Blaðakóngurinn: Fótboltasaga mín 41/100

6. febrúar 1988. Luton 7 : Oxford 4

Tveggja metra hár tónleikahaldari hér í borg, Valsmaður, spyr mig yfirleitt þegar við hittumst: „Hvað er að frétta af Steve Foster, með krullurnar og ennisbandið?“ Áhugi bassafantsins fyrrverandi á velferð Fosters er nálega þráhyggjukenndur, en þó skiljanlegur. „Fozzie“ (viðurnefni fótboltamanna eru sjaldnast mjög svöl) var nefnilega frábær og eftirminnilegur leiðtogi í Luton-vörnininni á níunda áratugnum.

Ég fæ reyndar oft svipuð viðbrögð frá fólki þegar Luton ber á góma. „Mick Harford, hann var í Luton!“ „Hvað hét hann aftur svarti framherjinn, Brian Stein?“ Einhverjir muna eftir Paul Walsh eða rámar í að David Pleat hafi stjórnað liðinu. Þeir elstu muna eftir David Moss eða Brian Horton. Og svo rifja margir upp Oxford-leikinn 1988.

Ætli beinu útsendingarnar frá ensku knattspyrnunni hafi verið nema svona 20-25 á ári á seinni hluta níunda áratugarins? Það þýddi að einstakir fjörugir leikir gátu orðið afar minnisstæðir og fótboltaáhugamenn létu sig hafa það að horfa á hvern leik, nánast óháð því hvaða lið væru að spila.

Luton : Oxford var svo sem ekkert verri sjónvarpsvalkostur en hver annar leikur þarna í byrjun febrúar 1988. Liverpool var löngu stungið af, enn án taps í deildinni. Luton var í hópi sex liða sem bitust um sæti fjögur til níu, en þar var ekki um nein Evrópusæti að tefla, þar sem ensku liðin voru enn bönnuð í Evrópu. (Takk Liverpool!) Oxford var hins vegar í næstneðsta sæti.

Þetta ár hafnaði Oxford á botninum og þriggja ára ævintýri þeirra í efstu deild lauk. Örfáum árum áður hafði fjölmiðlakóngurinn Robert Maxwell bjargað félaginu frá gjaldþroti í gömlu þriðju deildinni – reyndar með það í huga að sameina það Reading og stofna nýtt félag sem kennt yrði við Thames Valley.

Þegar sameiningaráformin runnu út í sandinn, sneri Maxwell sér að því að byggja upp Oxford United og kom liðinu upp í efstu deild árið 1985. Fyrsta árið þar var best. Oxford vann deildarbikarinn eftir sigur á QPR á Wembley og hélt sér uppi á síðasta degi með því að skella Arsenal 3:0. Árið eftir var áframhaldandi fallbarátta sem lauk loks með því að liðið fór niður 1988, enda Maxwell búinn að missa áhugann á Oxford og farinn að snúa sér að öðrum félögum með meiri vaxtarmöguleika.

Fyrri leikur Oxford og Luton þetta tímabilið fór 2:5 fyrir gestina svo búast mátti við markaveislu. Sú varð líka raunin. Ellefu mörk litu dagsins ljós í leik hinna slysalegu varnar- og markmannstilburða.

Luton skoraði tvö fyrstu mörkin og hélt svo tveggja til þriggja marka forystu út leikinn – 3:1, 5:2, 6:3 og loks 7:4. Markvörður Oxford missti aðalliðssætið sitt í kjölfarið og Les Sealey leit ekkert sérstaklega vel út í Luton-markinu heldur. Flest mörk Luton voru keimlík: Tim Breaker braust upp kantinn og sendi fyrir, þar sem einhver (helst Mick Harford) stangaði knöttinn í netið eða leikmönnum Oxford tókst ekki að hreinsa nógu vel frá og einhver kom aðvífandi og setti boltann í hornið framhjá taugaveikluðum markverðinum.

Mark Stein skoraði þrennu í leiknum á rétt rúmum tíu mínútum. Hann var litli bróðir Brians Stein og stóð honum talsvert að baki. Eftir tímabilið var hann látinn fara til QPR, þaðan sem leiðin lá til bæði Oxford og Stoke uns Glenn Hoddle ákvað óvænt að gefa honum annað tækifæri í efstu deild, með Chelsea. Um aldamótin átti Mark Stein svo fremur misheppnaða tilraun til endurkomu hjá Luton. Sú ákvörðun skýrðist væntanlega ððru fremur af fortíðarþrá.

Þótt auðvitað væri gaman að skora sjö mörk í beinni sjónvarpsútsendingu, litu Luton-stuðningsmenn þó fyrst og fremst á leikinn sem upphitun fyrir fyrri viðureign sömu liða í undanúrslitum deildarbikarsins fjórum dögum síðar. Luton sigraði í því einvígi og mætti Arsenal í úrslitaleiknum, en það er önnur saga.

(Mörk Luton: Mick Harford 2, Brian Stein, Mark Stein 3, Darron McDonough. Mörk Oxford: Dean Saunders, Martin Foyle, Richard Hill, Les Phillips)

Poppstjarnan: Fótboltasaga mín 40/100

6. nóvember 1985. Fram 2 : Rapid Vín 1

Þökk sé Jútúb, get ég hlustað á smellinn Lonely Boy með Johann K, sem fór í annað sætið á austurríska vinsældarlistanum árið 1985. Þótt mér sé oft ruglað saman við Arnar Eggert Thoroddsen, hef ég lítið af tónlistarþekkingu hans. Engu að síður leyfi ég mér að fullyrða að sigurganga lagsins í austurríska útvarpinu hafi minnst byggst á gæðum flutningsins, en þeim mun meira á því hver flytjandinn var.

Johann K var nefnilega listamannsnafn knattspyrnumannsins Hans Krankl. Mér er til efs að margir ungir fótboltaáhugamenn, jafnvel þeir sem pæla í sagnfræðinni, þekki Hans Krankl í dag, en í byrjun níunda áratugarins var hann einn af þeim allra stærstu. Austurríkismenn telja hann almennt besta knattspyrnumann í sögu sinni, sem þó státar ekki af neinum smákörlum. Alþjóðleg frægð hans er enn merkilegri í ljósi þess að ef frá eru talin fáein misseri hjá Barcelona lék Krankl allan sinn feril í Austurríki.

Framarar komust í aðra umferð (16-liða úrslit) Evrópukeppni bikarhafa árið 1985 eftir sigur á Glentoran frá Norður-Írlandi í fyrstu umferð. Óskamótherjar Framara voru vafalítið þýsku bikarmeistararnir í Bayer Uerdingen, sem höfðu Lárus Guðmundsson innanborðs. Rapid Vín var hins vegar ekki síður spennandi kostur, einkum út af Hans Krankl.

En það átti ekki að verða. Krankl meiddist í deildarleik með Rapid skömmu fyrir fyrri leikinn í Vínarborg. Hann kom inná sem varamaður gegn Fram en hafði sig lítið í frammi í 3:0 sigri. Framarar voru hundsvekktir eftir leikinn yfir að hafa mistekist að skora úr dauðafærum og fengið á sig mark sem virtist ólöglegt. Einvígið var í raun búið og því ekki von á mörgum áhorfendum á Laugardalsvöll – einkum eftir að í ljós kom að Krankl væri meiddur og fylgdi ekki með til Íslands.

Viðureignin í Reykjavík var lengi í minnum höfð fyrir þær sakir að tekist hefði að leika fótboltaleik á Laugardalsvelli þann sjötta nóvember. Ólíklegt má teljast að slíkar aðstæður væru samþykktar í dag. Klaki var í vellinum og leikmenn beggja liða léku á sléttum gervigrasskóm. Hitablásarar voru settir upp í varamannaskýlunum og áhorfendum var kalt. Rosalega kalt.

Kristinn R. Jónsson skoraði eftir kortér og í kjölfarið fengu Framarar nokkur fín tækifæri til að auka muninn í 2:0 og gera einvígið áhugavert á ný. Það tókst ekki og Austurríkismennirnir áttu svo sem sína sénsa líka. Þeir jöfnuðu um miðjan seinni hálfleikinn áður en Gummi Torfa skoraði sigurmark Fram úr víti á lokamínútunum.

Auðvitað máttu Framarar vel við una að vinna á heimavelli lið sem leikið hafði til úrslita í sömu keppni þá um vorið og tapað gegn Everton. Samt gengu menn eilítið svekktir af velli – fannst að það hefði ekki mátt svo miklu muna að liðið kæmist í fjórðungsúrslitin. Líklega var þó eins gott að það gerðist ekki. Rapid Vín fékk Dynamo Kiev í næstu umferð og tapaði 9:2 samanlagt. Óðinn má vita hvaða útreið íslenskt lið hefði fengið í mars.

En ergilegast var þó að missa af Hans Krankl – frægasta fótboltamanni sem ég hef næstum séð með berum augum. Og slappt af honum að fljóta ekki í það minnsta með liðinu til Íslands. Hann hefði t.d. getað riggað upp tónleikum á Broadway eða í Klúbbnum. Hver veit nema hann hafi lumað á fleiri Paul Anka-slögurum með þýskum texta?

(Mörk Fram: Kristinn R. Jónsson, Guðmundur Torfason. Mark Rapid Vín: Peter Pacult)

Bónorðið: Fótboltasaga mín 39/100

29. september 2007. Víkingur 1 : FH 3

Þegar við Steinunn bjuggum á Mánagötunni, bauð plássið í eldhúsinu ekki upp á að hafa uppþvottavél. Við göntuðumst oft með að það væri límið í sambandi okkar að þurfa að vaska upp saman og geta þá rætt málin í rólegheitum. Það voru a.m.k. ófáar ákvarðanirnar teknar yfir uppvaskinu.

Vorið 2007 var Hrönn, æskuvinkona Steinunnar frá Neskaupstað, stödd hjá okkur – líklega á einhverju námskeiðinu í bænum. Hrönn brá sér í sturtu eftir matinn á meðan við Steinunn fórum að vaska upp. Í miðjum klíðum spyr Steinunn hvort ég vilji giftast sér. Ég var nú svona frekar á því. Skömmu síðar kom Hrönn úr sturtunni og við felldum niður tal, enda svo sem ekki um margt frekar að ræða.

Við ákváðum þrennt varðandi brúðkaupið. Í fyrsta lagi ætluðum við einkum að bjóða vinum okkar, í öðru lagi ætluðum við ekki að setja okkur á hausinn með tilstandinu og í þriðja lagi nenntum við ekki að fylla húsið af drasli sem ekkert pláss væri fyrir. Niðurstaðan varð því sú að afþakka gjafir en biðja gestina um að leggja til einn rétt á hlaðborð og léttvín á barinn. Til viðbótar keyptum við svo vænan slurk af bjór og blöndu í fordrykk. Heildarkostnaðurinn varð vel innan við hundraðþúsundkall og við losnuðum við ljótar styttur og fondú-potta.

Þar sem Hilmar Örn allsherjargoði er svo mikill vinur okkar kom ekki annað til greina en að fá hann til að sjá um vígsluna. Staðsetningin var svo nokkuð augljós: félagsheimili Orkuveitunnar í Elliðaárdal. Ég átti fullt af orlofshúsapunktum hjá Starfsmannafélaginu og gat því fengið húsið lánað fyrir slikk, þetta var bara spurning um að finna lausan tíma.

Ég bankaði upp á hjá Starfsmannafélaginu og fékk að skoða hvenær húsið væri laust. Laugardagurinn 29. september var ekki bókaður, svo ég stökk á þá dagsetningu: sumarið ekki alveg búið og Elliðaárdalurinn enn upp á sitt besta. Það var ekki fyrr en nokkrum dögum síðar að ég áttaði mig á því að þetta var sama dag og lokaumferð Íslandsmótsins…

Framarar voru komnir aftur í efstu deild eftir árshvíld. Ólafur Þórðarson var tekinn við þjálfuninni og í fyrstu hafði ég ekki stórvægilegar áhyggjur af þessum árekstri. Fram myndi ekki blanda sér í toppbaráttuna en varla lenda í mikilli fallbaráttu heldur, svo mín yrði varla sárt saknað í lokaumferðinni. Önnur varð þó raunin!

Framliðið var furðulánlaust allt sumarið og var lengst af í og við fallsæti. Í næstsíðustu umferð náðu Framarar stigi gegn KR á dramatískan hátt á lokamínútunni og héldu sér þannig í áttunda sæti á betri markatölu en KR, með einu stigi meira en botnlið Víkings og einu stigi minna en HK fyrir lokaleikina. Fjölgun í efstu deild stóð fyrir dyrum og því myndi aðeins eitt lið falla.

Förum aftur yfir stöðuna: Víkingar voru á botninum með 14 stig. KR og Fram með 15, en Framararnir með miklu betri markatölu. HK með 16 stig en mun verri markatölu en KR. – Í lokaumferðinni áttu HK og Víkingur toppliðin tvö: Val og FH. Fram og KR áttu Breiðablik og Fylki sem höfðu ekki að neinu að keppa. Framarar gátu því möglega leyft sér að tapa í lokaleiknum, en jafntefli myndi nær örugglega duga. Það var þó ekkert 100% öruggt og því full ástæða til magasárs.

Á sjálfan brúðkaupsdaginn var ég verkum hlaðinn. Skutlaðist fram og aftur með veisluföng og skautbúnað og snattaðist fyrir hljómsveitina hans Kolbeins Proppé, sem jafnframt var veislustjóri. Um tvöleytið reyndi ég þó að halda mig í námunda við Minjasafnið, neðar í dalnum. Þar hafði ég kveikt á sjónvarpsútsendingunni frá lokaumferðinni – Víkingur : FH.

Útsendingin var á Sýn og það átti að heita að skipt væri á milli FH-leiksins og viðureignar Vals og HK. Undir eðlilegum kringumstæðum hefði maður ætlað að Valsleikurinn væri í aðalhlutverki, enda Valsmenn að landa sínum fyrsta Íslandsmeistaratitla í óratíma, en einhverra hluta vegna var útsendingin að mestu úr Víkinni.

Sinisa Kekic kom Víkingum yfir og hjartað í mér sökk. Reyndar komust Valsmenn snemma yfir gegn HK, en það hafði ekkert upp á sig ef Framarar töpuðu í Kópavoginum. Valur Norðri félagi minn var á Breiðabliksvellinum og sendi reglulega sms um stöðu mála, en sjálfur stóð ég í dyragættinni á Minjasafninu og horfði á leikinn á skjá en hlustaði á Rás 2 í útvarpinu í bílnum sem lagt var beint fyrir framan. (Þráhyggja? Neinei…)

Jónas Grani skoraði fyrir Fram seint í fyrri hálfleiknum – til þess eins að Blikarnir jöfnuðu á næstu mínútu. Það var því ennþá allt opið í hálfleik, þótt FH næði að jafna í Víkinni. Á KR-vellinum komust heimamenn yfir snemma leiks og virtust sloppnir. Meðan á leikhlénu stóð rann hægt og bítandi upp fyrir mér hversu lítið þyrfti að breytast til að Framararnir drægjust niður í botnsætið – og það á brúðkaupsdaginn minn.

Ég reyndi að benda sjálfum mér á að enn þyrftu HK-menn að skora á Hlíðarenda – og þótt Valsmenn væru labbakútar og liðléttingar færu þeir varla að henda frá sér Íslandsmeistaratitli á heimavelli gegn fokkíng Handknattleiksfélagi Kópavogs sem hefði ekki skorað nema sautján mörk til þessa í deildinni. En maður veit aldrei…

Snemma í seinni hálfleiknum skoraði FH aftur og þá var loksins hægt að varpa öndinni léttar. Nánast á sömu mínútu komust Blikarnir yfir, en það raskaði ekki ró minni mikið. Víkingarnir voru augljóslega á leiðinni niður. Síðar fengu Framarar víti og Jónas Grani skoraði aftur, til að tryggja sér gullskóinn og á lokamínútunum misstu KR-ingarnir sinn leik niður í jafntefli og Fram hafnaði í sjöunda sæti. Ég lyppaðist nánast niður af spennufalli… en nú voru ekki nema tíu mínútur í að gestirnir renndu í hlað.

Án þess að hafa almennilega náð að meðtaka úrslitin ók ég þennan stutta spöl milli safnsins og félagsheimilisins og byrjaði strax að taka á móti gestum. Þetta var fínt partý og flott vígsla, þegar ég „óð vafurlogann“ (lesist: klofaði á milli sprittkertanna) til Steinunnar og Hilmars Arnar. Hann lyfti blóthringnum á loft eftir að hafa helgað jörðina með pilsner eða bjór. Og þegar við Steinunn gripum saman um blóthringinn og kysstumst hvíslaði hún stríðnislega: „Fyrir Fram!“ Og ég gat ekki annað en flissað eitthvað bjánalega og samhengislaust, enda í margföldu spennufalli.

Lærdómur dagsins: það er mjög sniðugt að velja sér brúðkaupsdag þar sem liðið manns heldur sér naumlega uppi, en frekar súrt að velja þennan dag til að falla niður um deild.

(Mark Víkings: Sinisa Kekic. Mörk FH: Dennis Siim, Matthías Guðmundsson, Arnar Gunnlaugsson)

Pílagrímurinn: Fótboltasaga mín 38/100

 27. febrúar 1999. Luton 1 : Blackpool 0

Ég fór nokkrum sinnum til útlanda með foreldrum mínum sem krakki. Þegar komið var fram á táningsár kaus ég hins vegar oftar að vera heima, enda keppikeflið að fá sem mestar sumartekjur auk þess sem það var ekki slæmt að hafa íbúðina einn fyrir sig. Snemma árs 1999 ákváðu mamma og pabbi hins vegar að skella sér í helgarferð til London og buðu okkur Þóru systur með. Ég gat losað mig úr vinnu og sló til.

Við gerðum flest það helsta sem ætlast er til af túristum í stórborginni: fórum á veitingastaði, brugðum okkur í leikhús og þræddum verslunargötur og pöbba. En á laugardeginum skiptum við liði: ég stökk upp í lest og hélt til Luton á minn fyrsta enska deildarleik.

Ég lagði snemma af stað enda ætlaði ég mér góðan tíma í Luton. Hafði þó verið varaður við því að hún yrði seint valin menningarborg Evrópu. Raunar trónaði Luton um árið á toppnum í valinu „the Shittiest Town in Britain“ og í nýlegri kosningu eins vefmiðilsins á ljótustu miðborg Bretlandseyja fékk Luton meira en 60% atkvæða af tíu valkostum.

Luton er ein þeirra borga sem farið hefur illa út úr hnignun breska iðnaðarins. Þar voru miklar bílaverksmiðjur sem hafa að mestu hætt eða dregið saman seglin. Luton-flugvöllur er helsti vinnuveitandinn, en annars er atvinnuleysi mikið. Í borginni er mjög stórt múslimasamfélag, svo að gárungar kalla hana Norður-Karachi. Félagsleg hnignun borgarinnar hefur svo leitt til þess að hún er gróðrastía ofstækisafla. Þannig eru íslamskir öfgamenn áberandi í Luton og þaðan komu mennirnir sem framkvæmdu sprengjuárásirnar í lestakerfi Lundúna um árið. Og jafnframt er Luton ein helsta miðstöð nýnasista og kynþáttahatara í Englandi.

En um þetta vissi ég ekki mikið árið 1999. Ég svipaðist um í grennd við járnbrautarstöðina og miðbæinn, en flýtti mér svo í átt að vellinum. Mér lá á að tryggja mér miða og hugsaði mér gott til glóðarinnar að finna pöbb í námunda við völlinn og jafnvel ná að spjalla við einhverja stuðningsmenn, sem hlytu að fagna gesti sem kominn væri langt að.

Völlinn fann ég og keypti miðann. Gerðist meira að segja félagsmaður, því þeir einir mega sitja í sætunum fyrir aftan mörkin. Því næst rölti ég umhverfis völlinn til að skoða hinn fræga inngang þar sem stuðningsmenn aðkomuliðanna fara inn. Það er í miðri húsalengju, þar sem hópurinn marserar upp tröppur sem liggja fyrir utan eldhúsglugga nágrannanna.

Kenilworth Road er í Bury Park-hverfinu. Þar búa nær einvörðungu múslimar sem ættaðir eru frá Pakistan. Ég mátti því þramma fram og til baka allar götur umhverfis völlinn, uns ég var farinn að hnita sífellt stærri hringi í von um að rekast á bar. En góðir múslimar drekka ekki áfengi. Hverfisbúðirnar seldu ekki einu sinni öl. Hins vegar var enginn hörgull á slátrurum sem buðu upp á kjöt af skepnum sem höfðu verið aflífaðar á hátt sem spámanninum var þóknanlegur.

Eftir maraþongöngutúr gafst ég upp og rölti aftur að vellinum. Þar inni mátti lepja Carlsberg úr plastglösum og glugga í leikskrána. Áhorfendur dreif að og ég kom mér fyrir í stúkunni nógu tímanlega til að heyra vallarþulinn segja nafn mitt í hljóðkerfinu og taka fram að hér væri íslenskur stuðningsmaður mættur á sinn fyrsta leik. Þessu fylgdi mikil súpa af nöfnum yfir afmælisbörn úr hópi áhorfenda.

Andstæðingarnir voru Blackpool og leikurinn í þriðju efstu deild. Blackpool og Luton voru þennan vetur á sama róli um nákvæmlega miðja deild, laus við að vera í nokkurri fallhættu en jafnframt án þess að eiga raunhæfan möguleika á að komast í umspil. Leikurinn var því nánast orðabókarskilgreining á miðjumoði.

Það voru fáir frægir í Blackpool-liðinu, fyrir utan stjórann Nigel Worthington. Stórnöfnunum var svo sem ekki fyrir að fara hjá Luton heldur. Fæst nöfnin klingja bjöllum hjá öðrum en Luton-stuðningsmönnum. Phil Gray, gamli Tottenham-maðurinn var reyndar hjá okkur um þessar mundir og Emmerson Boyce, sem síðar fór til Crystal Palace og Wigan var í vörninni. Julian James og Marvin Johnson voru þeir einu sem eftir voru af þeim sem leikið höfðu með Luton í efstu deild.

Leikurinn var óskaplega bragðdaufur. Raunar svo bragðdaufur að í mörg ár minnti mig að hann hefði farið 0:0. Síðar sló ég þessu upp og komst að því að Stuart Douglas hefði skorað eina markið í 1:0 sigri okkar. Einhver hefur meira að segja haft fyrir því að taka mynd af vídeóupptöku af markinu og skella á Jútúb. Í þessum rituðum orðum hefur  sú upptaka verið skoðuð 66 sinnum, þar af þrívegis af mér.

Eftir leikinn fór ég í minjagripaverslunina og sankaði að mér treyjum, stuttbuxum, kaffikrúsum, pennum, treflum, húfum, lyklakippum, myndabandsspólum o.s.frv. Afgreiðslufólkið sá að þarna var augljóslega sturlaður maður á ferð og spurði mig sem fæstra spurninga. Klukkutíma síðar var ég kominn aftur um borð í lestina til Lundúna, þar sem ég hafði mælt mér mót við famelíuna í kvöldmat. Pílagrímsferðinni var lokið.

(Mark Luton: Stuart Douglas)

Ljónið: Fótboltasaga mín 37/1000

25. júní 1994. Nígería 1 : Argentína 2

1994 var ár Rauða ljónsins. Um 18-19 ára aldurinn fór skemmtanalífið í vaxandi mæli að snúast um að bregða sér út á lífið og drekka bjór. Miðbærinn varð oft fyrir valinu, en Rauða ljónið var ekki síður vinsælt. Á Rauða ljóninu þurfti nefnilega aldrei að hafa áhyggjur af skilríkjum eða öllu heldur skilríkjaleysi.

Minnisstæð var uppákoman þegar MR-spurningaliðsklíkan fjölmennti á Ljónið eftir útvarpskeppni í Gettu betur. Eftirlitið kom aðvífandi og sá stóran hóp 16-20 ára stráka þar sem allir voru að drekka bjór. Eftir að hafa virt okkur lengi fyrir sér, bentu þeir á Óla Jó – sem augljóslega var elstur í hópnum, nýskriðinn yfir tvítugt. Hann var látinn sýna ökuskírteinið og þegar hann reyndist löglegur kinkuðu fulltrúar valdsins til okkar kollinum og héldu á brott. Það var greinilega enginn áhugi á að koma Rauða ljóninu í vandræði.

Það hefur varla liðið sú vika árið 1994 af ég ræki ekki kollinn inn á Rauða ljónið, þó ekki væri nema í eina kollu. Fyrir vikið hef ég heyrt „Undir bláhimni“ leikið oftar á skemmtara og gítar en ég kæri mig um að rifja upp.

Sumarið 1994 var líka heimsmeistarakeppni í fótbolta. Mótið var í Bandaríkjunum og verður seint talið einn af hápunktum HM-sögunnar. Þar voru þó engir Englendingar meðal þátttökuliða, sem var mikill kostur.

RÚV sýndi HM og ruddi að mestu hefðbundinni dagskrá í burtu fyrir beinu útsendingunum. Á því voru þó nokkrar undantekningar, einkum um helgar. Þannig fengu sjónvarpsáhorfendur laugardagskvöldið 25. júní að fylgjast með Simpson-fjölskyldunni, Morðinu á Mary Phagan (fyrri hluta bandarískarar sjónvarpsmyndar frá 1988) og hollenskri mynd frá 1991 um kokkál í smábæ á sjötta áratugnum.

Þetta var vont mál í ljósi þess að sama kvöld áttust Argentína og Nígería við í annarri umferð riðlakeppninnar. Argentínumenn slátruðu Grikkjum í fyrsta leik, 4:0, þar sem Maradona var stórkostlegur. Hann mætti til leiks tiltölulega grannur og í fantaformi. Ég sannfærðist um að þeir yrðu heimsmeistarar. Síðar kom í ljós hvers vegna hann var í svona fínu standi og HM-ævintýrið endaði í tárum.

Nígeríumennirnir voru líka þrusuflottir í sínum fyrsta leik, þar sem þeir völtuðu yfir Búlgari sem höfðu það eina plan í keppninni að dæla boltum á Stoichkov og vona að hann framkallaði einhverja snilld. Það var reyndar fínt plan. Stoichkov var æðislegur leikmaður. – En gegn Nígeríu komst hann ekkert í takt við leikinn. Minnisstæð voru fagnaðarlæti Rashidi Yekini í fyrsta markinu, þar sem hann stóð og hélt öskrandi í netið. Nígería leit út fyrir að vera næsta stórveldi í alþjóðaboltanum.

Það var ekki hægt að láta þennan leik fram hjá sér fara svo við Óli Jó ákváðum að skella okkur á Rauða ljónið sem státaði af gervihnattadisk. Óli sótti mig á Neshagann þar sem ég var í mat hjá afa og ömmu, eins og alltaf á laugardagskvöldum.

Afi heitinn fór eitthvað að hafa orð á því hvað það væri skítt að missa af leiknum, sem yrði augljóslega einn af viðureignum keppninnar. Við sögðumst vera á leiðinni á barinn og spurðum hvort hann vildi ekki bara skella sér með? Það hýrnaði yfir gamla manninum og við fórum strax að búa okkur. Í stað þess að við löbbuðum út á Nes var ég gerður að bílstjóra og sötraði kaffi yfir leiknum, en afi og Óli fengu sér bjór. Annars drakk afi sjaldan bjór. Hann náði aldrei að læra almennilega á þann drykk, heldur var meira í Tindavodkanum með slettu af Ginger ale útí.

Nígeríumenn mættu fullir sjálfstrausts og ætluðu að beita sömu aðferð og gegn búlgörsku silakeppnum fáeinum dögum fyrr: að sprengja upp argentínsku vörnina með hraða sínum. Og það virtist ætla að virka. Eftir tæpar tíu mínútur kom Samson Siasia þeim í 1:0. Argentínumenn voru í tómu klandri og hefðu getað fengið á sig fleiri mörk, en fljótlega tókst þeim að ná vopnum sínum á ný.

Með Maradona að stjórna spilinu á miðjunni og Batistuta og Caniggia að ógna frammi, hlaut eitthvað undan að láta hjá Nígeríumönnum. Þeir áttu hvort sem er aldrei séns, enda hafði fáráðurinn Péle jinxað þetta með því að spá því fjórum árum fyrr að næstu heimsmeistarar kæmu frá Afríku. Betri öfugan barómeter en Péle er erfitt að finna.

Canniggia skoraði tvisvar um miðjan fyrri hálfleikinn og í leikhléi voru allir sammála um að þetta væri leikur ársins. Í seinni hálfleik gerðist minna. Argentínumenn drápu leikinn og fóru líklega í huganum að máta sig við heimsmeistaratitilinn sem þeir hefðu líka unnið ef ekki væri fyrir eitt andskotans lyfjapróf.

Við fórum aftur á Neshagann og afi var í skýjunum. Örlítið hreifur eftir bjórinn og ánægður með að hafa í fyrsta sinn skellt sér á sportbar án þess að vera á ferðalagi í útlöndum.

Við útidyrnar hittum við Dísu frænku, Ásdísi Steinþórsdóttur afasystur mína og kennslukonu við Melaskóla um áratuga skeið. Dísa bjó á efstu hæðinni á Neshaganum og spurði hvaða ferðalag væri á okkur. Afi lyftist upp og útskýrði í löngu máli hvað strákarnir væru nú snjallir: að leikurinn hefði ekki verið á RÚV en við komið með krók á móti bragði og farið á Rauða ljónið í staðinn!

Svipurinn á Dísu frænku bar vott um fullkomið skilningsleysi. Að hennar mati var augljóslega alveg nóg af þessum helvítis fótbolta í heilan mánuð. Hvað þá að það væri sérstök snilld fólgin í því að grafa upp einn leikinn í viðbót, auk þess að harðfullorðinn maðurinn teymdi táninga með sér á knæpu! Í þessu efni ákváðu þó systkinin að vera sammála um að vera ósammála.

(Mark Nígeríu: Samson Siasia. Mörk Argentínu: Claudio Canigga 2)

Áhugamennirnir: Fótboltasaga mín 36/100

29. maí 1988. Ísland 0 : Ítalía 3

Frá tíu ára aldri hef ég skipulagt líf mitt að miklu leyti í kringum fótbolta. Síðasta aldarfjórðunginn eru teljandi á fingrum þau skipti sem ég hef misst af Framleik í deild eða bikar á höfuðborgarsvæðinu þegar ég hef ekki beinlínis verið upptekinn vegna vinnu, veikinda eða annars slíks. Auðvitað missi ég af fullt af leikjum vegna árekstra við aðra hluti, en tilhugsunin um að sitja heima og góna á sjónvarpið meðan Framarar eru að spila í Kópavogi eða Breiðholti er fáránleg.

Íslenska landsliðið hefur aldrei hreyft við mér á sama hátt. Það þarf talsvert að ganga á til að ég nenni að gera miklar ráðstafanir til að horfa á landsleiki. Þannig hika ég ekki við að setja niður fundi þótt Ísland sé að spila. Ég veit ekki hvort þetta gerir mig að lélegum Íslendingi, en almennt hef ég á tilfinningunni að hörðustu stuðningsmenn félagsliða séu sjaldnast mjög uppveðraðir yfir landsliðum sínum og öfugt.

Það verða ekki margir landsleikir Íslands í þessum hundrað leikja annál af þeirri einföldu ástæðu að ég hef ekki séð mjög marga eða þeir ekki orðið sérstaklega minnisstæðir. Það er helst að ég hafi mig í að mæta ef einhverjir landsliðsmannanna hafa tengsl við Fram.

Vorið 1988 mætti ég þó á Laugardalsvöllinn til að hvetja Ísland – nánar tiltekið íslenska Ólympíulandsliðið sem mætti Ítölum í lokaleik forkeppninnar. Tvennt kom til: íslenska liðið var borið upp af Frömurum og altalað var að ítalska liðið væri rosalegt.

Af Frömurum ber fyrstan að nefna Friðrik Friðriksson í markinu. Hann var reyndar farinn til Danmerkur til náms og knattspyrnuiðkunnar. Friðrik var hetjan mín og ég botnaði ekkert í þeirri vitleysu að hafa Bjarna Sigurðsson sem aðalmarkvörð landsliðsins. Pétur Arnþórsson var baráttujaxlinn á miðjunni. Gummi Steins og Gummi Torfa voru framherjar og Kristinn R. Jónsson kom inná sem varamaður.

Undir eðlilegum kringumstæðum hefðu þeir Viðar Þorkelsson og Þorsteinn Þorsteinsson verið í vörninni, en þeir voru í prófum í Háskólanum. Enginn grét það meira en ég. Þorsteinn var minn maður, enda lét ég setja nr. 2 á Fram-treyjuna mína. Óvenjulegt val vissulega, en ætli ástæðan hafi ekki verið sú að ég las viðtal við Þorstein í Framblaði þar sem hann sagðist síðast hafa skorað í 3. flokki. Mér fannst eitthvað göfugt við bakverði sem voru trúir yfir litlu og héldu sig á sínum stað á vellinum…

Og vá, hvað við hefðum þurft á Þorsteini og Viðari að halda í þessum leik! Ítalirnir yfirspiluðu okkur án þess að fara úr öðrum gír. Þeir unnu með þremur mörkum, en þau hefðu getað orðið sex eða sjö. Það var svo sem ekki stórstjörnunum fyrir að fara í íslenska landsliðshópnum: Ingvar Guðmundsson, Þorsteinn Guðjónsson, Valur Valsson… Þarna var líka KR-ingurinn Ágúst Már Jónsson, en hann hafði sérstaka stöðu sem fyrrum leikfimikennari minn í Melaskóla, þá kornungur.

Fyrir utan Friðrik, sem lék í áhugamannalandinu Danmörku, voru allir íslensku landsliðsmennirnir á mála hjá liðum hér heima. Ísland hljóp apríl og leit svo á að Ólympíuknattspyrnukeppnin væri fyrir áhugamenn og tefldi fram B-liði. Ítalska liðið var hins vegar skipað fjölda leikmanna úr efstu deild, þar á meðal fjórum úr AC Milan. Pirringsleg ummæli Sigfrieds Held landsliðsþjálfara um að Ítalir væru „sterkasta áhugamannalið í heimi“ voru því líklega allt eins mikið skot á stjórnendur KSÍ en andstæðingana.

En hverjar voru stjörnurnar í liði Ítala sem endaði á að fara til Seoul og komast á spjöld sögunnar með því að tapa 4:0 fyrir Zambíu (úrslit sem enginn í Evrópu man eftir, en eru talin gríðarlega merkileg í afrískri fótboltasögu)?

Jú, það var Stefano Tacconi í markinu. Myndin við Wikipediufærsluna um hann sýnir Tacconi drekkandi bjór og að kveikja sér í sígarettu, sem afhjúpar veikleika Wikipedia Commons-myndréttarkerfisins. Wikipedia fræðir mig hins vegar líka um að Tacconi hafi reynt fyrir sér sem stjórnmálamaður á hægrivængnum með takmörkuðum árangri.

Tacconi var aðalmarkvörður Juventus og liðsfélagar hans voru í báðum bakvarðarstöðunum á Laugardalsvelli, þeir Sergio Brio og Massimo Mauro. Sá síðarnefndi hefur líka reynt fyrir sér sem atvinnustjórnmálamaður. Mauro Tassotti var í annarri miðvarðarstöðunni, Aðalframlag hans til heimsknattspyrnunnar fólst í að mölbrjóta nefið á Luis Enrique á HM 1994 með glæsilegu olnbogaskoti án þess að dómarinn tæki eftir neinu. Það er á topp-10 listanum yfir splatteratvik í íþróttasögunni sem ég hefði betur ekki viljað sjá.

Maradona-aðdáandinn í mér fylgdist sérstaklega með Napoli-leikmönnunum á vellinum. Andrea Carnevale var annar framherjanna. Hann átti að verða ein aðalhetjan á HM á Ítalíu 1990, en í staðinn sló leiðindagaurinn Schillaci í gegn. Stefano Desideri frá Roma var líka nokkuð þekkt nafn á þessum árum. En í ljósi sögunnar hlýtur stærsta nafnið að vera miðjumaðurinn frá AC Milan og síðar knattspyrnustjórinn, Carlo Ancelotti.

Athyglisvert er að samkvæmt Wikipediu, sem væntanlega notast við opinbera skráningu ítalska knattspyrnusambandsins, teljast ÓL-leikirnir ekki fullgildir landsleikir ítölsku leikmannanna. Á vef KSÍ er hins vegar enginn greinarmunur gerður á þessum leikjum og hverjum öðrum A-landsleik. Spurning hvor talningaraðferðin sé rétt samkvæmt FIFA? Vonandi sú íslenska, Þorsteins Þorsteinssonar vegna!

(Mörk Ítalíu: Andrea Carnevale, Francesco Romano, Pietro Paolo Virdis)

Steggirnir: Fótboltasaga mín 35/100

 12. júní 2004. Portúgal 1 : Grikkland 2

Ég hélt með Frökkum á HM 1998 og EM 2000 og var ekki svikinn. Á HM 2002 hélt ég tryggð við Frakkana, en þeir voru svo slappir og leiðinlegir að ég hef ekki enn fyrirgefið svikin. Fyrir EM 2004 þurfti ég því að velja mér nýtt lið að styðja. Valið var ekki auðvelt. Tékkarnir komu til greina, en ég var ekki alveg nógu sáttur við þann kost. Tíminn leið og ekki tókst mér að ákveða mig.

Hafði svo sem um annað að hugsa. Í sumarbyrjun 2004 fórum við Steinunn saman til útlanda í hálfan mánuð. Við vorum samferða Elvari Ástráðssyni, vini okkar úr friðarbarátunni og viskýgæðingi. Leiðin lá til Skotlands.

Fyrri vikuna vorum við á viský- og þjóðlagahátíð á Islay, þar sem við heimsóttum öll brugghúsin og drukkum í okkur menningu svæðisins ásamt nokkrum öðrum Íslendingum. Eftir dvölina á Islay héldum við þrjú saman til Glasgow og þaðan fórum Steinunn saman til Edinborgar í nokkra daga. Ákaflega ljúfir dagar.

Við komum til Glasgow um það leyti sem setningarhátíðin á EM í Portúgal var að byrja og enn hafði ég ekki valið mér lið. Við fengum okkur í svanginn á veitingahúsi og trítluðum svo á gistiheimilið. Steinunn ákvað að leggja sig og ég rölti út í leit að bar til að horfa á leikinn.

Ég þurfti ekki að labba langt áður en ég fann stað sem var furðuleg blanda af pöbb, kaffihúsi og fjölskylduveitingastað. Þetta var vissulega vínveitingahús, en gestirnir voru líklegri til að drekka kaffi með paninibrauðinu sínu en að þamba bjór og skella í sig skotum. – Allir nema strákarnir í horninu.

Portúgalir mættu til leiks fullir sjálfstrausts. Þeir ætluðu að verða Evrópumeistarar á heimavelli og Grikkir áttu nú ekki að verða mikil hindrun á þeirri vegferð. Enginn hafði veitt gríska liðinu minnstu athygli fyrir mót. Þjálfarinn Otto Rehagel var svo sem frægur fyrir störf sín í Þýskalandi, en annars var varla í gríska landsliðinu þekktur utan heimalandsins.

En Grikkirnir hans Rehagels voru fáránlega skipulagðir. Þeir vörðust sem einn maður og einsettu sér svo að skora með skyndisóknum eða úr föstum leikaatriðum. Kannski ekki skemmtilegasta leikaðferðin, en afskaplega skynsamleg fyrir lið í þessari stöðu.

Gríska liðið skoraði eftir fáeinar mínútur. Heimamenn urðu pirraðir, en stressuðust ekki strax, enda vissir um að skora nokkur mörk á móti. Eftir því sem leið á hálfleikinn fóru áhorfendur, bresku þulirnir og portúgölsku leikmennirnir þó að að verða órólegri.

Á veitingastaðnum fór hávaðastigið líka hækkandi. Strákarnir í horninu voru greinilega að byrja steggjapartý. Þeir drukku mikið og ráku upp öskur af því tagi sem sérstaklega einkennir skoskt næturlíf. Aðrir gestir skiptust á augngotum og ranghvolfdu í sér augunum, en reyndu annars að leiða þetta hjá sér.

Rétt áður en flautað var til leikhlés var kveikt á græjum veitingahússins og eitthvert popplag fór að drynja. Fram steig stelpa í frakka með lögregluhúfu… stripparinn var mættur!

Og við tók einhver fáránlegasta sena sem ég hef orðið vitni að. Á miðjum degi á björtum veitingastað, þar sem hrekklausir túristar drukku kaffi og fjölskyldur átu hamborgara, byrjaði lítil og þrýstin fatafella að fetta sig og bretta. Hún svipti sér úr frakkanum og fljótlega úr bolnum líka. Á nærbuxum og í háum stígvélum einum fata fór hún að nudda sér utan í stegginn á meðan vinir hans geltu og ýlfruðu. Svo lagið búið og hún snarstoppaði – tíndi upp fötin, sendi hópnum fingurkoss og hljóp út. Og allir sneru sér aftur að leiknum.

Starfsmönnum hússins fannst greinilega ekkert athugavert við uppákomuna heldur og létu eins og þeir sæju ekki reiðisvipinn á sumum hinna gestanna. Gaurarnir í steggjapartýinu voru himinsælir, þó eitt skyggði reyndar á gleði þeirra: Portúgal – eða öllu heldur Ronaldo – væri að tapa. Einn í hópnum var í Manchester United-treyju merktri Ronaldo og annar skartaði portúgölskum landsliðsbol.

Kannski var það pirringurinn út í hljóðabelgina í horninu frekar en bara aðdáunin á gríska varnarleiknum sem sannfærði mig um að Grikkir yrðu mínir menn á EM. Ég fór að lifa mig enn meira inn í leikinn og fagnaði vel þegar Grikkir fengu víti og skoruðu aftur í byrjun seinni hálfleiks. Við tók örvæntingarfull stórsókn Portúgala allt til loka, sem skilaði engu nema einu marki Ronaldos í uppbótartíma. Þá var steggjapartýið reyndar farið að hugsa sér til hreyfings á eitthvert steikhús.

Grikkirnir sviku mig heldur ekki í mótinu. Þeir skoruðu í hverjum leik og unnu allar viðureignirnar í útsláttarkeppninni án þess að grípa þyrfti til vítakeppni. Það voru fáir sem gengust við því að halda með Grikklandi í byrjun móts, en við vorum þeim mun betur verðlaunuð þegar Grikkir unnu Portúgal öðru sinni í sjálfum úrslitaleiknum.

(Mark Portúgal: Cristiano Ronaldo. Mörk Grikklands: Giorgos Karagounis, Algelos Basinas)

Reglan: Fótboltasaga mín 34/100

 1. september 2012. Þróttur 3 : Fram 0

Ósanngjarnasta reglan í fótboltanum er sú sem segir að brot á leikmanni sem sloppinn er einn inn fyrir hljóti að þýða rautt spjald. Finnst einhverjum það í alvörunni sanngjarnt þegar markvörður rennir sér í 50/50 tæklingu og brýtur af sér er rekinn af velli, andstæðingarnir fá víti og eru með unnin leik í höndunum? Er vítaspyrnan ekki andskotans nóg, nema þegar um sérlega fólskulegt eða heimskulegt brot er að ræða? Af hverju mega dómarar ekki láta heilbrigða skynsemi ráða í þessum tilfellum?

Sumarið 2012 var það einmitt svona atriði sem eyðilagði vinnu heils sumars hjá Framstelpunum.

Næstefsta deildin í kvennaboltanum skiptist upp í tvo riðla sem hvor um sig skilar tveimur liðum í undanúrslit. Sigurliðin þar komast svo upp í efstu deild. Fram var heppið með drátt og lenti í B-riðlinum sem almennt var talinn léttari. Það voru því taldar ágætar líkur á að Framstelpurnar gætu komist í undanúrslitin.

Það sem síðar gerðist kom hins vegar öllum á óvart. Framliðið reyndist óstöðvandi og lagði hverja andstæðingana á fætur öðrum, suma með miklum mun. Þegar uppi var staðið höfðu Framarar unnið þrettán af fjórtán leikjum. Eina tapið var 2:3 gegn HK/Víkingi á grasvellinum í Safamýri. Það var reyndar eini leikurinn sem ég gerðist svo frægur að sjá í riðlinum – og Fossvogsstelpur voru stálheppnar að hirða öll stigin.

Það er gaman að vinna leiki og auðvitað brostu Framarar út að eyrum. Sumir höfðu þó orð á því að þetta væri óþarflega bratt. Framliðið væri of ungt og hefði ekkert upp að gera strax. Betra væri að bíða í 3-4 ár uns meiri festa væri komin á kvennaboltann innan félagsins og yngri flokkarnir farnir að skila sér upp. Aðrir hnussuðu eitthvað um lúxusvandamál og að stjórn félagsins yrði bara að taka á því ef liðið „slysaðist“ upp um deild. Það mætti þá kaupa nokkra sterkari leikmenn til liðsins til að bjarga málum fyrir horn.

En fyrst þurfti náttúrlega að vinna undanúrslitaeinvígið. Andstæðingarnir þar yrðu væntanlega Fjölniskonur, enda allt útlit fyrir að Þróttarar tækju toppsætið í A-riðlinum. Sú hefði orðið raunin ef Þrótti hefði tekist að landa sigri í öðrum af tveimur síðustu leikjum sínum, sem báðir voru gegn Hetti Egilsstöðum. Höttur vann í tvígang og strax fóru að heyrast sögur um að Þróttur hefði tapað viljandi – og að heyrst hefði til forráðamanna Þróttar segja að þrátt fyrir riðlakeppnina væri Fram miklu auðveldari andstæðingur en HK/Víkingur.

Við Framstuðningsmenn urðum súrir yfir þessum fregnum. Töldum liðið okkar eiga meiri virðingu skilið, einkum frá klúbbi sem spilar í treyjum sem minna á brjóstsykursmola. Allar áhyggjur af ótímabæru úrvalsdeildarsæti voru því settar til hliðar fyrir fyrri leikinn á Valbjarnarvelli. Og Framliðið byrjaði af krafti í leik sem virtist ætla að verða opinn…

En eftir rétt rúmar fimm mínútur var leikurinn ónýtur og einvígið búið. Þróttarstelpa slapp í gegn, Frammarkvörðurinn kom út á móti – samstuð, víti, rautt, 1:0. Einum fleiri í 85 mínútur tókst Þrótti að bæta tveimur mörkum við, lokatölur 3:0. Framliðið hafði ekki einu sinni varamarkvörð, heldur var útispilandi varamaður settur á milli stanganna. Sú hafði reyndar æft eitthvað mark í yngri flokkum.

Seinni leikurinn var formsatriði. Markvörðurinn í banni og varaskeifan frá fyrri viðureigninni því látin byrja inná. Þróttarar voru í veisluskapi og unnu auðveldlega, 4:0.

Líklega var Þróttarliðið betra en Framliðið. Of slakir andstæðingar í riðlakeppninni um sumarið höfðu ekki búið Framstelpurnar nægilega vel undir átök gegn sterkari liðum. Þær brotnuðu því of auðveldlega þegar þær mættu mótspyrnu. – Það má því reikna með því að ellefu á móti ellefu hefðu Þróttarar unnið einvígið. En það var samt helvíti gremjulegt að það hafi aldrei reynt á það. Heilt keppnistímabil eyðilagðist útaf einni 50/50 tæklingu aðeins of snemma í leik.

Reglan sökkar! Spái því samt að FIFA muni ekki hrófla við henni fyrr en hún verður búin að eyðileggja úrslitaleik á HM.

(Mörk Þróttar: Margrét María Hólmarsdóttir 2, Valgerður Jóhannsdóttir)

Smekksatriði: Fótboltasaga mín 33/100

3. ágúst 2005. FH 2 : Fram 2 (8:9 eftir vítakeppni og bráðabana)

2005 var vonbrigðaár hjá Frömurum. Liðið hafði klárað tímabilið 2005 undir stjórn Ólafs H. Kristjánssonar með glæsibrag. Ólafur var endurráðinn og virtist hafa skýrar hugmyndir um hvað hann ætlaði sér. Mannskapurinn virtist nokkuð sterkur, en eftir á að hyggja voru óvissuþættirnir of stórir. Útlendingarnir í liðinu stóðu ekki undir væntingum eða lentu í meiðslavandræðum. Það vantaði líka markahrók í liðið. Enginn leikmaður skoraði meira en fjögur mörk í deildarleikjunum átján.

Þetta byrjaði reyndar vel. Fram vann Eyjamenn 3:0 í fyrstu umferð og komst í toppsætið í fyrsta sinn í fleiri ár. Ýmsir urðu pínlega roggnir í fáeina daga áður en veruleikinn kom og beit okkur í rassinn. Fram féll um haustið og tapaði fyrir Val í tilþrifaminnsta bikarúrslitaleik seinni ára í lokaleik tímabilsins.

En sigurinn á FH í undanúrslitunum var þó ljúfur. Leikið var á miðvikudegi eftir verslunarmannahelgi. Á þeim tímapunkti höfðu FH-ingar unnið alla leiki sína gegn íslenskum liðum um sumarið. Spurningin var ekki hvort FH yrði Íslandsmeistari heldur hvort það yrði á fullu húsi stiga með bikarmeistaratitilinn í kaupbæti.

Og meistaraheppnin virtist ætla að fylgja FH í undanúrslitaleiknum á Laugardalsvelli. Andri Fannar Ottósson skoraði mark í fyrri hálfleik sem líklega var löglegt, en dæmt af vegna rangstöðu. Síðar í sama hálfleik fékk mark Hafnfirðinga að standa þar sem líklega var um rangstöðu að ræða. FH gekk til búningsklefa í leikhléi með 2:0 forystu.

Við sötruðum kaffið okkar í hálfleik og bölvuðum í hljóði. Enginn hafði minnstu trú á að FH gæti glutrað niður slíkri forystu. Ólafur Jóhannesson þjálfari Fimleikafélagsins var líklega á sama máli og farinn að hugsa um næsta leik sinna manna, gegn KR fjórum dögum síðar. Þegar tuttugu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma ákvað Ólafur að hvíla Heimi Guðjónsson. Nánast um leið fór að rýmkast um spilið á miðjunni hjá Fram. Fimm mínútum síðar hjálpaði landsliðsþjálfarinn verðandi okkur enn meira með því að taka Dennis Siim útaf.

Síðasta kortérið tóku Framarar völdin á vellinum. FH-ingar urðu skyndilega taugaveiklaðir, enginn þó eins og Daði Lárusson markvörður sem gerði fáránleg mistök á 80. mínútu sem leiddu til marks. „Daða í landsliðið!“ var eitt eftirlætisslagorð Hafnarfjarðarmafíunnar þetta sumarið – svo að sjálfsögðu spratt ég á fætur um það leyti sem fagnaðarlátunum var lokið og þrumaði „Daða í landsliðið!” nokkrum sinnum. Það að vera stór í sigri er stórlega ofmetið fyrirbæri.

Andri Fannar skoraði markið. Um það vorum við sammála á vellinum. Hann var líka talinn markaskorarinn í Mogganum, Fréttablaðinu og bókinni Íslenskri knattspyrnu 2005. Sé þó að á vef KSÍ er markið talið sjálfsmark. Vanhæft knattspyrnusamband! (Setjið inn brandara að eigin vali um kreditkort í Sviss og nætursölu á miðum.)

FH-ingar fóru á taugum og drógu sig enn aftar. Það gat bara farið á einn veg og Bo Henriksen (einhver allra besti útlendingur sem hér hefur spilað, þá sjaldan hann var ekki meiddur) jafnaði metin þegar fimm mínútur voru eftir. Daði Lárusson leit heldur ekkert sérstaklega vel út í það skiptið.

Í framlengingunni náðu Hafnfirðingar að skipuleggja sig á nýjan leik, auk þess sem nokkuð var af Frömurum dregið eftir að hafa þurft að elta mestallan leikinn. Við lékum upp á vítakeppni og náðum henni.

Daði og Gunnar Sigurðsson, markvörður Framara vörðu hvor sína spyrnuna í upphafi vítakeppninnar (spyrnur nr. 2 og 3) en upp frá því fór allt í netið. Það var ekki fyrr en eftir þrefaldan bráðabana að Gunnari tókst að verja spyrnu og Fram var komið í úrslit. Það var ekki leiðinlegt, ónei!

Mér er alveg sama hvað leikskýrslur KSÍ segja, í mínum huga skoraði Andri Fannar markið sem kom okkur inn í leikinn. En það sem engan óraði fyrir á þessum tíma var að þetta yrði næstsíðasta mark hans í deild eða bikar. Sumarið eftir lagði hann skóna á hilluna, aðeins 24 ára gamall, eftir fáeinar umferðir.

Andri Fannar er einn af  uppáhaldsleikmönnunum mínum, meðal annars vegna þess að hann var óvenjuleg týpa af fótboltamanni. Í eftirminnilegum pistli útskýrði Duleep Allirahjah íþróttaskríbent vefritsins Spiked, hvers vegna betra væri að knattspyrnumenn hlustuðu bara á Coldplay og Phil Collins frekar en framsækið tilraunarokk. Knattspyrnumenn næðu nefnilega bestum árangri þegar þeir settu sér það eina markmið í lífinu að sparka bolta með meiri nákvæmni – slíkt væri ekki viðfangsefni fyrir leitandi sálir.

En Andri Fannar hafði greinilega áhuga á fleiri hlutum. Hann var skemmtilegur bloggari, áður en Mogganum var búið að takast að drepa það fyrirbæri. Hann hlustaði á Megas og lærði heimspeki í Háskólanum. Það var alltaf hætta á að slíkur maður gæti komist að þeirri niðurstöðu að hægt væri að gera annað í lífinu en mæta á æfingar.

Í lok júní 2006 lak það loks út að Andri Fannar væri hættur að æfa með Fram. Fréttablaðið sagði frá málinu í epískri smáfrétt, þar sem stóð meðal annars:

„… Framararnir sýndu mér mikinn skilning og allir fara sáttir frá borði“, sagði Andri Fannar. „Eins og Megas sagði eitt sinn: „Að ætla að fara að temja sér þeirra siði, en þetta er allt í lagi, þetta er bara smekksatriði,“ og smekkur minn liggur annars staðar en í fótbolta núna, “ sagði Andri Fannar, sem var vonsvikinn yfir því að blaðamaðurinn hafði ekki hugmynd um hvaða lag þessa væri. „Englaryk í tímaglasi, lag númer fimm, Aðeins smekksatriði,“ sagði heimspekineminn spakur.“

Auðvitað tókst filisteanum á íþróttadeildinni að klúðra aðeins Megasar-tilvitnuninni, en engu að síður er mér til efs að margir íslenskir fótboltamenn hafi lokið ferliðinum með mikið töffaralegri tilkynningu. Alltaf að vitna í Megas þegar það er hægt! – Eftir stendur að það hefði óneitanlega haft sína kosti ef Andri Fannar hefði hlustað aðeins minna á Megas en aðeins meira á Phil Collins.

(Mörk FH: Allan Borgvardt 2. Mörk Fram: Andri Fannar Ottósson, Bo Henriksen)

Varaskeifan: Fótboltasaga mín 32/100

 16. júlí 2009. Sigma Olomouc 1 : Fram 1

Ég man ekkert hvaða liði ég hélt með í Tékkóslóvakíu sem pjakkur. Það gæti þó hafa verið Sparta Prag. Þegar kom að Vestur-Evrópu hélt ég sjaldnast með bestu liðunum ef frá var talið PSV í Hollandi. Í Austur-Evrópu náðu toppliðin frekar inn á radarinn. Ég hélt að minnsta kosti ekki með Sigma Olomouc.

Sigma Olomouc var eitt af þessum ótal leiðinlegu Austur-Evrópuliðum sem þeir sem lúslásu úrslitin í Evrópukeppnunum þekktu. Þetta var lið númer 3-6 í Tékkóslóvakíu, af þeirri gerðinni sem gjaldkerar íslenskra liða óttuðust mest að dragast gegn á níunda áratugnum. Á þeim árum þýddi þátttaka í Evrópukeppni nefnilega ekki sjálfkrafa milljónir í kassann. Tekjurnar skiluðu sér bara ef ferðalagið væri nógu stutt eða andstæðingarnir drægju áhorfendur á völlinn. Sterk lið frá austurblokkinni voru ávísun á ferðakostnað, tapleiki og fáa áhorfendur.

2009 voru önnur sjónarmið uppi. Þegar Fram komst í Evrópudeildina haustið 2008 gátu menn strax farið að eyða hagnaðinum í huganum. Í fyrstu umferð fengju Framarar vænan skilding í vasann og lið úr Norðvestur-Evrópu, sem góðir möguleikar væru á að vinna. Sigur þýddi svo ennþá meira fé og draumar um frekari sigra.

Í fyrstu umferð dróst Fram gegn The New Saints frá Wales. Látið sakleysislegt nafnið ekki blekkja ykkur. Liðið hét einhverju óskiljanlegu kymrísku nafni, uns fyrirtækið Total Networks Solutions keypti sjálft nafnið í styrktarsamningi. Þegar UEFA reyndi að skerast í leikinn var nafninu breytt í The New Saints – til að skammstöfunin héldist: TNS.

Fram lék ekki vel í fyrri leiknum gegn TNS í Laugardalnum og vann bara 2:1. Sjálfur minnist ég leiksins einkum fyrir að það var brakandi blíða og ég mætti léttklæddur á völlinn – nánar tiltekið í grænum og hvítum þverröndóttum pólóbol. Það var ekki fyrr en ég settist í stúkunni að ég mundi að gestirnir spiluðu einmitt í Celtic-búningunum. Rats!

Þrátt fyrir rýrt veganesti fóru Framarar áfram. Unnu 1:2 í Wales og við tóku leikir gegn Sigma Olomouc.

Fyrirfram hljómaði þokkalegt tékkneskt lið eins og ósigrandi andstæðingur, einkum þar sem Framliðið var rétt fyrir neðan miðja deild. En fyrri leikurinn var þó á útivelli og það þykir alltaf góðs viti í þessari keppni.

Viðureignin var sýnd á tékkneskri sjónvarpsstöð. Svo sem ekki óvænt. Á meginlandinu eru menn fótboltaþyrstir í júlímánuði svo ekki þarf mikið til að leikir rati í beina útsendingu. Einhver Framararinn gróf upp straum á útsendinguna og deildi á spjallborðinu. Í kjölfarið lágu svo tugir Framara um land allt yfir höktóttri útsendingu frá Olomouc, sem smkv. Wikipediu er vinaborg Flórens. Flórens virðist þó heldur hafa dregið stutta stráið í því sambandi.

Í gegnum skrykkjótta útsendinguna mátti augljóslega sjá að leikmenn Sigma voru flinkari, stærri og sterkari. Þeir voru hins vegar ekki í fullri leikæfingu (enda hásumar) og í því var vonin fólgin. Markmið Framara var að pakka í vörn en þar kom upp augljóst vandamál: burðarás Framvarnarinnar þetta sumarið var Auðun Helgason sem lá aftastur og stýrði hinum miðverðinum, Kristjáni Haukssyni.

Auðun hafði hins vegar nælt sér í þriggja leikja bann í Evrópukeppni fyrir einhver apakattalæti með FH nokkrum misserum fyrr og varð því fyrst löglegur í heimaleiknum. Í hans stað kom Jón Guðni Fjóluson, frekar luralegur strákur frá Suðurlandi sem leikið hafði fáeina leiki árið áður án þess að vera sérstaklega minnisstæður. Það sem af var sumri hafði Jón Guðni byrjað í þriðjungi leikjanna en annars verið á bekknum eða komið inná þegar farið var að draga af eldri mönnunum.

Ég held að engum Framara hafi staðið á sama með að Jón Guðni þyrfti að vera í byrjunarliðinu á erfiðum útivelli. Þær áhyggjur reyndust þó óþarfar. Framararnir pökkuðu í vörn frá fyrstu mínútu. Liðið var gríðarlega agað og Þorvaldur Örlygsson vissi nákvæmlega hvernig leika skyldi. Boltanum var neglt fram í sífellu og þá sjaldan sem hornspyrnur eða aukaspyrnur gáfust á vallarhelmingi andstæðinganna  voru stóru mennirnir sendir fram. Og það var einmitt eftir slíka hornspyrnu á 22. mínútu að Jón Guðni skallaði í netið.

Að svo miklu leyti sem hægt er að ærast fyrir framan tölvuskjá og höktandi vefútsendingu, einn á skrifstofunni sinni á miðjum vinnudegi, gekk ég af göflunum. Við tók langur og taugatrekkjandi tími…

Allt Framliðið dró sig í vörn og Tékkarnir dældu í sífellu boltum inn í teiginn. Stjáni Hauks og Jón Guðni skölluðu allt frá marki og Tillen og Halldór Hermann tækluðu hvern þann andstæðing sem hætti sér of nærri vítateignum. Hannes varði nokkrum sinnum frábærlega og tíminn leið. Á lokamínútunni tókst Tékkunum að jafna og einhvern veginn vissi maður þá að draumurinn væri úti.

Þótt Tékkarnir væru betra fótboltalið, hefði ég treyst Frömurum til að verja 1:0 forystu á Laugardalsvelli. 1:1 var einhvern veginn miklu veikara. Það kom líka á daginn. Eftir markalausan fyrri hálfleik skoruðu Tékkarnir tvívegis eftir hlé. Þá var ég staddur austur á Neskaupstað og þurfti að sætta mig við að lesa textalýsingar á MBL og fá SMS frá vinum á vellinum. Það var eitthvað rangt við að geta ekki horft á Framarana á heimavelli, eftir að hafa séð útileikinn í fokkíng Olomouc…

Það kaldhæðnislega við einvígið var þó að búið var að draga í næstu umferð og sigurvegararnir myndu mæta Aberdeen frá Skotlandi. Þar með var til mikils að vinna því Aberdeen er jú breskt fótboltalið og slík viðureign hefði tryggt bæði áhorfendafjölda og sjónvarpsfrægð! Að lokum fór það samt svo að Sigma Olomouc skellti Aberdeen 8:1 samanlagt og tryggði sér leik gegn Everton í næstu umferð. Óðinn má vita hvernig viðureign Fram og Aberdeen hefði farið.

En annað breyttist eftir leikinn í Olomouc: Jón Guðni Fjóluson varð nýr leikmaður. Allt í einu fór þessi stóri, en stundum dálítið klunnalegi unglingur, að færa sig upp á staftið. Þegar Fram fékk horn trítlaði hann ekki lengur fram á við af skyldurækni eins og hávaxinna varnarmanna er siður, heldur stímdi hann inn í markteiginn eins og ákafur framherji, slóst og hrinti – og reyndi að skora.

Skömmu síðar fór Jón Guðni, uppfullur af sjálfstrausti, að spreyta sig á aukaspyrnum líka – þrátt fyrir að bæði Paul McShane og Hjálmar Þórarinsson væru fyrirfram líklegri kandídatar í þá iðju. Og í hvert sinn sem Jón Guðni stillti boltanum upp fyrir framan teiginn urðu stuðningsmennirnir spenntir, því allir vissu að hann myndi ALDREI senda til hliðar eða vippa inn í teiginn, heldur yrði ALLTAF neglt á markið.

Í þeim fjórtán leikjum sem Jón Guðni kom við sögu eftir fyrri viðureignina gegn Olomouc sumarið 2009, skoraði hann sex mörk, sem er fáránlega gott hjá miðverði. Það dugði og vel rúmlega það til að bræða hjörtu allra stuðningsmannanna. Strákurinn frá Þorlákshöfn er hiklaust einn af uppáhaldsleikmönnum mínum hjá Fram á 21. öldinni.

(Mark Sigma Olomouc: Daniel Rossi. Mark Fram: Jón Guðni Fjóluson)