Gylfi Guðmarsson (1944-2024)

Móðurbróðir minn Gylfi Guðmarsson, fæddur 24. nóvember 1944, er látinn.

Ég náði satt best ekki að segja að klára þessi skrif eins og ég vildi en ákvað að það væri best að birta þau samt sem áður.

Gylfi sagði mér einu sinni frá því hvernig lífið var þegar hann var mjög ungur. Pabbi hans þurfti að fara út á hverjum morgni í von um að snappa sér vinnu þann daginn. Ég held að það hafi haft töluverð áhrif á Gylfa að upplifa erfiða tíma.

Ég var orðinn unglingur þegar mér var sagt að Gylfi væri menntaður bakari. Það var ekki hans raunverulega áhugasvið en vissulega man ég eftir honum að hnoða laufabrauðsdegið.

Í minningunni vorum við einhvern veginn alltaf að þvælast um í Véladeildinni hjá Gylfa frænda. Setjast í nýja bíla, á vélsleða og jafnvel að leika með einhverja varahluti sem okkur þótti spennandi.

Fyrir nokkrum árum var ég í framkvæmdum heima hjá mér og lenti í vesen. Þá birtist Gylfi, sem ég vissi ekki einu sinni að væri í Reykjavík. Hann eyddi deginum í að hjálpa okkur að komast í gegnum vesenið.

Gylfi var hluti af áhöfninni um borð í Húna II þegar sá bátur var hluti af sjónvarpsþætti. Það fór hins vegar framhjá flestum. Mig grunar að Gylfi hafi meira og minna verið að forðast myndavélarnar. Ég á líka nokkuð af myndum þar sem hann horfir í linsuna eins og hann hafi ekki verið spenntur fyrir óhóflegum myndatökum.

Ég sendi samúðarkveðjur til ykkar allra, Arnheiðar konu Gylfa, barna hans, Þórarins, Unnar, Starra og Eyþórs, sem og þeirra barna og maka. Einnig er hugur minn hjá eftirlifandi bræðrum Gylfa, þeim Gumma og Óla.

Við erum mörg sem munum sakna hans.

Kvenhatarar og blóðþyrstu lesbíurnar þeirra

Ég væri til í gagnasafn með dagskrá sjónvarpsstöðvanna hér á árum áður. Í staðinn dunda ég mér að skoða þetta á Tímarit.

Ég rakst á eftirfarandi lýsingu á kvikmyndinni Windows (1980) og fannst hún áhugaverð. Miðað við að flest blöð birtu nokkurn veginn þennan texta geri ég ráð fyrir að þetta hafi komið svona frá Stöð 2.

Gluggagægir. Windows. Spennumynd sem fjallar um Andreu, blóðþyrsta lesbíu, sem fellir hug til ungrar hlédrægrar nágrannastúlku sinnar. Þegar unga stúlkan verður fyrir barðinu á óþekktum árásarmanni leitar hún á náðir Andreu, sér ómeðvituð um hvaða mann hún hefur að geyma. Lögregla nokkur fær veður af árásinni og hefur þegar rannsókn málsins. Unga stúlkan vekur hrifningu hans, en þegar lesbían kemst á snoðir um það fyllist hún öfund og afbrýðisemi. Aðalhlutverk: Talia Shire og Elizabeth Ashley. Leikstjóri: Gordon Willis. United Artists 1980. Sýningartími 95 mín. Ekki við hæfi barna.

Sumt fólk var greinilega ekkert hrifið af myndinni. Í DV stendur til að mynda:

Mynd þessi á að heita þriller. Maltin segir hana afturhaldssama og móðgandi og honum er um megn að skilja hvers vegna hún var yfirhöfuð framleidd.

Leonard Maltin fær prik fyrir þetta ásamt þeim sem laumaði þessu inn.

Pressan var ekki svona örlát. Dómurinn þar var:

Algjörlega misheppnuð mynd um blóðþyrsta lesbíu sem girnist hlédrægan nágranna sinn. Þessi mynd hefur líklega verið gerð af illa upplýstum kvenhatara. Eini dularfulli punkturinn við myndina er hvers vegna hún var yfirleitt gerð. Alls ekki við hæfi barna (og varla þenkjandi fullorðinna heldur).

Fyrir utan “blóðþyrstu lesbíuna” verður að segja að samúð áhorfenda fer æ þverrandi þegar kemur að lögreglumönnum sem verða ástfangnir af fórnarlömbum glæpa sem þeir eru að rannsaka.

Sorglegt og hræðilegt glimmer

avatar
Óli Gneisti

Fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands, hann Guðlaugur Þór, tjáði sig um yfirstandandi þjóðarmorð og notaði orðin “hræðilegt” og “sorglegt”.

Ekki um þessi fjöldamorð. Það sem Guðlaugi Þór fannst svona sorglegt var að einhver hefði kastað glimmeri á núverandi utanríkisráðherra.

Hann velti líka fyrir sér möguleikanum að einhverju verra hefði verið kastað yfir flokksfélaga sinn, einhverju verra en glimmeri.

[Svokallað glimmer]

Já, ímyndið ykkur ef einhver hefði kastað miltisbrandsdufti á Bjarna Benediktsson, það hefði verið hræðilegt og sorglegt. Það gerðist hins vegar ekki. Þetta var glimmer.

[Svokallað Glimmer]

Svo virðist sem tilvist glimmers hafi verið leynt fyrir Guðlaugi Þór. Hann virðist ekki vita að þetta er meinlaust. Í versta falli er leiðinlegt að losna við þetta en það vill svo heppilega til að Morgunblaðið sjálft hefur birt leiðbeiningar um hvernig fólk geti losnað við [svokallað] glimmer af fötunum sínum. Það er nefnilega eitthvað sem kemur fyrir fólk. Það fær stundum á sig glimmer.

Þannig að það var hvorki hræðilegt né sorglegt að Bjarni Ben hafi fengið yfir sig glimmer. Guðlaugur er bara að hjálpa Bjarna að leika fórnarlamb. Valdamikið fólk gerir það gjarnan.

Mér finnst sorglegt og hræðilegt að það sé verið að drepa fólk. Það er sorglegt og hræðilegt að sjá myndir af börnum sem hafa verið drepin og heyra af heilu fjölskyldunum sem hafa verið þurrkaðar út í loftárásum.

Þetta er ekki eitthvað sem ég ímynda mér. Þetta er ekki einhver möguleiki sem ég er að velta upp. Þetta er að gerast á hverjum degi.

Þegar beðið er um að Ísland tali fyrir réttlæti er okkur sagt að það skipti bara engu máli. Við sem biðjum um það erum bara ekki nógu klár til að skilja þessa “real” pólitík.

Reyndar hefur fólk í valdastöðum á Íslandi nokkrum sinnum beitt sér fyrir réttlæti fyrir Palestínu. Þetta var ekki fullkomið fólk en það gerði allavega eitthvað, þrátt fyrir gagnrýni, sem kom meðal annars frá Bjarna Ben.

Það er sorglegt og hræðilegt að fólk eins og Guðlaugur Þór skuli halda því fram að stefna íslensku ríkisstjórnarinnar í þessum málum eigi eitthvað skylt við mannúð og mannréttindi.

Sannleikurinn er að Ísland, sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn, er í ákveðnu liði þegar kemur að alþjóðamálum. Stefna ríkisstjórnarinnar er fyrst og fremst mörkuð af þessu. Við erum að hjálpa okkar liði.

“En Óli, hvað um Hamas?” ímynda ég mér að fólkið, sem spyr alltaf, muni spyrja.

Hamas eru hræðileg samtök. Ég er ekki með þeim í liði. Ég er á móti því að fólk sé drepið.

Mögulega finnst einhverjum kjánalegt að hella glimmeri yfir Bjarna Ben. Fínt. Sumum finnst það hræðileg óvirðing við embætti hans. Sjálfum finnst mér það vanvirðing við þjóðina að Bjarni Ben skuli vera í þessu, eða nokkru, embætti.

Ég játa að mér fannst bara fyndið að sjá Bjarna Ben fá yfir sig [svokallað] glimmer. Það var ágætis tilbreyting að hlæja af því þegar ég heyri fréttir frá Gasa langar mig til að gráta.

Neil Gaiman á Reykjavík Noir

avatar
Óli Gneisti

Þáttur um heimsókn Neil Gaiman á Iceland Noir og upplifun Óla Gneista á hátíðinni

Neil Gaiman á Reykjavík Noir

Fyrr á árinu var tilkynnt að Neil Gaiman kæmi á Iceland Noir. Ég velti fyrir mér hvort það væri í alvörunni réttlætanlegt að kaupa miða fyrir rúmar tuttugu þúsund krónur af því ég væri hrifinn af einum rithöfundi. Lausnin var einföld. Ég ákvað að kynna mér sérstaklega verk þeirra höfunda sem voru að koma. Ég yrði vel upplýstur þegar að ráðstefnunni kæmi.

Síðan keyptum við íbúð, fluttum og þurftum að vera í allskonar framkvæmdum (sem er ekki enn lokið að fullu). Þannig að ég bara gleymdi þessu.

Þegar kom að viðburðinum sjálfum þurfti ég að mæta niður í bæ á miðvikudagsmorgun til að fá armband. Strætóferðin olli hausverk (ilmvatn? vagninn sjálfur?) þannig að ég fór út á Hlemmi og labbaði niður í Austurstræti frekar en að halda áfram niður á Lækjartorg.

Það var töluverður straumur af fólki að skrá sig og flestir virtust hafa komið sérstaklega til landsins á ráðstefnuna. Meðan ég beið eftir lyftunni og á leiðinni upp átti ég smávægileg orðaskipti við erlenda konu. Þegar við vorum að fá armböndin okkar spurði konan hvort það ættu allir að fá svört eða hvort fólk sem kæmi fram fengi öðruvísi. Ég fékk svona smá sting að hafa ekki verið duglegri að lesa mér til um höfundana á ráðstefnunni. Hún fékk rautt armband.

Á leiðinni heim í Breiðholtið átti sér stað ótrúlegt kraftaverk. Vagninn kom þegar einungis var rúmlega ein mínúta eftir af gildistíma strætómiðans míns og svo kom í ljós að þessi vagn var ekki fullur af hausverkjavaldandi lofti.

Fyrsti viðburðurinn sem ég mætti á var á föstudagsmorgun, Sara Blædel og Neil Gaiman í spjalli. Ég kom á góðum tíma en það var strax orðið troðið. Ég endaði að finna mér sæti á sófaarmi út við glugga. Ég tók fljótlega eftir því að í kringum mig voru fimm rithöfundar. Ég komst að þessu þegar ég heyrði fólk spjalla um hve óþægileg þessi armbönd væru. Ég sagði þeim að ég hafði flett upp á netinu hvernig ætti að losa þau og lýsti aðferðinni. Þá fór fólkið að skoða armböndin sín … sem voru öll rauð.

Ég fékk samviskusting að þekkja þau ekki en ég fékk allavega að vera áheyrandi að spjalli um útgáfuheiminn. Það sem mér þótti mest spennandi að heyra var saga höfundar sem hóf sjálfsútgáfu eftir vesen með útgefendur. Þessi höfundar sagðist hafa sett inn klausu í útgáfusamninga sem sagði að ef tekjurnar af bókinni næðu ekki ákveðnu lágmarki á ársgrundvelli fengi hún útgáfuréttinn til baka. Ég verð að segja að ég held að þetta ætti að vera sjálfgefið. Ef bókaútgáfur ná ekki að græða nóg á bókum til þess að borga höfundum lágmarksupphæð ættu þeir að geta fengið útgáfuréttinn til baka.

Síðan fór spjallið á “sviðinu” af stað. Neil Gaiman sagði frá nokkrum atriðum sem ég hafði ekki heyrt áður. Þegar kom að spurningum var ég fyrstur upp með höndina. Hann hafði nefnt að mamma hans hefði skyndilega orðið mjög spennt fyrir Viktoríu Bretadrottningu þannig að ég spurði hvort mamma hans hefði lesið söguna A Study in Emerald. Það hlógu einhverjir og í hroka mínum ætla ég að segja að það hafi verið fólkið sem hafði lesið mest eftir hann. Gaiman svaraði að hann vonaði að svo væri ekki. Hann tók líka fram að til þess að skilja söguna þyrfti þekkingu á Sherlock Holmes og H.P. Lovecraft og móðir hans þekkti allavega lítið til hins síðarnefnda.

Eftir að spjallinu lauk var ekki möguleiki að fara beint út og ég endaði í miðju spjalli tveggja rithöfunda. Við vorum að tala um bók Gaiman um norrænar goðsagnir og ég nefndi að ég væri þjóðfræðingur og gæti staðfest að þetta væri góð endursögn. Þá vaknaði allt í einu áhugi á mér og mér þótti það smá vandræðalegt af því ég hefði átt að vita hverja ég var að tala við. Allavega endaði það með að ég sagði frá Stories of Iceland hlaðvarpinu og skrifaði nafnið mitt í síma til að hægt væri að fletta upp upplýsingum um mig og hlaðvarpið.

Þegar ég kom fram hitti ég þar þrjá íslenska rithöfunda sem ég þekki og komu allir of seint til að fá sæti. Reyndar fannst mér þetta svolítið skrýtið af því að það hafði komið fram að það væri nóg af sætum á “aðalstöðunum” en það þyrfti að passa sig að mæta snemma á jaðarviðburði. Þessi var á Vinnustofu Kjarvals sem var mjög áberandi í dagskránni og virtist ekki flokkað með jaðarviðburðunum.

Þegar ég kom heim nefndi Eygló að þessi ráðstefna væri umdeild. Ég var svolítið hissa og þegar hún nefndi Hillary Clinton kom ég af fjöllum. Hvernig gat það farið framhjá mér? Ég sá ekki talað um þetta á Mastodon og ég er voðalega lítið á Facebook (ég hef ekki samþykkt að leyfa þeim að sýna mér auglýsingar). Ég var svo lítið meðvitaður að ég kallaði ráðstefnuna ítrekað “Reykjavík Noir”. Það rifjaðist samt upp fyrir mér að eftir að fá ég keypti fyrst miða fékk ég einhvern tölvupóst um að mér stæði til að boða að kaupa miða á viðburð með Hillary Clinton. Mér fannst það hallærislegt, hunsaði það og gleymdi síðan. Ég upplifði að það væru ekki mikil tengsl milli þeirra viðburða sem ég var á og þessu uppistandi Hillary.

Ég fór ekki aftur fyrren á laugardagskvöld. Það var aðalviðburðurinn með Neil Gaiman og fór fram í Fríkirkjunni. Ég mætti þegar matarhléið átti að hefjast í von um að nappa sæti frá einhverjum sem væri að fara út. Það gekk og ég fékk fínt sæti. Síðan voru öllum smalað aftur út.

Það var voðalega skrýtið að um leið og við fórum út kom önnur alda af fólki sem ætlaði að redda sér sæti. Fólkið sem tilheyrði hátíðinni var ekkert að snúa þeim við heldur virtist það bara gert þegar fólkið var komið inn í kirkjuna. Þetta varð til þess að fólk fór inn og út í svona nokkurn tíma enn á meðan við hin stóðum og biðum í kuldanum á kirkjutröppunum.

Ég heyrði fólk kvarta yfir öllu þessu veseni. Það taldi, nokkuð réttilega, að klukkutíma kvöldmatarhlé væri ekki nægur tími til að fá sér að borða. Það talaði líka um að það hefði verið endalaust vesen á ráðstefnunni. Einn eldri maður sagði að það væri greinilegt að það væri skipuleggjendum þóknandi að hirða peningana þeirra en ekki að vanda sig við umgjörðina.

Að lokum var okkur hleypt inn. Það var svolítið truflandi hve mörg sæti á fremstu bekkjum voru frátekin en ég náði góðu sæti framarlega. Ég tók samt eftir því að fólkið sem kom aðeins seinna inn fór varla fram fyrir miðja kirkju af því það gerði ráð fyrir að allt væri troðið fremst (það var töluvert laust á mörgum bekkjum, þar á meðal mínum).

Á undan Gaiman var það leikarinn Richard Armitage, sem hefur víst líka skrifað bók, og átti samtal við A.J. Finn (sá síðarnefndi hélt að mestu upp stemmingunni með bröndurum). Þetta er frekar erfiður staður í dagskránni. Vissulega var fullt af fólki en töluvert margir höfðu greinilega litla hugmynd um hver þetta væri. Þar á meðal var ég. Ég var þó allavega ekki jafn fjandsamlegur og einn sem spurði hvort Armitage væri ekki bara að græða á nafninu sínu (fór fínna í það).

Síðan var komið að Neil Gaiman. Yfir heildina var þetta bara spjall sem hægt er að finna í tugum myndbanda á YouTube. Það þarf stjórnanda sem þekkir rithöfund vel til þess að geta komið með spurningar sem ýta svona reyndum sögumönnum á ný svæði. Mestu vonbrigðin voru auðvitað að það var farið mjög grunnt í áhrif íslenskra fornbókmennta á Gaiman. Ég hefði endilega viljað fá einhverjar góðar spurningar þar.

Ég lét vera að rétta upp hönd þegar kom að spurningum úr sal. Mér fannst ég hafi fengið mitt pláss daginn áður.

Þegar spjallinu var lokið ákvað ég að hanga í kringum kirkjuna í von um að ná Gaiman á útleið. Ég var ekki einn um það. Þegar ég sá loksins hóp koma út var ég nokkuð snöggur að koma mér til þeirra.

Gaiman tók öllu vel og spurði mig að fyrra bragði hvað ég væri með handa honum. Ég hafði valið smásagnasafnið Fragile Things (sem inniheldur m.a. A Study in Emerald). Ég nefndi að ég hefði séð hann í Stokkhólmi og hann sagði að honum þætti SciFi alltaf góð búð. Auðvitað sagði ég honum að hann ætti að drífa sig í Nexus sem stæðist algjörlega samanburðinn við þá búð og jafnvel Forbidden Planet í London.

Á eftir mér komu fleiri sem, ólíkt mér, höfðu með sér fleiri en eina bók. Mér hefði ekki dottið í hug að koma koma með fleiri bækur í einu. Mér finnst nógu slæmt að sitja fyrir rithöfundi.

Þegar áritun var lokið þakkaði einn aðdáandinn mér fyrir að hlaupa hann uppi sem mér fannst gefa til kynna meiri hraða en ég upplifði.

Þess má að lokum geta að Neil Gaiman er á Mastodon og það hafi verið viðkunnanleg samskipti okkur á milli þar (leitið að efnisorðinu “ReykjavíkNoir” til að finna það sem ég sagði um þessa heimsókn hans).

Þrívíddarprentarauppfærslur og prentun

Það hefur verið svo mikið vesen með Ender 3 Pro þrívíddarprentarann minn undanfarið að ég var næstum búinn að gefast upp. Það eru komnir fram hraðvirkari prentarar og ég far næstum búinn að falla fyrir þeim. Þegar ég las mér betur til kom í ljós að nýju prentararnir nota lokaðan hugbúnað sem er slæmt, sérstaklega þegar það þarf að stjórna þeim í gegnum síma. Þeir geta því orðið eins og öll þessi sniðugu leikföng sem hægt er að stjórna með appi sem úreldist þannig að þau verða ónothæf.

Ég endurnýjaði þann hluta prentarans sem sér um að hita upp og skammta út plastinu sem notað er við prentun. Um leið uppfærði ég hugbúnaðinn úr Marlin í Klipper, sumsé úr hefðbundna í þann sem getur aukið hraðann. Síðan fiktaði ég og lærði. Þetta er allt að koma.

Hérna er myndband af nýlegri prentun. Hún er ekki sýnd á raunhraða. Þetta eru 150 mínútur sem er miklu hraðara en prentarinn réði áður við.

Þetta myndband sýnir hvernig ég prentaði box sem hægt er að loka með því að snúa (irisbox). Þetta er vinsælt í þrívíddarprentun og til í mörgum útgáfum. Ég valdi það af því að það sýnir mér hvort hægt sé að prenta tiltölulega flókið módel á hröðu stillingunni.

Það sem ég vildi sýna í þessu myndbandi er hvernig þvívíddarprentarar (allavega þessi flokkur af þeim) vinna. Prenthausinn ýtir út bræddu plasti á meðan hann færist fram og til baka. Næst hækkar hann sig aðeins og bætir við. Lag eftir lag.

Það er magnað hvað hægt er að gera með svona prentara. Ef þið hugsið um mekaníkina sem er fólginn í þessu boxi getið þið vonandi séð fyrir ykkur allavega sex mismunandi parta sem þurfa að vinna saman.

Hvernig er hægt að gera slíkt þegar prentarinn vinnur bara með þessi lög. Það er ekki hægt að prenta eitthvað án þess að það sé tengt einhverju öðru og því er erfitt að skilja hvernig hægt er að hreyfa þessa alla þess mismunandi parta saman.

Bragðið er að tengingarnar á milli hluta eru örsmáar. Þegar boxið kemur af prentaranum þarf að stinga einhverju þarna á milli til að brjóta þessar tengingar. í kjölfarið er hægt að hreyfa allt.

Ég dáist endalaust að hugmyndaauðgi þeirra sem hanna svona módel og er fullur af þakklæti til þeirra fyrir að deila þeim með okkur.

Farinn af Twitter

Þegar Elon Musk keypti Twitter sagði ég eitthvað á þá leið að versta sem gæti gerst væri að við myndum bara öll hanga þarna meðan hann gerði sitt besta til að níðast á minnihlutahópum.

Á fyrsta mánuði sínum hleypti Musk aftur inn fólki sem hafði stundað allskonar hatursáróður og fór síðan að banna andfasista og vinstri rótttæklinga. Þannig að ég ákvað að þetta væri komið gott. Nú er Musk farinn að tvinna saman samsæriskenningum um COVID-19 og transfóbíu og ég spyr mig hvenær restin af fólkinu fær nóg?

Stærsta hindrunin er fólkið sem hefur stóran hóp af fylgjendum þarna. Það er fast í hugmyndinni um sokkinn kostnað. Það reynir að sannfæra sig og aðra að það sé flókið að færa sig og að það versta fyrir Musk sé andóf gegn honum á Twitter. Ég held þvert á móti að það hjálpi honum með því að viðhalda þeirri hugmynd að þetta sé ennþá staður eðlilegra skoðanaskipta.

Lukkulega eru þessir stóru reikningar hægt og rólega að yfirgefa Twitter. Líklega kemur sá tímapunktur að þetta verður að flóði. Hvort það gerist áður en kerfið bókstaflega hrynur er stóra spurningin.

Reikningurinn minn á Twitter er ennþá þarna. Tilgangurinn er að beina fólki á nýja aðra staði, sérstaklega Mastodon. Það hefur verið erfitt, ekki að ég sakni Twitter heldur eru puttarnir mínir ennþá á sjálfvirkni þannig að ég hef reglulega lent í því að opna vefinn óvart. Appið fékk hins vegar að fjúka fyrst af því að það safnar miklu meiri upplýsingum en vefurinn.

Ef mig langar að sjá hvað er í gangi á Twitter fer ég á Nitter sem speglar efnið yfir. Ég ætlaði líka að nota Polititweet sem fylgist ekki bara með hvað fólk birtir heldur skráir það líka hvaða tístum hefur verið eytt. Sá vefur hætti að virka nýlega og ég veit ekki hvor sé líklegri skýringin, að Twitter sé hægt og rólega að hrynja eða Elon Musk hafi þótt þetta sérstaklega vandræðalegt og lokað fyrir tengingarnar.

Raspberry Pi sýnir hvernig efni fer á flug á Mastodon

Í gær gerðist það óvænt að Raspberry Pi stofnunin varð aðalpersónan á Mastodon. Það er áhugavert að mörgu leyti og kannski sérstaklega vegna þess að það sýnir hvernig þessi vettvangur er öðruvísi.

Raspberry Pi er tegund af smátölvum sem hafa verið notað í ótal verkefni. Það er hægt að nota þær sem sjónvarpstölvur, vefþjóna, skrármiðlara, veðurst0ðvar og svo endalaust framvegis. Í samhengi þessa máls þarf að leggja áherslu á að fólkið sem notar þessar tölvur er oft mjög meðvitað um persónuvernd. Fólk vill ekki nota Chromecast af því að það er ósátt við hvernig Google notar gögn um notendur sína. Það er gott að muna að þetta er líka ástæðan fyrir því að margir nota Mastodon.

Í gær birti Raspberry Pi undarlega grein sem deilt var í gegnum ýmsa samfélagsmiðla. Umfjöllunarefnið var að stofnunin væri búin að ráða fyrirverandi lögreglumann til starfa. Það var lögð sérstök áhersla á að hann hefði starfað við að útbúa ýmsan hlerunarbúnað og hefði notað Raspberry Pi í sumum verkefnum.

Þetta var vægast sagt stuðandi framsetning fyrir fólk sem hugsar mikið um persónuvernd. Einnig er þetta rautt flagg fyrir okkur sem höfum fylgst með því hvernig breska lögreglan njósnar um pólitíska hópa (munið eftir Saving Iceland?).

Það komu strax fram athugasemdir og spurningar, bæði á Mastodon og Twitter. Í stað þess að svara þessum spurningum efnislega kom eintómur skætingur frá þeim sem stjórnar þessum samfélagsmiðlareikningum. Sá einstaklingur fór fljótlega að loka á notendur sem skrifuðu athugasemdir, sama hve saklausar og kurteisar þær voru.

Þannig komst þetta á flug. Ekki bara þessi undarlega framsetning heldur líka viðbrögðin við saklausri gagnrýni. Það var ekki eitthvað forrit sem reiknaði út að þetta væri heitt umræðuefni heldur deildi fólk (endurbirti) færslum um málið. Myllumerkin (efnisorðamerking) hjálpaði fólki að finna fleiri færslur.

Þið munið að Mastodon er net vefþjóna sem tengjast eða loka á hver aðra eftir því hvernig traustið er á milli þeirra. Raspberry Pi rekur eigin vefþjón og hegðun stjórnandans þar vakti strax upp spurningar um hvort hann væri hæfur í starfi. Það voru þónokkrir vefþjónar sem einfaldlega rufu tengslin við Raspberry Pi. Hlutfallslega voru það ekki margir og þá almennt bara þeir sem hafa mjög ákveðnar reglur um þessi mál.

Þó það sé ekki útbreitt álit að það eigi að loka á vefþjón Raspberry Pi hefur umræðan almennt verið mjög neikvæð í garð þeirra. Margir voru ósáttir við hvernig málið var upprunalega sett fram en miklu fleiri telja að sá sem sér um samfélagsmiðla stofnunarinnar hafi brugðist hlutverki sínu með framkomu sinni gagnvart fólki sem spurði einfaldra og kurteisislegra spurninga.

Vissulega er það þannig að margir tölvuhlutir eru notaðir í vafasömum tilgangi. Þú sérð hins vegar ekki Intel setja inn færslur á samfélagsmiðla þar sem þeir segja frá nýja starfsmanninum honum Jóa sem notaði Intel-vörur þegar hann var að hanna gjöreyðingarvopn.

Þeir sem verja Raspberry Pi hafa reynt að afgreiða alla gagnrýni sem andúð á lögreglu og að hér hafi verið að dæma manninn vegna fyrri starfa. Það stenst enga skoðun. Það eru ákaflega fáir sem hafa ráðist á þennan umrædda starfsmann. Nær öll upphafleg gagnrýni snerist um framsetninguna og spurningar tengdar henni en í framhaldinu voru það viðbrögðin við gagnrýninni sem vakti reiði.

Satt best að segja var ég eiginlega að bíða eftir að einhver fullorðin myndi mæta í vinnuna hjá Raspberry Pi stofnuninni. Þetta er ekki líkingarmál sem mér finnst yfirleitt gagnlegt en viðbrögðin á samfélagsmiðlum voru mjög barnaleg.

Í stærra samhengi þarf að nefna að mörg okkar hafa mjög góða reynslu af Raspberry Pi og vorum mjög jákvæð fyrir vörumerkinu. Við höfum gengið í gegnum langt tímabil þar sem Raspberry Pi tölvur hafa verið illfáanlegar (Covid+Brexit). Ég þyrfti helst að uppfæra tvær af tölvunum sem ég nota en hef ekki getað gert það. Í stað þess að finna aðra valkosti, sem eru margir, hef ég beðið. Uppákoma gærdagsins hefur grafið undan góðvild viðskiptavina.