Glugginn: Fótboltasaga mín 31/100

11. maí 1988. KV Mechelen 1 : AFC Ajax 0

Á níunda áratugnum var sjóndeildarhringur fótboltaáhugamannsins ansi þröngur. Enska boltann mátti sjá á laugardögum á RÚV, en varðandi aðrar deildarkeppnir þurftu menn að láta sér umfjöllun dagblaðanna nægja. Blöðin sögu frá úrslitum og stöðu í fjölda landa. Skotland, Vestur-Þýskaland, Spánn, Ítalía, Frakkland og Holland skutu reglulega upp kollinum. Enginn varð heldur hissa þótt stöðutaflan í Belgíu, Sviss, Grikklandi, Portúgal, Norðurlöndunum eða jafnvel Sovétríkjunum birtist. Á einhvern skringilegan máta vorum við einangruð en um leið alþjóðlega þenkjandi í senn.

Við þessar aðstæður var ekki að undra þótt úrslitaleikirnir í Evrópukeppni meistaraliða og Evrópukeppni bikarhafa vektu sérstaka eftirvæntingu. Þar fékk maður loksins glugga til að sjá sjálfur spænsku, þýsku og ítölsku stórliðin sem maður vissi svo mikið um án þess að hafa nokkru sinni barið augum.

Evrópukeppni meistaraliða var augljóslega aðalleikur ársins og oft bölvaði maður því að UEFA-bikarinn væri ekki sýndur, þar sem leikið var til úrslita heima og heiman. Bikarhafakeppnin var hins vegar samviskusamlega sýnd, þótt hún væri að jafnaði mun veikari en hinar tvær. Þannig skutu lið á borð við Lokomotiv Leipzig og Rapid Vín upp kollinum í úrslitaleikjum þessara ára.

Úrslitaleikurinn vorið 1988 í Strasbourg hljómaði heldur ekki glamúrös. Að flestra mati hafði hinn eiginlegi úrslitaleikur farið fram í undanúrslitunum, þar sem Ajax sló út Marseille. Obskjúr belgískt smálið yrði varla mikil fyrirstaða í lokaleiknum.

Ajax var samkvæmt skilgreiningu eitt af stórliðum Evrópu og Holland rísandi stjarna í heimsfótboltanum. Reyndar klingdu nöfnin í leikmannahópnum ekki mörgum bjöllum hjá manni, en fáeinum vikum síðar átti það eftir að breytast á EM 88.

Mechelen var hins vegar alveg óþekkt stærð. Íslenskir knattspyrnuáhugamenn höfðu svo sem ágætis þekkingu á belgíska boltanum, þökk sé Ásgeiri Sigurvinssyni og Arnóri Guðjohnsen. Anderlecht var risinn í Belgíu en flestir gátu talið upp nokkur lið í viðbót. Sjálfur hélt ég með Antwerpen (maður átti náttúrlega uppáhalslið í öllum deildarkeppnum á þessum árum).

Mechelen skaust snögglega á toppinn, rækilega stutt af vellríkum eiganda. Liðið lék í hálfaulalegum rauð- og gulröndóttum búningum sem minntu mig alltaf á sælgætistöflur sem voru seldar í ópal-pökkum. Man ekki nafnið. Heimavöllur liðsins tók langt innan við 20.000 manns og það átti örfá góð ár í sólinni. Varð belgískur meistari og bikarmeistari – áður en allt endaði í gjaldþroti og tárum.

En fjármálalögfræðingarnir voru enn víðs fjarri veturinn 1987-88 þegar Mechelen ruddi hverjum andstæðingnum á fætur öðrum úr vegi. Leiðin í úrslitin var raunar furðugreið: Dinamo Búkarest, St. Mirren, Dinamo Minsk og Atalanta. Það var helst að Atalanta hefði getað talist stórfiskur í þessari upptalningu.

Og ætli Ajax hefði ekki unnið frekar greiðlega ef Danny Blind hefði ekki verið rekinn útaf eftir kortér. Tíu á móti ellefu var jafnræði með liðunum. Mechelen skoraði í byrjun seinni hálfleiks og þótt Hollendingarnir reyndu sitt besta, komust þeir aldrei framhjá Michel Preud´homme í markinu. Það var reyndar eini Mechelen-maðurinn sem maður þekkti fyrir leikinn.

En hverjir aðrir voru í þessu belgíska liði? Jú, Erwin Koeman. Hann var frægur fyrir að vera helmingurinn af Koeman-bræðrum – en þó óneitanlega mun síðri helmingurinn. Fyrirliðinn hét Leo Clijsters. Það nafn sagði manni ekki neitt á sínum tíma, en í dag er hann frægur fyrir að vera pabbi hinna frægu Clijsters-tennissystra. Eins veitti ég því enga athygli þegar Ajax reyndi að klóra í bakkann með því að senda inn kornungan framherja. Hann hét Dennis Bergkamp.

Ég var ofsakátur með úrslitin, enda á þessum tíma sökker fyrir því þegar minni liðin unnu þau stærri (og er það svo sem enn). Það var ekki fyrr en seinna að ég fór að láta nýrík fótboltalið fara í taugarnar á mér: lítil félög og sneydd sögu sem rjúka upp eins og rakettur og enda yfirleitt með einum blossa áður en prikið fellur til jarðar. Búningurinn var samt fábjánalegur.

(Mark KV Mechelen: Piet Den Boer)

Burstið: Fótboltasaga mín 30/100

30. ágúst 1987. Fram 5 : Víðir 0

„Hvað er aftur metið fyrir stærsta sigur í bikarúrslitaleik?“ – spurði rallhálfur Garðbæingur yfir hlandskálunum á Laugardalsvelli í leikhléinu síðasta sumar. Stjarnan var að vinna Framara með tveimur mörkum gegn engu og Silfurskeiðarmenn virtust hafa ástæðu til að vera roggnir. Ég umlaði eitthvað, en vissi auðvitað svarið mætavel. Allir Framarar af minni kynslóð muna eftir úrslitaleiknum 1987.

Seinni hluti níunda áratugarins var blómaskeið í íslenskri knattspyrnu. Íslendingar áttu marga góða leikmenn sem flestir léku meira eða minna allan sinn feril hérna heima, í stað þess að stökkva til Noregs eða Belgíu um leið og færi gafst. Íslensku félagsliðin náðu oft ótrúlega góðum úrslitum í Evrópukeppni og flest liðin voru sókndjörf, öfugt við það sem tíðkast hafði fáeinum árum áður á meðan tveggja stiga reglan var við lýði.

Valsmenn urðu Íslandsmeistarar sumarið 1987. Þeir voru bestir, en Fram og ÍA komu skammt á eftir. Þegar dregið var í undanúrslit bikarkeppninnar virtist draumaúrslitaleikurinn innan seilingar. Fram fékk Þórsara í heimsókn meðan Valsmenn héldu í Garðinn að leika við Víði. Þórsarar voru engir aukvisar á þessum árum, en Fram vann frekar vandræðalítið 3:1. Í leikslok bárust hins vegar þær fréttir að Víðismenn hefðu unnið 1:0!

Dvöl Víðismanna í efstu deil árin 1985-87 er stöff í epíska bíómynd með Local Hero-sándtrakkinu frá Dire Straits. Þetta var ekki samtíningslið útlendinga og farandleikmanna. Nokkrir í hópnum höfðu spilað með Keflavík, en að öðru leyti var um heimamenn að ræða, þar á meðal bræðurna Daníel, Grétar og Vilhjálm Einarssyni. Árið áður hafði Víðir haldið sér uppi með því að sigra Þrótt og senda niður í sinn stað í lokaumferðinni á dramatískan hátt.

Fyrir löngu rakst ég á sögu Knattspyrnufélagsins Víðis á bókasafni og renndi í gegnum hana. Höfundur þess rits dró engan dul á að stærsta stund í sögu félagsins væri bikarúrslitaleikurinn gegn Fram, sem rakinn var ítarlega í máli og myndum.

Það hlýtur samt að vera dálítið skringileg tilfinning fyrir stuðningsmenn félags að hápunkturinn í sögunni skuli vera stórtap. Víðismenn áttu nefnilega aldrei séns á Laugardalsvelli. Eftir tæpan hálftíma var öll spenna úr sögunni og Fram komið með 3:0 forystu. Gummi Steins var þá búinn að skora tvisvar og Ragnar Margeirsson einu sinni. Viðar Þorkelsson og Ormarr Örlygsson bættu tveimur mörkum við í upphafi seinni hálfleiks, en þá þótti mönnum greinilega nóg komið og það sem eftir var léku Framarar boltanum sín á milli óáreittir á miðjunni.

Í minningunni þurfti Friðrik Friðriksson ekki að verja einn einasta bolta í leiknum og blaðaumfjallanir virðast styðja þá minningu. Um miðjan seinni hálfleikinn voru varnarmenn Víðis orðnir úrvinda og áhorfendur fengu á tilfinninguna Framarar gætu stungið sér í gegn að vild, en kysu að gera það ekki. Það var góð og íþróttamannsleg ákvörðun. Líklega hefðu flestir fótboltaáhugamenn fundið skítabragð af því að sjá smálið sigrað með mikið meiri mun í úrslitaleik.

Þrátt fyrir yfirburðina var Ásgeir Elíasson ekkert að spreða varamönnunum. Að venju notaði hann bara aðra skiptinguna. Arnljótur Davíðsson fékk hálftíma. Sjálf gamla landsliðskempan Janus Guðlaugsson mátti sætta sig við að sitja á bekknum allan tímann. Íhaldssemi Ásgeirs heitins í skiptingum var alla tíð með ólíkindum. Janusi var ekki skemmt og það er athyglisvert að hann er hvergi að sjá á myndinni í Íslenskri knattspyrnu sem tekin var af liðinu eftir verðlaunaafhendinguna.

Víðismenn fengu ekki langan tíma til að sleikja sárin. Lið þeirra var í botnsæti deildarinnar og þurfti að vinna báða síðustu leikina sína og vonast eftir hagstæðum úrslitum annars staðar til að halda sér uppi þriðja árið í röð. Fyrsta skrefið í flóttanum mikla stigu þeir á Akranesi, með því að vinna Skagamenn 3:4 í mögnuðum leik. Í lokaumferðinni skelltu þeir svo KR-ingum á heimavelli, 2:0. Fyrr um sumarið höfðu Víðimenn gert jafntefli í Frostaskjóli og slegið KR út úr bikarnum.

Víðismönnum tókst næstum hið ómögulega… en Valsmenn klúðruðu þessu fyrir þeim. Í lokaumferðinni gerði Valur aðeins markalaust jafntefli við Völsung á heimavelli. Norðanmenn héngu uppi á einu marki á markatölu. Skömm Valsara verður lengi uppi!

Samkvæmt opinberum tölum voru 311 áhorfendur á Hlíðarenda sem sáu Val halda Völsungi í deildinni og til að fylgjast með afhendingu Íslandsbikarsins. Það eru lægri tölur en vænta mætti á fámennasta leik efstu deildar á heilli leiktíð nú um stundir. Verði mönnum að góðu að trúa þeirri tölfræði.

(Mörk Fram: Guðmundur Steinsson 2, Ragnar Margeirsson, Viðar Þorkelsson, Ormarr Örlygsson)

Rautt: Fótboltasaga mín 29/100

9. mars 1991. Aston Villa 1 : Luton 2

Þótt mínir menn í Luton séu sem stendur í fimmtu efstu deild í Englandi, finnst mér ég geta gert kröfu til þess að sjá 2-3 leiki á ári í beinni útsendingu í sjónvarpi. Það er í raun svipuð tala og þegar við vorum í efstu deild fyrir rúmum tuttugu árum. Sjónvarpsleikirnir voru fáir og þá helst heimaleikir gegn „stóru liðunum“ í þeirri von að óvænt úrslit litu dagsins ljós. Einn af fáum útileikjum sem rataði í beina útsendingu RÚV var viðureignin á Villa Park snemma vors 1991.

Á þessum árum var Luton krónískt fallbaráttulið. Kenilworth Road var minnsti völlurinn í deildinni, velta félagsins var líklega sú minnsta sömuleiðis og stjórnendur annarra liða drógu ekkert dul á að þeim þætti algjör óþarfi að drattast með svona smáklúbb í eftirdragi á meðan lið eins og Newcastle væru föst í deildinni fyrir neðan með alla sína fjölmörgu stuðningsmenn.

Bjartsýnismenn vonuðust þó til að Luton gæti haldið sig frá allra svæsnustu fallbaráttunni leiktíðina 1990-91, því fjölgun stóð fyrir dyrum. Aðeins tvö lið færu niður og Derby County yrði vafalítið annað þeirra. Svo fór þó að Luton slapp ekki fyrr en á síðasta leikdegi, þriðja árið í röð. Sendi Sunderland niður með því að vinna Derby 2:0. Sá sigur er frægastur fyrir þær sakir að Mick Harford, gamla Luton-goðsögnin sem þá var orðinn leikmaður Derby, skoraði sjálfsmark með skalla.

Stuðningsmenn Luton hafa alla tíð viljað trúa því að „Stóri Mick“ hafi gert þetta viljandi og sjálfur hefur Harford gefið það fastlega í skyn í viðtölum. Ég er þó ekki sannfærður. Upptökurnar benda frekar til klunnalegs varnarleiks miðframherja sem átti helst ekkert að hætta sér til baka en djöfullegs samsæris. Hin sagan er samt betri.

Luton hafnaði sem sagt í átjánda sæti vorið 1991, en í sætinu fyrir ofan var Aston Villa. Varla er hægt að hugsa sér óstöðugra lið en Aston Villa á þessum árum. 1990 hafnaði Villa í öðru sæti á eftir Liverpool og varð aftur í öðru sæti 1993. Mannskapurinn var líka öflugur þrátt fyrir fallbaráttuna. David Platt og Tony Cascarino hefðu komist í hvaða lið sem er, svo dæmi séu tekin.

Svipmyndir frá leiknum má finna á Jútúb og ættu að fylla hvern mann af tíunda áratugs nostalgíu. Luton-menn voru gestir og spiluðu í samræmi við það. Lágu til baka og beittu skyndisóknum, enda með leikmenn innanborðs sem gátu ógnað hratt. Aðalmarkaskorarinn var Lars Elstrup, danskur landsliðsmaður og lengi dýrast leikmaður í sögu félagsins. Hann gekk síðar af göflunum – meira um það í seinni pistlum.

Sá frýnilegi Ian Dowie var uppáhald stuðningsmannanna. Danny Wilson var seigur á miðjunni. Hann er væntanlega frægastur fyrir að hafa þjálfað bæði Sheffield United og Wednesday. Besti leikmaðurinn að mínu mati var þó Kingsley Black. Það er einn af mörgum góðum leikmönnum sem Brian Clough tókst að eyðileggja.

Black átti sendinguna fyrir markið sem Derek Mountfield setti í eigið net og kom Luton í 1:0. Látið dagsetninguna ekki blekkja ykkur. Hjá hr. Mountfield var alltaf Mottumars. Mark Pembridge skoraði svo eitt af mörkum ársins. Pembridge var gríðarlega efnilegur og rauðhærður leikmaður frá Wales. Hann kom víða við með rauða kollinn sinn og spilaði meðal annars í eitt ár með Benfica í Portúgal. Þar hefur hann væntanlega þurft að nota sólarvörn númer 1800.

Tony Cascarino minnkaði muninn, en hafði áður klúðrað vítaspyrnu. Ætlaði að senda Chamberlain í annað hornið og negla á mitt markið. Markvörðurinn lét ekki plata sig, stóð kyrr og varði auðveldlega. Það er eins með svona víti og þegar menn vippa yfir markmanninn í handboltanum: eins og það er svalt þegar það gengur upp er það lúðalegt þegar það klikkar.

Chamberlain fær almennt ekki háa einkunn hjá stuðningsmönnum Luton og vissulega stóð hann í skugga forvera sinna, manna eins og Les Sealey og Andy Dibble. Ætli akkilesarhæll hans hafi samt ekki frekar verið sá að hann leit ekkert sérstaklega íþróttamannslega út, heldur minnti meira á barnaskólakennara. Og svo fór hann til Watford. Það er aldrei vinsælt.

Hvað sem því líður fór Chamberlain á kostum í þessum leik og átti stærstan þátt í sigrinum og þar með þremur stigum sem áttu svo sannarlega eftir að reynast dýrmæt í lok tímabils.

(Mark Aston Villa: Tony Cascarino. Mörk Luton: Derek Mountfield (sjálfsmark), Mark Pembridge – mundi ég eftir að taka fram að hann væri rauðhærður?) 

 

Úrhellið: Fótboltasaga mín 28/100

16. september 2001. KR 2 : Fram 1

Sumarið 2001 var ég í Edinborg að skrifa ritgerð um sagnfræðilegar deilur um orsakir Svarta dauða. Á leikdögum hjá Fram fór ég í næsta tölvuver og rífressaði Textavarpið. Reyndar voru einhverjar smátextalýsingar á Vísi, ein og ein setning um gang leiksins á 5-10 mínútna fresti. Það var frústrerandi leið til að fylgjast með fótbolta – og því hvimleiðari þar sem Fram átti hörmungartímabil.

Okkur var spáð falli fyrir mót og undirbúningstímabilið lofaði ekki góðu. Á þessum árum voru nánast allir útlendingar sem fengnir voru til liðsins slappir. Flestum ber þó saman um að Súper-Maríóbræður hafi skrapað botninn. Þeir voru reyndar ekki bræður, heldur tveir Króatar sem báðir hétu Maríó að fornafni og voru sendir heim eftir þrjár umferðir. Ég hef hitt menn sem segja að þetta hafi ekki verið algalnir leikmenn, en sagan hefur ekki farið um þá mjúkum höndum.

Eftir tíu umferðir af átján var Fram með fjögur stig. Glasiðerhálffullt-týpurnar reyndu þó að benda á að liðið hefði verið ferlega óheppið. Stærsta tap Framara þetta sumarið var 4:2 gegn Fylki, annars voru þetta eins marks ósigrar.

Í hugum flestra voru Framarar dauðadæmdir. Spurningin væri helst hvort liðið hafnaði fyrir ofan eða neðan Breiðablik. En frá og með elleftu umferð byrjaði landið að rísa. Sigrar á Blikum, í Vestmannaeyjum og í Grindavík, þokuðu stigatölunni upp. Á síðarnefnda staðnum endaði varnarmaðurinn Ingvar Ólason í markinu og hélt hreinu! Fram pakkaði saman Fylki og gerði jafntefli við FH í Kaplakrika – úrslit sem settu bæði lið úr leik í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Öllu þessu fylgdist ég með í gegnum Textavarp.is.

Þann þrettánda september kom ég aftur heim til Íslands. Þorstinn í að komast á íslenskan fótbolta hefur aldrei verið meiri – og það voru bara tvær viðureignir eftir. Sú fyrri gegn KR-ingum í Frostaskjóli.

Stemningin fyrir leikinn var sú að merkilegir atburðir væru í uppsiglingu. Framarar voru á blússandi siglingu, en KR-liðið sökk eins og steinn. Eftir níu leiki voru KR-ingar með ellefu stig, en í næstu sjö leikjum bættust bara fimm í sarpinn. Í leiknum á undan gerði KR markalaust jafntefli við botnlið Breiðabliks.

Hrun KR-inga sumarið 2001 var magnað. Liðinu var spáð auðveldum Íslandsmeistaratitli. Liðið sem fékk næstflest atkvæðin í kjörinu fyrir mót var Grindavík! – Mannskapurinn virtist fínn, en það var bara eitthvað sem ekki virkaði. Og núna sáu menn að ekkert nema náttúruhamfarir gætu komið veg fyrir að Framarar ynnu í Frostaskjóli og sendu KR-inga hálfa leið niður. Skemmtilegt er að velta því fyrir sér hvort íslenskur fótbolti hefði þróast með mikið öðrum hætti ef sú hefði orðið raunin?

En já, það var þetta með náttúruhamfarirnar…

Ég hef aldrei horft á fótboltaleik við jafn fáránlegar aðstæður og á KR-vellinum þann sextánda september 2001. Eftir úrhellisrigningu var völlurinn á floti. Stórir hlutar hans voru undir pollum. Það var útilokað að rúlla knetti eftir vellinum fáeina metra, nema helst með því að fleyta kerlingar. Það var slagveðursrigning allan tímann og ekki hundi út sigandi, hvað þó knattspyrnumönnum. Það var út í hött að leikurinn væri ekki tafarlaust flautaður af.

Daginn eftir kom í ljós að misskilningur dómarans réð ákvörðuninni. Reglur KSÍ kveða á um að lokaleikir á Íslandsmóti skuli settir niður á sama tíma, í það minnsta þeir sem ráða úrslitum um sigur eða fall. Út frá þessu taldi dómarinn að sér væri óheimilt – eða í það minnsta væri honum afar örðugt – að stöðva leikinn því þá yrði jafnframt að stöðva alla hina leikina. Þetta var rangtúlkun, enda var viðureign ÍA og Fylkis á Akranesi á sama tíma blásin af án þess að sú ákvörðun hefði áhrif á aðra leiki.

Í slagviðrinu var það hrein hending hvernig leikurinn myndi fara. Heimspekingurinn Andri Fannar Ottósson kom Frömurum reyndar yfir í fyrri hálfleik, en eftir hlé hafði frekar bætt í fárviðrið og einn KR-ingurinn skoraði tvisvar. Hann hefur væntanlega verið rauðhærður og barnungur – þeir eru það einhvern veginn allir.

Kallið mig bitran Vesturbæjar-Framara, en KR hefði ALDREI unnið Fram við almennileg leikskilyrði þetta skrítna haust. Það var einfaldlega eitthvað mikið að hjá þessu annars velskipaða liði. Auðvitað hefði KR getað rifið sig upp í lokaumferðinni og unnið í Grindavík eins og raunin varð – og fallnir Blikar haldið sínu striki og sent Val niður… en ég er jafnsannfærður um að þetta hefði ekki spilast þannig. Veðurguðirnir björguðu KR.

En mér var nokk sama um það vikunni síðar þegar Framarar unnu Keflavík í lokaumferðinni og tryggðu sér áttunda sætið. Sjáum til hvort ég nenni að fjalla um þann leik við tækifæri.

(Mark Fram: Andri Fannar Ottósson. Mörk KR: Arnar Jón Sigurgeirsson 2)

Tárin: Fótboltasaga mín 27/100

1. september 1985. Fram 1 : Þróttur 1

Ég er hættur að gráta sorgartárum yfir fótboltaúrslitum. Áratugareynsla og harðnað hjarta hafa gert það af verkum að ég þoli jafnvel sárustu ósigra án þess að brynna músum, þótt auðvitað bölvi maður í hljóði. Ég man raunar ekki hvenær ég skældi síðast yfir fótboltatapi, en ég man hvenær ég grét fyrst.

Eins og áður hefur komið fram, var sumarið 1985 það fyrsta sem ég fylgdist virkilega með íslenskum fótbolta. Ég var tíu ára og Framarar voru langflottastir. Við rúlluðum upp Reykjavíkurmótinu, Meistarakeppni KSÍ, urðum bikarmeistarar og gerðum góða hluti í Evrópukeppninni. Allt gekk upp… nema Íslandsmeistaratitillinn.

Um mitt mót virtist Fram ætla að stinga alla aðra af í baráttunni um Íslandsbikarinn og tíu ára guttinn ég var himinsæll. Svona yrði líf mitt sem fótboltaunnanda alltaf! Ég var enn of ungur og blautur á bak við eyrun til að sjá hættumerkin – að Framliðið væri of ungt og reynslulítið og að andstæðingarnir hefðu seigluna og söguna á sínu bandi.

Forskotið mikla skrapp saman þegar Framarar fóru í gegnum vondan kafla um mitt mót. Í fimmtándu umferð mistókst okkur að ná tveggja stiga forskoti á toppnum með jafntefli á KR-vellinum, en vorum þó stiginu á undan Valsmönnum þegar þrír leikir voru eftir: tveir gegn liðum úr neðri hlutanum og svo mögulegur úrslitaleikur í Laugardalnum gegn Skagamönnum.

Fyrsti þessara leikja var gegn fallkandídötum Þróttar sem höfðu byrjað ágætlega, en misstu svo aðalmarkaskorara sinn Pál Ólafsson í atvinnumennsku í handbolta og sigldu eftir það hraðbyri niður um deild. Leikið var á Valbjarnarvelli, þótt komið væri fram í september. Aðalleikvangurinn í Laugardal var nefnilega furðuoft óleikfær á skringilegustu tímum á þessum árum.

Samkvæmt uppgefnum tölum var ekki nema 721 áhorfandi á leiknum. Samkvæmt sömu heimildum sáu innan við 500 manns Valsmenn koma sér í toppsætið með sigri á Víði fyrr í sömu umferð. Þessum tölum tek ég með miklum fyrirvara, enda höfðu knattspyrnufélög talsverðan hvata til að ljúga niður áhorfstölur á þessum árum. Með því að gefa upp færri áhorfendur var hægt að skjóta undan aðgangseyri sem nota mátti til að borga leikmönnum smáþóknun í brúnum umslögum undir borðið. Í dag eru knattspyrnudeildir hins vegar reknar fyrir styrktarfé en ekki miðasölu og hvatinn orðinn í hina áttina: að ljúga upp áhorfendatölurnar.

Framarar mættu sigurvissir til leiks gegn Þrótti, en á upphafsmínútunum reið ógæfan yfir. Ásgeir Elíasson, hinn spilandi þjálfari Fram og maðurinn sem komið hafði Þrótti upp í efstu deild, skoraði fáránlegt sjálfsmark með því að skalla fram hjá Friðriki Friðrikssyni markverði. Með eins marks forgjöf tókst Þrótturum að verjast allt til loka. Fengu reyndar á sig jöfnunarmark frá Gumma Steins undir lok fyrri hálfleiks en slappir og bitlausir Framarar fóru aldrei nærri því að skora sigurmarkið. Lokatölur 1:1.

Um leið og flautað var til leiksloka vissi ég að þetta væri búið. Valsmenn myndu aldrei henda þessu frá sér í lokaleikjunum. Það stóð heima og Framarar höfnuðu að lokum í fjórða sæti – nokkuð sem talið hefði verið fráleitt um mitt sumar.

Ég var eyðilagður. Í fyrsta – en fráleitt síðasta skipti á löngum ferli fótboltagláps – upplifði ég djúpstæð vonbrigði, höfnun og jafnvel svik. Ég kenndi Ásgeiri Elíassyni um. Hvað var hann að spila ennþá, 36 ára gamlinginn sem löngu ætti að vera farinn í límverksmiðjuna? Af hverju gátu Gummi Steins, Gummi Torfa eða Ómar Torfason – allt fyrsta klassa markaskorarar – ekki drullast til að brjóta niður vörnina hjá Þrótti? ÞRÓTTI!!! Fokkíngs Þrótti!!! Liðinu sem pabbi hélt með og var sönnun þess að hann vissi ekkert um fótbolta???

Ég grét mig í svefn þetta kvöld. Það voru þung tár.

(Mark Fram: Guðmundur Steinsson. Mark Þróttar: Ásgeir Elíasson (sjálfsmark))

ÓL: Fótboltasaga mín 26/100

26. september 2000. Chile 1 : Kamerún 2

Haustið 2000 fór ég til náms til Edinborgar í Skotlandi. Mig langaði að læra félagsfræði vísindaþekkingar (hroðvirknisleg þýðing á Sociology of Scientific Knowledge) og lét Skúla Sigurðsson vin minn benda mér á vænlega skóla. Niðurstaðan var sú að Lancaster, Edinborg eða Holland kæmu helst til greina. Ég valdi Edinborg, einkum út af borginni sjálfri.

Ég hlakkaði mikið til að búa í erlendri borg og fékk snemma þá hugmynd að snjallt væri að mæta tímanlega og taka viku í að kynnast borginni sem túristi áður en skólinn byrjaði. Sú áætlun reyndist nokkuð gölluð.

Stúdentagarðarnir opnuðu ekki fyrr en daginn áður en innritunin í skólann hófst. Ég þurfti því að finna mér ódýrt gistiheimili, sem var ekki alveg jafn auðvelt í gegnum netið árið 2000 og í dag. Ég endaði á Bed & Breakfast í Leith, sem reyndist hafa krítað nokkuð liðugt í lýsingunni á því hversu miðsvæðis það væri. Tími fartölva með þráðlausu interneti á hverju horni var ekki runninn upp. Ég varði því viku í frekar ómarkvissa göngutúra um Leith og Edinborg, eyddi stórfé á internetkaffihúsum og las blöðin á frekar sjabbý pöbbum í grennd við gistiheimilið.

Herbergið var ekkert sérlega vistlegt, en þó með sjónvarpstæki. Það kom sér vel þar sem Ólympíuleikarnir í Sidney stóðu yfir og hægt að drepa tímann með því að sitja og góna. Strax fyrsta kvöldið horfði ég á undanúrslitaleik Chile og Kamerún í fótboltakeppninni.

Fótboltakeppni ÓL er bastarður. Lengi vel átti að heita að hún væri áhugamannakeppni, sem þýddi að Austantjaldsríkin tefldu fram sterkum liðum og unnu alltaf. Danir, Norðmenn og Íslendingar voru lengi uppteknir af því að vera áhugamenn og tóku Ólympíukeppnina því alvarlega – Ísland var t.a.m. líklegra til að taka þátt í forkeppni ÓL en HM eða EM.

Síðar var reglunum breytt og fótboltakeppninni breytt í ungmennamót, þar sem U23-ára liðin kepptu en máttu þó styrkja leikmannahópinn með þremur eldri mönnum. Útkoman varð skringilegur bræðingur þar sem keppnisþjóðir taka mótið mjög misalvarlega. Afríkuþjóðir hafa lagt mikla áherslu á ÓL, en sterkari Evrópulöndin ekki. Einhvers staðar las ég að Brasilía leggi mjög mikið upp úr að vinna Ólympíuleika, því þann bikar vanti í safnið. Argentínumenn eru á hinn bóginn mun afslappaðri gagnvart þessum titli.

Sumarið 2000 ætlaði Chile sér að vinna. Ivan Zamorano var einn af eldri leikmönnunum í hópnum og af öðrum leikmönnum mætti nefna David Pizzaro. Í riðlakeppninni vann Chile góðan sigur á Spánverjum og Nígeríumenn í fjórðungsúrslitum, 4:1. Ég gat vel unað Chile-mönnum að vinna keppnina og hélt með þeim.

Undanúrslitaleikurinn reyndist frekar leiðinlegur, eins og stundum verður með slíka leiki. Bæði lið voru varfærin og lögðu mesta áherslu á að halda hreinu. Þegar Kamerún skoraði sjálfmark þegar tæpt kortér var eftir, virtist björninn unninn. Chile-menn ákváðu hins vegar að pakka í vörn og gáfu eftir öll völd á miðjunni. Hverjum manni, öðrum en þjálfara þeirra, mátti vera ljóst hvað gerðist næst.

Þegar fimm mínútur voru eftir jafnaði Kamerún. Þá reyndu Chile-menn að færa sig aftur fram á völlinn, en öll spilamennska þeirra hafði riðlast og á lokamínútunni fengu Afríkumennirnir víti og Lauren skoraði sigurmarkið. Hágrátandi Chile-menn lágu út um allan völl í leikslok en hinir dönsuðu. Kamerún vann að lokum gullverðlaunin eftir sigur í vítakeppni á Spánverjum. Ekki horfði ég á þann leik, hef líklega verið vafrandi milli internetkaffihúsa í Old Town að lesa blogg og sjá hvort Beta rokk eða Katrín.is væru búnar að setja inn nýjar færslur. Því þannig gerði maður nefnilega árið 2000.

(Mark Chile: Patrice Abanda (sjálfsmark). Mörk Kamerún: Patrick M´Boma, Lauren)

Proppé: Fótboltasaga mín 25/100

27. júní 2009. Fjölnir 2 : Fram 1

Fyrir utan kvótapeningana, er það tvennt sem heldur lífi í Mogganum: dána fólkið og íþróttirnar. Þeir sem vilja fylgjast með minningargreinum og andslátsfregnum komast ekki af án Moggans og það sama gildir um þá sem vilja lesa íþróttafréttir á pappír.

Íþróttafréttir Fréttablaðsins hafa hins vegar alltaf verið furðuleg samsuða. Snemma ákvað blaðið að reyna ekki að gera öllum leikjum skil, heldur taka út eins og einn leik í umferð auk tölfræði úr öðrum viðureignum og vísa svo áhugasömum bara á Vísi eftir frekari upplýsingum. Þetta er væntanlega útpæld nálgun.

Sumarið 2009 var Kolbeinn Proppé vinur minn starfandi blaðamaður á Fréttablaðinu. Í einhverju bríaríi í spjalli við kaffivélina féllst hann á að taka nokkrar fótboltavaktir, sennilega bara til að geta sagst hafa verið íþróttafréttaritari. Einn af þessum leikjum – líklega þó ekki sá fyrsti – var viðureign Fjölnis og Fram í níundu umferð.

Fjölnisliðið festist strax við botninn þetta sumar, var meira og minna í fallsæti alla leiktíðina og endaði að lokum neðst í deildinni. Framarar sigldu hins vegar lygnari sjó. Töpuðu of mörgum stigum í fyrri hlutanum en enduðu loks í fjórða sæti, sem var vel ásættanlegt.

Leikurinn í Grafarvoginum var daufur. Framarar eitthvað sterkari en það var samt óskaplega lítið að gerast. Áhorfendum leiddist og hópur táningsstráka í Fjölnisgöllum stytti sér stundir með því að syngja háðulega söngva um Ívar Björnsson – Fjölnismanninn sem gengið hafði í raðir Fram fyrir tímabilið. Pjakkarnir höfðu greinilega ekki heyrt um hugtakið að jinxa. Auðvitað hlaut Ívar að skora eftir þetta og koma Fram yfir undir lok fyrri hálfleiks. Jónas Grani jafnaði fyrir FJölni eftir hlé, en þegar líða tók á leikinn dró af heimamönnum og að lokum skoraði Almarr Ormarsson sigurmark Fram, 1:2.

Ég var enn á bílaplaninu við Fjölnisvöllinn þegar Kolbeinn hringdi til að fá mitt álit á leiknum. Ég gaukaði að honum einhverjum punktum, en annars vorum við sammála um flest. Mann leiksins töldum við vera Sam Tillen, sem fékk hæstu einkunn eða 8 af 10 mögulegum.

Tillen kom til Fram árið áður og átti stóran þátt í að Framararnir náðu þriðja sæti það sumar. Hann var grjótharður bakvörður með flottar sendingar, gat tekið aukaspyrnur og hornspyrnur og skapað með þeim meiri usla en Framarar höfðu mátt venjast lengi. Það merkilega var hins vegar að íþróttafréttamenn virtust ekki meta hann mikils.

2008 og fram eftir sumri 2009 fékk Tillen sjaldnast merkilegar einkunnir hjá Mogganum eða Fréttablaðinu. Í fótboltaþáttunum í sjónvarpinu var hans sjaldnast getið, heldur fengu menn eins og Auðun Helgason og Paul McShane alla athyglina.

Þessi þögn var svo sem skiljanleg. Í fyrsta lagi þurfa erlendir leikmenn að standa sig betur en heimamenn til að fá athygli og í öðru lagi var Tillen ekki týpan sem fréttamenn heilluðust af. Hann var orðljótur, sífellt bölvandi og ragnandi, sendi dómurum og andstæðingum tóninn og var mjög gjarn á að hefna sín. Ef andstæðingur komst upp með að brjóta á Sam vissi maður að í næstu sókn fengi hann það óþvegið og gula kortið færi á loft. Ef sá brotlegi hafði svínað á Joe litla bróður hans var spurning um hvort liturinn á spjaldinu yrði rauður.

Þarna um sumarið vorum við Fram-stuðningsmennirnir farnir að svekkja okkur á því hvað sumir okkar manna væru ekki metnir að verðleikum. Gilti það sérstaklega um Tillen og Halldór Hermann Jónsson, sem var ekki flinkasti maðurinn í deildinni með bolta en gat hlaupið þindarlaust á miðjunni og kveinkaði sér aldrei.

Fjölnisleikurinn var fyrsta skiptið þar sem Sam Tillen fékk hæstu einkunn og mig minnir hálfpartinn að hún hafi dugað honum til að verða leikmaður umferðarinnar. Og það merkilega var að í kjölfarið virtist hann komast á kortið ef svo má segja. Í stað þess að vera um eða fyrir neðan miðjan hóp í einkunnagjöf Framara, varð hann alltaf meðal þeirra efstu – og það án þess að sérstakur munur sæist á leik hans. Þegar álitsgjafarnir í fótboltaþáttunum vildu hljóma gáfulega fóru þeir að segja eitthvað í átt við: „Og svo er nú einn leikmaður í þessu Framliði sem mér hefur alltaf fundist mjög vanmetinn og gleymist oft – það er Sam Tillen!“

Kolbeinn entist ekki marga leiki sem fótboltaskríbent. Þetta var illa borgað, óspennandi að eyða þessum fáu kvöldum þar sem hann var á frívakt í að fylgjast með misskemmtilegum fótboltaleikjum – en það sem mestu skipti, þá fylgdi alls konar vesen að þurfa að halda úti textalýsingum á Vísi meðan á leik stóð, milli þess að safna hvers kyns tölfræði.

En eftir skammvinnan íþróttafréttaraferil getur hann þó ornað sér við að hafa uppgötvað Sam Tillen.

(Mark Fjölnis: Jónas Grani Garðarsson. Mörk Fram: Ívar Björnsson, Almarr Ormarsson)

Vítabaninn: Fótboltasaga mín 24/100

14. júní 1998. FH 1 : KVA 0

Minnið er skrítið fyrirbæri. Í mörg ár hef ég, í tengslum við stórmót í handbolta, rifjað upp þegar ég sá línumanninn Róbert Gunnarsson standa í marki Austfirðinga og verja þrjú víti í sama leiknum. Leikurinn hafi verið á ÍR-velli og þrátt fyrir hetjudáðina tapaði lið Róberts illa. Ástæðan fyrir að ég sá ÍR : KVA var sú að ég skrifaði um leikinn fyrir Moggann.

Þessi saga var vitaskuld tilvalin í þessa hundraðleikja sjálfsævisögu, svo ég ákvað að slá leiknum upp á timarit.is. Og viti menn, ÍR sigraði KVA 6:2 í Breiðholtinu sumarið 1999 og ég skrifaði um leikinn.

1999 var skrítið tímabil í næstefstu deild. Fylkir stakk af á toppnum, en fjögur lið börðust jafnri baráttu um annað sætið: FH, Stjarnan, ÍR og Dalvík – sem er magnað ef horft er til þess hve ólík staða þessara liða er í dag, fáeinum árum síðar.

KVA, sameiginlegt lið Vals Reyðarfirði og Austra Eskifirði, hafnaði hins vegar á botninum og rann síðar ásamt Þrótti Neskaupstað inn í nýtt lið Fjarðabyggðar.

Nema hvað, það var enginn Róbert Gunnarsson á leikskýrslunni í Breiðholti. Jón Otti Jónsson, stóð milli stanganna. Hann hafði verið aðalmarkvörður Stjörnunnar löngu fyrr. Og ekkert í umsögn minni um leikinn benti til þess að vítaspyrnur hefðu farið í súginn í hrönnum. Þetta var eitthvað skrítið…

Sumarið 1999 var Róbert Gunnarsson hættur í fótbolta og búinn að snúa sér alfarið að handboltanum. En sumarið áður hafði hann vissulega verið í markinu hjá KVA og unglingalandsliðinu. Það ár stóð KVA sig vel, fékk 24 stig og var í fjögurra liða pakka fyrir neðan toppliðin en fyrir ofan afleitt Þórslið og HK. Og það sumar mætti KVA á Kaplakrika.

Fréttaritari Moggans á leik FH og KVA var enginn annar en Stefán Pálsson. Það voru fáir á vellinum. FH-ingar höfðu mætt sigurvissir í mótið undir stjórn Péturs Ormslevs og sannarlega með mannskap sem duga átti til að fara upp. En þrír af fyrstu fjórum leikjunum töpuðust, svo sigur gegn nýliðunum að austan var nauðsyn.

FH var miklu sterkara. KVA hafði þá einu áætlun að pakka í vörn og veðja á skyndisóknir, en þegar Hörður Magnússon skoraði eftir tæpt kortér var ljóst að austanmenn færu tómhentir heim. Undir eðlilegum kringumstæðum hefði FH átt að skora nokkur mörk í viðbót, enda varðist KVA alltof aftarlega á vellinum og hleyptu andstæðingunum nánast óáreittum upp að vítateig – en Róbert varði og varði.

Hápunktur leiksins var þegar FH fékk víti. Róbert varði en boltinn fór aftur út í teiginn fyrir fætur eins FH-ingsins sem var snarlega sparkaður niður og önnur vítaspyrna dæmd. Róbert varði aftur. Hvort tveggja voru samt ágæt víti.

Auðvitað varð þessi tvöfalda vítamarkvarsla aðalumfjöllunarefnið í stuttri Moggaumsögn minni og DV-fréttaritarinn gerði það sama. Mér fannst þetta þeim mun merkilegra vegna þess að ég var stoltur af mínum manni – Róbert var í grunninn Fylkismaður í fótbolta en byrjaði snemma í handboltanum hjá Fram. Hann hefði vafalítið náð landsleikjum í fótbolta ef sú íþrótt hefði orðið fyrir valinu.

En ekki skil ég hvernig mér tókst að fjölga vörðu vítunum úr tveimur í þrjú í minningunni, færa leikinn milli ára og skipta FH út fyrir ÍR…

(Mark FH: Hörður Magnússon)

Skrópið: Fótboltasaga mín 23/100

 18. september 1991. Fram 2 : Panathinaikos 2

Í Hagaskólanum var heljarmikið punktakerfi fyrir mætingu, þar sem fært var inn í kladda og sérstakir kladdaverðir höfðu það hlutverk að koma gögnunum til skólaskrifstofunnar sem færði merkingarnar inn í miðlægt bókhald. Fyrir að koma of seint var einn punktur og tveir fyrir skróp í tíma – þó aldrei meira en átta fyrir heilan dag – ef ég man rétt. Með óaðfinnanlegri mætingu í hálfan mánuð gátu þessir punktar fyrnst.

Punktatöflurnar lágu frammi á skrifstofu öllum til aflestrar. Hverjum og einum bar að fylgjast með sinni punktastöðu og þarna gátu hnýsnir líka fengið gægjuþörfinni fullnægt. Skrópagemlingar og svefnpurrkur nutu engrar persónuverndar.

Það var með þennan bakgrunn sem ég byrjaði í MR haustið 1991. Skólinn var tvísetinn og við busarnir látin vera eftir hádegi í skólunum. Það þýddi að suma daganna var kennslu að ljúka klukkan hálf sjö um kvöldið í niðamyrkri. Sú reynsla ein og sér dugir til að gera mig skeptískann á klukkufrumvarp Bjartrar framtíðar.

Ég byrjaði fullur samviskusemi. Glósaði nákvæmlega og mætti í alla tíma. En svo kom leikurinn við Panathinaikos…

Á flóðljósalausum Laugardalsvelli og vafalítið með sjónvarpsútsendingu í Grikklandi í huga, var leikur Fram og Panathinaikos í fyrstu umferð Evrópukeppni meistaraliða settur niður kl. 17:30 á miðvikudegi. Það rakst á við síðustu kennslustundir dagsins: ég yrði að skrópa!

Ekki veit ég hvernig það atvikaðist, en einhverra hluta vegna fann ég mig knúinn til að fara til Árna Indriðasonar sögukennara og tilkynna honum að ég gæti ekki mætt í kennslustundina seinna um daginn. Mögulega hafði ég rekist á hann og ímyndað mér að þá þyrfti ég að skýra þessi fyrirhuguðu forföll – mögulega taldi ég mér trú um að gamli handboltajaxlinn myndi segja: „Blessaður vertu, þú ferð nú ekki að missa af þessum stórleik!“ – En samtalið varð vandræðalegt. Hann sendi mér alvörugefið augnaráð og tók fram að þetta teldust ekki gildar ástæður og ég myndi fá punkt í kladdann. Í eitt augnablik íhugaði ég að hætta við allt saman.

En svo leið að leiknum. Ég hljóp út úr skólanum og hoppaði upp í leigubíl (sem taldist þó hámark flottræfilsháttarins þegar maður var sextán). Slapp inn á völlinn um leið og flautað var til leiks.

Það má endalaust deila um hver sé besta frammistaða íslensks félagsliðs í Evrópukeppni og mörg góð lið geta gert tilkall til þess titils. Leikir Fram gegn Panathinaikos hljóta þó alltaf að fara nærri toppnum. Grikkirnir lágu til baka og beittu skyndisóknum, meðan Framararnir sóttu stíft. Niðurstaðan varð 2:2 jafntefli, sem gestirnir gerðu sig hæstánægða með.

Þeir grísku skoruðu fyrsta markið, en Fram jafnaði. Það gerði Jón Erling Ragnarsson sem var þessi dæmigerði íslenski markaskorari frá níunda áratugnum. Við erum eiginlega alveg hætt að framleiða þá týpu.

Fram skoraði svo aftur. Harðjaxlinn Pétur Arnþórsson þrumaði í netið eftir undirbúning Baldurs Bjarnasonar áður en Grikkir jöfnuðu.

Íslensku blöðin hrósuðu Pétri Ormslev og nafna hans Arnþórssyni mest fyrir leikinn. Sjálfum fannst mér Baldur Bjarnason bestur, þótt hann væri í raun ekki nema á hálfum dampi vegna þrálátra meiðsla. Í seinni leiknum, í Aþenu, mætu 46 þúsund áhorfendur – ætli það sé met á leik með íslensku félagsliði? Þar fengu Framarar fjölmörg góð tækifæri til að slá gríska stórliðið úr keppni, en markalaust jafntefli varð niðurstaðan og Panathinaikos skreið áfram á útivallarmarki. Bara tilhugsunin um sambærileg úrslit í leik íslensku og grísku meistaranna væri fráleit í dag.

En ég skrópaði sem sagt í minni fyrstu menntaskólakennslustund til að mæta á völlinn og varð hinn vandræðalegasti næst þegar ég hitti Árna Indriðason. Þessi háttvísi átti hins vegar eftir að brá af mér hratt. Nokkrum dögum síðar var ég plataður í ræðulið og byrjaði þá þegar að skrópa í tímum – og mjög fljótlega tileinkaði ég mér það hugarfar að mæting í tíma væri frumlegur valkostur sem vel mætti íhuga ef ekki lægju fyrir einhver verkefni í félagslífinu.

(Mörk Fram: Jón Erling Ragnarsson, Pétur Arnþórsson. Mörk Panathinaikos: Louis Chrisodoulou 2)

Battarnir: Fótboltasaga mín 22/100

25. janúar 1987. Fram 11 : HSÞ-b 4

Á níunda áratugnum fylgdi fótboltaárið almanaksárinu. Reykjavíkurmótið innanhúss fór fram í fyrstu viku ársins. Næstu helgarnar í mánuðinum voru svo fráteknar fyrir keppni á Íslandsmótinu sem fór fram í fjórum deildum í karlaflokki. Þar sem allir leikirnir fóru fram í Laugardalshöllinni, var þetta stíf dagskrá frá morgni til kvölds.

Fótboltahallirnar eru löngu búnar að drepa innanhússknattspyrnuna. Einhver félög streða reyndar við að keppa í Futsal, en það er ekki sama sport og ég fylgdist með fyrir aldarfjórðungi. Gamli innanhússboltinn var leikinn með handboltamörkum á velli sem afmarkaður var með lágu þili sem nota mátti sem batta. Leikmennirnir í markinu máttu ekki nota hendur, fyrir vikið stilltu öll lið fram útispilurum.

Ég gat varið heilu dögunum í Laugardalshöllinni á þessum túrneringum. Stundum með Baldri vini mínum, stundum einn. Önnur og þriðja deildin á Íslandsmótinu voru leiknar eina helgina en sú fyrsta og fjórða þá næstu. Þá fóru fyrstu leikirnir fram á föstudagskvöldinu, riðlakeppnin var kláruð á laugardeginum og úrslitakeppnin var svo leikin á sunnudag. Með því að hanga í Höllinni lon og don sá maður til skiptis efstudeildarliðin með frægu leikmönnunum spila og svo félög frá smábæjum á borð við Hafnir og Stokkseyri. Það var hálfklikkaður kokteill.

Keppnisfyrirkomulagið var skemmtilegt. Í hverri deild voru sextán lið í fjórum fjögurra liða riðlum. Þau léku hvert við annað, botnliðið féll niður um deild en toppliðið færðist upp. Í fyrstu deildinni fóru tvö efstu lið hvers riðils í fjórðungsúrslit og léku með útsláttarfyrirkomulagi að meistaratitli. Hver leikur skipti því máli. Maður gat séð lið berjast fyrir fjórðungsúrslitasæti en fá á sig mark á lokasekúndunum og falla niður um deild.

Annað sem gerði battaboltann spennandi var hvað hefðbundin styrkleikahlutföll vildu riðlast. Að sönnu voru bestu liðin í útiboltanum hverju sinni líkleg til afreka í þessari skrítnu grein, en svo voru nokkur smærri lið sem lögðu meiri rækt við greinina. Þannig voru Þróttarar um árabil eitt öflugasta liðið í innibolta þrátt fyrir misjafnt gengi utanhúss. Furðulegra tilfelli var þó HSÞ-b.

Íþróttafélögin í Þingeyjarsýslum skipta sér (eða skiptu amk) niður í A, B og C lið eftir staðsetningu. A-svæðið var strjálast og afskekktast og sendi því sjaldnast lið í landskeppni. B og C voru virkari. Hvers vegna mönnum datt ekki í hug að gefa þessum bræðingsliðum aðeins minna stofnanaleg nöfn er mér hulin ráðgáta.

Árið 1987 var HSÞ-b með lið í norðausturriðli þriðju deildar, sem kolféll það sumar og átti ekki afturkvæmt síðan. Sama ár lék liðið hins vegar í fyrsta sinn í efstu deild í innanhússboltanum og átti í mörg ár eftir að halda sér í efstu og næstefstu deild. Eitt árið sendu þeir meira að segja Valsmenn niður um deild. Þá hló marbendill.

HSÞ-b var einmitt lið sem ég hlaut að verða sökker fyrir. Félag sem ég gat ekki einu sinni staðsett á landakorti að spila meðal þeirra bestu. Leit í leikmannalista HSÞ-b frá þessum árum gefur ekki mörg kunnugleg nöfn. Þó var Róbert Agnarsson í liðinu, hann hafði spilað með Víkingum nokkrum árum fyrr og orðið Íslandsmeistari í tvígang. Sé á KSÍ-vefnum að hann átti landsleik að baki, markalaust jafntefli í vináttuleik gegn Bandaríkjunum á Laugardalsvelli. Það hefur væntanlega verið draumaleikur hins hlutlausa áhorfanda.

Framarar unnu sinn riðil, sem hafði á að skipa ÍK, Gróttu og Selfossi – allt neðrideildarliðum. Í fjórðungsúrslitunum var svo makasúpan gegn HSÞ-b. Loks kom röðin að fyrstudeildarliði í undanúrslitum, KR. Framarar urðu svo Íslandsmeistarar með 6:4 sigri á Selfyssingum.

(Markaskorarar: liggur ekki fyrir)