Hreint út sagt

Vef-Þjóðviljinn er um margt ágætt vefrit. Fyrir það fyrsta hlýt ég, sem fyrrum ritnefndarfulltrúi í vefriti sem þraut örendi, að játa aðdáun mína á seiglunni og úthaldinu. Í öðru lagi á Vef-Þjóðviljinn það til að segja skýrt hluti sem aðrir vefja inn í orðskrúð og frasa. Þessi færsla er gott dæmi um það.

Einn tískufrasinn í síðustu kosningabaráttu var krafan um að „einfalda skattkerfið“. Sjálfstæðisflokkurinn veifaði þessu baráttumáli mjög – enda eðlilegt þar sem hann er hægriflokkur. Framsóknarflokkurinn talaði á sömu nótum, þótt reyndar vefðist ekki fyrir honum að slá á sama tíma fram hugmyndum sem gengju í þveröfuga átt, s.s. að skilja á milli barnafata og fullorðinsfata í skattlagningu – sem er skólabókardæmi um hvernig auka má flækjustig í skattkerfinu. (Hm, misvísandi kosningaloforð hjá Framsókn… hver hefði trúað því?)

Björt framtíð stökk á vagninn. Svo sem skiljanlega, hvernig gat flokkur sem hafði þá helstu pólitísku hugmyndafræði að vilja „minna vesen“ gert annað? Og Píratarnir voru á sama máli. Nákvæmlega hvers vegna er ekki alveg ljóst. Líklega samt vegna þess að í hugum sumra eru hugtökin „flókið“ og „leynilegt“ nánast samheiti og Píratarnir eru jú á móti leyndarmálum.

VG tók ekki þátt í þessum kór og kratarnir eiginlega ekki heldur – enda áttu þeir tvo síðustu fjármálaráðherra. Nýja formanninum leið samt ekki vel með það. Samfylkingin vill jú viðhalda þeirri sjálfsmynd að hún sé nútímalegur jafnaðarmannaflokkur og hvað er nútímalegra en einföld og straumlínulöguð kerfi? – Um litlu framboðin þarf fátt að segja. Þau kinkuðu þó flest gáfulega kolli þegar talið barst að ægilega flókna skattkerfinu.

Greinin í Vef-Þjóðviljanum útskýrir hins vegar mætavel um hvað málið snýst þegar kemur að virðisaukaskatti. Einfalda skattkerfið neglir niður fasta álagningarprósentu og lætur hana gilda á línuna. Sama prósenta er tekin af Hummer-jeppanum frá bílaumboðinu eða Hummus-bakkanum í kjörbúðinni. Allri tilfinningasemi er vikið til hliðar. Við skattleggjum bækur jafnt og topplyklasett í stað þess að hlusta á eitthvað væl í rithöfundum og bókaútgefendum um að mikilvægt sé að ýta undir lestur. Hasarinn í þinglok, þar sem allt fór á hliðina vegna þess að smygla átti í gegn breytingu sem hefði hækkað vörugjöld á getnaðarvarnir hefði orðið óþörf: smokkar eða sokkar – allt í sama skattþrep.

Það er fullkomlega rökrétt að Vef-Þjóðviljinn kalli eftir svona skattkerfi. Þetta er hægrisinnað vefrit. Þeim til hróss reynir höfundur ekki einu sinni að reikna sig að lægri skatttekjum fyrir ríkissjóð. Fjármálaráðherra fær nákvæmlega það sama í sinn hlut. Munurinn liggur bara í dreifingu byrðanna. Þeir sem kaupa sér bíl borga minna. Þeir sem kaupa sér í matinn (eða bækur og smokka ef út í það er farið) borga meira. Það er í sjálfu sér ekkert rangt við það. Það er bara önnur pólitísk sýn sem liggur þar að baki.

Ég skil Vef-Þjóðviljann fullkomlega þegar hann heimtar einfaldara skattkerfi. Hann aðhyllist pólitík sem er á móti því að beita skattkerfinu til að ýta undir félagslegan jöfnuð. Skringilegra finnst mér þegar fólk sem telur sig félagshyggjusinnað er til í að taka undir svona hugmyndir – af því að hitt sé svo mikið vesen eða ekki nógu kúl.

Fylkir heima: 2/22

Af hverju er svona fáránlega mikill munur á að gera 1:1 jafntefli þar sem liðið manns kemst yfir eða þegar liðið manns jafnar? Ergileg niðurstaða á Laugardalsvelli í kvöld, en svo sem ekki ósanngjörn. Og fyrir mótið hefði maður svo sem alveg sætt sig við fjögur stig eftir tvo fyrstu leikina.

Fyrri hálfleikur var ekki burðugur. Sterkur vindstrengur frá norðri sem Framararnir höfðu í bakið. Í eitt skiptið reyndi leikmaður Fram að senda knöttinn aftur fyrir eigið mark með hárri og fastri spyrnu, en boltinn fauk í fallegum boga og hélst inni á vellinum. Annað var eftir þessu. Bæði lið reyndu að nota langar sendingar sem virkuðu ekki rasskat fyrr en aðeins fór að lægja rétt fyrir hlé.

Stundum tóku Framarar boltann niður og tókst þá að sækja af einhverju viti. Náðu meira að segja einu alvöru færi og 2-3 hálffærum. Fylkismenn höfðu hins vegar þá taktík eina að bíða eftir að einhver Framarinn gerði mistök og vona að boltinn myndi þá hrökkva til Tryggva Guðmundssonar sem gæti þá gert einhverjar kúnstir.

Seinni hálfleikurinn byrjaði á sömu nótum. Framararnir voru alltaf líklegri. Fylkir átti raunar ekki skot á rammann fyrstu 70 mínúturnar. Kristinn Ingi kom inná fyrir Hauk litla (Haukur, Almarr og Lennon mynda fáránlega lágvaxna framlínu) og nánast strax jókst sóknarþunginn. Kristinn og Lennon spændu sig í gegnum Fylkisvörnina, 1:0.

Um leið og Fylkismenn tóku miðjuna sáu allir í stúkunni að Framarar ætluðu að pakka í vörn og eftir örfáar sekúndur fékk Fylkir fyrsta góða færið, þar sem Ögmundur varði meistaralega. Næstu fimmtán mínúturnar sóttu Árbæingar og Framvörnin sem hafði virst pollróleg allan tímann fór á taugum. Markið hlaut að koma og það gerðist á 85. mínútu, 1:1.

Við jöfnunarmarkið byrjuðu Framarar á ný og líklega hefði Kristinn Ingi átt að klára leikinn á lokamínútunni en ákvað að skjóta ekki sjálfur heldur reyna að senda á Lennon sem var líklega rangstæður. Allir frekar súrir í leikslok, en niðurstaðan svo sem ekki óréttlát.

Hewson er í betra formi en fyrri tímabil. Lennon átti nokkra góða smáspretti. Almarr barðist vel og telst líklega maður leiksins. Vonandi verða þó ekki margir svona slappir leikir í sumar.

Inn og út um gluggann og alltaf sömu leið…

Það má treysta á að sumir hlutir breytist á nokkurra ára fresti. Um árabil voru það þekkt sannindi að kornabörn ættu að sofa á maganum – allt annað væri beinlínis stórhættulegt. Svo kom tímabil þar sem börnin áttu að liggja á bakinu, ef ekki ætti illa að fara. Og svo aftur á maganum o.s.frv. Tvennt má þó treysta á í þessum fræðum: i) að kenningarnar breytast á nokkurra ára eða áratuga fresti & ii) að í hvert sinn sem breytt er um stefnu er sú nýja kynnt sem hin endanlega og rétta vísindalega niðurstaða.

Stjórnunarfræðin eru morandi af dæmum sem þessum. Í nútímafyrirtækjum má treysta því að á nokkurra ára fresti séu umhverfismálin eða jafnréttismálin felld undir gæðastjórann – og haft til marks um mikilvægi þessara mála, enda séu þau klárlega gæðamál. Nokkrum árum síðar eru umhverfis- eða jafnréttismálin svo skilin frá og sett undir sérstakan stjórnanda og það aftur haft til marks um hversu mikilvæg þau séu talin vera. Inn og út um gluggann og alltaf sömu leið…

Skemmtilegt dæmi á þessum nótum má finna í Samráðsvettvangsskýrslunni sem nokkuð hefur verið rætt um síðustu daga. Sem vænta mátti staðnæmdust flestir við þá hluta skýrslunnar sem fjalla um hvers kyns sameiningar (sveitarfélög, framhaldsskólar, sýslumannsembætti). Það er í sjálfu sér ekki nema mannlegt. Áhugaverðara er þó að sjá hvar skýrsluhöfundar telja sig finna bestu leiðina til að spara í ríkisrekstrinum: í innkaupastefnunni.

„Nýtt innkaupaferli“ og „heildstæð innkaupastefna“ eru hugtök sem hljóma vel og afskaplega nútímalega. Hver getur verið á móti heildstæðri innkaupastefnu eða viljað ríghalda í gömlu innkaupaferlin? Ekki nokkur maður!

En hvað merkja frasarnir? Jú, nú er ekki lengur í tísku að láta barnið liggja á bakinu heldur á að snúa því á magann. Í tuttugu ár hefur kennisetningin verið sú að leggja niður eða draga úr umsvifum innkaupastofnana á vegum hins opinbera. Lyfjaverslun ríkisins er gott dæmi um þetta, en ýmis fleiri mætti telja til úr rekstri ríkis og sveitarfélaga. Talað var hæðnislega um vitleysuna sem fælist í því að láta skriffinna kaupa miðlægt inn fyrir stofnanir með ólíkar þarfir og sem þeir þekktu ekkert til í. Miðlæg innkaup voru sögð ýta undir spillingu, draga úr samkeppni og koma að lokum bæði skattgreiðendum og neytendum almennt illa. Í tuttugu ár var kenningin sú að best væri að gera stjórnendur opinberra fyrirtækja sem sjálfstæðasta og gefa þeim sem mest frelsi til að  reka stofnanir sínar innan fjárheimilda og þar með að sinna sjálfir innkaupum um sem flest.

Nú er ég ekki að segja að ég sé ósammála niðurstöðu skýrslunnar. Þvert á móti! Gamli kampavínssósíalistinn er alltaf svag fyrir öflugum innkaupastofnunum ríkisins… En það er samt kátlegt að sjá enn eina kúvendinguna rökstudda sem það nýjasta og snjallasta í bransanum og það jafnvel af sömu mönnum og töluðu af sama krafti fyrir hinni pólitíkinni.

Víkingur úti: 1/22

Ég hafði látið mig dreyma um að þetta yrði sumarið þar sem ég næði öllum leikjum Framarar á Íslandsmótinu. Að sjálfsögðu rann ég svo á rassinn á fyrsta leik. Rútuferðin á vegum félagsins var blásin af, þar sem svo margir ætluðu að horfa á Framstelpurnar hreppa Íslandsmeistaratitilinn og bílfarið sem ég reddaði mér í staðinn brást á síðustu stundu. Ég hefði keyrt sjálfur, en Ólafsvík er fjári langt í burtu til að hossast einn á bíl auk þess sem leikurinn var í sjónvarpinu og aukabónus að ná að sjá stelpurnar vinna.

Það er samt aldrei það sama að horfa á leik í sjónvarpinu eða mæta á völlinn. Og ekki skánar samanburðurinn þegar sjónvarpsútsendingin tefst um 20 mínútur vegna tæknivandamála. Það er alltaf eitthvað frat við að horfa á fótboltaleik sem er ekki í þráðbeinni útsendingu. Bara vitneskjan um að einhver annars staðar í heiminum viti úrslitin eða að hægt sé að slá þeim upp á textavarpinu ræna mann hluta af upplifuninni.

Reynar er hábölvað að hafa ekki komist til Ólafsvíkur og náð að upplifa fyrsta leik þeirra í efstu deild. Ég er sökker fyrir nýjum liðum í efstu deild, einkum landsbyggðarliðum. Að Ólafsvík eigi lið í efstu deild karla í fótbolta er bráðskemmtilegt. Hver ætli séu annars stærstu sveitarfélögin sem ekki hafa leikið það eftir? Sauðárkrókur og Mosfellsbær?

Við Framarar gátum varla mætt Ólsurum (eða Ólafsvíkur-Víkingum eins og Gaupi kallar þá) á erfiðari tíma. Allur bærinn mættur og leikmenn ákveðnir í að selja sig dýrt. Yrði ekki hissa þótt Víkingsliðið ynni svona fjóra heimaleiki í sumar og tæki inn 3-4 jafntefli í viðbót. Það dugar ekki til að halda sér í deildinni, en þetta verður samt alls enginn skandall.

Ég var ánægður með Framara í leiknum. Ekki það að boltinn hafi verið mikið fyrir augað, en þeir höndluðu ágætlega erfiðar aðstæður og vörnin virðist ætla að halda vel. Nýi Skotinn, Halsman, leit vel út og Ólafur Örn var traustur í miðverðinum. Þegar Viktor Bjarki kemur inn í liðið í stað Jóns Gunnars verður miðjan enn traustari.

Daði Guðmundsson fékk að spila fimm síðustu mínúturnar, sem telur þó sem meistaraflokksleikur og þokar honum enn ofar á listanum yfir leikjahæstu Framara frá upphafi. Það skyldi þó aldrei fara svo að Daði næði þeim titli að endingu?

Maður leiksins: Tja, eigum við ekki bara að segja Bjarni Hólm fyrir ágæta frammistöðu í vörninni og glæsilega afgreiðslu í sigurmarkinu?

Rúmenarnir

Þriðjudagurinn byrjaði sakleysislega. Ég var heima við að dútla við eitt og annað fram eftir degi. Ákvað svo seinnipartinn að fara í göngutúr niðrí bæ. Í ljós kom að það var gluggaveður og ég illa klæddur. Leit því inn á flokkskontórinn hjá Vinstri grænum í Suðurgötunni, til að snapa kaffi og spjalla við stelpurnar þar um pólitíkina og ferskasta slúðrið.

 

Skömmu eftir að ég var sestur niður, var hurðinni hrundið upp. Inn stigu fjórir útlendingar sem augljóslega voru að villast. Einn í hópnum gekk til okkar og rétti fram miða með heimilisfangi og símanúmeri Hjálpræðishersins. Við reyndum að útskýra fyrir þeim að Herkastalinn væri við hliðina, en í ljós kom að þau höfðu þegar komið að lokuðum dyrum þar. Ég rölti með þeim að dyrunum hjá Hernum og þar blasti við skilti: Lokað í vetur, opnum sumarið 2013. Reyndi að hringja í símanúmerið og enginn svaraði.

 

Meðan á þessu stóð kom einn í hópnum og spurði mig á herfilega bjagaðri ensku hvort ég vissi um vinnu? Hann beygði sig og sveigði eins og til að leggja áherslu á að hann gæti gengið í hvers kyns verkamannavinnu. Ungur maður dró fram velkt, tölvuprentað blað og rétti mér. Hjartað sökk við lesturinn og ég sá strax að þetta gæti orðið langur eftirmiðdagur.

 

Á miðanum stóð efnislega: Við erum frá Rúmeníu og erum heimilislaus og atvinnulaus. Við erum komin hingað til að fá vinnu, komast í húsnæði og skapa okkur framtíð, því í heimalandi okkar höfum við ekkert. – Þessi boðskapur var meitlaður í þrjár stuttar línur og væntanlega skrifaður með aðstoð einhvers annars, því þótt málfarið væri einfalt var textinn málfræðilega réttur og eðlilegur.

 

Þau voru fjögur. Ungur maður sem gat talað hrafl í ensku og lét í það minnsta eins og hann skildi hana vel. Eldri maður, sem sá ungi kynnti síðar sem föður sinn. Sá reyndi talsvert að tjá sig en ég skildi lítið. Með þeim voru gömul kona og maður, sem ég giskaði á að væru afinn og amman. Þau skildu ekkert af því sem fram fór og voru sýnilega örþreytt. Farangurinn báru þau í poka sem var tveggja manna tak og þremur lasburða bakpokum. Gamla konan bar stærsta pinkilinn og það virtist hin sjálfsagða skipan mála. Hún var eins og staðalmyndin af gamalli sveitakonu frá Balkanskaganum.

 

Við buðum þeim að fá sér sæti. Þau þáðu, enda þreytt og skítkalt. Skömmu síðar hafði málglaði pabbinn sig í að biðja um te, sem við redduðum. Og svo fór ég að hringja…

 

Rauði krossinn var fyrsti kostur. Starfsmaðurinn í útlendingamálunum var reyndar veikur heima, en vinnufélagar hans lofuðu að kanna hvaða leiðir væru færar í stöðunni og hringja aftur. Á meðan höfðum við samband við Hjálpræðisherinn og fengum staðfest að Herkastalinn sé í dag einungis rekinn sem farfuglaheimili á sumrin og að Hjálpræðisherinn hefði engin úrræði. Okkur var bent á að í kaffistofu Samhjálpar gæti fólkið fengið að borða, en hún væri reyndar við það að loka í dag.

 

Rauði krossinn hringdi aftur og staðfesti það sem mig grunaði svo sem, að Rúmenía væri á Evrópska efnahagssvæðinu og Rúmenar gætu því farið hér um frjálsir ferða sinna og reynt að finna sér vinnu, en hér væru þeir algjörlega á sína eigin ábyrgð. Ef til vill mætti þó reyna að tala við Alþjóðahúsið, bætti RKÍ-starfsmaðurinn við.

 

Starfsmaður Alþjóðahússins tók í sama streng, en benti mér þó á hina og þessa aðila sem reynandi væri að tala við. Þar var einkum um að ræða borgarstarfsmenn tengda Mannréttindaskrifstofu og úr félagsmálageira borgarinnar. – Milli símtala kom ungi maðurinn til mín og spurði mig vongóður hvort það væri ekki auðvelt að fá vinnu á Íslandi? Ég muldraði eitthvað flóttalega og sagðist þurfa að hringja meira.

 

Í Ráðhúsinu fékk ég sömu upplýsingar: Samhjálparkaffistofan væri opin að deginum til, þar gæti fólk fengið að borða – og líka á öðrum stöðum. Enginn sylti í hel á Íslandi, sem betur fer. Varðandi gistingu hefði borgin engin ráð. Ef barn hefði verið í hópnum hefði málið horft öðru vísi við, en þetta væru fullorðnir útlendingar sem yrðu að bera ábyrgð á sér sjálfir. Gistiskýlin fyrir útigangsfólkið væru kannski möguleiki, þó líklega yrði þeim vísað þaðan úr því að þau væru útlendingar – í það minnsta hefðu Reykvíkingar forgang að plássunum. Konan frá borginni spurði mig hvort þau ættu ekki einhverja peninga? Ég sagðist ekki vita það með vissu, en væri ekki bjartsýnn. Vonandi lumuðu þau á einhverjum aurum.

 

Enginn skyldi ætla að konan frá Mannréttindaskrifstofu borgarinnar hafi ekki haft samúð. Allir sem ég hafði rætt við í þessu símamaraþoni voru miður sín yfir sögunni, sem þau gerðu sér grein fyrir að gæti aldrei endað vel. Ég var orðinn svo niðurdreginn að konan aumkaði sig yfir mig og bauðst til að taka á móti okkur í anddyri Ráðhússins.

 

Við örkuðum af stað. Á leiðinni hélt ungi maðurinn áfram að spyrja mig með nokkrum áhyggjusvip hvort það væri ekki auðvelt að fá vinnu á Íslandi og komast í húsnæði? Ég varðist fregna en reyndi að spyrja út í hvort þau hefðu einhver tengsl á Íslandi, einhvern tengilið eða hver hefði sagt þeim að koma hingað? Hann sagði að þau þekktu ekkert til og væru nýkomin. Ég spurði hvort þau hefðu komið með ferjunni? Hann játaði því, en mig grunaði að hann skildi ekki spurninguna.

 

Í Ráðhúsinu var tekið á móti okkur. Borgarstarfsmaðurinn sýndi kort og byrjaði að benda á ódýr gistiheimili, en pabbinn dró fram þrjár útlenskar smámyntir og útskýrði að þetta væri allt þeirra fé. (Löng þögn.) Við starfsmaðurinn skiptumst á nokkrum orðum um hversu vonlaus staðan væri. Henni leið greinilega ömurlega, en benti svo sem réttilega á að fólk yrði að bera einhverja ábyrgð á sjálfu sér. Það væri ekki hægt að ana allslaus milli landa og vona það besta. Ég samsinnti, en benti á að ekki gætum við látið þau sofa úti í frostinu…

 

Ég stakk upp á að við prófuðum kaþólsku kirkjuna. „Þið eruð kaþólsk er það ekki?“ – spurði ég unga manninn. Hann kinkaði kolli, en hefði líklega sagst vera djöfladýrkandi ef það hefði hjálpað. Seinna sló ég því upp hvernig trúarbragðaskiptingin er í landinu. 85% Rúmena eru í Rétttrúnaðarkirkjunni, aðeins 5% eru kaþólikkar.

 

„Kirkjurnar, þær eru vanar að hjálpa fólki“ – sagði ungi maðurinn nokkrum sinnum og reyndi að vera bjartsýnn á leiðinni að Landakotskirkju. Seinna komst ég að því að fyrsti áfangastaður þeirra í Reykjavík hafði verið Hallgrímskirkja, þar sem þau höfðu fengið miðann með heimilisfangi Hjálpræðishersins.

 

„En er ekki skrifstofa fyrir innflytjendur sem vilja fá vinnu? Sem hjálpar þeim að fá vinnu og að komast í húsnæði fram að því?“ – spurði ungi maðurinn. Ég svaraði að það væri nú ekki alveg svo einfalt, fyrsta forgangsmál væri að koma þeim í einhverja gistingu fyrir nóttina. Á morgun væri svo 1. maí og allt lokað. Við þær fregnir varð pilturinn á svipinn eins og ég hefði kýlt hann í magann.

 

„En kirkjurnar, þær hjálpa fólki“, þuldi hann áfram til að róa sig. „Og þar fáum við kannski að borða. Við höfum ekki borðað í allan dag.“ – Ég stoppaði og bölvaði mér fyrir hugsunarleysið. Auðvitað voru þau að drepast úr hungri til viðbótar við að vera örmagna og áttavillt. Við beygðum inn Aðalstrætið og fórum í kjörbúðina þar. Keyptum brauð, ost, skyrdrykki og einhverja ávexti í fáránlega óskipulögðum innkaupaleiðangri þar sem ég benti á hluti nánast af handahófi og þau kinkuðu vandræðalega kolli við hverri uppástungu.

 

Leiðin upp á Landakotshæðina var löng, einkum fyrir gamla fólkið. Einhver athöfn, var nýbúin og síðustu kirkjugestirnir á leiðinni út. Ég hafði upp á organistanum og hann hljóp út um allt í leit að prestinum, sem gekk að lokum í flasið á mér og unga manninum. Eldra fólkið sat örmagna á kirkjubekkjunum á meðan.

 

Presturinn var þarna við annan mann. Hann var dálitla stund að skilja erindið. Ég talaði við hann til skiptis á íslensku og ensku. Öðrum þræði til að ungi maðurinn gæti fylgst með en einnig vegna þess að presturinn virtist ekki flugfær í íslenskunni.

 

Eftir því sem samtalið varð lengra, gerðist presturinn sorgmæddari á svipinn. Hann varð daprari og daprari, en gjóaði sífellt oftar augunum á klukkuna – var greinilega tímabundinn. Ég setti upp hvolpaaugun og grátbað nánast hvort það væri ekki einhver smuga, eitthvað afdrep, einhver sem hægt væri að tala við? Eða ef allt um þryti hvort það væri ekki einhver staður þar sem þau gætu hvílt sig og borðað matinn sinn? En presturinn varð bara raunamæddari og áhyggjufyllri.

 

Meðan á þessu samtali stóð sá ég vonina deyja í augum rúmenska piltsins. Við gengum til fólksins hans inn í kirkjunni og um leið og pabbinn sá svipinn á okkur greip hann um andlitið. Gamla fólkið var of dasað til að skilja hvað klukkan sló.

 

Ég rétti unga manninum kortið og áttaði mig um leið á að ég hafði aldrei kynnt mig og aldrei spurt hann að nafni. Hafði mig ekki í að gera það úr þessu. Inn á kortið teiknaði ég kaffistofu Samhjálpar með upplýsingum um að þar yrði hægt að matast að morgni. Ég krossaði við Aðventistakirkjuna í Þingholtunum sem langsóttan möguleika (og velti um leið fyrir mér kaldhæðninni í því að heiðinginn/trúleysinginn ég gripi til góðsemi kirkjudeilda sem síðasta hálmstrásins við slíkar aðstæður). Að lokum merkti ég inn Lögreglustöðina, þar sem hægt væri að fá gistingu ef um allt annað þryti.

 

Ég tók í höndina á unga manninum, umlaði einhverjar óskir um gott gengi og gekk svo út úr kirkjunni. Bölvaði sjálfum mér alla leiðina niður í Suðurgötu fyrir aumingjaskapinn – að hafa ekki getað gert eitthvað meira. Að hafa ekki reddað dýnum og sængum og komið þeim fyrir í stofunni… bara eitthvað meira!

 

Hringdi í Steinunni og bað hana um að sækja mig í hvelli. Var með grátstafinn í kverkunum og hún varð strax skíthrædd. Ég muldraði bara að það væri allt í lagi með mig – stóð svo og beið eftir farinu. Allan tímann beið ég eftir að sjá hvort Rúmenahópurinn minn myndi rogast með niður Túngötuna, en ég sá þau aldrei.

 

***

 

Fáeinum klukkutímum síðar var ég kominn upp í Bjórskóla – farinn að reyta af mér brandara um bjór og gantast við vinnustaðarhóp sem var kominn til að skemmta sér. Sýningin verður að halda áfram.

 

Ég get samt ekki hætt að hugsa um fólkið og í raun vona ég að ég muni aldrei hætta því alveg. Þá fyrst væri illa komið fyrir manni.

 

Hvað rekur fólk til þess að trúa sögum um að á Íslandi sé paradís fyrir allslausa útlendinga, sem fái húsnæði, uppihald og vinnu við það eitt að mæta á svæðið? Og ekki bara trúa sögunum, heldur leggja allt undir og halda til Íslands með aleiguna í nokkrum pinklum…

 

Hverju ætli þetta fólk hafi kostað til svo það kæmist hingað í leit að draumum sem engin innistæða reyndist fyrir? Tók maðurinn sem seldi þeim hugmyndina kannski drjúga þóknun í eigin vasa fyrir að útvega þeim farseðlana?

 

Og hvað gerist næst? Ætli þau hafi endað á lögreglustöðinni og í kjölfarið hafi eitthvert opinbert vald gengið í að koma þeim úr landi? Hírðust þau úti um nóttina eða komu sér inn í mannlaust hús, stigagang í fjölbýlishúsi eða annað slíkt? Munu þau reyna að þrauka hérna, t.d. með betli – og við fáum næst að lesa um skipulagða útgerð rúmönsku mafíunnar á atvinnubetlurum hér á landi?

 

Eða mun einhver stinga upp á að þau gefi sig fram við yfirvöld útlendingamála og segist vera ofsótt í heimalandinu – sígaunar til að mynda? Þá væru þau komin inn í tiltekið kerfi sem myndi hýsa þau og fæða uns þau yrðu send aftur úr landi. Þannig gætu stjórnendur útlendingamála sannfærst enn frekar um tilvist hælisleitendatúrismans ógurlega.

 

Væntanlega fæ ég aldrei að vita málalyktir og væntanlega hitti ég aldrei aftur strákinn sem ég gleymdi að spyrja að nafni, en horfði á missa vonina um nýtt og betra líf.

 

Helvítis djöfull.

Um fermingar

(Birti eftirfarandi pistil 2006. Skelli honum inn aftur með íslenskum stöfum, þar sem sá gamli er ólæsilegur.)

Ferming unglinga er bæði apaspil (Affenspiel) og vitleysisgangur (Gaukelwerk).

Hafið ekki áhyggjur lesendur góðir – Ég er ekki genginn til liðs við Vantrúarhópinn og ætla ekki að stofna til ritdeilna við fyrrverandi eða núverandi guðfræðinema. Ég er bara að vitna í ummæli annars manns um fyrirbærið fermingu. Sá maður hét Marteinn Lúther.

Fermingin var eitt af því sem Lúther var ósáttur við Í kaþólskunni. Hann taldi hana ekki eiga sér stoð í Biblíunni og vera guðfræðilega vafasama. Fyrir vikið telst fermingin ekki vera sakramenti í lútherskunni, öfugt við það sem er í kaþólskum sið.

Þrátt fyrir að Lúther hefði ekkert álit á fermingunni sem slíkri,gerðu sporgöngumenn hans ekki mikið til að uppræta þennan sið úr kirkjudeildum sínum. Líkleg skýring á því er sú að menntafrömuðir á borð við Erasmus frá Rotterdam sáu fermingarundirbúninginn sem notadrjúgt tæki til að ná fram almennum menntunarmarkmiðum.

Síðar, Þegar dönsk stjórnvöld fóru að huga að menntun þegna sinna og vildu tryggja að allir (í það minnsta karlarnir) gætu stautað sig í gegnum einfaldan texta og jafnvel dregið til stafs, gripu þau til fermingarinnar. Fermingin varð þannig á átjándu öld að eins konar samræmdu lestrarprófi í danska ríkinu.

Það eru öðru fremur þessi menntunarpólitísku markmið danska ríkisvaldsins hér á öldum áður sem valda því að hærra hlutfall unglinga á Íslandi, í Færeyjum og í Danmörku fermast en gerist og gengur í öðrum lútherskum samfélögum. Langt er síðan hlutfall fermdra byrjaði að lækka í Danmörku, einkum Í þéttbýli. Til sveita fermast ennþá flestir Danir – líkt og hér á landi og í Færeyjum.

Í ljósi þessa finnst mér alltaf jafnhlálegt þegar skammast er út í borgaralega fermingu á þeim forsendum að þar séu trúleysingjarnir að „stela“ kirkjulegri athöfn. Veruleikinn er sá að í samfélögum mótmælenda hefur fermingin lifað VEGNA hins borgaralega eðlis hennar. Það má í rauninni segja að sú fræðsla sem stunduð er í tengslum við borgaralegu ferminguna (alhliða lífsleikni og samfélagsfræðsla) sé rökréttara framhald af þeirri fermingu sem Erasmus frá Rotterdam og síðar upplýsingarmenn 18. aldar stóðu fyrir en sú kennsla sem á sér stað í kirkjum landsins í dag.

Mér finnst Þess vegna mun rökréttara að trúlaus börn fermist borgaralega en að lúthersk börn fermist Í kirkju. – Og þar hafið þið það!

(Rétt er að taka fram að sjálfur fermdist ég hvorki kirkjulega né borgaralega. Ég svaf út á laugardögum veturinn sem jafnaldrar mínir gengu til prestsins og held að þeim tíma hafi verið betur varið þannig.)

Íþyngjandi?

Karl Sigurbjörnsson telur að það sé íþyngjandi fyrir börn að vera ekki sjálfkrafa skráð í trúfélag móður við fæðingu. Hugmyndir okkar um hvað sé íþyngjandi fara greinilega ekki saman.

Sjálfur var ég fórnarlamb sjálfvirku skráningarinnar á sextán ára afmælisdaginn minn. Þessa sögu hef ég rakið oftar en einu sinni – meira að segja á þessum vettvangi – en látum samt vaða…

Sú var tíðin að börn hættu að vera börn sextán ára en ekki átján. Sextán ára afmælisdagurinn var því stóráfangi: sjálfræðisaldrinum náð. Ég var Hagaskólapjakkur sem var mjög upptekinn af því að vera uppsigað við guð, enda þaullesinn í Blekkingu og þekkingu eftir Dungal. Það lá því beint við að halda upp á afmælið með því að fara upp á Þjóðskrá (eða var það Hagstofan). Þangað mætti ég ásamt félaga mínum og ætlaði aldeilis að vera fínn maður.

„Hvar fæ ég eyðublaðið til að segja mig úr þjóðkirkjunni?“ – spurði ég hátt og snjallt, til að vera viss um að báðir þjónustufulltrúarnir og parið sem var líklega að fylla út beiðni um lögheimilisbreytingu heyrðu til. Stúlkan í afgreiðslunni umlaði eitthvað um að hún þyrfti að fá kennitöluna. Ég ruddi henni út úr mér og leit sigri hrósandi yfir salinn.

Meinfýsið glott færðist yfir varir stúlkunnar… – „Þú ert ekkert í Þjóðkirkjunni…“ – „Ha???“ – „Nei, þú ert skráður í Óháða söfnuðinn, sjáðu bara hérna…“

„Ehh…“ (og allt í einu mundi ég eftir því að amma heitin hafði þekkt einhvern klerk í Óháða söfnuðinum og skráð sig – og þar með væntanlega börnin sín líka – í þann söfnuð til að ná upp í einhvern lágmarksfjölda safnaðarmeðlima eða til að taka þátt í einhverri kosningunni… og um leið rifjuðust upp fyrir mér öll fréttabréf Óháða safnaðarins sem reglulega duttu inn um bréfalúguna og þaðan beint í ruslið.)

„Öhh… já, ókey… Já, ég ætla altso að segja mig úr honum líka…“ – Rokkmómentið var ónýtt. Sextán ára afmælisdagurinn farinn í vaskinn.

Jú, Karl Sigurbjörnsson: það getur verið býsna íþyngjandi að vera sjálfkrafa skráður í trúfélag móður.

Handbolti/fótbolti

Sígilt umfjöllunarefni á enskum fótboltanördasíðum eru listar yfir menn sem náðu að vera bæði afreksmenn í fótbolta og krikket. Ian Botham er eitt þekktasta dæmið.

Samsvarandi úttekt á Íslandi væri um þá menn sem náð hafa árangri í fótbolta og handbolta. Á upphafsárum íslenska handboltans voru flestir handknattleiksmenn jafnframt í fótboltanum. Með tímanum jókst sérhæfingin – auk þess sem einstök félög einbeittu sér að ólíkum greinum. Haukar og FH voru löngum öflug í handbolta en léleg í fótbolta. KR hefur lengst af verið slappt í handboltanum og sama gildir um Skagamenn.

(Ath.: Þessi umfjöllun vísar bara í karlaboltann. Það er auðvitað fullt af dæmum í kvennaflokknum.)

Framarar eiga líklega flesta einstaklinga sem orðið hafa Íslandsmeistarar í báðum íþróttunum. Allnokkrir hafa náð landsleikjum í bæði handbolta og fótbolta. Ásgeir heitinn Elíasson var t.d. í fótboltanum í Fram og handboltanum í ÍR. Gaman væri að sjá lista yfir þá menn sem náð hafa þeim árangri.

Páll Ólafsson er líklega síðasti maðurinn sem náð hefur að leika A-landsleik í bæði handbolta og fótbolta. Það verður varla gert úr þessu.

Róbert Gunnarsson handboltakappi lék í næstefstu deild í meistaraflokki í fótbolta og er líklega það næsta sem við komumst því í seinni tíð að sjá menn ná árangri í báðum greinum.

Willum Þór Þórsson hefur þjálfað meistaraflokk í bæði handbolta og fótbolta.

Hvert skyldi vera nýjasta dæmið um leikmann sem náð hefur að spila í efstu deild í handknattleik og knattpsyrnu á Íslandi? Jón Kristjánsson Valsari og KA-maður? Spyr sá sem ekki veit.

Skólinn

Stelpan byrjar í skóla í fyrramálið. Hún fer í Háteigsskóla og reiknar með að vera búin að læra nánast allt milli himins og jarðar eftir mánuð.

Við þessi tímamót rifjar maður ósjálfrátt upp sína eigin skólabyrjun. Þegar ég var á þessum aldri, var 6 ára bekkurinn ekki hluti af skólaskyldunni. Það tók skólakerfið óratíma að lögfesta það og enn lengri að hafa sig í að breyta númeraröðinni á bekkjunum.

Flestir fóru samt í 6 ára bekk, sem náði samt varla máli. Kennslan var örstutt. Og það var ekki gert ráð fyrir að nemendurnir kynnu neitt. Leikskólar voru stofnanir þar sem börn kubbuðu og átu sand. Þar var ekki verið að skrifa, lesa og reikna – auk þess sem það voru helst börn stúdenta og einstæðra mæðra sem komust á leikskóla.

Með þennan samanburð í huga sýnist mér gæði námsins í sex ára bekk í dag vera gríðarleg. Stundaskráin er full af sérgreinum með fagkennurum. Sjálfur minnist ég þess ekki að hafa fengið fagkennara í öðru en leikfimi, hannyrðum og smíði fyrr en ég var tólf ára.

Ekki botna ég í því fólki sem vantreystir grunnskólunum og telur það framfaraskref að afnema skólaskylduna.

Bara Lennon

Hinn augljósi orðabrandari dagsins, í ljósi þrennu Steve Lennons, er að rifja upp þennan gamla bókartitil Illuga Jökulssonar.

Steve Lennon er smátittur, en markheppinn. Fimm mörk fyrir lið í fallsæti í 6-7 leikjum er bara helv. gott.

Ég veit ekkert skemmtilegra en að vinna Val í íþróttum. (Það var reyndar stórt skref þegar ég viðurkenndi að mér væri verr við Valsmenn en KR-inga.) Það væri þó gaman að gera reynsluathugum með því að prófa að vinna KR-inga á mánudaginn kemur…