Fótboltasaga mín 81/100: Skammdegisafþreyingin

 10. janúar 2010. Angóla 4 : Malí 4

Stóra tromp handboltaíþróttarinnar er að stórmótin fara fram í janúar í seinni tíð. (Öfugt við t.d. HM á Íslandi 1995 sem var leikið meðan ég var í stúdentsprófum.) Í janúar er ekkert við að vera og því tilvalið að horfa á keppni í tvígripi, hrindingum og ruðningi.

Afríkukeppnin í fótbolta er sama marki brennd. Hún fer fram í janúar og nýtur þess að Meistaradeildin er í fríi og flestar helstu deildarkeppnir í lausagangi. Og af því að hún er alvöru álfukeppni er lítið mál að koma sér upp áhuga. Afríkukeppnin 2010 fór fram í Angóla og var að margra mati hálfgerð generalprufa fyrir HM í Suður-Afríku síðar þetta sama ár.

Eurosport sýndi beint frá mótinu og ég var með áskrift. Um þessar mundir var dóttir líka á barnasundnámskeiði hjá sunddeild KR í Austurbæjarskóla ásamt Freyju vinkonu sinni. Það var sérlega hentugt að sitja yfir sundæfingunni ásamt Frey Rögnvaldssyni og fá svo þau feðginin í heimsókn eftir æfinguna, þar sem stelpurnar léku sér saman og við Freyr horfðum á boltann og lögðum drög að kvöldmatnum.

Ég horfði þó einn á opnunarleikinn milli Angóla og Malí. Hann fór fram í skugga hörmulegrar árásar skæruliða á landslið Tógó daginn áður, sem kostaði nokkur mannslíf. Samúð umheimsins var með Tógó, en ekki mótshaldara og Afríska knattspyrnusambandsins sem sá enga ástæðu til þess að liðið drægi sig úr keppni – auk þess sem Tógómenn gætu bara sjálfum sér um kennt að hafa komið bílandi um viðviðsjárverð héruð.

Malí var mitt lið á mótinu. Ástæðan var einföld: Fréderic Kanouté. Ég hafði lengi dáðst að honum sem leikmanni, auk þess sem Sevilla er mitt lið á Spáni (frá Maradona og Dassajev-árunum). Kanouté var potturinn og pannan í liði Malí, þótt reyndar væru þar innanbúðar alvörumenn eins og Seydou Keita og Mahamadou Diarra. Ég þóttist spámannslega vaxinn og veðjaði á þá meistaraefni hins klóka innherja.

Sá spádómur virtist ætla að hrynja til grunna strax í fyrsta byrjun. Angólska liðið mætti ákveðið til leiks og virtist mun líklegra. Undir lok fyrri hálfleiks skoraði einhver leikmaður sem ég hafði aldrei heyrt um áður tvö mörk með nokkurra mínútna millibili. Hann var á mála hjá Al-Shabab í Sádi Arabíu. Það var ekkert frávik, angólska liðið samanstóð af óþekktum smámennum.

Kanouté varð pirraður og liðsfélagar hans örvæntingarfullir. Í seinni hálfleik blésu þeir til sóknar, til þess eins að fá tvö mörk í andlitið, það seinna á 75. mínútu. (Mennirnir sem skoruðu þau mörk hétu ekki mjög mörgum nöfnum að meðaltali.) Stemningin á pöllunum var ólýsanleg. 4:0 sigur í fyrsta leik var betra en bjartsýnustu heimamenn gátu látið sig dreyma um.

Á 79. mínútu kröfsuðu gestirnir í bakkann. Keita skoraði eftir fíflaleg mistök markvarðarins. Helsti ljóðurinn á ráði Afríkumótsins er hversu algengt era ð sjá farsakennda markvörslu og afleitan varnarleik. Það síðarnefnda skýrist væntanlega af því að liðin hafa ekki ráð á að koma nægilega oft saman og leika of fáa leiki. Hvers vegna Afríka á ekki fleiri góða markverði skil ég hins vegar ekki.

Klukkan sýndi 88 mínútur þegar Kanouté þrumaði knettinum upp í markhornið., 4:2. Heimamenn urðu spældir að missa niður flottu markatöluna sína, en hugguðu sig við að innbyrðisviðureignir teldu á undan markatölu í mótinu. Útilokað væri að Malí tækist að skora tvö mörk í viðbót á tveimur mínútum og uppbótartíma.

Fjórum mínútum bætt við. Fyrsta mínútan líður, svo önnur. Malí sækir og Angólamenn eru orðnir taugaveiklaðir. Aulagangur í vörninni og Keita skorar aftur! Enn er mínúta til stefnu…

Angólska liðið tekur eins langan tíma og unnt er í að hefja leik á ný. En taugarnar eru löngu búnar að gefa sig. Þeir missa boltann samstundis. Malí sendir allt liðið fram á við… og Yatabaré, enn einn leikmaðurinn sem fæddur er í Frakklandi en leikur fyrir land forfeðranna, jafnar metin. Dauðaþögn meðal 45 þúsund áhorfendanna í nokkrar sekúndur þar til þeir ranka við sér og fara að baula á labbakútana, sína menn. Ógleymanlegur leikur.

(Mörk Angóla: Amado Flavio 2, Felisberto Sebastião de Graca Amaral Gilberto Vaðlaheiðarvegavinnuverkamannaverkfærageymsluskúr, Manucho. Mörk Malí: Seydou Keita 2, Frederic Kanouté, Mustapha Yarabare.)

Fótboltasaga mín 80/100: Passíusálmur nr. 52

12. júní 1992. Grótta 2 : Skallagrímur 1

Evrópumótið í knattspyrnu 1992 fór fram í Svíþjóð. Meðal þátttökuliða var Samveldi sjálfstæðra ríkja, skammvinnt millistig sem var við lýði um skamma stund meðan verið var að skipta upp Sovétríkjunum. Aðeins 25 áhorfendur fylgdu liðinu til Svíþjóðar. Í ringulreiðinni eftir hrun Sovétríkjanna var skemmtiferð yfir Eystrasaltið ekki nema á færi fáeinna milljarðamæringa eða knattspyrnuforkólfa í boði UEFA. (Svo eru menn hissa á að núverandi stjórnvöld hafi talsverðan stuðning heima fyrir.)

Samveldið lék sinn fyrsta leik gegn Þjóðverjum. Úrslitin voru jafntefli, 1:1 og ég að sjálfsögðu límdur við skjáinn. Fyrr um daginn hafði ég svekkt mig á að sjá Hollendinga vinna 1:0 sigur á mínum mönnum, Skotum. Fyrri leikurinn var klukkan þrjú og sá seinni klukkan sex. Það var því tilvalið að bregða sér af bæ og horfa á meiri fótbolta um kvöldið.

Ég er Vesturbæingur og bjó í Frostaskjólinu mestöll mín uppvaxtarár. Seltjarnarnesið var því í röltfæri og þótt Grótta þætti sjaldnast merkilegasta liðið á að horfa, þá er fótbolti alltaf fótbolti. Kvöldgöngutúrar út á Nes lágu oft framhjá Gróttuvellinum á Valhúsahæð og sjálfsagt að staldra við ef leikur var í gangi.

Sumarið 1992 var hins vegar æsilegt hjá Gróttumönnum. Seltirningar höfðu farið upp úr fjórðu deildinni árið áður, með gamla KR-inginn Sæbjörn Guðmundsson sem spilandi þjálfara. Auk hans voru nokkrir aðrir með reynslu úr efstu deild. Kunnastur var Stefán Jóhannsson markvörður sem gekk til liðs við Gróttuna á miðju sumri. Fótboltaáhugamenn staðnæmdust þó helst við ungan framherja sem virtist skora að vild – Kristján Brooks.

Kristján skoraði fimmtán mörk í fimmtán leikjum þetta sumarið. Það dugði honum þó aðeins fyrir bronsskónum í deildinni. Bjarki Pétursson varð markakóngur og markamaskínan Valdimar K. Sigurðsson úr Skallagrími var annar. Í fjórða sætinu var Sauðkrækingurinn Sverrir Sverrisson og gamli Víkingurinn Goran Micic var skammt á eftir, en hann lék þetta sumar með Þrótti Neskaupstað. Pétur Pétursson náði ekki nema sjö mörkum í leikjunum sínum þrettán. Ætli þriðja deildin hafi fyrr eða síðar haft annað eins safn af kanónum?

Goran Micic kom Norðfirðingum upp í næstefstu deild. Tindastóll hafði yfirburði en það voru Þróttur og Grótta sem börðust blóðugri baráttu um hit sætið. Grótta tapaði tveimur síðustu leikjum sínum: á Sauðárkróki og heima gegn Þrótti í hreinum úrslitaleik þar sem jafntefli hefði dugað. Næstu vikurnar gekk svo á með kærumálum fyrir öllum mögulegum dómstólum vegna meintra ólöglegra leikmanna bæði Þróttar og Gróttu.

En um þá dramatík var ég grunlaus þetta júníkvöld á Valhúsahæðinni. Ég var mættur til að sjá Kristján Brooks, sem flestir töldu bara tímaspursmál hvenær myndi ganga til liðs við eitt af stóru liðunum í fyrstu deildinni. Og Brooks brást ekki. Hann skoraði tvisvar. Andstæðingarnir voru Skallagrímsmenn úr Borgarnesi. Þeim tókst ekki að skora, en einn heimamanna tók af þeim ómakið með sjálfsmarki. Internetið er þögult sem gröfin um hver það hafi verið, en með sjálfsmarkakónginn Sæbjörn inni á vellinum er ekki erfitt að giska.

(Mörk Gróttu: Kristján Brooks 2. Mark Skallagríms: sjálfsmark)

Fótboltasaga mín 79/100: Morgunkaffið

12. júní 2002. Svíþjóð 1 : Argentína 1

Á fyrri hluta tuttugustu aldar ákvað þing Alþjóða Ólympíunefndarinnar að nálega strika Ólympíuleikana 1906 út úr sögunni. Leikarnir höfðu raunar lukkast ágætlega og björguðu andliti Ólympíuhreyfingarinnar eftir misheppnaða Parísar- og St. Louis-leika tveimur og sex árum fyrr. En vanþakklátir íþróttaforkólfarnir horfðu fremur til þess hvað það yrði slæmt fyrir feng-sjúíið að fokka upp reglufestu þess að hafa fjögur ár á milli í sögunni, svo met og verðlaunahafar Aþenuleikarnir 1906 voru máðir úr sögubókum.

Það er ólíklegt að hreyfing rísi sem vill eyða HM 2002 úr sögunni. Væri þó tilefni til. Mótið í Japan og Suður-Kóreu var glatað, eins og komið hefur verið inná í þessum greinaflokki. Stemningin var skrítin. Sú tilhögun að hafa gestgjafaþjóðirnar tvær óheppileg. Hvert stórliðið á fætur öðrum olli vonbrigðum og tímamismunurinn var ömurlegur. Já og svo var þetta ekki sýnt á RÚV heldur Sýn.

Ég var áskrifandi og pínkulitla stofan á Hringbrautinni varð því félagsheimili yfir allnokkrum leikjum, sem sumir hverjir byrjuðu svívirðilega snemma. Verstir voru þó leikirinir kl. 6:10 á morgnanna. Einn slíkur var Argentína : Svíþjóð á miðvikudagsmorgni, í lokaleik F-riðils.

Þetta var árið þar sem þriðjudagar voru hinir nýju föstudagar. Þriðjudagskvöld þóttu tilvalin fyrir hvers kyns fundarhöld, sem yfirleitt enduðu á Næsta bar. Og þegar ekki voru fundir… þá fórum við bara fyrr á Næsta bar.

Kvöldið fyrir leikinn var engin undantekning. Ég, Palli Hilmars og Steinunn höfðum setið á Hringbrautinni og við Páll drukkið Bowmore-viský. Gott ef við átum ekki saman líka. Það hefur þá væntanlega verið kjötmeti, enda minnir mig að Páll hafi ekki verið orðinn grasbítur. Þegar klukkan var orðin nægilega margt héldum við á Næsta bar og hittum Stefán Jónsson og Þór Steinarsson, sem voru nýskriðnir af einhverjum VG-ungliðafundi. Það var alltaf hægt að treysta því að hitta einhvern sem maður þekkti á Næsta bar.

Auðvitað sátum við fram að lokun. Við sátum alltaf fram að lokun. Og við röltum heim og pikkuðum væntanlega upp einhvern skyndibita á leiðinni. Það var alltaf þannig.

Klukkan var orðin margt þegar ég sofnaði, kannski langt gengin í tvö. Það var samt engin miskunn hjá Magnúsi. Ég var búinn að bjóða fjölda manns í leikinn morguninn eftir. Svo eftir fjögurra tíma svefn hringdi vekjarinn. Ég brölti fram og hellti uppá kaffi. Sverrir Jakobsson, Raggi Kristins, Óli Jó og pabbi tíndust inn einn af öðrum.

Heimsmeistarar Frakka voru þegar búnir að fokka upp mótinu með smánarlegri frammistöðu. Ég hafði haldið með þeim og íhugaði alvarlega að dusta rykið af gömlu Argentínu-dálæti. Argentína hafði mætt til leiks með sigurstranglegt lið. Batistuta og Crespo voru einhverjir öflugustu framherjarnir í heiminum og Ariel Ortega virtist vera að ná vopnum sínum á ný í argentísku deildinni eftir frekar misheppnaðan feril í Evrópu. Péle spáði Argentínu góðu gengi en að Brasilía ætti ekki séns (það hefði reyndar átt að hringja viðvörunarbjöllum).

En Bielsa þjálfari vildi ekki leika með Batistuta og Crespo saman frammi. Liðið var leiðinlegt og varfærið. Lét sér nægja 1:0 sigur á Nígeríu í fyrsta leik og tókst svo að tapa fyrir Englendingum í þeim næsta. Hvílík martröð! Ég sem hafði hlakkað til að sjá Tjallana hafna á botninum í dauðariðlinum!

Fyrir lokaumferðina var Nígería án stiga og úr leik. Argentína með þrjú stig, en England og Svíþjóð fjögur. Argentína þyrfti því bara að vinna – helst ekki nema með einu marki – og þá mætti gæla við að Nígeríumennirnir ynnu Englendinga með sama mun eða meira og Argentína færi áfram sem sigurvegari og Svíar sem lið númer tvö.

Helvítið hann Lars Lagerbäck var ekki á því. (Ég sé reyndar að á FIFA-vefnum er Tommy Söderberg er einn skráður þjálfari sænska liðsins í leiknum, kannski skráningarkerfið þeirra geri ekki ráð fyrir möguleikanum á tveimur stjórum?) Svíar pökkuðu í vörn og Argentínumennirnir voru of hugmyndasnauðir til að brjóta niður varnarmúrinn. Þeir voru orðnir pirraðir og strax undir lok fyrri hálfleiks tókst Claudio Caniggia að verða sér út um beint rautt spjald fyrir kjaftbrúk af varamannabekknum. Hvernig í ósköpunum er það hægt?

Anders Svensson skoraði beint úr aukaspyrnu eftir klukkutíma, í einu af fáum skiptum sem Svíar fóru framyfir miðju. Tíu mínútum síðar var Batistuta tekinn útaf í sínum síðasta landsleik og Crespo settur inná. Meira að segja með bakið uppað veggnum datt þjálfaranum ekki í hug að spila með þá báða. Crespo náði að pota inn marki þegar tvær mínútur voru eftir en það var of lítið og of seint. Englendingar náðu jafntefli í sínum leik og Argentína fór heim eftir riðlakeppnina ásamt Frökkum og Portúgölum.

Það voru Svíar sem unnu riðilinn og virtust komnir með frímiða í undanúrslitin. En Senegal reyndist ofjarl í næstu umferði og það voru svo Tyrkir sem flutu í undanúrslitin gegn Brasilíu. En þá var mótið líka komið í tómt rugl. Suður-Kórea búið að vinna bæði Ítali og Spánverja með dyggri aðstoð dómaranna. Brasilía varð heimsmeistari án fyrirhafnar, en það mátti svo sem heita ljóst eftir spádóm Péle

(Mark Svíþjóðar: Anders Svensson. Mark Argentínu: Hernán Crespo)

Fótboltasaga mín 78/100: Illkvittnin

5. september 1992. Fram 2 : Víkingur 1

Ég er ekki viss um að það að hafa brennandi áhuga á fótbolta geri mann endilega að betri manneskju. Fátt nærir þórðargleði meira en úrslit fótboltaleikja. Jafnvel þótt liðið manns tapi má einatt sækja nokkra huggun í enn meiri ófarir annarra.

Árið 1992 var mikið vonbrigðaár hjá Frömurum. Að missa titilinn til Víkinga sumarið áður var í hugum allra slys og það meira að segja pínkulítið krúttlegt slys. Þetta ár var Fram með langsterkasta mannskapinn á pappírunum. Skagamenn höfðu reyndar pakkað saman 2. deildinni, en enginn trúði því í raun og veru að nýliðar gætu orðið meistarar. KR-liðið var mistækt.

Það var líka nýr þjálfari. Pétur Ormslev tók við af Ásgeiri Elíassyni. Það var einhvern veginn allt svo rétt við það að fyrirliðinn hoppaði beint í stól þjálfarans. Ójá, þetta gæti ekki endað í tárum!

Við vorum á toppnum eftir sjö umferðir, reyndar á markatölu. Valdimar Kristófersson skoraði eins og vindurinn og Ingólfur Ingólfsson átti hverja snilldarsendinguna á fætur annarri. Í jafnteflisleik gegn Víkingum í áttundu umferð skoraði Valdimar sitt áttunda mark. Einhver fábjáninn hefur þá væntanlega farið að rifja upp markametið og jinxað allt saman. Hann hafði skorað níu mörk í mótslok.

Víkingsleikurinn í níundu umferðinni varð líka lokaleikur Baldurs Bjarnasonar í deildinni með Fram. Það kom eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar tilkynnt var um miðjan júlí að hann væri genginn til liðs við Fylkismenn í 2. deildinni. Þessar fréttir grétu allir, en fæsta óraði þó fyrir því hve afdrifaríkt brotthvarf Baldurs var í raun.

Við unnum FH með heppni og sátum tveimur stigum á eftir ÍA með 19 stig þegar mótið var hálfnað. Við tóku sex tapleikir í röð í deild og bikar. Mótið var orðið að martröð.

En hvað mátti þá segja um Íslandsmeistarana? Sjaldan hefur lið hrunið jafn hratt og Víkingsliðið eftir 1991. Ef frá er talin furðugóð frammistaða gegn CSKA Moskvu í Evrópukeppninni, gekk allt á afturfótunum hjá Fossvogsliðinu og fljótlega fóru menn að velta því fyrir sér hvort Víkingar myndu bætast í afar fámennan hóp knattspyrnusögunnar yfir meistara sem fallið hafa árið eftir.

Það var ekki fyrr en 1993 sem Víkingar féllu, en þá raunar með glæsibrag. Og 1992 gátu þeir gulltryggt sig með jafntefli á Laugardalsvelli í næstsíðustu umferð. Leikurinn féll í skuggann af viðureign Skagamanna og FH-inga á sama tíma, þar sem Akranes varð Íslandsmeistari. Samt varð ég undrandi að sjá Íslenska knattspyrnu Víðis Sigurðssonar staðhæfa að áhorfendur hefðu aðeins verið 275 í Laugardalnum. DV og Mogginn birtu á sínum tíma töluna 415.

Fram hafði ekki að neinu að keppa. Víkingar hlustuðu hins vegar taugaóstyrkir á lýsingarnar frá öðrum völlum í vasadiskóunum sínum. Pétur Arnþórsson kom Fram yfir á upphafsmínútunum og við tók stíf en lánleysisleg sókn Víkinga. Gummi Steins var enn í Víkingsbúningnum og misnotaði nokkur góð færi. Við í stúkunni skemmtum okkur dável. Ekki þar fyrir að okkur væri neitt keppikefli að fella Víkinga. Hin liðin í fallbaráttunni voru Breiðablik, KA og ÍBV. Það voru því augljósir kostir varðandi ferðakostnað að losna við sveitavarginn. Víkingarnir lágu hins vegar svo vel við höggi.

Helgi Sig komst í dauðafæri en Birkir varði meistaralega. Við fengum svo sem einhver opin marktækifæri líka. Tíminn var við það að renna út og Víkingar að dragast enn dýpra niður í fallbaráttuna, en þá kom Björn Bjartmarz til sögunnar – maðurinn sem tryggt hafði Víkingum meistaratitilinn árið áður. Björn kom inn sem varamaður undir lokinn og 1-2 mínútum fyrir leikslok átti hann skalla í bláhornið. 1:1, Víkingar öruggir um sæti sitt og leikmenn og stuðningsmenn ærðust.

Frammegin í stúkunni fannst okkur berin súr og muldruðum eitthvað um þessi leikur hefði nú engu máli skipt og skárra væri að hafa Reykvíkinga en t.d. Eyjamenn í deildinni. Víkingar voru enn að faðmast og dansa þegar Framararnir tóku miðjuna, lögðu í sókn og örskömmu síðar lá knötturinn í Víkingsmarkinu. Steinar Guðgeirsson náði að smeygja boltanum inn á Anton Björn sem skoraði.

Ó, hvað við hlógum! Við fögnuðum eins og meistarar. Bara af því að við gátum það og af því hvað það var skemmtilegt að sjá lúpulega andstæðinga sem búið var að tantalísera svona andstyggilega.

Hagstæð úrslit á öðrum stöðum gerðu það raunar að verkum að Víkingarnir höfðu örlög sín enn í eigin höndum. Þeir unnu Blika í lokaumferðinni og héngu uppi. En ef karma virkar á ég eftir að súpa seyðið af drýslahlátrinum eftir mark Tona.

(Mörk Fram: Pétur Arnþórsson, Anton Björn Markússon. Mark Víkings: Björn Bjartmarz)

Fótboltasaga mín 77/100: Kvislingarnir

16. júlí 1994. Svíþjóð 4 : Búlgaría 0

Búlgaría lauk keppni á HM í Mexíkó án sigurs, þrátt fyrir að vera í riðli með líttþekktu liði Suður-Kóreu. Það var ekki óvænt. Þetta var fimmta úrslitakeppni Búlgara án sigurs. Þegar liðið komst á HM í Bandaríkjunum, eftir að hafa slegið Frakka út úr forkeppninni á dramatískan hátt, var markmiðið því bara eitt: að landa sigri.

Ekki byrjaði það vel. Nígeríumenn pökkuðu Búlgörum saman í fyrsta leik, 3:0. Strax í næstu umferð fór landið hins vegar að rísa. Afleitt grískt lið tapaði 4:0 fyrir Búlgörum. Stoichkov skoraði tvisvar. Öllum að óvörum tókst búlgarska liðinu svo að vinna Argentínu í lokaleik riðilsins, 2:0. Aftur skoraði Stoichkov tvisvar.

Ég var sökker fyrir Búlgörum – einkum útaf Stoichkov, sem kemst léttilega á alla topp-10 lista yfir mestu töffara fótboltasögunnar.

Búlgaría mætti Mexíkó í einu viðureign sextán liða úrslitanna sem fór í vítakeppni. Stoichkov skoraði í leiknum og ætlaði greinilega að taka síðasta vítið og tryggja sigurinn. Það kom ekki til þess. Mexíkóarnir fóru á taugum og skoruðu bara úr einni spyrnu.

Og þar með töldu flestir að ævintýrinu myndi ljúka. Heimsmeistarar Þjóðverja voru næstu andstæðingar. Helvítis Þjóðverjarnir! Það var lið sem mér var meinilla við. Hver leiðindagaurinn öðrum verri. Matthäus, Völler, Klinsmann… (Hrollur!)

Búlgarir mættu til leiks að því er virtist með þá áætlun eina að halda hreinu og veðja á annan vítakeppnissigur. Þau áform virtust ætla að fara fyrir lítið þegar Matthäus skoraði í byrjun seinni hálfleiks – en sambland af snilld Stoichkovs og kæruleysi Þjóðverja gaf Búlgörum tvö mörk þegar um kortér var eftir. Ó, hvað við hlógum!

Búlgaría var komin í undanúrslit HM, en því miður virtust leikmennirnir mettir eftir sigurinn á Þýskalandi. Þjálfarinn leyfði þeim að slá upp heljarinnar partýi og myndir af blindfullum leikmönnum í heitum pottum hótelsins fóru út um allt. Þetta var synd vegna þess að á góðum degi hefði lið þeirra alveg getað átt í fullu tré við Ítali. Undanúrslitaleikurinn tapaðist 2:1, en Stoichkov skoraði enn og aftur.

Þessi sex mörk Stoichkovs dugðu honum þó ekki í toppsæti markaskorara. Rússinn Oleg Salenko var með jafnmörg mörk, þar af fimm á móti Kamerún, þrátt fyrir að rússneska liðið hefði ekki einu sinni komist uppúr riðlakeppninni. Skrítnar reglur sögðu að Salenko hlyti gullskóinn útá færri spilaðar mínútur – eins og það eigi að vera keppikefli á stórmóti að spila færri mínútur í staðinn fyrir fleiri! En Stoichkov átti þó einn séns enn: þriðja sætis leikinn gegn Svíum.

Bronsverðlaunaleikir á stórmótum eru oftast nær antíklímax, en þessi var óvenjuslæmur. Búlgarska liðið virtist einungis mætt til leiks í því skyni að senda knöttinn fram á Stoichkov í þeirri von að hann potaði inn hinu dýrmæta sjöunda marki. Enginn annar virtist hafa skotleyfi í liðinu þennan daginn. Svíarnir áttuðu sig á þessu og áttu ekki í miklum vandræðum með að halda honum niðri í spili úti á vellinum. Þá skipti búlgarska liðið um leikaðferð og einbeitti sér að því að reyna að fiska aukaspyrnur á hættulegum stöðum. Það tókst ekki mikið betur.

En það sem furðulegra var – búlgarska vörnin sem verið hafði svo þétt í öðrum leikjum útsláttakeppninnar, var úti á þekju. Svíarnir áttu engan stjörnuleik en virtust skora að vild. Staðan í hálfleik var 4:0.

Í dag er það útbreidd skoðun að leiknum hafi verið riggað. Að einhverjir leikmenn búlgarska liðsins hafi þegið mútur fyrir að tapa leiknum með miklum mun. Í bók sinni The Fix, um hagræðingu fótboltaúrslita, telur Declan Hill upp atriði sem einkenna leiki þar sem brögð eru í tafli. Hann bendir til dæmis á að í leikjum þar sem úrslitin eru fyrirfram ákveðin, sé algengt að mörkin séu skoruð snemma og leikirnir síðan drepnir niður. Það á ágætlega við um þennan gallsúra bronsleik.

Það eru einkum sænskir rannsóknarblaðamenn sem hafa reynt að grafast fyrir um hið meinta svindl 1994. FIFA hefur sem minnst viljað um málið ræða, enda virðist afstaða hreyfingarinnar sú að umræða um úrslitahagræðingu sé hættulegri en svindlið sjálft – einkum þegar um sjálft heimsmeistaramótið er að ræða.

Hins vegar á maður erfiðast með að skilja hugsunarhátt knattspyrnumanna sem keppa á HM og eiga kost á að koma þjóð sinni á verðlaunapall væntanlega í eina sinn í sögunni – að freistast til að taka þátt í svindli fyrir þóknun, menn sem eru ríkir og dáðir í heimalandi sínu. Það ætla ég að vona að Stoichkov hafi flengt þá hvern með öðrum.

(Mörk Svía: Tomas Brolin, Håkan Mild, Henrik Larsson, Kennet Andersson)

Fótboltasaga mín 76/100: Sénsinn

15. júní 1989. Ísland 0 : Austurríki 0

Hvenær byrja ferðaskrifstofurnar að selja miðana á EM í Frakklandi 2016? Þess verður varla langt að bíða, þar sem annar hver knattspyrnuunnandi er þegar farinn að reikna íslenska liðið í úrslitakeppnina. Það getur þó ekki endað í tárum?

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Íslendingar hafa gælt við sæti í úrslitakeppni. Fyrsta forkeppnisævintýrið var í aðdraganda Ólympíuleikanna í Róm 1960. Við vorum í riðli með Noregi og Danmörku. Þrátt fyrir að hafa tapað fyrir Dönum á heimavelli í fyrsta leik, töluðu Íslendingar sig upp í að eiga séns – þyrftu „bara“ að vinna í Kaupmannahöfn. Engin verðlaun fyrir að giska á hvernig það endaði.

Svo liðu mörg, mörg ár. Ísland var þokkalega heppið með dráttinn í forkeppni HM 1990. Sovétmenn voru langbestir, en þar á eftir komu nokkur lið sem álitin voru á par við okkur eða í það minnsta ekki öllu betri: Austur-Þýskaland, Austurríki og Tyrkland.

Sigfried Held var landsliðsþjálfari, sem fótboltanirðinum í mér fannst stórmerkilegt. Held hafði verið vestur-þýskur landsliðsmaður á sjöunda áratugnum og keppti á HM bæði 1966 og 1970. Hann var meira að segja nafngreindur í skrítnu bókinni um HM í Mexíkó 1970 sem þýdd hafði verið úr þýsku og sem maður las í döðlur. (Já, það er víst ennþá hipp og kúl að segjast hafa gert e-ð í döðlur, samkvæmt mínum bestu heimildum.)

Held bauð þó ekki upp á skemmtilegan bolta. Landsliðið var skipað Ólafs Þórðarsonar og Péturs Arnþórssonar-týpum og hugsaði fyrst og fremst um að reyna að halda hreinu. Tvö jafntefli og eitt tap í þremur fyrstu leikjunum gaf heldur ekki sérstakt tilefni til bjartsýni.

En svo kom jafnteflið í Moskvu. Ég held að ég hafi aldrei orðið jafn hissa yfir fótboltaleik og þegar Halldór Áskellsson jafnaði á lokamínútunum á Lenin-vellinum. Öllum bar saman um að þetta væru bestu úrslit íslenska landsliðsins. Betra en sigurinn á Austur-Þjóðverjum með bakfallsspyrnu Búbba eða 5:4 gegn Svíum á Melavellinum mannsaldri fyrr.

Og þá fórum við að reikna…

Þótt keppnin í riðlinum væri bara hálfnuð og Ísland enn án sigurs, þá vorum við á leiðinni til Ítalíu. Sovétmenn myndu vinna riðilinn, en keppnin um annað sætið var galopin. Tyrkirnir með fimm stig í fimm leikjum. Austurríkismenn með þrjú í þremur, við þrjú í fjórum en Austur-Þjóðverjar þrjú í fimm. Næsti leikur myndi ráða öllu: Ísland gegn Austurríki.

Ég var í bæjarvinnunni þetta sumarið og þar var ekki um annað talað dagana fyrir leikinn. Sjálfur hafði ég aldrei lifað mig sérstaklega inn í landsleiki, en þarna hlutu allir að hrífast með. Ég keypti mér miða. Mann sannast sagna ekki hvort ég fór einn, en finnst það ekki ólíklegt.

Það voru tíuþúsund manns á vellinum og ég hafði aldrei séð annað eins. Hávaðinn var ærandi og Ísland byrjaði í stórsókn. Austurríkismennirnir lágu til baka og litu greinilega á jafntefli sem fín úrslit á útivelli. Skiljanlega, tveggja sitga reglan var enn við lýði í landsleikjum.

Það var varið á línu austurríska landsliðsins. Íslenskt mark var dæmt af (líklega réttilega) og skotið í stöng. Mesta reiði vakti þó þegar dæmd var óbein aukaspyrna innan vítateigs fyrir hindrun á Ásgeiri Sigurvinssyni en ekki víti. Maður mundi varla eftir að hafa séð óbeina aukaspyrnu innan teigs áður. TURK-182.

Leiknum lauk 0:0 og Austurríkismenn fögnuðu. Þar með mátti draumurinn heita úti. Ég tróðst inn í strætó og ók heim á leið, moldfúll og sannfærður um að þarna hefði eini sénsinn okkar farið. Aldrei aftur myndi Ísland verða svo heppið með riðil og aldrei aftur yrðu ytri aðstæður okkar svo heppilegar. Önnur eins úrslit og jafntefli í Moskvu væri eitthvað sem ekki gerðist nema á hálfrar aldar fresti.

Upp frá þessu hefur mér alltaf verið illa við Austurríkismenn á stórmótum og kættist mjög þegar þeir féllu úr leik á Ítalíu eftir drepleiðinlega leiki gegn Ítölum og Tékkum.

Fótboltasaga mín 75/100: Gleðispillirinn

17. febrúar 2006. Luton 3 : Reading 2

Þegar Luton er í beinni útsendingu, mæti ég á Ölver. Starfsfólkið reiknar með mér og gantast með það hvort ég verði einn að horfa eða hvort einhverjir vinir mínir aumki sig yfir mig og sláist í hópinn. Stundum fæ ég að horfa á stóra tjaldinu í aðalsalnum. Stundum sit ég í hliðarsalnum. Og stundum er sérherbergi fyrir aftan, þar sem hægt er að sitja í hægindastól og glápa.

Eftir að eyðimerkurganga okkar í neðrideildum og utandeildum hófst, hef ég sjaldnast þurft að hafa miklar áhyggjur af bargestum sem mættir eru til að styðja hitt liðið. Sú var ekki alltaf raunin á meðan Luton var í næstefstu deild.

Þegar Reading kom í heimsókn á Kenilworth Road eitt föstudagskvöldið í febrúar 2006, var fjölmennt á Ölveri. Reading var yfirburðalið þennan veturinn og lauk keppni með 106 stig. Þegar þarna var komið sögu var liðið á gríðarlegri siglingu og taplaust 33 leiki í röð og átti möguleika á að slá eitthvað fáránlega gamalt met Liverpool ef ég man rétt. Þetta var fyrsti sjónvarpsleikur Reading um nokkra hríð og Brynjar Björn Gunnarsson og Ívar Ingimarsson voru báðir í byrjunarliði. Vinir þeirra og fjölskylda ákváðu því að fjölmenna til að sjá frægan sigur.

Luton hafði ekki að miklu að keppa. Umspilssætið eiginlega utan seilingar (við enduðum í tíunda sæti) og aðalmarkmiðið að fá ekki á baukinn gegn meistaraefnunum.

Ekki byrjaði það vel. Kevin Doyle skoraði eftir tuttugu sekúndur og maður sá fram á 4-5 marka tap. En í stað þess að gestirnir gengu á lagið, tók Luton öll völd á vellinum. Stuðningsmannasíða Reading viðurkenndi það fúslega eftir leikinn. Í fyrsta sinn þetta árið hefði lið þeirra verið sundurspilað á miðjunni.

Rowan Vine skoraði tvívegis um miðjan fyrri hálfleikinn. Luton-aðdáendur fá blik í augun þegar Vine er nefndur. Hann var ofsalega flinkur marksækinn miðjumaður, sem seldur var til Birmingham fyrir 2,5 milljónir punda árið eftir. Sú upphæð átti enn eftir að hækka eftir að Birmingham komst í úrvalsdeild, svo líklega má telja hann dýrasta leikmanninn sem Luton hefur selt ásamt Curtis Davies.

Hjá Birmingham og síðar QPR náði Vine aldrei miklu flugi. Síðustu árin hefur hann reynt að fóta sig í Skotlandi og virðist nú í vor hafa verið látinn fara frá Greenock Morton, sem er sorglegt fyrir þó ekki nema 32 ára leikmann. (Þessu tengt sé ég að Guðgeir Leifsson og Atli Þór Héðinsson virðast báðir hafa spilað fyrir Morton á áttunda áratugnum. Skemmtilegt!)

Það var hálfskringilegt að fagna, klappa og stappa í herbergi fullu af svekktum íslenskum Reading-stuðningsmönnum sem kvöddu drauminn um óbrjótandi met. Ég lét mig þó hafa það.

Í seinni hálfleiknum bætti Dean Morgan við þriðja markinu. Hann var kornungur framherji/kantmaður sem hafði einmitt komið til Luton frá Reading. Samkvæmt Wikipediunni er Morgan, sem hefur varið megnið af ferlinum í utandeildinni, nýlega orðinn landsliðsmaður. Í ljós hefur komið að amma hans er frá Montserrat. Landslið þessa litla eyríkis vakti athygli árið 2002 þegar það, sem botnlið styrkleikalista FIFA mætti næstneðsta landsliðinu, Bhutan. Montserrat tapaði 4:0.

Eftir þriðja markið var sigurinn í höfn, þótt Doyle næði reyndar að klóra í bakkann með marki á lokamínútunni. Luton gat leyft sér heiðursskiptingar og Morgan fór útaf fyrir Enoch Showunmi. Enoch var költ-hetjan í liðinu (öll lið þurfa költ-hetjur). Hann gekk til liðs við Luton 21 árs gamall, sem var magnað í ljósi þess að hann hafði ekki áður verið á mála hjá fótboltaliði. Hann var uppgötvaður í einhverjum skemmtigarði þar sem hann spilaði ásamt vinum sínum og boðinn samningur.

Á þeim tímapunkti mátti Luton ekki semja við leikmenn vegna greiðslustöðvunar og leikmannahópurinn var ansi gisinn. Þar sem Enoch var ekki skráður atvinnuknattspyrnumaður mátti hins vegar semja við hann sem áhugamann. Meðan á leikmannakaupsbanninu stóð fékk hann aðeins greiddan útlagðan kostnað og er fyrir vikið líklega síðasti áhugamaðurinn til að leika í ensku deildarkeppninni!

Um tíma var Enoch á mála hjá Leeds, en virðist vera án liðs sem stendur. Í millitíðinni náði hann nokkrum leikjum hjá Falkirk og stuðningsmennirnir sömdu um hann lag. Það er hvorki hnyttið né háttvíst.

Enoch kom lítið við sögu. Flautað var til leiksloka og ég tók við hamingjuóskum Readings-stuðningsmannana á leiðinni út. Gott ef mamma Ívars Ingimarssonar var ekki í hópnum. – Löngu síðar átti Ívar eftir að tengjast Lutontvíæringnum með óvenjulegum hætti þegar einn okkar týndi tösku á rútustöð í Reading. Hann hafði samband við rútufyrirtækið upp á hvernig nálgast mætti töskuskjattann en fékk dræmar undirtektir starfsmanna, sem nenntu ekkert að hreyfa sig í málinu. Þar til að í ljós kom að töskunni ætti að koma til fótboltamannsins Ívars Ingimarssonar – þá slógust rútustarfsmennirnir um að fá að hjálpa kunningjum hetjunnar í von um að hitta hann sjálfan.

Einn míns liðs trítlaði ég svo aftur heim í Norðurmýri, væntanlega með viðkomu í einhverri sjoppunni til að kaupa lakkrístrítla fyrir Steinunni sem lá með flensu. Liverpool-metið hundrað ára stóð óhaggað.

(Mörk Luton: Rowan Vine 2, Dean Morgan. Mörk Reading: Kevin Doyle 2)

Fótboltasaga mín 74/100: Aukakílóin

1. júlí 2003. Fram 4 ; Haukar 2 (eftir framlengingu)

Listi yfir óþolandi fótboltatengd fyrirbæri: nr. 341,  leikmenn sem alltaf skora á móti félaginu manns, þangað til þeir skipta yfir í liðið og eru þá úti að skíta.

Guðmundur Steinarsson er nánast orðabókarskilgreiningin á þessu. Einhvern veginn virtist sama hvort Framarar léku vel eða illa gegn Keflavík – alltaf skyldi Guðmundur Steinarsson pota inn marki, yfirleitt í leikslok.

Það vakti því nokkra eftirvæntingu þegar Guðmundur gekk til liðs við Fram fyrir sumarið 2003, frá dönsku félagi (Keflavík var í næstefstu deild). Baldur Bjarnason ákvað líka að taka skóna fram á ný. Ef hann héldist heill og með traustan markaskorara frammi, ætti Framliðið hæglega að vera nógu gott til að hafna um eða fyrir ofan miðja deild.

En Baldur var ekki heill. Hann var frá vegna meiðsla hálft og farinn að haltra í byrjun seinni hálfleiks þegar honum tókst að spila. Og Guðmundur Steinarsson hafði greinilega tekið of vel á því í pulsunum og síldinni í Danmörku. Hann var svakalega þungur og klaufi þegar hann komst í færi.

Það var ferlega dapurt að horfa upp á Fram í fyrstu umferðunum. Eftir fjóra leiki voru tvö stig í húsi, bæði eftir hálfgerð heppnisjafntefli gegn KR og ÍA. Stjórnin fór á taugum, rak Kristinn R. Jónsson án þess að vita hvern ætti að ráða í staðinn. Að lokum tókst að pína Steinar Guðgeirsson í að taka við keflinu – þó þannig að markmannsþjálfarinn Guðmundur Hreiðarsson þurfti að stýra liðinu í einum bikarleik. (Sem er skemmtilegt pöbbkvisskjúríosítet sem engir nema skæðustu nirðir muna eftir.)

Undir stjórn Steinars náði Fram einum af sínum frægu viðsnúningum. Var í botnsætinu fyrir lokaumferðina, en sjapp undir lokin. Þá Guðmundur Steinarsson hins vegar á bak og burt – fór aftur til danska liðsins síðsumars, eftir að hafa mistekist að skora í ellefu deildarleikjum.

En Guðmundur skoraði þó mark. Það var í sextán liða úrslitum gegn Haukum á Laugardalsvellinum.

Haukar voru um þessar mundir þokkalegt lið í næstefstu deild. Þorsteinn Halldórsson þjálfaði og leikmennirnir voru nánast allir óþekktir. Þetta leit út fyrir að vera passlega viðráðanlegur andstæðingur, einkum eftir að Framararnir unnu sinn fyrsta deildarleik fáeinum dögum fyrr í Kaplakrika.

Haukar pökkuðu í vörn og Framliðið hafði litla hugmynd um hvernig stjórna ætti leik eða brjóta niður varnarmúr. Í fyrri hálfleik gerðist sáralítið. Eftir hlé breyttist ekkert og Steinar þjálfari missti þolinmæðina og bjó sig undir tvöfalda skiptingu, þar sem Viðar Guðjónsson og Andri Fannar Ottósson kæmu inná fyrir Frey Karlsson og Guðmund Steinarsson.Varamennirnir stóðu tilbúnir á hliðarlínunni þegar Kristján Brooks náði sending fyrir markið og Guðmundur potaði boltanum yfir línuna. Við þessar aðstæður hefðu sumir þjálfarar freistast til að bíða með skiptinguna, en ekki Steinar. Guðmundur fagnaði markinu langþráða og var strax á eftir skipt útaf.

Skiptingunni hafði verið ætlað að auka sóknarþungann, en um leið og hún hafði farið fram og Haukarnir tóku miðju byrjuðu Framarar að draga sig til baka. Haukarnir sem höfðu ekki sýnt neina tilburði til að sækja fikruðu sig framar á völlinn og fengu allt það pláss sem þeir þurftu. Og í hvert sinn sem Haukarnir fengu aukaspyrnu eða horn fóru allir Framararnir í vörnina. – Þá hegðun hef ég aldrei skilið í fótbolta. Það er einfaldlega rökréttara að hafa einn mann frammi, sem gerir það að verkum að andstæðingarnir þurfa að halda tveimur í vörninni en að senda alla í eigin vítateig, svo hitt liðið geti sent alla fram.

Haukarnir voru svo sem ekkert að sýna neinn stjörnuleik, en þeir hlutu að jafna. Rétt fyrir leikslok braut Ómar Hákonarson af sér: víti og jöfnunarmark. Djöfuls bögg!

Sem betur fer höfðu Hafnfirðingarnir klárað tankinn á að reyna að krækja í jöfnunarmarkið. Framararnir óku yfir þá þvera í byrjun framlengingarinnar, þar sem Ómar og Andri Fannar skoruðu báðir. Haukarnir kröfsuðu í bakkann með marki, en Ómar Hákonarson kláraði leikinn endanlega undir lokin.

Haukasigurinn lagði ekki grunninn að neinu bikarævintýri. Í næstu umferð fór Fram í Frostaskjólið og tapaði að vanda. En aðalmálið var hanga í deildinni. Það tókst og sumarið eftir lék Fram í deild þeirra bestu ásamt Keflvíkingum. Í lokaumferðinni komu Keflvíkingar í heimsókn á Laugardalsvöllinn og hver var í liði þeirra annar en Guðmundur Steinarsson. Hann skoraði að sjálfsögðu.

(Mörk Fram: Guðmundur Steinarsson, Ómar Hákonarson 2, Andri Fannar Ottósson. Mörk Hauka: Kristján Ómar Björnsson, Ómar Karl Sigurðsson)

Fótboltasaga mín 73/100 Stéttskiptingin

8. janúar 2011. Bath 0 : Luton 0

Í janúar 2009 fór fyrsti Luton-tvíæringurinn fram. Og þó! Strangt til tekið var það ekki orðið tvíæringur fyrr en tveimur árum seinna þegar ráðist var í ferð númer tvö.

Ég, Valur Norðri og Raggi Kristins höfðum keypt flugmiðana áður en Ísland varð gjaldþrota – það voru því ekki margir að leggjast í fótboltareisur þessa þunglyndislegu janúardaga 2009 í miðri búsáhaldabyltingu.

Við fórum á tapleik Luton í Darlington, eins og áður hefur verið rakið í þessum greinabálki. Í rútunni á flugvöllinn á leiðinni til baka ákváðum við að halda áfram að borga mánaðarlega inn á söfnunarreikninginn þegar heim kæmi. Það væri passlegt að fara aftur út 2011. Fljótlega fékk ferðahópurinn nafnið tvíæringurinn, eins og í nafni Feneyjatvíæringsins (sem ég hélt ótrúlega lengi að væri nefndur eftir einhverjum skrítnum báti, gondól eða álíka, tví-æringur).

Fyrir óinnvígða, þá virkar Luton-tvíæringurinn svona: Þegar ljóst er að vori hvaða lið Luton mætir árið eftir, þá býr félagi Ragnar til lista þar sem liðunum er raðað eftir því hversu eftirsóknarverðir áfangastaðir viðkomandi borgir teljast. Lið frá Lundúnum lenda sjálfkrafa í neðsta flokki. Sama gildir um lið í stórum borgum eins og Birmingham og Manchester. Í efstu flokkunum eru smáborgir, helst í norðrinu, sem kippa manni aftur um tuttugu ár. Aðalkrafan er um að nóg sé af góðum Real Ale-pöbbum og von á kebabi sem rotað gæti hest og curry sem minnir á sig í viku á eftir.

Þegar leikjaplanið er birt í júlí er svo lagst yfir dagatalið og kannað hvaða útileikur Luton á tímabilinu frá svona 5. janúar til 20. febrúar falli best að þessum skilyrðum. Reikna þarf inn í hættuna á frestuðum leikjum vegna bikarkeppna. Síðastnefnda atriðið höfðum við reyndar ekki passað þarna í öðrum tvíæringnum. Luton var hársbreidd frá því að slá Charlton út úr 2. umferð bikarkeppninnar. Þá hefðum við neyðst til að mæta á fokkíng White Hart Lane þessa helgi. Sem betur fer gerðist það ekki.

2011 var það raunar engin lágstéttarborg sem varð fyrir valinu, heldur hin gullfallega og forna rómverska borg Bath. Nokkurn veginn miðja vegu á milli Bath og flugvallarins okkar lá svo borgin Reading, sem við gerðum að aðalbækistöð.

Þetta var annar vetur Luton í utandeildinni. (Þeir urðu fimm í allt.) Enn vorum við Luton-menn uppfullir af því að við værum alltof stórt félag fyrir þessa hlægilegu kúkalabbadeild og hlytum að vinna titilinn fyrir jól. Og annað árið í röð var staðan á töflunni í janúar farin að gefa vísbendingar um að þetta gæti orðið eilítið strembnara.

Við lögðum af stað frá lestarstöðinni í Reading og uppgötvuðum að við vorum ekki einir á leiðinni til Bath. Bath er einhver fremsta Rugbyborg Englands og lið Reading var að keppa þar þennan sama dag. Það voru hvítir og bláir treflar útum allt. Lestin stoppaði í miðborginni og við blasti glæsileg borgin, með rómverskum súlum milli grasi gróinna hæða með fallega á með fossum, sem fullkomnaði póstkortið. Þar í miðjunni var rugby-völlur bæjarins eins og perlan í djásninu.

Auðvitað lá leiðin strax á pöbbinn. Og þegar ég segi pöbbinn, þá meina ég auðvitað á hvern barinn á fætur öðrum. Rugby-stuðningsmennirnir voru út um allt. Stuðningsmenn beggja liða sátu hlið við hlið, ræddu leikinn og horfðu á útsendingar frá viðureignum sem byrjað höfðu fyrr. Allir voru vinir. Allir voru fallegir og vel tenntir.

Eftir þaulsetur og drjúga ölsmökkun, var tímabært að koma sér á völlinn. Bath FC á ekki gullfallegan Harry Potter-völl við lækjarnið í fagurri laut. Nei, völlurinn þeirra var fyrir utan miðborgina og við tók löng strætóferð. Og eftir því sem við ókum lengra, því ljótari urðu húsin. Fólkið hætti að vera í fínu og rándýru fötunum sem einkennt höfðu miðborg Bath. Og svo fór lögreglumönnunum að fjölga.

Við gengum síðasta spölinn. Það var slæðingur af fólki og löggur á hverju strái. Löggur í gulum vestum. Og löggur á þessum fáránlega stóru hestum sem tjallarnir telja hentuga við löggæslustörf. Ætli það hafi ekki verið fimm sinnum fleiri áhorfendur á rugby-leiknum sem átti sér stað á sama tíma í miðbænum. Líklega voru löggurnar fimm sinnum fleiri á fótboltavellinum.

Og já, tannhirðan var umtalsvert lakari.

Völlurinn var ljótur en þó sjarmerandi ljótur. Þrátt fyrir að lögreglan væri á hverju strái og liti á hvern áhorfanda sem líklegan hryðjuverkamann, drukku allir sem vildu saman á félagsbarnum undir stúkunni. Við komum hins vegar seint og gátum lítið stoppað þar.

Við fjórmenningarnir (auk mín, Vals og Ragga var Simon félagi okkar, fyrrum sendiráðsstarfsmaður Breta á Íslandi, með í ferðinni) höfðum tryggt okkur stúkusæti. Sáum samt pínkulítið á eftir því. Luton-stuðningsmennirnir í stæðunum fyrir aftan markið virtust skemmta sér miklu betur.

Það voru stúkur eða stæði meðfram þremur hliðum af fjórum. Hliðin andspænis aðalstúkunni var þó skemmtilegust. Hún stóð í brattri brekku, svo maður var smeykur um að sá efsti dytti til hliðar og svo myndi allur skarinn falla eins og dómínokubbar.

Heimamenn máttu eiga það að þeir lögðu sig fram. Það var einhvers konar púðurkerlinga/ljósasjóv þegar liðin gengu inn á völlinn, sem gerði þó alla vandræðalega. Við hölluðum okkur aftur á bak og biðum eftir að mörkunum færi að rigna. Það gerðist ekki.

Leikurinn var ótrúlega bragðdaufur. Aðalmarkaskorarinn okkar, Matthew Barnes-Homer, var úti á þekju. Claude Gnapka, fansí franski miðjumaðurinn, var ekki að gera neitt af viti. Og svo var fitukeppurinn Danny Crow í hinni framherjastöðunni. – Nei, ekki misskilja mig. Ég styð líkamsvirðingu af öllu hjarta… en Danny Crow var feitur. Fáránlega feitur fyrir stræker. Við erum að tala um Bibercic á Stjörnutímabilinu.

Luton átti sjittlóds af hálffærum, svo kannski hefðum við getað talið okkur trú um að hafa átt þrjú stig skilin. En á lokamínútunum fékk Bath 2-3 slík dauðafæri í leikslok prísaði maður sig sælan með stigið. Eitt þessara færa hefur varðveist á alnetinu sem engu gleymir. Það gefur vissa vísbendingu um gæði leiksins og völlinn…

Eftir á að hyggja var þessi leikur helst merkilegur fyrir eitt. Alex Lawless kom inná sem varamaður og lék þar með í fyrsta sinn í Luton-treyjunni. Er hægt að hugsa sér svalara nafn á miðjumanni? Og jú, með þessum leik varð Luton-tvíæringurinn í raun að tvíæringi. Hann verður haldinn í fjórða sinn í janúar komandi. Það eru níu manns bókaðir nú þegar (ég er sá eini í hópnum sem heldur í raun með Luton). Enn er ekki of seint að kaupa sér miða.

Fótboltasaga mín 72/100: Beysi

21. september 2001. KA 0 : Fram 3

Sumarið 2002 var skemmtilegt. Það var gaman í vinnunni, þar sem við Ólafur Guðmundsson heitinn vorum á fullu að byggja upp Rafheima. Ég var á kafi í félagsmálunum, bæði að rífa kjaft um pólitík á vefritinu Múrnum og svo í friðarbaráttunni – mikið til með sömu mönnum. Það var mikið djammað og alltaf endað á Næsta bar, með viðkomu á Kebabhúsinu eftir lokun. Á hæðinni fyrir ofan mig bjó félagi Steinþór Heiðarsson sem var ætíð til í að líta niður í pólitísk plott og á hæðinni fyrir neðan mig bjó félagi Valur Norðri, formaður húsfélagsins, sem átti alltaf úrvals viský.

Ég bloggaði líka eins og berserkur. Þarna um haustið datt mér í hug að lýsa því yfir á síðunni minni að ég væri „besti og frægasti bloggarinn“, með þeim rökum að sá titill lægi á lausu þar sem enginn hefði helgað sér hann. Hálfum mánuði seinna var ég kallaður í sjónvarpið ásamt Salvöru Gissurardóttur til að ræða um fyrirbærið blogg. Ég var stoppaður af fólki á götum úti og spurður hvernig maður ætti eiginlega að fara að því að blogga. (Ókey, kannski ekki stoppaður á götum úti – en spurður af stelpu sem var að afgreiða mig í Ríkinu.)

Og svo átti ég kærustu. Við Steinunn vorum kærustupar en ekki þessi ráðsettu miðaldra hjón sem síðar varð. Það var ákveðinn sjarmi yfir að þurfa að ákveða í lok hvers kvölds hvort við ætluðum að trítla á Mánagötuna til hennar eða á Hringbrautina til mín.

Í fótboltanum héldu Framararnir manni hins vegar við efnið. Við vorum meistarar fallbaráttunnar á þessum árum. Drógumst niður í harða fallbaráttu nánast óháð því hvort mannskapurinn væri veikur eða sterkur, en redduðum okkur oftast nær í síðustu umferð. 2002 var eitt af þessum árum.

Þetta var reyndar skrítið Íslandsmót. Fylkir og KR slógust ein um titilinn. Eftir fjórtán umferðir af átján skildu hins vegar bara fjögur stig að liðið í fimmta sæti, FH og botnlið Þórs, Fram og ÍBV.

Fram tapaði naumlega fyrir KR og gerði jafntefli við Skagamenn í næstu tveimur leikjum. Það mátti því heita ljóst að við yrðum að vinna tvo síðustu leikina, gegn FH á heimavelli og KA á útivelli. Jafnvel þau úrslit kynnu ekki að duga.

Leikurinn gegn FH var fáránlegur. Þorbjörn Atli skoraði á fyrstu mínútu. FH skoraði þrjú næstu mörk, áður en Bjarni Hólm minnkaði muninn fyrir hlé. Í seinni hálfleik Jafnaði Kristján Brooks, maðurinn sem kunni bæði á talhólf og internetið, en FH komst í 3:4 og við í raun fallnir þegar kortér var eftir. Andri Fannar jafnaði og svo braut einn FH-ingurinn á Bjössa (minnir reyndar að það hafi verið soft víti) og Gústi Gylfa skoraði 5:4. Hvílíkur leikur!

Fyrir lokaumferðina var staðan því þessi: Keflavík var í fallsætinu með átta mörk í mínus. Fram með jafnmörg stig og sjö mörk í mínus. Þá voru Framarar með fleiri mörk skoruð. Keflavík hélt til Grindavíkur, sem var í þriðja sæti og hafði ekki að neinu að keppa – ekki frekar en KA sem var í fjórða sæti og tók á móti okkur Frömurum.

Ég reyndi að tala fyrir því innan félagsins að efnt yrði til rútuferðar norður, öðrum þræði til að geta drukkið bjór á leiðinni. Það gekk ekki eftir og við Valur húsfélagsformaður ókum snemma af stað. Eða öllu heldur – Valur ók. Ég kunni þó ekki við að taka með mér bjór af tillitsemi við bílstjórann.

Það voru pylsustopp á mikilvægustu stöðum. Geisladiskarnir í ferðinni hafa væntanlega flestir verið með Smiths og Morrissey. Og á tíu mínútna fresti sagði annar okkar upp úr eins manns hljóði: „Við veeerðum að vinna þetta!“; „Ég meika það ekki að keyra heim ef við töpum!“; „Djöfull hef ég vonda tilfinningu fyrir þessum leik…“

Samkvæmt opinberum tölum voru 322 á leiknum. Framarar í meirihluta. Kristinn Jakobsson dæmdi. Það hefur mér sjaldnast þótt góð tíðindi. Hins vegar var augljóst að KA-menn voru andlega búnir að ljúka keppni þetta árið. Þeir gátu hvorki lent ofar né neðar í þessu fjórða sæti. Hvernig þetta lið gat hafnað svona ofarlega er raunar en nein skrautfjöðrin í hatt Þorvaldar Örlygssonar.

Framarar sóttu frá byrjun og eftir tæpar tuttugu mínútur var Bjössi felldur í teignum. Gústi Gylfa tók vítið og skoraði. Kunnugleg uppskrift. Eftir markið voru allir frekar rólegir. Grindavík komst yfir gegn Keflvíkingum skömmu síðar, svo efstudeildarsætið virtist tryggt. Það var létt yfir öllum í hálfleik. Hálfgerður ættarmótsfílingur þar sem Framarar og KA-menn skiptust á hrósyrðum. Við skjölluðum þá fyrir góða frammistöðu og þeir sögðust miklu frekar vilja okkur uppi en helvítis Keflvíkingana, sem var lygi. Landsbyggðarfólk heldur ALDREI með Reykjavíkurfélögum. Það styður jafnvel FH á móti liðum frá Reykjavík og telur það byggðastefnu.

Þegar um kortér var liðið af seinni hálfleik komu fréttir úr Grindavík. Keflavík var búið að jafna. Við grettum okkur aðeins, en höfðum svo sem engar áhyggjur. Skömmu síðar skoraði Fram annað mark. Það gerði Beysi, Freyr Karlsson. Freyr var enginn sérstakur markahrókur, enda ekki til þess ætlast. Hann var leikstjórnandinn á miðjunni, en hafði ekki verið í byrjunarliðinu fjóra leiki á undan. Þetta var hans annað deildarmark um sumarið.

Freyr er einn af uppáhaldsfrömurunum mínum frá upphafi. Ástæðan var sú að ég fylgdist með honum strax í öðrum flokki í gegnum Gústa félaga minn, sem átti bróður í yngri flokkunum (eins og fram hefur komið). Það er líka einhvern veginn þannig í boltanum, að fólk hefur tilhneigingu til að sitja alltaf á sama stað á vellinum. Foreldrar Freys mættu á velflesta leiki og sátu nánast við hliðina á mér, svo maður hafði margoft spjallað við þau um gang mála.

Markið mikilvæga var úr föstu og góðu skoti af allnokkru færi. Frömurunum á pöllunum var gríðarlega létt. Nú væri leikurinn dauður og grafinn. Keflavík myndi aldrei skora svo mörg mörk í Grindavík að það dygði til! Það var því bara gleðilegur bónus þegar Beysi skoraði örfáum mínútum síðar annað mark, sem í minningunni var nákvæm endurtekning á því fyrra. 0:3, úrslit sem endurspegluðu gang leiksins ekkert sérstaklega vel.

Nánast um leið og Freyr breytti stöðunni í 0:3, komust Keflvíkingar yfir og örskömmu síðar breytti Guðmundur Steinarsson stöðunni í Keflavík í 1:3. Og þá fórum við að reikna… Nú þyrfti þriggja marka sveiflu. Fjandinn, það færi þó ekki að gerast.

Einhver var með vasaútvarp á vellinum. Við gátum því hlustað á innslög frá Grindavík þar sem gestirnir sóttu og sóttu, en náðu bara að skora eitt mark í viðbót, 1:4. Framarar voru uppi og Keflvíkingar fallnir.

Eftir vænan skammt af Siggi-Saggi, faðmlögum og siguröskrum stukkum við Valur upp í bílinn og ókum aftur af stað suður. Eða öllu heldur, Valur ók. Mitt framlag fólst í því að vera ekki að drekka bjór. Og við hlustuðum á útvarpið á milli þess sem við hrópuðum á tíu mínútna fresti: „Íha!“; „Þetta breytir öllu!“; „Einhvern veginn hafði ég alltaf góða tilfinningu fyrir þessum leik!“

Í útvarpinu var viðtal við Kjartan Másson þjálfara Keflvíkinga, sem var álíka hress og Geir Hallgrímsson í viðtalinu í nepjunni þegar Dr. Gunnar myndaði stjórnina með Framsókn og kommunum um árið. Kjartan lýsti því strax yfir að hér væri maðkur í mysunni. Hvernig í ósköpunum hefði Fram, fallbaráttulið, átt að geta unnið liðið í fjórða sæti á útivelli með þriggja marka mun??? – Sú staðreynd að hans eigið lið hafði stundarfjórðungi fyrr unnið liðið í þriðja sæti á útivelli með þriggja marka mun virtist ekki vefjast fyrir honum.

Við Valur hlógum eins og drýslar.

Við hlógum ekki jafn mikið þegar kom að fréttum Bylgjunnar og Stöðvar 2, þar sem Guðjón Guðmundsson gerði upp leiki dagsins. Í stað þess að byrja umfjöllun sína um fallbaráttuna á að stinga upp á því að reist yrði stytta af Frey Karlssyni í fullri líkamsstærð úr gulli og sett smarögðum, varð Gaupi alvarlegur í röddinni. „KA-menn hvíldu átta leikmenn á móti Fram fyrir norðan frá síðasta leik!“ – Eitthvað á þessa leið byrjaði frásögnin. Í kjölfarið komu vangaveltur um íþróttamannslega hegðun og að Keflvíkingar hefðu fyllstu ástæðu til að vera sárir út í norðanmenn.

Uhh… hugsuðum við. Getur þetta verið rétt? Vissulega vorum við engir sérfræðingar í leikmannahópi KA, en liðið sem spilaði á móti okkur virtist ekkert sérstaklega laskað eða illa skipað. Það voru engin börn inná. Var Þorvaldur Örlygsson að reyna að hjálpa gömlum félögum? Og hvaða lógík væri á bak við að hvíla leikmenn í lokaumferð? Hvíla fyrir hvað???

Það var ekki fyrr en heim var komið að við gátum slegið því upp að byrjunarlið KA var það sama og í umferðinni á undan, fyrir utan Dean Martin sem var í banni. Fram og KA sendu frá sér reiðilegar yfirlýsingar vegna þessa og Gaupi mætti frekar lúpulegur í sjónvarpið daginn eftir og sagðist „hafa lesið það á einhverju bloggi að KA hefði hvílt mestallt liðið og þess vegna flutt fréttina…“

En um það leyti sem Framararnir og Akureyringar settust niður að semja yfirlýsingarnar, vorum við Valur komnir til Reykjavíkur og búnir að opna fyrsta bjórinn á JL-stadium. Miðað við kryptískar færslurnar á blogginu mínu mánudaginn eftir var það upphafið að móður allra þynnkuhelga.

(Mörk Fram: Ágúst Gylfason, Freyr Karlsson 2)