Whiskey sour (vegan og ketó möguleikar)

Uppskriftina má finna fyrir neðan, en hér verður fjallað um innihaldsefnin.

Whiskey sour er notalegur og einfaldur drykkur sem tekur skamma stund að gera. Hefðbundna uppskriftin gerir ráð fyrir eggjahvítu en hana þarf ekki. Grænkerar og aðrir geta notað flórsykur í staðinn eða sleppt því alfarið.

Það sem mestu skiptir fyrir þennan kokteil er viskítegundin sem er notuð, því það er ekki sama viskí og viskí. Uppskriftin gerir ráð fyrir amerísku búrboni og í þeim flokki eru einkum tvær tegundir sem ég mæli sérstaklega með:

Knob Creek Kentucky Straight Bourbon Whiskey

Þetta er án efa besta búrbonið sem fæst á Íslandi, bragðmikið og sterkt (50%) og hentar vel í allflesta viskíkokteila sem útheimta ekki rúgviskí. Það kostar álíka og gott maltviskí, eða 11.699 krónur í Vínbúðum (skoðað 1. ágúst 2020). Vínbúðin lýsir því þannig: Rafgullið. Ósætt, tunna, maís, reykur, vanilla, síróp. Hvasst eftirbragð.

Knob Creek búrbon

Bulleit Bourbon Frontier Whiskey

Næstbesti kostur er alltaf Bulleit búrbon sem er þrælgott, ekki jafnsterkt en bragðast vel og blandast út í nokkurn veginn allt. Kostar 9.199 krónur í Vínbúðum nema fólk vilji fara út í tíu ára sortina sem kostar 11.299, en hana hef ég ekki smakkað. Vínbúðin lýsir Bulleit þannig: Rafgullið. Ósætt. Tunna, maís, ristuð eik. Hvasst eftirbragð. Ég er ekki sammála þessu með hvassa eftirbragðið; Bulleit er töluvert mildara en Knob Creek, án þess að vera eitthvað hland.

Bulleit búrbon

Í þessu tilfelli er þó alls ekki síðra að nota Jack Daniel’s, sem bæði hefur skemmtilega undirtóna af vanillu og örlítið súran keim. Vínbúðin lýsir því svona: Rafgullið. Ósætt. Karamella, kókos, reykur, hlynsíróp, tunna. Hvasst eftirbragð. Ég skil ekki alveg hvað málið er með þetta hvassa eftirbragð þeirra. Canadian Club er með hvasst eftirbragð sem minnir á landa. Það er ekkert svoleiðis á ferðinni hér. En fyrir utan þá kosti sem ég nefndi, vanillan og súri keimurinn, þá er Jack Daniel’s langódýrasta tegundin af þessum þrem, eða 7.899 í Vínbúðum. Einnig hægt að kaupa lítersflösku af Jack sem kostar samt minna en venjuleg flaska af Knob Creek. Og við búum nú einu sinni á Íslandi þar sem það kostar mánaðarleigu að kaupa sér flösku, svo ef fólk vill fara billegu leiðina er Jack algjörlega málið. Plís ekki nota Jim Beam í þetta.

 

Rokkaralegasti drykkur veraldar?

Þið getið alveg verið dólgar og geymt sítrónulaga flösku af sítrónusafa í ísskápnum ef þið viljið, en nýkreistur safi er alltaf bestur. Hefðbundin uppskrift gerir ráð fyrir matskeið af heimagerðu sírópi: hálfur bolli af sykri (hvítum eða púður) soðinn á hægum hita í hálfum bolla af vatni og sírópið svo kælt – geymist í mánuð í ísskáp. Ég nota bara fljótandi hunang í sprautuflösku frá Meli, miklu betra (ekki nota hunang úr krukku, það er ekki það sama). Síðan þarf angostúrubitter sem gjarnan má setja 3-4 dropa af út í allt áður en hrist er (mæli frekar með því) eða ofan á í lokin. Bitterinn er fáránlega dýr, kostar 3.999 krónur í Vínbúðum! En hann er nauðsyn í svo marga kokteila að það er eins gott að láta sig hafa það. Svo endist hann í mörg ár.

Dýr myndi Hafliði allur

Af sítrónunni skerið þið ríflega sneið af berki og snúið ofan í glasið. Af snúnum berki blandast bragðmiklar olíur út í drykkinn sem þið viljið ekki vera án. Þess vegna bítur það ykkur bara í rassinn ef þið notið sítrónusafa úr flösku. Hvað glasið varðar er alltaf best að drekka viskíkokteila úr þungum og belgvíðum tumblerglösum, helst kristalsglösum. Þið megið kalla það fordild, en það gerir drykkinn í alvöru betri.

Nú, og svo er bara að njóta!

Úje!

Ingredients

Instructions

  1. Hellið búrbon, sítrónusafa, hunangi og eggjahvítu (skiptið út fyrir flórsykur til að gera drykkinn vegan) í kokteilhristara og hristið vel. Þessi forhristingur dregur fram froðuna í drykknum.
  2. Bætið við klaka og hristið duglega áfram þar til allt er vel kalt.
  3. Setjið stóra klaka í viskíglas og síið ofan í úr kokteilhristaranum. Hellið þvínæst (varlega, það spýtist!) 3-4 dropum af angóstúrubitter yfir.
  4. Drekkið og njótið, annars tala ég aldrei við ykkur framar.

Author: Arngrímur Vídalín

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Gefðu einkunn