Fótboltasaga mín 91:100: Þolinmæðin

27. ágúst 2013. Fram 3 : Stjarnan 3 (6:4 eftir vítakeppni)

Framarar eru góðir í undanúrslitaleikjum. Frá því að bikarkeppni KSÍ var komið á legg árið 1960 hefur Fram aðeins einu sinni tapað í undanúrslitum en átján sinnum farið með sigur af hólmi. Það er mögnuð tölfræði. Þetta væri þeim mun ánægjulegra ef ekki kæmi til tilhneiging Framara, einkum í seinni tíð til að tapa bikarúrslitaleikjunum sjálfum.

Fram varð bikarmeistari 1989 er tapaði svo fyrir KR, Fylki, Val og Breiðabliki í fjórum næstu úrslitaleikjum sínum. Úrslitaleiksdagar voru farnir að vera ansi þrúgandi, einkum þar sem við bættist tilhneiging karlaliðsins í handboltanum að tapa bikarúrslitaleikjum. Fram hefur einu sinni unnið bikarúrslitaleik karla í peysutogi en níu sinnum tapað, þar af fjórum sinnum frá aldamótum. Bömmer.

2013 komst Fram enn og aftur í úrslitaleik á Laugardalsvelli. Kringumstæðurnar voru þó ekki vænlegar. Þorvaldur Örlygsson hætti óvænt og fyrirvaralaust snemma móts. Ríkharður Daðason tók við keflinu og hélt liðinu á sömu slóðum 7.-8. sæti nánast allt mótið, þar til í lokaleikjunum að það seig örlítið neðar í töflunni. Stjarnan var hins vegar lið á uppleið og reynslunni ríkari eftir tap gegn KR í úrslitum árið áður.

Flestir veðjuðu á að Stjarnan ynni sinn fyrsta stóra titil og stuðningsmennirnir voru furðulega borubrattir. Á sama tíma var engin pressa á Framliðinu. Samt var maður furðubjartsýnn þann 17. ágúst.

Sú bjartsýni gufaði upp eftir örfáar mínútur þegar Stjarnan fékk billega vítaspyrnu. (Hver dæmir ódýrt víti eftir fimm mínútur í bikarúrslitaleik?) Viktor Bjarki var vissulega klunni í brotinu, en það var líklega fyrir utan teig. Eftir kortér negldi Hólmbert í slá og Jordan Halsman fylgdi á eftir með skalla. Boltinn virtist augljóslega fara inn fyrir línuna, en Kristinn Jakobsson og félagar sáu það ekki.

Undir lok hálfleiksins tóku Stjörnumenn öll völd. Veigar Páll kom þeim í 2:0 og litlu mátti muna að staðan væri 3:0 þegar flautað var til leiksloka, en sambland af röngum ákvörðunum Stjörnumanna og afbragðsvarnarleikur Ólafs Arnar Bjarnasonar öftruðu því.

2:0 undir í hálfleik var svo sem alveg nógu slæmt og stemningin gallsúr undir stúkunni í hléi. Við Framarar eyddum orkunni í að tuða yfir Kristni Jakossyni, harma vítið og gráta markið sem við vorum rændir. Stjörnumenn voru drýgindalegri og bjuggu sig undir 4-5 marka sigur.

Eftir innan við tíu mínútur af seinni hálfleik opnaðist leikurinn á ný. Almarr sprengdi upp Stjörnuvörnina sendi á Hólmbert, sem lét verja hjá sér en fylgdi svo eftir í frákastinu, 2:1 og skyndilega fóru Garðbæingar að ókyrrast.

Eftir markið opnaðist leikurinn og bæði lið sköpuðu sér færi. Aron Bjarnason, sautján eða átján ára gamall, kom inná og byrjaði strax að reyna að sóla sig í gegnum Stjörnuvörnina. Aron varð strax eftirlæti stuðningsmanna.

Þegar 25 mínútur voru eftir jafnaði Almarr með skalla eftir sending frá Halsman. Skotinn litli átti sinn langbesta leik í bláa búningnum. Hann reyndi árangurslaust fyrir sér með Blikum sumarið eftir, en er núna á mála hjá Cowdenbeath í Skotlandi. Vonandi gengur það vel.

Jöfnunarmarkið virtist hafa tekið alla orku Framara, því Stjarnan sótti stíft á eftir og komst fljótlega í 3:2. Í annað sinn í leiknum féll mér allur ketill í eld.

Stjarnan reyndi að drepa leikinn og Framarar komust lítið áleiðis. Ríkharður skipti í þriggja manna vörn og sendi Daða Guðmundsson inná. Ekki var þó gott að segja hvort um taktíska skiptingu var að ræða eða byggða á nauðsyn, þar sem Ólafur Örn var gjörsamlega úrvinda. Það er raunar sjálfstætt rannsóknarefni hversu mikið hann gat leikið þetta sumar með skrokkinn lemstraðan.

Þegar allt virtist búið tók Samuel Hewson aukaspyrnu af löngu færi, lyfti fyrir markið þar sem Hólmbert fékk að stökkva einn upp og skalla fyrir Almarr sem jafnaði. Ó, hvað við hlógum! Skyndilega varð ég sannfærður um að Fram yrði bikarmeistari. Kristinn Jakobsson hefði auðveldlega getað stytt biðina eftir því óumflyjanlega með því að dæma víti í uppbótartíma þegar Hólmberti var hrint, en gerði ekki.

Í framlengingunni voru bæði lið örmagna. Framvörnin virkaði brothætt og Orri Gunnarsson allt í einu kominn í miðvörðinn, væntanlega í fyrsta sinn á ferlinum. Það fór því ónotatilfinning um áhorfendur Frammegin þegar Tryggvi Bjarnason kom inná undir lokin, að því er virtist til að gnæfa yfir alla aðra í framlínunni. Mikið var því gott að sjá hann skokka aftur í vörnina. Ríkharður 1 : Logi Ólafsson 0.

Vítakeppnin hófst. Bæði lið skoruðu úr fyrstu spyrnu (Hólmbert og Ólafur Finsen). Hewson kom okkur í 2:1 en annað árið í röð þrumaði Garðar Jóhannsson í þverslá. Falleg hefð!

Halsman skoraði 3:1 og í næstu spyrnu varði Ögmundur frá Halldóri Orra Björnssyni! Löwing hefði getað verið óvænt hetja, en Ingvar Jónsson varði lélega spyrnu hans auðveldlega. En það kom ekki að sök. Ömmi varði næsta víti og Fram fagnaði fyrsta stóra titlinum í 23 ár! Ef marka má ljósmyndir skemmti ég mér vel í Framheimilinu um kvöldið.

(Mörk Fram: Hólmbert Aron Friðjónsson, Almarr Ormarsson 2. Mörk Stjörnunnar: Halldór Orri Björnsson 2, Veigar Páll Gunnarsson)

Fótboltasaga mín 90/100: Ræðukeppnin

25. september 1993. Fram 2 : KR 4

Þegar mótanefnd KSÍ birtir leikjaplan næsta tímabils láta flestir nægja að tékka á fyrstu tveimur umferðunum og þeirri síðustu. Fjölmiðlarnir reyna að sigta út stórleikina og giska á hvar úrslitin kunni að ráðast.

Hinn augljósi úrslitaleikur sumarsins 1993 – áður en mótið hófst – var viðureign Fram og KR í átjándu umferð. Spekingar reiknuðu með að þessi lið myndu berjast við Skagamenn um titilinn. Annað kom á daginn.

Akranes var langbest og fékk fullt hús stiga nema á móti okkur Frömurum sem tókum fjögur stig af þeim. Öllum að óvörum varð FH langnæstbest og Keflvíkingum tókst að mjaka sér uppfyrir Reykjavíkurliðin. Þegar kom að átjándu umferð voru öll úrslit ráðin önnur en hvort ÍBV eða Fylkir féllu niður um deild. Hinn fyrirhugaði stórleikur í Laugardalnum reyndist því hálfgert antíklímax með 400 hudtrygga stuðningsmenn sem gátu varla beðið eftir að mótinu lyki.

Sjálfur hafði ég reyndar engan tíma til að mæta á völlinn. MR-Verslódagurinn stóð fyrir dyrum og ég var í ræðuliðinu.

MorfÍs-keppnir þessara ára (og ég reikna ekki með að það hafi mikið breyst í dag) voru stíft prógram í heila viku. Keppt var á föstudögum og byrjað að semja um umræðuefni síðdegis á fimmtudegi vikunni áður. Það var yfirleitt margra klukkustunda pissukeppni og ekki óalgengt að málið væri óútkláð eftir maraþonþref morguninn eftir. Þegar efnið var loksins komið tóku við stífar pælingar og loks ræðusamning alla helgina með sífelldum fundum þar liðsmenn báru saman bækur sínar. Með góðum vilja var svo alveg hægt að réttlæta fyrir sjálfum sér að skrópa nánast alla vikuna á eftir til að æfa ræðuna.

Það var því lítið svigrúm fyrir fótboltagláp á laugardegi í þessari dagskrá – og ég bakaði mér litlar vinsældir hjá Daníel Frey þjálfara eða liðsfélögum mínum þegar ég tilkynnti að nú væri fótboltaleikur og ég kæmi aftur eftir fjóra tíma.

Ég mætti sem sagt á Laugardalsvöll, en það sama verður ekki sagt um alla leikmennina. Leikurinn var ótrúlega daufur. Óli Jó vinur minn og KR-ngur fékk að sitja hjá okkur Frömurunum, sem var til marks um hversu litlu máli leikurinn skipti. Á „alvöru“ leikjum Fram og KR höldum við okkur alltaf í góðri fjarlægð hvor frá öðrum.

Bjarki Pétursson kom KR yfir með klaufalegu marki sem lak í netið eftir að Birkir Kristinsson náði ekki að slá knöttinn framhjá. Það var ergilegt enda þótti Bjarki frekar kátlegur spóaleggur, nýkominn frá Tindastóli og algjör óþarfi að koma honum á markaskoraralista. Steinar Ingimundarson kom KR í 0:2 áður en Ingólfur Ingólfsson, besti leikmaður Fram þetta sumarið, minnkaði muninn undir lok hálfleiksins. Blaðamaður Morgunblaðsins hefur greinilega dottað yfir leiknum, því hann skrifaði markið á Kristján Jónsson – sem er sérkennilegur ruglingur.

Kristján (sem var eini Framarinn sem ekki fékk lægstu einkunn í DV) gaf klaufalegt víti þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. KR-ingar sýndu hroka glæpamannsins og létu Þormóð Egilsson taka spyrnuna. Hann skoraði og KR-stuðningsmennirnir fögnuðu. Við Framarar vorum spakir, enda enn tvö ár í að Þormóður yrði Quisling sinnar kynslóðar að okkar mati.

Daði Dervic, sem var langbesti maður vallarins kom svo KR í 1:4 áður en Ágúst Ólafsson krafsaði í bakkann undir lokin. Tveggja marka munurinn reyndist þó stærsti sigur KR á Fram í ellefu ár eða allt frá 2:0 viðureign árið 1982. Annars voru Framarar minnst að hugsa um slíkt. Helst að leikmennirnir reyndu að skapa færi fyrir Helga Sigurðsson sem átti mögulega á silfurskónum, en náði ekki.

Undir lokin kom Jói Tomm, gamall skólafélagi úr Hagaskólanum inná í sínum fyrsta og eina deildarleik fyrir KR. Og einhvern veginn fannst manni það vera merkilegustu tíðindi dagsins á leiðinni til baka á ræðuliðsæfinguna. En hvernig sú keppni fór eða hver var ræðumaður kvöldsins gæti ég ekki rifjað upp til að bjarga lífi mínu.

(Mörk Fram: Ingólfur Ingólfsson, Ágúst Ólafsson. Mörk KR: Bjarki Pétursson, Steinar Ingimundarson, Þormóður Egilsson, Daði Dervic)

Fótboltasaga mín 89/100: Metsölubókin

27. júlí 2007. Fjarðabyggð 0 : Fjölnir 2

Það mun kom að því að einhver bókaútgefandinn kveiki á  að láta semja Öskubuskusögu íslenskrar knattspyrnusögu. Hún mun segja frá Skallagrímsliðinu á tíunda áratugnum, Víði Garði sem fór alla leið í bikarúrslit, Leiftri Ólafsfirði og Völsungi frá Húsavík á ofanverðum tíunda áratugnum og Ísafjarðarliðinu 1983. Það verður æðisleg bók.

Í kjölfar óhjákvæmilegra vinsælda þessarar bókar verður samið framhaldsrit: ævintýrin sem næstum því urðu. Það verður öllu melankólískari frásögn af liðunum sem meikuðu það næstum því upp í deild hina bestu. Ármann á sjöunda áratugnum, Siglufjarðarliðið sem komst upp en tapaði á kæru fyrir að nota of ungan leikmann og svo verður það Fjarðabyggð 2007…

Þorvaldur Örlygsson er líklega snjallasti þjálfari landsins. Hann skortir sannarlega ákveðna þætti í mannlegum samskiptum og er ekki sá klókasti í að tala við fjölmiðla, en sem þjálfari eru líklega færri klókari. 2006 tók hann við stjórn Fjarðabyggðarliðsins og rúllaði upp C-deildinni. Að lafa í næstefstu deild, fyrstu tólf liða deildinni í íslensku knattspyrnusögunni, var talið eðlilegt markmið árið eftir.

Fjarðabyggðarliðið var ekki skipað neinum stjörnum en það gat pakkað í vörn. Þegar mótið var hálfnað var Fjarðabyggð í næstefsta sæti og á leið upp um deild, en fjölgun í efstu deild yfirvofandi og þrjú lið sem færu upp. Fjarðabyggð hafði bara fengið á sig fimm mörk í leikjunum ellefu og framtíðin virtist björt. Í næstu umferð mættu Austfirðingar Þrótturum í Laugardalnum. Ég leit á lokamínúturnar til að fylgjast með mínum mönnum (enda tengdasonur Norðfjarðar) en sá Hjört Hjartarson skora fúlt mark og tryggja heimamönnum sigur.

Þrátt fyrir tapið gegn Þrótti var ennþá allt opið í toppbaráttu fyrstu deildar (fyrir utan að Grindavík vann alla og var örugg með toppsætið). Stóri uppgjörsleikurinn yrði Fjarðabyggð : Fjölnir í þrettándu umferð, í síðasta leik fyrir verslunarmannahelgi.

Ég var kominn austur nokkrum dögum fyrir leik og skutlaðist yfir á Eskifjörð til að sjá toppslaginn. Ekki hafði ég vit á að semja um samflot með Smára, frænda Steinunnar heldur hitti hann bara á vellinum ásamt fáeinum öðrum Norðfirðingum sem ég kannaðist við.

Þetta var sex stiga leikur. Fjarðabyggð fékk þokkaleg færi í byrjun, en virtist ekki jafn sannfærandi í vörninni og verið hafði. Grafarvogsbúar komu þeim nokkrum sinnum í vandræði, einkum Pétur Markan. Eftir pressu frá honum setti einn heimamanna boltann í eigið net undir lok fyrri hálfleiks. Fjarðabyggð þurfti að mjaka sér framar á völlinn, nokkuð sem átti ekkert sérstaklega vel við liðið. Pétur Markan skoraði aftur snemma í seinni hálfleiknum og Fjölnismenn drápu leikinn síðasta hálftímann.

Og þar með var draumurinn úti. Þróttarar skriðu upp að hlið Grindvíkinga á toppnum. Fjölnir hélt þriðja sætinu dýrmæta og Eyjamenn, sem byrjað höfðu illa, höfnuðu í fjórða sæti. Fjarðabyggð endaði í fimmta sæti með 37 stig og þá kostulegu markatölu 23:17 í 22 leikja deild.

Þessi árangur var frábær, hvernig sem á það var litið. Þorvaldur gerðist þjálfari Fram og tók tvo af mikilvægustu mönnunum með sér. Fjarðabyggðaliðið tók hins vegar dýfu og var fáeinum misserum síðar komið niður í gömlu fjórðu deildina. Það er reyndar einkenni á Öskubuskuævintýrunum í íslenska boltanum, að mönnum er skellt ansi hratt niður á jörðina.

(Mörk Fjölnis: sjálfsmark, Pétur Georg Markan)

Fótboltasaga mín 88/100: Helgarbíltúrinn

10. september 1983. Reynir Sandgerði 0 : Fram 1

Framarar féllu haustið 1982 með fimmtán stig, tveimur stigum minna en Valur, liðið í fimmta sætinu. Þetta var skrítið mót sem einkenndist af fáum mörkum og fáránlega mörgum jafnteflum. Þannig urðu Víkingar Íslandsmeistarar á sjö sigrum og níu jafnteflum í átján leikjum. Þeir skoruðu aðeins 25 mörk, sem þó var hátíð miðað við alræmt leiðindalið KR sem var með markatöluna 14:12 í þriðja sætinu!

Það furðulega er að þrátt fyrir fallið bar Frömurum saman um að ´82-liðið hefði verið síst lakara en liðið sem hafnaði í öðru sæti sumarið áður. Þjálfarinn var pólskur, Andrzei Strejlau og þótti mikill snillingur. Strejlau átti stóran þátt í að byggja upp liðið sem varð svo sigursælt síðar á níunda áratugnum.

En nú voru Framararnir komnir í aðra deildina með kornungt lið og feitan ferðareikning yfirvofandi. Af tíu liðum voru aðeins þrjú af höfuðborgarsvæðinu. Þrjú komu frá Suðurnesjum, önnur þrjú frá Norðurlandi og svo áttu Vopnfirðingar sína fulltrúa, en lið Einherja gerði jafntefli í báðum leikjunum við Fram þetta sumarið.

Þetta var líka sumarið sem ég byrjaði að fylgjast með fótbolta. Eins og rakið var í fyrsta pistli þessarar ritraðar (ég ætlaði fyrst að skrifa bloggraðar, en það orð er bara svo ljót og dónalegt á prenti) þá mætti ég í fyrsta sinn á völlinn á úrslitaleik Reykjavíkurmótsins þá um vorið og gerðist Framari. Í kjölfarið hef ég væntanlega farið að suða í afa að taka mig á annan leik.

Aldrei fannst heppilegur tími, en ég hélt áfram að þráspyrja hvenær væri næsti leikur og hvort við gætum ekki örugglega farið bráðum? Loks fannst smuga. Í næstsíðustu umferð héldu Framarar til Sandgerðis. Reynismenn sátu á botninum og voru fallnir. Með Framsigri væri efstudeildarsætið hins vegar tryggt á ný.

Leikið var á laugardegi og við afi ókum suður með sjó á gömlu appelsínugulu Volkswagen bjöllunni hans. Vafalítið stoppuðum við í kaffi hjá Óla frænda og fjölskyldu. Þau bjuggu í Njarðvík og voru skyldustopp þegar farið var á leiki á Suðurnesjum.

Í minningunni var stríður straumur Framara á völlinn og geysilegur fjöldi áhorfenda. Væntanlega munu tölfræðigögn KSÍ ekki styðja þá upplifun, sem minnir mig á að Knattspyrnusambandið þarf að girða sig rækilega í brók að berja inn gamlar leikskýrslur á KSÍ-vefinn.

Leikið var á malarvelli og áhorfendur stóðu meðfram hliðarlínunni. Reykvískt pjatt eins og stúkur höfðu ekki hafið innreið sína. Annars átti ég erfitt með að einbeita mér að leiknum, þar sem mér fannst nógu áhugavert að virða fyrir mér bæinn. Ég var að „safna“ kaupstöðum og kauptúnum og Sandgerði var nýtt púsl í myndina.

Framararnir voru miklu betri. (Auðvitað fannst mér það sjálfum, en frásagnir dagblaðanna virðast styðja þá minningu.) Kristinn R. Jónsson skoraði snemma leiks og fékk skömmu síðar vítaspyrnu. Hafþór Sveinjónsson þrumaði í stöng. Annað mark lá í loftinu en Reynismarkvörðurinn var í stuði og rækilega pakkað í vörn. Í einum af fáum skyndisóknum Reynis, undir lok fyrri hálfleiksins, slapp framherji heimamanna einn inn fyrir. Guðmundur Baldursson hljóp út úr markinu og þeir skullu saman.

Dómarinn flautaði, annað hvort rangstöðu eða brot á Suðurnesjamanninn. Guðmundur lá á bakinu, harla ósáttur og þegar andstæðingurinn sneri sér við spyrnti Guðmundur með báðum fótum í óæðri endann á honum.

Að sparka í rassinn á einhverjum var vitaskuld það fyndnasta átta ára strákur gat hugsað sér og ég var hæstánægður með minn mann. Sú gleði dofnaði nokkuð þegar dómarinn kom aðvífandi með rautt spjald á lofti. Þetta var þeim mun óvæntara í ljósi þess að á fyrri hluta níunda áratugarins voru það nánast einvörðungu líkamsárásir sem leiddu til dauða eins eða fleiri andstæðinga sem gáfu beint rautt.

Manninum færri höfðu Framarar hægt um sig í seinni hálfleik, enda eins marks sigur nóg. Sjálfur var ég eiginlega alveg hættur að nenna að fylgjast með, enda varla með úthald í níutíu mínútur. Það var líklega engin tilviljun að afi sleppti því að fara með mig á völlinn sumarið eftir. Og ekki var ég tekinn með í lokaleikinn þetta sumarið þar sem Fram vann FH og tryggði sér 2. deildar bikarinn í lokaleik goðsagnanna Marteins Geirssonar og Jóns Péturssonar.

(Mark Fram: Kristinn R. Jónsson)

Fótboltasaga mín 87/100: Mótanefndin

3. september 1989. Fram 2 : KR 1

Fótboltarassvasasálfræði 101: Þegar lið mætast í samliggjandi leikjum í deild og bikar, vinnur liðið sem tapaði fyrri viðureigninni oftar en ekki þá síðari.

Allir knattspyrnuáhugamenn eru með þessi sannindi á hreinu, þótt ég sé ekki viss um að þau standist tölfræðilega rannsókn. Það eru samt alltaf blendnar tilfinningar að mæta sömu andstæðingum tvisvar í röð – einkum þegar báðir leikir er mikilvægir.

Fram og KR mættust með viku millibili haustið 1989. (KR-ingar áttu reyndar leik í millitíðinni – meira um það síðar.) Fyrst í bikarúrslitum og svo í deildarleik í 16. umferð sem skar úr um hvort liðið ætti enn möguleika á titlinum.

Bikarúrslitaleikurinn 1989 var um margt merkilegur. Umgjörðin í kringum hann var meiri en tíðkast hafði. Fjallað var um hann í fjölmiðlum marga daga á undan, nærri 5000 miðar seldust og bæði félög stóðu fyrir ýmsum uppákomum til að auka stemninguna. KR-ingarnir voru ákafari, enda óvanir úrslitaleikjum á meðan slíkar samkomur voru daglegt brauð í Safamýrinni.

Framarar urðu bikarmeistarar eftir fjörugan leik, 3:1, þar sem öll mörkin voru skoruð á fyrsta hálftímanum. (Gummi Steins tvö, Pétur Ormslev eitt – og svo einhver KR-ingur sem ég nenni ekki að nefna.)

Framarar fengu viku til að fagna, en KR þurfti að leika erfiðan leik gegn FH aðeins þremur dögum eftir bikarúrslitin (ég sagðist myndu útskýra það!) – Ástæðan var umdeild ákvörðun mótanefndar.

Upphafið var sú sérkennilega ráðstöfun að setja niður heila umferð í efstu deild sömu helgi og bikarúrslitaleikurinn. Sú hugmynd þætti fráleit í dag, en var kannski til marks um hvað úrslitaleikurinn var talinn minni viðburður fyrir þessa örlagaríku viðureign Fram og KR ´89.

Vegna þessa þurfti að flytja leik Þórs og Fram: annað hvort með því að flýta leiknum um nokkra daga eða seinka honum. Frömurum hugnaðist illa að leika þrjá leiki á viku og kröfðust þess að Þórsleiknum yrði flýtt til 20. ágúst. Landsliðsnefnd KSÍ var á öðru máli og vildi seinka leiknum þar sem Íslandi átti leik gegn Austurríkismönnum í Vínarborg þremur dögum síðar og nokkrir Framarar voru í landsliðshópnum. Um þetta var togast í nokkra daga.

Til að auka flækjustigið blönduðust leikbönn inn í málið. Pétur Ormslev átti yfir höfði sér bann vegna fjögurra gulra spjalda. Yrði Þórsleiknum flýtt yrði hann í banni þá, ella missti hann af bikarúrslitunum. KR-ingar tóku það því óstinnt upp þegar Framarar höfðu sitt í gegn að lokum og töldu til marks um að Fram-mafían hefði KSÍ í vasanum. Það má þó spyrja sig hver gróði Framliðsins varð, því Péturslausir töpuðu Framarar nyrðra. Þau stig reyndust dýrkeypt í lok móts. – Þá þýddi þessi leikjaröðun að Þorsteinn Þorsteinsson missti af úrslitaleiknum sem mér þótti súrt í broti, enda hann uppáhaldsleikmaðurinn minn.

En Framarar mættu sem sagt KR-ingum í sextándu umferð sem nýkrýndir bikarmeistarar. Staðan í deildinni var fáránlega jöfn. Fyrir leikinn var KA með þrjátíu og FH með 29 stig, bæði eftir sextán leiki. Fram og KR voru bæði með 26 stig eftir fimmtán leiki. Sigurvegararnir yrðu enn með í baráttunni. Tap eða jafntefli setti bæði lið nær örugglega úr leik.

Fram var nærri því að ná forystunni þegar Pétur Ormslev þrumaði í stöngina snemma leiks. Eftir hálftíma leik skallaði Pétur Pétursson í Frammarkið. 0:1 í hálfleik, þar sem fátt hafði borið til tíðinda. Einhverra hluta vegna léku KR-ingarnir í varabúningunum sínum – hinum fádæma ljótu svart- og gulröndóttu treyjum sem einhverjum óprúttnum heildsalanum tókst að pranga inn á þá á þessum árum.

Snemma í seinni hálfleik jafnaði Gummi Steins. Við tók nokkuð fjörleg rimma þar sem bæði lið sóttu á víxl. Birkir varði það sem að marki Fram kom og Frömurum mistókst að skapa sér opin færi. Ragnar Margeirsson var tekinn útaf og inn á kom sautján ára gamall Ríkharður Daðason sem þegar fór að ógna.

Þegar vallarklukkan sýndi 88 mínútur og flestir voru búnir að sætta sig við að FH-ingar eða KA-menn yrðu Íslandsmeistarar, komst Ríkharður í gott færi en í stað þess að reyna skot sendi hann til hliðar á Pétur Ormslev sem kom aðvífandi og tryggði sigurinn. Framarar fögnuðu í stúkunni og byrjaði strax að leggja drög að því hvernig ég gæti verið óþolandi við KR-ingana í Hagaskólanum næstu daga.

Fram var enn með í baráttunni um titilinn, þótt það reyndist skammvinn sæla. Í næstu umferð slökkti Ólafur Gottskálksson markvörður ÍA allar meistaravonir okkar í slagveðursleik á Skaganum (hver hefði trúað því?) En það er önnur saga.

(Mörk Fram: Guðmundur Steinsson, Pétur Ormslev. Mark KR: Pétur Pétursson)

Fótboltasaga mín 86/100: Orðhákurinn

8. janúar 2006. Luton 3 : Liverpool 5

Mike Newell myndi sóma sér vel sem söguhetja í tragískri skáldsögu. Hann er snjall knattspyrnustjóri, mögulega sá besti sem þjálfað hefur Luton frá því á níunda áratugnum, en skapgerðarbrestir og þvergirðingsháttur hefur gert það að verkum að honum hafa ekki boðist nein þjálfunarstörf frá 2009.

Hann var á mála hjá ungmennaliði Liverpool og þótt hann væri látinn fara þaðan aðeins sautján ára gamall, eignaðist hann marga vini á Anfield. Þannig var hann einn af líkmönnunum í útför Bob Paisleys og skilgreindi sig alltaf fyrst og fremst sem Liverpool-mann, meira að segja meðan hann var á mála hjá Everton (nokkuð sem var mjög í takt við hans karakter). Á löngum ferli spilaði Newell með gullaldarliði Blackburn á fyrri hluta tíunda áratugarins, með Leicester í tvö ár og í eitt og hálft ár með Luton, 1986-87, þar sem hann skoraði m.a. fræga þrennu á móti Liverpool.

Þjálfaraferillinn hófst hjá Hartlepool, þaðan sem Newell var nánast hrakinn með heykvíslum af óánægðum stuðningsmönnum. Skömmu síðar komst Luton í eigu Johns Gurney, glæpamanns og fábjána, sem rak vinsælt þjálfarateymi og réð Newell í staðinn á grunni símakosningar sem nær örugglega var rigguð. Newell var líklega eini alvöru þjálfarinn sem vildi koma nálægt Gurney, sem stýrði félaginu í greiðslustöðvun á mettíma. Newell hélt hins vegar djobbinu og vann stuðningsmennina hægt og bítandi á sitt band.

Illu heilli kom hann sér reglulega í blöðin með hvatvíslegum ummælum. Þannig varð hann búri ársins þegar hann lýsti því yfir að konur ættu ekki að fá að vera línuverðir. Þegar hann var beðinn um að útskýra mál sitt, sagðist hann vera karlremba og stoltur af því. – Annar og alvarlegri skandall sem tengdist Newell var þegar hann ljóstraði upp um ólöglegar greiðslur til umboðsmanna undir borðið. Með því taldi hann sig vera að fletta ofan af meinsemd í knattspyrnuheiminum og ýta á eftir því að Breska knattspyrnusambandið kæmi skikk á málin. Afleiðingin varð sú að knattspyrnusambandið gaf umboðsmönnunum áminningu til málamynda en refsaði Luton. Í kjölfarið fóru svo flestir umboðsmenn að sniðganga Luton meðan það var undir stjórn Newells.

Stærsta stund Newells sem knattspyrnustjóra var væntanlega á móti Liverpool í þriðju umferð bikarkeppninnar árið 2006.

Evrópumeistararnir komu í heimsókn á Kenilworth Road í augljósum sjónvarpsleik. Sjálfur mætti ég á Ölver og sat til borðs með Framaranum og Púlaranum Steingrími Sævarri Ólafssyni. Þar ræddum við um Framliðið og pólitíkina og biðum eftir leiknum. Salurinn var fullur af Liverpoolmönnum sem bjuggu sig undir þægilegan sigur.

Liverpool tefldi fram nokkurn veginn besta liði, með þeirri undantekningu þó að Scott Carson var í markinu. Benitez hefur væntanlega búist við varnarsinnuðu Luton-liði sem pakka myndi í vörn og treysta á skyndisóknir eða föst leikatriði með turninn Steve Howard einan frammi. Það reyndist misskilningur.

Mike Newell skrifaði skringilega og þruglkennda hugvekju í leikskránna um að stífur varnarleikur væri svik við íþróttina og lofaði að blása til sóknar. Hann stóð við það. Luton pressaði stíft og sótti á mörgum mönnum frá fyrstu mínútu. Carson hafði nóg að gera og það stemningin á Ölveri fór að verða skrítin.

Eftir kortér virtist þó sem leikaðferð Newells ætlaði að koma honum í koll. Gerrard kom gestunum yfir og rauðklæddir töldu að björninn væri unnin. Ég varð hnugginn og félagi Steingrímur reyndi að stappa í mig stálinu.

En Newell hélt sínu striki. Luton hélt áfram að pressa og eftir hálftíma opnaði Steve Robinson rangstöðuvörn Liverpool upp á gátt (eins og hann virtist gera að vild allan leikinn) og Howard lék sér að markverðinum og jafnaði leikinn. Ég stökk á fætur, öskraði og sló hnefunum út í loftið. Umhverfis mig brostu Liverpool-menn yfir þessum barnalegu gleðilátum. Í hinum enda salarins heyrðis einn annar maður klappa og hrópa.

Rétt fyrir leikhlé skoraði Robinson svo sjálfur og breytti stöðunni í 2:1. Aftur spratt ég á fætur og fagnaði tryllingslega. Gaurinn hinu megin hrópaði líka. Augnaráðið frá mönnunum í rauðu treyjunum var ekki alveg eins vingjarnlegt í þetta skiptið, en þeir gátu þó fúslega viðurkennt að forystan væri sanngjörn.

Eftir hlé hélt djöfulgangurinn áfram. Liverpool fékk víti, en Beresford í markinu hjá okkur varði auðveldlega slaka spyrnu frá Cissé. Newell rak sína menn framar á völlinn. Hann var ekkert hættur.

Rowan Vine slapp í gegnum Liverpool-vörnina og var kominn einn á móti Carson markverði sem braut á honum, að því er virtist rétt fyrir utan vítateig. Augljóst rautt spjald að því er virtist, en dómarinn ákvað að láta gult spjald duga en færa brotið þess í stað inn í vítateig! Howard skoraði úr vítinu. Dauðaþögn skall á í Ölveri.

Sagði ég dauðaþögn? Ónei, ekki alveg. Tveir menn hrópuðu upp yfir sig. Ég og gaurinn í hinum endanum – Stefán Sæbjörnsson Framari (Stebbi málari). Við hlupum hvor til annars, föðmuðumst og rákum upp stríðsöskur. Augljóst var af svipnum á mönnunum í kring að húmorinn fyrir okkur tveimur var alveg horfinn.

Líklega hefðum við verið lamdir nokkrum mínútum síðar ef Steve Finnan hefði ekki varið skalla frá Howard á marklínu.

Newell stóð enn á hliðarlínunni og sagði sínum mönnum að sækja. En orkan var senn á þrotum. Liverpool-leikmennirnir náðu fljótlega vopnum sínum og ferskir fætur komu inná af bekknum. Sinama Pongolle minnkaði muninn fimm mínútum eftir að hafa komið inn fyrir Sissoko.

Xabi Alonso jafnaði metin þegar tuttugu mínútur voru eftir og Pongolle kom gestunum yfir fimm mínútum síðar. Skyndilega urðu gestirnir á Ölveri öllu drýgindalegri. Þegar komið var fram í uppbótartíma settu Luton-menn allt í sóknina og Beresford fór fram í einu horninu, Liverpool vann boltann og Alonso skoraði í tómt markið frá eigin vallarhelmingi. Melurinn!

En jæja, við Stebbi málari vorum þó ekki lamdir.

(Mörk Luton: Steve Howard 2, Steve Robinson. Mörk Liverpool: Steven Gerrard, Sinama Pongolle 2, Xabi Alonso 2)

Fótboltasaga mín 85/100: Pungsparkið

18. september 1991. KR 0 : Torino 2

Kennedy-móment karlmanna af minni kynslóð var þegar Búlgarinn Trifon Ivanov varði þrumuskot eins þýska leikmannsins í fjórðungsúrslitunum á HM 1994 með pungnum. Það small í og Berti Vogts spurði í forundran: „Hvað brast þar svo hátt?“ – „Heimsmeistaratitillinn úr hendi þér, stjóri“, svaraði einhver á bekknum.

Meðan sá ófrýnilegi Ivanov engdist á vellinum, þjáðist heimsbyggðin með honum. Þannig er það alltaf á fótboltaleikjum þegar knötturinn syngur í slátri einhvers leikmannsins. Í eitt augnablik brýst mennskan út meðal áhorfenda sem fyllast samúð og flökurleikatilfinningu. Fáeinum sekúndum síðar bráir hún þó af stuðningsmönnum hins liðsins sem hlæja og skemmta sér.

Eitt eftirminnilegasta íslenska pungskotið var á Laugardalsvelli haustið 1991. Það var raunar eitt af fáu sem var minnisstætt við viðkomandi leik.

KR-ingar kepptu í Evrópukeppni félagsliða og andstæðingarnir voru ekki af verri endanum: Torino frá Ítalíu. Ég mætti á leikinn. Torino hefur verið mitt lið á Ítalíu, væntanlega frá því að maður las um gullaldarliðið sem fórst í flugslysinu á fimmta áratugnum og breytti varanlega valdahlutföllum á Ítalíu.

1991 var Ítalía líka flottasta knattspyrnulandið. Þar voru bestu leikmennirnir. Enski boltinn á RÚV var fínn til að horfa á sköllótta menn kljást í drullusvaði, en sunnudagsleikirnir frá Ítalíu á Stöð 2 var það sem horfa skyldi á til að sjá færni og snilli.

Þetta sama ár hafði Torino endað í fimmta sæti og komist í Evrópukeppni, meðal annars á kostnað Juventus. Það þótti Torino-mönnum ekki leiðinlegt.

Og liðið var hörkugott. Luca Fusi, gamli Napoli-maðurinn, var í aðalhlutverkinu á miðjunni ásamt Rafael Vázquez, Spánverjanum sem komið hafði frá Real Madrid. Síðar átti Vázques eftir að ganga til liðs við Marseilles og svo aftur til Real Madrid. Á þessum árum var nálega óþekkt að spænskir leikmenn spiluðu utan heimalandsins.

Frammi var Giorgio Bresciani, rétt rúmlega tvítugur strákur sem var meðal markahæstu manna veturinn 1990-91 og talinn gríðarlegt efni. Hann náði þó aldrei að endurtaka leikinn og varði tíunda áratugnum í flakk frá liði til liðs, þar sem hann spilaði 5-10 leiki á hverjum stað. Við hlið hans var Brasilíumaðurinn Walter Casagrande, sem fótboltanördið ég mundi eftir frá HM 1986, þar sem hann kom við sögu í öllum riðlakeppnisleikjunum. Það var leikmaður sem átti góðan lyfjafræðing.

Spenntastur var ég þó fyrir að sjá Enzo Scifo. Belginn snjalli var einn af mínum uppáhalds leikmönnum. Hann átti frábært tímabil og átti einna stærstan þátt í að Torino hafnaði í þriðja sæti næsta vor. En hann var því miður ekki í liðinu á Laugardalsvelli vegna meiðsla.

Stjörnuliðið frá Torino ætlaði greinilega ekki að eyða meiri orku í leikinn gegn þeim röndóttu en nauðsyn krefði. Ítalirnir fóru aldrei upp úr öðrum gír, en þurftu svo sem ekki að gera neitt meira. Casagrande lagði upp mark fyrir bakvörðinn Roberto Mussi eftir tuttugu mínútur. Þegar kortér var eftir gulltryggði Enrico Annoni sigurinn 0:2. Torinomenn hefðu svo sem getað skorað 1-2 mörk í viðbót, en sáu ekki tilganginn.

Mörkin voru ekki hápunktur leiksins, sem fyrr sagði. Það var atvikið í fyrri hálfleiknum þegar varnarjaxlinn Sigurður Björgvinsson stökk fyrir sendingu eins Ítalans og varði hana… með pungnum. Það mátti heyra andvarp í stúkunni frá þúsund munnum. Boltinn hélst inná og á einhvern ofurmannlegan hátt tókst Sigurði að finna orku og þrek til að teygja sig eftir honum og spyrna útaf áður en sá ítalski slyppi í gegn.

„Ætlar mannhelvítið ekki að leggjast í jörðina?“ – hugsuðu allir viðstaddir og hrylltu sig. Þessar fáeinu sekúndur sem liðu áður en boltinn fór útaf virtust óratími. En um leið og knötturinn var kominn úr leik steig Sigurður eitt eða tvö skref, rétti svo aðra höndina á loft og hneig til jarðar eins og hann hefði verið skotinn. Það fór drjúgur tími í að stumra yfir honum.

KR sá svo aldrei til sólar í seinni leiknum, þar sem heimamenn skoruðu fjögur mörk á átta mínútum og sex alls. Þetta var líka gott ár hjá Torino í UEFA-keppninni. Boavista, AEK Aþenu og B 1903 (sem síðar rann inn í FC København) voru öll meðal fórnarlamba liðsins, uns Real Madrid var rutt úr vegi í undanúrslitum. Í fyrri úrslitaleiknum skoraði Casagrande bæði mörkin gegn Ajax, en Hollendingarnir náðu þó jafntefli og unnu svo á súrasta mögulega hátt: á útivallarmörkum með því að ná markalausu jafntefli á heimavelli í seinni viðureigninni. Þá hefur leikmönnum Torino væntanlega liðið eins og eftir spark í punginn.

(Mörk Torino: Roberto Mussi, Enrico Annoni)

Fótboltasaga mín 84/100: Vefsíðan

4. ágúst 2013. Fram 2 : Breiðablik 1

Konan mín er frá Neskaupstað. Þótt Steinunn hafi að mestu alist upp á höfuðborgarsvæðinu er hún í hjarta sínu Norðfirðingur. Þar eyddi hún sumrunum, þar bjuggu margir bestu vinir hennar og þaðan gerir tengdapabbi út trilluna sína. Um leið og við Steinunn tókum saman varð ljóst að ég ætti eftir að verja drjúgum tíma ár hvert fyrir austan, einkum eftir að grísirnir komu til sögunnar.

Við förum austur lágmark einu sinni á ári. Það er oftast í tengslum við verslunarmannahelgi og Neistaflug. Börnin fara í hoppukastala, horfa á Gunna og Felix og leika við vini sína. Við móðirin liggjum og sofum til að hlaða batteríin og höfum ekki minnsta samviskubit þótt afinn eyði endalausum tíma í að leika við krakkana, tína með þeim ber uppí fjalli eða kaupa nammi í sjoppunni. Er það ekki hluti af starfslýsingu þess að vera afi?

Ferðir austur um verslunarmannahelgi eru líka skynsamlegar útfrá fótboltanum. Yfirleitt get ég tímasett þær þannig að það rekist ekki á við deildarleiki – nema í mesta lagi einn. Og svo eru undanúrslitaleikirnir í bikarnum oft leiknir oní verslunarmannahelginni.

Sú var raunin sumarið 2013. Reyndar þurfti að leika á sunnudegi um verslunarmannahelgina vegna þátttöku andstæðinganna í Evrópukeppni. Ég var fyrir austan og Fram átti bikarleik gegn Breiðabliki í undanúrslitum.

Undanúrslitaleikir hafa alltaf sérstaka stöðu í huga manns. Sá sem tapar undanúrslitaleik getur strax daginn eftir látið eins og úrslitin skipti engu. Sá sem vinnur er kominn í úrslitaleik með gróðavon og fári.

Ég skal játa að ég íhugaði að fljúga heim – að láta skutla mér upp á Egilsstaði og skjótast í leikinn. Það hefði ekki verið ókeypis og ekki stuðlað að miklum vinsældum mínum á heimavígstöðvunum.

En sem betur fer var leikurinn í beinni útsendingu. Reyndar hjá 365 miðlum og ég virtist engan þekkja sem hefði slíka útsendingu. En útsending á Stöð 2 sport þýddi að leikurinn myndi líklega rata inn á erlendar útsendingarsíður.

Ég fann straum á rússneskri síðu og mátti þola auglýsingaglugga með vafasömum tilboðum og hökt á útsendingunni, einkum þegar virtist ætla að draga til tíðinda. Og í hvert sinn sem myndin fraus þurfti ég aftur að sitja undir tuttugu sekúndna tölvuleikjaauglýsingu.

Fram tók á móti Breiðablik í Laugardalnum og Blikaliðið var nýlent eftir erfiðan útileik í Evrópudeildinni eða öllu heldur strembið ferðalag frá Langtíburtistan. Og Blikarnir virtust ekki almennilega mættir til leiks í upphafi. Vörnin þeirra virkaði þung, sendingar voru misráðnar og svo fóru Kópavogsbúar alltaf á taugum þegar Kristinn Ingi fékk boltann og komst á skrið.

Reyndar var Kristinn Ingi hálfmeiddur allt þetta sumar og aldrei nálægt því að vera í þeim toppklassa sem hann var sumarið 2012. En orðsporið dugði og ofurkappið sem andstæðingar Framara lögðu á að passa Kristinn Inga gerði það að verkum að aðrir leikmenn fengu frírra spil.

Kristinn Ingi skoraði raunar fyrsta markið eftir tæpar tíu mínútur, en það var ekki eftir skyndisókn heldur hirti hann frákast frá Gunnleifi sem varið hafði skot frá Hólmberti Friðjónssyni. Almarr Ormarrsson var hins vegar bestur í Framliðinu og tókst ítrekað að koma sér í færi. Í einu slíku, undir lok fyrri hálfleiks var brotið á honum og víti dæmt. Hólmbert greip boltann, þrátt fyrir að vera ekki augljós vítaskytta og skoraði.

Í seinni hálfleik dró Framliðið sig aftur á völlinn. Blikarnir sóttu og sóttu, en sterk vörn og góður leikur Ögmundar í markinu reyndist þeim um megn. Þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka gerði Alan Lowing hins vegar fágæt mistök og einn hvítklæddur Kópavogsbúinn slapp einn í gegn og minnkaði muninn. – Það var þó gleðilegt að menn hefðu kveikt á því að setja annað liðið í varabúning. Stundum hafa Fram og Breiðablik mæst í bláu og grænu búningunum og þá er ekkert grín fyrir okkur gamla fólkið að greina á milli.

Síðustu tuttugu mínúturnar reyndu Breiðabliksmenn að ná jöfnunarmarkinu og voru svo sem ekki fjarri því – þótt sennilega hefði það reynst Pyrrhosarsigur. Ungmennafélagið var orðið kúguppgefið í lok nítú mínútnanna og hefði ekki haft neitt í framlengingu að gera. Fram var komið í bikarúrslitaleik hálfum mánuði síðar. Meira um það seinna.

(Mörk Fram: Kristinn Ingi Halldórsson, Hólmbert Aron Friðjónsson. Mark Breiðabliks: Árni Vilhjálmsson)

e.s. Kurteisleg ábending til mótanefndar KSÍ: er einhver séns að fá leik Fjarðabyggðar og Fram í grennd við verslunarmannahelgina næsta sumar?

Fótboltasaga mín 83/100: Rangfærslurnar

21. maí 2000. Grindavík 3 : Fram 0

Ein af mörgum dagvinnum mínum (sem ég vinn þó að óþarflega miklu leyti á nóttunni) er að semja fyrir spurningaþátt í sjónvarpi. Þátturinn hefur mikið áhorf og er mikilvæg stofnun í helgarrútínu fjölda fólks. Það hefur því miklar skoðanir á því hvernig ég vinn vinnuna mína.

Stundum er ég skammaður fyrir að semja of þungar spurningar. Það gerist helst vikuna eftir að eitthvert liðið hefur átt slæman dag og fengið sárafá stig. Þessar skammir heyrast sjaldnast eftir viðureignir þar sem bæði lið eru í stuði og svara flestöllu rétt. Samt eru spurningarnar allar úr sama potti. Skrítið!

Mest er ég samt skammaður ef ég skýt inn fótboltaspurningum. Nokkur hluti áhorfendahópsins hefur skömm á fótbolta og telur sig ofsóttan af boltabullum í samfélaginu. Samt skýt ég reglulega inn einni og einni fótboltaspurningu af skömmum mínum. Það gerir hrokkna hárið (þið skiljið sem lásuð bókina um Láka jarðálf).

Á dögunum samdi ég spurning sem var vitlaus. Það er að segja: svarið sem ég fiskaði eftir var rétt en upplýsingar í spurningunni voru rangar. Ég tók fram að Willum Þór Þórsson og Bjarni Benediktsson hefðu báðir leikið í efstu deild karla í knattpspyrnu, en bað liðin um að nefna þriðja manninn sem það hefði gert – sá hefði setið á þingi frá árinu 2007. Við þeirri spurning var aðeins eitt svar: Höskuldur Þórhallsson, sem raðaði inn mörkum fyrir KA í næstefstu deild og var í kjölfarið keyptur til Fram.

Höskuldur var ekki sá slakasti sem við fengum til liðs við okkur það sumarið. Hann var stór og sterkur, þótt ekki reyndist hann sama markamaskínan í efstu deildinni og nyrðra.

Feillinn er hins vegar sá að Höskuldur var ekki einn. Brynjar Níelsson er kunnur Valsari og þótti mikið efni í boltanum á sínum tíma. Ég vissi að hann átti unglingalandsleiki að baki en hafði lagt skóna á hilluna í kringum stúdentinn. Síðar lék hann með Fylki í neðri deildunum og vann titla í eldri flokki. Ég missti hins vegar af því að Brynjar byrjaði aftur með Valsmönnum sumarið 1982 og tók þátt í fimm leikjum. Fjölmiðlar eru þegar farnir að hía á mig útaf þessu.

Það sem er hins vegar öllu vandræðalegra fyrir mig, er sú staðreynd að fimmti þingmaðurinn á í reynslubankanum leiki í efstu deild karla. Nánar tiltekið sex mínútur í tveimur leikjum árið 2000, fáeinar til viðbótar nokkrum árum þar á undan og meira að segja varamennsku í bikarúrslitaleik. Og til að bíta höfuðið af skömminni var ég vitni að fimm af þessum mínútum.

Sumarið 2000 mættum við Framarar bjartsýnir til leiks. Okkur var spáð fjórða sæti, reyndar langt á eftir KR, ÍA og ÍBV – en við hefðum svo innilega sætt okkur við að vera bestir allra hinna.

Guðmundur Torfason var nýr þjálfari liðsins og nánast skipt um lið. Fjórtán leikmenn hurfu á braut (svo láta menn eins og flóttinn mikli í ár sé eitthvað einsdæmi!) Þar á meðal fór Höskuldur Þórhallsson í Gróttu. Í staðinn komu þrír fyrrum leikmenn aftur úr atvinnumennsku: Þorbjörn Atli, Kristófer Sigurgeirsson og Valur Fannar. Þá kom óvenjuskaplegur danskur framherji, að minnsta kosti ef horft er til þess hversu óheppnir Framarar höfðu verið við val á útlendingum fram til þessa. Þróttarar lögðu til tvo leikmenn: Fjalar Þorgeirsson sem yfirgaf okkur með fúkyrðum á miðju sumri og Ingvar Ólason sem átti eftir að reynast ástsæll og þrautseigur leikmaður Fram.

Þetta endaði allt í tárum og við björguðum okkur ekki frá falli fyrr en í lokaumferðinni. Ekkert nýtt svo sem í því. En í hraðmótinu í byrjun Íslandsmótsins gátum við ennþá látið okkur dreyma. Leikjaröðin var þó óheppileg: heimaleikir gegn KR og ÍBV í fyrstu og þriðju umferð. Þar á milli var erfiður útileikur gegn Grindavík.

Við ókum þrír saman til Grindavíkur í maílok: ég, Valur og Rabbi. Líklega höfum við Valur pínt Rabba til að keyra og fengið okkur bjór í bílnum. Sjálfur hef ég vafalítið boðið fram bílinn minn, vitandi að það yrði ekki þegið enda skrjóðarnir mínir sjaldnast fallnir til aksturs milli kjördæma.

Ég nenni ekki að leita uppi veðrið þennan dag, þótt vafalítið megi finna það á netinu. Gef mér að það hafi verið strekkingsvindur.

Þorbjörn Atli var í byrjunarliðinu. Nema hvað, maðurinn heitir í höfuðið á fjallinu sem gnæfir yfir Grindavík! Hann var hins vegar ekki heill. Var það ekki allt sumarið og varð því ekki markakóngurinn sem við veðjuðum á. Hann byrjaði samt af krafti. Við áttum nokkrar fínar sóknir í blábyrjun og virtumst ætla að sauma að heimamönnum – einkum þar sem helvítið hann Sinisa Kekic var ekki með. Kekic virtist alltaf vinna okkur, hvort sem hann lék í vörn eða sókn. Ég hef ekki hatast jafnmikið við og dást jafnmikið að nokkrum útlendingi í íslenska boltanum.

En þótt Kekic væri fjarri góðu gamni, var Paul McShane með. Og hann afgreiddi okkur. Eftir þokkalegar sóknir í upphafi náði McShane skyndisókn og skoraði eftir rúmar tuttugu mínútur. Eftir það eltum við og reyndum að sækja, en Grindvíkingarnir lágu til baka og þurftu ekki mikið að hafa fyrir hlutunum. Á lokamínútunum þegar allt var komið í óefni bættu þeir við marki og svo því þriðja í uppbótartíma. Fyrra markið var úr víti. Ólafur Örn Bjarnason, sem átti síðar eftir að reynast okkur Frömurum drjúgur, tók vítaspyrnuna. Hver fiskaði? Auðvitað Paul McShane.

Á 86. mínútu skoraði Paul McShane sitt annað mark, fullkomnaði niðurlægingu okkar Framara og virtist einhvern veginn kippa teppinu undan fótum tímabilsins strax í byrjun. Um leið og boltinn lá í netinu stökk Jankovic þjálfari til og gerði tvölfalda skiptingu. Annars vegar til að gefa áhorfendum kost á að klappa skapbráða Skotanum lof í lófa – en hins vegar til að koma (mis)ungum leikmönnum á skrá yfir efstudeildarmenn.

Annar þeirra var þrjátíu og átta ára leikmaður, Páll Valur Björnsson, núverandi þingmaður Bjartrar framtíðar.

(Mörk Grindavíkur: Paul McShane 2, Ólafur Örn Bjarnason)

* * *

(16.des. Örlítið leiðrétt eftir ábendingu)

Fótboltasaga mín 82/100: Væntingastjórnun

13. febrúar 2012. Fram 5 : KR 0

Fótbolti er móðir rassvasasálfræðinnar. Í grunnin er íþróttin einföld og býður ekki upp á miklar fabúlasjónir fram og til baka, en engu að síður er hún rædd linnulítið í blöðum, útvarpsþáttum og einkasamtölum. Út frá því spretta misgáfulegar kenningar um sálfræðilegt mikilvægi hinna ólíklegustu atriða. Hver kannast ekki við hugleiðingar um „góðan eða vondan tíma til að skora eða fá á sig mark“?

Af sama toga eru hugleiðingar um hvort betra eða verra sé að mæta tilteknum andstæðingum á þessum tíma eða hinum? Er betra að mæta toppliðinu þegar það er nýbúið að tapa leik? Kemur það þá til baka sem grenjandi ljón eða er sjálfstraustið laskað og það því auðveldari bráð? Um þetta má ræða endalaust.

Vormót og æfingaleikir eru þó helsta viðfangsefni sjálfskipuðu sálfræðinganna. Er gott að rúlla upp æfingamótum? Sigurtilfinning er jú eitthvað sem kemst upp í vana! Sjálfstraust er besti vinur fótboltamannsins! – En á hinn bóginn er ofmat á eigin styrk ekki gott! Betra er að taka út skellina og rekast á veggi í mótum sem engu skipta áður en út í alvöruna er komið! Blablabla…

2012 var ár vorleikjanna hjá Fram. 2011 virtist liðið dauðadæmt um mitt mót en fékk sextán stig í sjö síðustu leikjunum (og var óheppið að tapa fyrir KR og gera bara jafntefli við FH í þeirri hrinu). Þrátt fyrir að enda bara í níunda sæti var Fram heitasta liðið í mótslok. Það var að talsverðu leyti að þakka nokkrum breskum leikmönnum sem flestir höfðu komið á miðju tímabili. Bestur var Skotinn Steven Lennon sem skoraði fimm mörk í tólf leikjum. Hann var tæknilega flinkasti leikmaður deildarinnar, en afskaplega lágur í loftinu sem skýrði líklega hvers vegna honum hafði ekki tekist að fóta sig í heimalandinu.

Fram samdi aftur við alla Bretana fyrir tímabilið 2012. Því til viðbótar var ákveðið að halda þeim hér allan veturinn í stað þess að koma á miðju vormisseri. Þessi ráðstöfun var augljóslega kostnaðarsamari fyrir félagið, en gaf þjálfaranum kost á að vinna lengur með sitt besta lið til að stilla saman strengi.

Strax í ársbyrjun var ljóst hvernig besta lið Fram yrði skipað. Á sama tíma var mörgum spurningum ósvarað varðandi hin félögin. Fjöldi leikmanna var að reyna að komast á mála erlendis. Hverjum myndi takast það og hverjir sneru aftur til sinna liða átti eftir að koma í ljós. Mörg lið myndu styrkja sig með útlendingum, en hverjir þeir yrðu eða hvað þeir gætu væri óljóst fram að páskum.

Á meðan skildu Framarar alla aðra eftir í rykinu. Forriðillinn í Reykjavíkurmótinu vannst auðveldlega. KR reyndist lítil fyrirstaða, þótt lokatölur yrðu bara 2:1. Bæði liðin komust áfram og mættust á ný í úrslitaleiknum um miðjan febrúar. Fram var með sinn sterkasta mannskap, en KR-hópurinn var gloppóttari. Þannig voru Egill Jónsson, Dofri Snorrason og Hróar Sigurðsson allir í byrjunarliðinu, menn sem áttu takmarkað eftir að koma við sögu þetta sumarið.

En KR-ingarnir voru ekki bara þunnskipaðir. Þeir voru líka þungir og svifaseinir. Framararnir voru á hinn bóginn í fínu formi og enginn í meira stuði en Steven Lennon.

Hann hafði KR-ingana að fíflum trekk í trekk. Skúli Jón og Gunnar Þór í KR-vörninni litu út eins og viðvaningar þegar Lennon stakk sér fram hjá þeim að vild. Eftir fimm mínútur var staðan orðin 2:0 og Lennon í raun klaufi að vera ekki kominn með þrennu. KR-ingarnir reyndu að halda uppi einhverju miðjuspili, en í hvert sinn sem færi gafst tóku Almarr, Kristinn Ingi eða Lennon á rás, oftar en ekki eftir snilldarstungur frá Samuel Hewson. Eftir hálftíma voru varnarmenn KR orðnir taugahrúgur og hrósuðu happi í leikhléi að staðan væri bara 3:0. Lennon var með öll mörkin.

Eftir hlé drógu Framarar nokkuð úr sóknarþunganum og Vesturbæingar einbeittu sér að því að bjarga andlitinu. Lennon bætti við fjórða markinu snemma í seinni hálfleik og upp frá því var þetta bara spurning um að reyna að slá met. Ungir strákar af bekknum tíndust inná einn af öðrum og leikurinn varð dauflegri. Hannes Þór var góður í KR-markinu og varði nokkrum sinnum vel. Framararnir fengu víti, sem Lennon var vitastkuld látinn taka, 5:0. Þegar tíu mínútur voru til leiksloka var honum skipt útaf – til að fá dynjandi lófatak. Framararnir á áhorfendapöllunum voru samt pínkulítið spældir. Sjötta markið hefði alveg getað verið í kortunum.

Það hefur ekki verið gaman að vera KR-ingur á vinnustað með Frömurum (eða stuðningsmönnum nokurra annarra liða, ef út í það er farið) næstu daga á eftir. En þetta reyndist Pyrrhosarsigur fyrir Safamýrarliðið. Steven Lennon fékk þann stimpil að vera besti framherji sem til Íslands hefði slæðst og allir andstæðingar mættu til leiks með það að markmiði að stöðva hann með góðu eða illu – helst illu. Hann var sparkaður sundur og saman af varnarmönnum flestra liða, sem sjaldnast uppskáru nema tiltal. Hann hóf Íslandsmótið meiddur og lauk því fótbrotinn eftir þrettán leiki, þökk sé tónlistarmanni úr Hafnarfirði.

Á þeim tíma hafði Lennon aldrei náð að leika á fullum dampi og skoraði ekki nema fimm mörk, jafnmörg og þessum eina Reykjavíkurmótsúrslitaleik. En mikið djöfull var það þó gaman meðan á því stóð!

(Mörk Fram: Steven Lennon 5)