B-maðurinn: fótboltasaga mín 61/100

17. febrúar 2001. Hearts 1 : Dundee 1

Peter skólabróðir minn í Edinborg er eitt svæsnasta dæmi um B-manneskju sem ég hef kynnst. Hann virtist algjörlega úti á þekju í tímunum og gat varla stamað upp úr sér óbjagaðri setningu á ensku eða tekið þátt í samræðum. Við samnemendurnir litum á hann sem hálfgerðan fábjána eða hasshaus, sem gekk þó ekki upp miðað við að Peter hafði starfað sem aðstoðarmaður hjá Ulrich Beck, sem var aðaltöffarinn í félagsfræðinni um þær mundir.

Einhvern veginn æxluðust þó mál þannig að við Peter ákváðum að horfa saman á fótboltaleik á einhverri knæpunni. Þar hitti ég hann í fyrsta skipti við aðrar kringumstæður en árla dags í skólastofunni. Í ljós kom að hann var eldklár, bráðskemmtilegur og átti ekki í neinum vandræðum með að tjá sig á ensku. Heilinn á honum fór einfaldlega ekki í gang fyrr um um hádegi. Ég gat tilkynnt skólafélögunum daginn eftir að Peter væri ekki sá fáráður sem við höfðum haldið í margar vikur og eftir það varð hann hluti af hópnum.

Líkt og ég, hafði Peter ákveðið að styðja Hearts meðan á Edinborgardvölinni stæði og við skelltum okkur á nokkra leiki, þar á meðal bikarleikinn gegn Dundee í 16-liða úrslitunum.

Þetta var merkilegt tímabil í sögu Dundee. Ítölsku bræðurnir Ivano og Dario Bonetti stýrðu liðinu og sönkuðu að sér erlendum leikmönnum, einkum suður-amerískum, sem ekki samrýmdust alveg staðlmyndinni af skoskum fótboltamönnum. Útlendingahersveitin átti oft flotta spretti, en stöðugleikann skorti og ítölsku byltingunni hjá Dundee lauk eftir aðeins tvö ár.

Langstærsta stjarnan sem Bonetti-bræður lokkuðu til sín var Claudio Caniggia – maðurinn með ljónsmakkann sem mátti þola að vera frystur af argentískum landsliðsþjálfunum fyrir að neita að klippa hárið stutt. Caniggia var yfirburðamaður í liði Dundee og færði sig yfir til Rangers í lok tímabilsins.

Fyrir leikinn hafði Hearts ekki tapað á heimavelli í skoska bikarnum í nærri tuttugu ár og virtist ekki ætla að breyta út frá þeim vana. Hearts-menn óðu í færum í fyrri hálfleik og misnotuðu meðal annars vítaspyrnu snemma leiks. Leikmenn Dundee voru þolinmóðir og treystu á skyndisóknir. Caniggia var nærri búinn að leggja upp mark fyrir landa sinn Juan Sara og skömmu síðar, eftir um hálftíma leik bætti Sara um betur og skoraði, 0:1.

Ítalski markvörðurinn Rocatti fór á kostum í marki Dundee og ekkert virtist ætla að komast fram hjá honum. Þegar níu mínútur voru eftir jafnaði hins vegar Juanjo. Hann var nettur, sókndjarfur miðjumaður sem átti víst einn opinberan leik með Barcelona áður en hann gekk í raðir Hearts. Bradford City keypti Juanjo að tímabilinu loknu en hann náði sér aldrei á strik sunnan landamæranna.

Hearts vann seinni leikinn og komst í fjórðungsúrslitin, en þar með var draumurinn úti. Tap á útivelli gegn Celtic lauk því ævintýri. Celtic fór svo alla leið í úrslitin og sigraði þar Hibernian. Það fannst Hearts-mönnum ekki leiðinlegt, enda smjöttuðu þeir mjög á því að Hibs hefði síðast unnið titil í Búastríðinu eða þar um bil…

(Mark Hearts: Juanjo. Mark Dundee: Juan Sara)

Lýðveldið: fótboltasaga mín 60/100

17. júní 1994. Þýskaland 1 : Bólivía 0

„Samba á Laugardalsvelli!“ – Einhvern veginn svona hljóðaði auglýsing KSÍ um vináttuleik vorið 1994. Andstæðingarnir voru reyndar ekki Brasilíumenn… heldur Bólivía. Þetta er líklega í fyrsta sinn í sögunni sem Bólivía hefur verið sérstaklega tengd við samba. Í bólivíska landsliðinu var enginn þekktur leikmaður. Þorri liðsins lék með félagsliðum í heimalandinu eða Chile. Einn var á mála hjá evrópsku liði: Boavista í Portúgal.

En Bólivía var sem sagt að undirbúa sig fyrir úrslitakeppni HM, þá fyrstu frá 1950 og það kom í hlut þeirra að mæta heimsmeisturum Þjóðverja í opnunarleiknum. Kannski ekki draumaleikur hins hlutlausa áhorfanda, en opnunarleikur er þó alltaf opnunarleikur.

Þennan sama dag var þjóðvegahátíðin mikla haldin á Íslandi. Fimmtíu ára lýðveldisafmæli var fagnað en umferðarstjórnun klikkaði og gleymdist að skipuleggja sætaferðir, með þekktum afleiðingum. Mér datt ekki í hug að flengjast á staðinn enda fótbolti í sjónvarpinu.

Nokkrum dögum fyrr hafði þó blaðamaður hringt í mig og spurt hvort ég myndi mæta á ÞIngvöll? Hann var á einhverju vikublaðinu, Eintaki eða Helgarpóstinum og vildi fá álit MorfÍs-fólks á ræðunum sem fluttar yrðu af erlendu gestunum. Ég samþykkti með semingi að horfa á sjónvarpsútsendinguna og gefa einhver komment í kjölfarið.

Að kvöldi 16. júní fór ég á fyllerí og var skelþunnur allan daginn. Svaf af mér útsendinguna frá Þingvöllum og þurfti að láta nægja að lesa ræðurnar í Mogganum daginn eftir og giska á hvernig flutningurinn hefði til tekist. Það voru fáeinar mínútur í leik þegar ég drattaðist loks út úr húsi og hélt heim til Sigfúsar bekkjarfélaga míns þar sem við hittumst nokkrir til að fylgjast með leiknum. Ég missti meira að segja af opnunarhátíðinni og sá því ekki Diönu Ross klúðra því að sparka boltanum í markið á eftirminnilegan hátt.

Hann var frekar leiðinlegur og fyrirjáanlegur. Þjóðverjar sóttu. Bólivía pakkaði í vörn. Þegar komið var nokkuð fram í seinni hálfleik og maður farinn að gæla við að bólivíska liðið gæti haldið þetta út, þá skoraði Klinsmann. Markið lyktaði bæði af hendi og rangstöðu. Lokatölur 1:0.

Óbeit mín á Klinsmann var mikil á þessum árum. Hann var maðurinn sem öðrum fremur þróaði þá list framherja að velta sér í fjóra hringi eftir tæklingar til að reyna að fiska spjöld á andstæðinginn. Það var reyndar ekki Klinsmann heldur Matthäus sem kom við sögu í rauða spjaldinu sem einn Bólivíumaðurinn nældi sér í undir lokin. Matthäus slæmdi til þess bólivíska með olnboganum, sá sparkaði á móti í hefndarskyni. Dómarinn sá seinna brotið en ekki það fyrra. Rautt.

Mikið var það gaman þegar Búlgaría ruddi Þjóðverjum úr keppni síðar í þessu móti.

(Mark Þýskalands Jürgen Klinsmann)

Sveiflurnar: Fótboltasaga mín 59/100

23. júlí 1993. KR 1 : Fram 4

1993 er síðasta árið sem við Framarar hófum keppni með raunhæfar meistaravonir. Árin tvö þar á undan litum við á okkur sem meistaraefni og fyrir þetta sumar var bætt við hópinn og Ásgeir Sigurvinsson ráðinn sem stjóri. Við spiluðum líka í treyjum sem náðu að fanga anda og hönnunarsmekk tíunda áratugarins á magnaðan en skelfilegan hátt.

Þetta var stórskrítið tímabil. Fram hafnaði í fimmta sæti með átta sigra, eitt jafntefli og níu töp. Akranes var yfirburðalið þetta sumarið. Urðu bikarmeistarar og unnu alla leiki sína í deildinni nema tvo: tap og jafntefli gegn Fram. 3:3 á Skaganum þar sem heimamenn voru ljónheppnir að ná stigi og 4:2 í Laugardalnum þar sem Framarar fóru á kostum og komust í 4:0.

Annað var í stíl við þetta. Fram vann Fylki 5:0 í fyrri umferðinni, úrslit sem til skamms tíma voru stærsti skellur Fylkismanna í meistaraflokki karla. Í seinni umferðinni unnu Árbæingar hins vegar 3:0. Stöðugleikinn var enginn. Framarar léku sitt á hvað eins og meistaraefni eða fallkandídatar.

Í uppgjörskaflanum um efstu deildina í Íslenskri knattspyrnu 1993 velti Víðir Sigurðsson því fyrir sér hvort slök útkoma Framara mætti skrifast á að liðið hefði haft „of mörgum framherjum“ á að skipa. Nákvæmlega hvernig það hefði átt að virka er óljóst. Og Fram skoraði nóg af mörkum: 38 en fékk 37 á sig þrátt fyrir að hafa Birki Kristinsson í markinu og Kristján Jónsson í miðju varnarinnar með Ágúst Ólafsson og Steinar Guðgeirsson  í bakvörðunum.

Framarinn Helgi Sigurðsson fékk bronsskóinn með 14 mörk, svo auglóslega beindist gagnrýni Víðis ekki að honum, en spurningin er hvort hann hafi verið að ýja að því að aðrir framherjar hafi ekki staðið sig sem skyldi: þeir Valdimar Kristófersson, Ríkharður Daðason og Atli Einarsson sem allir skoruðu fimm mörk eða færri.

Atli Einarsson olli vissulega vonbrigðum. Hann kom til Fram sem síðhærði markaskorarinn úr Víking sem gat hlaupið hraðar en öflugustu frjálsíþróttakappar. Í bláa búningnum gerði hann hins vegar ekki mikið… nema í Skjólinu 1993.

Leikurinn í Frostaskjólinu var sögulegur. KR-liðið var nálega taplaust á heimavelli. Framarar sóttu hins vegar stíft og voru komnir tveimur mörkum yfir snemma leiks: Helgi Sig. og Valdimar Kristófersson. KR minnkaði muninn eftir um hálftíma úr vítaspyrnu.

Pétur Arnþórsson fór meiddur útaf í leikhléi. Þegar halftími var eftir fékk Helgi Björgvinsson beint rautt spjald og skömmu síðar yfirgafi Helgi Sigurðsson völlinn meiddur. Steinar Guðgeirsson meiddist skömmu síðar en skiptingarnar voru búnar svo hann mátti haltra um til leiksloka. Í raun voru Framarar níu á móti ellefu og útlitið ekki gott.

En þá kom til skjalanna Atli Einarsson. Framliðið lá til baka en sendi langa bolta fram á Atla sem stakk alla af með hraða sínum. Hann fiskaði vítaspyrnu sem varin var frá Kristjáni Jónssyni. Á 84. stakk Atli sér í gegnum KR-vörnina og skoraði 3:1 og mínútu síðar lagði hann upp mark fyrir Ingólf Ingólfsson. Morgunblaðið gaf Atla Einarssyni 3 M fyrir leikinn. Sú einkunn var yfirleitt frátekin fyrir markverði með stórleik eða framherja sem skoruðu þrennur.

Atli hafði skorað tvö mörk í næsta leik á undan og í umferðinni á eftir skoraði hann líka tvívegis, í leik gegn Eyjamönnum. En fleiri urðu mörkin ekki þrátt fyrir að hann væri í byrjunarliði í átta síðustu leikjunum. Hann hefði sennilega ekki átt að láta klippa hárið stutt…

Eftir tímabilið gekk Atli til liðs við FH-inga. En Framarar minnast hans alltaf með hlýhug fyrir leikinn í Frostaskjólinu.

(Mark KR: Rúnar Kristinsson. Mörk Fram: Helgi Sigurðsson, Valdimar Kristófersson, Atli Einarsson, Ingólfur Ingólfsson)

Vorskemmtunin: Fótboltasaga mín 58/100

24. apríl 1988. Luton 3 : Arsenal 2

Melaskóli var ansi fjölmennur á níunda áratugnum. Í tólf ára bekknum mínum voru 27 krakkar og fimm bekkjardeildir í árgangi. Það þýddi að vorskemmtun skólans, þar sem nemendum og foreldrum var stefnt til að hlusta á barnakór, falskan flautuleik yngri barnanna og önnur tilfallandi skemmtiatriði, þurfti að fara fram í mörgum hollum. Þetta var afgreitt yfir helgi með hverja sýninguna á fætur annarri báða dagana.

Ingi skólastjóri kallaði mig á sinn fund vorið 1988. Yfirleitt hafði það komið í hlut hans eða einhvers kennarans að kynna atriðin. En að þessu sinni vildi hann breyta til og bað mig um að gerast kynnir fyrir hönd elstu nemanna. Það var auðsótt. Ég hékk niðrí skóla báða dagana og romsaði út úr mér kynningum milli atriða. Falski flautukórinn vandist ekkert sérstaklega vel.

En það var einn galli á gjöf Njarðar. Þessa sömu helgi var risaleikur í Englandi. Leikur sem í dag er áltinn hápunkturinn í sögu Luton Town og verður líklega um lengin enn. Það var úrslitaleikur deildarbikarsins, Luton : Arsenal.

Í Fever Pitch eftir Arsenal-manninn Nick Hornby er heill kafli helgaður þessum leik, þar sem varnarmaðurinn Gus Ceasar er gerður að blóraböggli. Hann átti ekki góðan leik, en fleira kom þó til.

Á þessum árum var deildarbikarinn hærra skrifaður en síðar varð. Félögin tefldu fram sínum sterkustu liðum allt frá fyrstu umferðunum. Arsenal hafði titil að verja. Árið áður unnu Arsenalmenn Liverpool í úrslitunum og þar með sinn fyrsta titil frá árinu 1979.

George Graham ætlaði svo sannarlega að halda titlinum og Arsenal mættu til leiks sem ótvírætt sigurstranglegra liðið. Reyndar munaði ekki nema þremur sætum í lok leiktíðar. Arsenal hafnaði í sjötta sæti og Luton í níunda, en munurinn var þó þrettán stig. Leið Luton í úrslitin hafði svo sem ekki verið sú strembnasta. Liðið hafði bara mætt tveimur efstudeildarliðum: Coventry og botnliði Oxford í undanúrslitum.

Ég fékk afa og ömmu til að taka leikinn upp á spólu og stormaði svo heim til þeirra um leið og síðasta sýningin var búin og horfði á upptökuna í fyrsta en fjarri því síðasta sinn.

Brian Stein kom Luton yfir eftir tæpan stundarfjórðung eftir frísklega byrjun sem kom Lundúnarliðinu greinilega á óvart. Preece tók langa aukaspyrnu inn í teiginn þar sem Steve Foster með fína ennisbandið sitt sendi hann fyrir lappirnar á Stein (sem hefði ef til vill mátt vera í betri gæslu Gus Ceasars). John Lukic átti aldrei séns. Eftir markið drógu Luton-menn sig þó jafnt og þétt aftar á völlinn og Arsenal sótti í sig veðrið.

Les Sealey, aðalmarkvörður Luton um þessar mundir, var meiddur. Andy Dibble stóð því á milli stanganna og fór á kostum. Eftir tímabilið ákvað hann að færa sig niður um deild og gekk til liðs við Manchester City. (Vá hvað það er skrítið að skrifa þessa setningu!)

Þrátt fyrir hetjulega frammistöðu Dibble var það ljóst þegar líða tók á seinni hálfleikinn að Luton gæti ekki varist pressu Arsenalsóknarinnar endalaust. Alan Smith var framherji sem virtist skora í hverjum leik. Perry Groves var frammi með honum. Groves var skipt útaf fyrir Martin Hayes sem jafnaði metin á 71. mínútu.

Þremur mínútum síðar kom næsta kjaftshögg. Eftir klaufagang í vörninni þar sem Luton-mönnum mistókst í þrígang að koma boltanum í burtu fékk Alan Smith knöttinn utarlega í vítateignum og skaut snyrtilega yfir Dibble. 2:1 fyrir Arsenal og núna héldu meira að segja þrettán ára bjartsýnir pakkar á Íslandi að þetta væri búið…

Leikmenn Arsenal voru sama sinnis og ætluðu að kafsigla andstæðingana. Smith átti stangarskot og svo braut Mal Donaghy klaufalega á David Rocastle. Vítaspyrna!

Og nú var komið að ákvörðuninni sem í raun réði úrslitum í leiknum – hvað sem öllum axarsköftum Gus Ceasars leið. Hroki glæpamannsins er þekkt minni í bókmenntum: augnablikið þegar skúrkurinn hefði getað ráðið niðurlögum hetjunnar, en kýs af stærilæti sínu að skipuleggja flókinn og hægfara dauðdaga auk þess að kjafta frá leyndarmáli sínu. Þetta gerist einatt í James Bond-myndunum.

Vítaskytta Arsenal var… Nigel Winterburn! Það var fullt af mönnum inná sem voru rökréttari kostur í hlutverk vítaskyttunnar. Kommon! Þú lætur ekki Winterburn taka víti í úrslitaleik á Wembley með bara eins marks forystu, hversu mikla yfirburði sem þér finnst þú hafa!

Andy Dibble varði og um leið byrjaði að molna úr sjálfsöryggi Arsenal. Á 83. mínútu hrasaði Gus Ceasar í vítateignum og tiltölulega bitlítil sókn Luton-manna varð allt í einu stórhættuleg. Mark Stein sendi fyrir markið þar sem Danny Wilson kom aðvífandi og skallaði í netið.

Bæði lið voru farin að búa sig undir framlengingu þegar Tony Adams braut á Mark Stein á miðjum eigin vallarhelmingi. Luton-menn náðu að stilla upp. Danny Wilson sendi inn í teiginn, varnarmaður Arsenal skallaði út að hliðarlínu þar sem hinn smáfríði Ashley Grimes náði knettinum – hljóp upp að endamörkum og sendi fyrir… þar sem enginn mundi eftir að dekka Brian Stein!!! 3:2. (Í endurminningabók sinni sagðist Tony Adams hafa hugsað: „ókey, þetta þýðir fyllerí í mánuð.“)

Fjórtán sekúndum eftir að leikmenn Arsenal tóku miðjuna var flautað til leiksloka í einhverjum dramatískasta deildarbikarsúrslitaleik sögunnar. Sjitt hvað ég var montinn í skólanum næstu daga!

Reyndar upplifði ég ekki alla dramatíkina á sama hátt og áhorfendurnir á Wembley. Þegar Arsenal komst í 2:1 hafði ég farið til afa og spurt um úrslitin. Það dró samt ekkert úr gleðinni.

Kynnisstarfið á sumarskemmtuninni gekk svo bara vel að ég held. Annars man ég lítið eftir því og hef engin vitni, því ég sá enga ástæðu til að láta mömmu og pabba vita af þessu hlutverki mínu – þau hefðu bara fengið einhverjar furðuhugmyndir eins og að mæta. Það liðu líklega tuttugu ár áður en þau fréttu af þessari samkomu.

(Mörk Luton: Brian Stein 2, Danny Wilson. Mörk Arsenal: Martin Hayes, Alan Smith)

Þokan: Fótboltasaga mín 57/100

 8. júlí 2013. Grótta 1 : Fram 2

Er gott að dragast gegn neðrideildarliði í bikarkeppninni? Um þessa spurningu mætti skrifa langar ritgerðir á sviði leikjafræði. Tölfræðin segir okkur að íslensk efstudeildarlið vinna nánast alltaf andstæðinga úr þriðju efstu deild eða neðar og komast þannig áfram í keppninni. Neðrideildarandstæðingur færir lið því langoftast nær lokamarkmiðinu um að komast í úrslit og verða bikarmeistari.

Á móti kemur hins vegar að vilji svo ólíklega til að leikurinn tapist, fylgir því óbærileg niðurlæging og upprifjun á úrslitunum svo árum skiptir. Efstudeildarliðið mætir til leiks og hefur öllu að tapa. Það er hálfkjánalegt að fagna stórsigri og að skora mörg mörk gegn fjórðudeildarliði gerir ekkert fyrir sjálfstraust framherjanna og oft á tíðum útheimtir það mikla orku að brjóta niður andstæðing sem pakkar í vörn.

Það var því blendin ánægja þegar Framarar drógust gegn Gróttu í fjórðungsúrslitum bikarsins 2013. Í pottinum voru sex úrvalsdeildarlið og Víkingar úr næstefstu deild auk Gróttu sem hafnaði í þriðja sæti þriðju efstu deildar þetta sumarið.

Grótta er skrítið félag. Það búa fleiri á Seltjarnarnesi en í Vestmannaeyjum og örlítið færri en á Skaganum. Samt telst Grótta varla fullgilt fótboltalið í hugum flestra fótboltaáhugamanna. Öfugt við t.d. Aftureldingu, Leikni og Hauka, þá er ansi mörgum tamt að líta á Gróttu sem hálfgert KR-varalið. Mig grunar að ansi margir Seltirningar hafi annað augað á Gróttu í neðrideildunum og líti á leik og leik, en mæti svo málaðir í KR-litunum á leiki í Frostaskjólinu.

En þó fáir mæti á heimaleikina gegn Njarðvík eða Ægi í deildinni, fjömenna Seltirningar þegar stórlið koma í heimsókn í bikarkeppninni. Það var vel mætt á vellinum fyrir neðan Valhúsaskólann, sem er mögulega flottasta vallarstæði höfuðborgarsvæðisins en illu heilli með gervigrasi.

Reyndar var ég ekki viss um að leikurinn gæti farið fram á tilætluðum tíma, því þennan dag var fáránlega þétt þoka yfir borginni svo varla sást milli húsa. Þá kom sér þó loksins vel að Seltjarnarnesið er rokrasskat. Völlurinn var vel sjáanlegur þegar flautað var til leiks og skömmu eftir leikhlé lyfti þokan sér og við blasti glæsilegt útsýni til Bessastaða.

Gróttumenn pökkuðu í vörn og tókst nokkuð vel að halda Frömurum í skefjum. Rétt um miðjan hálfleikinn tókst Almarri Ormarrssyni þó að skora og við stuðningsmennirnir á pöllunum urðum rólegir. Nú hlytu 1-2 mörk að fylgja í kjölfarið og Gróttumenn að brotna.

En sú varð ekki raunin. Grótta hélt áfram að verjast vel og í stað þess að Framararnir yrðu afslappaðri án pressunnar og meira ógnandi urðu menn bara pirraðri eftir því sem verr gekk að finna veika bletti.

Ég stóð umkringdur mennta- og menningarkrötum, mönnum á borð við Hallgrím Helgason, Einar Kárason og Pál Valsson. Kristrún Heimisdóttir kom aðvífandi og tók okkur tali. Kristrún auðvitað uppalinn Seltirningur og fannst ekki leiðinlegt að láta okkur engjast með kurteisislegum pillum sem dulbúnar voru sem sakleysislegar spurningar: „Voðalega gengur ykkur eitthvað illa að ná upp hröðu spili? Í minningunni voru Framarar nú alltaf svo léttleikandi lið, með Pétur Ormslev og svona… – Áttuð þið ekki frekar von á að vinna þennan leik á sannfærandi hátt?“

Ég hefði væntanlega hagað mér nákvæmlega eins í hennar sporum, en við Framararnir lætum nægja að umla eitthvað afsakandi um gervigras, leikjaálag og nýjan þjálfara. En það versta var að einhvern veginn fór manni að gruna í hvað stefndi.

Í seinni hálfleik héldu Gróttumenn áfram að verjast gegn síþverrandi sóknarþunga Framara, sem sköpuðu sér sárafá alvöru marktækifæri. Skyndisóknirnar hinu megin á vellinum urðu jafnframt smátt og smátt beittari. Það varð því enginn hissa þegar nafni bæjarstjórans fyrrverandi (á maður að slá því föstu að þeir hljóti að vera frændur?) skoraði jöfnunarmark tíu mínútum fyrir leikslok. Framlengja þurfti og við Framarar stóðum draugfúlir meðan heimamenn voru farnir að hrópa og klappa.

Skynsemin sagði manni að engin ástæða væri til að fara á taugum. Úrvalsdeildarleikmenn eru í betra formi en leikmenn í neðrideildarliði, sem ætti að koma fram eftir að venjulegum leiktíma væri lokið. Það var líka talsvert farið að draga af Gróttumönnum sem höfðu þá áætlun eina að hanga á jafnteflinu og komast í vítakeppni, þar sem allt gæti gerst.

Og það mátti svo litlu muna að sú leikaðferð skilaði árangri. Allt Gróttuliðið varðist inn í vítateig, en Framarar spiluðu fyrir utan og reyndu að koma sendingum inn í boxið sem jafnharðan voru hreinsaðar fram völlinn eða útaf. Þegar fjórar mínútur voru eftir af framlengingunni notaði Ríkharður þjálfari síðustu skiptinguna sína. Átján eða nítján ára pjakkur sem komið hafði frá Breiðabliki en er reyndar af Framaraættum, Aron Þórður Albertsson, kom inná.

Ég man ekki hvort þetta voru fyrstu mínútur Arons í deild og bikar. Ef til vill hafði hann komið einu sinni af bekknum fyrr um sumarið, en mér fannst skiptingin fyrst og fremst merki um örvæntingu. Ef Rikki hefði í raun og veru trú á að þessi táningur myndi skipta sköpum í leiknum hefði hann væntanlega gert breytinguna fyrr.

En eins og búast mátti við af ungum varamanni í þessari stöðu, ætlaði Aron augljóslega að láta til sín taka og helst að prjóna sig sjálfur í gegnum allan teiginn og í markið. Á 119. mínútu fékk hann færið, náði að skjóta sér fram fyrir einn örþreyttan varnarmann Gróttu og vissi upp á hár hvað myndi gerast næst. Hann beið rólegur eftir að Seltirningurinn ræki löppina aftan í hann og féll fimlega til jarðar.

Kristinn Jakobsson tók hlaupið inn í teiginn og var kominn með gula spjaldið í lófann, albúinn að spjalda Aron fyrir leikaraskap, þegar hann leit upp og sá að aðstoðardómarinn var búinn að flagga víti. Frekar en að stinga spjaldinu í vasann og tapa kúlinu, benti Kristinn á vítapunktinn og hljóp að vesalings Gróttumanninum og sýndi honum spjaldið. Það var harður dómur.

Steven Lennon fór á punktinn og skoraði. Nokkrum sekúndum síðar var flautað til leiksloka. Gróttustuðningsmennirnir gengu hnípnir af velli, sendu okkur sakbitið augnaráð en reyndu þó að bera sig vel og tala um góða frammistöðu sinna stráka. Framleikmennirnir voru fyrst og fremst fegnir og vandræðalegir yfir að hafa naumlega unnið Gróttu út á soft-víti. Gott ef liðið sleppti ekki meira að segja hinu sígilda Sigga-sagga sigurópi.

Eftir slæman leikdóm sagðist Liberace einhverju sinni hafa grátið alla leið í bankann. Við skömmuðumst okkar alla leið í undanúrslitadráttinn daginn eftir.

(Mark Gróttu: Jónmundur Grétarsson. Mörk Fram: Almarr Ormarrsson, Steven Lennon)

Rigningin: Fótboltasaga mín 56/100

10. júlí 2005. ÍBV 2 : Fram 0

Sumarið 2005 mætti ég á sautján af átján deildarleikjum Fram. Þann síðasta, lokaleikinn gegn FH, sá ég í sjónvarpinu þar sem við Steinunn vorum í heimsókn fyrir austan. Þetta var súrt tímabil. Byrjaði reyndar á 3:0 sigri gegn Eyjamönnum í fyrstu umferð, þar sem Fram komst í toppsæti efstu deildar í fyrsta sinn í fjölda ára. Í ljós kom að sá sigur var bara til að spæla okkur enn meira þegar allt fór í steik. FH vann okkur 1:5 í lokaumferðinni og Fram féll á einu marki.

Minnisstæðust var þó svaðilförin til Vestmannaeyja. Ákveðið var að fljúga með liðið frá Bakkaflugvelli og smáhópur stuðningsmanna fylgdi með. Ég ákvað í bríaríi að skella mér og snapaði far austur fyrir fjall með nokkrum jöxlum. Farangurinn var einfaldur: bók um St. Kildu sem ég hafði keypt mér skömmu áður.

Það var upplifun að fljúga milli lands og eyja, þar sem flugtakið virtist taka lengri tíma en ferðin sjálf. Við mættum tímanlega og gátum fengið okkur einn bjór á veitingastað fyrir leik. Það var hvasst og um það leyti sem leikurinn hófst fór að rigna.

Jafnræði var með liðunum en seint í fyrri hálfleik fengu Eyjamenn billega vítaspyrnu, 1:0. Þar með var brekkan orðin nokkuð brött, enda kunnu heimamenn vel að verja forystu hvað þá í roki og rigningu. Og rigningin jókst bara í leikhléi. Ég var í úlpu sem gat hrundið frá sér einhverri vætu, en fljótlega varð hún blaut í gegn. Peysan og bolurinn blotnuðu smátt og smátt, gallabuxurnar voru orðnar gegnblautar. Mér tókst að finna plastpoka til að vefja utan um bókina. Hún blotnaði samt rækilega.

Um miðjan seinni hálfleikinn var ekki þurr þráður á mér. Ég var kaldur og vansæll. Leikurinn var augljóslega tapaður. Eyjamennirnir voru miklu vanari aðstæðunum, kunnu að beita rokinu. Steingrímur Jóhannesson skoraði 2:0. Framarar fengu nokkur hálffæri en þetta var ekki einn af þessum leikjum þar sem lukkan félli með okkur.

Í leikslok buðu Eyjamenn okkur Framstuðningsmönnunum í kaffi og samlokur í félagsheimilinu. Heitt kaffið var kærkomið og í ylnum í félagsheimilinu var hægt að leiða hugann að heimferðinni. Ég hlakkaði nú ekki til að sitja í hundblautum fötum í flugvél og svo í bíl alla leið í bæinn. En á það reyndi ekki.

Á flugvellinum var okkur sagt að öllu flugi hefði verið aflýst vegna veðurs. Við fundum hótel í bænum, bókuðum herbergi og fórum svo að huga að kvöldverði. Öll föt voru rennblaut, Ég þurfti að vinda sokkana! En með engar aukaflíkur meðferðis var ekki annað í boði en að rölta kaldur og blautur á næsta matsölustað.

Það var ekki um auðugan garð að gresja í matarmálum klukkan tíu að kvöldi í Eyjum. Eitthvað gátum við þó pantað. Til að ná úr mér hrollinum fór ég svo beint í bjórinn og viskýið. Það virtist skynsamleg ákvörðun þarna um kvöldið.

Morguninn eftir vaknaði ég þunnur. Fötin voru ennþá rök, enda rafmagnsofnar á hótelherberginu sem ekki mátti nota til að þurrka flíkur. Ég var búinn að týna símanum og bókinni.

Ferðafélagarnir höfðu fengið þær fréttir að ekkert yrði flogið þennan daginn. Þá var ekki um annað að ræða en Herjólf. Það var leiðinlegt í sjóinn og ég þunnur. Reyndar tóks mér að sofa nær alla leiðina til Þorlákshafnar, svo sjólagið kom ekki mikið að sök. Það var hins vegar ekki borubrattur Stefán sem sneri heim seint um síðir, eftir að hafa misst út vinnudag, tapað síma og bók auk þess að hafa eytt miklu meiri peningum en heimilisbókhaldið hafði áætlað.

Síminn fannst reyndar á einhverju öldurhúsinu og var sendur í pósti upp á fastalandið nokkrum dögum síðar – og miklu seinna andaði framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Fram því út úr sér að hann hefði rekist á hálfvelkta bók um eitthvað efni sem væri svo fáránlegt að hann hefði strax vitað að ég hlyti að eiga hana og gripið með sér. Allt er gott ef endirinn er góður.

(Mörk ÍBV: Ian Jeffs, Steingrímur Jóhannesson)

Lögfræðingurinn: Fótboltasaga mín 55/100

 18. september 1999. Fram 3 : Víkingur 2

Ég hef aðeins einu sinni verið kallaður fyrir rétt í dómsal. Það var í félagsdómi og ég var vitni í máli gegn Orkuveitunni sem varðaði ólöglega uppsögn á trúnaðarmanni. Lögfræðingur Orkuveitunnar í málinu var Anton Björn Markússon. Hann sat frekar lúpulegur undir réttarhaldinu, enda vissi hann að málið var gjörtapað og hann bara mættur til málamynda.

Eftir að lögfræðingur verkalýðsfélagsins hafði lokið við að spyrja mig út úr, fékk Anton Björn orðið. Hann var áhugalítill og spurði mig bara einnar spurningar. Ég ætlaði ekki að trúa eigin eyrum, því sjálfur hafði ég stungið upp á sömu spurningu á fundinum með verkalýðsfélaginu og gat því flutt innblásna ræðu um fáránleg vinnubrögð Orkuveitunnar í málinu.

Það var samt skrítið að sitja andspænis Antoni Birni – eða Tona eins og hann var yfirleitt kallaður af Framstuðningsmönnum. Toni var einn af drengjunum hans Ásgeirs Elíassonar. Á gullaldarárunum á níunda áratugnum var Ásgeir alltaf gríðarlega íhaldsamur í liðsuppstillingu. Hann keyrði á mjög fáum leikmönnum og sá litla ástæðu til að nýta skiptingarnar nema einhver meiddist. Og svo var kannski einn efnilegur sem fékk fáeinar mínútur í lok hvers leiks.

Þessi aðferð skilaði svo sem góðum leikmönnum upp, eins og Ríkharði Daðasyni, Steinari Guðgeirssyni og Antoni Birni. Á góðum degi var Anton Björn magnaður. Sagan segir að Barcelona-menn hafi verið stórhrifnir og spurst fyrir um þennan stóra ljóshærða leikmann eftir að hann splundraði vörn þeirra á Neu Camp í Evrópukeppninni. Og hefði Anton Björn verið tuttugu árum yngri, má reikna með að búið hefði verið að selja hann til Hollands eða Danmerkur fyrir tvítugt.

En Anton Björn var sonur níunda áratugarins. Þá voru knattspyrnumenn ennþá fyrst og fremst menn sem unnu launavinnu eða sóttu sér menntun, fótboltinn var tímafreka hobbýið. Sumir voru íþróttakennarar, aðrir slökkviliðsmenn sem sífellt voru að bjarga fólki úr eldsvoðum eða taka á móti börnum á Miklubrautinni (Pétur Arnþórsson) og jú, enn aðrir lærðu lögfræði í Háskólanum.

Það voru þó frekar þrálát meiðsli en lagadoðrantarnir sem ollu því að Anton Björn hætti að spila fótbolta fyrir þrítugt. Hann var ekki nema 28 ára sumarið 1999, en þó aldursforseti Framliðsins. Við, kaldlyndu stuðningsmennirnir vildum senda hann í límverksmiðjuna!

Fram fór inn í keppnistímabilið án þess að hafa neinn augljósan markaskorara (sem er aldrei góð hugmynd). Þarna voru allnokkrir miðjumenn og vængmenn sem gátu skorað mark og mark: Ágúst Gylfason, Sigurvin Ólafsson, Hilmar Björnsson og Steinar Guðgeirsson, svo einhverjir væru nefndir. Ásmundur Arnarsson var ekki enn orðinn þessi markahrókur sem síðar varð. Og svo var náttúrlega Anton Björn.

Framherjaleysið reyndist dýrkeypt. Eftir nokkrar umferðir var keyptur hollenskur framherji, Marcel Oerlemans, sem reyndist ekki þessi gammur í teignum sem vonast var til. Reyndar hefði það mátt vera ljóst frá upphafi af ferilskrá hans.

Þegar mótið var hálfnað eftir níu umferðir var Fram í þriðja sæti með fjórtán stig og hélt sætinu þrátt fyrir að tapa tveimur næstu leikjum. Eftir tap í sautjándu umferðinni var Fram hins vegar komið niður í þriðja neðsta sætið og aðeins með sextán stig í sarpnum. Grindavík var með jafnmörg stig, en verri markatölu svo nam einu marki.

Við tók mögnuð lokaumferð. Víkingar komu í heimsókn í Laugardalinn og áttu veika von um að hanga uppi með sín fjórtán stig ef Grindavík tapaði heimaleik sínum gegn Val. Valsmenn voru með sextán stig og máttu ekki við því að tapa ef Fram ynni.

Stemningin hjá okkur stuðningsmönnunum var súr. Í sautjándu umferð höfðum við bitið í það súra epli að þurfa að „fagna“ fyrsta Íslandsmeistaratitli KR-inga frá því að Völvan var ung og sæt, því það þýddi að Víkingar töpuðu og sátu eftir á botninum. En nú þurfti að vinna til að hanga í deildinni eða veðja á Val.

Um miðan fyrri hálfleikinn bárust fréttir af því að Valur væri kominn yfir. Það þýddi að Framarar mætu strangt til tekið tapa eða dygði jafntefli – en um leið voru Víkingar komnir í smáséns að bjarga sér. Vallarþulurinn var því ekkert að auglýsa þessar fréttir sérstaklega. Fáeinum mínútum síðar virtist málinu svo endanlega reddað þegar Marcel Oerlemans átti fínan skalla að Víkingsmarkinu, sem var varinn en Anton Björn kom aðvífandi og potaði boltanum í netið.

Þetta var fyrsta mark Tona um sumarið. Hann hafði byrjað mótið sem fastamaður í byrjunarliði, en eftir að halla fór undan fæti datt hann inn og út úr liði. Mér var ekki skemmt að sjá hann byrja inná gegn Víkingum og sú afstaða mín mildaðist furðulítið þrátt fyrir markið.

Undir lok hálfleiksins fengu Víkingar vítaspyrnu upp úr engu, eftir að hafa nánast ekkert gert fram að því, 1:1. Skömmu eftir hlé skoraði Oerlemans gott skallamark eftir undirbúning Hilmars Björnssonar og ég fór strax að sjá eftir því að hafa kallað hann „lata Hollendinginn“ vikurnar á undan. Tíu mínútum síðar gat ég aftur dustað rykið af fordómunum þegar Oerlemans ákvað að gera heiðarlega tilraun til að fella okkur með því að slá einn Víkinginn. Sjálfur hélt hann því fram að Víkingurinn hefði kallað sig negra… en hefði þá ekki mátt láta nægja að berja hann undir stúkunni í leikslok?

Manni færri og með eins marks forystu var við því að búast að Framararnir drægju sig sífellt aftar á völlinn til að halda fengnum hlut. Víkingar gengu á lagið og þegar um 25 mínútur voru eftir jafnaði Bjarni Hall og nú voru úrslitin í Grindavík farin að skipta verulegu máli. Nokkrum mínútum síðar jafnaði Grindavík og einhvern veginn vissu allir um leið að fleiri Grindavíkurmörk myndu fylgja í kjölfarið.

Viðbrögð Ásgeirs Elíassonar virtust örvæntingarfull. Hann setti Andra Fannar Ottósson inná fyrir Ásmund Arnarsson. Þetta fyrsti deildarleikur Andra Fannars í meistaraflokki, svo varla yrði hann bjargvætturinn. Og Anton Björn var færður í fremstu vígílnu!

Þarna var mér öllum lokið. Ætlaði gamli þjálfarinn okkar virkilega að reyna að sækja markið dýrmæta með einhverju barni af varamannabekknum og Tona sem var nýbúinn að pota boltanum inn í fyrsta sinn það sumarið??? Eina von okkar virtist felast í því að Grindavík skoraði ekki annað mark.

Og auðvitað skoraði Grindavík fáeinum mínútum fyrir leikslok eins og skrifað hafði verið í skýin. Fram var komið í fallsæti í fyrsta sinn á keppnistímabilinu og nokkrar mínútur eftir. Framsóknarþingmaðurinn Höskuldur Þórhallsson kom inná hjá Fram, sem fyllti mann þó engri sérstakri bjartsýni. Eini möguleikinn virtist felast í jöfnunarmarki Vals…

En svo náði Gústi Gylfa að stinga boltanum í gegn. Og hver hljóp hraðast allra og afgeiddi boltann í netið á 87. mínútu??? TONI!!!

Við trylltumst í stúkunni. Hoppuðum upp og niður og öskruðum svo að ég varð raddlaus lengi á eftir. Ásgeir Elíasson 1 : Besswewisserar í stúkunni 0. Anton Björn lék þarna sinn síðasta leik fyrir Fram og kvaddi sem hetja. Það var svo ekki fyrr en á barnum löngu síðar að við höfðum almennilega rænu á að glotta yfir að Valur væri fallinn í fyrsta sinn í sögunni.

(Mörk Fram: Anton Björn Markússon 2, Macel Oerlemans. Mörk Víkings: Alan Prentice, Bjarni Lárus Hall)

Fundurinn: Fótboltasaga mín 54/100

26. janúar 2013. Norwich 0 : Luton 1

Ég kláraði að mestu kvótann minn í flokkspólitísku starfi í Alþýðubandalaginu. Gekk í flokkinn sextán ára, seint á árinu 1991. Lenti fljótlega í ýmsum stjórnum bæði í ungliðahreyfingunni og síðar í Framsýn, einu fjölmargra aðildarfélaga flokksins í Reykjavík. Ég var eins og grár köttur á flokkskontórnum næstu árin og alltaf mættur þar sem hægt var að plotta. Það stóð mér þó dálítið fyrir þrifum að ég átti vini í báðum örmunum í flokknum, sem þýddi að hvorugur þeirra treysti mér fullkomlega.

Haustið 1999 sagði ég skilið við Alþýðubandalagið og Samfylkinguna. Það tók mig margar vikur að komast að þeirri niðurstöðu og ákvörðunin var eins og sorgarferli. Mér hefur aldrei liðið eins illa og þá mánuði sem þessi skilnaður tók og á köflum óttaðist ég að vera orðinn þunglyndur. Í kjölfarið fór ég í VG, en hef aldrei tekið þátt í því starfi á sama hátt og í Abl.

Steinunn sér um flokkapólitíkina í okkar hjónabandi. Ég er á hliðarlínunni og hef í mesta lagi tekið að mér afmörkuð verkefni, einkum að sitja í uppstillingarnefndum og kjörstjórnum. Slík verkefni henta mér vel, einkum vegna þess að þau eru í eðli sínu mjög vanþakklát og ég þoli vel að taka það að mér að vera óvinsæli gaurinn í smátíma.

Og svo er ég stundum kallaður til þegar kemur að utanríkismálum, svo sem að halda utan um starfshópa á landsfundum eða miðstjórnarfundum. Það var einmitt á einhvern slíkan fund sem ég þurfti að mæta daginn sem Luton hélt á Carrow Road til að keppa við Norwich í 4ðu umferð enska bikarsins 2013.

Luton var fimm ár í utandeildinni. Fjögur þau fyrstu voru gleðisnauð og einkenndust af vonbrigðum, þjálfaraskiptum og andstæðingum sem lögðu sig alla fram og tvíefldust allt í einu þegar þeir mættu „stóra liðinu“ í deildinni. Eitt af fáum ljósum í myrkrinu var bikarævintýrið 2012-13.

Í forkeppninni vann Luton Cambridge á útivelli. Nuneaton voru mótherjarnir í fyrstu umferð aðalkeppninnar og unnust í aukaleik. Þar á eftir vannst naumur sigur á Dorchester á Kenilworth Road. Í þriðju umferð komu Úlfarnir úr næstefstu deild í heimsókn. Allt var í steik í herbúðum þeirra og þjálfarinn beið þess að vera rekinn. Gott ef 1:0 tapið með marki Alex Lawless dugði ekki til þess.

Luton var þar með komið í 4ðu umferð, 32-liða úrslit. Mótherjarnir voru Norwich á útivelli, sem fyrr segir. Þegar kemur að því að ákveða sjónvarpsleiki í bikarkeppninni, hafa innbyrðisleikir úrvalsdeildarliða alltaf forgang. Því næst reyna sjónvarpsstöðvarnar að velja viðureignir þar sem neðrideildarlið eiga séns á að velgja stórliðum undir uggum. Draumurinn er alltaf að sjá Davíð sigra Golíat.

Útileikur utandeildarliðs gegn úrvalsdeildarliði var hins vegar alltaf langsóttur möguleiki og því varð ég steinhissa að frétta að hann yrði sýndur beint, þar á meðal á bandarísku stöðinni Fox Soccer. Valið var merkilegt í ljósi þess að utandeildarlið hafði ekki unnið eftstudeildarlið í bikarnum frá því að Sutton United skellti Coventry árið 1989 – og Sutton var þó á heimavelli. Það þurfti að fara enn lengra aftur í tímann til að finna útisigur liðs sem var svona mikið neðar í deildarpýramídanum.

Og þarna var ég búinn að bóka mig á Vinstri grænan-málefnafund á hótelinu sem einu sinni hét Holiday Inn. Þar var þó netsamband og ég mætti með tölvuna, lét leikinn lulla á vafranum, en þó falinn til hálfs á bak við Word-skjöl þar sem ég pikkaði niður einhverja punkta um Evrópusambandið, Nató og heræfingar. Líklega plataði ég engan nema sjálfan mig með að ég væri með fulla athygli á fundinum.

Það var markalaust í hálfleik og fundinum lauk í leikhléi. Ég ákvað því að trítla fram í setustofu hótelsins og fylgjast áfram með leiknum á lappanum, auk þess að gjóa augunum á sjónvarpsskjánna á barnum sem sýndu Arsenal lenda í miklu klandri gegn Brighton og einhverja aðra síður minnisstæða leiki til viðbótar.

Fyrir leikinn bjóst ég við 2-3 marka tapi, en gældi við tilhugsunina um að hægt væri að þvinga fram aðra viðureign á heimavelli með tilheyrandi gróða og mögulegri sjónvarpsútsendingu. Eins og leikurinn þróaðist virtist sú þróun mála sífellt líklegri. Luton lá í vörn og Norwich sótti, en þeir voru í raun ekki að skapa sér neitt – náðu sárafáum skotum á markið og Tyler átti ekki í sérstökum vandræðum með þessa fáu bolta sem sluppu í gegn.

Starfsfólk hótelsins rölti framhjá og spurði út í leikinn. Ég útskýrði málið og flestir sýndu áhuga: mundu eftir Luton frá því í gamla daga og þekktu einhverja sem héldu með sérviskulegum liðum. Allan seinni hálfleikinn var ég því að fá spurningar um hvernig gengi og hvort staðan hefði nokkuð breyst.

Tíu mínútum fyrir leikslok voru Norwich-menn farnir að verða ansi pirraðir á hversu illa gengi að brjótast í gegnum vörnina og þreytan farin að segja til sín. Luton var hins vegar með ferskar fætur í sókninni. Scott Rendell, leikmaður sem flakkað hefur á milli neðrideildarliða allan sinn feril án þess að stoppa nema fáeina mánuði á hverjum stað, var settur inná og örskömmu síðar var hann á réttum stað eftir að táningurinn J. D. O´Donnell prjónaði sig upp að endamörkum í skyndisókn. Staðan 0:1 fyrir Luton og ég lét öllum illum látum.

Við tók tíu mínútna nauðvörn þar sem sífellt örvæntingarfyllri sóknarmenn Norwich gerðu sitt besta til að jafna metin. Allt kom fyrir ekki. Luton vann og staffið á hótelinu gaf mér bjór að sigurlaunum!

Það sem eftir var dags rigndi yfir mann hamingjuóskum. Engir glöddust þó meira en Coventry-stuðningsmennirnir í vinahópnum sem sáu fram á að endalausum upprifjunum á Sutton-leiknum frá 1989 myndi loksins ljúka! Luton varð fyrsta utandeildarliðið í 16-liða úrslitum í óratíma, en tapaði fyrir Millwall á heimavelli.

Sigurinn á Carrow Road reyndist þó Pyrrhosarsigur. Öll einbeiting liðsins fór út um gluggann. Luton fokkaði upp deildinni og mistókst að komast í umspilið, sem þó hafði verið talið útilokað fyrirfram. Stjórinn, Paul Buckle, hrökklaðist frá undir lok leiktíðarinnar og bar því við að hann væri að elta konuna sína til Bandaríkjanna. Við réðum í staðinn gamlan jálk, John Still, sem ég hafði ekkert álit á. Næsta tímabil pakkaði hann deildinni saman og gerði okkur að meisturum með 19 stiga forskot á næsta lið. Svona er maður nú slappur mannþekkjari.

(Mark Luton: Scott Rendell)

Undrunin: Fótboltasaga mín 53/100

18. maí 1994. AC Milan 4 : Barcelona 0

Stundum tala íþróttafréttamenn eins og fótbolti hafi verið fundinn upp haustið 1992. Það eru áhrif frá Sky Sports, sem miða upphaf tímatalsins við stofnun ensku úrvalsdeildarinnar, þegar nokkur af ríkustu félögum þeirrar fornfrægu knattspyrnuþjóðar ákváðu að taka til sín enn stærri hluta af kökunni. Fyrir vikið er hvers kyns tölfræði og metaskráning oft miðuð við árið 1992.

Veruleikinn er þó sá að á fyrri hluta tíunda áratugarins var enski boltinn langt frá því að vera sá besti eða áhugaverðasti. Allir svölu krakkarnir horfðu á ítalska boltann á Stöð 2. Þar voru bestu útlensku leikmennirnir saman komnir, einkum Suður-Ameríkumennirnir. Fyrir utan Real Madrid og Barcelona gátu engin lið barist við stærstu ítölsku klúbbana um leikmenn.

Það var reyndar ljóður á ráði ítölsku knattspyrnunnar að Stöð 2 gat bara sýnt sunnudagseftirmiðdagsleikina, en stærstu viðureignirnar voru oft kvöldleikir. Þannig gat maður þurft að sætta sig við Atalanta : Bari sem sjónvarpsleik, en lesa svo um Mílanó-slaginn um kvöldið í blöðunum daginn eftir.

Sunnudagseftirmiðdaga fórum við Óli Jó heim til ömmu hans á Aragötunni og horfðum á ítalska boltann í stofunni á neðri hæðinni og breiddum úr okkur eins og fínir menn. Fróðleikinn um liðin fengum við úr World Soccer sem Óli var áskrifandi af en við lúslásum báðir.

Vorið 1994 virtist þó farið að fjara undan ítalska boltanum. Liðin lögðu of mikla áherslu á varnarleik, viðureignir voru fyrirsjáanlegar og bestu leikmennirnir voru farnir að leita fyrir sér víðar. Þannig kom Marseille-liðið eins og stormsveipur inn í Evrópuboltann, þótt síðar kæmi í ljós að það ævintýri væri byggt á sandi.

Spánverjarnir voru menn morgundagsins og þá sérstaklega Barcelona. Johan Cruyff stýrði Barcelona-liðinu og allt sem hann snerti virtist verða að gulli. Maður bölvaði því að geta hvergi séð spænska boltann, því ef marka mátti fréttir lék Barcelona total-football að hollenskum hætti með alþjóðlegu kryddi: Romário í framlínunni og svo flottasta markaskorara Evrópu Hristo Stochkov.

Ég hef sjaldan hlakkað jafn mikið til úrslitaleiks í stórmóti og þegar Barcelona og AC Milan mættust í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Aþenu 1994. Ekki vegna þess að ég byggist við jöfnum og spennandi leik. Þetta átti frekar að vera eins konar krýningarhátíð: þar sem skemmtilega sóknarliðið Barcelona myndi taka leiðinlega varnarliðið AC Milan í kennslustund. Með því myndu Ítalir formlega missa stöðu sína sem mikilvægasta knattspyrnuland Evrópu og Spánn tæki við keflinu. Montrassinn Cruyff var ekkert að hugsa um væntingastjórnunina þegar hann lýsti því yfir að sigur hans liðs yrði sigur fyrir knattspyrnuíþróttina.

Og það stóð heima. Leikurinn varð hvorki jafn né spennandi. Ítalirnir yfirspiluðu einfaldlega Barcelona. Staðan í hálfleik var 3:0 og munurinn síst of mikill. Í seinni hálfleik tóku drengirnir hans Berlusconis fótinn af bensíngjöfinni og bættu bara einu marki við. Ótrúlegar lokatölur og það var Fabio Capello sem gekk frá leiknum sem kóngurinn í stað Hollendingsins.

Úrslitin voru þeim mun óvæntari í ljósi þess að AC Milan hafði verið mjög ósannfærandi í keppninni og rétt sloppið við Barcelona í undanúrslium með því að sigra í sínum riðli þrátt fyrir að gera fjögur jafntefli í sex leikjum (tvö stig voru gefin fyrir sigur, Porto hefði sigrað á þriggjastigareglu). Í lokaleiknum hafði Milan náð jafntefli gegn Porto á útivelli, en misst lykilmennina Baresi og Costacurta í bann.

En leikurinn í Aþenu gerði meira en að framlengja líf Ítala sem aðalgæjanna í Evrópu. Hann drap líka Johan Cruyff. Sá hollenski vann aldrei aftur titil fyrir Barcelona og var látinn víkja sem knattspyrnustjóri tveimur árum síðar. Cruyff þjálfaði aldrei aftur félagslið.

(Mörk AC Milan: Daniele Massaro 2, Dejan Savicevic, Marcel Desailly) 

 

Ljósmyndirnar: Fótboltasaga mín 52/100

15. júlí 1987. Keflavík 0 : Fram 2

Árið 1955 fluttu afi og amma til Reykjavíkur frá Ísafirði. Amma  var innfæddur Ísfirðingur en afi, Haraldur Steinþórsson, hafði verið sendur vestur af Sósíalistaflokknum um nokkurra ára skeið þar sem flokkinn vantaði bæjarfulltrúaefni.

Afi var fæddur félagsmálamaður og hafði stjórnað íþróttafélaginu Vestra samhliða pólitíska vafstrinu fyrir vestan. Um leið og fréttist að hann væri á leiðinni aftur suður höfðu þrjú félög samband við hann og báðu um að taka að sér formennsku. Fyrsta félagið var annað hvort ÍR eða Ármann (man ekki hvort). Annað var Ungmennafélag Reykjavíkur, sem var í mikilli kreppu og lognaðist eiginlega útaf skömmu síðar. Það þriðja var Fram.

Þar sem afi var gamall Framari úr Framnýlendunni á Ásvallagötu/Blómvallagötu valdi hann Fram og stýrði á árunum 1955-60. Það voru mikilvæg ár í sögu félagsins og á þeim tíma var m.a. samið við Reykjavíkurbæ um framtíðarfélagssvæði í Kringlumýrinni.

Árið 1960 sneri afi sér að verkalýðsmálunum. Var í forystu fyrir kennara og fór þaðan í BSRB þar sem hann var í forystusveit um árabil. Þar með klippti afi nánast algjörlega á Framtengslin. Hann lét nægja að fylgjast með liðinu í gegnum fjölmiðla og mörg ár gátu liðið milli þess að hann mætti á leiki. Þetta breyttist árið 1985.

Það ár varð afi sextugur og komst á 95 ára regluna. Hann hætti hjá BSRB, tók að sér verkefni fyrir Tryggingastofnun og átti skyndilega nægan frítíma. Hvað var þá betra en að fara á völlinn með elsta barnabarninu? Furðuskjótt snerist þetta upp í vana og við afi fórum saman á hvern einasta Framleik á höfuðborgarsvæðinu, í Keflavík og uppá Skaga. Jafnframt urðum við tíðir gestir í Framheimilinu, bæði á upphitunum fyrir stórleiki og í getraunakaffinu á laugardögum. Framheimilið iðaði af lífi á þessum árum, þar sem Halldór B. Jónsson stýrði knattspyrnudeildinni og Siggi Svavars, síðar vinnufélagi minn hjá Rafmagnsveitunni og Orkuveitunni, sá um getraunastarfið.

Mér finnst ekki ólíklegt að Bjössi frændi (Björn Helgason einhver mesti leikhús- og kvikmyndalýsingar spesíalisti landsins) hafi flotið með til Keflavíkur í júlí 1987. Hann náði nokkrum Framleikjum áður en hann missti áhugann á fótbolta. Allar dylgjur um orsakasamhengi eru afþakkaðar.

Það blés auðvitað í Keflavík. Alltaf gerði maður sömu mistökin: að leggja af stað í góðu veðri í Reykjavík og uppgötva suður með sjó að það kólnaði með kvöldinu og flíkin sem virtist svo hentug við brottför væri ekki nógu hlý. Yfirleitt bættist við kuldann og vosbúðina að leikirnir töpuðust. Einhvern veginn finnst manni Framarar alltaf tapa í Keflavík – óháð því hvort liðið sé almennt sterkara um þær mundir.

En 1987 unnum við og það í fyrsta sinn í ellefu ár. Þetta var sérlega blóðugt fyrir heimamenn, þar sem tveir af „þeirra mönnum“ voru í Framliðinu: Ragnar Margeirsson og Einar Ásbjörn Ólafsson. Einar Ásbjörn átti að mig minnir bara þetta eina tímabil hjá Fram, sem var synd því hann var mjög snjall leikmaður.

Það var þó þriðji Keflvíkingurinn sem skoraði fyrsta mark Framara. Það var Guðmundur Sighvatsson sem setti boltann í eigið net snemma leiks. Í seinni hálfleik kláruðu svo Þróttararnir sem Ásgeir Elíasson hafði tekið með sér úr Sæviðarsundinu, þeir Kristján Jónsson og Pétur Arnþórsson leikinn. Kristján sendi á Pétur sem skoraði upp úr miðjum seinni hálfleik.

Fyrir aðra en langþreytta Framara á töpum í Keflavík, markaði þessi viðureign svo sem engine tímamót. Hún er hins vegar skemmtileg heimild um sögu íslenskrar íþróttaljósmyndunar!

Í dag notast allir ljósmyndarar við stafrænar vélar og geta því smellt af ótal myndum meðan á leik stendur. Engu að síður eru einna algengustu myndskreytingar með knattspyrnufréttum lið að fagna í leikslok eða myndir af einstökum leikmönnum úr myndasafni. Á níunda áratugnum var hins vegar mikil áhersla lögð á að knattspyrnufréttum fylgdu myndir sem teknar væru í sömu andrá og mörk væru skoruð.

Þetta þýddi að ljósmyndarar tóku sér stöðu við mark þess liðs sem líklegra var talið til að fá á sig mark. Það var því ákveðin lítilsvirðing fólgin í því ef ljósmyndararnir settust allir við mark liðsins manns og enn meira diss ef ljósmyndararnir byrjuðu leikinn við hitt markið, en færðu sig svo í miðjum leik.

Fjögur dagblöð voru með ljósmyndara í Keflavík, sem allir höfðu tekið sér stöðu fyrir aftan Keflavíkurmarkið í fyrri hálfleik. Og allir náðu þeir ljósmynd af sjálfsmarki Guðmundar Sighvatssonar…

Einar Ólafsson á Þjóðviljanum tók þessa mynd fyrir sitt blað, hún var síðar endurbirt í Íslenskri knattspyrnu. Við hliðina á honum stóð nafni hans Einar Falur Ingólfsson frá Mogganum og smellti af mynd á sömu sekúndu. Pjetur á Tímanum stóð þétt upp við þá og þrýsti á hnappinn á nákvæmlega sama augnabliki. – Fyrst hélt ég að þetta væri samsæri. Að um sömu ljósmynd væri að ræða sem eignuð væri þremur ljósmyndurum, en þegar nánar er að gáð sést að sjónarhornið er örlítið frábrugðið frá einni mynd til annarrar.

Í sömu andrá tók Gunnar Bender frá DV mynd, en hann var líklega ekki í klíkunni, að minnsta kosti stóð hann spölkorn frá kollegum sínum og nær því talsvert öðruvísi sjónarhorni. Er þetta ljósmyndaðasta sjálfsmark Íslandssögunnar?

(Mörk Fram: sjálfsmark, Pétur Arnþórsson)