Gubb og afgreiðsla í Subway

Við fórum í dag til Keflavíkur í afmæli til Danna vinar okkar. Gunnsteinn gubbaði vel og vandlega þegar við vorum að koma inn í bæinn þannig að það fyrsta sem við gerðum þegar við komum heim til Danna var að fara með drenginn inn á baðherbergi og setja hann í varafötin. Í veislunni tókst Gunnsteini síðan að hella yfir sig, og gólfið, kók og kaffi. Fyrirmyndargestir.

En við fórum síðan í Mjóddina þar sem ég hljóp inn til að kaupa léttreyktan KEA lambahrygg og mat á Subway. Rétt á eftir mér í kafbátaafreiðslunni var eldri maður sem kunni greinilega ekki á kerfið.

Afgreiðslustúlka: Viltu hita eða rista?
Viðskiptavinur: Ha?
Afgreiðslustúlka: Viltu hita eða rista?
Viðskiptavinur: Nei.

Afgreiðslustúlka: Ekki?
Viðskiptavinur: Nei, er þetta ekki volgt?
Afgreiðslustúlka: Er þetta vont?
Viðskiptavinur: Ha?
Á þessum tímapunkti fékk ég samlokurnar okkar Eyglóar og missti því af framhaldinu.

Love scrotum

Eitt erfiðasta vandamál fólks í nútímanum er víst að starfsfólk í bakaríum talar ekki fullkomna íslensku. Sjálfur kemst ég raunar almennt upp með að nota íslensku og benda. En hvað um það.

Þar sem ég var að slafra í mig súpunni í bakaríinu á föstudaginn kom inn maður. Hann bað afgreiðslustúlkuna, sem var af erlendu bergi brotin, um kleinur. Hún átti ekki í neinu vandamáli með það. Næst kom þó erfiðara mál. Maðurinn spurði hvort til væru ástarpungar. Stúlkan skildi þetta greinilega ekki og sagðist ekki tala góða íslensku. Ég stóðst ekki mátið og sagði við manninn „þýdduþetta bara á ensku“. Hann varð smá vandræðalegur og lét það vera. Mér þótti þetta fyndið.

Gervimaður Evrópa

Ég var rétt áðan að fá tölvupóst með tilkynningu frá rektor HÍ. Efni póstsins vakti enga athygli hjá mér heldur það að sendandinn var „Gervimaður Evrópa“. Það þótti mér skondið. Ég hef lengi vitað af tilvist þessara gervimanna þó ég hafi ekki vitað hvaða tilgangi þeir þjónuðu. Nú veit maður allavega að einn þeirra hefur hafið störf á skrifstofu rektors.

Plokkarinn

„Óli, hefur þú verið að nota plokkarann?“ spyr Eygló og bendir á augabrýrnar sínar. Ég hló að spurningunni. Ég er samt ekki jafn einbrýndur og ég get verið.

Fyndnar bloggfærslur

Stutt færsla Andrésar um Egil Helgason fékk mig til að hlæja.

Mér þótti líka færsla Önnu Kristjánsdóttur um Egil fyndin.  Reyndar fannst mér eitt kommentið þar eiginlega fyndnast:

Mikið er ég þér sammála núna. Egill vill vera í aðallhlutverkinu og talar og talar og talar. Ef einhverjum „viðmælanda“ tekst að stela orðinu eitt augnablik þá baðar hann og veifar höndum eins og drukknandi barn.