Lét Þóru Kristínu á Smugunni plata mig til að fara að blogga þar endrum og sinnum. Sjá: hér. Það verður að ráðast hvernig ég skipti þessu. Ætli pólitískari færslurnar lendi ekki Smugumegin og nördaskapurinn hérna? Nema maður taki bara Ómar Ragnarsson á þetta – og pósti sömu færslum á báðum stöðum…
Óþægilegur sannleikur
Sturlaður maður í Noregi drap tugi ungmenna. Ætlaði að drepa fleiri og mildi að honum tókst ekki að sprengja enn fleiri í loft upp.
Næstu daga og vikur munu menn velta sér upp úr mögulegum ástæðum fyrir ódæðinu. Fólk mun velta því fyrir sér hver sé ábyrgð þeirra sem deila skoðunum morðingjans eða hafa með einhverjum hætti tekið þátt í að skapa það andrúmsloft haturs sem sturlaði maðurinn nærðist á. Gamlir samherjar hans munu á sama tíma sverja sturlaða manninn af sér og leggja áherslu á að hann sé einfari og beri einn alla ábyrgð.
Gott og vel. Vonandi verður þessi umræða frjó og á skynsamlegum nótum.
En það er önnur hlið á þessu máli sem færri munu vilja ræða. Væntanlega munu einhverjir bregðast illa við því að hún sé færð í tal.
Ástæða þess að sturlaði maðurinn gat drepið svona skelfilega marga er að miklu leyti sú að hann var búinn að fá leiðsögn. Hann hafði lært að meðhöndla sprengjur og beita vopnum hjá sérstakri stofnun sem norska ríkið heldur úti: hernum.
Aðaltilgangur herja er að framleiða menn sem geta drepið fólk sem ríkið segir þeim að drepa. Aukaafurð í þeirri framleiðslu eru sturlaðir menn sem drepa fólk óumbeðið. Þessi er ekki sá fyrsti og ekki sá síðasti. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að herinn beri ábyrgð á sturlun þessa manns – til þess hef ég engar forsendur – en herinn þjálfaði hann. Og hann var greinilega góður nemandi.
Það eru örfáar vikur síðan upp kom umræða hér á landi um norska herinn. Sjálfur lenti ég í allnokkrum viðtölum í fjölmiðlum sem fulltrúi þeirra sem fannst það ekki í lagi að reynt væri markvisst að skrá íslenska krakka í norska herinn. Rök okkar hernaðarandstæðinga voru siðferðisleg og við bentum á þá augljósu staðreynd (sem er þó svo mörgum hulin) að herir kenna fólki að drepa. Og það gera þeir svikalaust.
Þróttur – Fram
Ég er sökker fyrir bikarkeppninni. Jafnvel svo mikill sökker að ég freistast til að blogga aftur.
Framarar dógust gegn Þrótti (á útivelli) í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar. Þótt undarlegt kunni að virðast þá hafa A-lið þessara félaga aðeins þrisvar sinnum dregist saman í bikarkeppni KSÍ frá árinu 1960. Þá undanskil ég viðureignina 1967 þegar b-lið Fram tapaði 2:3 fyrir Þrótti í fyrstu umferð. Þetta var árin 1977, 1979 og 1998.
Síðasttöldu viðureigninni var ég blessunarlega búinn að gleyma. Fram tók á móti Þrótti á Laugardalsvelli í 16-liða úrslitum og var kjöldregið 2:5. Þorbjörn Atli Sveinsson skoraði bæði mörk okkar. Ási Haralds, Tómas Ingi og Hreinn Hringsson skiptu með sér mörkunum fyrir Þrótt. (Var þetta ekki árið sem Þróttur var á rosalegu rönni fram yfir mitt mót og féll svo að lokum með metstigafjölda?)
Fyrsta viðureignin, sú árið 1977, var líka í 16-liða úrslitum. Fram vann 2:3, en markaskorararnir voru ekki af verri endanum – Páll Ólafsson og Leiur Harðarson fyrir Þrótt og Kiddi Jörunds (2) og Sumarliði Guðbjartsson fyrir Fram.
1979 mættust Fram og Þróttur í undanúrslitum bikarkeppninnar (sem er enn í dag besti árangur Þróttar í keppninn). Liðin voru á sama róli um miðja efstu deild. Leik liðanna lauk með 2:2 jafntefli (Gunnar Orrason og Marteinn Geirsson skoruðu). Þá var gripið til annars leiks og Fram sigraði 2:0 (Guðmundur Steinsson og Marteinn). Í kjölfarið urðu Framarar bikarmeistarar.
Linnæus Östlund
Við lestur nýrrar bókar Sigmundar Ó. Steinarssonar um sögu Íslandsmótsins í knattspyrnu (fyrra bindi) leitar á mig gömul spurning sem ég braut heilann um fyrir nokkrum árum en leiddi síðan hjá mér. Hver var Linnæus Östlund?
Í bókinni grípur Sigmundur niður í kunnan pistil eftir Kjartan Þorvarðsson úr 25 ára afmælisblaði Fram frá árinu 1933. Kjartan er einn af stóru mönnunum í sögu félagsins og átti stóran þátt í að það lognaðist ekki útaf undir lok þriðja áratugarins. Hann skrifaði Framblaðið nánast einn síns liðs og setti saman úrvalslið Fram þennan fyrsta aldarfjórðung.
Kjartan var sjálfur markvörður stóran hluta gullaldartímabils Fram og stóð milli stanganna flest árin sem liðið varð Íslandsmeistari. Hann var hins vegar alltof prúður til að velja sjálfan sig í liðið. Fyrstu árin skiptu Framarar í sífellu um markverði og enginn þeirra varð minnisstæður. Hinn augljósi kostur fyrir hinn hógværa Kjartan hefði því verið Kjartan Thors, sem varði mark Fram í nokkur ár.
En Kjartan valdi Linnæus Östlund og hafði stór orð um snilli hans í markinu. Linnæus who?
Einföld leit á timarit.is leiðir ekki í ljós nema eina vísun í Linnæus Östlund í tengslum við knattspyrnu. Það var sumarið 1916, þegar hann meiðist í leik í Reykjavíkurmótinu. Mér er ekki kunnugt um neina liðsmynd af Frömurum þar sem Linnæus er í marki. Sigmundur tiltekur meistaralið Fram fyrir hvert ár 1913-16 og nefnir þar þrjá aðalmarkverði – en enginn þeirra er Linnæus Östlund.
Linnæus var sonur Davids Östlunds, Svíans sem var aðalsprautan í söfnuði Aðventista hér á landi. Í september fer hann alfarinn með móður sinni vestur um haf og skömmu síðar er hann sagður leggja stund á rafmagnsfræði. Og þar kólnar slóðin.
Var Linnæus Östlund þessi afburðamarkvörður á upphafsárum íslenskrar knattspyrnu – jafnvel sá besti á þeim árum? Um það eru litlar heimildir. Hélt hann áfram að stunda íþróttina? Varð hann langlífur? Veit einhver um afdrif Östlund-fólksins í Ameríku? Þetta væri gaman að vita.
Strumpar
Miðað við auglýsingarmyndbandið fyrir strumpamyndina sem frumsýnd verður á næstunni, er ekki von á góðu. Getur verið að Haraldur Sigurðsson sé þrátt fyrir allt hæfastur til að blása lífi í strumpana/skríplana utan teiknimyndasöguformsins?
Það jákvæða við gerð myndarinnar er þó að í tengslum við markaðssetninguna hefur verið gert stórátak í endurútgáfu á strumpabókum á ýmsum tungumálum. Von er á fjöldanum öllum af gömlu, klassísku strumpabókunum á ensku og Danirnir hafa gefið út slatta í ár og í fyrra.
Peyo gerði sjálfur u.þ.b. 15 strumpabækur (eftir því hvernig talið er). Af þeim komu að mig minni 8 út á íslensku. Eins og svo algengt er með bestu höfunda, voru síðustu bækurnar dottnar niður í væmni og krúttlegheit. Ef hann hefði lifað aðeins lengur er ljóst að næsta verkefni hefði verið sjálfstæð sería um ævintýri strumpabarna í viðureign við ungan Kjartan og kettlinginn Brand.
Eftir dauða Peyos tók sonur hans upp þráðinn og hefur samið rúmlega tíu strumpabækur. Mér sýnist fæstar þeirra teljast nein stórvirki.
Því miður hefur strumpafárið núna ekki leitt til endurútgáfu og/eða útgáfu á hefðbundnum strumpateiknimyndasögum á íslensku. Þess í stað hafa komið út nokkrar bækur á sama formi og Disney-bækurnar hvimleiðu. Þetta er synd, þar sem amk tvær sígildar strumpabækur (Geimstumpurinn og Gammurinn – bækur nr. 5 og 6) hafa aldrei komið út á íslensku og flestar hinar eru löngu ófáanlegar.
Sigur?
Hvað er sigur og hvað er ósigur? Hvenær hefur maður náð það miklu af markmiðum sínum til að geta fagnað góðum árangri og hversu langt frá settu marki má maður enda til að geta engu að síður borið höfuðið hátt?
Mark Steel (uppáhalds-pólitíski grínistinn minn) velti þessu einhverju sinni fyrir sér í sambandi við Íraksstríðið. Hann líkti því við verslunarleiðangur. Maður sem fer út í búð til að kaupa mjólkurpott og brauðhleif, en snýr aftur með jógúrtdós og vatnsmelónu getur mögulega túlkað niðurstöðuna sem varnarsigur. Sá sem kemur tómhentur og peningalaus heim, eftir að hafa brennt sjoppuna til kaldra kola, getur það ekki.
Fyrir mörgum árum voru stofnuð samtökin Heimssýn. Ég sá reyndar aldrei ástæðu til að ganga í þann félagsskap, en margir vina minna og kunningja komu nálægt félaginu. Allt hið ágætasta fólk.
Tilgangur félagsins var að búa til regnhlífarsamtök þeirra sem telja að Íslandi sé betur borgið utan ESB, þvert á pólitíska litrófið. (Markmið sem ég hef aldrei verið sammála.) Það var í sjálfu sér hægðarleikur. Í Sjálfstæðisflokknum, VG og Framsókn var mýgrútur af fólki sem vildi taka þátt í þessari baráttu. Svo var keppikeflið að finna 1-2 táknræna Samfylkingarmenn til að taka þátt – á sama hátt og menn voru alltaf með einn Sjálfstæðismann sem var herstöðvaandstæðingur hér í gamla daga. (Stefán Jóhann Stefánsson var yfirleitt kratinn í Heimssýnar-hópnum.)
Ég hef verið félagi í VG frá því að ég gafst upp á Samfylkingunni haustið 1999. Ekki get ég þóst hafa unnið mikið í flokknum. Aldrei setið í neinum alvöru stjórnum eða verið fulltrúi flokksins í einu eða neinu, nema þá helst í uppstillingarnefndum og kjörstjórnum (og það jafnvel endað með ósköpum). Hins vegar þekki ég glás af flokksfólki, hef setið flesta landsfundi, marga flokksráðsfundi og reynt að sýna lit í kringum kosningar.
Byggt á þessari reynslu, leyfi ég mér að fullyrða að þótt kjósendur VG séu oft ansi margir jákvæðir í garð ESB í skoðanakönnunum, eru nálega engir stuðningsmenn ESB meðal virkra flokksmanna. Sumir eru skoðanalitlir eða jafnvel eilítið jákvæðir, en raunverulegir stuðningsmenn eru varla til. Ég myndi segja að langflestir virkir VG-félagar sem ég hef kynnst á þessum tólf árum séu annað hvort andsnúnir eða mjög andsnúnir ESB-aðild.
Að finna ESB-andstæðing í VG er álíka flókið og að finna KR-ing i Vesturbæjarlauginni.
Ég er því hugsi yfir listanum á heimasíðu Heimssýnar, þar sem stjórn félagsins er talin upp. Kunnuglegu VG-nöfnin á listanum eru ýmist gengin úr flokknum, á leiðinni úr flokknum eða jaðarsett innan flokksins. Þetta er með hreinum ólíkindum.
Heimssýn hvíldi í byrjun á tveimur sterkum stoðum: Sjálfstæðismönnum og VG-fólki. Núna virðist mönnum hafa tekist að halda þannig á spilunum að traustir VG-flokksmenn vilja ekki taka á félaginu með löngum töngum. Er hægt að klúðra málum öllu verr? Er þetta ekki á pari við að fara í búðina eftir mjólkurpottinum og skilja eftir brunarústir?
Gagnrýnisleysi
(Nei, ég er ekki byrjaður aftur að blogga reglubundið. Hins vegar er aldrei að vita nema ég hendi inn færslu endrum og sinnum ef sérstakt tilefni er til.)
Fyrsta stríðið sem ég fylgdist almennilega með var Flóabardagi 1991. Auðvitað hafði maður sem pjakkur lesið fréttaskýringar og séð myndir í sjónvarpinu frá stríði Sovétmanna í Afganistan og styrjöldinni milli Íraks og Íran, en þau voru einhvern veginn svo fjarlæg – líkt og atburður úr mannkynssögunni. Flóabardaginn var hins vegar stríð með þátttöku Vesturveldanna, gervihnattasjónvarpsstöðvarnar voru komnar til sögunnar og dagblöðin voru full af kortum og grafískri framsetningu.
Meðan á Flóabardaga stóð, hömruðu fjölmiðlarnir á því að hér væri brotið blað í sögu stríðsfréttaritunar. Aldrei áður hefði almenningur fengið stríð heim í stofu til sín á þennan hátt. Fátt var fjær sanni. Þrátt fyrir allt lesmálið og allar útsendingarstundirnar, voru áhorfendur svo óralangt frá því að vita nokkuð um þetta stríð.
Allar þær vikur sem hernaðurinn stóð, var hamrað á því að nútímatækni með loftárásum og hárnákvæmum vopnum gerði það að verkum að hátækniherir dræpu varla nokkurn almennan borgara (og þegar hægt var að sýna sundurtætt líkin, þá hlaut það bara að vera vegna þess að andstæðingurinn hafði drepið sitt eigið fólk eða komið því fyrir á háskalegum stöðum.) Það liðu margir mánuðir uns hið rétta kom í ljós. Hernaðurinn í Flóaabardaga var í raun dæmigerður lofthernaður sem snerist um að varpa nógu miklu af sprengiefni og sprengja meira heldur en minna. Raforkuver og vatnshreinsistöðvar voru sérdeilis góð skotmörk.
Það merkilega er – að reynslan frá 1991 gerði hvorki almenning né fjölmiðla gagnrýnni á hugmyndina um mannúðlegar hátækniloftárásir. 1999 fengum við að heyra sömu plötuna þegar sprengjunum rigndi í Júgóslavíu og Kosovo. Löngu eftir stríðið birtust svo neðanmálsgreinar á innsíðum blaðanna um fáránlega lélega hittni Nató-vélanna, sem náðu varla að granda skriðdreka, en voru þeim mun duglegri við að skjóta skóla í misgripum.
Svo kom Afganistan 2001, Írak 2003 – og í hvert sinn fannst mönnum svo frábært hvað hátæknivopnin okkar séu fullkomin og drepi bara vonda menn, nema þá helst þegar klækir vondu mannanna neyða okkur til að drepa góða fólkið í misgripum.
Ekkert við fréttaflutninginn af árásunum á Líbýu bendir til að menn hafi minnsta vara á sér. Umfjöllunin er fullkomin endurtekning á því sem við höfum séð í fyrri stríðum: fréttir af glæstum árangri við að sprengja upp hernaðarleg skotmörk, ekkert borgaralegt mannfall – nema þá helst ef óvinurinn hefur svindlað.
Ætli sálfræðin hafi ekki eitthvert hugtak yfir það ástand þegar fólk sækir í að láta ljúga að sér og fellur sífellt fyrir sömu lyginni óbreyttri?
Hlé
Þessi síða er nánast dauð. Ég blogga með höppum og glöppum og eiginlega bara um fótbolta.
Ástæðan er kannski sú að eftir að ég skipti um starfsvettvang, hefur nánast allur vinnutími minn farið í að lesa texta og skrifa á tölvu. Fyrir vikið hef ég enga orku eða sérstaka þörf fyrir að rífa mig mikið á þessari síðu. Mér dugir að besserwisserast á Fésbók (áhugasamir mega alveg senda mér vinabeiðnir, ég samþykki 99% þótt ég þekki viðkomandi ekki neitt).
Ég ætla að reyna að vera duglegri við að senda pistla á Smuguna – þá er pólitíkin dekkuð. Og ég ætti að þrauka án þess að skrifa hér reglulegar færslur um gengi Luton eða Fram.
Þess vegna er ég að spá í að taka mér pásu – í svona tvo mánuði. Kannski dugar það til að kveikja aftur blogglöngunina. Reiknið því ekki með neinum færslum hér þangað til 1.apríl. Þetta bloggbindindi er samt engin kvöð – detti mér í hug að skrifa eitthvað, mun ég gera það hér eftir sem áður.
Þannig er nú það.
Ólympíuleikvangurinn & dómínókubbarnir (b)
Hvernig velja menn sér uppáhaldslið í enska boltanum – þ.e.a.s. þeir sem ekki eiga eldri bræður, frændur (og feður þegar um Leedsara er að ræða) til að segja sér fyrir verkum? Algeng og góð leið er að velja nafn sem manni finnst flott, búning í töff litum eða bara láta litlar tilviljanir ráða – s.s. hvaða fótboltaspjald manni ástkotnaðist fyrst.
Þegar búið er að velja sér uppáhaldslið, geta sömu þættir valdið því að maður verður pínkulítið skotinn í öðrum liðum og haft þau svona til hliðar. Sjálfur hef ég verið svag fyrir Aston Villa, allt frá því að þeir voru besta liðið og með flottasta nafnið um 1982.
Annað lið sem mér hefur þótt vænt um frá því að ég man eftir mér, er Leyton Orient. Skýringin er líklega sú að góður vinur minn í barnaskóla átti nokkuð safn gamalla fótboltaspjalda frá stóra bróður sínum, þar sem meðal annars mátti sjá leikmenn Orient í skringilegum búning.
Leyton Orient átti reyndar til skamms tíma aðdáendaklúbb hér á landi sem hélt úti ölugri vefsíðu. Fjölmiðlamaðurinn Þór Bæring var prímusmótorinn í því og öllum hnútum kunnugur.
Það er ekki auðvelt að vera stuðningsmaður Leyton Orient. Liðið hefur alltaf verið eitt það minnsta og veikasta af deildarliðunum frá Lundúnum. Það liggur á milli yfirráðasvæða stórra úrvalsdeildarliða og sífellt erfiðara hefur reynst að fá nyjar kynslóðir til að halda tryggð við félag sem hefur af litlu að státa í verðlaunaskápnum. Leyton Orient á eitt keppnistímabil að baki í efstu deild (1962-3) og komst í undanúrslit bikarsins 1978 (og þá hefur fótboltaspjaldið góða væntanlega verið prentað).
Um þessar mundir er Orient á sínum sögulega hefðbundnu slóðum sem fremur slakt lið í þriðju efstu deild. En það eru blikur á lofti…
Á næstu dögum (jafnvel strax um helgina) gæti fengist botn í það hvort leikvangnum sem hýsa á Ólympíuleikana í Lundúnum að ári verður breytt í fótboltavöll að leikum loknum – og þá hvort Tottenham eða West Ham hreppi hnossið. Hvort félagið sem verður yrir valinu, er ljóst að staða Leyton Orient verður afskaplega þröng. Ólympíuleikvangurinn er steinsnar frá heimavelli liðsins. Hafi verið erfitt að verjast yfirgangi nágrannana áður, verður það líklega vonlaust eftir 2012.
Aðaleigandi Leyton Orient hefur lengi talað fyrir flutningi félagsins. Hann hefur augastað á Essex-héraði, norðaustur af Lundúnum. Knattspyrnusambandið hefur ekki verið til umræðu um slíkt (menn eru enn minnugir klúðursins þegar Wimbledon var stolið og flutt til Milton Keynes) og stuðningsmennirnir hafa líka verið hugmyndinni andsnúnir. En tilkoma úrvalsdeildarliðs í kálgarðinum mun nær örugglega breyta þeirri mynd og erfitt yrði að standa gegn því að Leyton Orient fengi að flytja sig um set.
Slíkir flutningar hefðu þó augljóslega dómínóáhrif á nýja staðnum. Ekki er fullljóst hvar í Essex Orient-menn myndi bera niður. Stóru liðin í héraðinu eru Colchester og Southend, sem bæði eru austarlega. Væntanlega yrði Orient fundinn staður vestarlega, þar sem góðar samgöngur væru fyrir hendi. Nýju bæirnir: Basildon eða Harlow hlytu að koma til greina. Og mögulega mætti tengja framkvæmdirnar við Stansted-svæðið með einhverjum hætti.
Hver svo sem niðurstaðan verður, má búast við að „stóra liðið“ frá Lundúnum muni traðka niður þau félög sem fyrir eru.
Holdsveiki
Sit þessa daganna og les mér til um sögu íslenskra heilbrigðismála. Þetta er mikil saga og yfirþyrmandi á köflum.
Eins og á svo mörgum öðrum sviðum, þá er fyrirframþekking manns á viðfangsefninu ansi yfirborðskennd og hangir saman við einstaka stóráfanga – sem yfirleitt er hampað sem ótvíræðum og óumdeildum framfaraskrefum í sögunni.
Þannig lærði maður í barnaskóla og svo aftur í menntó, að fyrsti alvöru spítalinn hefði verið Holdsveikraspítalinn á Laugarnesi árið 1898. Í kjölfarið hafi holdsveiki horfið úr sögunni á fáeinum áratugum, en það hafi gerst pínlega seint á Íslandi miðað við restina af Evrópu. Sem sagt: allir kátir.
Ég minnist þess hins vegar ekki að hafa lært neitt í skólanum um hina hliðina á peningnum. Tilkoma Laugarnesspítalans gerði Alþingi það kleift að setja lög þetta sama ár sem heimilaði að úrskurða sjúklinga til ævilangrar sjúkrahúsvistar. Þrátt fyrir að holdsveiki sé líklega sá smitsjúkdómur sem smitast hvað síst milli manna, þýddi tilkoma stofnunarinnar að unnt var að dæma fjölda fólks í ævilangt stofufangelsi. Það er dálítið öfugsnúið.