Mótaskráin: Fótboltasaga mín 51/100

18. ágúst 1983. ÍR 1 : Stjarnan 3

Ég sýktist af fótboltabakteríunni árið 1983, átta ára gamall. Á þeim tíma var ég ekki fær um að gera greinarmun á hágæða- og lággæðafótbolta. (Sumir myndu segja að ég ætti enn við það vandamál að stríða.) Ég drakk í mig allt sem tengdist knattspyrnu. Las allar fótboltabækurnar úr barnadeildinni á Borgarbókasafninu, lúslas íþróttafréttirnar og nýtti mér að búa nánast við hliðina á Melavellinum. Ef það var leikur með fullorðnum karlmönnum í búningum, þá var ég sáttur.

Þetta sumar gaf afi heitinn mér bók (eða hvort hann gaf mér peninga til að kaupa hana sjálfur, ég man það ekki). Það var Mótaskrá KSÍ 1983. Enga bók hef ég lesið oftar.

Mótaskrána á ég enn upp í hillu, reyndar í tætlum. Í henni gat ég lesið gömul úrslit, skrár yfir meistaralið, landsliðsmenn o.s.frv. Ég drakk hana í mig og vann lista upp úr tölfræðinni í henni: merkti inn á kort þá bæi þar sem landsleikir höfðu farið fram og staði þaðan sem félög höfðu komist í næstefstu deild í það minnsta…

Skemmtilegast var þó að lesa um öll liðin í neðrideildunum. Ég kunni nöfnin á öllum félögunum, hvaðan þau kæmu, gat borið kennsl á merkið og vissi hvernig búningurinn væri á litinn. Og að sjálfsögðu fór ég að „safna liðum“. Ég merkti við þau félög sem ég hafði séð spila.

Miðað við fjölda merkinga í 1983 leikskránni er ljóst að ég hef stolist til að merkja aftur í tímann næstu misserin á eftir. Það er útilokað að ég hafi náð öllum þessum liðum þarna um sumarið. Á listanum má finna tólf lið úr efstu tveimur deildunum, en sjö úr fjórðu deildinni. Þar má nefna Augnablik, Létti, Víkverja, Árvakur (sem auglýsti Moggann) og Óðinn Reykjavík. Um þetta Óðins-lið veit ég ekki neitt, það sendi inn lið í deildarkeppnina í bæði handbolta og fótbolta í nokkur ár og gufaði svo upp. Allar upplýsingar vel þegnar.

Allt voru þetta lið sem áttu það sameiginlegt að spila á Melavellinum fyrir framan sjö áhorfendur, gamlan kött og opinmynntan hrokkinhærðan strák með gleraugu.

Fjórðudeildarliðin tvö sem uppá vantar í upptalningunni voru ÍR og Stjarnan. Og það voru einmitt liðin sem sá að kvöldi átjánda ágúst þetta sumarið. Eftir á að hyggja er það kannski til marks um glatað sakleysi að ég hafi verið á vellinum. Leikurinn hefur byrjað klukkað sjö og verið búinn um klukkan níu. Það er sem ég sæi okkur Steinunni leyfa einkadótturinni að fara ein að horfa á fótbolta að kvöldlagi nú í sumar, verður hún þó orðin árinu eldri en ég á þessum tíma! Þess utan þurfti ég að fara snemma í bælið, því á sumrin bar ég út Þjóðviljann eldsnemma á morgnanna.

ÍR : Stjarnan var eini leikurinn í fjórðu deildinni þetta sumar sem varð mér sérstaklega minnisstæður. Líklega af því að fleiri áhorfendur voru á vellinum en vant var og greinilega eitthvað í húfi. Með sigri í leiknum fóru Stjörnumenn langleiðina með að tryggja sér efsta sætið í riðlinum á kostnað Augnabliks og ÍR og þar með þátttöku í úrslitakeppninni. Þar unnu þeir Víkverja og Hauka, komust upp um deild en töpuðu þó í úrslitaleiknum gegn Leiftri Ólafsfirði.

Það hafa örugglega verið hundrað manns á leiknum. Stjörnumenn voru fjölmennari og þeim var ekki skemmt þegar Tryggvi Þór Gunnarsson kom ÍR yfir. Tryggvi var þjóðfrægur markakóngur sem alla tíð spilaði í neðri deildunum (nokkuð sem telja má óhugsandi í dag). Þetta sumar setti hann met með því að skora sjö eða átta mörk í sama leiknum og lauk keppni með 23 mörk í 12 leikjum. Hvernig ÍR mistókst að komast upp úr riðlinum með slíkan framherja er sjálfstætt rannsóknarefni.

Stjörnumenn svöruðu fyrir sig í þrígang. Sveinn Axel Sveinsson skoraði tvisvar og Brynjólfur Harðarson einu sinni. Þessi nöfn segja mér ekkert og einföld gúgglun gefur ekki til kynna að öðrum frægum knattspyrnumönnum en Tryggva hafi verið til að dreifa þetta kvöld.

En þessi leikur hefur alltaf setið í mér að einu leyti. Ég á einhvern veginn bágt með að viðurkenna íR og Stjörnuna sem alvöru fótboltalið. Ekki ósvipað og yngra frændsystkin sem maður man eftir sem smágrísling og hefur jafnvel skipt um bleyju á – þá er erfitt að viðurkenna viðkomandi sem fullgilda fullorðna manneskju. ÍR og Stjarnan eru og verða alltaf í mínum huga að einhverju leyti fjórðudeildarklúbbarnir sem ég fylgdist með á Melavellinum fyrir framan hundrað manns fyrir þrjátíu árum.

(Mark ÍR: Tryggvi Þór Gunnarsson. Mörk Stjörnunnar: Sveinn Axel Sveinsson 2, Brynjólfur Harðarson)

Jesper: Fótboltasaga mín 50/100

16. ágúst 2009. Breiðablik 3 : Fram 3

Í fótbolta er það ekki alltaf niðurstaðan sem skiptir mestu máli, heldur leiðin að henni. Jafntefli eru bestu dæmin um það. Jafntefli þýðir vissulega að bæði lið fá sitt stigið hvort – en liðinu sem skoraði á undan finnst það hafa tapað, meðan hitt liðið fagnar nánast sigri. Einkum þegar jöfnunarmarkið kemur í lokin. Sjaldan hef ég skemmt mér betur á jafnteflisleik en á Kópavogsvellinum 2009.

Lilja vinkona Steinunnar sem býr í Danmörku var í heimsókn á Íslandi með Jesper kærastann sinn. Ég reikna með að Jesper hafi hálfleiðst í endalausum heimsóknum þar sem mest var töluð íslenska. Þar sem hann er mikill fótboltaáhugamaður (gallharður OB-aðdáandi) varð úr að ég tæki hann með á völlinn, Breiðablik : Fram.

Ekki byrjaði það vel. Framararnir voru úti að aka. Blikarnir skoruðu á upphafsmínútunum og bættu tveimur við fyrir hlé, í öllum tilvikum var Guðmundur Kristjánsson á ferðinni. Blikarnir virtust skora að vild en leikmenn Fram voru í tómu rugli. Þannig mátti Auðun Helgason hrósa happi fyrir að fá ekki rauða spjaldið eftir hálftíma fyrir stympingar.

Stemningin var ansi súr hjá okkur Framstuðningsmönnunum í leikhléi og Jesper hlýtur að hafa íhugað að færa sig yfir í hinn hluta stúkunnar, þar sem ættingjar Lilju voru Blikahópnum. Hann sat þó áfram með okkur og reyndi að leyna því hvað honum þætti lítið til hvítklædda liðsins koma.

Seinni hálfleikurinn byrjaði á sama hátt. Blikarnir virtust ætla að skora nokkur mörk í viðbót á meðan Framararnir söfnuðu bara spjöldum. Þegar kortér var eftir tókst okkur aðeins að klóra í bakkann þegar Sam Tillen minnkaði muninn úr víti. Eftir sem áður voru Kópavogsbúarnir algjörlega með leikinn í höndum sér og það svo mjög að Ólafur þjálfari ákvað að leyfa sér að hvíla Arnar Grétarsson síðustu mínúturnar. Sígild mistök!

Heiðar Geir skoraði 3:2 með skalla eftir sending frá Almarri þegar fáeinar mínútur voru eftir. Heiðar hljóp við annan mann inn í markið til að sækja boltann og koma honum á miðlínuna. Ingvar Kale í Blikamarkinu var ekki á því og greip knöttinn, en Framararnir virtust henda honum í netið og rífa soppinn úr höndum Ingvars með handalögmálum. Blikastuðningsmennirnir ærðust, en við fögnuðum. Jesper hafði aldrei séð aðrar eins aðfarir á knattspyrnuvelli og ýmist hló eða hristi höfuðið í forundran.

Það sem eftir var sóttu Framarar linnulaust en Blikar lágu í nauðvörn. Þetta gat bara farið á einn veg. Á þriðju mínútu uppbótartíma tók Tillen hornspyrnu sem Jón Guðni Fjóluson stangaði í netið. Rétt á eftir var flautað til leiksloka, þar sem litlu munaði að slagsmál brytust út milli Þorvaldar Örlygssonar og Ingvars Kale. Framarar sungu Siggi-saggi og gengu hnarreistir að bílastæðunum, en heimamenn voru niðurlútir.

Við Jesper ókum heim og hann spurði hvort íslenskir fótboltaleikir væru alltaf svona dramatískir. Ég játti því og sagði að okkur þætti ekki taka sig að byrja fyrir minna en svona fimm mörk. Síðar í Íslandsheimsókninni tók ég hann aftur með á völlinn að sjá Fram vinna Grindavík 4:3. Þá þurfti ekki frekari vitnanna við.

(Mörk Breiðabliks: Guðmundur Kristjánsson 3. Mörk Fram: Sam Tillen, Heiðar Geir Júlíusson, Jón Guðni Fjóluson)

Atvikið: Fótboltasaga mín 49/100

5. júní 1995. KR 3 : Fram 1

Eftir að ég hóf að birta knattspyrnuævisögu mína á þessum vettvangi hef ég fengið ýmsar fyrirspurnir um hvort og þá hvenær ég muni skrifa um þennan leikinn eða hinn. Langflestir spyrja þó sömu spurningarinnar: „Hvenær ætlarðu að skrifa um innkastið?“ – Föstudagurinn langi var hið augljósa svar. Dagur svika og sorgar…

Ætli það séu margir leikir í knattspyrnusögunni sem hægt er að vísa til með einu orði nærri tuttugu árum síðar og allir viti hvað klukkan slær? Undir eðlilegum kringumstæðum hefði þriðju umferðar leikur með enn einum sigri KR á Fram í Frostaskjólinu, í móti sem Akranes vann með yfirburðum, orðið lítt eftirminnilegur – en þökk sé „atvikinu“ á 58. mínútu, er þetta ein frægasta viðureign seinni áratuga. Framarar sem ekki voru fæddir árið 1995 eru meðvitaðir um þennan leik.

Það er aldrei góður tími til að láta sparka í punginn á sér, en þetta var óvenjulega slæmur dagur til slíkra hluta. Stjórnin hafði rekið Martein Geirsson eftir aðeins tvær umferðir. Það var stórkostlega misráðin ákvörðun og félagið logaði stafnanna á milli. Í staðinn var ráðinn geðþekkur ungingaþjálfari, Magnús Jónsson, með enga reynslu af þjálfun meistaraflokks. Stemningin í klefanum var varla betri en meðal stuðningsmannanna.

Framarar mættu til leiks með það að markmiði að verja stigið. Það leit ágætlega út í fyrri hálfleik. Við fengum víti eftir rúmlega hálftíma leik sem Ríkharður Daðason skoraði úr. Eftir það lágu Framararnir enn aftar á vellinum og vonuðu það besta. Sú leikaðferð er sjaldan vænleg til árangurs.

Sókn KR þyngdist og snemma í seinni hálfleik fengu heimamenn víti sem Mihajlo Biberzic skoraði úr. Biberzic var merkilegur leikmaður. Mikill markahrókur, en einkennilega illa þokkaður af knattspyrnuáhugamönnum, jafnvel stuðningsmönnum þeirra liða sem lék með hverju sinni. Hann var talinn kvartsár og óheiðarlegur – sem var að hluta til rétt, en sennilega allt eins mikið afleiðing af ótrúlega rótgrónum staðalmyndum Íslendinga af fólki frá Balkanskaga. Biberzic þótti líka alltaf í þybbnara lagi fyrir knattspyrnumann í efstu deild. Undi lok ferilsins hljóp hann hreinlega í spik og varð þá vinsæll skotspónn á velli. En alltaf gat helvítið skorað.

Áfram héldu Framarar að verjast og KR-ingar að sækja. En svo varð fjandinn laus.

Mörgum árum síðar gaf ég út blað fyrir leik KR og Fram í Frostaskjóli (meira um það seinna). Meðal efnis í því var ítarleg umfjöllun um innkastið alræmda með viðtali við Ágúst Hauksson félaga minn. Grípum niður í blaðið:

„Ágúst: …Þetta byrjaði á því að KR-ingar voru í sókn sem Framarar brutu auðveldlega á bak aftur. Gauti Laxdal, leikmaður Fram fékk boltann á miðjum eigin vallarhelmingi, leit upp og sá KR-ing liggja eftir. Hann gerði það eina rétta í stöðunni og spyrnti í innkast. Boltinn fór út af við norðurenda stúkunnar þar sem ég og bróðir minn stóðum í góðum hópi Framara. Við vorum því í kjöraðstöðu til að fylgjast með leikritinu sem KR-ingar settu á svið.

Blm.: Hvað áttu við með „leikriti“?

Ágúst: Jú, þeir Þormóður Egilsson og Mihajlo Bibercic tóku sig saman og plötuðu leikmenn Fram upp úr skónum. Steinar Guðgeirsson, leikmaður Fram, rölti í átt að Þormóði sem bjó sig undir að taka innkastið. Við Framararnir sem stóðum þar hjá heyrðum öll orðaskipti þeirra nákvæmlega því dauðaþögn hafði fallið á stúkuna meðan meidda KR-ingnum var tjaslað saman.

Í mörg ár á eftir mundi ég orðrétt hvað Þormóður Egilsson sagði við Steinar, en það var eitthvað á þessa leið: „Ég læt þið fá boltann hérna“ og benti í átt til Steinars. Allir í stúkunni, sem og leikmenn Fram biðu eftir að Þormóður hagaði sér eins og heiðursmaður og henti knettinum til baka. En þá kom reiðarslagið!

Í stað þess að kasta á Steinar, varpaði Þormóður honum upp í hornið á Bibercic sem var að sjálfsögðu einn og óvaldaður. Hann fékk nægan tíma til að senda fyrir markið á Enar Þór Daníelsson sem skoraði léttilega því engir voru varnarmennirnir. Staðan var þá orðin 2-1 og Framliðið slegið út af laginu og tapaði loks með þremur mörkum gegn einu.“

Hafi þurft vitnanna við að karma virkar ekki, þá sannaðist það þennan dag. Auðvitað var það Biberzic sem skoraði sigurmarkið.

Gústi hét því að borga sig ekki aftur inn á KR-völlinn fyrr en Vesturbæingar bæðust afsökunar. Sú afsökunarbeiðni hefur enn ekki borist og mér vitanlega hefur hann staðið við heitstrengingarnar.

Viðbrögðin á vellinum voru mögnuð. Framstuðningmennirnir ærðust, bauluðu og skömmuðust þann hálftíma sem eftir leið af leiknum. Drjúgur hluti KR-áhorfendanna sat skömmustulegur og klappaði varla til málamynda eftir markið. Sama mátti segja um hluta leikmannanna sem voru augljóslega frekar vandræðalegir. Guðmundur Stefán Maríasson var dómari leiksins og honum var greinilega líka misboðið, sem kom fram í því að næstu 10-15 mínúturnar máttu Framararnir sparka í KR-inga nálega að vild án þess að fá tiltal.

Umræðurnar dagana á eftir voru merkilegar. Fyrstu viðbrögð margra KR-stuðningsmanna voru þau að þræta fyrir að Framarar hafi spyrnt boltanum útaf viljandi eða að Gauti Laxdal hafi vitað af KR-ingnum liggjandi á vellinum. Sjónvarpsmyndir skutu þá kenningu niður. Önnur útgáfa var sú að öðlingurinn Þormóður hafi reynt að henda boltanum til varnarmanna Fram, en Biberzic hlaupið til og hirt knöttinn öllum að óvörum. Sú kenning er langsótt miðað við upptökurnar úr sjónvarpinu.

Með tímanum fengust velflestir KR-ingar til að viðurkenna að þetta hafi verið svindlmark. Fæstir ef nokkrir þeirra fást til að eigna Þormóði nokkurn þátt í atvikinu, þess í stað er skuldinni rækilega skellt á feita Serbann og stundum líka þjálfarann Guðjón Þórðarson. Þannig er innkastsmarkið endurskilgreint sem lúabragð útlenska atvinnumannsins og liðsfélagar hans gerðir að saklausum fórnarlömbum. Merkilegt nokk virðist engum detta í hug að setja spurningamerki við þátt sjálfs markaskorarans, Einars Þórs.

Sumarið 2015 verður tuttugu ára amæli atviksins á KR-vellinum. Mér vitanlega er ekki enn búið að stofna nefnd til að skipuleggja minningarathöfnina, en ég gæti trúað því að hún muni innihalda kertafleytingu eða að krans verði lagður að styttu gyðju réttlætisins. Mínútuþagnir á knattspyrnuvöllum og minningarstundir í kirkjum og tilbeiðsluhúsum væru líka viðeigandi.

„Er ekki kominn tími til að gleyma þessum atburði og hætta að horfa um öxl?“ – er ég stundum spurður. En þá vitna eg í Simon Wiesenthal: þetta snýst um réttlæti en ekki hefnd! Við skuldum komandi kynslóðum það að láta ekki fals, undirferli og sviksemi fortíðarinnar gleymast! Engin beiskja, ónei!

(Mörk KR: Mihajlo Biberzic 2, Einar Þór Daníelsson. Mark Fram: Ríkharður Daðason)

Veitingahúsið: Fótboltasaga mín 48/100

9. september 2006. Þór 1 : Fram 0

Það er antíklímax að fagna titli eftir tapleik: að horfa upp á liðið sitt tapa en fá svo fregnir af hagstæðum úrslitum annars staðar sem tryggja toppsætið. Að halda sér svona í deildinni er allt annað mál. Þá getur maður ekki leyft sér neina heimtufrekju, heldur fagnar hverju haldreipi. Að vinna titla með þessum hætti er hins vegar súrara – jafnvel þótt hægt sé að grípa í allar klisjurnar á borð við: „Mótið er átján leikir og vinnst á heilu sumri!“

Framararnir tryggðu sér titilinn í næstefstu deild sumarið 2006 með þessum hætti. Fallið haustið áður var gríðarleg vonbrigði. Fram hafði baslað í fallbaráttu mörg ár þar á undan og vafalítið hafa flestir utanaðkomandi litið svo á að það hefði verið óumflýjanlegt að liðið færi niður að lokum. En 2005 höfðu Framarar leyft sér bjartsýni, hópurinn virtist sterkari og þjálfunin í nokkuð traustum höndum.

Margir óttuðust að félagið væri í spíral niður á við. Félagshverfið orðið alltof lítið og stæði liðinu fyrir þrifum á sama tíma og nágrannafélögin Valur, Víkingur og jafnvel Þróttur væru að styrkjast. Það var ekki margt sem gaf tilefni til bjartsýni. Líklega myndum við komast upp aftur að ári, en lægi leiðin þá ekki bara lóðbeint niður á ný?

Við þessar þunglyndislegu kringumstæður var það ákaflega upplífgandi þegar Framarar tilkynntu nánast strax í lok móts að Helgi Sigurðsson væri að snúa heim úr atvinnumennsku og kæmi í Fram. Það var alvöru yfirlýsing um að félagið ætlaði að rúlla upp fyrstu deildinni og snúa svo tvíeflt aftur í úrvalsdeildina. Þótt dvölin hjá Helga hafi aðeins orðið eitt ár í þetta skiptið, verð ég honum alltaf þakklátur fyrir að hafa bjargað geðheilsu minni þarna um haustið.

Meira að segja án Helga hefði Fram verið langbest í slakri deild. HK, Þróttur og Fjölnir voru þokkaleg og önnur lið verri. Ásgeir Elíasson tók að sér þjálfunina, sem mér fannst hæpin ráðstöfun. Annars vegar vegna þess að Ásgeir heitinn vildi alltaf keyra á svo fáum leikmönnum og var tregur til skiptinga, á meðan það virtist rökrétt að nota árið til að gefa nýjum mönnum séns. Hins vegar vegna þess að mig grunaði að stjórnendur félagsins sæju Ásgeir ekki fyrir sér sem framtíðarþjálfara og því ekki rétt að ráða mann með slíka sögu hjá Fram ef ætlunin væri svo að framlengja ekki við hann samninginn árið eftir. Því miður reyndist sá grunur minn réttur.

Tímabilið reyndist heldur tilþrifalítið. Við spiluðum á Laugardalsvellinum sem þá var verið að taka í gegn, svo notast var við stúkuna austanmegin. Þar horfðum við upp á markalaust jafntefli gegn frískum nýliðum Víkings Ólafsvíkur í fyrsta leik og svo nauma sigra í næstu tveimur leikjum. En eftir það skiptu Framarar um gír.

Í fimmtándu umferð var úrvalsdeildarsætið tryggt og titillinn sjálfur innan seilingar. Ekki tókst að tryggja hann í sextándu umferðinni, en sigur á botnliði Þórs frá Akureyri í næsta leik myndi duga til þess.

Ég sá færi á að slá tvær flugur í einu höggi: ná leik og helgarferð með Steinunni í sama pakka! Foreldrar mínir tóku dóttur í helgarpössun og við ókum í Eyjafjörðinn. Á dagskrá var bara tvennt: Þórsleikurinn og að borða á veitingahúsinu Halastjörnunni, sem þá var starfrækt í einum efsta bænum í Öxnadalnum.

Það var hún Sonja sem rak staðinn, en hún bjó lengi í kjallaranum hjá okkur á Mánagötunni. Halastjarnan var frábært veitingahús. Afurðirnar fengnar úr sveitinni og varla hægt að segja að um matseðil væri að ræða. Fólk borðaði bara það sem var í matinn! – Ég bloggaði annars um heimsóknina, fyrir áhugafólk um veitingahús sem hafa lagt upp laupana.

Ég skildi Steinunni eftir á hótelinu með reyfara meðan á leiknum stóð. Í ljós kom að afar fáir Framarar höfðu látið sig hafa ferðalagið. Fuglafræðingurinn (og nú Stykkishólmsbúinn) Jón Einar var nánast sá eini sem ég kannaðist við, svo ég settist hjá honum. Fátt í leiknum gladdi augað. Þórsarar börðust fyrir lífi sínu og þjálfarinn, Lárus Orri, kom þeim yfir um miðjan fyrri hálfleikinn. Eftir það lágu heimamenn til baka og þótt Framliðið réði spilinu það sem eftir var, reyndi lítið á Þórsvörnina.

Akureyringar fögnuðu vel þegar flautað var til leiksloka, þótt sá fögnuður minnkaði umtalsvert þegar fréttist að Ólafsvíkur-Víkingar hefðu óvænt unnið HK í Kópavogi. Þórsarar voru því enn í botnsætinu (aðeins eitt lið féll þetta árið) og þurftu að vinna aftur um næstu helgi til að bjarga sér. Tap HK þýddi hins vegar að Framarar voru orðnir meistarar.

Staðfestingin á úrslitunum barst ekki strax og þessir fáeinu Framarar á vellinum voru flestir komnir niður í búningsklefa undir stúkunni. Einhver dró fram kampavínsflösku sem keypt hafði verið fyrir leik og annar lét hópinn syngja Siggi-saggi. En fagnaðarlætin voru algjörlega til málamynda – enda óttalega aulalegt að slá upp partýi með fimmtán stuðningsmönnum í búningsklefa úti á landi eftir tap.

(Mark Þórs: Lárus Orri Sigurðsson)

Grafarþögn: Fótboltasaga mín 47/100

27. september 2008. Keflavík 1 : Fram 2

Það var gaman að vera Framari sumarið 2008. Þorvaldur Örlygsson tók við liðinu fyrir tímabilið og gekk strax í að þétta vörnina. Eftir átján umferðir var markatala liðsins 23:15, sem er fjári gott. En þó lítið væri skorað í Framleikjunum, þá lék liðið alls ekki leiðinlegan bolta. Margir leikjanna voru bráðskemmtilegir, til dæmis 4:1 sigurinn á FH í Laugardalnum í 20. umferð þar sem Framarar komust í 4:0.

Með þeim sigri töldu flestir að Fram hefði afhent Keflvíkingum Íslandsmeistaratitilinn, þann fyrsta frá 1973. Keflavík var með 46 stig og átti tvo leiki eftir, en FH með 38 stig en leik meira til góða. Jafntefli Keflvíkinga í Kaplakrika í næstsíðustu umferð hefði dugað, en sigurmark FH í uppbótartíma hélt lífi í mótinu.

Í lokaumferðinni tók Keflavík á móti Fram. Við Framarar vorum í bullandi séns að komast í Evrópukeppni. Sigur myndi tryggja þriðja sætið og jafntefli raunar líka að því gefnu að rétt úrslit yrðu í leik KR og Vals á sama tíma. Eftir á að hyggja hefðu KR-ingar mátt ná þriðja sætinu, því viku síðar urðu þeir bikarmeistarar með sigri á Fjölni – en á það gátum við Framarar ekki treyst. Við urðum því að leika til sigurs.

Stemningin suður með sjó var mögnuð. Nærri fjögurþúsund manns voru á vellinum. Við Framararnir vorum fáliðaðir. Ansi margir fastagestir virtust hafa tekið þann kostinn að horfa á leikinn í sjónvarpinu heima. Við þessir fáu rottuðum okkur þó saman í einu horninu og reyndum að láta aðeins í okkur heyra á móti lúðrasveitum og trumbuslögurum.

Keflvíkingar ætluðu sér svo sannarlega að vinna og létu vaða á Frammarkið í hvert sinn sem færi gafst. Nokkur vafaatriði í dómgæslunni féllu Frömurum í vil og við máttum vera bærilega sáttir við að halda jöfnu í hálfleik. Í síðari hálfleik kom Símun Samúelsen heimamönnum yfir og fáeinum mínútum síðar var Hannes Þór stálheppinn að fá ekki dæmda á sig vítaspyrnu eftir samstuð við Færeyinginn. Keflvíkingar voru farnir að syngja sigursöngva enda spurningin helst hversu stór sigur þeirra yrði.

Þorvaldur reyndi að höggva á hnútinn og setti frænda sinn, Almarr Ormarrsson inná. Almarr hafði komið frá KA á miðju sumri og komið nokkrum sinnum inná. Hann virtist geta gengið í allar stöður og var jöfnum höndum notaður sem bakvörður, miðjumaður og framherji. Almarr hljóp inn á völlinn og skoraði í fyrstu snertingu eftir örfáar sekúndur. Hundrað Framarar klöppuðu og blístruðu, en að öðru leyti var dauðaþögn á vellinum.

Enn voru Keflvíkingar þó með aðra hönd á titlinum. FH var bara einu marki yfir í sinni viðureign en þurftu að vinna með tveimur, annars dygði Keflvíkingum jafnteflið. Áfram reyndu heimamenn að sækja, en nú var taugaveiklunin orðið augljós. Framarar urðu hins vegar sífellt brattari og enginn betri en Paul McShane sem var stórkostlegur á miðjunni. Þegar tíu mínútur voru til leiksloka fengu Keflvíkingar tvö kjaftshögg nánast samtímis. Á Fylkisvellinum skoraði FH annað mark sitt og um leið og þær fregnir fóru að kvisast milli áhorfenda átti McShane stungusendingu í gegnum vörnina þar sem Hjálmar Þórarinsson komst einn í gegn og vippaði laglega yfir markvörðinn.

Þær mínútur sem eftir lifðu af leiknum einkenndust af vaxandi örvæntingu keflvísku leikmannanna og örvinglan áhorfenda. Við Framararnir á pöllunum vorum náttúrlega himinsælir með forystuna, en samt leið engum vel. Allt í kringum okkur voru heimamenn í losti. Sumir bölvuðu og rögnuð. Aðrir áttu erfitt með að halda aftur af tárunum.

Dómarinn flautaði til leiksloka og Framleikmennirnir hlupu út í hornið til okkar. Þar var sungið Siggi-saggi og fallist í faðma – en samt voru gleðilætin einhvern veginn miklu hófstilltari en ætla mætti eftir fyrsta Evrópusætið frá 1992. Ég held að það hafi allir hugsað það sama: að Keflvíkingarnir hefðu nú miklu fremur átt þennan titil skilinn en FH-montrassarnir eina ferðina enn.

Á leiðinni út af vellinum reyndi maður að komast hjá því að horfast í augun við hnuggna Keflvíkinga. Það var svo sem ekki erfitt. Niðurlútari mannskap var varla hægt að hugsa sér. Þarna gekk ég framhjá svekktum feðgum, Úlfari Þormóðssyni og Gauki Úlfarssyni – sem ég held að ég hafi aldrei áður séð á fótboltaleik. Þeir voru álíka hvekktir og aðrir.

Ég sárvorkenndi Keflvíkingunum þar sem ég gekk af bílnum mínum og hélt áfram að kenna í brjóst um þá langleiðina að Kúagerði. Þá bráði af mér góðmennskan og ég mundi eftir öllum nepjuleikjunum suður með sjó, ergilegum töpum og löngum bílferðum aftur í bæinn. Og því næst fór ég að velja mér evrópska andstæðinga í huganum fyrir næsta tímabil. Hvort væri skemmtilegra að fá Færeyinga eða Norður-Íra… eða jafnvel eitthvert glamúrös lið frá Lúxemborg?

(Mark Keflavíkur: Símun Samúelsen. Mörk Fram: Almarr Ormarsson, Hjálmar Þórarinsson)

Málagjöldin: Fótboltasaga mín 46/100

24. júlí 2011. Úrúgvæ 3 : Paragvæ 0

Fyrsta Suður-Ameríkukeppnin í fótbolta, Copa America, var haldin árið 1916. Af því tilefni verður haldin aukakeppni á 100 ára afmælinu, þrátt fyrir að næsta reglubundna Suður-Ameríkukeppni fari fram árið áður. Og hvar verður afmælismótið haldið? Jú, í Bandaríkjunum – hvar annars staðar? Kapítalisminn lætur ekki að sér hæða.

Annars verður þetta aukamót ekkert úr stíl við annað í sögu þessa elsta stórmóts í heimsknattspyrnunni. Margoft hefur verið hrært í skipulaginu. Í einhver skipti fóru leikirnir fram heima og heiman, án þess að um einn mótshaldara væri að ræða. Gestaþjóðir hafa sömuleiðis oft tekið þátt. Einkum Mexíkó en einnig t.d. Bandaríkin og Japan. Og árabilið hefur verið breytilegt: eitt ár, tvö ár, þrjú eða fjögur. Nýjasta reglan segir þó að keppa skuli á fjögurra ára fresti.

Það veltur á keppnisstaðnum hversu mikið maður nennir að fylgjast með Suður-Ameríkukeppninni. Austast í álfunni er tímamismunurinn gagnvart Íslandi alveg viðráðanlegur, en annars staðar eru leikirnir um hánótt. Með auknum gæðum á netútsendingum hefur freistingin til að glápa fram á nætur þó aukist allverulega.

2011 var keppt í Argentínu og ég fylgdist vel með. Mínir menn í heimsfótboltanum, Úrúgvæ, höfðu komist í undanúrslitin á HM sumarið áður og ætluðu sér stóra hluti. Hins vegar vantaði talsvert upp á að fjölmiðlar sýndu liðinu tilhlýðilega virðingu. Þess í stað var fjallað um mótið líkt og það væri bara langur formáli að óumflýjanlegum og epískum úrslitaleik milli Argentínu og Brasilíu. Keppnisfyrirkomulagið tók líka mið af því. Þannig lögðu menn lykkju á leið sína til að tryggja að Brasilía og Argentína gætu ekki lent saman fyrr en í úrslitaleiknum, jafnvel þótt önnur þjóðin myndi misstíga sig og aðeins lenda í öðru sæti síns riðils.

Margt fer öðru vísi en ætlað er. Risarnir tveir féllu úr keppni í átta liða úrslitum. Brasilía tapaði í vítakeppni gegn Paragvæ eftir 0:0 jafntefli þar sem síðarnefnda liðið pakkaði í vörn frá fyrstu mínútu. Úrúgvæ og Argentína gerðu hins vegar 1:1 jafntefli og í vítakeppninni klikkaði Tévez einn manna. Montrassarnir voru úr leik og gjaldkeri Knattspyrnusambands Argentínu fór að svitna.

Súarez fleytti Úrúgvæ auðveldlega í úrslitaleikinn með tveimur mörkum gegn Perú. Í hinum undanúrslitaleiknum vann Paragvæ aftur í vítakeppni eftir markalausan leik. Sú staða var því uppi að Paragvæ var komið í úrslitaleikinn eftir fimm jafntefli, þar af þrjú markalaus. Og planið var greinilega að halda áfram á þeirri braut.

Knattspyrnublaðamenn voru sammála um að þetta mætti ekki gerast. Tilhugsunin um að þjóð gæti unnið álfumót án þess að vinna leik væri óbærileg. Allir góðir menn sameinuðust því um að halda með Úrúgvæ – knattspyrnunnar vegna.

Ég var staddur í Neskaupstað í heimsókn hjá tengdapabba þegar úrslitaleikurinn fór fram og horfði því á hann á litlum tölvuskjá í höktandi útsendingu, þar sem ég átti fullt í fangi að slökkva á auglýsingagluggum sem spruttu upp í sífellu. Áhyggjur knattspyrnuunnenda reyndust hins vegar óþarfar. Úrúgvæ spilaði andstæðingana sundur og saman frá fyrstu mínútu.

Súarez skoraði eftir tíu mínútur og var óheppinn að bæta ekki fleiri mörkum við. Paragvæ veðjaði á föst leikatriði, en komst ekkert áfram gegn vörn Úrúgvæ. Óscar Tabárez er afbragðsþjálfari og fátt gerir hann betur en að láta lið sitt verja forystu. Undir lok fyrri hálfleiks skoraði Forlán 2:0 og innsiglaði svo sigurinn á lokamínútunum, 3:0. Allir kættust nema einræðisherrabörnin frá Paragvæ og bitru Argentínumennirnir sem hættu að fylgjast með mótinu þegar lið þeirra féll úr keppni.

Diego Forlán er einn af mínum uppáhaldsleikmönnum fyrr og síðar. Ferill hans er glæsilegur, einkum árin hjá Atletico Madrid þar sem hann var einhver skæðasti framherji spænsku deildarinnar. Samt geta íslenskir íþróttafréttamenn aldrei talað um Forlán án þess að fara að þvæla um „misheppnaða dvöl hans hjá Manchester United“, sem er í fyrsta lagi til marks um að sjóndeildarhringurinn takmarkist við enska boltann og í öðru lagi tóm steypa, þar sem Forlán var hjá United á þeim árum þar sem öll spilamennskan gekk út á að þjónusta van Nistelrooy.

Í dag er Forlán á lokametrunum áður en hann verður sendur í límverksmiðjuna og er rétt að bæta við viðbótarlífeyrissparnaðinn sinn með því að spila í Japan. Hann mun þó pottþétt skilja síðustu bensíndropana eftir fyrir HM í Brasilíu í sumar. Ó hvað það verður gaman þegar hann sendir Englendinga heim úr riðlakeppninni!

(Mörk Úrúgvæ: Luis Súarez, Diego Forlán 2)

Ólafur: Fótboltasaga mín 45/100

5. ágúst 1987. Fram 6 : Völsungur 0

Er til mikið göfugri starfstétt en varamarkverðir? Jújú, einhver kynni að nefna barnalækna og hjúkrunarfólk sem starfar á stríðshrjáðum svæðum: en þau fá þó a.m.k. að hafa eitthvað fyrir stafni. Varamarkvörðurinn mætir á allar æfingar, klæðir sig upp fyrir leikinn og situr svo bara og bíður. Hann er til taks ef aðalmarkvörðurinn meiðist, en annars hefur hann engu hlutverki að gegna. Hinir varamennirnir geta  reiknað með að vera settir inná ef breyta þarf leikskipulaginu en þótt leikurinn sé löngu unninn setur enginn varamarkmanninn inná í einhverju flippi.

Það er svo sem hægt að botna í varamarkvörðum sem eru ungir að árum – hyggjast læra við fótskör aðalmarkvarðarins og fá sinn séns síðar. En hvað þegar varamarkverðirnir eru eldri og augljóslega lakari en sá númer eitt? Hver er þá drifkrafturinn?

Ólafur K. Ólafs var slíkur maður. Hann átti að baki heilt tímabil með Þrótti í efstu deild, en gekk til liðs við Fram fyrir sumarið 1987. Þar sat hann á bekknum hjá Friðriki Friðrikssyni og síðar Birki Kristinssyni og kom aldrei við sögu. Utan einu sinni.

Völsungar mættu í heimsókn í Laugardalinn þann fimmta ágúst og léku frestaðan leik. Framararnir höfðu ekki náð nægilega vel að fylgja eftir Íslandsmeistaratitlinum frá árinu áður. Voru í fimmta sæti þegar þarna var komið sögu. Með Völsungsleiknum snerist hins vegar stríðsgæfan. Fram vann fimm sinnum og gerði tvö jafntefli í sjö síðustu deildarleikjunum og hafnaði í öðru sæti. Leikurinn gegn Völsungi vannst með mestum mun, 6:0.

Það var reyndar öðrum fremur einum Völsungnum að þakka að sigurinn varð svo sannfærandi. Eftir hálftíma leik fékk Fram billega vítaspyrnu þegar boltinn hrökk úr greipum markvarðar Húsvíkinga og í hönd eins samherjans. Línuvörðurinn gaf merki um vítaspyrnu við litla hrifningu gestanna. Einn þeirra reifst og skammaðist uns hann fékk gult spjald. Ekki hætti hann þá heldur hélt áfram uns dómarinn lyfti rauða spjaldinu.

Dómarinn í þessari viðureign var Kjartan Ólafsson, KR-ingur. Við kynntumst miklu síðar þegar Kjartan varð samstarfsmaður minn á Minjasafni Orkuveitunnar. Hann sinnti þeim störfum af mikilli kostgæfni, þrátt fyrir að eiga við erfið veikindi að stríða. Ætli það hafi liðið sá dagur á safninu án þess að við Kjartan höfum skrafað eitthvað um fótbolta?

Pétur Ormslev skoraði úr vítinu og setti svo annað undir lok hálfleiksins. Þá voru úrslitin ráðin og spurningin bara hversu stór sigurinn yrði.  Gummi Steins bætti tveimur mörkum við og Ragnar Margeirsson skoraði 5:0 þegar meira en hálftími var eftir. Græðgisgrísinn ég var farinn að sjá fyrir mér tveggja stafa tölu, en Völsungarnir reyndu að halda andlitinu og Framararnir stigu af bensíngjöfinni þegar leið á.

Í einni af fáum sóknum hvítklæddra (því blessunarlega fengu Völsungar ekki að leika í grænu treyjunum sínum) varð Friðrik Friðriksson fyrir hnjaski og þurfti að yfirgefa leikvöllinn. Ólafur K. Ólafs setti á sig hanskana og hjóp inná. Þetta þóttu mér gríðarlega merkileg tíðindi.

Ég vonaði heitt og innilega að Ólafur myndi nú halda hreinu í sínum fyrsta og mögulega eina leik. Það hafa þó varla liðið nema 1-2 mínútur uns tveir Völsungar komust í skyndisókn. Ólafur varði glæsilega frá öðrum, en knötturinn barst til hins sem þurfti bara að rúlla honum í tómt markið. Hann skaut beint framhjá. Skömmu síðar þurfti Ólafur aftur að taka á honum stóra sínum og undir lokin skaut einn Norðanmaðurinn í stöngina. Eins og til að fullkomna ranglæti heimsins potaði Pétur Arnþórsson inn sjötta markinu í uppbótartíma hinu megin.

Leiknum var lokið og ég klappaði í stúkunni meðan leikmennirnir sungu siggi-saki sigursönginn, sem öllum Frömurum finnst rosalega töff en eru líklega einir um þá skoðun. Ég var sáttur við sigurinn en jafnvel enn glaðari að Ólafur K. Ólafs hefði haldið hreinu.

Ólafur lék aldrei aftur deildarleik fyrir Framara, enda kom Birkir Kristinsson í markið sumarið 1988 og missti aldrei út leik. Það var svo ekki fyrr en mörgum árum síðar að Ólafur skaut aftur upp kollinum í Framleik. Það var sumarið 1999, þegar hann sat nokkra leiki á bekknum hjá Valsmönnum, þá 42 ára gamall. Og Ólafur kom einmitt inná gegn Fram eftir að hinn átján ára gamli Hjörvar Hafliðason lét reka sig útaf.

Ólafur fékk strax á sig mark úr vítinu og lét síðar Hollendingin Oerlemans fara illa með sig í seinna marki Framara. Honum var ekki treyst til að byrja inná í næsta leik meðan Hjörvar tók út leikbannið, heldur var annar gamall markvörður með Fram-tengingu, Haukur Bragason, sóttur í staðinn. Ólafur fór bara aftur á bekkinn – væntanlega hinn sáttasti. Lengi lifi varamarkverðir!

(Mörk Fram: Pétur Ormslev 2, Guðmundur Steinsson 2, Ragnar Margeirsson, Pétur Arnþórsson)

Indira: Fótboltasaga mín 44/100

28. september 2000. Hearts 3 : Stuttgart 2

Mitt Kennedy/Lennon/Díönu-móment var 31. október 1984 þegar ég heyrði fréttirnar af morðinu á Indiru Gandhi. Ég var níu ára og kominn með brennandi áhuga á fréttum, pólitík og heimsmálunum. Þennan dag lá ég veikur heima með flensu, þegar ég heyrði fréttirnar í útvarpinu. Mér fannst sem allt breyttist og að nú hlytu að verða straumhvörf í mannkynssögunni.

Síðar leit pabbi heim úr vinnunni til að tékka á mér og gefa mér að éta – nánast um leið og ég heyrði útidyrahurðinni skellt hljóp ég á móti honum hrópandi: „Indira Gandhi er dáin! Idira Gandhi er dáin!“ Ég man enn vonbrigði mín og furðu yfir að hann kippti sér ekkert sérstaklega upp við fréttirnar. Eftir á að hyggja var ég kannski frekar nördalegt barn.

En morðið á Indiru Gandhi hafði þær óvæntu aukaafleiðingar að ég get tímasett nálega upp á dag hvenær ég byrjaði að halda með ýmsum evrópskum liðum. Ég notaði nefnilega tímann í veikindunum til að raða upp stöðunni í öllum enskum og skoskum deildum með hjálp sérstaks spjalds sem fylgt hafði með blaðinu Shoot! og hafði að geyma litla flipa með nöfnum allra liða ásamt helstu hagtölum. Jafnframt ákvað ég að velja mér uppáhaldsfélög í öllum helstu deildum og löndum þar sem ég hafði ekki þá þegar komið mér upp liði.

Ég valdi Hearts í Skotlandi. Að hluta til vegna þess að mér fannst vínrauði búningurinn töff og að hluta til vegna þess að plakat af Hearts hafði fylgt með nýlegu hefti af annað hvort Shoot! eða Match og John Robertson virtist vera aðaltöffarinn. Upp frá því fylgdist ég alltaf með Hearts útundan mér. Var þó ekki harðari stuðningsmaður en svo að ég nennti ekki á leik ÍBV og Hearts í forkeppni UEFA-keppninnar sem fram fór á Laugardalsvellinum haustið 2000.

Fáeinum vikum síðar hélt ég til framhaldsnáms í Edinborg. Í leigubílnum á leið á gistiheimilið fór ég að spjalla við leigubílsstjórann um fótbolta. Hann var Hearts-maður og sagði að ég yrði að skella mér á völlinn tveimur dögum síðar á leik í Evrópukeppninni, það væri enn hægt að fá miða. Með sigrinum á Eyjamönnum hafði Hearts nefnilega tryggt sér einvígi gegn Stuttgart í fyrstu umferð aðalkeppninnar.

Leikurinn í Þýskalandi var að baki og fór 2:1 fyrir Stuttgart. Útivallarmörk eru dýrmæt í Evrópukeppni, svo staða Skotanna var ágæt. Ég mætti snemma til að skoða svæðið umhverfis Tynecastle Stadium. Nældi mér í leikskrá, hefti með níðsöngvum um Hibernian og sá fjölda götusala sem allir buðu upp á misljóta trefla með nöfnum og merkjum Hearts og Stuttgart sem sérútbúnir voru sem minjagripir fyrir leikinn. Mikið hlýtur svona framleiðsla að vera ódýr til að geta borgað sig.

Tyncastle er þröngur völlur sem býður upp á góða stemningu, með áhorfendur alveg ofan í vellinum. Á þessum leikvöngum fær maður alltaf á tilfinninguna að grasflöturinn hljóti að vera ólöglega lítill. Áhorfendur voru í miklu stuði og Hearts blés til sóknar.

Það var fullt af flottum leikmönnum í þessu Hearts-liði sem Jim Jeffries þjálfaði. Fyrirliðinn Colin Cameron var í mestu uppáhaldi áhorfenda. Það var bara tímaspursmál hvenær hann yrði seldur til stærra liðs og stuðningsmennirnir vonuðu bara að það yrði eitthvert úrvalsdeildarliðið sunnan landamæranna en ekki helvítis Celtic eða Rangers. Svo fór þó að lokum að Cameron gekk til liðs við Wolves en varð aldrei sú stjarna sem vonir stóðu til.

Gary Locke, núverandi stjóri Hearts, var í framlínunni. Thomas Flögel, góður austurrískur leikmaður, var á miðjunni. Antti Niemi var í markinu, en hann lék lengi með Southampton. Steven Pressley var kóngurinn í vörninni og í annarri bakvarðarstöðunni var Gary Naysmith, síðar leikmaður Everton um árabil.

Það var einmitt Naysmith sem kom Hearts yfir snemma leiks. Staðan 2:2 í einvíginu og Hearts á leiðinni áfram á útivallarmarki! Stuttgart-liðið, með Búlgarann Krasimir Balakov sem skærustu stjörnu, fór að sækja meira og jöfnaði metin undir lok hálfleiksins. Eftir hlé var leikurinn í jafnvægi en Stuttgart skoraði aftur eftir klaufagang í Hearts-vörninni og einvígið virtist tapað. Heimamenn þurftu að skora þrívegis til að komast áfram.

Goran Petric jafnaði um hæl, 2:2, en enn var langt í land. Þegar tæpar tíu mínútur voru eftir dró til tíðinda. Hearts fékk víti. Einn Þjóðverjinn var rekinn útaf og Cameron skoraði úr vítaspyrnunni. Mínútu síðar ákvað Thomas Schneider, sem nýverið var rekinn sem knattspyrnustjóri Stuttgart, að skynsamlegt væri að rífast yfir gulu spjaldi þannig að hann fékk rautt fyrir tuð. Hearts var nú með ellefu menn á móti níu og hafði fimm mínútur til að skora eitt mark í viðbót.

Sóknin var þung. Stuttgart raðaði öllum sínum mönnum inn í vítateiginn og Hearts fékk hverja hornspyrnuna á fætur annarri. En allt kom fyrir ekki. Markið mikilvæga lét ekki sjá sig og þeir vínrauðu voru rændir frægum sigri. Allir héldu grútspældir heim, en þó stoltir yfir góðri frammistöðu.

(Mörk Hearts: Gary Naysmith, Goran Petric, Colin Cameron. Mörk Stuttgart: Ahmed Hosny, Marcelo Bordon)

17. júní: Fótboltasaga mín 43/100

17. júní 1999. Fram U23 3 : Grindavík 3 (7:6 eftir vítaspyrnukeppni)

Ég hef einu sinni fengið hraðasekt. Það var á heimleið úr Garðinum eftir tap. Það er freistandi að kenna leiknum um hraðaksturinn, þótt skýringin hafi líklega fremur verið sú að eftir greiðan og hraðan akstur eftir Reykjanesbrautinni er heilinn einhvern veginn ekki stilltur inn á innanhverfishraðamörkin í Vesturbænum.

Þetta var kvöldið fyrir þjóðhátíðardaginn og Fram dottið út úr bikarnum strax í 32-liða úrslitum, sem er alltaf óstuð. Drátturinn var reyndar hundleiðinlegur – Víðir í Garði á útivelli. Víðismenn voru í næstefstu deild og virtust ætla að verða spútnikliðið, þótt þeim fataðist síðar flugið og féllu um haustið.

Ég fór á völlinn ásamt Ágústi Haukssyni félaga mínum og okkur var ekki skemmt að sjá gamla jálkinn Grétar Einarsson koma Víði í 2:0. Framarar jöfnuðu en náðu ekki að klára dæmið og Víðir sigraði í vítakeppni. Þetta var einn af þessum leikjum þar sem manni fannst eins og „stóra liðið“ hlyti að vinna ef það bara nennti að skipta upp um gír. Hollenski framherjinn Marcel Oerlemans var venju fremur latur, pirraður og slappur. Ef til vill hefði ég átt að senda honum reikning fyrir sektinni?

Við Gústi vorum sérlega spældir yfir tapinu vegna þess að okkur sýndist Framliðið ætla að sigla lygnan sjó í deildinni (enduðum reyndar í tómri fallbaráttu) og að bikarkeppnin yrði því helsta kryddið í tilveruna. Engu að síður ákváðum við að mæta aftur á völlinn næsta dag, í það sinnið á Valbjarnarvöll að horfa á U23-ára lið Fram taka á móti úrvalsdeildarliði Grindavíkur.

Það voru ekki margir á vellinum, enda margt annað í boði klukkan tólf á 17. júní en að sjá ungmennalið tapa fyrir mun sterkara liði úr efstu deild. Og þetta var svo sannarlega ungmennalið Framara. Ásgeir Elíasson hafði ekki leyft sér að spara neina yngri leikmenn gegn Víði til að eiga þá til góða á móti Grindavík (enda gáfu úrslitin svo sem ekki tilefni til þess).

Eftir tíu mínútur skoraði Grétar Ólafur Hjartarson fyrir gestina. Svona fór um sjóferð þá – hugsaði maður og vonaðist til þess að úrslitin yrðu ekki afhroð. En tveimur mínútum síðar jafnaði Arngrímur Arnarson. Hann hafði komið frá Völsungi fyrir tímabilið en fékk fáa sénsa. Í mörg ár gaf ég mér að hann hlyti að vera bróðir Ásmundar markahróks og núverandi Fylkisþjálfara, enda hlytu allir Húsvíkingar með svipuð föðurnöfn að vera bræður. Sú staðreynd að annað sé Arnarson en hinn Arnarsson fór alveg undir radarinn.

Framstrákarnir vörðust vel og Grindvíkingar urðu sífellt pirraðri. Til marks um óánægju Mílans Jankovic þjálfara gerði hann tvöfalda skiptingu í hálfleik, þar sem hann setti m.a. inná kantmanninn Mijuskovic sem augljóslega hafði staðið til að hvíla í leiknum.

Eftir klukkutíma leik skoraði Sinisa Kekic fyrir Grindavík. Það var ekkert óvænt. Einhvern veginn skoraði Kekic ALLTAF gegn okkur Frömurum. Ætli Kekic komist ekki á topp-5 listann yfir flottustu andstæðingana í íslenska boltanum? Sérstaklega sá eiginleiki hans að skipta vandræðalaust frá því að vera beittasti sóknarmaður síns liðs yfir í að binda saman vörnina – jafnvel í sama leiknum.

Jæja, þá er þetta endanlega búið – hugsaði maður. En nei, rúmum tíu mínútum síðar jafnaði Haukur Snær metin. Haukur er einmitt litli bróðir Gústa og hefur áður komið til umfjöllunar í þessum greinarkornum. Ég veit ekki hvort það kom nægilega skýrt fram þar að Haukur er mjög lágvaxinn. Ójá!

Þegar þarna var komið við sögu voru stjörnurnar úr Grindavík orðnar verulega pirraðar, eins og sást á harðari tæklingum og auknu tuði í dómaranum. Ekki urðu þeir svo kátari þegar Eggert Stefánsson kom Fram yfir tíu mínútum fyrir leikslok. Eggert er bróðir Ólafs handboltakappa og Jóns Arnórs körfuboltamanns. Hann var kominn á mála hjá ensku liði, gott ef ekki Ipswich (þú leiðréttir mig þá Gunnar Sigurðarson ef ég er að bulla) þegar meiðsli fokkuðu upp ferlinum. Eggert hefði orðið heimsklassavarnarmaður ef skrokkurinn hefði ekki þvælst fyrir.

Það var þjóðhátíðarstemning hjá okkur Frömurunum á pöllunum sem sáum fram á sögulegan sigur. Helvítið hann Scott Ramsey (sem hefði átt að vera farinn út af fyrir fantatæklingu) kippti okkur þó niður á jörðina með jöfnunarmarki á lokamínútunum. Það er annar andstæðingur sem ég hef aldrei komist hjá því að dást að.

Við tók stressandi framlenging með nauðvörn af hálfu Framara sem stefndu á vítaspyrnukeppni. Það gekk eftir og Framarar komust áfram – unnu vítakeppnina 4:2! Ekki man ég hverjir skoruðu eða klikkuðu (ég er e.t.v. óður en þó ekki snargalinn) og ekki get ég slegið því upp: leikskýrslurnar á KSÍ-vefnum tiltaka ekki markaskorara í vítakeppnum, þótt undarlegt kunni að virðast. Og ekkert dagblaðið sendi fréttaritara á vettvang, enda svo sem fátt sem benti til að tíðinda væri að vænta af leiknum. Ég get því ekki annað en látið mig dreyma um að Sinisa Kekic eða Scott Ramsey hafi klúðrað víti – helst báðir! Það ætti að kenna þeim helvískum!

(Mörk Fram U23: Arngrímur Arnarson, Haukur Snær Hauksson, Eggert Stefánsson. Mörk Grindavíkur: Grétar Ólafur Hjartarson, Sinisa Kekic, Scott Ramsey)

Költið: Fótboltasaga mín 42/100

17. júní 1992. Frakkland 1 : Danmörk 2

Danska landsliðið hefur alltaf farið í taugarnar á mér. Ég viðurkenni fúslega að þessi afstaða mín er ekkert sérstaklega göfug og lítur fram hjá því að danska landsliðið á níunda áratugnum var alls góðs maklegt og í raun hálfgert Öskubuskuævintýri. En það var bara eitthvað við allt hæpið í kringum Danina 1986 sem fór óstjórnlega í taugarnar á mér.

Stuðningssöngur danska landsliðsins 86 var blastaður eins og Popplag í G-dúr á sterum. Ótrúlegasta fólk skreið fram og sagðist halda með Dönum. Ásdís afasystir mín sem hvorki fyrr né síðar sýndi minnsta áhuga á keppnisíþróttum viðurkenndi að hún kveikti á sjónvarpinu og héldi með danska fótboltalandsliðinu á stórmótum.

1992 var mér sérstaklega illa við Dani. Júgóslavía virtist ætla að tefla fram gríðarlega sterku liði á EM í Svíþjóð, liði sem mögulega hefði getað farið alla leið. En svo fóru menn að drepa hverjir aðra þarna suður frá og Júgóslavarnir mínir voru reknir úr keppni og dönsku silakeppnum kippt inn í staðinn.

Ég var hálfumkomulaus á EM 1992. Hafði ætlað að halda með Júgóslavíu en var allt í einu skilinn eftir í lausu lofti á síðustu stundu. Var auðvitað veikur fyrir Skotunum en vissi að þeir næðu ekki langt. Frakkarnir áttu líka taug í mér. Marseille var í miklu uppáhaldi á þessum árum og þá sérstaklega Jean-Pierre Papin.

Danir og Frakkar mættust í lokaleik A-riðils. Frakkar – sem mættu til Svíþjóðar með fullt hús stiga úr forkeppninni – höfðu gert jafntefli gegn Svíum og Englendingum og virtust því í góðri stöðu gegn slakasta liðinu í riðlinum. Jafntefli hefði að líkindum verið nóg. Danir höfðu á hinn bóginn náð stigi gegn Englandi en tapað fyrir Svíum og voru með bakið upp að veggnum.

Henrik Larsen skoraði í byrjun leiks. Frakkar virtust slegnir út af laginu, en um miðjan seinni hálfleikinn jöfnuðu þeir með glæsilegu marki – að sjálfsögðu frá Papin vini mínum. Í stað þess að blása til sóknar og vinna leikinn, virtust Frakkarnir ætla að veðja á að halda fengnum hlut. Það var fífldirfska. Tæpu kortéri fyrir leikslok átti Flemming Povlsen flotta sending, sprengdi vörn Frakka og boltinn barst fyrir markið þar sem Lars Elstrup potaði boltanum yfir línuna.

Frakkar voru sem kýldir í magann og náðu aldrei að ógna til baka. Danir unnu leikinn, tryggðu sér annað sætið og þar með pláss í undanúrslitunum þar sem Hollendingar og svo Þjóðverjar áttu eftir að lúta í gras. Næst Grikklandsævintýrinu 2004 er sigur Dana á EM 1992 mögulega óvæntustu úrslit í sögu stórmóta.

Fyrir Luton-manninn var súrsæt tilfinning að sjá Elstrup skora. Lars Elstrup var keyptur til Luton árið 1989 fyrir 850 þúsund pund, upphæð sem er enn það mesta sem félagið hefur greitt fyrir leikmann. Það met verður varla slegið í bráð.

Elstrup kom lítið við sögu veturinn 1989-90, en árið eftir blómstraði hann og skoraði átján mörk. Þann vetur var þó farið að bera á furðulegri hegðun leikmannsins. Hann lenti líka í launadeilu við félagið og að lokum fór svo að Luton neyddist til að selja hann aftur til Odense Boldklub fyrir fimmtung af upphaflega kaupverðinu. Það var þungt högg fyrir ekki stærra félag og hafði mikið að segja um að Luton mistókst að halda sér uppi 1992 og missti þar með af því að leika fyrsta tímabilið í nýrri úrvalsdeild.

Elstrup var í góðum gír hjá OB fyrst um sinn og kom nokkuð við sögu á Evrópumótinu 92. En fljótlega eftir það fór að halla undan fæti. Elstrup gekk til liðs við költ sem skipað var búddistum með anarkískar hneigðir. Hann tók upp nýtt nafn: Darando (sem merkir víst „fljótið sem streymir til hafs“). Eftir búddíska tímabilið gekk Darando til liðs við nýaldahippaköltið „Hjarta sólarinnar“. Hann breytti nafninu sínu aftur í Lars Elstrup og flutti inn í kommúnu söfnuðarins, sem einkum var fræg fyrir orgíur sínar. Elstrup vill þó í dag ekki kannast við að hafa tekið þátt í þeim.

Ekki tókst hinum leitandi fyrrum knattspyrnumanni (Elstrup lagði skóna á hilluna þrítugur) að finna hamingjuna hjá spólgröðu hippunum. Þess í stað stofnaði hann sitt eigið költ, sem kom honum reglulega í fréttirnar á næstu árum. Hann tók nefnilega að standa fyrir gjörningum í tengslum við hugleiðsluathafnir á opinberum stöðum.

Sú saga var þrálát á Luton-spjallborðunum og póstlistunum að hann stæði reglulega nakinn á Strikinu í Kaupmannahöfn og Trafalgartorgi í Lundúnum með bandspotta utan um typpið og hreðjarnar og sveiflaði þeim til og frá. Sjálfur leggur þó Elstrup í dag ríka áherslu á að hann hafi ekki verið nakinn heldur í efnislítilli lendaskýlu sem hafi ekki sést þegar hann sat í keng við hugleiðslu.

Í seinni tíð virðist Elstrup loksins vera að öðlast þá hugarró sem hann hefur svo lengi sóst eftir. Hann keypti sér bát sem hann býr í og hefur oftar en einu sinni lýst því í viðtölum við danska fjölmiðla að hann langi til að eignast kærustu og sé loksins tilbúinn að takast á við lífið með góða konu sér við hlið. Eitthvað hefur hann leitað fyrir sér á stefnumótasíðum, en það hefur lítinn árangur borið.

Lærdómur þessarar sögu er einfaldur: maður vill ekki að uppáhaldsleikmennirnir sínir gangi til liðs við költ – einkum ef fjárhagsleg velferð félagsins veltur á frammistöðu þeirra. Það er ekki vænlegt til árangurs innan vallar að vera of leitandi sál utan vallar. Vona samt að Elstrup næli sér í kærustu.

(Mark Frakklands: Jean-Pierre Papin. Mörk Danmerkur: Henrik Larsen, Lars Elstrup)