Fótboltasaga mín 71/100: Gestirnir

2. janúar 1985. Reykjavíkurúrvalið 1 : Luton 3

Hvers vegna held ég með Luton? Tjah, þetta var liðið sem ég valdi þegar ég var átta ára við dramatískar aðstæður (meira um það síðar). En maður þarf samt ekki að kvænast fyrstu kærustunni! Það er fullt af dæmum um að menn hafi valið illa í byrjun og skipt um skoðun síðar. Hvers vegna beit ég í mig að halda tryggð við félag sem ég valdi barnungur í bríaríi – hvers vegna skipti ég ekki bara? Jú, það var út af leiknum á gervigrasinu 1985.

Síðla hausts 1984 eignuðust Reykvíkingar sinn fyrsta gervigrasvöll á gömlu Hallarflötinni í Laugardal. Þá þegar fluttu öll stóru Reykjavíkurliðin flestar æfingar sínar í Laugardalinn og ég, níu ára gamall pattinn með nýuppgötvaðan fótboltaáhugann sat uppi með neðrideildarklúbba, fyrsta flokk og firmalið á hverfisvellinum.

En það var aldrei haldinn neinn formlegur vígsluleikur. Það var bara farið að æfa, svo einhverjum datt í hug að sniðugt væri að halda almennilegan leik til að taka gervigrasið formlega í notkun. Og færið gafst í seinni hluta janúar þegar fáránlegar veðuraðstæður sköpuðust í Evrópu.

Það var skítakuldi á meginlandinu og í Bretlandi og öllum leikjum frestað um nokkurt skeið. Nema á Íslandi var bongóblíða og fólk nánast úti á bolnum að mála pallinn. (Ekki slá þessu upp á netinu, augljóslega ýki ég til að styrkja frásögnina.) Svo Halldór Einarsson, Henson – ákveður að slá á þráðinn og bjóða einhverju liðinu í heimsókn.

Luton var efstudeildarlið og nærri stóru Lundúnaflugvöllunum, svo þeir slógu til. Ákvörðunin var tekin fáránlega hratt. Dagblöðin fluttu fréttirnar með sólarhringsfyrirvara: Luton leikur á gervigrasinu á morgun!

Flugleiðir buðu upp á ókeypis flug og gistingu var reddað á Hóteli Esju. Liðinu var flogið til Íslands síðdegis á föstudegi. Hitaveitan skrúfaði upp í kyndingunni á gervigrasinu og bræddi klakann á vellinum. Leikurinn var settur niður á laugardegi klukkan þrjú og á mánudagsmorgun flugu Luton-menn heim.

Það er ekki hægt að lýsa viðbrögðum mínum við þessum fréttum. Ég var níu ára gamall og eini strákurinn í öllum Melaskólanum sem hélt með smáliðinu Luton og skyndilega kvisaðist út á föstudegi að liðið mitt væri að koma til Íslands daginn eftir… Hvernig dílar maður við þannig upplýsingar?

Það tók mig hálfan daginn að trúa fréttunum. (Mamma og pabbi voru kommúnistar sem keyptu ekki Moggann og Þjóðviljinn hafði ekki flutt fréttina um morguninn.) En eftir að upplýsingarnar síuðust inn fór ég að láta dæluna ganga um alla leikmenn Luton. Allir vildu fræðast og vita hverju væri við að búast þegar ensku hálfguðirnir mættu daginn eftir.

Ég tók einn strætó á völlinn. Það þótti fullkomlega eðlilegt hjá níu ára börnum árið 1985 og ég er ekki einu sinni viss um að mamma og pabbi hafi fattað að það væri einhver sérstakur fótboltaleikur í gangi. Og það var sjittlóds af fólki. Ég myndi giska á 3.000 áhorfendur. Nokkuð sem við sjáum ekki í dag nema á bikarúrslitaleikjum og þetta var kynnt með sólarhringsfyrirvara.

Andstæðingarnir voru Reykjavíkurúrvalið… sem var furðulegur samtíningur með tveimur Frömurum, tveimur Völsurum,tveimur  KR-ingum og tveimur Víkingum – en þremur Þrótturum. Hvenær mun það gerast aftur?

Nema hvað – að morgni leikdags kikkaði íslenski veturinn inn. Völlurinn var að sönnu auður, en það var kalt. Fokkíng kalt. Við erum að tala um tveggja stafa tölu í mínus kalt. Og allir á vellinum voru að deyja úr kulda. Allir áhorfendurnir voru að frjósa. Reykvísku andstæðingar voru í vettlingum og föðurlandi, en ekki gestirnir – enda snerist umfjöllun Moggans um leikinn einkum um að berlæraðir Englendingar hefðu straujað Íslendingana.

Og þeir straujuðu okkur. Gunnar Gíslason minnkaði muninn í 2:1 um miðjan leik, en sigur Luton var aldrei í hættu með mögum frá Breacker, Brian Stein og Harford. Þeir hefðu svo auðveldlega getað skorað slatta í viðbót.

Ég sveif á skýi meðan á leiknum stóð. Eftir leik var ég of starströkk til að fara um og safna eiginhandararitunum, öfugt við það sem gerðist ári síðar þegar Watford kom í heimsókn. Ég man ekki hvort ég var þá í lúðahópnum sem hljóp og fékk áritun frá Luther Blissett eða hvort ég lét John Barnes pára nafnið sitt. Eitthvað segir mér að það hafi verið það fyrrnefnda…

Fokkit. Ég á enga eiginhandaráritun til að staðfesta leikinn í janúar 1985, en mér er alveg sama. Bara minningin um að mæta á völlinn og geta farið í skólann mánudaginn eftir og rætt sérhvert smáatriði, sérhvern leikmann – það dugði mér. C´mon Luton! C´mon Luton!

(Mörk Reykjavíkurúrvalsins: Gunnar Gíslason. Mörk Luton: Breacker, Stein, Harford)

Fótboltasaga mín 70/100: Varaliðið

14. september 1991. Fram 3 : ÍBV 0

Mér þykir nokkuð vænt um Víkinga. Held að það sé nokkuð almenn afstaða hjá Frömurum, í það minnsta hef ég varla hitt nokkurn mann úr okkar röðum sem er í nöp við Víking. Það er enginn hörgull á Valshöturum, menn sem er illa við KR, Fylkismenn eiga sína andstæðinga og nokkrir (þó ekki margir) láta Þrótt fara í taugarnar á sér. En Víkinga? Njah…

Á níunda áratugnum fór ég á allnokkra Víkingsleiki. Frikki Atla vinur minn var mikill Víkingur og við fórum stundum saman á leiki. Ég fagnaði því innilega þegar Víkingarnir komust aftur upp í efstu deild haustið 1987.

Sumarið 1991 var búist við því að Fram, KR og Valur berðust um titilinn. Víkingunum var spáð fjórða sæti fyrir mót og hefðu menn væntanlega verið þrælsáttir með þann árangur fyrirfram. Hálft liðið var skipað gömlum Frömurum, sem ýmist voru ungir og ekki taldir fullbúnir í Íslandsmeistaraliðið í Safamýrinni eða komnir á seinni hluta ferilsins.

Gummi Steins var í framlínunni og minn maður, Þorsteinn Þorsteinsson, í vörninni. Helgarnir tveir (Bjarnason og Björgvinsson) voru þarna líka, sem og Hólmsteinn Jónasson og Marteinn Guðgeirsson sem báðir höfðu verið í herbúðum Fram. Brandarar um b-lið Fram heyrðust nokkrir þarna um sumarið.

Í sjöundu umferð unnum við Víkinga með tveimur mörkum Jóns Erlings Ragnarssonar. Skildum Víkinga eftir í fjórða neðsta sæti, fáeinum stigum frá fallsæti. Eftir leikinn stappaði ég stálinu í Frikka og sagði honum að hafa ekki áhyggjur. Liðið hans væri of gott til að falla.

Og sú varð raunin. Víkingar sigldu eins og kafbátur upp töfluna. Í þrettándu umferð töpuðu KR-ingar fyrir Valsmönnum á meðan Víkingar unni ÍBV 6:0. Upp frá því varð þetta tveggja hesta hlaup gömlu systraliðanna úr miðbænum (Víkingur var á sínum tíma stofnaður af litlu bræðrum strákanna sem stofnuðu Fram).

Víkingar unnu 2:0 á Laugardalsvelli í seinni viðureign liðanna og komust í bílstjórasætið í einvíginu. Framarar hefðu þó farið langleiðina með að tryggja sér meistaratitilinn ef Gunnar Oddsson hefði ekki skorað jöfnunarmark á hundblautum KR-velli í næstu umferð.

Liðin voru því jöfn fyrir lokaumferðina. Víkingur með þrettán mörk í plús og Framarar ellefu. Víkingar voru þó með pálmann í höndunum – enda útileikur í Garðinum gegn kolföllnu Víðisliði til góða. Fram mætti Eyjamönnum á Laugardalsvelli.

Allir vita hvað gerðist næst. Taugaveiklaðir Víkingar fjölmenntu í Garðinn (opinberar áhorfendatölur segja þó að ekki hafi verið nema 756 á vellinum, sem styður enn þá kenningu mína að þessar tölur hafi verið kerfisbundið vanáætlaðar á þessum árum en ofáætlaðar í dag). Víðir komst yfir snemma leiks og hélt forystunni í hálfleik. Þrjú Víkingsmörk á fimm mínútna kafla um miðjan seinni hálfleikinn tryggði röndóttum þó titilinn.

Það var samt eiginlega í Laugardalnum sem úrslitin réðust. Eyjamenn pökkuðu í vörn frá fyrstu mínútu, staðráðnir í því einu að fá ekki á baukinn. Þeir voru í nauðvörn allan fyrri hálfleikinn og eftir hálftíma leik hefði staðan hæglega getað verið 4:0. Einhvern veginn sluppu gestirnir þó inn í klefa með bara tvö mörk á bakinu, Kristinn R. Jónsson og Jón Erling skoruðu. Jón Erling skoraði aftur á upphafsmínútum seinni hálfleiksins, en síðan ekki söguna meir.

Lokatölur urðu 3:0, þótt 7:0 hefði kannski gefið réttari mynd af gangi leiksins. En samt upplifðum við áhorfendurnir það sem svo að leikmennirnir hefðu ekki lagt sig alveg nógu mikið fram – og að vitneskjan um forystu Víðismanna í um klukkutíma skeið hafi orðið til þess að liðið tók fótinn af bremsunni. Ég var að minnsta kosti sannfærður um að ef Víkingar hefðu skorað strax í upphafi hefði Framliðið unnið með tvöfalt meiri mun, svo slappir voru Eyjamenn.

Það var ekkert Siggi-Saggi sungið í leikslok og stemningin skrítin. Eitthvað aulalegt við að vinna 3:0 en finnast maður hafa klúðrað þessu. En þrátt fyrir það, var engin jarðafararstemning á pöllunum. Fram hafði unnið þrjá Íslandsmeistaratitla og þrjá bikarmeistaratitla á undangengnum sex árum og engum datt annað í hug en að nokkrir í viðbót myndu fylgja á allra næstu árum. Mér fannst ég því alveg getað unað Víkingum með Gumma Steins og Þorsteini Þorsteinssyni örlítils öskubuskuævintýris…

Ég er ekki viss um að ég hefði verið jafn örlátur með snefil af skyggnigáfu.

(Mörk Fram: Kristinn R. Jónsson, Jón Erling Ragnarsson 2)

Fótboltasaga mín 69/100: Veislustjórinn

3. október 2009. Fram 2 : Breiðablik 2 (6:7 eftir vítakeppni og bráðabana)

Ég tek ekki að mér veislustjórnun. Á síðustu árum hef ég nokkrum sinnum fengið fyrirspurnir um hvort ég væri til í að veislustýra fyrir hina eða þessa. Oft hafa góð laun verið í boði og yfirleitt svart. Ég hef alltaf neitað.

Ég er til í að vera ræðumaður. Semja ræðu og flytja hana á fyrirframákveðnum stað í dagskránni. Það er afmarkað verkefni með skilgreindan upphafs- og lokapunkt og ég geri það ágætlega. Veislustjórinn þarf hins vegar að hafa áhyggjur af því hvort eldhúsið sé tilbúið með súpuna á réttum tíma, stoppa af leiðinlega veislugesti og redda stemningunni ef eitthvað fer öðruvísi en ætlað var. Og svo þurfa veislustjórar helst að segja brandara. Brandarar eru ömurlegasta tegund fyndni.

Auðvitað kemur fyrir að ég segi já. En það er þá bara fyrir vini mína og ættingja – aldrei fyrir borgun. Þannig var ég veislustjóri þegar Valur félagi minn og Laufey giftust. Líka þegar Ólína, amma Steinunnar átti stórafmæli.

Og svo eru það skiptin þegar Framararnir hringja.

Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hefur Fram haft samband og beðið um ræðu eða greinarstúf. Ég reyni að hjálpa þegar ég mögulega get. Mér finnst ég þannig eiga aðeins meira í því þegar vel gengur. Eins og ég eigi einhvern þátt í starfinu annan en að borga ársmiðann og norpa á útivelli í Grindavík í enn einum tapleiknum.

Skömmu fyrir bikarúrslitaleikinn gegn Breiðablik haustið 2009 fékk ég hringingu. Stjórnarmaður í knattspyrnudeildinni bað mig um að veislustýra í lokahófi deildarinnar, sem færi fram sama kvöld og úrslitaleikurinn. Búið væri að reyna alla aðra möguleika og ég yrði að redda þeim. Og ég sagði já.

Ég var á kafi í vinnu eða öðrum verkefnum og gat því lítið hugsað um hvað segja skyldi. Rétt daginn áður gaf ég mér tíma í undirbúning, en var þá orðinn svo stressaður fyrir leiknum að ekkert annað komst að.

Fram hafði tapað þremur síðustu bikarúrslitaleikjum sínum: gegn KR, Fylki og Val. En í þau skiptin voru andstæðingarnir alltaf taldir sigurstranglegri fyrirfram. Að þessu sinni var jafnt á með liðum komið. Fram hafnaði í fjórða sæti en Blikar í því fimmta með sömu stigatölu. Deildarleikjunum lauk báðum með jafntefli, 1:1 og 3:3 í makalausum leik.

Leikdagurinn rann upp og ég hafði ekki hugmynd um hvað ég ætti að segja um kvöldið. Það var líka minnsta áhyggjuefni mitt. Ég gat bara hugsað um leikinn og hvort Fram tækist að vinna fyrsta stóra titilinn frá 1990…

Alfreð Finnbogason kom Blikum yfir um miðjan seinni hálfleik en Ingvar Ólason af öllum mönnum jafnaði skömmu síðar. Þetta var síðasta tímabil Ingvars hjá Fram. Hann var einn af síðustu geirfuglunum – leikmönnunum sem maður var vanur frá níunda áratugnum – sem voru líklegri til að drífa sig út úr klefanum til að ná sígarettu á bílaplaninu með stuðningsmönnunum en að pjatta sig fyrir framan spegilinn með greiðuna og þrjár ólíkar tegundir af hárgeli að vopni.

Leikurinn fór í framlengingu. Framarar fengu víti og Sam Tillen skoraði af öryggi. Hjartað tók kipp, en aftur þurfti helvítið hann Alfreð að skora, 2:2, úr soft víti. Á lokasekúndunni fékk Guðmundur Magnússon fáránlega gott færi til að klára leikinn, en skotið fór einhvern veginn röngu meginn við stúkuna. Eitthvað segir mér að ferill hans hefði þróast öðru vísi ef boltinn hefði rúllað örfáa sentimetra í hina áttina.

Guðmundi tókst hins vegar að skora í vítakeppninni. Það gerðu líka Tillen-bræðurnir og Ingvar Óla. Hjálmar Þórarinsson lét verja frá sér. Þetta sumar skoraði hann sjö mörk fyrir Fram og var á góðum degi flottasti senter deildarinnar. Þess á milli datt hann niður í meðalmennsku.

Hannes varði eitt vítið frá Blikunum og gripið var til bráðabana. Fyrsti Blikinn skoraði og þá var komið að Paul McShane. Öfugt við flest hinna vítanna hafði ég engar áhyggjur. Paul var alltaf að fara að skora, á sama hátt og Sam. En nei – Paul negldi upp í markslá og niður… boltinn lenti á línunni… og út.

Blikar ærðust en við Framararnir stóðum stjarfir í stúkunni. Ég var dofinn, eiginlega frekar í losti en svekktur, sár eða reiður. Við Valur löbbuðum þegjandi á barinn, ef ég man rétt og drukkum hvor sinn bjórinn í þögn. Kvöddumst svo þegjandalegir. Hann fór heim að sleikja sárin… en ég mundi smátt og smátt eftir giggi kvöldsins.

Ég mætti snemma í Framheimilið, þar sem öllum leið eins og mér. Eftir einhvern tíma hafði ég rænu á að spjalla við veitingamanninn og náði einhvern veginn að koma frá mér mikilvægustu praktísku upplýsingum – en bröndurum var ekki til að dreifa. Sumum strákanna tókst að slá á létta strengi og það voru skemmtiatriði… en ég var úti á þekju allan tímann. Muna: ekki ráða veislustjóra í taugaáfalli.

(Mörk Fram: Ingvar Þór Ólason, Sam Tillen. Mörk Breiðabliks: Alfreð Finnbogason 2)

Fótboltasaga mín 68/100: Fagnið

8. júlí 1996. Fram 8 : Þór 0

Áður en Stjörnumenn byrjuðu á fábjánafagnaðarlátunum sínum fyrir nokkrum árum síðan, rækilega hvattir áfram af apaköttum á internetinu, voru Eyjamenn með sín „fögn“. Þau kættu skiljanlega þeirra eigin stuðningsmenn og stöku hrifnæma íþróttafréttamenn. Stuðningsmenn annarra liða urðu bara pirraðir. Leikmenn annarra fótboltaliða sem fagna óhóflega eru jafnleiðingjarnt fyrirbæri og myndir af smábörnum sem maður þekkir ekki neitt á samfélagsmiðlum.

Á undan „fögnum“ ÍBV sýndu knattspyrnumenn gleði sína með því að hlaupa saman í hóp, faðma markaskorarann að sér og steyta hnefa sigri hrósandi. Allt mjög siðmenntað og enginn tapaði virðingunni.

Já og svo var það Michael Payne.

Michael Payne skoraði reyndar bara eitt mark, en fagnaði því líka afar innilega. Raunar svo innilega að það tryggði honum pláss sem pínkulítil innskotssetning í neðanmálsgrein í sögu Knattspyrnufélagsins Fram.

Við lékum í næstefstu deild sumarið 1996, í fyrsta sinn frá 1983. Það voru þung skref niður um deild og enn sárara að mikilvægustu leikmennirnir ákváðu að þeir væru of góðir til að leika á því stigi. Þótt Fram hefði kolfallið fóru markvörðurinn og nær öll vörnin í atvinnumennsku. Rikki Daða gekk svo til liðs við KR.

Á þessum árum var Ríkharður í háskólanámi í Bandaríkjunum. Félagi hans úr skólaliðinu lýsti áhuga á að spreyta sig eitt sumar á Íslandi og fékk númerið hjá Fram. Það var Michael Payne, sterkbyggður og þeldökkur strákur.

Hann kom til landsins fyrir fjórðu umferð. Framarar höfðu þá gert tvö jafntefli og unnið einn leik og stemningin frekar súr. Hinn ungi Payne kom inn á sem varamaður í þremur sigurleikjum í röð, í öllum tilvikum eftir að úrslitin máttu heita ráðin. Ásgeir heitinn Elíasson var ekki mikið fyrir að nota skiptingar nema þá seint um síðir í leikjum.

Stóra tækifærið kom svo í sjöundu umferðinni. Framarar tóku á móti Þór og Michael Payne var kominn í byrjunarliðið. Leiksins var beðið með eftirvæntingu. Skallagrímsmenn voru öllum að óvörum í toppsætinu, en enginn trúði að það myndi vara lengi. Þórsarar voru hins vegar almennt taldir það lið í deildinni sem líklegast væri til að geta ógnað Frömurum. Það var því auglýstur toppslagur á Valbjarnarvelli.

Þórsarar í bænum voru kokhraustir, enda með markahrókinn Hrein Hringsson í framlínunni. Liðið ætlaði sér upp og Akureyringar fjölmenntu. Það endaði allt í tárum.

Ég hef sjaldan eða aldrei séð lið hrynja jafn gjörsamlega og Þórsara í þessum leik. Þetta var Brasilía:Þýskaland fátæka mannsins.

Fram komst yfir eftir tæpar tíu mínútur. Ágúst Ólafsson skoraði. Þetta var sumarið hans. Ágúst var í vörninni hjá Fram en fékk ansi frítt spil í sóknarleiknum og var stundum sendur fram þegar í nauðirnar rak. Fyrir vikið endaði hann í fjórtán mörkum og næstmarkahæstur í deildinni á eftir Þorbirni Atla, þrátt fyrir að eiga að heita bakvörður. Ó, hvað það hlupu margir apríl árið eftir og völdu Ágúst í draumalið sitt í DV-leiknum í þeirri von að fá varnarmann sem raðaði inn mörkum.

Hinn bakvörðurinn, Ásgeir Halldórsson, skoraði mark númer tvö. Hann var alltaf einn af uppáhaldsleikmönnunum mínum á sama hátt og ég dáði Þorstein Þorsteinsson sem pjakkur. Mínir menn eru traustir bakverðir sem láta lítið fyrir sér fara en skila sínu.

Þriðja markið kom eftir fimmtán mínútur og það átti enginn annar en Michael Payne. Þorbjörn Atli lagði upp markið fyrir hann, sem var pen afgreiðsla í markhornið. Félagi Payne tók fagnaði tryllingslega og tók heljarstökk. Fram að þessu hafði ég aðeins séð einn mann fagna marki á þennan hátt, Hugo Sánchez, Mexíkóann hjá Real Madrid.

Við áhorfendurnir urðum strax frekar vandræðalegir. Jújú, það var óneitanlega stuð að vera kominn í 3:0 eftir kortér, en svona gassagangur var óviðeigandi og minnti helst á það þegar Guðmundur Páll Gíslason skoraði sigurmarkið í Reykjavíkurmótinu löngu fyrr (löng saga, rek kannski seinna).

Um leið og Fram skoraði þriðja markið vissu allir á vellinum að mótið væri búið. Fram myndi vinna aðra deildina og spila í deild þeirra bestu að ári. Frá og með þessu augnabliki yrði þetta bara spurning um tölfræði. Þórsararnir urðu daprir en hugguðu sig við að geta líklega slegið Skallagrími við (sem þeim tókst reyndar ekki). Við Framararnir teygðum úr okkur og stækkuðum um eina tommu.

Michael Payne varð líka kátur – og eins og gerist stundum hjá mönnum sem fá nasaþefinn af velgengni gekk hann á lagið. Allir á vellinum áttuðu sig á því að úrslitin væru ráðin og spurningin væri bara hversu stór sigurinn yrði. Nema hr. Payne sem var eins og naut í flagi og ætlaði greinilega að spila sig inn í liðið.

Fljótlega eftir markið straujaði hann Þórsara úti á miðjum velli og fékk gult spjald. Skömmu seinna skoraði Þorbjörn Atli úr víti og breytti stöðunni í 4:0.

Payne hélt áfram að tækla og hlaupa. Hann ætlaði að skora þrennu í það minnsta. Tíu mínútum eftir mark Bjössa, skallaði Ágúst Ólafsson aftur í markið, 5:0. (Ég held að svona 10 mörk hans þetta sumarið hafi verið skallamörk.) Við markið færðist sá bandaríski enn í aukana og straujaði skömmu síðar einn Þórsarann. Rautt spjald og Fram manninum færri í 50 mínútur.

Tíu Framarar héldu áfram að yfirspila ellefu Þórsara í seinni hálfleik. Bjössi skoraði aftur eftir sendingu frá Þorvaldi Ásgeirssyni. Anton Björn setti sjöunda markið, Steinar Guðgeirs átti stangarskot, en Ágúst Ólafsson náði áttunda markinu á sjötugustu mínútu. Engin verðlaun fyrir að giska á með hvaða íkamshluta það var skorað.

Með tuttugu mínútur til leiksloka og 8:0 forystu fóru sagnfróðir Framstuðningsmenn að gæla við a.m.k. metjöfnun frá 12:2 sigrinum á Þrótti 1954. En eftir þetta tókst Akureyringum að skella í lás, enda liðsmunurinn farinn að bíta.

Michael Payne skoraði aldrei aftur fyrir Fram. Hann kom við sögu í þremur leikjum til viðbótar, en þá sem varamaður. Ásgeir Elíasson fyrirgaf mönnum ekki svo glatt þann fábjánaskap að láta reka sig útaf 5:0 yfir. Skítt með hversu töff fögnin væru.

(Mörk Fram: Ágúst Ólafsson 3, Þorbjörn Atli Sveinsson 2, Michael Payne, Anton Björn Markússon)

Fótboltasaga mín 67/100: Baulið

5. apríl 2009. Luton 3 : Scunthorpe 2

Það var magnað að horfa á áhorfendaskarann á úrslitaleiknum á HM í Brasilíu gefa sér tíma í öllum hamagangnum og látunum eftir að úrslitin lágu fyrir, til að baula hraustlega á Sepp Blatter, hinn alræmda forseta Alþjóðaknattspyrnusambandsins. Við Luton-stuðningsmenn eigum sambærilegt augnablik. Það var sunnudaginn fimmta apríl 2009 á Wembley.

Allir muna eftir því þegar Guðjón Þórðarson leiddi Stoke City til sigurs í Framrúðubikarnum. Síðar skipti keppnin um styrktaraðila og var kennd við vörubílafyrirtæki. Síðustu árin hefur Johnstone´s málningarfyrirtækið kostað mótið, verðlaunagripurinn er því eðlilega uppnefndur „málningardósin“.

Um er að ræða bikarkeppni liðanna í þriðju og fjórðu efstu deild. Leikið er í miðri viku og allir líta á mótið sem truflun eða í besta falli tækifæri til að nota varaliðsmenn þar til komið er í lokaumferðirnar, þar sem vonin um úrslitaleik á Wembley fer að spila inní. Þetta er líka ágætt mót fyrir miðjumoðsliðin sem hafa í raun ekki að neinu að keppa þegar komið er fram yfir áramót. Bikar er bikar, þótt hann sé málningardós.

En veturinn 2008-09 var ekkert andskotans miðjumoð hjá Luton. Þetta var ár satans. Vorið 2007 féll Luton úr næstefstu deild og um svipað leyti kom í ljós að fjármálin voru í steik. Gömlu eigendurnir voru hálfgerðir glæpamenn og bókhaldið í tómu rugli. Næsta ár einkenndist af brunaútsölum og greiðslustöðvunum og liðið féll aftur.

Félagið fór úr greiðslustöðvun eftir nauðarsamninga við kringumstæður sem Joseph Heller hefði kunnað vel að meta: enska deildin gerði kröfu um að lið fengju stigafrádrátt ef þau færu úr greiðslustöðvun án þess að allir kröfuhafar samþykktu nauðarsamninganna. Á sama tíma gerði deildin og knattspyrnusambandið kröfu til þess að allar skuldir við „aðila innan knattspyrnufjölskyldunnar“ yrði greiddar 100%. Ergo: kröfuhafar urðu að sætta sig við samninga þar sem þeir fengju skertan hlut krafna sinna, en ákveðnir aðilar fengju sitt að fullu. Breski skatturinn sagðist í prinsipinu ekki geta felt sig við slíkt (skiljanlega) og þar af leiðandi fékk hvert einasta lið sem fór úr greiðslustöðvun stigafrádrátt. (Áður höfðu sömu lið fengið stigafrádrátt fyrir að lenda í greiðslustöðvun.)

Luton fékk 20 stig í mínus frá ensku deildinni og tíu í viðbót frá enska knattspyrnusambandinu. Sú refsing var sett á í kjölfar þess að starfsmaður Luton Town hafði að fyrra bragði tilkynnt um misferli fyrri eigenda, sem horfnir voru frá félaginu. Mótið hófst því með 30 stig í mínus, sem mun vera met í knattspyrnusögunni. Að kalla Luton-menn bitra yfir þessum málalokum er understeitment áratugarins. Fjölmargir stuðningsmenn hafa upp frá þessu snúist alfarið gegn enska landsliðinu og halda alltaf með andstæðingum þess. Það er harka!

Ekkert lið á séns með 30 stig í mínus. Þriðja árið í röð féll Luton og fór niður í utandeildina eftir meira en aldardvöl í deildarkeppninni. Þar máttum við dúsa í fimm ár. Fimm löng og frústrerandi ár, sem þó hafa gert ótrúlega mikið fyrir stemninguna og samheldnina meðal stuðningsmannanna.

Leiktíðin 2008-09 var langdregin aftaka. Margir höfðu á orði að hreinlegra hefði verið að fella okkur beint niður um deild og leyfa Luton að byrja mótið þar á núll stigum, frekar en að láta leikmenn og stuðningsfólk engjast í heilt ár að bíða eftir hinu óumflýjanlega.

Og við höfðum allt lánleysi fallkandídatanna. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar fengum við á okkur jöfnunarmörk, sigurmörk eða hvort tvegga á lokamínútunum. Enn oftar kom þó eitthvert skítamarkið á upphafsmínútunum og síðan ekki söguna meir allt til loka.

Nema í keppninni um málningardósina. Þar tókst Luton að vinna Brentford á heimavelli í vítakeppni í fyrsta leik, sem var óvenjuleg lukka fyrir þetta keppnistímabil. Einhvern veginn unnum við Walsall úti og svo Colchester heima, hvort tveggja 1:0. Í úrslitum suðursvæðisins (mótið er landshlutaskipt) vann Luton svo Brighton á heimavelli og aftur í vítakeppni.

Og allt í einu var Luton komið á Wembley. Andstæðingarnir voru Scunthorpe, sem léku einni deild ofar og voru á fleygiferð upp í næstefstu deild. (Unnu sér þar sæti fáeinum dögum síðar, líka eftir úrslitaleik á Wembley.)

Það er merkileg hefð hjá Englendingunum að leika helst alla úrslitaleiki á Wembley og það þykir alltaf mikið ævintýri að spila þar. Stuðningsmenn Scunthorpe eru hins vegar fáir, eiga um langan veg að fara og áttu von á annarri og veigameiri Wembley-ferð innan skamms. Þeim tókst því varla að selja nema tíuþúsund miða.

Fábjánarnir hjá enska knattspyrnusambandinu ákváðu þó að skipta vellinum í tvennt, þannig að þegar Luton hafði selt sína fjörutíuþúsund miða og óskaði eftir fleirum, þá var ekki hægt að verða við þeirri ósk. Það taldist því uppselt á völlinn, þótt áhorfendurnir hefðu ekki verið nema 55 þúsund í allt. Stjórnendur Luton sögðust hæglega hefðu getað selt tíu til fimmtánþúsund miða í viðbót.

Og þegar Brian Mawhinney barón, formaður ensku deildarinnar og fyrrum ráðherra Íhaldsflokksins, gekk inn á völlinn að heilsa liðunum baulaði hver einn og einasti þessara fjörutíuþúsund Luton-manna á hann af sama krafti og þegar Bítlarnir hrópuðu niður Tarzan í kvæði Ómars Ragnarssonar. Dæmdari mann hef ég varla séð en íhaldsskarfinn með yfirgreidda skallann þykjast leiða hjá sér baul, hróp og svívirðingar fyrir framan sjónvarpsmyndavélarnar að reyna að heilsa leikmönnum með handabandi. Og Luton-leikmennirnir voru ekkert að gera honum lífið auðveldara með fleðulátum eða sýndarkurteisi – heldur réttu fram lúkurnar með fyrirlitningarsvip en virtu hann annars ekki viðlits.

Leikurinn var fínn, en samt man eiginlega enginn eftir neinu öðru en baulinu í byrjun. Scunthorpe komst yfir snemma leiks en ekki löngu síðar jafnaði maðurinn með stóra nafnið: Chris Martin (engin ættartengsl). Hann var um þessar mundir í láni frá Norwich en er víst hjá Derby núna.

Í seinni hálfleik kom Tom Craddock okkur í 2:1 og síðustu tuttugu mínúturnar var nauðvörn í teignum hjá Luton. Scunthorpe sótti linnulítið og það var farið að fara verulega um okkur á Ölveri. Á 88. mínútu jafnaði Scunthorpe og ekkert nema snilldarmarkvarsla Deans Brill (engin verðlaun fyrir að giska á uppáhaldsorðaleiki íþróttafréttamanna með nafnið hans) kom í veg fyrir úrslit réðust fyrir lok venjulegs leiktíma.

Mér fannst skrifað í skýin að leikurinn myndi tapast. Tapa ekki lið sem missa leiki niður á lokasekúndunum alltaf í framlengingu? En alveg í byrjun hennar kom löng sending innfyrir Scunthorpe-vörnina sem franski varamaðurinn Claude Gnapka elti. Gnapka var með varnarmann í bakinu og Scunthorpe-markvörðurinn hljóp langt út á móti, en einhvern veginn náði hann að teygja fram tána og vippa knettinum í fallegum boga í tómt markið.

Luton náði að verjast það sem eftir var, enda allur vindur úr leikmönnum beggja liða. Við unnum málningardósina og til að bögga ensku deildina enn frekar sóttum við formlega um að fá að reyna að verja hana árið eftir sem utandeildarlið. Fólið Mahwhinney sagði nei.

(Mörk Luton: Chris Martin, Tom Craddock. Mörk Scunthorpe: Gary Hooper, Grant McCann)

Fótboltasaga mín 66/100: Lögspekingurinn

22. ágúst 1999. Fram 0 : ÍBV 2

Ásgeir heitinn Elíasson var frábær þjálfari. Það orðspor fylgdi honum hins vegar að hann blandaði sér helst ekki mikið í það hvaða leikmenn fengnir væru til liðsins. Þar vildi hann frekar treysta á dómgreind stjórnarmanna eða annarra þeirra sem hann treysti og ynni svo með þann mannskap sem úr var að spila. Ég veit ekkert um hvort þetta er satt.

Ég veit heldur ekki hvort það sé satt að Ásgeir hafi bara einu sinni sótt það stíft að fá leikmann og það útlending. Sá leikmaður reyndist hins vegar óumdeilanlega kötturinn í sekknum. Saint Paul Edeh.

Neyðin er slæmur kaupmaður og oft gera fótboltalið von kaup þegar langt er liðið á mót og alltof fá stig komin á töfluna. Þá fara líka snjöllu umboðsmennirnir á kreik og búa til glæsilegar ferilsskrár og flottar jútúb-klippur til að sýna fram á snilli umbjóðenda sinna, sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum séu samningslausir og til í að stökkva á fyrsta tækifæri.

Sumarið 1999 var skrítið. KR og ÍBV báru af, en restin af liðunum voru á svipuðu róli. Leiftursmenn náðu þriðja sætinu á aðeins 26 stigum. Valsmenn enduðu á að falla með átján stig, en næstu þrjú lið þar fyrir ofan fengu stiginu meira. Fram var í þeim hópi. Fjórtán þessara stiga komu í fyrri umferðinni, þar sem bjartsýnismenn fóru að gæla við narta í toppliðin og ná jafnvel Evrópusæti. Svo hrundi allt.

Í lok júlí bárust fregnir af því að Framarar hefðu tryggt sér nýjan leikmann. Það var tvítugur Nígeríumaður sem leikið hafði á Indlandi en sá Fram sem stökkpall til Evrópu. Heimildir Framara hermdu að þessi stóri og sterki varnarmaður, Saint Paul Edeh, hefði verið í úrtökuhópi fyrir u20-ára landslið Nígeríu árið áður og ítrekað verið valinn leikmaður mánaðarins í nígerísku deildinni, þá 18-19 ára gamall.

Síðar kom í ljós að hr. Edeh var ekki maður sem setti ljós sitt undir mæliker. Árið 2003 birtist viðtal við hann í Fréttablaðinu, þar sem Edeh var orðinn markahrókur mikill hjá Afríku United og lýsti vonum sínum um að komast að hjá liði í efstu eða næstefstu deild, enda stefndi hann á að verða landsliðsmaður fyrir Nígeríu og þyrfti að komast ofar í deildarkeppnina til að ná augum landsliðsþjálfarans, sem væri raunar gamall vinur hans.

Edeh byrjaði ekki stax inná. Sögum bar ekki saman um hvað ylli, en hann var kominn í hóp á móti Eyjamönnum í fjórtándu umferð. Liðsuppstillingin bar þess merki að margt gengi ekki sem skyldi. Aðalmarkvörðurinn, Ólafur Pétursson, datt út úr liðinu í nokkra leiki og Friðrik Þorsteinsson tók stöðu hans. Eyjaleikurinn var sá síðasti sem Valdimar K. Sigurðsson lék fyrir Framliið. Hann hafði byrjað um helming leikja sumarsins og nokkrum sinnum komið inná, en ekki tekist að skora – sem er aldrei gott fyrir framherja. Honum var að lokum skipt út fyrir Höskuld Þórhallsson, síðar Alþingismann. Ásgeir Halldórsson og Hilmar Björnsson voru ekki í liðinu, hljóta að hafa verið í banni eða meiddir. Þeir voru annars fastamenn.

Maður var rétt sestur í stúkunni þegar leikurinn var búinn. Ívar Ingimarsson skoraði eftir tvær mínútur. Eyjamenn áttu ekki í miklum vandræðum með að drepa leikinn eftir það. Í byrjun seinni hálfleiks náðu Framarar nokkrum þokkalegum sóknum, en fengu þá annað mark og rothöggið í andlitið þegar hálftími var eftir.

En á hliðarlínunni stóð Saint Paul Edeh og hitaði upp eins og herforingi. Hann var byrjaður að hita upp eftir tíu mínútur og hann gerði það með látum. Í stað þess að teygja á grasbölunum við annan hvorn enda vallarins, stóð hann fyrir framan stúkuna og stökk upp og niður, Hljóp á staðnum með háum hnélyftum og virtist fær í flestan sjó.

Þegar fokið var í flest skjól fékk nýliðinn að hlaupa inná fyrir Anton Björn. Kannski furðuleg ráðstöfun miðað við fyrri lýsingar á Edeh sem varnarmanni, en í ljós kom að sú staða var eitthvað málum blandið eins og fleira. Í tíu mínútur hljóp leikmaðurinn í hringi og var úti á þekju. Framliðið átti slakan dag og var í raun búið að gefast upp þegar þarna var komið sögu, en Saint Paul Edeh var áberandi lélegastur. Hann kom aldrei aftur við sögu hjá Fram þetta sumar.

Ekki var skiptum hans af félaginu þó með öllu lokið. Hann fór í mál vegna vangoldinna launa og fékk fúlgur fjár fyrir dómi. Þetta voru mögulega dýrustu tíu mínútur í sögu Knattspyrnufélagsins Fram… jafnvel þótt við teljum upphitunartímann og hnélyfturnar með.

En það var líka engan aukvisa við að semja. Á linkedin-síðu kappans kemur fram að hann sé lögfræðingur og lagalegur ráðgjafi. Hann lýsir sér sem hlutlægum í hugsun, öguðum, vinnusömum og hafi JESÚ KRIST í öndvegi í lífi sínu. Háskólagráðurnar hefur hann frá HÍ og London University, þar sem hann hóf nám 2005 eftir að knattspyrnuferlinum lauk. Ekki urðu Framarar til þess að opna honum leið í nígeríska landsliðið en kannski tókst okkur að tendra áhugann á lögfræðinni. Það var þá til einhvers barist.

(Mörk ÍBV: Ívar Ingimarsson og Ívar Bjarklind)

Fótboltasaga mín 65/100: Lurkurinn

23. september 2005. Luton 2 : Sheffield Wednesday 2

Vorið 2005 komst Luton upp í næstefstu deild í fyrsta sinn í áratug. Við fórum upp sem meistarar, með tólf stigum meira en Hull sem var í öðru sætinu. Mike Newell, gamli Liverpool- og Blackburn-framherjinn, var við stjórnvölinn. Hann var sérlundaður en góður stjóri. Með tímanum varð hann þó meira og meira skrítinn, uns það fór að bitna verulega á störfum hans.

Það var æðislegt að spila svona ofarlega. Ég gerðist áskrifandi að Sýn, gagngert til að sjá þáttinn með svipmyndunum úr þessari deild. Og reyndi að ná sem flestum beinum útsendingum. Luton varð reyndar sjaldan fyrir valinu. Stærri liðin urðu frekar fyrir valinu og Luton sigldi nokkuð lygnan sjó þetta fyrsta ár. Endaði í tíunda sæti, víðs fjarri allri botnbaráttu en heldur ekki nálægt umspilssæti.

Það voru flinkir leikmenn í hópnum. Einn sá vinsælasti meðal stuðningsmannanna var Ahmed Brkovic, lítill Króati sem skorti kannski líkamlegan styrk, en var alltaf að reyna að skora hálfgerð sirkusmörk. Í hvert sinn sem færi gafst fór hann í hjólhestaspyrnur og skoraði þrisvar eða fjórum sinnum með þeim hætti. Carlos Edwards, landsliðsmaður Trinidad og Tobago var á kantinum – gríðarlega lunkinn leikmaður.

Rowan Vine var tæknilega bestur í liðinu og raðaði inn mörkum eftir að hafa misst af fyrstu leikjunum vegna meiðsla. Hann var síðar seldur fyrir stórfé til Birmingham, sem gat aldrei notað hann neitt. QPR samdi síðar við Vine og reyndi að lána hann út um allar Trissur. Síðast þegar ég frétti var hann enn að spila, nú í neðri deildunum í Skotlandi. Þar fór góður biti í hundskjaft.

En Vine var meiddur þegar Sheffield Wednesday kom í heimsókn í lok september. Það þýddi að leikaðferðin var mjög einföld: negla fram á Steve Howard og vonast til að hann böðlaði knettinum einhvern veginn í markið.

Howard uppfyllir fullkomlega staðalmyndina af stóra senternum. Hann er hávaxinn og massaður nagli sem hefur brotið nefið oftar en einu sinni og vill helst bara stanga boltann í netið. Þetta er týpan sem stuðningsmenn fótboltaliða í vandræðum óska sér yfirleitt að fá í hópinn: „Það eina sem okkur vantar er svona alvöru stór og sterkur stræker til að rífa þetta upp!“ – Í raun er það samt bara óskhyggja. Þegar restin af liðinu er slöpp, þá leikur stóri og sterki strækerinn líka illa. Og ekkert er eins aumkunarvert og stór framherji á slæmum degi.

En Howard átti góðan dag á móti Uglunum. Eftir tvær mínútur skoraði hann með skalla (nema hvað?) og ég fagnaði vel á Ölveri. Ekki man ég hvort Björgvin Ingi eða Jóhannes Birgir – Sheffield Wed.-stuðningsklúbburinn á Íslandi – voru á staðnum og grétu oní bjórinn. Sjálfur hef ég líklega pínt Stebba Hagalín til að mæta. Ég mætti með honum á QPR-leiki og hann galt líku líkt.

Næstu mínúturnar virtist Luton ætla að kafsigla gestina, en fékk svo mark í andlitið eftir tæpt kortér. Við tók miðjumoð þar sem Luton var líklegra en þó ekkert mikið í gangi. Aftur skoraði Sheffield, 1:2. Nokkrum andartökum síðar jafnaði Luton. Hver? Auðvitað Howard. Hvernig? Auðvitað með skalla, hvernig spyrðu?

Fyrirgjöfina átti Kevin Nicholls. Ef efnt yrði til kosningar í stuðningsmannaklúbbnum um mesta stórmenni sögunnar reikna ég með að Mick Harford ynni. Kevin Nicholls yrði númer tvö. Síðan yrði slagur á milli Jesú, Mandela og Davids Pleats um bronsið.

Luton sótti stíft undir lokin en úrslitin urðu 2:2 jafntefli, sem þótti lítil ástæða til að fagna á móti hálfgjaldþrota Sheffield-liði (sem þó fékk flesta áhorfendur allra liða í deildinni á leiki sína). Þegar ég renni yfir leikmannahópinn þeirra núna eru engine nöfn sem klingja bjöllum. Jú, Chris Brunt frá WBA. Að kalla hann súperstjörnu væri þó enn eitt dæmi um gengisfellingu orðanna.

Annar markaskorara þeirra, Gavid Graham, virðist enn vera að spila í sömu borg – hjá Sheffield FC – sem allir fótboltaunnendur eiga að þekkja sem elsta fótboltalið í heimi. Vel gert!

Ég hefði þó varla tuðað á leiðinni heim af barnum hefði mig órað fyrir að þetta væri lognið á undan storminum. Á næstu leiktíð byrjaði Luton vel og komst í fimmta sætið með 5:1 sigri á Leeds. Næsti leikur var sjónvarpsleikut, úti gegn Ipswich. Hann tapaðist 5:0, þar sem leikmennirnir virtust í losti. Í ljós kom að einn í hópnum hafði fengið helablóðfall á leiðinni á völlinn og enginn var andlega reiðubúinn til að spila fótbolta.

Þar með var blaðran sprungin og við tók hrina tapleikja. Í janúarglugganum freistuðu stjórnendur félagsins að selja bestu mennina í von um að þeir sem eftir væru gætu hangið uppi. Það reyndist tálvon. Luton kolféll vorið 2007. Um leið kom í ljós að eigendur félagsins voru glæpamenn sem rændu félagið innanfrá.

Luton féll þrjú ár í röð. Að lokum tókst að reka skúrkana frá félaginu. Þá kom knattspyrnusambandið og ákvað að refsa félaginu fyrir misgjörðir gömlu eigendanna. Þeir sjálfir fengu málamyndarefsingar. Við tóku fimm ár. Fimm ár í helvítis utandeildinni.

Ó hvað maður hefði gefið mikið síðustu misserin fyrir 2:2 jafnteflisleiki gegn Sheffield Wednesday, þar sem helsta áhyggjuefnið var of einhæfur sóknarleikur.

(Mörk Luton: Steve Howard 2. Mörk Sheffield Wednesday: Graeme Lee, David Graham)

Fótboltasaga mín 64/100: Dyraverðirnir

 26. september 1998. Grindavík 4 : Fram 2

Það var spenna í loftinu fyrir lokaumferðina 1998. KR eygði möguleikann á sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í þrjá áratugi með sigri á Eyjamönnum á heimavelli. Á sjötta þúsund manns mætti í Frostaskjól, þar sem ÍBV fór með sigur af hólmi. Á vellinum voru flestir eða allir fastráðnu íþróttafréttamenn Moggans.

Viðureignin í Vesturbænum hófst rúmum hálftíma eftir að öðrum viðureignum lauk, svo blaðamennirnir gátu sinnt viðureignunum sem fram fóru í Reykjavík. Öðru máli gegndi hins vegar um Grindavík : Fram. Og þá kom sér vel að vita af lausapenna sem skrifað hafði um nokkra leiki í næstefstu deild og sem myndi hvort sem keyra suður eftir.

Leikurinn skipti Framara í raun litlu máli. Ásmundur Arnarsson hafði farið langleiðina með að tryggja efstudeildarsætið tveimur leikjum fyrr með þrennu á Hlíðarenda og í næstsíðustu umferðinni hafði Fram komið sér í tuttugu stigin og sloppið tölfræðilega með markalausu jafntefli gegn ÍR í ævintýralega leiðinlegum leik.

Grindavík var hins vegar í fallsæti og þurfti nær örugglega á sigri að halda til að lafa uppi, eins og kom á daginn. Til að fá sem mestan stuðning höfðu fyrirtæki í bænum ákveðið að bjóða á völlinn. Ég sparaði því ekkert á að veifa blaðamannapassanum.

Tilboðið breytti því ekki að  fátt var á vellinum. Framstuðningsmennirnir voru í meirihluta, þrátt fyrir að hafa að engu að keppa. Ég rölti til mannsins í hliðinu og spurði hvað þetta teldust margir áhorfendur? Hann nefndi einhverja svimandi tölu, 800 eða þar í kring. Mér fannst 250-300 nær lagi. Um þetta kýttum við aðeins, uns hann sagði að sér væri skítsama hvað Mogginn skrifaði um mætinguna. Ég endaði á að skrifa 440 áhorfendur „að sögn vallarstarfsmanna“, sem var lægsta talan sem nefnd var í samræðum okkar.

Grindvíkingar voru feigðarlegir í byrjun. Sóttu af kappi en skoruðu bara eitt mark, Milan Stefán Jankovic með skalla. Ási skoraði hins vegar úr eina færi Framara í fyrri hálfleiknum. 1:1 í leikhléi og Grindvíkingar fallnir.

Í seinni hálfleik virtust Framarar miklu ákveðnari í að klára leikinn. Kristófer Sigurgeirsson skoraði 2:1 og í raun hefði leikurinn átt að vera búinn því Jón Sveinsson af öllum mönnum hafði misnotað dauðafæri. Ég kallaði Jón „gamla brýnið“ í umsögn minni og fannst hann í raun vera hálfgert gamalmenni. Sé núna að hann var nýorðinn 33 ára gamall. Annars átti Jón stórleik og fékk tvo bolta frá blaðamanni DV, sem mig minnir líka að hafi verið einhver varaskeifa eins og ég.

En auðvitað hlutu Grindvíkingar að vakna til lífsins, þótt ekki væri nema vegna þess að Þróttarar voru líka í fallbaráttunni og Þróttur fellur ALLTAF á lokamínútunum ef þess er nokkur kostur. Þegar kortér var eftir jafnaði Grétar Hjartarson. Jankovic fiskaði svo víti sem Scott Ramsey skoraði úr og undir lokin náðu heimamenn fjórða markinu úr skyndisókn eftir að allt Framliðið var komið í sóknina.

Það var mikið fjör í búningsklefum Grindvíkinga. Ég þurfti að bíða af mér alla sigurdansana, húrrahrópin og kampavínstappaskothríðina áður en ég náði að taka viðtöl við lykilmenn Grindavíkur. Það hefði ég getað stillt mig um, því allt blaðið var tekið undir sigur Eyjamanna og allt sem birtist af viðtölunum voru 1-2 setningar sem ég hafði eftir Gumma Torfa, þjálfara Grindavíkurliðsins.

Í Íslenskri knattspyrnu 1998, sem væntanlega sækir heimildir sínar beint í skýrslur KSÍ, má lesa að 680 manns hafi verið á vellinum. Jamm og jæja.

(Mörk Grindavíkur: Milan Stefán Jankovic, Grétar Hjartarson, Scott Ramsey, Þórarinn Ólafsson. Mörk Fram: Ásmundur Arnarsson, Kristófer Sigurgeirsson)

Fótboltasaga mín 63/100: Fram Vest

27. júlí 2003. KR 3 : Fram 1

Sumarið 2003 bjargaði Fram sér frá falli í lokaumferðinni. Ekkert óvænt við það. Þetta var fimmta árið í röð sem við biðum fram í átjánda leik með að tryggja sætið. Það var orðið ansi hvimleitt.

Annað sem var hvimleitt, var hin reglubundna heimsókn í Frostaskjólið þar sem við virtumst alltaf tapa óháð því hvort liðið væri gott eða lélegt þá stundina. Þetta var þeim mun ergilegra þar sem ég átti heima á Hringbrautinni, við hliðina á JL-húsinu og mátti þola glottandi KR-inga hvarvetna í nærumhverfinu.

Til að bíta höfuðið af skömminni héldu KR-ingar úti blaði sem borið var út um allar trissur, jafnvel inn í hverfi sem flestir myndu skilgreina sem Valssvæði. Óskar Hrafn var ritstjóri og honum var sérlega í nöp við Framara, sem hann kallaði einatt dúkkulísur.

Valur Norðri félagi minn og Framari bjó í sama stigagangi og ég. Hann var meira að segja formaður húsfélagsins eftir að hafa eins og fábjáni asnast til að gera athugasemd við tæknilegt atriði í ársreikningi á aðalfundi – höfðum við þó lofað hvor öðrum að þegja til að lenda ekki í stjórn fyrir fundinn.

Við Valur ákváðum að bregða á leik fyrir leik KR og Fram í elleftu umferð. Við gáfum út blað. Kölluðum það „Fram Vest“ og sögðum útgefandann vera Átthagafélag Framara í Vesturbæ. Í ritstjórnargrein bentum við á að í Vesturbænum byggi fólk sem héldi með ýmsum félögum en sætti ofsóknum og andlegu ofbeldi:

„Ætla má að fasteignaverð í Vesturbænum sé til muna lægra en ella vegna þess beina og óbeina eineltis sem stuðningsmenn annarra félaga mega þola í hverfinu. Það er fyrir þetta fólk sem ákveðið var að ráðast í útgáfu þessa blaðs. Markmiðið er að standa vörð um hagsmuni fasteignaeigenda í Vesturbænum, sem og til að auka og efla samkennd hinna fjölmörgu Framara sem nú þegar búa í hverfinu. En fyrst og fremst er þetta gert fyrir börnin. Þau eru jú framtíðin.“

Annað í blaðinu var í þessum dúr. Ritið var átta síður í A4-broti. Á forsíðu var mynd af Ágústi Gylfasyni og Þorbirni Atla. Inni í blaðinu voru lofgreinar um Fram, sem flestar innihéldu lítt duldar pillur í garð KR-inga, svo sem athugasemd um að Frömurum myndi ekki koma til hugar að festa kaup á reykfylltri krá sem nokkurs konar félagsheimili – sem vísaði í misheppnað Rauða ljóns-ævintýri KR-inga.

Á miðopnu voru rifjaðir upp nokkrir góðir sigrar Framara – einkum á KR. Og heil opna var lögð undir „atvikið“ – svívirðilegt mark KR-inga gegn Frömurum árið 1995. Það var einstaklega skemmtilegt að hnoða efninu saman og þetta skrifaði sig nánast sjálft.

Við skrifuðum á innsíðu að blaðið væri gefið út í 5000 eintökum. Veruleikinn var sá að við ljósrituðum ekki nema fáein hundruð. Við bárum blaðið út í flestallar blokkirnar í grennd við KR-völlinn og í nokkur valin hús, til dæmis stjórnarmanna í KR á víð og dreif um hverfið til að telja mönnum trú um að við hefðum í raun verið svo galnir að búa til mörgþúsund eintök.

Leikurinn fór fram og við töpuðum eins og búast mátti við. KR-ingar urðu Íslandsmeistarar þetta ár, en Fram var í botnsætinu þegar þarna var komið sögu með átta stig. KR komst í 2:0 áður en Ragnar Árnason minnkaði muninn í 2:1 þvert gegn gangi leiksins. Í kjölfarið fengu Framarar reyndar nokkra bullandi sénsa til að jafna, en svo kom einn svarthvítur og kláraði leikinn undir lokin.

Við Valur náðum samt minnst að hugsa um viðureignina sjálfa út af öllu fárinu sem hlaust af blaðinu. KR-ingarnir trylltust. Stjórn knattspyrnudeildar KR hafði samband við KSÍ og krafðist þess að stjórn Fram myndi biðjast afsökunar á útgáfu blaðsins. KSÍ bar þá kröfu áfram. Hvort tveggja var snargalið í ljósi þess að við Valur höfðum sett nöfn okkar sem ábyrgðarmenn á áberandi stað á blaðsíðu tvö. Engum datt þó í hug að hafa samband beint við okkur.

Guðjón Guðmundsson flutti frétt á Stöð 2 og Bylgjunni af þessari „ósvífnu“ útgáfu Framara. Aftur var ekki orð um að við Valur hefðum gert þetta í okkar eigin nafni. Ég fékk fregnir af því að einhverjir í forystu Fram hafi verið við það að fara á taugum og íhugað að senda frá sér einhvers konar yfirlýsingu – þar til skynsamari menn settu hnefann í borðið og bentu á hversu fáránlegt það væri ef félagið ætlaði að fara að tjá sig um einhver svona einkauppátæki stuðningsmanna úti í bæ.

Það voru ákveðnir hlutir sem fóru meira fyrir brjóstið á KR-ingum en aðrir. Einkum var það pistillinn „Hvorum hópnum vilt þú tilheyra?“ sem náði að strjúka mönnum öfugt. Þar töldum við upp nokkra nafnkunna KR-inga og gáfum lyndiseinkunn. Gunnar Smári Egilsson var sagður sjálfhverfur sófaspekingur í sjúskuðum leðurjakka. Mörður Árnason var sagður afundinn íslenskufræðingur sem fyllti orðabókina af dónaskap. Og svo var það klausan sem þótti svívirðilegust: „Björgúlfur (svo!) Guðmundsson, athafnamaður sem auðgaðist á að selja áfengi í því Evrópuríki þar sem alkóhólismi er stærsta vandamálið.“

Önnur klausa sem þótti fyrir neðan beltisstað var: „Sannir stuðningsmenn Fram gæta þess ætíð að móðga ekki eða særa andstæðinga sína með köllum og hrópum. Þannig myndu Framarar aldrei láta sér til hugar koma að hrópa niðrandi ummæli um leikmenn hins liðsins, t.d. vegna litarafts þeirra. Því miður hafa ekki allir knattspyrnuáhugamenn þann þroska til að bera.“

Sem minnir mig á það – ég þarf eiginlega að koma eintaki á Þjóðarbókhlöðuna við tækifæri. Hver er síminn hjá timarit.is?

(Mörk KR: Veigar Páll Gunnarsson 2, Kristinn Hafliðason. Mark Fram: Ragnar Árnason)

Fótboltasaga mín 62/100: Rangstaðan

15. júní 1986. Sovétríkin 3 : Belgía 4

Er ekki fyrsta HM í fótbolta sem maður upplifir alltaf sú besta? Það er að minnsta kosti mín kenning. Ég þekki menn sem verða meirir þegar hin nálega markalausa keppni á Ítalíu 1990 berst í tal, aðrir fá stjörnur í augun þegar talað er um 1994 í Bandaríkjunum. Hef meira að segja hitt menn sem eru svo ungir að þeim fannst skrípaleikurinn í Japan og Suður-Kóreu 2002 vera æði. Allt voru þetta fyrstu keppnir viðkomandi aðila.

Mín keppni er Mexíkó 1986. Hún er svo greipt í huga mér að ekkert fótboltamót mun eiga séns í minningarnar frá sumrinu þegar ég var ellefu ára og missti varla út leik.

Ég var líka nógu ungur til að halda með fullt af liðum. Í dag er ég orðin svo svartur á sálinni að stórmót snúast yfirleitt um hvort liðið mér er minna illa við hverju sinni. En 1986 gat ég haldið með haug af þriðja heims löndum. Suður-Ameríkuliðunum Argentínu, Úrúgvæ og smá með Paragvæ. Frakkar fóru ekkert sérstaklega í taugarnar á mér og Búlgarir og Ungverjar máttu ná góðum árangri mín vegna. Og svo voru það náttúrlega Sovétmenn.

Sovéska landsliðið var í raun lið Dynamo Kiev, með sama þjálfara: Lobanovsky. Þetta þótti rosalega sérstakt en um leið spennandi tilraun – að tefla fram landsliði sem væri í stórum dráttum félagslið og allir því þaulæfðir að spila saman. Kiev-liðið var líka hörkugott með fullt af fínum leikmönnum og slátruðu Atletico Madrid 3:0 í úrslitum Evrópukeppni bikarhafa mánuði fyrir mótið í Mexíkó.

Sovétmenn voru mínir menn ásamt Argentínu og ég bjóst við þeim í undanúrslitin í það minnsta. Það byrjaði líka vel. Sovétmenn unnu sinn riðil og skutu Frökkum aftur fyrir sig. Andstæðingarnir í 16-liða úrslitunum voru hálfgert formsatriði. Belgía hafði skriðið áfram sem þriðjasætislið á eftir Mexíkó og Paragvæ en á undan Írak. Belgarnir höfðu átt þokaleg ár í byrjun níunda áratugarins en voru frekar taldir á niðurleið og lentu yfirleitt í einhverjum skandölum á stórmótum.

En útkoman varð einhver besti leikur í HM-sögunni. Belanov, sem átti að vera stóra tromp Sovétmanna í mótinu, hafði valdið vonbrigðum fram að þessu – aðeins skorað eitt mark og það úr víti gegn Kanada. En þarna hrökk hann í gang og skoraði þrennu. Hann kom Sovétmönnum yfir í fyrri hálfleik en Enzo Scifo jafnaði eftir tíu mínútur af seinni hálfleik. Aftur skoraði Belanov á 70. mínútu en Ceulemans jafnaði eftir 77 mínútur.

Í framlengingunni skoruðu Belgar tvívegis en Belanov svaraði um hæl og síðustu tíu mínúturnar lágu Sovétmenn í sókn án þess að ná að skora. Raunar mátti telja sovésku færin í leiknum í tugum, meðan Belgarnir virtust ekki bregða sér í sóknina nema til að setja mark.

Og eins og það hefði ekki verið nóg að sóknarnýtingin hefði verið með þessum hætti, þá voru tvö belgísku markanna augljós rangstaða. Jöfnunarmark Ceulemans var svo augljóslega ólöglegt að manni datt helst í hug að brögð væru í tafli. Ég varð svo miður mín yfir óréttlætinu í leikslok að ég brynnti músum. Er ekki eitthvað fallegt við að ellefu ára krakkar geti skælt yfir úrslitum í landsleikjum ókunnra þjóða? Þannig gerir maður bara á sínu fyrsta HM.

(Mörk Sovetríkjanna: Igor Belanov 3. Mörk Belgíu: Enzo Schifo, Jan Ceulemans, Stéphane Demol, Nico Claesen)