Þrívíddarprentarauppfærslur og prentun

Það hefur verið svo mikið vesen með Ender 3 Pro þrívíddarprentarann minn undanfarið að ég var næstum búinn að gefast upp. Það eru komnir fram hraðvirkari prentarar og ég far næstum búinn að falla fyrir þeim. Þegar ég las mér betur til kom í ljós að nýju prentararnir nota lokaðan hugbúnað sem er slæmt, sérstaklega þegar það þarf að stjórna þeim í gegnum síma. Þeir geta því orðið eins og öll þessi sniðugu leikföng sem hægt er að stjórna með appi sem úreldist þannig að þau verða ónothæf.

Ég endurnýjaði þann hluta prentarans sem sér um að hita upp og skammta út plastinu sem notað er við prentun. Um leið uppfærði ég hugbúnaðinn úr Marlin í Klipper, sumsé úr hefðbundna í þann sem getur aukið hraðann. Síðan fiktaði ég og lærði. Þetta er allt að koma.

Hérna er myndband af nýlegri prentun. Hún er ekki sýnd á raunhraða. Þetta eru 150 mínútur sem er miklu hraðara en prentarinn réði áður við.

Þetta myndband sýnir hvernig ég prentaði box sem hægt er að loka með því að snúa (irisbox). Þetta er vinsælt í þrívíddarprentun og til í mörgum útgáfum. Ég valdi það af því að það sýnir mér hvort hægt sé að prenta tiltölulega flókið módel á hröðu stillingunni.

Það sem ég vildi sýna í þessu myndbandi er hvernig þvívíddarprentarar (allavega þessi flokkur af þeim) vinna. Prenthausinn ýtir út bræddu plasti á meðan hann færist fram og til baka. Næst hækkar hann sig aðeins og bætir við. Lag eftir lag.

Það er magnað hvað hægt er að gera með svona prentara. Ef þið hugsið um mekaníkina sem er fólginn í þessu boxi getið þið vonandi séð fyrir ykkur allavega sex mismunandi parta sem þurfa að vinna saman.

Hvernig er hægt að gera slíkt þegar prentarinn vinnur bara með þessi lög. Það er ekki hægt að prenta eitthvað án þess að það sé tengt einhverju öðru og því er erfitt að skilja hvernig hægt er að hreyfa þessa alla þess mismunandi parta saman.

Bragðið er að tengingarnar á milli hluta eru örsmáar. Þegar boxið kemur af prentaranum þarf að stinga einhverju þarna á milli til að brjóta þessar tengingar. í kjölfarið er hægt að hreyfa allt.

Ég dáist endalaust að hugmyndaauðgi þeirra sem hanna svona módel og er fullur af þakklæti til þeirra fyrir að deila þeim með okkur.

Farinn af Twitter

Þegar Elon Musk keypti Twitter sagði ég eitthvað á þá leið að versta sem gæti gerst væri að við myndum bara öll hanga þarna meðan hann gerði sitt besta til að níðast á minnihlutahópum.

Á fyrsta mánuði sínum hleypti Musk aftur inn fólki sem hafði stundað allskonar hatursáróður og fór síðan að banna andfasista og vinstri rótttæklinga. Þannig að ég ákvað að þetta væri komið gott. Nú er Musk farinn að tvinna saman samsæriskenningum um COVID-19 og transfóbíu og ég spyr mig hvenær restin af fólkinu fær nóg?

Stærsta hindrunin er fólkið sem hefur stóran hóp af fylgjendum þarna. Það er fast í hugmyndinni um sokkinn kostnað. Það reynir að sannfæra sig og aðra að það sé flókið að færa sig og að það versta fyrir Musk sé andóf gegn honum á Twitter. Ég held þvert á móti að það hjálpi honum með því að viðhalda þeirri hugmynd að þetta sé ennþá staður eðlilegra skoðanaskipta.

Lukkulega eru þessir stóru reikningar hægt og rólega að yfirgefa Twitter. Líklega kemur sá tímapunktur að þetta verður að flóði. Hvort það gerist áður en kerfið bókstaflega hrynur er stóra spurningin.

Reikningurinn minn á Twitter er ennþá þarna. Tilgangurinn er að beina fólki á nýja aðra staði, sérstaklega Mastodon. Það hefur verið erfitt, ekki að ég sakni Twitter heldur eru puttarnir mínir ennþá á sjálfvirkni þannig að ég hef reglulega lent í því að opna vefinn óvart. Appið fékk hins vegar að fjúka fyrst af því að það safnar miklu meiri upplýsingum en vefurinn.

Ef mig langar að sjá hvað er í gangi á Twitter fer ég á Nitter sem speglar efnið yfir. Ég ætlaði líka að nota Polititweet sem fylgist ekki bara með hvað fólk birtir heldur skráir það líka hvaða tístum hefur verið eytt. Sá vefur hætti að virka nýlega og ég veit ekki hvor sé líklegri skýringin, að Twitter sé hægt og rólega að hrynja eða Elon Musk hafi þótt þetta sérstaklega vandræðalegt og lokað fyrir tengingarnar.

Raspberry Pi sýnir hvernig efni fer á flug á Mastodon

Í gær gerðist það óvænt að Raspberry Pi stofnunin varð aðalpersónan á Mastodon. Það er áhugavert að mörgu leyti og kannski sérstaklega vegna þess að það sýnir hvernig þessi vettvangur er öðruvísi.

Raspberry Pi er tegund af smátölvum sem hafa verið notað í ótal verkefni. Það er hægt að nota þær sem sjónvarpstölvur, vefþjóna, skrármiðlara, veðurst0ðvar og svo endalaust framvegis. Í samhengi þessa máls þarf að leggja áherslu á að fólkið sem notar þessar tölvur er oft mjög meðvitað um persónuvernd. Fólk vill ekki nota Chromecast af því að það er ósátt við hvernig Google notar gögn um notendur sína. Það er gott að muna að þetta er líka ástæðan fyrir því að margir nota Mastodon.

Í gær birti Raspberry Pi undarlega grein sem deilt var í gegnum ýmsa samfélagsmiðla. Umfjöllunarefnið var að stofnunin væri búin að ráða fyrirverandi lögreglumann til starfa. Það var lögð sérstök áhersla á að hann hefði starfað við að útbúa ýmsan hlerunarbúnað og hefði notað Raspberry Pi í sumum verkefnum.

Þetta var vægast sagt stuðandi framsetning fyrir fólk sem hugsar mikið um persónuvernd. Einnig er þetta rautt flagg fyrir okkur sem höfum fylgst með því hvernig breska lögreglan njósnar um pólitíska hópa (munið eftir Saving Iceland?).

Það komu strax fram athugasemdir og spurningar, bæði á Mastodon og Twitter. Í stað þess að svara þessum spurningum efnislega kom eintómur skætingur frá þeim sem stjórnar þessum samfélagsmiðlareikningum. Sá einstaklingur fór fljótlega að loka á notendur sem skrifuðu athugasemdir, sama hve saklausar og kurteisar þær voru.

Þannig komst þetta á flug. Ekki bara þessi undarlega framsetning heldur líka viðbrögðin við saklausri gagnrýni. Það var ekki eitthvað forrit sem reiknaði út að þetta væri heitt umræðuefni heldur deildi fólk (endurbirti) færslum um málið. Myllumerkin (efnisorðamerking) hjálpaði fólki að finna fleiri færslur.

Þið munið að Mastodon er net vefþjóna sem tengjast eða loka á hver aðra eftir því hvernig traustið er á milli þeirra. Raspberry Pi rekur eigin vefþjón og hegðun stjórnandans þar vakti strax upp spurningar um hvort hann væri hæfur í starfi. Það voru þónokkrir vefþjónar sem einfaldlega rufu tengslin við Raspberry Pi. Hlutfallslega voru það ekki margir og þá almennt bara þeir sem hafa mjög ákveðnar reglur um þessi mál.

Þó það sé ekki útbreitt álit að það eigi að loka á vefþjón Raspberry Pi hefur umræðan almennt verið mjög neikvæð í garð þeirra. Margir voru ósáttir við hvernig málið var upprunalega sett fram en miklu fleiri telja að sá sem sér um samfélagsmiðla stofnunarinnar hafi brugðist hlutverki sínu með framkomu sinni gagnvart fólki sem spurði einfaldra og kurteisislegra spurninga.

Vissulega er það þannig að margir tölvuhlutir eru notaðir í vafasömum tilgangi. Þú sérð hins vegar ekki Intel setja inn færslur á samfélagsmiðla þar sem þeir segja frá nýja starfsmanninum honum Jóa sem notaði Intel-vörur þegar hann var að hanna gjöreyðingarvopn.

Þeir sem verja Raspberry Pi hafa reynt að afgreiða alla gagnrýni sem andúð á lögreglu og að hér hafi verið að dæma manninn vegna fyrri starfa. Það stenst enga skoðun. Það eru ákaflega fáir sem hafa ráðist á þennan umrædda starfsmann. Nær öll upphafleg gagnrýni snerist um framsetninguna og spurningar tengdar henni en í framhaldinu voru það viðbrögðin við gagnrýninni sem vakti reiði.

Satt best að segja var ég eiginlega að bíða eftir að einhver fullorðin myndi mæta í vinnuna hjá Raspberry Pi stofnuninni. Þetta er ekki líkingarmál sem mér finnst yfirleitt gagnlegt en viðbrögðin á samfélagsmiðlum voru mjög barnaleg.

Í stærra samhengi þarf að nefna að mörg okkar hafa mjög góða reynslu af Raspberry Pi og vorum mjög jákvæð fyrir vörumerkinu. Við höfum gengið í gegnum langt tímabil þar sem Raspberry Pi tölvur hafa verið illfáanlegar (Covid+Brexit). Ég þyrfti helst að uppfæra tvær af tölvunum sem ég nota en hef ekki getað gert það. Í stað þess að finna aðra valkosti, sem eru margir, hef ég beðið. Uppákoma gærdagsins hefur grafið undan góðvild viðskiptavina.

Hvers vegna Mastodon?

Í stuttu máli: Notaðu Mastodon. Það virðist vera flókið en það er bara öðruvísi. Flest lærist með því að nota kerfið í smá tíma. Það er góður kostur fyrir Íslendinga að skrá sig á loðfíll.is.

Nú þegar Twitter er farið að molna vegna stjórnarhátta og stefnu Elon Musk eru margir að huga að flutningum. Hvert? Algengasta svarið er Mastodon. Hvers vegna?

Segjum að þú sért á Twitter og þig langi að fylgjast með einhverjum á Facebook. Þú getur það ekki. Þú þarft að skrá þig sérstaklega á Facebook til að fylgjast með fólki á Facebook. Þú ættir að spyrja þig hvers vegna það er.

Facebook, Twitter og aðrir stórir samfélagsmiðlar hafa ákveðið að reisa girðingu í kringum efnið sem notendur þeirra skapa. Þessi stórfyrirtæki vilja loka notendur sína inni til þess að græða á þeim, aðallega með auglýsingasölu.

Er þessi girðing nauðsynleg? Nei, alls ekki. Það var ekki einu sinni alltaf svona slæmt. Á tímabili var tiltölulega auðvelt að deila efni milli Facebook og Twitter. Það hentaði ekki hagsmunum þeirra þannig að múrarnir voru hækkaðir.

Við erum orðin vön því að efni á samfélagsmiðlum sé dreift í formi mynda, skjáskotum af upprunalegu færslunni deilt án þess að tengt sé á milli. Þetta verður til þess að samhengi glatast. Bröndurum er deilt og gefið til kynna að hér sé fullkomin alvara á ferð. Þú getur kannski grafið upp hvaðan efnið er komið en það eru ekki einfaldir smellir.

Nú þegar Twitter virðist vera að hruni komið sjáum við versta galla núverandi samfélagsmiðla. Það er engin einföld leið að flytjast frá einum miðli til annars án þess að glata öllum tengingum sem voru til staðar.

Þetta er samhengið sem við þurfum til að skilja hver sé besti kosturinn. Mastodon er byggt á stöðlum sem rífa niður þessar girðingar.

Ef þú lest leiðbeiningar á ensku gæti það hljómað flókið að skrá sig á Mastodon. Það er mikið talað um hvaða vefþjónn þú ættir að velja. Lukkulega hafa Íslendingar mjög skýran valkost sem er loðfíll.is.

Það mikilvægasta við vefþjóninn er að hann er heimilisfangið þitt. Ég er t.d. @oligneisti@kommentakerfid.is (minn eigin vefþjónn en ekki enn opið fyrir skráningar) en þið getið líka kíkt á @matti@loðfíll.is.

Mikilvægt er að muna að þú getur skipt um vefþjón. Ef þér líkar ekki við þann sem þú ert á færir þú þig bara eitthvað annað. Þú tapar engu á því að flytja, fylgjendalistar koma með þér á nýja staðinn.

Í raun þurfa notendur lítið að hugsa um vefþjóna. Þó þið séuð skráð á ákveðinn vefþjónn getið þið fylgt fólk af öðrum vefþjónum. Efni frá fólkinu sem þið fylgið birtist á ykkar tímalínu.

Einn munur á Mastodon og Twitter er að við erum ekki mötuð. Notendur knýja allt áfram. Á þinni persónulegu tímalínu birtist það sem fólkið sem þú fylgir birtir eða endurbirtir (álíka og retweet á Twitter).

Það að endurbirta færslur sem þér líkar við er mikilvægt. Það hjálpar fleirum að finna efnið. Það er líka valkostur kallast “eftirlæti” sem hefur engin áhrif á hvort fleiri sjái efnið.

Annar munur er að við höfum þrjár tímalínur á Mastodon. Ég nefnt þá persónulegu en við höfum líka “staðværa” tímalínu sem sýnir hvað aðrir á sama vefþjónn eru að birta.

Þriðja tímalínan er sú stóra sameiginlega. Hún byggir á öllu því efni sem vefþjónninn þinn safnar saman, bæði í gegnum notendur en líka með endurvarpskerfum (sem þú þarf ekki að skilja eða pæla í).

Stjórnendur þurfa að passa upp á vefþjóninn sinn. Ef notendur eru til vandræða á öðrum svæðum Mastodon ber stjórnandinn ábyrgð á því að stoppa það.

Ef stjórnendur bregðast ekki við kvörtunum eru allar líkur á að vefþjónninn verði bannaður. Stjórnendur dreifa listum yfir þá vefþjóna sem hafa verið bannaðir til að hjálpa hver öðrum.

Er þetta aðför að málfrelsi? Nei, allir hafa rétt á að nota samfélagsmiðla án þess að verða fyrir hatursáróðri, ofbeldishótunum eða öðrum óþverra.

Það eru einhverjir sem segja að Mastodon sé ekki notendavænt kerfi. Ég er ekki sammála því. Kerfið er aðallega öðruvísi. Fólk þarf bara að nota þetta nokkrum sinnum til að læra.

Við höfum einblínt á Mastodon í þessari umræðu af því þetta er samfélagsmiðill sem er keimlíkur Twitter. Það eru til fleiri miðlar sem byggja á sömu stöðlum, þar á meðal Pixelfed, Friendica og PeerTube.

Ef þú ákveður að fylgja einhverjum á Pixelfed mun efni þeirra birtast á tímalínu þinni á Mastodon. Þú þarft ekki að skipta á milli. Auðvitað hafa Facebook og Snapchat ekki þennan möguleika en við getum sýnt hvað við viljum með því að velja Mastodon.

Kaup Elon Musk á Twitter sýndi okkur veikleika núverandi kerfis. Þú finnur þér svæði sem þér líkar við og allt í einu ertu fangi milljarðamærings sem vill ganga í augun á þrettán ára strákum.

Mastodon byggir á opnum og frjálsum hugbúnaði og á opnum stöðlum. Enginn getur keypt Mastodon. Hvaða kerfi sem er má tengjast Mastodon. Þú getur valið um hvaða forrit nú velur til að tengjast Mastodon.

Verður Mastodon næsti stóri samfélagsmiðillinn? Eftir aldarfjórðung á netinu veit ég það eitt að ég veit ekki neitt … um hvað verður vinsælt.

Mín skoðun er sú að Mastodon sé besta mögulega kerfi sem við getum notað eins og er. Það er ekki fullkomið en það losar okkur við margar óþarfar girðingar. Ef betra kerfi birtist hjálpar Mastodon okkur að flytja.

Ef þú ákveður að flytja frá Twitter á Mastodon er hægt að mæla með tóli sem heitir Debirdify. Notendur (þú vonandi líka) sem Mastodon-heimilisfangið sitt í notendaupplýsingar Twitter og þannig er hægt að finna hverjir af þeim sem þú fylgir eru komnir á Mastodon.

Neil Gaiman og Sandman (þáttur frá 2013)

avatar
Óli Gneisti

Árið 2013 gerði ég útvarpsþátt um Neil Gaiman og Sandman í seríunni Talblaðran. Í tilefni þess að það hafa verið gefnir út sjónvarpsþættir eftir Sandman teiknimyndasögunni datt mér í hug að leyfa ykkur að hlusta.

Myndin sem fylgir er frá því að ég fékk áritun frá Neil Gaiman árið 2014 í SF Bokhandeln í Stokkhólmi.

Fjölskyldan til Svíþjóðar 2022

Þessar löngu ferðasögur sem ég skrifa eru aldrei vinsælustu bloggfærslurnar mínar. En ég veit að það eru nokkrir sem lesa og hafa ánægju af frásagnarstíl mínum. En í þessu ferðalagi sem ég er að skrifa um hér fór sonur minn að tala um það sem ég skrifaði um London-ferðina um daginn. Ég brást við með því að senda honum tengla á eldri ferðasögur mínar þar sem hann var með í för. Þannig að ég er kannski að skrifa fyrir framtíðina. Annars er skrýtið að hafa bloggað í tuttugu ár og eiga allt í einu son sem er farinn að lesa eitthvað af þessu.

Það eru þrjú ár síðan við höfum farið í fjölskylduferð til útlanda. Í þetta sinn ákváðum við að fara til Svíþjóðar. Auðvitað til að hitta Önnu systur. Strákarnir hafa báðir komið þarna áður en hvorugur man eftir því.

Þar sem við hjónin vorum að stíga upp úr veikindum náðum við ekki pæla mikið í hvað ætti að koma með. Daginn fyrir brottför hrúgaði ég saman fötum en tók allt í einu eftir því að stuttbuxurnar mínar voru rifnar (á hliðinni! hvernig gerist það?). Smá skoðun í viðbót leiddi í ljós að ég átti eiginlega engan fatnað sem hentaði til að vera í um eða yfir 18 gráðu hita. Ég dreif mig í búð og keypti föt í flýti og tróð með hinu í töskuna. Engin nákvæmni og alltof mikið af drasli. Eftir að hafa lent að hafa þurft að bíða fjóra daga eftir töskunni frá London vandaði ég mig við að pakka öllu nauðsynlegasta og verðmætasta í handfarangur sem var því líka vel troðinn.

Við lögðum af stað á föstudagsmorgun, 1. júlí. Á flugvellinum náðum við að finna mann frá fyrirtækinu sem ætlaði að þrífa og geyma bílinn okkar á meðan við værum í burtu. Við reyndum að spyrja hann spurninga en hann virtist hvorki tala ensku né íslensku.

Flugið var á góðum tíma. Við þurftum ekki að vakna snemma og það var engin örtröð á flugvellinum. Fátt var eftirminnilegt þarna að mati strákana en spilakassi hjá Elkó hefur verið nefndur nokkrum sinnum.

Við keyptum okkur smá snarl og það leiðir mig að þessu: Skjáir með skyggnusýningum eru ekki ígildi matseðils. Ég vil geta rennt yfir lista í stað þess að stara á skjá í von um að eitthvað spennandi birtist. Ef þið getið ekki sett matseðil á skjá ætti að hafa hann tiltækan í efnislegu formi.

Flugið var óeftirminnilegt. Ég horfði á Shazam! (fín) og nokkra gamla þætti af Simspsons og strákarnir höfðu gaman af sínu skemmtiefni líka. Ég var alveg búinn að steingleyma hve áberandi tvíburaturnarnir voru í New York-þættinum. Homer eyðir heilum degi á torginu milli þeirra. Þegar ég flýg velti ég oft fyrir mér hvernig efnið er valið fyrir þessi tæki. Ég hefði til dæmis haldið að hugrenningartengslin við 11. september væru ekki eitthvað sem þú vildir vekja hjá farþegum.

Við villtumst smá um á Arlanda. Það er merkt vel og vandlega hvar hraðlestin til Stokkhólms er staðsett en skiltin á aðrar lestir benda stundum í mjög villandi áttir. Við fundum þó stöðina á góðum tíma. Við gátum hvergi sest niður af því að ungur maður hafði ákveðið að leggja sig á bekk. Ég spurði Eygló hvort ég mætti vera leiðinlegur við hann til að redda plássi en henni leyst ekki á það.

Þegar við komumst inn í lestina lentum við í veseni af því að þegar við komum að sætisnúmerunum okkar var einhver gaur í einu sætinu. Ég vandaði mig í leikrænum tilburðum að benda á númerin þegar ég talaði við Eygló til að sjá hvort gaurinn fattaði að við héldum að við ættum að vera þarna. Hann sýndi engin viðbrögð þannig að ég hélt að við hefðum kannski farið í rangan vagn.

Við röltum til baka en lestin fór af stað. Ég ákvað að spyrja gaurinn hreint út hvort hann væri kannski í röngu sæti og hann sagðist hafa fært sig þangað.

Sko, ef þú veist að þú ert í röngu sæti og þú sérð fólk sem er að leita að sínu sæti þá lætur þú vita. Ég hef gaurinn líka grunaðan um að hafa verið að borða lyktarsterkan mat og hent umbúðunum í ruslið okkar megin. Hann varð erkióvinur minn um tíma.

Eftir að hafa bakkað til Borlänge tóku Anna og Martin á móti okkur á lestarstöðinni. Þau leiddu okkur yfir götuna þar sem hótelið okkar var staðsett. Það er Best Western hótel kennt við Gustav Wasa. Ég reyndi að nota tækifærið til að upplýsa drengina um söguleg tengsl Íslands við Svíþjóð í gegnum Kalmarsambandið og hvernig þessi Gustav gerði uppreisn gegn því.

Eftir að hafa innritað okkur og komið farangrinum fyrir röltum við með Önnu og Martin inn í bæ í leit að mat. Við enduðum á stað sem heitir Pincho’s (varist rugling við Pitcher’s sem er við hliðina). Á þessum stað eru í boði ýmsir smáir réttir sem pantaðir eru í gegnum forrit sem við gátum líka notað til að borga með í lok máltíðar.

Við pöntuðum hitt og þetta. Ég fékk örlitla steik sem er eiginlega fínn skammtur af kjöti fyrir minn smekk. Eftirminnilegast er samt að Gunnsteinn fékk pínkulitla Margarítu. Flest fengum við okkur ís með karamellusósu og kartöfluflögum í eftirrétt.

Síðan röltum við hægt og rólega heim. Ég var mjög fljótur að rifja upp hugarkort mitt af Borlänge. Lestarteinarnir sem liggja í gegnum bæinn gera rötun merkilega auðvelda og síðan er Kupolen verslunarmiðstöðin alltaf gott kennileiti (þó ég ruglist stundum þegar ég kem út þaðan).

Hótelið var fínt að mestu leyti. Við vorum samt bara á annarri hæð og þar var hávært fólk langt fram á kvöld. Það væri í lagi ef við hefðum ekki þurft að hafa gluggana opna til að kæla niður herbergið.

Það var morgunverðarhlaðborð á hótelinu sem við prufuðum fyrst á laugardagsmorgni. Frekar óspennandi að mestu leyti þannig að ég hélt mig helst við harðsoðin egg.

Fyrsti ákvörðunarstaður dagsins var vísindatæknisetur með svona “plane-erium”. Drengirnir höfðu merkilega gaman af sýningunni enda gerð til þess að fikta. Mér fannst einföldu gripirnir best heppnaðir, sérstaklega þeir sem sýndu hvernig vogarafl virkar sem og hvernig talíur létta á þegar lyfta þarf með reipi. Ég hafði líka gaman af því að öskra í hávaðamælinn og toppa alla aðra sem reyndu. Tækið sem tók upp og spilaði aftur á bak var einfalt en skemmtilegt. Auðvitað sagði ég ítrekað “Red Rum”.

Við höfðum ákveðið að fara á sýningu í “plane-arium”. Við komum í salinn tilbúin að horfa á mynd um sólkerfið okkar. En það var ekki mynd. Það var fyrirlestur með skemmtilegum klippum og myndum. Við sátum eiginlega beint fyrir framan unga manninn sem var að uppfræða okkur á sænsku. Ég hló næstum upphátt þegar þetta byrjaði af því að það var alveg ljóst að þetta væri ekki að ná til drengjanna.

Þó stjörnufræðisænska sé ekki mín sterka hlið reyndi ég að þýða aðalatriðin fyrir Gunnstein sem sat við hliðina á mér. Þegar ég byrjaði að hvísla að honum upplýsingum Ólympusarfjall tók ég eftir því að hann var steinsofandi. Sætin hölluðu líka þægilega aftur á bak. Ingimar sofnaði líka á kafla og síðan varð ég hálfsjóveikur af sýningunni og þurfti að loka augunum þannig að um stund virtumst við þrír líklega vera sofnaðir beint fyrir framan fyrirlesarann. Góður lúr segja strákarnir.

Næsti áfangastaður var heimili Önnu og Martin. Á leiðinni var hitinn um 25 gráður sem er eiginlega of mikið fyrir mig. Ég var farinn að hafa áhyggjur af kæfandi hita alla ferðina en lukkulega var yfirleitt bara 17°-20° á þeim stöðum sem við vorum (nema í rigningu). Samt nógu heitt til að réttlæta regluleg ískaup. Ég var glaður með saltlakkrísísinn sem fékkst út um allt. Spáný tegund.

Við komum við í búð á leiðinni og keyptum okkur eitthvað gott “með kaffinu”. Við höfðum nefnilega áttað okkur á að það var akkúrat afmælisdagur ömmu, það voru 110 ár síðan hún fæddist. Afmæliskaffi var því við hæfi.

Eftir þetta fórum við í ICA-verslunina í Kupolen og kvöddum síðan Önnu og Martin. Við ákváðum að fara á pizzustað í nágrenni við hótelið sem heitir Tre Kronor og var með háa einkunn hjá Google. Akkúrat svona innflytjendastaður sem ég tel höfuðprýði sænskrar matarmenningar.

Drengirnir vildu báðir margarítu þannig að ég ákvað að kaupa eina handa þeim báðum og til þess að vera viss um að það væri nóg bað ég um fjölskyldustærð. Ég fékk kebab en Eygló grænmetispizzu. Afgreiðslumanninum þótti þetta greinilega eitthvað skrýtin pöntun en ég fattaði ekki hvers vegna. Síðan kom fjölskyldupizzan á borðið. Hún var ógnarstór. Með minni hjálp kláraðist hálf pizzan. Við fengum síðan 12″ pizzukassa undir afganginn. Við þurftum að brjóta saman helminginn í fjórðung og þá passaði hún akkúrat. Þannig að ég myndi giska á að þetta hafi verið 24″ pizzu.

Sænska og íslenska eru auðvitað mjög lík mál en stundum er skemmtilegast hvernig sama orðið hefur tvær ólíkar merkingar. Þannig velti ég reglulega fyrir mér hvað Svíarnir héldu þegar ég var að segja strákunum að vera rólegir.

Laugardagskvöldið var hápunktur partístandsins í garðinum. Gluggarnir voru nærri lokaðir og ég vaknaði um miðja nótt, ekki við partí heldur var ógeðslega heitt í herberginu. Ég var lengi að sofna þannig að ég var ekki upp á mitt besta á sunnudeginum.

Við strákarnir slepptum morgunmatnum á hótelinu á sunnudagsmorgun en þegar Eygló kom aftur hvellsprakk halógen-pera í náttborðslampanum með þeim afleiðingum að rafmagnið fór. Halógen-perur voru alltaf slæm hugmynd.

Strákarnir okkar hafa alist upp við þá staðreynd að það sé ekkert McDonald’s á Íslandi. Þeir hafa aldrei farið þangað (nema Gunnsteinn mögulega pínulítill). Ég hef einu sinni á ævinni farið á McDonald’s að eigin frumkvæði og fékk þá vondan hamborgara. Ég hef farið nokkrum sinnum síðan en þá alltaf með einhverjum sem vildi fara.

Við völdum McDonald’s í Kupolen frekar en McDonald’s hinum megin við bílastæði. Ég ákvað að prufa McNuggets í fyrsta sinn. Ingimar fékk Happy Meal. Allt voða spennandi í útlöndum. Næst skulum við banna M&M.

En ég varð mér til skammar þegar við vorum að panta drykki/eftirrétti. Drengurinn í afgreiðslunni var ekki rosalega skarpur og þegar ég fékk mitt var það vitlaust. Það er engin afsökun en ég var dauðþreyttur og pirraður þannig að ég byrsti mig á hann þegar hann hélt því fram að ég hefði pantað það sem ég fékk.

Ég er mjög óvanur að missa svona stjórn á skapi mínu. Ég fékk rétta drykkinn en var sannfærður um að gaurinn hefði hrækt í hann og var jafn sannfærður um að ég ætti það skilið. Ég lét drykkinn því ódrukkinn. Reyndi að fara að biðjast afsökunar en það var alltof mikið að gera þannig að ég þurfti bara að skammast mín í hljóði.

Við fórum í nokkrar búðir í Kupolen. Í leikfangaverslun fann Ingimar skemmtilegan kremjubolta en ég fann Prúðuleikara-Legó og hóf atlögu að því að reyna að fá Gonzo. Ég rakst á sömu poka í öðrum verslunum í ferðinni og að lokum hafði ég einhvern veginn ná að kaupa mér tíu blindpoka af Legó án þess að finna þann rétta. Við strákarnir komum okkur fljótlega aftur á hótelið þannig að við gátum aðeins hvílst.

Kvöldmaturinn var á stað sem er oft kallaður sá besti í Borlänge og heitir Basta. Ítalskur staður með “alvöru” ítölskum pizzum. Strákarnir voru ekkert rosalega hrifnir af því. Of mikil sósa, of lítill (og ekki góður) ostur.

Á leiðinni heim kíktum við inn í stóra sælgætisverslun. Þar var mikið val um nammi og þar að auki Pokemon-spjöld og Pop-fígúrur. Strákarnir enduðu með risasleikjóa.

Á mánudaginn var byrjað á að heimsækja IKEA til að fá ekta sænska máltíð. Ég reyndi að sannfæra drengina um að Svíarnir yrðu allir sármóðgaðir ef þeir myndu ekki fá sér kartöflustöppu, lyngonsultu og baunir með. Þeir voru ekki sannfærðir.

Þegar við vorum að panta umræddar kjötbollur fór stúlkan í afgreiðslunni að rökræða heilmikið við Eygló um hvort við vildum örugglega ekki kartöflustöppu og útlistaði fyrir okkur vel og vandlega að við fengjum sko ekki afslátt. Í miðjum klíðum spyr strákurinn okkur: “Eruð þið frá Íslandi?” Ég yfirheyrði hann ekki um uppruna hans en hann talaði mjög góða íslensku þó hreimurinn væri vissulega til staðar.

Eftir þetta fór ég að redda hengilásum á meðan restin af fjölskyldunni skoðaði hvort IKEA í Svíþjóð væri öðruvísi en á Íslandi. Strákarnir redduðu sér líka 13 blýöntum í einhverjum leik.

En aðalskemmtun dagsins var Aqua Nova, lítill sundlaugagarður. Ég lenti í smá veseni með að koma okkur á áfangastað af því að við þurftum að krækja fyrir framkvæmdir. Þetta var reyndar ekki mjög stór krókur.

Ég fór með strákana að búningsklefunum og akkúrat þegar við komum var einhver að koma út. Ég greip hurðina og við drifum okkur inn. Á meðan við vorum að klæða okkur úr nefndu drengirnir að það væri nú heppilegt að við værum einir þarna. Þegar við ætluðum að fara í sturtu lentum við á læstri hurð. Skrýtið en ég gat snúið litlu handfangi og við komumst í gegn.

Þegar við komum að sturtunum sáum við að það var enginn staður til að geyma handklæði. Við ákváðum því að fara með handklæðin aftur í skápinn. Þá var hurðin læst og ekkert handfang til að opna. Við sáum líka skilti sem upplýsti okkur um að búningsherbergið okkar væri bara fyrir meðlimi. Ekki skrýtið að það hafi verið rólegt þarna. Ég laumaði handklæðunum okkar í tóman skáp og við komum okkur út (sturta fyrst).

Um leið og út var komið var fossinn fyrsta “laugin”. Við komum okkur ofan í. Það var töluverður straumur þar og hindranir á leiðinni. Við komumst niður frekar ósködduð. Ingimar fór síðan einn í fossinn áður en við tókum eftir að 12 ára og yngri ættu ekki að fara þarna ein. Mig grunar reyndar að það sé vegna þess að sundkunnátta er ekki almenn í Svíþjóð en Ingimar er flugsyntur eftir námskeiðin í vetur.

Strákarnir fóru í rennibrautirnar aftur og aftur og náðu að plata Eygló með nokkrum sinnum. Anna systir hafði lýst fyrir okkur einni brautinni sem stórhættulegri af því að hún var svo þröng og hröð. Við fengum sögu af manni sem þurfti að troða sér framhjá stelpu sem hafði náð að stoppa sig í hræðslukasti. En það var greinilega komið betra kerfi. Ég áttaði mig á því meðan ég beið eftir strákunum. Það var lítil stelpa sem stór við bakkann á þeirri braut og beið eftir einhverjum. Ég benti henni á að fara út um hliðið og þá liðu ekki nema nokkrar sekúndur áður en systir/mamma hennar kom.

Þeir fóru oftast í breiða rennibraut þar sem hægt var að fara niður á “kleinuhringjum” en best þótti þeim “Svartholtið” sem var alveg myrkvuð nema að á köflum komu glitrandi ljós sem voru eins og stjörnur. Uppáhaldslaugin mín var einföld útivið með straum meðfram bakkanum þannig að ég gat látið mig fljóta, yfirleitt rólega, í hring eftir hring.

Það var ekki langt í kvöldmatartíma þegar við komum uppúr og röltum aftur að hótelinu. Við ákváðum öll saman að það væri fín hugmynd að strákarnir myndu bara fá Subway á leiðinni og við foreldrarnir færum á veitingastaðinn sem er sambyggður hótelinu.

Þegar ég fór að skoða matseðilinn á þessum stað runnu á mig tvær grímur. Staðurinn heitir “Broken Dreams” en matseðillinn bara á sænsku. En það sem mér fannst besta vísbendingin um að staðurinn væri ekki fyrir mig var að það var ekki bara nafn og lýsing á réttunum heldur einhver saga um réttinn. Mér þykir það bara fráhrindandi. Eygló skoðaði hvað var í boði og var sammála.

Við leituðum að öðrum valkosti og enduðum á innflytjendastaðnum Rhodos sem var með eiginlega allt það sama og hinir slíkir staðir að viðbættum grískum réttum. Þannig að ég pantaði mér gyros. Mjög fínt alveg. Strákarnir lifðu líka af að vera tveir saman á hótelherbergi í klukkutíma.

Þriðjudagurinn var brottfarardagur. Anna hitti okkur áður en við fórum. Við komumst að því að hún hafði einmitt ætlað á veitingastað brostinna drauma fyrir einhverjum mánuðum en varð líka fyrir vonbrigðum þegar hún sá hve tilgerðarlegur matseðill var orðinn.

Dómur drengjanna var að það hafi verið best að fara í Aqua Nova, vísindasetið og hitta Önnu og Martin.

Lestarferðin til Stokkhólms var óeftirminnileg. Á lestarstöðinni keyptum við strax vikukort í almenningssamgöngur. Við komum okkur á T-Centralinn og tókum tunelbanann í átt að hótelinu. Ég verð að segja að það er erfitt að nota þessar lestir fjögur saman. Ef það eru laus fjögur sæti saman er alltaf keppni meðal farþega að ná sæti sem snýr í akstursstefnu. Ég er ekki að ýkja að ég hafi ítrekað séð hálfu vagnanna þar sem voru örfáir farþegar og allir með þrjú sæti laus í kringum sig.

Hótelið okkar var Sky-Hotel Apartments. Við vorum þar í stúdíóíbúð með ísskáp og eldunaraðstöðu. Strákunum þótti þetta betri aðstaða en Borlänge þó þeir hafi rifist töluvert vegna þess að þeir deildu rúmi. Ásakanir um sængurstuld gengu á víxl og umdeilt hvort það sé verra að stela sæng óvart í svefni eða viljandi vakandi.

Það var veitingastaður örstutt frá hótelinu sem heitir Marino’s og er, enn og aftur, týpískur innflytjendastaður með kebab, pizzur og pasta. Mjög fínt. Aðspurðir um álit gáfu drengirnir fyrst tvo þumla upp hvor og reyndu síðan að bæta við aukatám og fingrum.

Síðan var bara að versla í ICA-Maxi sem var aðeins lengra í burtu en veitingastaðurinn. Okkur þótti misgaman af því að rölta um búðina. Eygló finnst svoleiðis stórskemmtilegt og ég hef alveg gaman af því líka. Strákarnir voru ekki jafn glaðir, sérstaklega ekki þegar mamma þeirra þurfti að skoða eitthvað mjög vandlega.

Það var ekkert meira afrekað á þriðjudeginum. Höfðum það bara kósí á hótelinu sem var mjög auðvelt að kæla með því að opna glugga. Umferðarhljóðin voru líka mun þægilegri en fulla fólkið.

Ég hef lengi verið spenntur fyrir því að fara til Birka. Það er staður á eyju þar sem var stór verslunarstaður frá áttundu fram á tíundu öld. Þar hefur fundist mikið af fornminjum og þá sérstaklega í þeim mörgu grafhaugum sem þar finnast. Þar sem staðurinn er á eyju í nokkurri fjarlægð frá Stokkhólmi bókuðum við siglingu þangað með leiðsögn á miðvikudaginn.

Við komum okkur í bátinn og hófum tveggja tíma siglingu. Ég byrjaði fljótlega að tortryggja leiðsögumanninn. Það sem ég þekkti til af sögunum hans var alltaf aðeins skekkt.

Við drifum okkur í leiðsögn um svæðið strax og við komum. Við vorum með sama leiðsögumann og í bátnum. Eftir á sagði Gunnsteinn að það hefði verið gaman að heyra hann tala og láta mig síðan útskýra hvað hefði verið rangt hjá honum.

Gaurinn þekkti greinilega ágætlega til fornleifafræði en mjög yfirborðskennda þekkingu á menningu og sögu. Útskýringar hans á orðsifjafræði orðsins víkingur var til dæmis mjög vafasöm og lýsingar hans því hvernig það var notað á víkingatímanum beinlínis rangar.

Ég var næstum farinn út í að vera leiðinlegur þegar hann sagði að orð víkinga um Miklagarð væri vísun í norræna orðið fyrir bóndabæ. Það leiddi mig reyndar í pælingar um hvað orðið sjálft þýddi. Ég hef alltaf hugsað að “garður” vísaði í varnarveggi en fór allt í einu að hugsað að það vísaði kannski frekar í afmarkaða svæðið.

Ég gerði þau mistök að nefna þessar pælingar á Twitter og fékk nokkur góð svör en líka athugasemdir sem gerðu ráð fyrir að ég vissi nákvæmlega ekkert um efnið og nokkrar sem fullyrtu hluti sem ekki er hægt að vita fyrir víst. Ég fell einstaka sinnum fyrir þeirri hugmynd að vandað orðalag í tísti komi í veg fyrir svona en það er ekki þannig. Stundum langar mig næstum að botna ákveðin skrif með vísun í að ég hafi háskólamenntun á sviðinu til að sleppa við óþarfar athugasemdir.

Síðasta stoppið á leiðsögninni var sá haugur sem er í dag sá frægasti í Birka. Þar hvíldi hin svokallaða “víkingastríðskonan”. Sumsé, þarna fannst, fyrir meira en öld, beinagrind og vopn með. Það var strax ályktað að þarna væri stríðsmaður.

Síðan gerðist það fyrir nokkrum árum að einhver tók eftir því að beinin bentu til þess að þessi einstaklingur hafi eignast barn. Það var síðan staðfest með genarannsóknum. Í kjölfarið var skrifuð mjög fræg grein þar sem var fullyrt að þetta hefði verið stríðskona. Auðvitað eru mistökin sú að treysta upprunalegu greiningunni. Þú getur ekki fullyrt að einstaklingur sem finnst með vopn hafi tekið þátt í bardögum. Það væri til dæmis miklu betra að finna gróin sár á beinum.

Ég er ekki að segja að það hafi ekki verið konur sem hafi barist á víkingaöld. Ég er að segja að þessi túlkun sé ekki sjálfgefin. Miðað við vísbendingarnar myndi ég frekar giska að konan hafi frekar verið mikilvæg, jafnvel höfðingi, heldur að hún hafi tekið þátt í bardögum. En það selur að koma með stórar yfirlýsingar.

Við fórum líka á “safnið” í Birka. Það var ekki safn. Það voru eiginlega engir alvöru gripur. Ég myndi kalla þetta, í besta falli, einhverskonar fræðslusetur.

Þessi ferð tók næstum allan daginn. Mér þótti merkilega lítið að sjá en aftur á móti var fallegt þarna. Okkur Ingimari tókst samt báðum að brenna okkur á netlum. Fyrsta skiptið hans og fyrsta skiptið mitt í áratugi. Ingimar var öllu hrifnari að því að sjá vatnaliljur í eigin persónu og náði að veiða eitt laufblað og nota það sem hatt.

Í Stokkhólmi gripum við kvöldmat á öðrum innflytjendastað sem Ingimar elskaði af því að hann fékk risastóran skammt af frönskum en ég þoldi illa af því að steikingarlyktin var kæfandi.

Við ákváðum að byrja fimmtudaginn á safnaferðum þar sem spáin var ekki nógu góð. Við blotnuðum líka vel og vandlega á leiðinni úr sporvagninum inn á Vasasafnið.

Drengirnir voru ekki jafn spenntir fyrir skipinu og ég hefði vonað. Þeim fannst það vissulega flott en voru kannski ekki í réttu stuði. Við vorum því ekki nema í mesta lagi tvö klukkutíma þar. Ingimar féll fyrir flöskuskipsútgáfu af Vasa í gjafabúðinni og við keyptum það fyrir hann.

Hádegismaturinn var á McDonald’s. Ég var mjög ánægður með að geta bara pantað í sjálfsafgreiðslutölvu. Miklu rólegra og ég gerði mig ekki að fífli. Á öllum þessum McDonald’s ferðum voru drengirnar voru að metast um hvort Daim eða Oreo McFlurry væri betri. Þeir prufuðu báðir báðar tegundir. Ingimar fílaði Oreo en Gunnsteinn Daim.

Eftir mat röltum við inn á Gamla Stan í helliriginingu. Áfangastaðurinn var lítið safn sem fólk missir oft af. Það er í höllinni og heitir Livrustkammaren en ég kalla það yfirleitt búningasafnið. Það tilheyrir ekki aðalsýningunni í höllinni og það er meira að segja ókeypis inn.

Á þessu safni eru föt og brynjur kóngafólksins. Þarna eru meðal annars föt sem tveir kóngar klæddust þegar þeir voru drepnir. Það var líka eitthvað Manga dæmi með teikningum af kóngafólkinu í búningunum. Ingimar féll alveg fyrir þeim og fékk að lokum ísskápssegul með mynd af Óskari fyrsta. Eftirminnilegustu gripirnir að mati strákana var gullbrynja fyrir hest og mann (notuð við útför konungs) og undarlegur hjálmur með andliti og áberandi yfirvaraskeggi. Þeim fannst líka gaman að prufa búninga. Síðan þótti öllum skemmtilegt að skoða vagna kóngafólksins í kjallaranum, bæði dagsdaglegu farartækin sem og krýningarvagnar.

Þetta var skemmtun fyrir alla fjölskylduna og næstu daga gat ég vísað í það sem strákanir sáu þarna þegar ég var með einhverja sögulexíu.

Lokaáfangastaður dagsins var síðan uppáhaldsbúðin mín í borginni, SF Bokhandeln (þar fékk ég áritun frá Neil Gaiman fyrir átta árum). Ég keypti fjölskylduhlutverkaleikinn Mausritter og Ingimar fann bjölluhnapp með óhjóðum til að nota við að spila Exploding Kittens. Ég hefði getað eytt miklum tíma þarna en allir voru frekar þreyttir þannig að við komum okkur fljótlega heim á hótel.

Veðurspáin fyrir föstudag var góð þannig að við ákváðum að fara í Gröna Lund. Það var reyndar vesen að kaupa miða á netinu þannig að við þurftum að kaupa á staðnum. Sumir fóru í margar ferðir og aðrir biðu yfirleitt með stafla af töskum í kringum sig.

Veðurspáin gekk ekki alveg eftir. Það byrjaði að hellirigna. Ekki í smá tíma heldur í hátt í klukkustund. Við ákváðum samt að halda áfram og fórum í röð í “bláu lestina” sem er gamaldags draugahús. Það var merkilega skemmtilegt. Best var samt þegar það kom upp eldgusa og ég reyndi að komast nær enda gegnblautur og kaldur.

Fyrir 16 árum fórum við Eygló í Gröna Lund með þjóðfræðinemum og ég eyddi tíma mínum umkringdur bakpokum og veskjum. En ég fór samt í skrýtna húsið. Þar er speglasalur, skökk herbergi, gangur sem virðist snúast og endapunkturinn er fljúgandi teppi (rennibraut þar sem þú situr á teppi). Árið 2006 lenti ég í því að setjast eitthvað vitlaust á teppið þannig að annar sandalakæddur fótur minn var fyrir framan teppið og núningsbrann á niðurleiðinni. Myndin af okkur þar er glæsileg enda var ég að öskra af einskærum sársauka.

Við ákváðum að fara aftur núna. Húsið skemmtilegt og þegar kom að teppið ákvað ég að fara með Ingimar. Þegar ég sest á teppið og horfi niður fæ á smá óþægilega tilfinningu og fer að hugsa að ég sé of gamall fyrir þetta. Síðast sest Ingimar á mig áður en ég er búinn að koma mér fyrir þannig að við erum í asnalegri stellingu. Mér brá aðeins hve hratt við fórum niður þannig að myndin af okkur feðgum er frekar skemmtileg. Á hinni myndinni var Eygló öskrandi meðan Gunnsteinn var ógnarsvalur og rólegur með sólgleraugu. Við keyptum myndirnar.

Rétt áður en við fórum út ákváðu drengirnir að þeir vildu taka þátt í lukkuhjóli þar sem hægt var að vinna risastóran kassa af Daim (eða Toblerone en það þótti ekki spennandi). Við ákváðum að kaupa þannig að við værum með fimmtán númer af hundrað. Ég var alveg tilbúinn að takast á við grát og gnístran tanna og kenna þeim verðmæta lexíu en síðan unnu þeir bara tvö kíló af Daim og voru rosalega glaðir. Þetta leiðir mögulega til fjárhættuspils seinna á ævinni.

Eftirminnilegast þótti strákunum að fara í Twister, Villtu músina (sem minnti þá Roblox tölvuleiki) og að hlusta á mömmu sína öskra í tækjunum.

Gunnsteinn hafði farið í flest öfgakenndu tækin af öllum og á leiðinni heim var hann aðeins farinn að grænka. Fyrst var það strætó á T-Centralen og síðan neðanjarðarlestin.

Þegar við vorum komin svona hálfa leið að stöðinni okkar segir Gunnsteinn að hann vilji fara út. Ég segi við hann að það sé nú betra að halda áfram nema að hann sé að fara að gubba. Hann gaf í skyn að ælan væri á leiðinni þannig að við hoppuðum út. Hann gubbaði strax og hann kom út, lagðist á bekk og endurtók uppsölurnar nokkrum sinnum í viðbót.

Þegar ég leit við og í kringum mig var ég hissa að sjá hvorki Eygló né Ingimar. Þau höfðu sumsé, að eigin sögn, ekki verið nógu snögg út og héldu því bara áfram á leiðarenda. Mig grunar að þau hafi bara viljað nota tækifærið til þess að taka sætin okkar svo þau þyrftu ekki að bakka á áfangastað.

Á meðan ég beið eftir að Gunnsteinn jafnaði sig stóð ég vörð þannig að enginn myndi stíga í gubbið. Að lokum birtist starfsmaður og ég þurfti að útskýra stöðuna fyrir honum. Hann virtist ekki glaður með þetta en hafði samband við einhvern í gegnum talstöðina.

Á sama tíma byrjaði Gunnsteinn að jafna sig og fór að hlæja að sjálfum sér. Ég bað hann um að gera það ekki fyrir framan grey starfsmanninn. Við gripum næstu lest og komumst alla leið á okkar stöð þar sem Ingimar og Eygló biðu.

 

Ég var búinn að tannbursta og koma mér upp í rúm þegar brunakerfið á hótelinu fór af stað. Ég ákvað að fara í buxur og leit fram á gang sem var að fyllast að öðrum óákveðnum gestum að kíkja út. Engin brunalykt. Við vorum ekki mjög snögg út en komum okkur samt.

Úti við sýndi ég gott fordæmi og kom okkur yfir götuna til að gefa slökkviliðinu pláss til að athafna sig. Flestir fylgdu með. Slökkviliðið var svona fimm eða tíu mínútur að komast að þeirri niðurstöðu að það væri enginn eldur. Svona er þetta víst bara á hótelum þar sem gestum er treyst fyrir eldunaraðstöðu. Drengjunum fannst þetta að lokum bara spennandi viðburður. Við sofnuðum óvenju seint þetta kvöld.

Við vorum ekki snögg út á laugardagsmorgun. Fyrsti áfangastaðurinn var Þjóðminjasafnið. Ég var búinn að gleyma því hve ofhlaðið safn það er. Við þurfum ekki tíu gripi sem eru eiginlega eins. Það var smá hjálplegt að geta notað upplýsingaskjái til að fá fróðleik um gripina. En það var oft þannig að það stóð ekki einu sinni hvar gripurinn fannst eða frá hvaða tíma hann væri.

Ekki góð framsetning.

Það var hins vegar góð framsetning á sumum rúna- og myndasteinum, sérstaklega Stora Hammars III þó það hafi ekki verið sjáanlegar frekari upplýsingar um þessa steina. Það var skjávarpi notaður til þess að sýna betur myndirnar. Ekkert flókið, bara svart þar sem grár litur er núna. Síðan voru líka notaðar skuggamyndir til að sýna ákveðna hluta betur og jafnvel hreyfa þá til. Strákunum þótti það líka flottast.

Ég var löngu búinn að ákveða að skoða bara víkingaöldina og síðan vonaði ég að gullherbergið væri spennandi fyrir strákana en þeir voru ekki alveg nógu hressir þar.

Hvar var borðað í síðbúinn hádegismat? McDonald’s. Hvað borðaði ég. McNuggets (eina spurningin hvort þær væru sterkir eða ekki).

Við komum okkur næst á Skansen og skoðuðum aðallega dýrin. Elgurinn var merkilega góður að fela sig en birnirnir voru að njóta lífsins. Ég náði að gera Ingimar spenntan að sjá jarfa og svo vel vildi til að dýrið sýndi sig vel og vandlega. Ég held að það hafi ekki gerst í fyrri heimsóknum mínum þar. Gaupan náði hins vegar að fela sig jafnvel og elgurinn.

Lokapunkturinn var að fara að skoða lemúra, bavíana, dvergapa og síðan litla sædýrasafnið. Líklega var kúbverski krókódíllinn mest spennandi en hann hreyfði sig ekki úr stað þó hann hafi nú opnað auga til að skoða okkur. Á leiðinni út klöppuðum við strákarnir slöngu en létum kóngulóna vera.

Allir nema ég voru sáttir við snarl í kvöldmatinn. Þau hin borða greinilega nógu vel á McDonald’s en ég fékk mér ekki mikið. Ég tók því á mig að rölta í ICA til að kaupa vistir og greip pizzu á Marino’s. Þar fékk ég skilaboð um að fjölskyldan hefði aftur þurft að fara út vegna brunabjöllu. Þau voru komin aftur inn þegar ég kom. Brunaútköll verða ekki meira spennandi eftir því sem þau eru endurtekin oftar.

Sunnudagurinn var síðasti heili dagurinn. Við vorum ekki rosalega hress þannig að við fórum frekar seint af stað.

Upprunalega markmið dagsins var að taka hádegisverð í IKEA. Við fórum því í Gallerian en þá kom í ljós að það var ekki hægt að panta nákvæmlega það sem Ingimar vildi. Þannig, að tillögu Gunnsteins, fór að síðbúni hádegismaturinn var á Pizza Hut.

Ég ætlaði að prufa að nota vefinn þeirra til panta og síðan appið en hvorugt virkaði. Þannig að ég fór bara í afgreiðsluna þar sem lærlingur afgreiddi mig, hann missti alveg af því að ég bað um bolognese og rukkaði mig of mikið fyrir matinn hans Ingimars.

Þegar maturinn hennar Eyglóar kom ekki varð ég smá stressaður að þurfa að kvarta eftir að hafa verið svona ömurlegur á McDonald’s viku fyrr en það reddaðist.

Áfangastaðurinn var tæknisafnið. Á leiðinni tók ég eftir því að hinum megin við götuna var “etnógrafíska safnið” og í gríni stakk ég upp á að fara þangað í staðinn. Eygló spurði hvað væri þar. Ég svaraði að þær væru gripir sem hefði verið stolið héðan og þaðan úr heiminum. Eygló: “Þú hefur einmitt svo gaman af svoleiðis”.

Skák og mát.

Tæknisafnið var alveg ágætt. Sumt var mjög flott og annað frekar óspennandi. Mér þótti það fulláberandi að sýningarnar voru styrktar af ákveðnum fyrirtækjum þannig að þeirra tæki voru settir í sviðsljósið. Á svona safni hefði ég reyndar haldið að merkasta framlag Svía til tölvualdarinnar væri áberandi en ég sá hvergi talað um Linux (hefðu væntanlega þurft að borga til að vera með). Drengirnir voru auðvitað glaðastir með tölvuleikjasýninguna. Þar var reyndar mikil áhersla á sænska leiki (sumir greinilega styrktaraðilar) en ég fékk að spila Space Invaders í spilakassa.

Það var líka “náma” þarna sem var mjög dimm og Ingimar leysti það með því að kveikja á símaljósinu. Gunnsteini þótti það hálfgert svindl og ganga gegn tilgangi svæðisins. Í kjölfar námunnar var hægt að spila tölvuleik sem minnti töluvert á Boulder Dash, bara ekki jafn skemmtilegur.

Á neðstu hæðinni var svæði til að mæla líkamlegan styrk og sveigjanleika. Mig langaði í svigherminn (skíði sumsé) en það sátu margir um hann. Ég virðist líka vera með sterkt grip miðað við mælingar. Síðan var róðrarkeppnistæki þar sem ég keppti bæði við Gunnstein og Eygló, sigraði bæði, en fékk áminningu um að stóri strákurinn minn er ekki svo lítill lengur. Það munaði bara sekúndubrotum á mínum besta tíma og hans.

Við breyttum til á heimleiðinni og tókum McDonald’s með okkur á hótelið frekar en að borða á staðnum. Ég náði að verja McFlurry’ið á leiðinni þó Ingimar hafi gert góða tilraun til að kýla pokann óvart þar sem hann sveiflaði handleggjunum.

Enginn hafði orku til að gera nokkuð á mánudagsmorgun. Við tókum til og pökkuðum áður en við yfirgáfum hótelið (og töskurnar okkar í geymslunni). Afrek mitt var að koma stóra Daim-kassanum ofan í töskuna mína. Við röltum að leikvelli í nágrenninu. Ingimar hafði gaman af því að klifra og Gunnsteinn sýndi meira að segja smá lit þó hann telji sig augljóslega alltof fullorðinn fyrir svona.

Síðasta máltíðin í Stokkhólmi var á Marino’s. Gunnsteinn lýsti yfir að pizzan þar hafi verið besta máltíð ferðarinnar. Eftir það var bara að koma sér á hótelið og draga farangurinn á neðanjarðarlestarstöð og í Arlanda Express af T-Centralinn. Strákarnir segja mér að það hafi verið barn að stara á þá á leiðinni. Gunnsteinn kallaði barnið sætt en Ingimar sagði að það hefði verið hræðilegt.

Vegna einhverra öryggisráðstafanna gat lestin ekki stoppað við okkar álmu þannig við þurftum að labba í svona fimmtán mínútur til að komast á réttan stað. Það var allt hægvirkt þarna en ég gat alltaf hugsað um Heathrow sem róaði mig. Allt betra en það. Auðvitað er erfiðara að gera þetta með fjölskylduna en samt betra yfir heildina.

Í flugvélinni tókum við strákarnir okkur til og horfðum saman á Free Guy. Við samstilltum okkur og það þurfti nokkrar tilraunir til að vera nokkurn veginn á sama tíma í myndinni. Hún er ennþá nokkuð góð skemmtun.

Ég fann ekkert til að horfa á sem passaði fyrir þennan rétt rúma klukkutíma sem var eftir af fluginu. Mér datt í hug að horfa á mynd sem ég hefði séð það oft að það væri í lagi að missa af endinum.

Þó ég hafi ekki séð Lethal Weapon í nær tvo áratugi sá ég hana nógu oft þar áður til að sleppa endinum. Þegar myndin byrjaði var varað við að myndin hefði verið klippt til, bæði hlutföll og efni, til þess að hægt væri að sýna hana í flugvél. Síðan byrjaði myndin. Hún passaði ekki á skjáinn í níu á móti sextán. Hún var eiginlega hærri en hún var breið. Í besta falli einn á móti einum. Ég tók mynd af skjánum en lét vera að horfa á þennan glæp gegn kvikmyndalistinni.

Eftir að hafa beðið í fjóra daga eftir að fá töskuna sem ég var með í London var ég mjög taugastrekktur við farangursbandið. En það kom allt. Ég hugsaði samt, sem fyrr, að ég þyrfti að spreyja þessar svörtu ferðatöskur sem við eigum með áberandi lit svo hægt sé að þekkja þær án þess að líta á merkimiðana.

Við þurftum að fara af komusvæðinu yfir á brottfararsvæðið til að ná í bílinn okkar. Þar sat hann einn og yfirgefinn, í gangi, með opinn glugga, á svæði sem hefði verið hægt að sekta okkur fyrir að vera of lengi á. Ég er ekki spenntur að nota þessa þjónustu aftur.

Það var rosalega gott að komast heim. Góð sturta. Gott rúm.

London 2022

Það var fyrir næstum tveimur og hálfu ári að tilkynnt var um tónleikaferðalag eftirlifandi meðlima Queen með söngvaranum Adam Lambert. Við ræddum möguleikann á fjölskylduferð á tónleika en þar sem tal um ákveðinn vírus var farið að verða áberandi ákváðum við að sleppa því þá. Það fór líka þannig að tónleikaferðinni var frestað. Fyrst um ár. Síðan um annað ár.

Þegar varð ljóst að tónleikaferðin yrði nær örugglega á þessu ári fór ég að grafast fyrir um möguleikann á fjölskylduferð. Ég skoðaði ýmsa staði og hvergi virtist vera hægt að redda miðum fyrir okkur fjögur saman í sæti. En það var hægt að redda stökum miðum. Þannig að ég ákvað að bíða með fjölskylduferðina og skreppa bara einn til London. Ég bókaði miða fyrir tónleika í Þúsaldarhvelfingunni (sem þykist núna heita eftir einhverju símafyrirtæki).

Ég velti fyrir mér hótelum og ákvað að velja Garden View Hotel sem var á fínu verði nálægt Earl’s Court neðanjarðarlestarstöðinni. Í London skiptir það auðvitað einna mestu máli að hafa aðgengi að Undirgrundinni og þessi stöð er fínn tengipunktur, meðal annars til og frá Heathrow.

Lítið að segja um flugið út eða nokkuð fyrren ég kom á hótelið. Ég innritaði mig og var síðan sagt að nota stigana til að fara upp á þriðju hæð (semsagt fjórðu hæð). Stiga? Já. Lyftan var biluð og virtist hafa verið það í einhvern tíma. Ég dröslaði töskunni alla leið upp í gegnum völundarhús stiga með óljósum merkingum. Ljósunum var stýrt af hreyfiskynjurum þannig að ég þurfti stundum að vera í myrkri þar til hreyfingin var numin. Þegar ég kom að herberginu var ennþá verið að taka allt til. Ég þurfti að bíða vandræðalegur í herberginu.

Ég tel mig ekki kröfuharðan á hótelherbergi. Í fyrsta lagi vil ég að það sé allt í góðu með hreinlætið og í öðru lagi að það sé sturta. Ég hafði þá tilfinningu að það væri ekki gert mikið meira en bara að skipta á rúminu. Þegar á leið komst ég að því að herbergið væri hitakista og þá sérstaklega eftir að ég fór í sturtu. Eina leiðin til að hafa herbergið lífvænlegt var að galopna glugga og draga frá. Sturtan sjálf var síðan með ákaflega litlu vatnsflæði, meðal annars af því að töluvert af vatninu lak út áður en það náði að sturtuhausnum.

En hvað um það. Fyrir utan að taka stutt rölt að og framhjá Garden Lodge, sem var heimili Freddie Mercury, afrekaði ég ekki mikið á mánudeginum. En fyrsta leikhúsferðin var um kvöldið, Back to the Future söngleikurinn. Ég hafði séð mjög jákvæða dóma um sýninguna en hún stóð ekki sérstaklega vel undir væntingum. Reyndar skánaði flest þegar á leið. Ýmsu var breytt í söguþræðinum, sumt fínt en annað ekki. Verst þótti mér hve mikið var treyst á brandara sem brutu fjórðuvíddarvegginn. Í myndunum eru brandararnir út frá muninum á 1985 og 1955. Marty veit hvernig framtíðin er og vísanirnar virka þannig. En það var bara endalaust af einhverju um hvernig tuttugasta og fyrsta öldin yrði. Auðvitað hefði mátt hafa einhverja svoleiðis en þetta var allt of mikið.

Höfuðpersónurnar þrjár, Marty, Doc og George voru túlkaðar á mismunandi hátt. Sá sem lék Marty var bara nokkuð einföld eftirherma af Michael J. Fox en þó án persónutöfra. Leikarinn sem túlkaði George var nær fullkomin eftirherma af Crispin Glover. Það virkaði að mestu nema kannski þegar hann hló of lengi þessum asnalega hlátri. En sá sem lék Doc Brown var frumlegri. Hann túlkaði persónuna upp á nýtt. Það mætti segja að hann hafi verið meira Mel Brooks en Christopher Lloyd. Það virkaði eiginlega best. Af hinum… Persóna Lorraine hefði mátt fá meira að gera. Biff var óspennandi. Hann var alltaf ógnandi af því að hann var vöðvastæltur en þeim virðist hafa þótt fyndnara að hafa hann bara feitan.

Frumsamda tónlistin var óeftirminnileg. Ég bókstaflega man ekki eftir neinu lagi. Tæknibrellurnar voru á köflum skemmtilegar þó mér hafi þótt of mikið treyst á skær blikkandi ljós.

Það var ekki heldur mikið afrekað á þriðjudeginum. Ráfaði um. Veðrið gott og ég settist reglulega og naut lífsins. Sýning kvöldsins var Six sem fjallar um eiginkonur Hinriks VIII. Ég heyrði fyrst um sýninguna í hlaðvarpinu Not Just the Tudors. Ég nota orðið sýning af því að þetta er varla söngleikur í hefðbundnum skilningi. Persónurnar lýsa sambandi sínu við fræga eiginmann sinn og það er á köflum skemmtileg endurhugsun á þeim. Ég sat alveg fremst fyrir miðju. Ég vildi fótarými. Þegar salurinn var að fyllast hugsaði ég með sjálfum mér að ég virtist vera eini staki karlmaðurinn á svæðinu. En síðan kom ungur maður og settist við hliðina á mér. Hann hafði séð sýninguna þrisvar áður, þar af tvisvar í einhverri skemmtisiglingu.

Þar sem ég þekki ágætlega söguna af Hinrik áttunda gat ég alveg látið fara í taugarnar á mér að stundum voru klisjur látnar ráða frekar en nákvæmari sagnfræði. Boleyn var túlkuð sem tálkvendi og sagan af Cleves mjög hefðbundin þannig að það hafi bara verið útlit hennar sem varð til þess að hjónabandið var lýst ógilt þó í raun hafi það verið flóknara. En ég lét þetta ekki fara í taugarnar á mér af því að þetta var allt stórskemmtilegt. Ég er ennþá að raula lögin. Sérstaklega var Haus of Holbein eftirminnilegt. Á ákveðnum punkti í sýningunni benti ein drottningin á áhorfanda og lét hann dansa. Það var gaurinn við hliðina á mér. Ég var ánægður fyrir hans hönd enda virtist hann njóta þess í botn og ég var ennþá glaðari að ég varð ekki fyrir valinu. Ég er vissulega oft til í eitthvað sprell en ég var ekki í stuði til að dansa.

En sögunördinn var ekki alveg dauður, sérstaklega þegar það var brandari um að enginn vissi hver eiginkona Hinriks sjöunda hefði verið og ég hugsaði strax: “Það var Elísabet af York, dóttir Játvarðs fjórða og systir prinsanna í turninum, sem gaf konunginum töluverðan styrk enda hafði hún eiginlega betra tilkall til krúnunnar en Hinrik sem byggði kröfu sína á því að hafa sigrað Rósastríðið.”

Ég ráfaði bara aðeins um á miðvikudaginn enda þurfti ég að hafa góðan tíma til að komast á tónleikana. Ég var sérstaklega taugaóstyrkur af því að miðinn minn var ekki ennþá “kominn”. Ég hafði sumsé keypt miða í gegnum endursölukerfi Ticketmaster. Af einhverjum ástæðum taldi fyrirtækið best að láta kaupandann senda mér miðann í pósti frekar en ógilda þann gamla og senda mér nýjan. Ég beið og beið eftir miðanum.

Að lokum ákvað ég hafa samband og bað um rafmiða enda þótti mér loforð þeirra um að miðinn kæmi í síðasta lagi fimm dögum fyrir tónleika frekar tæpt. Hjálparkerfi Ticketmaster var ekki hjálplegt. Endalaus frumskógur, fram og til baka. Þegar ég hélt að ég væri komin að því að geta sent fyrirspurn var ég sendur á einhverja nýja hjálparsíðu með tillögum sem pössuðu ekki við mitt tilfelli. Að lokum fékk ég hjálp með því að bögga fyrirtækið á Twitter. Og ég fékk tilkynningu um að ég fengi rafmiða. Frábært! Ekki satt?

Þegar nær dró tónleikanum fékk ég póst um að til þess að fá rafmiða þyrfti ég að sækja app tónleikastaðarins. Þegar ég fór að setja það inn tók ég eftir því að notendur voru á nær einu máli um gagnsleysi og ömurleika forritsins. Ég var fljótur að sannreyna þá dóma. Ég þurfti að stofna reikning hjá tónleikastaðnum. Síðan þurfti ég að stofna reikning hjá einhverri annarri miðaþjónustu sem heitir Axs. Í hvert skipti sem ég opnaði forritið þurfti ég að skrá mig inn hjá Axs. Miðinn átti að birtast sjálfkrafa í appinu. Það gerðist ekki. Ég hafði samband við Ticketmaster og fékk svarið að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur, það myndi gerast fimm dögum fyrir tónleika. Það gerðist ekki. Ég hafði aftur samband. Þá var mér sagt að það gerðist í síðasta lagi 48 klukkustundum fyrir tónleika. Það gerðist ekki. Þá var mér sagt að það myndi gerast samdægurs.

Að morgni tónleikadagsins fékk ég tilkynningu frá Axs að miðinn minn væri kominn inn á reikninginn minn. Ég staðfesti það með því að opna vefaðganginn. Þá þurfti ég bara að staðfesta að miðinn kæmi í forritinu. Auðvitað kom hann ekki þar. En appið var samt meðvitað um að ég ætti miða og reyndi að selja mér varning fyrirfram. Miðinn birtist bara ekki. Svarið sem ég fékk var að ég þyrfti bara að redda þessu í miðasölunni hjá tónleikastaðnum.

Þannig að ég fór snemma af stað. Þetta var töluverður spotti en ég þurfti bara einu sinni að skipta um lest. Þannig að ég fór af stað og þegar ég kom út á stoppinu heyrði ég tilkynningu um að það væru vandræði á seinni línunni, líklega hafði einhver gleymt töskunni sinni. Ég endurreiknaði ferðina og sá að ég gæti bara haldið áfram með sömu línu og ég kom með og farið austur fyrir vandræðin, þaðan gæti ég tekið hina línuna vestur að tónleikastaðnum. Ég hoppaði í næstu lest sem síðan stoppaði strax á næstu stöð og tilkynnti að hún færi ekki lengra. Ekki út af einhverju veseni. Bara að sumar lestir fara ekki alla línuna til enda. Þannig að ég beið eftir lest sem færi alla leið að stöðinni sem á þurfti að stoppa á (West Ham). Þar var vissulega seinkun en ég gat samt tekið næstu lest að tónleikastaðnum.

Þar byrjaði ég á miðasölunni. Þar þurfti grey maðurinn að fara fram og til baka þar til að honum datt í hug að leita að miða skráðan á Gneisti frekar en Sóleyjarson. Glæsilegt kerfi. Þannig að ég er þakklátur þeim manni en allt hitt var asnalegt klúður.

Ég rölti að innganginum mínum, fékk mér ís á leiðinni, og fór í völundarhúsið til að bíða eftir að salurinn opnaði. Ég var voðalega glaður þegar fólkið fyrir framan mig settist bara á gólfið á meðan það beið. Ég geri það gjarnan en það er stundum horft á mig eins og ég sé eitthvað skrýtinn. Núna gat ég bara sest og verið eins og hinir. Og beið. Ég hafði klárað allt vatnið mitt áður en ég fór í röðina og var orðinn svolítið þyrstur þegar við loksins komum inn. Ég hoppaði strax á barinn og bað um sódavatn. Það var ekki til en ég gat keypt rándýrt volgt vatn í tappalausri flösku.

Ég var frekar snemma á ferðinni og ákvað að standa bara fremst. Mér líkar það ágætlega þó ég sé alltaf með samviskubit yfir því að vera hávaxinn enda get ég hallað mér fram á öryggisgirðinguna þannig að fólk sjái frekar yfir mig. Gaurinn við hliðina á mér var álíka stór og ég en var nær alla tónleikana með símann í loftinu til að taka upp tónleikana. Þannig að ég var bara náttúruleg hindrun á útsýni frekar en viljandi.

Tónleikarnir voru fínir. Það var ekki annað hægt en að bera þá saman við tónleikana sem ég fór á með Roger Taylor (trommara Queen) í fyrra. Það var minna um brellur en það var alltaf hann að syngja. Það er ekki það sama að hafa Adam Lambert í hlutverki söngvara og satt best að segja var hann ekki jafn góður og hann var 2017 þegar ég sá hann á Írlandi. Hápunkturinn var að þegar Roger og Brian sungu, og þá sérstaklega þegar Brian tók ’39. Það gladdi mig líka mjög að heyra In the Lap of the Gods (Revisited).

Það var mikill troðningur á heimleiðinni. Ég náði að komast í fyrstu lestina frá staðnum. Alveg troðfull. Einn kall ákvað að vera sniðugur og hoppa inn þegar allir hinir á lestarpallinum höfðu komist að þeirri niðurstöðu að það væri ekkert vit í slíkum æfingum. Hann komst inn en bakpokinn hans klemmdist þegar hurðina lokaðist. Það var mikið vesen hjá nærstöddum að losa hann. Kallinn reyndi að grínast með þetta en það var ljóst að engum öðrum þótti þetta skemmtilegt.

Troðningurinn var þannig að stór hópur farþega þurfti að standa. En ég hef tekið eftir því að í slíkum aðstæðum er alltaf til fólk sem heldur að það sé betra að standa þó það séu laus sæti. Það stendur jafnvel og blokkar laus sæti og ímyndar sér væntanlega að það sé að fórna sér með því að setjast ekki niður. Ó nei, þú ert í raun að taka tvöfalt meira pláss.

Þegar ég var kominn í lestina sem færði mig að hótelinu byrjaði gaur í vagninum að hnerra aftur og aftur. Ég mætti augum manns hinum megin við ganginn og við vorum greinilega að hugsa nákvæmlega það sama. En það var bara á síðasta spottanum þannig að ég slapp fljótt.

Á hótelinu gladdi það mig að það var búið að koma með ný handklæði. Það hafði sumsé ekki verið skipt um handklæði daginn áður. Það var frekar slæmt þegar ég kom heim eftir gönguferðir í sólinni og lestartroðning. Ég hefði helst vilja fara í sturtu tvisvar á dag. Ég tók seinna eftir því að á blaðinu, sem ég fékk með þeim orðum að þarna væru upplýsingar um þráðlausa netið, var klausa um að gestir þyrftu sérstaklega biðja um að herbergið væri þrifið fyrir klukkan átta kvöldið áður. Ég hef aldrei áður kynnst slíku á hóteli.

Í fyrra tók ég átak í að lesa Sherlock Holmes aftur. Ég ákvað því að heimsækja Sherlock Holmes safnið sem er í 221B (samt ekki í númeraröðinni) Baker Street. Ég bókaði því heimsókn á fimmtudagsmorgni. Á leiðinni voru aftur tafir á lestarkerfinu. Í þetta skiptið var tekið fram að það hefði orðið dauðsfall á teinunum. Þar sem ég sat á pallinum heyrði ég ítrekað hljóð. Ég veit ekki nákvæmlega hvað það er en það hljómar eins og að það sé verið að losa gufu. En þarna sá ég fyrir mér að þetta væri hljóð í háþrýstidælu sem væri að þrífa teinana. Algjört bull auðvitað. Það var ekkert vandamál á þessari stöð en hausinn var samt að tengja þetta.

Þegar lestin kom loksins fann ég mér sæti en heyrði fljótlega íslensku. Ég leit til hliðar og sá þar gamlan félaga. Spjallaði aðeins. Hann var að fara á vaxmyndasafn með krakkana. Þannig að við vorum báðir mjög túristalegir.

Lukkulega náði ég á Sherlock Holmes safnið á þeim tíma sem ég hafði bókað. Ég hafði ekki miklar væntingar og það stóðst alveg. Þetta er sett upp eins og um sé að ræða heimili Sherlock Holmes (þó húsið sé reyndar mun yngra). Það er nær ekkert um raunverulegan bakgrunn sagnanna. Það er ekkert um Arthur Conan Doyle eða kvikmyndir og sjónvarpsþætti. Þarna er samansafn af ýmsum forngripum sem hafa mismikil, eða lítil, tengsl við Sherlock Holmes. Þarna eru svefnherbergi, stofa og svo framvegis. Mér fannst uppsetningin ekki passa sérstaklega vel við sögurnar. Síðan voru nokkrar misvel heppnaðar vaxmyndir á efstu hæðinni.

Gestir eiga að klára heimsóknina á um fimmtán mínútum og það passar alveg fínt. Ég kíkti í gjafabúðina og það var nær allt sama fjöldaframleidda draslið sem er í öllum gjafabúðum með mismunandi lógóum. Það eina sem mér þótti smá spennandi voru styttur af Holmes en þær voru allar uppseldar.

Eftir hádegi var það söngleikurinn Hamilton. Fyrst sagði fólk að hann væri það besta í heimi og síðan var bakslag og hann var sagður alveg skelfilega vondur. Ég hafði því hóflegar væntingar. Ef þið vitið ekki er umfjöllunarefnið Alexander Hamilton, einn af landsfeðrum Bandaríkjanna. Áður en söngleikurinn sló í gegn vissi eiginlega enginn neitt um manninn. Hann er á tíudollara seðlinum en hann var aldrei forseti, bara fjármálaráðherra. Ef þú ert sögunörd vissir þú líklega að hann var drepinn í einvígi af Aaron Burr sem var þáverandi varaforseti Bandaríkjanna. Fyrir Íslendinga er reyndar skemmtilegt að vita að mamma hans bjó um tíma á St. Croix sem tilheyrði þá dönsku krúnunni og varð seinna fæðingarstaður Hans Jónatans.

Lin-Manuel Miranda samdi söngleikinn upp úr ævisögu Hamilton. Það hefur reglulega verið bent á að sú mynd sem dregin er upp á landsföðurnum eigi á stundum meira skilt við skoðanir höfundarins heldur en sögulegu persónunar. Reyndar hefur áhugi á Hamilton aukist til muna síðustu ár þannig að sagnfræðingar hafa mun betri skilning á honum heldur en þegar Miranda var að semja handritið.

Söngleikurinn er frægur fyrir að velja leikara án þess að líta til húðlitar. Þetta hefur orðið sífellt algengari og það má meðal annars sjá á leikavalinu í sýningunni Six. Mér finnst þetta virka misvel eftir efnisvali. Í Hamilton er það hálfskrýtið að tala um þrælahald þegar aðalpersónan er leikin af svörtum manni. Það gerir sögulegar persónur sem voru svartar ósýnilegar. Mér finnst það vera betur heppnað þegar við endurhugsum sögur eins og Les Mis með aðalpersónum sem eru svartar. Það minnir okkur á að sagan er ekki jafn snjóhvít og við ímyndum okkur. Þegar fólk kvartaði yfir því að svartir leikarar væru fengir til leika í Les Mis var það algjörlega laust við að skilja að það var alveg fullt af svörtu fólki í Frakklandi þess tíma og er Dumas-fjölskyldan alltaf augljósa dæmið. En átti einhver persóna í söngleiknum Hamilton að vera svört? Engin leið til að vita bara með því að horfa.

Hvað þótti mér um söngleikinn? Ég átti stundum erfitt með að fylgja hraðskreiða rappinu. Ég þekki söguna hins vegar það vel að ég hélt samt þræði. Það sem skiptir kannski helst máli er að það voru mörg góð lög og sum sem ég hef sönglað með sjálfum mér.

Þar sem þráðlausa netið var eiginlega ónýtt á hótelinu var lítið um afþreyingarmöguleika annað en að kveikja á sjónvarpinu. Það var stillt á stöð sem heitir Dave sem endursýnir aðallega gamla grínþætti meðfram endalausum auglýsingum. Þegar auglýsingahléi lauk hafði ég almennt alveg gleymt hvað ég hefði verið að horfa á.
Það vildi reyndar svo til að á mánudagskvöldið og fimmtudagskvöldið var sami þátturinn af QI sýndur. Ég hefði haldið að það væri auðvelt að koma í veg fyrir svona tíðar endurtekningar. Lukkulega horfði ég bara á kynninguna á þættinum á mánudaginn þannig að ég var ekki sérstaklega pirraður að fá annað tækifæri. En síðan útskýrði Stephen Fry að það tæki eld 90 sekúndur að breiðast út um flugvél þannig að flughræðslan fékk smá fóður.

Á föstudeginum byrjaði ég á því að pakka í tösku og setja í geymslu á hótelinu. Ég ákvað að fara í Hamley’s leikfangaverslunina. Ég rölti upp og niður og rakst á dróna sem ég ákvað að kaupa handa strákunum mínum. Þar sem ég greip tvö stykki var mér tilkynnt að ég fengi ókeypis eitthvað svifdót, sem væri skemmtilegt að kasta úti við. Það minnti helst á svona ljósaspegla sem ljósmyndarar nota í myndatöku. Það var samt ekki einhver speglunarlitur á þessu heldur breski fáninn. Allt í flötum en stórum kassa.

Ég rölti í gegnum Karnabæ niður að leikhúsinu (og næsta klósetti). Þar sem ég beið eftir að fara inn settist ég niður á Leicester Square rétt hjá götupredikara. Hann var með gjallarhorn og talaði stanslaust og vitlaust um trúarhugmyndir sínar. Þegar hann fór að tala um múslíma sendi ég honum fingurinn mjög vandlega. Þegar hann fór að halda því fram að Opinberunarbókin fjallaði um Illuminati hló ég hátt og innilega að honum.

Núna var ég að fara á Book of Mormon. Ekki í fyrsta sinn. Þetta er mjög vel heppnaður söngleikur um Mormóna í Afríku og þó sumt af því sem er sýnt frá Afríku sé ekki frábært er ég á því að það sé til þess að gera grín að hugmyndum vestræns fólks frekar en á kostnað innfæddra. Þessi söngleikur er skemmtilegur að því leyti að hann er hefðbundinn að forminu til með grípandi lögum er sagan og efnistökin á skjön við hið venjulega.

Á sýningunni lenti ég í því sama og ég oft áður. Ég vel mér sæti út frá fótaplássi. Þess vegna sat ég fremst á Six og þess vegna sat ég við ganginn á Book of Mormon. Það versta er ekki að þurfa að standa á fætur og hleypa fólki. Það versta er að þurfa að fá endalausar afsökunarbeiðnir frá fólkinu. Ég valdi sætið. Ég vissi að þyrfti að hleypa fólki. En í þetta sinn svaraði ég afsökunarbeiðni með orðunum: “It’s the nature of the thing” sem náði einhvern veginn að gleðja fólkið.

Ég nefndi fyrr svifdótið sem ég fékk í Hamley’s. Var það óþarfa útúrdúr? Nei, það var til að útskýra hvað gerðist nú. Í hléinu fann ég mér stað aftast í salnum þar sem ég gat staðið á meðan fólk streymdi út. En ég var líka með stóran, léttan, flatan pakka með mynd af breska fánanum. Það var frekar heitt í salnum þannig að ég tók upp á því að nota pakkann eins og blævæng. Fólkinu sem gekk þarna framhjá þótti þetta mjög skondið, sérstaklega af því þetta leit svolítið út eins og ég væri að veifa breska fánanum.

Þar sem þetta var síðasti dagurinn var ég meðvitaður um að vera tímanlega á leiðinni á flugvöllinn. Ég kíkti reglulega á þjónustutilkynningar Undirgrundarinnar til að vera viss um að ég væri öruggur. Allt í góðu þannig að ég þurfti ekki að stinga af snemma úr leikhúsinu. Ég tók lestina beint að hótelinu og fór síðan með lestinni að Heathrow. Allt á góðum tíma og bara smá innritun og öryggishliðið eftir.

Það var allt í rugli á Heathrow. Kerfið sem flutti og flokkaði farangurinn var bilað. Þannig að ég þurfti að troðaast að innritunarborðinu þar sem mér var sagt að fara sjálfur með farangurinn niður fimm hæðir (lukkulega með lyftu). Mér var bent í rétta átt en það var enginn sem útskýrði neitt meira. Engum hafði dottið í hug að nota upplýsingaskjái til að hjálpa farþegum að skilja stöðuna. Ég tróð mér í átt að lyftunni og áttaði mig þá á að ég hafði verið að troða mér framhjá röðinni að lyftunni. Þannig að ég þurfti að koma mér aftur til baka og bíða og bíða eftir að komast í lyftuna.

Síðan þurfti ég að ramba á réttan stað með töskuna. Þar var tekið á móti okkur og töskunum hrúgað saman. Ég hélt að það hlyti að vera kerfi…

Allt vesenið, troðningurinn og þrengslin urðu til þess að ég ákvað að sleppa því að yfirfara það sem væri í handfarangri og innrituðum farangri. Það var enginn staður til þess að gera neitt svoleiðis. Ég passaði bara að ég væri með vegabréfið.

Röðin að öryggishliðinu var lengst og versta völundarhús sem ég hef komið í. Algjör martröð. Það voru alls staðar merkingar um að hafa pláss á milli fólks hreinlætisins vegna en um leið voru starfsmenn að skamma farþega fyrir að troða sér ekki nógu þröngt. Það sem gerði stöðuna verri var að farþegar höfðu ekki tíma eða pláss til að fara í gegnum handfarangurinn í ró. Þannig að það var ekki fyrren það kom að þegar fólk var að setja draslið sitt í bakka í öryggisskoðunni að það gat hent vatnsflöskum og að sett aðra vökva í litla töfrapoka sem varna gegn hryðjuverkum.

Þegar ég fór að nálgast öryggishliðið sjálft heyrði ég í konunni sem var á vakt þar. Hún var að segja ömurlega brandara sem enginn hafði húmor fyrir. Það var líka þannig að rétt fyrir aftan mig var fjölskylda og meðal annars táningstúlka sem var greinilega í uppnámi og var farin að gráta. Fjölskyldan reyndi að biðja konuna um að hleypa þeim fram fyrir. Svörin voru andstyggileg. Ég fór óvart að hrópa á hana af því mér þótti hún svo ósanngjörn. En það sem gerðist næst var að farþegarnir einfaldlega hleyptu fjölskyldunni fram fyrir. Þegar fjölskyldan var komin í öryggiskoðunina hélt konan áfram dólgshætti sínum kvartandi að það væri allt vitlaust gert. Ég var farinn að kvíða því að lenda á konunni en þá voru fleiri öryggishlið opnuð þannig að ég slapp.

Ég nennti ekki að finna mest spennandi matinn í flugstöðinni heldur greip ég bara samloku og vatn á Pret og fékk frekar þægilegt sæti til að hvíla mig. Ég náði síðan að eyða nokkrum tíupundaseðlunum sem ég var með. Ég er alltaf svo smeykur við að treysta bara á kort að ég tek út peninga en síðan er yfirleitt svo auðvelt að borga með korti að ég nota það ekki nema þegar ég vanda mig að muna eftir því.

Síðan fór ég að hliðinu og beið í töluverðan tíma. Okkur var loksins hleypt inn í vélina en ég var með þeim síðustu inn. Þegar ég kom að sætinu mínu sat þar kona sem hafði eitthvað verið að semja við aðra farþega svo hún gæti setið hjá sínu fólki. Einhvern veginn endaði það þannig að fólkið hægra megin fór allt vinstra megin og öfugt. Þegar ég var nýsestur en ekki búinn að koma mér fyrir kemur allt í einu flugfreyja og segist vera í vandræðum og þurfa farþegar annars staðar. Ég ákvað að gefa eftir og þá var mér komið fyrir við neyðarútgang þar sem ég var einn í röð. Mér þótti ágætt að vera einn, sérstaklega þar sem ég var meðvitaður um að hafa svitnað töluvert í öllu veseninu og þótti ágætt að bjóða ekki neinum upp á mögulega keim. Fótaplássið hjálpaði líka.

Nú er ég ekki aðdáandi þess að fljúga. Ég er flughræddur. Þannig að ég hlýt að vera sérstaklega hræddur þegar ég þarf að sitja við neyðarútgang með þá skyldu að hjálpa til ef neyðarástand kemur upp? Þvert á móti. Flughræðslan hverfur næstum. Ég verð rólegur. Ég skoða leiðbeiningar um hvað ég eigi að gera og tek þetta alvarlega. Það að hugsa um hvað ég þurfi að gera ef allt fer á versta veg dregur hugann frá hættunni. Hausinn er sumsé undarlegur.

Á leiðinni horfði ég þrjá þætti af Atlantic Crossing þar sem Svíar eru helstu óþokkarnir. Sérstaklega kóngurinn. Ég ætti kannski að lesa mér til um sögulega nákvæmni.

Við lentum og ég hoppaði snöggt í gegnum fríhöfnina (ekki kaupi ég áfengi eða sígarettur) og fór síðan að færibandinu. Þar kom fram að töskur frá London væru á leiðinni á bandið. Þannig að ég beið. Og beið. Loksins kom einn bakpoki og skiltið tilkynnti að allar töskurnar væru komnar. Ég var gáttaður. Ég fór að þjónustuborðinu þar var mér sagt að einungis tuttugu töskur hefðu verið settar í vélina í London.

Það fer óendanlega í taugarnar á mér að Icelandair hafi vitað að flestar töskurnar hafi orðið eftir í London en látið vera að tilkynna okkur það. Bara létu okkur standa og bíða við færibandið. Það er líka ömurlegt að það var enginn sem varaði okkur við að allt væri í rugli á Heathrow. Það var ekki óvænt það virtist hafa staðið yfir í töluverðan tíma.

Fyrir utan að það er ömurlegt að fá ekki töskuna var ég í vandræðum af því að ég hafði ekki tekið lyklana úr ferðatöskunni eins og ég ætlaði. Ruglið á Heathrow (og þrengslin á hótelinu) kom í veg fyrir það. Verra var að það var enginn heima. Ég nefndi við starfsmann að ég væri mögulega læstur úti og hann brást við með því að útskýra fyrir mér að það væri ekki góð hugmynd að hafa húslykla í innrituðum farangri. Ég hvæsti smá að honum en ég stoppaði mig áður en ég útskýrði ítarlega fyrir honum að smá viðvörun um ástandið á Heathrow hefði komið í veg fyrir þetta.

Þannig að klukkan var um miðnætti og ég þurfti að fara að bögga fólk til að redda varalyklum. Lukkulega var Árný frænka í borginni og gat komið útidyralyklinum heim til mín en hún hefir haft varalykilinn svo lengi að það var ekki lykill að nýja lásnum á forstofuhurðinni á kippunni. Þannig að ég hafði samband við þann nágranna sem mér þótti líklegastur til að vera vakandi og mér var reddað inn um forstofudyrnar og komst því heim. Gott að eiga góða granna og frænku.

Næstu daga fylgdist ég með fréttum af Heathrow. Það var ekki bara allt í rugli hjá brottfararfarþegum heldur þurftu komufarþegar líka að þola að töskurnar þeirra týndust. Á mánudeginum voru ótal flug felld niður og þá virðist hafa náðst að finna til eitthvað af farangrinum, allavega fékk ég töskuna mína í dag, þriðjudag og allt var á sínum stað þó ég hafi smá áhyggjur af óhreinu fötunum sem hafa fengið að gerjast þarna síðan á föstudaginn.

Kristján Gunnþórsson (1945-2022)

Kristján frændi minn Gunnþórsson er látinn.

Flest orðin sem mér dettur í hug til að lýsa honum innihalda orðið “góður” í einhverri mynd. Góðlegur, góðviljaður, bóngóður og svo framvegis. Ég upplifði hann sem mann sem leið best þegar hann gat hjálpað fólki.

Akureyringar kannast örugglega margir við nafnið hans og ótrúlega stór hluti þeirra hafa átt í einhverjum samskiptum við hann. Ég man hvað ég var alltaf glaður í æsku þegar ég sá hvíta sendibílinn keyra framhjá með nafninu hans. Ég fann líka til mjög barnalegs pirrings þegar ég sá ekki nafnið hans heldur nafna hans Grant. Næstum eins bílar og næstum eins nöfn.

Ég hitti hann oftast í Skarðshlíðinni hjá ömmu og afa, bæði þegar ég bjó þar og þegar ég var bara í heimsókn. Þar sem hann var alltaf á ferðinni var hann alltaf að segja fréttir af hinu og þessu. Það er líka eftirminnilegt þegar hann leit við og sagði okkur að hann væri að flytja risastóran hund áleiðis til einangrunarstöðvarinnar í Hrísey. Ég fékk að kíkja í bílinn.

Kristján kom oft færandi hendi. Ég hika næstum við að segja frá því að hann laumaði stundum að okkur bakkelsi sem hefði væntanlega átt að enda í svínafóðri. Hljómar kannski ólystugt en það hefði verið hægt að kaupa það í bakaríinu klukkutíma áður. Ég var allavega alltaf glaður að fá snúð.

Kristján var líka alltaf innan handar þegar við þurftum að flytja, sem var oft, innan Akureyrar. En eftirminnilegustu flutningarnir voru þegar við Eygló fluttum til Reykjavíkur. Okkur þótti það auðvitað of stór greiði að flytja búslóðina landshluta á milli þannig að við báðum ekki um það. En við spurðum hvort hann yrði eitthvað á ferðinni á hentugum tíma. Það kom í ljós að hann var að flytja búslóð á sama tíma og húsnæðið okkar yrði laust.

Af algerri tilviljun voru það nágrannar mínir úr Stekkjargerðinu, hinum megin við götuna, sem voru að flytja. Kristján náði einhvern veginn að raða öllu þeirra dóti svo vandlega að það var pláss fyrir okkar hluti. Þannig kom hann okkur suður. Í raun alveg ótrúleg lagni. Heimspekingurinn sagði “menning er að gera hlutina vel” og það á jafn mikið við um listafólk og það fólk sem getur unnið vanmetin störf af hæfni.

Kristján bað aldrei um neitt í staðinn fyrir hjálp sína og góðvild en ég hefði auðvitað verið til í slíkt. Það er stundum þannig með bóngott og hjálpsamt fólk að það er ekki endilega að biðja um mikið í staðinn. Ætli besta leiðin til að minnast Kristjáns frænda sé ekki að reyna að lifa eftir fordæmi hans. Ég get ekki lengur launað honum hjálpina en ég get reynt að láta gott af mér leiða.

Mínar innilegustu samúðarkveðjur til Jónínu, barna Kristjáns og barnabarna. Ég er, og verð ævinlega, þakklátur fyrir allt sem Kristján gerði fyrir mig og fólkið í kringum mig.

Símastandur á hljómborð (þrívíddarprent)

Eldri sonurinn er að æfa sig á hljómborðinu sínu með forriti sem heitir Simply Piano. Hann þarf því að hafa símann sinn þar sem hann getur séð hann. En hvernig á að gera það? Lukkulega var ég rétt að klára uppfærslu á þrívíddarprentaranum mínum.

Á Thingiverse fann ég hlut sem hægt er að smella á svipuð hljómborð til þess að styðja við nótnablöð. Ég prentaði hlutinn út til að sjá hvort þetta passaði á hljómborðið, sem hann gerði. En stykkið var alltof lítið til að halda símanum.

Ég opnaði því hlutinn í hönnunartóli og setti lengra bak. Ég breikkaði stykkið líka en til þess að væri auðveldara að smella því á hljómborðið breytti ég því þannig að það væri í laginu eins og keila á hvolfi. Mjótt neðst og breitt efst. Ég “klippti” líka tvö op á stykkið til að spara plastið.

Síminn á standinum.

Standurinn sjálfur.

Svona smellfestist standurinn á hljómborðið.

Virkar mjög vel.

Hægt er að finna standinn á Thingiverse.

Fasistar í Washington

avatar
Óli Gneisti

Á Þrettándanum í fyrra var gerð tilraun til valdaráns í Bandaríkjunum. Reyndar hefur verið mikið rætt um hvað við ættum að kalla þessa uppákomu en ég held að valdaránstilraun sé það besta.

Þar sem ég hef lengi haft áhuga og áhyggjur af uppgangi öfgahægrisins í Bandaríkjunum, allt frá tímum Ruby Ridge, Waco og Unibomber, var ég ekki rosalega hissa. Allavega ekki á að tilraunin hafi verið gerð.

Frá því að Donald Trump komst til valda hafði verið núningur á milli fólks um hvað kjör hans þýddi í raun. Fyrir mér er skýrt að hann var kosinn vegna þess að Demókrataflokkurinn er ekki að berjast fyrir betri kjörum almennings og reynir varla að tala um þau mál. Á sama tíma var Trump sífellt að tala um hag “venjulegs fólks” (lesist venjulegt hvítt fólk) og, það sem er verra, að búa til óvini sem það gat beint reiði sinni gegn. Auðvitað er Trump sama um allt þetta “venjulega fólk”. Hann vissi bara að óánægja þeirra væri vopn sem hann gæti notað.

Það var umdeilt hvers konar skepna Trump væri pólitískt séð. Fólk kallaði hann gjarnan trúð. Sem er sanngjarnt. Nema mögulega í garð trúða, allavega sumra trúða. En það er verra þegar fólk kemst að þeirri niðurstöðu að vegna þess að hann sé trúður sé hann um leið meinlaus, allavega að mestu.

Þegar reynt var að benda á fasískar tilhneigingar Trumps var það afskrifað, oft vegna þess að hann væri trúður. Það er undarlega laust við samhengi sögunnar. Ef við förum aftur um hundrað ár eða svo finnum sjáum við að Hitler og Mussolini voru kallaðir svipuðum. Það er ekki heldur rangt.

Ímyndið ykkur að þið hafið aldrei heyrt um seinni heimstyrjöldina. Að þið vitið ekkert um allt ofbeldið og ógeðið sem fylgdi. Horfið á myndbönd af þessum gaurum. Þeir voru trúðar. Kjánalegir. Hlægilegir. Gæsagangandi brandarar. Fasistar eru trúðar. Asnalegir búningar. Hvort sem það er á þriðja eða fjórða áratugnum eða í nútímanum.

Þannig að Trump fellur vel að trúðahefð fasismans.

En hvernig skilgreinum við fasisma? Stór spurning. Það eru til skilgreiningar sem eru svo þröngar að þær útiloka Mussolini. Sem er ekki gagnlegt að mínu mati. Ef við lítum ekki á Mussolini, Hitler og jafnvel Franco sem ólíkar birtingarmyndir fasisma erum við kannski ekki að tala um fasisma.

Ég er hrifnari af því að líta til ítalska rithöfundarins og heimspekingsins Umberto Eco. Árið 1995 skrifaði hann grein um hvernig sé hægt að þekkja fasisma. Hans skilgreining byggði ekki á ákveðnum atriðum sem við þurfa að vera til staðar til að stefna geti talist til fasisma heldur lista af einkennum sem benda til þess að stefnan sé fasísk í eðli sínu.

Ég ætla ekki að fara yfir einkennalistann í heild sinni. Ef þið spyrjið mig hve mörg af einkennunum eiga við um Trump, og áttu við hann árið 2016, get ég einfaldlega sagt “slatti”.

Trump vísaði hefðina, arfleifðina, gullöldin, utanaðkomandi öfl, innri óvini, yfirburði síns fólks, breytti merkingu orða, og notaði óánægju sem lýðræðislegar hreyfingar höfðu ekki náð að virkja til raunverulegra breytinga. Rasismi hans var augljós öllum sem þekktu hvernig ákveðin hugtök eru notuð til að koma boðum til skila. Hundahvíslið svokallaða. Það má ekki heldur gleyma að Trump er mikill áhugamaður um Hitler og hefur sérstaklega kynnt sér ræður hans. Það er ekkert óvart við líkindin.

Það var full ástæða til þess að hafa áhyggjur af fasískum tilhneigingum Trump um leið og við sáum málflutning hans. Fullt af fólk sá þetta og gagnrýndi. En það voru bara “ýkjur” að mati yfirvegaðra álitsgjafa sem voru í besta falli fáfróðir eða bara í afneitun.

Á bak við Trump var vél sem öfgahægrið hafði verið að smíða í mörg ár. Fasískir hópar voru stofnaðir en síðan afsakaðir af fólki sem vissi betur eða hefði átt að vita betur. Gavin McInnes stofnaði Proud Boys og kallaði drykkjuklúbb. Gagnrýnendur bentu strax á að þetta væru ofbeldissinnuð öfgahægrisamtök. En fáir tóku eftir og enn færri tóku það alvarlega.

Það voru ekki bara Proud Boys heldur Oathkeepers, Patriot Prayer og The Three Percenters. Miklu fleiri hópar auðvitað en þessir hópar klofna og endurnefna sig síðan með slíkum hraða að það er ekki hægt að telja þá alla til.

Þetta eru fótgönguliðar umfangsmikillar fasistahreyfingar. Það sem gerir þá sérstaklega hættulega er að innan þeirra raða er gríðarlegur fjöldi lögreglu- og hermanna. Þetta hefur verið rannsakað og það eru ógnvekjandi tengsl. Sérstaklega tengslin við lögreglulið vítt og breitt um Bandaríkin.

Þegar augljósu rasísku ofbeldi og bókstaflegum morðum bandarískrar lögreglu hefur verið mótmælt, bæði í gegnum tíðina en sérstaklega síðustu ár, hefur lögreglan beitt hörku gegn mótmælendum. Á sama tíma hafa mótmæli öfgahægrisins verið varin af lögreglu. Af því að þetta er oft bókstaflega sama fólkið. Rage Against the Machine varaði okkur við þessu á sínum tíma.

Hið sama sést þegar við horfum á fasískt ofbeldisfólk mæta með rasíska fána til varnar lögreglunni. Það eru sumsé ekki bara gögn sem sýna þessi sterk tengsl heldur getum við bara horft á hegðun þeirra.

Sem leiðir okkur að andfasistum sem er meira og minna eina fólkið sem hefur reynt að stöðva ofbeldi öfgahægrisins. Þegar haldin eru gagnmótmæli gegn fasistum eru þau oft gagnrýnd. Það er sagt að slíkt skapi hættu á ofbeldi. Það er hreint og beint bull.

Þegar fasistarnir koma saman beita þeir fólk ofbeldi. Markmið þessara fasistahópa hefur alltaf verið að stjórna því hverjir þora að láta sjá sig út á götum. Þegar engir andfasistum mæta, engir sem eru tilbúnir að mæta hörðu með hörðu, eru það almennir borgarar, oftast svart fólk og aðrir jaðarhópar, sem verða fyrir ofbeldinu. Löggan nennir varla að mæta.

Þegar andfasistar hafa mætt verða vissulega stundum átök en um leið endar það almennt á því að fasistarnir þurfa að flýja (oft undir verndarvæng lögreglu). Það þarf að stökkva fasistum á flótta. Það þarf að sýna fasistum að þeir eru ekki velkomnir. Stundum þarf bókstaflega að slást við þá.

Það er hægt að sjá áhugaverða fyrirsögn í Alþýðublaðinu frá árinu 1923. Þar er verið að fjalla um eftirköst Bjórkjallarauppreisnar Hitlers.

Hitler handtekinn. Blöð jafnaðarmanna bönnuð.

Sumsé, viðbrögðin við bókstaflegri tilraun Hitlers til að ræna völdum voru að vissulega að handtaka hann en um leið voru blöð sósíalista bönnuð. Það sama hefur gerst víða um heim síðan þá. Ef yfirvöld yfirhöfuð bregðast við öfgahægrinu er tækifærið notað til að refsa vinstrisinnum um leið.

Meginstraumur, sérstaklega bandarískra, fjölmiðla hefur notað sömu aðferðarfræði. Þó auðvitað af öðrum ástæðum. Það er ekki hægt að ásaka þig um að taka afstöðu ef þú fordæmir fólk báðum megin.

Fátt af því sem fylgdi Trump kom mér sérstaklega á óvart. Nema kannski, í fyrra lagi, Q-liðið. Það er skrýtnara en allt sem ég hefði getað ímyndað mér. Samsæriskenning um að í raun sé Trump að tefla í níu víddum sem enginn skilur nema þeir sem kunna að lesa táknmálið. Allt sem er sagt eða gert hefur merkingu og tilgang.

Í seinna lagi, og ekki beint ótengt því fyrra, hefði ég ekki getað ímyndað mér allar samsæriskenningarnar um Covid. Auðvitað gat ég ekki vitað um Covid fyrirfram en jafnvel þegar það kom fyrst fram á sjónarsviðið hefði ég ekki getað spáð fyrir um hvernig Trump myndi ýta undir og nýta samsæriskenningar.

Ef Trump væri klár maður, allavega með tilliti til langtíma áhrifa, hefði hann getað gert Covid að sigri sínum. En hann hefur, allavega ekki alltaf, stjórn á tungu sinni. Sumt sem hann sagði, og gerði, virðist algjörlega handahófskennt en stundum örlar á hugmyndafræði undir niðri.

  • Fyrst efaðist Trump um Covid.
  • Síðan sagðist Trump hafa fyrstur til þess að átta sig á hve alvarlegt Covid væri.
  • Næst efaðist Trump um alvarleika Covid.
  • Í kjölfarið varð Trump helsti merkisberi samsæriskenningasinna.
  • Þá fékk Trump Covid og sagði að það hefði verið allt í góðu.
  • Um leið og bóluefnið var tilbúið fékk Trump skammt.
  • Þegar bóluefnið varð öllum aðgengilegt neitaði Trump að taka skýra afstöðu og ýtti ítrekað undir efasemdaraddir.
  • Nú síðast var Trump að segja að fólk ætti auðvitað að bólusetja sig.

Það er rétt að rifja upp að eitt einkenni fasisma að sögn Umberto Eco er “óskynsemishyggja” sem felur meðal annars í sér andúð á sérfræðingum. Í því ljósi er ekki óvænt að Trump hafi beint spjótum sínum að læknum og vísindamönnum.

Ef við viljum skilja aðra ástæðu þess að Trump hoppaði fram og til baka er gott að muna eftir trú hans á kapítalisma. Þegar kapítalisminn tapaði á lokunum vegna Covid fór Trump að tala gegn lokunum. Trump er ekkert sérstakur að þessu leyti. Íslenskt markaðstrúarfólk hefur leikið sama leik. Í báðum tilfellum er það auðvitað kaldhæðnislegt í ljósi þess að þó hægt sé að segja að fyrirtæki tapi á lokunum er tapið auðvitað meira þegar faraldurinn fær að geysa óheftur. Kapítalismi byggir auðvitað líka á andrökhyggju og mun aldrei geta leyst langtímavandamál.

En það er erfiðara að skilja þögn Trump og efasemdir um bólusetningar út frá kapítalískri sýn. Kapítalisminn þarf á bóluefninu að halda. Þó það sé erfiðara að setja langtímahagnað af hörðum aðgerðum gegn faraldrinum í Excel-skjal er hagurinn ef bólusetningum augljós ef réttar tölur eru settar í rétta dálka.

Trump missti algjörlega af tækifærinu af því að eigna sér bóluefnin. Skaðinn varð ótrúlegur. Ef Ísland hefði þurft að þola sömu dánartíðni og Bandaríkin vegna Covid værum við að ræða um þúsund manns en ekki tugi.

Hvorki kapítalismi né eiginhagsmunasemi geta útskýrt þessi mistök Trump. Það skiptir auðvitað máli að hann hafði talað um Covid sem skaðlítinn sjúkdóm og því ekki sjálfgefið að tala fyrir bólusetningum í kjölfarið. En Trump hefði getað snúið sig út úr því. Aðdáendur elska hann ekki vegna þess að hann er sjálfum sér samkvæmur. Ef við lítum til Umberto Eco er auðveldara að skilja hver taktík hans var í þessum málum. Það að segja vísindafólk vera elítu sem er að níðast á fólki sem er ósátt við stöðu sína er öflug leið til að virkja reiði þessa fólks í eigin þágu.

Nýlegar yfirlýsingar Trump um bóluefnið sýna að hann sér eftir afstöðu sinni. Hann hefði viljað að sagnfræðingar framtíðarinnar myndu kalla þetta Trump-bóluefnin. Auðvitað tapaði stuðningsfólk hans, og aðrir viðkvæmir hópar á þessu hættuspili hans.

Þegar leið að kosningum 2020 hefði öllum átt að vera ljóst að Trump þætti ekkert sjálfsagt að lúta lýðræðislegum niðurstöðum kosninga. Hann hafði strax árið 2016 efast um talningar þó hann hafi unnið meirihluta kjörmanna. Hann varð nefnilega undir í heildarfjölda greiddra atkvæða. Það var líka ljóst að efasemdir hans um talningar voru helst á þeim svæðum þar sem svartir kjósendur bjuggu.

Trump vann stöðugt að því að sannfæra kjósendur sína um að svindl. Þetta var ekkert óljóst. Hann sagði þetta allt fyrir opnum tjöldum. Þegar fjölmiðlar fjölluðu um staðhæfingar Trump um kosningarsvindl varð það almennt bara til þess að auglýsa skoðanir hans.

Það er ekki heldur hulið hvaða aðferðum Trump ætlaði að beita. Þeim sömu og George W. Bush notaði árið 2000. Enda var Trump með sömu ráðgjafana. Árið 2000 var það samt tiltölulega einfalt því það var bara Flórída. Það var hægt að manna aðgerðina með innanhúsfólki flokksins. “Brooks Brothers uppþotið” varð til þess að talningu var hætt þó ljóst væri að mörgum spurningum væri ósvarað.

Þegar reynt var að fá Trump til að svara fyrir stuðning öfgahópa við sig þóttist hann ekki skilja. Þegar hann spurður beint um Proud Boys sagði hann þeim að vera tilbúnir. Orðrétt [klipp standby….], stand back and stand by. Verið til hlés, verið tilbúnir.

Proud Boys vissi alveg hvað hann átti við og undirbjuggu sig undir átök. Ef fólk áttaði sig ekki á þessu var það ekki að hlusta. Það lá ljóst fyrir að átök lægju í loftinu.

Trump vissi að hann þyrfti að berjast um niðurstöður kosninganna á mörgum vígstöðvum. Þannig að hann þurfti ekki bara á lögfræðingum og almennu stuðningsfólki að halda heldur einnig öfgahópum sem gátu beitt harðari meðölum.

Við vitum hvaða tilraunir Trump gerði til þess að reyna að breyta niðurstöðum kosninganna. Það virtist ekki vera að ganga upp. En við sjáum núna að það var bara forleikur. Honum hafði tekist að búa til réttlætingu fyrir harðari aðgerðum.

Fasistahóparnir voru tilbúnir að halda áfram. Síðan kom boðið. Blaðamenn sem sérhæfa sig í öfgahreyfingum, hópar sem fylgjast með fasistum, andfasistar og jafnvel einhverjir innan löggæslunnar sögðu öllum sem vildu hlusta að það væri eitthvað stórt á leiðinni 6. janúar. Síðasta atlagan að kosninganiðurstöðunni.

Það að Trumpistar skuli hafa ráðist að þinghúsi Bandaríkjanna þann 6. janúar 2021 kom mér ekki á óvart. Það sem kom á óvart var að hve langt þeir komust.

Þegar Trump-skríllinn réðst inn í þinghúsið hefði allt átt að vera tilbúið. Hvers vegna var allt í rugli? Að einhverju leyti er þetta bara stórkostleg vanhæfni. Algjört vanmat á hve hættulegir þessir hópar eru, þrátt fyrir gríðarlegt ofbeldi þeirra síðustu ára. En það ofbeldi var aðallega gegn vinstrimönnum og minnihlutahópum. Ekki gegn lögreglu. Lögreglan treysti þessum fasistum. Margir lögreglumenn tilheyra þessum fasísku hópum. Þetta var gott fólk að mati lögreglunnar.

Það er fátt eins táknrænt fyrir þennan dag, og allt það sem undan hafði gengið, að fasistarnir mættu með fána á stöngum til stuðnings lögreglu og notuðu síðan stangirnar til að lemja lögreglumenn. Fasistarnir höfðu aldrei þurft að mæta lögregluliði sem leyfði þeim ekki að komast upp með yfirgang og ofbeldi. Allt í einu var löggan farinn að lemja þá.

Það verða líklega margir til þess að útlista hvað gerðist 6. janúar 2021. Ég get mælt með umfjöllunum On the Media og Robert Evans í þáttunum The Assault on America. En við þurfum að skilja að þetta kom ekki úr lausu lofti. Þetta var undirbúið af ýmsu valdafólki og Trump sjálfum.

Auðvitað sagði Trump aldrei neitt hreint út. Hann er of mikill heigull til að þora því. Hann lét duga að orða hlutina óljóst. Það var líka fyrirsjáanlegt að hann myndi stinga stuðningsfólk sitt í bakið. Hann studdi þau ekki eftir á. Þau héldu að hann myndi gefa út náðanir ef illa færi. Þau héldu að hann myndi verja fólkið sitt. En auðvitað er Trump nákvæmlega sama um allt nema sjálfan sig. Þessi tilraun hans gekk ekki upp og þeir sem unnu skítverkin fengu að dvelja áfram í skítnum. Hann fór síðan bara í fýlu og að spila golf.

Lexían sem við þurfum að læra af valdatíð Trump er sú að það eru ennþá til fasistar. Fasistar eru enn að reyna að ná völdum. Við þurfum að vera vökul. Við þurfum að berjast gegn þeim.

Svo ég leyfi mér að vitna í Roger Taylor:

Your future is not safe at all til this disease is dead

Ítarefni:
The Assault on America frá Robert Evans
The Road to Insurrection frá On The Media
Fasisminn afhjúpaður – baráttan fyrir frelsinu er þrotlaus þýðing Geirs Svanssonar á grein Umberto Eco