Hinsegin leikstjóri gerir heimildarmynd um kvikmyndina Chasing Amy og samband sitt við hana.
Ever seen Hearts of Darkness? Way better than Apocalypse Now.
– Abed (Documentary Filmmaking Redux)
Leikstjóri heimildarmyndarinnar sá Chasing Amy sem unglingur og tengdi mjög við hana. Þetta er því bæði persónuleg saga, saga myndarinnar, þeirra sem gerðu hana og viðbrögð hinsegin fólks við henni.
Kevin Smith kemur auðvitað fram í myndinni og segir, eins og hann hefur sagt í mörg ár, að gagnrýni hinsegin fólks á myndina sé réttmæt og hann hafi bara alls ekki haft innsýn eða þekkingu til þess að fjalla um efnið.
Það kemur ekkert sérstaklega á óvart um gagnrýni hinsegin fólks á myndina. Jákvæðustu raddirnar voru þær sem töldu hana mikilvægt (en gallað) innlegg um að kynhneigð þurfi ekki að vera algjör, annað hvort eða, og að þó merkmiðar geti verið nauðsynlegir þá séu þeir stundum líka heftandi.
Joey Lauren Adams og Guinevere Turner eru áhugaverðustu viðmælendurnir. Persónan Alyssa er á vissan hátt byggð á þeim báðum.
Guinevere Turner var í sama „árgangi“ og Kevin Smith á Sundance-kvikmyndahátíðinni. Hún skrifaði og lék í myndinni Go Fish. Það var mynd um samkynhneigðar konur, gerð af samkynhneigðum konum en fékk auðvitað ekki nærri jafn mikla athygli og Chasing Amy.
Nú hef ég ekki séð Go Fish og get ekki dæmt um gæði hennar (Maltin gefur ★★★). Það er kannski sérstaklega áhugavert í ljósi þess að ég hef séð fleiri myndir frá 1994 en nokkru öðru ári. Hvernig náði ég að láta hana fara fram hjá mér. Hún er allavega komin á listann minn núna. Betra seint en aldrei?