Håndtering av udøde (2024) 🫳 {19-18-16-ø}

Höndlun hinna ódauða er kannski rökrétt þróun í uppvakningamyndum. Mig grunar nefnilega að vinsældir slíkra mynda sé tengd því að þessi skrýmsli eru ekki sérstaklega yfirnáttúruleg. Þetta sést á því að útbreiðslan á uppvakningum er tengd við vírusa. Þetta eru vísindalega möguleg skrýmsli! Reyndar ekki en …

Þegar við fjarlægjumst yfirnáttúruna hljótum við að vilja meiri raunveruleika. Eða hvað? Håndtering av udøde reynir að svara þeirri spurningu og mitt svar er: Nei, takk.

Hryllingurinn í myndinni er hversdagslegur, persónulegur, hægfara og niðurdrepandi. Það er ekkert skemmtilegt við hana.

Mín tilfinning er að hérna hafi tekist að gera kvikmyndina sem átti að gera. Hún er kannski ekki fyrir mig en ég held að það hafi aldrei verið ætlunin.

Megalopolis (2024) 👎 {18-17-15-ø}

Ég bjóst ekki við að nýjasta mynd Francis Ford Coppola væri sérstaklega góð en ég vonaði að hún væri áhugaverð. Það átti reyndar við um fyrsta klukkutímann. Fáránleg en stundum skemmtilega skrýtin.

En það dregst og dregst. Söguþráður er varla til staðar. Persónusköpun ekki heldur. Mig langaði samt að sjá hvert þetta færi og þetta fór ekkert. Mig grunar að það sé boðskapur þarna en ekki nenni ég að greina myndina í leit að honum.

Myndin er Shakespearísk en ekki á góðan máta heldur vegna tilgerðarlegra takta.

Margt í hönnuninni minnti mig á óræða framtíðarheiminn úr Mystery Men (1999). Dustin Hoffman, Jon Voight, Shia LeBeouf og Aubrey Plaza voru bara skrefi frá því að vera persónur úr þeirri mynd. Mögulega hefði þetta virkað betur sem gamanmynd en þegar ég hló var ég aldrei viss um hvort það væri tilætlunin.

Adam Driver og Laurence Fishburne gera að vanda sitt besta en það bjargar engu. Aðrir leikarar fá lítið til að vinna úr eða gera ekkert úr því.

Ekki horfa á Megalopolis. Kíkið á Mystery Men í staðinn.

Bullitt (1968) 🫳 {17-16-ø-3}

Steve McQueen myndar ákveðna eyðu í kvikmyndaáhorfi mínu. Ég hef örugglega séð einhverjar myndir hans og langar að sjá aðrar en almennt heillar hann mig ekki. Þannig að það var ágætt tækifæri að sjá Bullitt í bíó. Það segir kannski eitthvað að ég var með yngri bíógestum (en Gunnsteinn mögulega yngstur).

Ég held ég geti alveg séð hvað heillaði fólk við þessa mynd (þó ★★★½ frá Maltin hafi líklega alltaf verið óhóflegt) en mér finnst hún ekki hafa elst vel. Hún er hægfara og fyrirsjáanleg. Það lifnar reyndar aðeins yfir henni í flottum bílaeltingaleik sem virðist hafa fundið upp á klisjum sem eru enn notaðar.

Samband hetjunnar okkar við kærustuna er frekar grunnt. Þannig missir það alveg marks þegar hún er með einhverjar áhyggjur af ofbeldinu.

Ég hef á tilfinningunni að ef ég hefði séð þessa mynd þegar ég var yngri hefði ég kannski fallið fyrir henni. Í dag kemst ég varla yfir hvað er kjánalegt að aðalpersónan heiti Byssukúla (Bissukúla? Byssukýla?).

Tónlistin er líklega sá hluti myndarinnar sem virkar best. Hún var vissulega síns tíma en án þess að vera gamalsdags.

Saturday Night (2024) 🫴 {15-14-13-ø}

Kvöldið sem Saturday Night Live fór fyrst í loftið árið 1975. Allt í rugli. Kynslóð af grínleikurum sem mörkuðu æsku mína. Meira og minna allir skíthælar samkvæmt myndinni (og betri heimildum) nema Lorne Michaels sem varð kannski bara skíthæll seinna.

Leikstjórinn Jason Reitman (Juno, Ghostbusters: Afterlife) þekkti væntanlega flest þetta fólk úr æsku sinni, enda er hann sonur Ivan Reitman (Ghostbusters, Stripes, Twins …).

Það vita ekki allir að Prúðuleikararnir voru með þarna fyrst hálfa árið (ef ég man rétt). Handritshöfundar þáttarins höfðu bara ekki ímyndarafl til að semja fyndin atriði fyrir þá. Ári seinna varð The Muppet Show vinsælasti sjónvarpsþáttur í heimi.

Jim Henson er karakter í myndinni og ég held að Kermit hafi verið fyrirmyndin frekar en hann sjálfur. Það virðist hafa gleymst að þetta er maðurinn sem gerði Muppets Sex and Violence árið sem SNL fór í loftið.

Yfir heildina eru leikararnir góðir að koma persónunum á framfæri. Kannski sérstaklega sá sem lék Dan Aykroyd. Chevy Chase var ekki hrifinn af myndinni en slapp satt að segja frekar vel miðað við sögurnar sem ég hef heyrt og lesið.

Konurnar fá lítið pláss. Eiginkona Lorne Michaels, Rosie Shuster, er ´áberandi en aðrar eru mikið til hliðar. Satt best að segja er stundum erfitt að muna hver er hver.

Þetta er alveg skemmtileg mynd. Við vitum hvernig hún endar en það er alltaf eitthvað í gangi sem heldur áhorfendum við efnið. Bara ekki búast við miklu.

Heretic (2024) 👍 {14-13-12-ø}

Í heildina var þessi mynd næstum frábær. Í staðinn var hún bara mjög góð hryllingsmynd. Ég er ekki aðdáandi höskulda en í þetta skipti fannst mér ekkert verra að hafa fengið grunnatriðin í sýnishorni.

Sophie Thatcher og Chloe East eru í hlutverki trúboða kirkju hinna síðari daga heilögu (mormóna) sem lenda inn á heimili vafasams eldri manns sem leikinn er af Hugh Grant. Þessi villutrúarmaður spyr þær beittra spurninga um trúarbrögð þeirra (þó trúarbragðafræði hans sé ekki jöfn djúp og hann lætur) áður en það kemur í ljós að hann hefur læst þær inni.

Lengi vel er myndin frábær og Hugh Grant er stórkostlega óþægilegur og óhuggulegur. Að lokum fer samt þetta samt inn á aðeins fyrirsjáanlegri brautir.

Í anda Leonard Maltin verð ég að hvetja ykkur til að hafa augun opin fyrir Topher Grace (That 70s Show) í aukahlutverki. Ég tók ekki eftir honum.

Kneecap (2024) 👍 {13-12-11-ø}

Myndin hafði alveg farið framhjá mér en Ásgeir mælti með henni þannig að ég fann hana og horfði án þess að lesa mér nokkuð til um hana. Þannig vissi ég ekki einu sinni að myndin sé byggð á raunverulegri hljómsveit … þó ég sé nokkuð viss um að margt sé skáldað. Örlítil umsnúningur á því að fara á Anvil (2008) án þess að vita hvort það væri heimildarmynd eða leikin mynd í anda Spinal Tap (1984).

Kneecap fjallar um samnefnda rappsveit frá Belfast sem notar gellísku, í bland við ensku, í textum sínum. Það er auðvitað lítill minnihlutahópur innan bresku landamærana sem talar írsku. Í lýðveldinu eru hins vegar írskumælandi svæði og tungumálið er kennt í skólum. Ég er ekki óvanur að heyra tungumálið þar sem írska var mikið notuð í stjórnsýslu í þjóðfræðideildinni í UCC (University College Cork). Ekki hafði ég samt þor í að læra tungumálið.

Myndin er auðvitað hápólitísk og það kom sér ágætlega að þekkja vel til írskrar sögu þó það sé ekki nauðsyn. Að því leyti mætti kannski líkja henni við Derry Girls sjónvarpsþættina. Þeir þættir fjölluðum samt um tímabilið þegar vopnahléið tók gildi en þessi gerist á síðasta áratug. Rappsveitin tilheyrir sumsé vopnahléskynslóðinni.

Mörk raunveruleiki og skáldskapar eru óljós. Kneecap er kannski ekki Spinal Tap en rappsveitir hafa alltaf verið duglegar að skapa ímynd tengda glæpamennsku og ég hef á tilfinningunni að hér sé sumt sé verulega ýkt. Það er líklega tekið sjáldaleyfi, hvort sem það er í handriti eða lagatextum.

Ásgeir sagði að þetta væri „klárlega skemmtilegasta mynd ársins“. Ég er ekki alveg sammála því, það hlýtur að vera Hundreds of Beavers. En ég get alveg hiklaust mælt með Kneecap. Hún er hiklaust með betri myndum ársins.

Janet Planet (2023) 🫳 {12-11-10-ø}

Hvernig þ´yðir fólk „coming of age“ (* Gunný segir þroskasaga)? Að komast til vits? Ég á við flokkun á kvikmyndum. Margar góðar slíkar, Stand By Me (1986) kemur fyrst í hugann. Margir setja Janet Planet í þann flokk en hún sker sig samt frá slíkum myndum.

Venjulega fjalla slíkar kvikmyndir um vinasambönd barna og unglinga en hérna er dóttirin eiginlega í aukahlutverki, oft lítið meira en áhorfandi. Myndin er líka kennd við mömmuna. Dóttirin (Lacy) er sjónarhornið frekar en fókusinn. Þetta er undirstrikað vel og vandlega með lokaatriðinu.

Myndin gerist árið 1991 sem þýðir að Lacy er örlítið yngri en ég. Það er samt ekki eins og tímabilið öskri á mann. Það er peningasími, gamlir bílar og kassettur.

Ég velti fyrir hvort litapallettan hafi verið úthugsuð. Veruleikinn var eins og gömul mynd, sumsé stundum leið mér eins og ég væri að skoða ljósmyndir frá þessum tíma. Litabrigðin úr myndaalbúmunum hafa auðvitað alltaf mikil áhrif á hvernig við munum fortíðina.

Þetta er alls ekki slæm kvikmynd en ekki neitt frábær heldur. Það hefði líka mátt stytta hana töluvert.

Rebel Ridge (2024) 👍 {11-10-9-ø}

Hasarmynd sem snýr ákveðnum venjum á hvolf … eða kannski afturhvarf til eldri venja þegar hetjan þurfti að halda sig innan marka. Þetta er allavega endurskoðun, líkt en þó aðallega ólíkt því sem Thelma (2024) gerði.

Ef þið viljið forðast svipaða höskulda og sjást í öllum umfjöllunum og auglýsingum fyrir myndina þá megið fyrst vita að Rebel Ridge er mjög fín hasarmynd.

Terry Richmond er fyrrverandi hermaður sem lendir í lögreglumönnum sem nýta sér ólög til að stela af honum peningum. Þar sem hann þarf á þessu fé að halda svarar hann fyrir sig með því að reyna að fara eftir lagabókstafnum en kerfið er berst til baka.

Það er erfitt að segja nokkuð um þessa mynd án þess að nefna að hún kallast á við fyrstu Rambó-myndina (1982). First Blood markaði upphaf nýrrar tegundar af hasarmyndum sem voru margar góðar en þó aðallega klisjukennt rusl.

Ég er viss um að einhverjir hafa kallað þessa mynd „woke“ af því að hetjan okkar er svartur maður sem ferðast um á reiðhjóli og reynir að forðast að drepa fólk. Þetta virkaði allt mjög vel og auðvitað eru lausnirnar miklu áhugaverðari þegar þær snúast ekki um að spreyja byssukúlum.

Það er lítið um leikarana að segja annað en að þau hafi staðið sig vel. Auðvitað er sérstaklega gaman að sjá Don Johnson fá aftur gott skúrkahlutverk sem reynir líklega meira á hann heldur en allt sem hann gerði á níunda áratugnum. Það virkaði að vera bara svalur í flottum fötum og þið verðið bara að trúa mér þegar ég segi að þessi föt hafi verið flott þá.

Mæli með.

Late Night with the Devil (2023) 🫴 {10-9-8-ø}

Ein af þessum myndum sem fékk ekki almenna dreifingu þannig að ártalið er á reiki. Frumsýnd 2023 en fæstir sáu hana fyrren 2024.

Síðkvöld með djöflinum fjallar um spjallþáttastjórnanda sem reynir að lokka áhorfendur með því að fá til sín í þáttinn miðil, efahyggjusinna, dularsálfræðing og andsetna stúlku. Hér er blandað hryllingsmyndaklisjunni um fundið myndefni saman við háð-heimildarmynd.

Lengst af er myndin góð og oft mjög fyndin. Hún leikur vel eftir spjallþáttum þessa tíma. En ramminn sjálfur virkar ekki vel. Spinal Tap (1984) virkar af því að hún hélt sig við ákveðin raunveruleika. Við getum trúað því að rokkhljómsveitir séu svona hégómagjarnar að þær leyfi sér að tala eins og bjánar fyrir framan myndavélar (af því það hefur ítrekað gerst).

Það virkar ekki að láta eins og einhver hafi verið með upptökuvél í gangi til þess að taka upp baksviðsplott og pælingar þáttastjórnanda og framleiðanda. Þeir hefðu aldrei leyft það. Raunveruleikinn brostinn. Myndin hefði virkað betur án þess að nota þennan ramma.

Myndin fer samt ekki af teinunum fyrren í blálokin. Það hefði mátt stoppa fyrr eða kafa dýpra. Í staðinn er endirinn voðalegt meh. Vel þess virði að horfa samt (ef fólk er ekki viðkvæmt fyrir venjulegu hryllingsmyndaógeði.

Annars er þetta áhugavert fyrir mig af því að ég þekki ágætlega til efnisins. Reyndar byrjaði sataníska kvíðakast Bandaríkjamanna ekki á fullu fyrren uppúr 1980 þegar bókin Michelle Remembers kom út. Dularsálfræðingurinn er að hluta byggð á geðlækninum sem skrifaði þá bók (og fór ótrúlega illa með skjólstæðing sinn – giftist henni að lokum) en einnig er hún innblásinn af auðtrúa vísindamönnum hjá Stanford Research Institute. Költleiðtoginn er auðvitað Anton LaVey.

Þrátt fyrir að vera sýndur sem miðill er sú persóna auðvitað loddarinn Uri Geller en efahyggjusinninn James Randi. Baksaga þess er auðvitað þegar Johnny Carson fékk töframanninn knáa með sér til að afhjúpa skeiðabeygjarann.

Þetta minnir mig auðvitað á þegar James Randi beyglaði hnífapör þar sem hann sat við hliðina á mér. Þó ég vissi vel hvernig bragðið virkaði leit þetta ótrúlega sannfærandi út.