleikjanna í ár) en skoruðu ekki. Hólmbert fékk dauðafæri en nýtti ekki. Stjarnan skapaði lítið en fékk mark upp úr engu þegar Ólafur Örn var að gaufa með boltann í teignum. Ergileg byrjendamistök hjá reyndasta manninum.

Í seinni hálfleik voru Framarar andlausir, sendingar ónákvæmar og ekkert að gerast. Markalaust jafntefli hefði líklega verið sanngjarnast en í raun átti enginn skilið að fá neitt út úr leiknum. Ögmundur markvörður var Framari leiksins sem segir sína sögu.

***

Það er einhvernveginn hálfgert svindl að dragast gegn úrvalsdeildarliði á útivelli í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar og fá „alvöru“ leik á meðan hin liðin trimma á móti hálfgerðum firmaliðum. En á hinn bóginn er líka miklu meira gaman að fara þessa leiðina ef manni tekst að vinna – hvað þá þegar andstæðingarnir eru Valur. Það er fáránlega mikið skemmtilegra að vinna Val en t.d. Fylki.

Það voru fáir á vellinum. Miklu færri mæta á bikarleiki en deildarleiki. Aðstæður hins vegar fínar, þótt það blési dálítið í fyrri hálfleik. Liðsuppstillingin hefðbundin. Kristinn Ingi er enn ekki fyllilega leikfær og byrjaði því á bekknum.

Framliðið var mun betra í fyrri hálfleik. Valsmenn furðuslappir. Þrátt fyrir betri spilamennsku tók sinn tíma að skora fyrsta markið og raunar gerðist það ekki fyrr en Valur var að ná vopnum sínum. Hewson átti glæsilega sendingu fram á Lennon sem náði fínum bolta af kantinum beint í lappirnar á Almarri sem skoraði fínt mark.

Seinni hálfleikurinn var nýbyrjaður þegar Valsmenn fengu víti. Bjarni Hólm greip í einn Valsmanninn að ástæðulitlu og svo sem lítið hægt að kvarta yfir því. 1:1.

Örskömmu síðar sýndist mér Framararnir hefðu átt að fá augljósa vítaspyrnu þegar Hólmbert var felldur í teignum. Hólmbert er búinn að vera helvíti öflugur í sumar og vantar bara herslumuninn í að verða toppleikmaður. Fyrstu mínúturnar eftir jöfnunarmarkið óttaðist ég að Framliðið myndi falla niður í pirring og tuð og Valsmenn virtust ætla að ná völdum á miðjunni. Það breyttist þó fljótlega. Framarar áttu betri sóknir og komust verðskuldað yfir á ný. Aftur átti Hewson lykilsendinguna og Hólmbert skallaði auðveldlega í netið illa valdaður og miklu stærri en allir hinir.

Valsfyrirliðinn var rekinn útaf fyrir að reyna að fiska víti. Það var óþarflega harður dómur, svona eftir á að hyggja.

16-liða úrslitin taka nú við. Útfrá prinsipinu um að vilja dragast gegn liði sem Fram hefur ekki fyrr mætt í KSÍ-móti ætti óskalistinn að vera: 1. Magni heima, 2. Sindri heima, 3. Tindastóll heima. Það væri líka gaman að fara til Ólafsvíkur úr því að ég missti af því um daginn. Hitt Víkingsliðið í Fossvoginum væri líka fínt eða Leiknir í Breiðholtinu. – Sem þýðir að við fáum örugglega FH úti.

Framkvæmdin

Þórir Hrafn vinur minn hringdi í mig í dag til að óska mér til hamingju með maraþonræðuna. Gerði það þó með þeim orðum að hann væri ekki alveg viss um að egóið mitt hefði endilega þurft á Íslandsmeti að halda. Líklega hárrétt stöðumat.

Það hefur verið skemmtilegt að fylgjast með netumræðum um stóra Svals og Vals-fyrirlesturinn. Þó er merkilegt hversu margir telja markverðast að ég hafi ekki þurft að pissa í nokkra klukkutíma. Er fólk almennt símígandi?

Ég vildi að ég gæti núna sett mig í gáfulegar stellingar og talað fjálglega um hvernig best sé að undirbúa sig fyrir 13 og 1/2 klukkutíma ræðu: hvaða æfingar eigi að gera, hvernig liðka skuli raddböndin, klæða sig eða nærast. En veruleikinn býður ekki alveg upp á það.

Í fyrsta lagi álpaðist ég á fótboltaleik í kulda og roki upp á Skaga kvöldið fyrir ræðuna og hefði hæglega getað nælt mér í kvef. Ég vaknaði klukkan sjö um morguninn og fór á klósettið eins og vanalega, klæddi mig í hversdagsfötin – þar með talið Ecco-götuskóna mína – því ég á enga mjúka íþróttaskó eins og mælt er með fyrir svona langtímastöður.

Ég hafði einsett mér að tala í striklotu í sex klukkutíma, en eftir það myndi ég stoppa til að taka salernispásur og til að gleypa í mig einhvern mat með reglulegu millibili. Fyrsta matarhlé yrði því um þrjúleytið svo óþarft væri að kýla sig út af mat. Lét því einn serjósdisk nægja og brunaði svo niður í Friðarhús. Þar hellti ég upp á kaffi og drakk tvo litla bolla. Hafði hugsað mér að pína mig til að pissa rétt áður en klukkan yrði níu, en svo tóku tæknimálin og uppröðunin lengri tíma en ætlað var svo það gleymdist.

Frá kl. 9 til hádegis drakk ég tæplega eitt vatnsglas og upp úr hádeginu bætti ég við einum kaffibolla. Þeir urðu þrír í allt.

Um þrjúleytið var komið að því að ákveða hvort og þá hvenær ég myndi taka mér hlé. Ég var agnarlítið svangur og bölvaði því að hafa ekki étið meira um morguninn, vitandi af samlokunni sem Steinunn hafði fært mér fyrr um daginn liggjandi innan seilingar. En ég var þó ekki svengri en svo eða þreyttari í fótunum að nokkur ástæða væri til að stoppa, hvað þá að klósettferð væri á dagskránni. Um sexleytið varð ég endanlega ákveðinn í að klára ræðuna án þess að taka hlé og dró í kjölfarið úr vatnsdrykkju.

Röddin olli mér aldrei neinum vandræðum. Sennilega hefði ég getað talað mun lengur með sama styrk án þess að raddböndin hefðu svikið. Iljarnar, hnén, lærin og mjóbakið voru aðeins farin að kvarta – en þó ekkert alvarlega. Það að standa og láta dæluna ganga veldur hins vegar einhverjum þrýstingi á þindina sem kom fram í því að mér fannst ég þurfa að geispa en náði ekki fyllilega andanum. Ég reyndi ítrekað að skjóta inn geispum án árangurs, með þeim afleiðingum að áhorfendur töldu að ég væri að reyna að kæfa geispa. Þetta voru einu líkamlegu óþægindin sem trufluðu mig allan tímann og voru verst á að giska milli kl. sex og átta.

Um klukkan níu sá ég fram á að geta með góðu móti klárað efnið á rúmlega klukkutíma í viðbót. Auðvitað hefði ég getað teygt lopann eitthvað til að bæta einhverjum stundarfjórðungum við, en ég ákvað að gera það ekki og ljúka ræðunni um hálf ellefu leytið til að gestirnir (sem voru örugglega um 30 talsins á þessum tíma) gætu sest niður og spjallað eftir erindið í stað þess að allir væru farnir að búa sig til brottfarar. Það voru því ekki líkamleg óþægindi sem komu í veg fyrir að ég tæki 1-2 klukkustundir í viðbót. Mikið lengri tími hefði þó getað reynst nokkuð óþægilegur.

Þegar ræðunni lauk fattaði ég í fyrsta skipti hversu þreyttur ég væri í raun í fótunum. Sumir áhorfendurnir reiknuðu með að ég tæki strikið beint á klósettið og kvörtuðu hreinlega yfir að ég gerði það ekki. Mér var hins vegar ekki mál og fékk mér bjór í staðinn. Það var ekki fyrr en ég var kominn vel á aðra bjórflösku að ég þurfti að pissa, þá voru meira en 45 mínútur liðnar frá því að ræðunni lauk.

Ég skal hins vegar fúslega viðurkenna að ég hef átt betri morgna en í dag.

Stefanía Afturhaldsdóttir

Ein fyrirsjáanlegasta umræðan í kringum hverja stjórnarmyndun er: „hvað á stjórnin svo að heita?“ Og við tekur frekar súr leikur þar sem stjórnarliðar reyna að festa í sessi orð eins og „stjórn atorku og heiðarleika“ en sjórnarandstæðingarnir stinga upp á „fábjána- og lygamarðastjórnin“.

Þessi umræða hefur skilað sér inn á íslensku Wikipediuna, þar sem rætt er um hvort rétt sé að vísa til fyrri ríkisstjórna með viðurnefnum sínum eða kenna bara við forsætisráðherrann. Dæmi um þetta er Ráðuneyti Stefáns Jóhanns Stefánssonar. Stjórnin var við völd frá því snemma árs 1947 og framundir árslok 1949.

Það eru almennt viðtekin sannindi að þessi stjórn hafi verið kölluð Stefanía. Sjálfur hef ég vafalítið samið spurningar fyrir spurningakeppnir þar sem Stefaníu-viðurnefnið kemur við sögu. En er málið svo augljóst?

Ég beitti timarit.is-prófinu á nafnið „Stefanía“ og bjóst sannast sagna við að fá upp ívið fleiri færslur á valdatíma stjórnarinnar en árin í kring. Svo var ekki. Nær allar færslurnar tengdust konum sem báru Stefaníu-nafnið, einkum Stefaníu Guðmundsdóttur leikkonu. Miðjuárið 1948 kemur orðið varla fyrir í póitíska samhenginu. En hægt er að finna dæmi frá 1947 og 1949.

Ingi R. Helgason skrifar reiðilegan pistil í blað róttækra stúdenta og talar um ríkisstjórnina „Stefaníu Afturhaldsdóttur“. Þjóðviljinn og Þjóðvörn víkja að stjórninni sem Stefaníu í 2-3 skipti á árinu 1949, þar sem síðarnefnda blaðið segir að almenningur kalli stjórnina þessu nafni.

Morgunblaðið, Alþýðublaðið og Tíminn tala aldrei um ríkisstjórnina sem Stefaníu. Orðið kemur tvisvar fyrir í Vísi. Í annað skiptið í aðsendri lausavísu og hins vegar í leiðara árið 1949 þar sem orðið er í gæsalöppum og höfundur sér ástæðu til að útskýra við hvað sé átt. Og það voru nú öll ósköpin. Hið víðkunna viðurnefni birtist nær aldrei á prenti, nema þá helst í örfáum greinum eftir hatrömmustu andstæðinga stjórnarinnar.

Og þó… það var reyndar eitt blað til viðbótar þar sem Stefaníu-nafnið var notað. Grínblaðið Spegillinn vísaði í allnokkur skipti til ríkisstjórnarinnar sem Stefaníu. Þar gæti hundurinn verið grafinn.

Nú þarf varfærinn sagnfræðingur að reka varnagla. Það kann vel að vera að allur almenningur hafi talað um stjórn Stefáns Jóhanns sem Stefanínu, þótt flokksblöð stjórnarflokkanna hafi ekki viljað nota svo óformlegt gælunafn. Það að orðið sé helst notað sem skammarheiti í þau fáu skipti sem það ratar á prent, þarf heldur ekki að útiloka að það hafi líka verið notað í jákvæðari merkingu. Á hitt ber hins vegar að líta að Spegillinn var á löngum tímum betri mælikvarði á almennar pólitískar umræður í íslensku samfélagi en hefðbundnu dagblöðin.

Hafi almenningur talað um ríkisstjórnina 1947-49 sem Stefaníu, er í það minnsta ljóst að það var ekki runnið undan rifjum stjórnarinnar sjálfrar. Viðurnefnið hefur staðið og fallið með vinsældum Spegilsins. Þótti þetta nógu hnyttið og meðfærilegt gælunafn? Ég leyfi mér að efast um útbreiðsluna.

En hver er lærdómurinn fyrir pólitíkusa samtímans? Jú, það hvaða viðurnefni ríkisstjórnir fá í sögubókum framtíðarinnar þarf alls ekki að hanga saman við það hvað þær voru kallaðar í lifanda lífi. Fæstar ríkisstjórnir heita neitt ef út í það er farið. Og hins vegar – þá er ólíklegt að pr-mennirnir í stjórnarflokkunum eða kjaftaskúmarnir í stjórnarandstöðunni muni fá að velja nafnið. Best er að bíða bara rólegur og sjá hvað Spaugstofunni dettur í hug. Hún vinnur alltaf á endanum.

Valur úti: 3/22

Ég ætla að stofna ráðgjafarverkfræðifyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnum knattspyrnuleikvanga. Samskipti mín við kúnnana verða svona:

Stefán: „Og þið hafið hugsað ykkur að láta stúkuna snúa svona?“

Fulltrúar íþróttafélags: „Já, hún yrði hérna meðfram þessari hlið á vellinum.“

Stefán: „Og þegar sólin er lágt á lofti á sumarkvöldum á Íslandi, hvar er hún þá gagnvart áhorfendum í stúkunni.“

Fulltrúar íþróttafélags: „Hérna! Beint í augun… ahh, þú meinar…“

Stefán: „Já. Það verða milljón krónur, takk.“

Það hefði verið mjög gott ef þetta spjall hefði átt sér stað áður en Vodafonevöllurinn var byggður. (Já, ég kalla þetta Vodafonevöllinn, menn sem selja nafnið á vellinum sínum eiga ekki annað skilið en hann sé kallaður kjánanöfnum.) Mögulega hefði ég getað mætt með derhúfu, en er of tískumeðvitaður til þess. Kannski brýt ég samt odd af oflæti mínu fyrir bikarleikinn í lok mánaðarins.

Þetta var skrítinn leikur. Framarar áttu fyrri hálfleikinn með húð og hári. Valsmenn voru úti á þekju, grófir og pirraðir. Viktor Bjarki og Haukur Baldvins voru komnir á bekkinn frá því í síðasta leik og sú breyting kim ágætlega út. Aulagangur hjá einum Valsvarnarmanninum varð til þess að Steven Lennon komst inn fyrir og lagði upp færi fyrir Hólmbert Aron sem skoraði ágætismark. Fórum sáttir inn í hléið, en þó nagaði það mann aðeins að hafa ekki náð að skora nema eitt mark.

Tvö gjörólík lið komu inn á völlinn í seinni hálfleik. Valsmenn voru miklu öflugari frá byrjun og skoruðu á fyrstu mínútunum með því að taka aukaspyrnu hratt meðan varnarmenn Fram sváfu á verðinum. Frömurum tókst ekki að ná aftur valdi á miðjunni og reyndu kýlingar fram sem litlu skiluðu. Kristinn Ingi komst þó í eitt afbragðsfæri, en líkt og í Fylkisleiknum virðist hann ragur við að skjóta á markið heldur reynir að hlaupa með boltann í netið. Hann vantar talsvert í að ná formi síðasta árs.

Valur hefði með réttu átt að skora annað mark. Fengu frábært tækifæri til þess þegar boltinn fór í höndina á Lowing en sá rauðklæddi þrumaði í stöngina. Nokkrum mínútum síðar sýndist mér boltinn fara í hönd Valsara í hinum vítateignum en ekkert dæmt.

Eins og það hefði nú verið gaman að vinna á símafyrirtækisvellinum, voru þessi úrslit sanngjörn. 5 stig eftir þrjá leiki er ekki slæmt og fyrsta tapið lætur sem betur fer bíða eftir sér. Maður leiksins? Tjah, Ögmundur í markinu fær nafnbótina að þessu sinni, þrátt fyrir óvenjuslakar markspyrnur í kvöld.

Ræðan

Þá er það orðið opinbert! Miðvikudaginn 22. maí ætla ég að halda fyrirlestur og hann ekki stuttan. Tilefnið er 75 ára afmæli Svals úr Svals og Vals-bókunum, en jafnframt er ég að láta gamlan draum rætast.

Þegar ég var í MR fyrir hundrað árum síðan lenti Málfundafélagið Framtíðin í fjárkröggum. Til að bæta úr því hafði Kristján Guy Burgess (aðstoðarmaður utanríkisráðherra og tengdasonur VG) frumkvæði að því að skipuleggja „mælsku-maraþon“. Það virkaði eins og þegar krakkarnir í sundfélögunum synda boðsund í heilan sólarhring og vinir og ættingjar gefa tíkall á kílómetra, nema þarna vorum við nokkur sem tengdumst málfundafélaginu sem skiptum á okkur að þruma í pontu í marga, marga klukkutíma. Maraþonið fór fram í Hinu húsinu, sem þá var í Þórscafé-húsinu.

Í raun vorum við alltof mörg. Hver um sig þurfti varla að tala nema nema í klukkutíma í allt, nema Daníel Freyr Jónsson forseti Framtíðarinnar – hann tók stærstan hluta næturvaktarinnar. Meðan á þessu stóð kviknaði sú hugmynd í kollinum á mér að gaman væri að reyna hversu langa ræðu ég gæti flutt. En í tuttugu ár gafst ekki átylla til að hrinda henni í framkvæmd.

En hversu langt er nógu langt? Hverjar eru lengstu íslensku ræðurnar? Þar er í stutt í hvers kyns skilgreiningarvanda.

Eflaust má finna dæmi um maraþonupplestra. Hvað ætli heildarlestur á Passíusálmunum taki langan tíma? Er það ræða?

Lokaræður saksóknara og verjenda í dómsmálum eru líka ógnarlangar. Gott ef lokaræðan í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu var ekki 17 klukkutímar, en slíkar ræður eru fluttar í litlum bútum yfir nokkurra daga tímabil.

Líklega hugsa flestir um Alþingismenn í þessu sambandi. Jóhanna Sigurðardóttir talaði í 10 klst. og 8 mínútur um húsnæðiskerfið í ræðu á þingi árið 1998. Ætli það sé ekki besta viðmiðunin. Jóhanna tók sér þó hins vegar bæði hádegis- og kvöldverðarhlé, sem sumir myndu telja hálfgert svindl inni í miðri ræðu. Sama gildir um aðrar langar þingræður, þær voru fluttar með hléum og stundum fóru menn heim og lögðu sig á milli.

Í metræðu Jóhönnu, var lengsti samfelldi kaflinn rétt rúmlega 5 klst. og 30 mínútur án þess að tekið væri hlé á milli eða hlaupið á klósettið eins og Valdimar Leó Friðriksson gerði í frægri málþófsræðu. Fimm og hálfur tími í samfelldri ræðu er því klárlega eitthvað til að miða við líka.

En hvernig eru alþjóðlegu reglurnar? Heimsmetabók Guinness er með mjög nákvæma staðla um svona ræður. Samkvæmt þeim er ræðumanni heimilt að matast meðan á máli hans stendur, en þó þannig að það trufli ekki ryþmann í ræðunni. Einnig er ræðumanni heimilt að hvílast í 5 mínútur á hverri klukkustund – sem er nú dágóð hvíld.

Ég er að velta því fyrir mér að reyna að ná meira en 5 og hálfum tíma af órofinni ræðu, en skipta að því loknu yfir í Guinness-reglurnar. Hversu lengi ég endist á eftir að koma í ljós. Ég hef ekki hugmynd um hvað gerist fyrst: hvort röddin bregðist, ég örmagnist af þreytu, fái hausverk af öllu blaðrinu eða skrokkurinn mótmæli því að standa svona lengi upp í endann. A.m.k. er ljóst að efniviðurinn er nægur. Það er hægt að tala endalaust um Sval og Val.

Óskalisti bikarmeistarans

Ég viðurkenni fúslega að ég er sökker fyrir bikarkeppninni í fótbolta – einkum fyrstu umferðunum. Held að þetta sé arfur frá þeim tíma þegar ég var 6-7 ára og vissi ekkert merkilegra en að þröngva mér inn á leiki í 4ðu deildinni eða fyrstu umferðunum í bikarnum á Melavellinum. Klöngraðist yfir girðinguna og klístraði tjöru í fötin mín – á leiki þar sem var ekki einu sinni rukkað inn.

 

Afstaða mín til bikarkeppninnar er líka svipuð og hjá fólki sem „safnar löndum“ og merkir í huganum inn á kort öll lönd heimsins sem það hefur komið til. Ég var svona með sveitarfélög á Íslandi (og er eiginlega ennþá) og í bikarkeppninni finnst mér það ótvíræður kostur ef Framararnir geta bætt „nýju“ liði í safnið. (Þó með þeim fyrirvara að það er hálfgert frat að mæta liði frá hinum enda landsins á útivelli og missa af öllu saman.

 

Út frá þessum forsendum fylgist ég spenntur með fyrstu bikarumferðunum og bý svo til óskalista yfir lið sem myndi vilja sjá Fram mæta í næstu umferð. Hann er eitthvað á þessa leið:

 

i) Magni (heima). Sigur Magna frá Grenivík á KA eru óvæntustu úrslit ársins. Magni er líka félag sem hefur haldið sínu striki og tekið þátt á Íslandsmóti frá því að ég man eftir mér og aldrei tekið þátt í einhverjum sambræðingsliðum. Reyndar hef ég ekki hugmynd um hversu „grenvískt“ lið Magni er í raun og veru. Það getur allt eins verið að þetta sé í raun Akureyrarklúbbur sem fái að nota nafnið og kennitöluna í dag. En Fram : Magni á Laugardalsvelli væri toppurinn.

 

ii) Þróttur Vogum (úti). Ég held að ég hafi verið farinn að nálgast tvítugt þegar ég fór fyrst í þorpið Voga á Vatnsleysuströnd – Mekka ídýfugerðar á Íslandi. Samt hafði maður keyrt þarna framhjá milljón sinnum. Segi ekki að Vogar hafi staðið undir væntingum sem unaðreitur í auðninni. Varð samt glaður þegar ég frétti að staðurinn stæði undir fótboltaliði. Þangað væri gaman að fara í næstu umferð.

 

iii) Álftanes (úti). Ég hef aldrei séð fótboltaleik á Álftanesi og líklega best að drífa sig áður en staðurinn breytist endanlega í Garðabæjarúthverfi. Svo þekki ég allnokkra Álftnesinga sem ég gæti heimsótt í leiðinni. Það er ekki eins og neitt annað reki mann alla leiðina þangað úteftir. Er ekki örugglega þríbreiður vegur um hraunið?

 

iv) Ármann (heima). Reyndar er þetta ekki „alvöru“ Ármannslið, heldur strákar úr utandeildinni sem fengu nafnið lánað til að geta skráð sig í bikarkeppnina. En það breytir því ekki að Ármann er félag sem Frömurum hefur aldrei auðnast á mæta í KSÍ-móti, bara í Reykjavíkurmótinu. Það er þeim mun meiri synd í ljósi þess að knattspyrnudeild Ármanns var á sínum tíma stofnuð af Frömurum sem fóru í tímabundna fýlu út Fram. Steinn Guðmundsson var þjálfari á gullaldarárum Ármanns í fótboltanum og nokkrir öflugir Framarar stigu fyrstu spor sín í yngstu flokkum Ármanns, s.s. Friðrik Friðriksson markvörður.

 

v) Sindri, Höttur eða Tindastóll (heima). Eftir því sem ég kemst næst hefur Fram ekki mætt þessum liðum í bikarkeppn KSÍ. Ég verð þá leiðréttur í athugasemdakerfinu ef ég er að bulla. Alltaf gaman að ná að haka við nýjan mótherja, en ekkert af þessu eru þó viðureignir sem kveikja sértaklega í manni.

 

vi) KV (heima). Frændur mínir í KV falla klárlega undir skilgreininguna: „lið sem Framarar hafa ekki spilað við í Íslandsmóti eða bikarkeppni“. Samt hneigist ég til að setja lið þeirra í annan flokk en félögin sem nefnd eru hér að ofan. Þetta er hálfgerður dótturklúbbur KR og stigsmunur en ekki eðlismunur á þeim og vinaklúbbum sem heita fábjánanöfnum á borð við Stál-úlfur og Vatnaliljurnar eða hvað þetta nú heitir allt saman.

 

vii) Valur (heima). Það er alltaf gaman.