Ég blogga til að gleyma!

Ég blogga til að gleyma!

Stuna! Á morgun skutlaði ég Steinunni á spí­tala. Hún mun liggja inni í­ fjórar nætur og ég verð væntanlega eins og illa gerður hlutur á meðan. Ég er ekki í­ neinu stuði til að blogga neitt sniðugt, þar sem það myndi eflaust allt leysast upp í­ sjálfsvorkunn og barlóm.

Ætli þessi vika fari ekki í­ að drekkja sér í­ vinnu, horfa á fótbolta og drekka bjór? – Svo bætir ekki úr skák að stelpan liggur á Sankti Jósefsspí­tala í­ Hafnarfirði, þannig að það er maraþonakstur í­ hverja einustu heimsókn!

Annars fékk ég þær gleðifregnir á áðan að bí­llinn minn sé kominn úr viðgerð hjá Edda K, bifvélavirkjanum mí­num. Eddi K er einn mesti töffari sem ég hef kynnst. Einhverju sinni lenti ég í­ að standa yfir honum laga bremsukerfið í­ Mözdunni minni í­ hálfan dag þar sem við töluðum stöðugt um bí­la og akstursí­þróttir. – Ég veit ekkert um þessi efni, en reyndi að taka fullan þátt í­ samræðunum. Gott ef hárunum á bringunni fjölgaði ekki allverulega meðan á umræðunum stóð.

Annars er ég farinn að verja skuggalega miklum tí­ma hjá Edda K. Gæti verið að það myndi borga sig að skipta út bí­lnum fyrir nýrri týpu?

Austurbæingar í vanda Sigga bleika

Austurbæingar í­ vanda

Sigga bleika var á dögunum kát að frétta það að ég væri áhugamaður um East Enders. Jafnframt upplýsti hún það að Steve Owen hefði sprungið í­ loft upp í­ bí­laeltingaleik við Phil.

Ég ætlaði ekki að trúa mí­nu eigin augum, en á BBC Prime í­ morgun var einmitt sýndur þátturinn þar sem Steve deyr. – Ég held að handritshöfundarnir hafi gjörsamlega glatað glórunni. Martin Kemp, sem leikur Steve er langbesti leikarinn í­ serí­unni. Hann er lí­ka megatöffari og var bassaleikari í­ Spandau Ballet, sem var náttúrlega snilldarhljómsveit.

Nú getur vel verið að leikarinn hafi verið búinn að fá nóg – en hvers vegna að sprengja hann í­ loft upp. Það er miklu betra að láta hann falla fyrir borð á skipi eða hrapa í­ flugvél yfir frumskógum Brasilí­u. Með því­ móti væri hægt að láta hann snúa aftur eftir misheppnaðan leikferil annars staðar. (Eins og gert var með Sharon.)

Annars er það óskiljanlegt hvað Bretar hafa mikið dálæti á Phil. Hann er jú ekkert annað en bolabí­tur, en einhverra hluta vegna þykir hann kyntákn í­ Bretlandi og er miklu vinsælli persóna en Steve. – Enn ein sönnun þess að þetta gamla nýlenduveldi kann ekki gott að meta.

– Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því­ að þetta blogg er gjörsamlega óskiljanlegt fyrir aðra en innví­gða East Enders-aðdáendur. Það þýðir væntanlega að enginn annar en bleika frúin mun skilja boffs í­ þessu. Ef fleiri bloggarar eru aðdáendur Austurbæinganna hvet ég þá til að gefa sig fram!

Blogg djöfulsins… Minn gamli bekkjarbróðir,

Blogg djöfulsins…

Minn gamli bekkjarbróðir, Pétur Rúnar Guðnason, óskar mér til hamingju með að vera byrjaður að blogga. Við vorum sessunautar í­ þrjú ár í­ menntó og klöngruðumst saman í­ gegnum fornmáladeildina í­ MR án þess að kunna rassgat í­ latí­nu og frönsku.

Ég og Sibbi bekkjarbróðir (sem er nú orðinn guðfræðingur og verður vonandi bráðum prestur) kölluðum Pétur aldrei annað en „Pétur djöful“ eða „Djöfulinn“. – Núna veltir hann því­ fyrir sér hvernig hafi staðið á þessu viðurnefni og kemst að þeirri niðurstöðu að það sé vegna þess að hann er prestssonur en með „djöfullegt innræti“. Ekkert er fjær sanni.

Á menntó þótti okkur Sigfúsi það óstjórnlega skemmtilegt að reyna að klí­na á fólk viðurnefnum. (Dæmigerður menntaskólahúmor.) – Þannig kölluðum við Aðalstein bekkjarbróður aldrei annað en „Adda pulsu“, án nokkurrar sérstakrar ástæðu. Með tí­manum þróaðist nafnið yfir í­ í­ „Addi pu“ eða einfaldlega „Pu“. Eins og gefur að skilja þoldi Aðalsteinn ekki þetta viðurnefni og varð alltaf fúll þegar við notuðum það. En þolinmæðin þrautin vinnur allar og eftir nokkra mánuði gafst hann upp og fór að nota þessi gælunöfn um sjálfan sig. – Fullnaðarsigur!

Sömu sögu er að segja um Pétur. Vissulega spilaði það inn í­ að pabbi hans er prófastur í­ Miðfirði – og því­ sérstaklega sniðugt að kenna hann við kölska sjálfan. Meira máli skipti þó að „Pétur djöfull“ var viðurnefni sem flestir myndu tengja við harðsnúna rokkara – nokkuð sem Pétur mun seint geta talist. Hafa ber í­ huga að Pétur var orðinn tölvunörd í­ menntó og á miðjum tí­unda áratugnum, áður en internetbólan þandist út – voru tölvunördar ekki beinlí­nis að rokka!

Pétri fannst ekkert sniðugt að vera kallaður „djöfull“ og tuðaði einhver reiðinnar býsn yfir þessu. Með tí­manum lét hann þó undan. Hann fór að svara kallinu „Djöfull“ og eitt kvöldið stóðum við hann að því­ að svara í­ sí­manum heima hjá sér með kveðjunni: „Hjá djöflinum!“ – Fullnaðarsigur!

En svo kom að því­ að gamanið tók að kárna. Einhverju sinni vorum við Sibbi staddir í­ margmenni – gott ef það var ekki skólaball á Hótel Íslandi eða eitthvað álí­ka. Eitthvað þótti okkur vistin daufleg, þannig að annar okkar sagði við hinn: „Nú vantar okkur djöfulinn!“ – Það var sem við manninn mælt, að tí­u sekúndum sí­ðar gekk Pétur beint í­ flasið á okkur.

Eins og gefur að skilja þótti okkur félögunum þetta vera kyndug tilviljun, en spáðum svo sem ekki meira í­ henni. – Nokkrum mánuðum sí­ðar voru hins vegar haldnir tónleikar í­ Laugardalshöll með hljómsveitinni Pulp. Við Sibbi mættum glaðbeittir. Á miðjum tónleikum, þegar hljómsveitin var í­ essinu sí­nu, sagði ég við Sigfús: „Helví­ti væri gaman ef Djöfullinn væri staddur hér!“ – Á sömu mund finnum við að einhver leggur hendur á axlir okkar. Pétur var mættur á svæðið.

Þessi fáránlega sena á Pulp-tónleikunum var einfaldlega of fráleit til að geta verið tilviljun. Á framhaldinu komumst við Sibbi að þeirr niðurstöðu að okkur hefði í­ raun og veru tekist að særa fram djöfulinn. – Enda þorðum við ekki að kalla Pétur þessu nafni í­ langan tí­ma á eftir.

Jamm.

Aftur í gaggó! Enn held

Aftur í­ gaggó!

Enn held ég áfram að rifja upp atburði þriðjudagskvöldsins:

íður en ég mætti á VG-fundinn langa og leiðinlega, þá þurfti ég að rumpa af einni spurningakeppni. Nú í­ vetur var ég ráðinn af íTR til að vera spyrill í­ sí­ðustu sjö viðureignunum í­ spurningakeppni grunnskólanna í­ Reykjaví­k. Það voru strákarnir úr sigurliði MR í­ Gettu betur frá sí­ðasta ári sem höfðu frumkvæðið að keppninni, seldu íTR hugmyndina og mæltu með mér í­ spyrilsstarfið.

Fyrst eftir að ég tók verkefnið að mér, þá var ég á báðum áttum. Einhvern veginn hafði ég ekki mikla trú á að svona keppni gæti verið á mjög háu plani, enda hafa þessar grunnskólakeppnir hvorki verið fugl né fiskur til þessa. Annað átti svo sannarlega eftir að koma á daginn.

Sverrir, Svanur og Hjalti – umsjónarmenn keppninnar stóðu grí­ðarlega faglega að henni. Þeir voru með hljóðdæmi, myndir og jafnvel stutt myndskeið í­ spurningunum og uppbygging keppninnar var nákvæmlega sú sama og verið hefur í­ framhaldsskólakeppninni undanfarin ár.

Spurningarnar, a.m.k. frá og með fjórðungsúrslitunum, voru ekki ósvipaðar að þyngd og verið hefur í­ fyrstu umferðunum í­ Gettu betur. Ég leyfi mér að fullyrða að velflest grunnskólaliðin hefðu plumað sig bærilega í­ útvarpshluta þeirrar keppni.

Það var ekki ákveðið fyrr en á sí­ðustu stundu að hafa úrslitaleikinn í­ beinni útsendingu á Rás 2. Ég var því­ með lí­fið í­ lúkunum, þar sem ég hafði aldrei áður komið að því­ að stýra útvarpsþætti. – Þrátt fyrir ýmsa smáhnökra er ég ekki fjarri því­ að bærilega hafi tekist til. Hagaskóli sigraði prýðisgott lið Seljaskóla á sannfærandi hátt, enda með sterkasta liðið í­ keppninni. Ég verð illa svikinn ef einhver þessara krakka munu ekki láta til sí­n taka í­ Gettu betur á næstu árum. – Sérstaklega var stelpan í­ Hagaskólaliðinu öflug. Hún myndi sóma sér í­ flestöllum framhaldsskólaliðum.

Nú var ég sjálfur í­ Hagaskóla sem grí­slingur, sem var nægilegt til þess að aðstandendur a.m.k. eins tapliðsins fóru að dylgja um að Hagaskóla hafi verið hyglað í­ keppninni. – Slí­kar hugmyndir eru náttúrlega með hreinum ólí­kindum. Hver færi að svindla í­ spurningakeppni til að draga taum gamla gagnfræðaskólans sí­ns?

Alveg er ég gjörsamlega laus við alla gaggó-rómatí­k! Ekki það að mér hafi þótt Hagaskólaárin neitt leiðinlegur tí­mi, en kalt mat: 13-15 ára krakkar eru einfaldlega óþolandi. Það má hugsanlega telja sér trú um að börn séu sæt og skemmtileg, en unglingar eru það ekki!

Myndi ég taka að mér þessa spurningakeppni aftur? Tja, það er aldrei að vita. Þetta var bara ágætlega skemmtilegt og íTR borgar ágætlega…

Næsti bar á þriðjudagskvöldi… Æiii

Næsti bar á þriðjudagskvöldi…

Æiii – hvers vegna þurfti ég að glopra því­ út úr mér við Óla Njál í­ gærkvöld að ég væri byrjaður að blogga? Eins og búast mátti við hljóp hann strax heim til sí­n og tilkynnti þetta á sí­ðunni sinni. Þar runnu út í­ sandinn áætlanir mí­nar um að láta þessa sí­ðu spyrjast út smátt og smátt. Jæja, Óli Njáll er vænsta skinn. Kommi, spurningakeppnisnörd og krikketáhugamaður – alveg eins og ég.

Leiðin lá sem sagt á Næsta bar í­ gærkvöld, að afloknum félagsfundi dauðans hjá Reykjaví­kurdeild Vinstri grænna. Fundurinn var ekki búinn fyrr en upp úr miðnætti og lauk þá með nákvæmlega sömu niðurstöðu og gera hafði mátt ráð fyrir frá upphafi. Eftir svona maraþonfundi væri það hreinlega ómannúðlegt að neita sér um bjór, enda var VG-fólk fjölmennt á Næsta bar í­ gær.

Þarna var öll ritstjórn Múrsins samankomin (nema náttúrlega Steinþór sem er í­ Kanada þetta árið). Raunar erum við Múrspaðar æ sjaldnar farnir að þora að mæta saman á Næsta bar, því­ ef Haraldur Blöndal er á svæðinu tekur hann undantekningarlí­tið strikið á hópinn og vill fá að ræða um stjórnmál og menningu, en þó einkum aðdáun sí­na á Jóhannesi úr Kötlum og hatur á Kristmanni Guðmundssyni. Sem betur fór var hæstaréttarlögmaðurinn hvergi sjáanlegur í­ gær og við gátum því­ um frjálst höfuð strokið.

Hverjir aðrir voru aftur á NB? – Jú, Óli Njáll eins og fyrr sagði; Trúbadorinn knái Sigvarður Ari, ásamt Guðnýju Hildi (einum af fulltrúum VG á R-listanum); Þór Steinarsson sem vinnur á skrifstofu flokksins og Helga kona hans voru þarna lí­ka með einhverjum félaga sí­num sem ég kann ekki að nefna. Þór virðist hafa klúðrað því­ að skrá Steinunni Þóru í­ VG, sem þýddi það að hún þurfti að sitja félagsfundinn án þess að hafa atkvæðisrétt. Ég hefði orðið foxillur yfir svona mistökum, en Steinunn tók þessu bara vel og eyddi kvöldinu í­ að ræða við félaga Stefán Jónsson.

Félagi Stefán er höfuðsnillingur, sem loksins er kominn með vinnu eftir að hafa mælt göturnar í­ nokkra mánuði. Hann er farinn að vinna á Ví­sindavefnum, þannig að núna verð ég að byrja að lesa þann vef reglulega.

Voru einhverjir aðrir mættir? – Ekki svo ég muni.

Ég kann nú alltaf best við Næsta bar af öllum knæpunum í­ miðbænum. Að sumu leyti er hann eins og rólegri útgáfa af gamla Grand rokk, áður en Grand rokk sló í­ gegn og fylltist af drykkfelldum blaðamönnum. Drykkfelldir blaðamenn eru eins og allir vita einhver hvimleiðasti þjóðfélagshópur sem til er.

NB er samt ekki gallalaus. Á fyrsta lagi getur hann troðfyllst um helgar þannig að ómögulegt er að fá sæti. Á öðru lagi eru þar ýmsir fastagestir sem best er að umgangast í­ hófi eða alls ekki. Á þriðja lagi er Beamish-inn alls ekki nógu vel framreiddur á Næsta bar. Miklu betra er að fara á Celtic Cross til að drekka góðan bjór. Þar má lí­ka oft heyra í­ stórpopphljómsveitinni Tveimur dónalegum haustum. Hún er þekkt fyrir skemmtilegt lagaval, þótt oft sé þar spilað fremur af kappi en forsjá.

Jamm.

Bakþankar og rakettur Úpps! Ekki

Bakþankar og rakettur

Úpps! Ekki byrjar það vel. Ég er ekki búinn að blogga nema eina færslu og strax er ég kominn með bakþanka vegna þess sem ég skrifaði. – Ef til vill voru það mistök að tilkynna formlega að nú væri maður byrjaður að blogga? Hefði ekki verið betra að henda lesendunum strax út í­ djúpu laugina án nokkurrar kynningar eða inngangs?

Þegar ég bjó í­ Skotlandi sí­ðasta vetur þá ákvað ég að reyna að fylgjast með einni sjónvarpssápu – þáttunum um Austurbæingana eða „East Enders“ (ég verð að fjalla betur um þá við tækifæri). Fyrst reyndi ég að setja mig inn í­ þættina undir leiðsögn, þar sem útskýrt var hver væri hver, hverjir hefðu sofið hjá hverjum o.s.frv. Þessi aðferð var bara ekki að virka og það var fyrst eftir að ég tók þá ákvörðun að setjast niður fyrir framan tækið nokkur kvöld og góna, að ég komst inn í­ plottið.
Grunnhugmyndin á bak við blogg, veruleikasjónvarp og sápuóperur er svipuð. Þess vegna er það misráðið að fara út í­ að „útskýra sögusviðið“, með því­ að verja fyrstu bloggfærslunum mí­num í­ að rekja bakgrunn minn. Slí­kar upplýsingar má hafa á undirsí­ðum, en ég nenni ekki að búa þær til.
Á anda þessarar stefnu, ætla ég að demba mér beint í­ að segja frá afrekum helgarinnar:

Vetrarhátí­ð Reykjaví­kur „Ljós í­ myrkri“ kláraðist á sunnudagskvöldið. Lokahnykkurinn fór fram í­ Elliðaárdalnum, meðal annars á safninu mí­nu. Þetta var vægast sagt algjör kleppur! – Það er ómögulegt að segja hversu margt fólk var samankomið þarna. Einhver giskaði á 7.000 manns. Það er svo sem ekkert vitlausari ágiskun en hver önnur.

Ég vildi að ég gæti talið sjálfum mér trú um að allar þessar þúsundir hafi mætt inn eftir með það fyrir augum að heyra mig ræða um sögu rafvæðingar í­ Reykjaví­k og skoða öll sniðugu rafmagnsfræðiverkefnin sem við á safninu höfum útbúið fyrir grunnskólakrakka. – Raunveruleikinn er því­ miður sá að sennilega hafa tveir þriðju hlutar hópsins bara komið vegna þess að Orkuveitan efndi til flugeldasýningar í­ lokin.

Ekki skil ég hvers vegna fólk er svona ginnkeypt fyrir flugeldasýningum. Ef maður hefur séð eina flugeldasýningu, þá hefur maður í­ raun séð þær allar. Svo detta flestir þessir rakettukarlar í­ þá gryfju að hafa sýningarnar of yfirþyrmandi. Einn stakur flugeldur sem skyndilega lýsir upp myrkrið í­ nokkrar sekúndur er flottur. Stanslaus djöfulgangur svo mí­nútum skiptir verður bara langdreginn.

Það eru örugglega tí­u ár sí­ðan ég hætti að hafa sérstaklega gaman af rakettum á gamlárskvöld. Á seinn tí­ð sting ég í­ mesta lagi út nefinu í­ fimm til tí­u mí­nútur rétt í­ kringum miðnættið. Stjörnuljós eru miklu skemmtilegri. Ég passa mig alltaf á að eiga stjörnuljósapakka til um áramótin.

Jæja, þá er komið að

Jæja, þá er komið að því“

Aldrei fór það svo að maður byrjaði ekki að blogga!

Ég hef fylgst með blogginu frá því­ að Björgvin Ingi kynnti fyrirbærið fyrstur manna hér á landi. Fyrstu bloggsí­ðurnar voru margar hverjar stórskemmtilegar og afar óvenjulegar miðað við annað efni sem finna mátti á í­slenska hluta vefsins. Þar fór minna fyrir „Á gær leigði ég mér spólu og fékk mér popp“-færslum eins og tröllrí­ða um þessar mundir, heldur voru ýmsir bloggarar að skrifa metnaðarfullar færslur um hugðarefni sí­n. – Vissulega má enn finna marga slí­ka penna, en því­ miður eru þau skrif orðin hlutfallslega minna áberandi þar sem magnið af drasli og smælki hefur vaxið geysilega.

Björgvin Ingi reyndi lengi að sannfæra mig um að byrja að blogga, en ég bar því­ alltaf við að ég hefði minn eigin vettvang. Ég ætti nóg með að skrifa á Múrinn (þar sem ég er ritstjórnarfulltrúi) eða þá á friðarvefinn (www.fridur.is) sem ég ritstýri. – Skrif á vefrit eru þó eðlisóskyld bloggi, auk þess sem það yrði bara til að æra óstöðugan ef ég myndi punda inn á þessi vefrit langhundum um mí­n fjölmörgu og sérstæðu áhugamál.

Byrjum þá að fara yfir nokkur praktí­sk atriði varðandi þessa sí­ðu:

Hversu oft ætla ég að skrifa?

Tja, ætli það sé ekki best að byrja rólega – kannski svona tvisvar í­ viku. Það er betra að blogga sjaldan en almennilega í­ hvert sinn heldur en að skella inn einni til tveimur málsgreinum oft á dag.

Fyrir hverja er ég að skrifa?

Hmmm, góð spurning! Fyrst og fremst fyrir sjálfan mig og nokkra vini mí­na. Ég reikna t.d. ekki með því­ að reyna að pranga mér inn á tenglasí­ður hjá fólki út um allan bæ. – Hitt er annað mál, að ég geri mér fullkomlega grein fyrir því­ að ótrúlegasta lið getur rambað inn á svona sí­ður, þannig að auðvitað taka skrifin mið af því­.

Hvaða hugmyndafræði liggur að baki?

Enn betri spurning! Ætli ég þurfi ekki að setja saman stefnuskrá við fyrsta tækifæri þar sem ég útskýri hana í­ smáatriðum.

Um hvað ætla ég að skrifa?

Allt milli himins og jarðar. Ég býst fastlega við að skrifa töluvert um bækur, s.s. Múmí­nálfabækurnar; tónlist; þjóðmál og hugmyndir mí­nar um lí­fið og tilveruna. Ég á aðeins eftir að melta það betur hversu persónulegar þessar pælingar mí­nar verða. Til dæmis myndi ég ekki skrifa mikið um fjölskyldu, vini eða kerlinguna mí­na ef ég héldi að slí­kt gæti valdið einhverjum leiðindum.

Er þá eftir nokkru að bí­ða?

Nei, ætli það? Dembum okkur í­ bloggið!