Con Air (1997)👍👍
{113-ø-ø-34}

Faðir reynir að komast heim til konu og barns en lendir í ótrúlegustu ævintýrum með ýmsum skrautlegum karakterum sem eiga sér margvísleg og ansi óvenjuleg áhugamál.

Söguþráðurinn er fáránlegur og persónurnar eru hálfgerðar teiknimyndafígurur. Myndin er á köflum hálfpólitísk en rokkar á milli og er því hvorki né.

Af hverju líkar mér við þessu stórheimskulegu mynd? Kannski af því að það er ekki hægt að taka Con Air alvarlega. Líklega skiptir þó mestu máli að frábærir leikarar eru greinilega að njóta sín.

Nicolas Cage tók greinilega margar ákvarðanir varðandi persónu sína og þær voru ekki allar góðar en virka á sinn hátt. John Cusack (sem fylgdi mér þegar ég var enn á Twitter) er voðalega mikið bara hann sjálfur. John Malkovich í yfirkeyrslu. Steve Buscemi heldur aftur af sér og það virkar. Ving Rhames virðist voðalega glaður og það smitar eiginlega út frá sér.

Ég sá þessa ekki bíó á sínum tíma enda búinn að fá nóg af Bruckheimer/Simpson (sá síðarnefndi lést reyndar áður en þessi mynd var gerð). Con Air mynd fellur alveg í flokk mynda þeirra félaga en er hálfgert meistaraverk þeirrar kvikmyndgerðar.

Endir myndarinnar er sérstakt afrek í yfirgengileika.

Maltin gefur ★★ og það er í sjálfu sér alveg sanngjarnt.

Sinners 2025👍👍
{112-87-54-33}

Tvíburarar snúa aftur í heimahaga til þess að stofna skemmtistað en fljótlega gerast dularfullir atburðir. Ég ætla sumsé ekki að segja nákvæmlega.

Satt best að segja er það tónlistin sem lyftir kvikmyndinni upp. Aðallega blús en ekki eingöngu. Skondið að sjá nafn Ludwig Göransson þarna. Hann hafði ekki búið lengi í Bandaríkjunum þegar hann byrjaði að semja tónlistina fyrir Community sem leiddi til þess að hann fór að vinna með Donald Glover og hingað er hann kominn.

Ég hef áður nefnt að ég er ekkert sérstaklega hrifinn af því að sami maður leiki tvíbura. Michael B. Jordan er fínn en ég átti erfitt með að sjá mun á persónunum hans. Óþarfi eiginlega.

Með betri en ekki bestu myndum ársins hingað til.

The Long Goodbye (1973)👍
{111-86-ø-ø}

Vinur Philip Marlowe er í vandræðum og einkaspæjarinn flækist í málin. Þar sem við erum vön Bogart í þessu hlutverki er svolítið erfitt að venjast Elliott Gould hérna hérna. Hann er meira linsoðinn og myndin er hálfgerð skopstæling á köflum.

Ég er smá klofinn í afstöðu minni til The Long Goodbye (1973). Mér fannst hún góð en ekki frábær, samt langar mig svolítið að horfa á hana aftur. Það er til dæmis ekki það sem mig langar að gera með síðustu Altman-mynd sem ég sá.

Kötturinn er auðvitað helsta ráðgáta myndarinnar og erfitt að átta sig á því hvers vegna Marlowe heldur að sjón sé þeirra virkasta skilningarvit.

Það eru mörg kunnugleg andlit í myndinni og þá er sérstaklega fyndið að sjá gaur sem þarf að fara úr öllu nema nærbrókinni. Held að þetta sé langelsta mynd sem ég hef séð hann í. Henry Gibson kemur fyrir í nokkrum atriðum.

Tónlist John Williams er áberandi.

Maltin var hálf-pirraður á myndinni, skrifaði að Altman virtist haldinn fyrirlitningu á þessari tegund kvikmynda en gaf henni alveg ★★½.

Palm Springs (2020)👍👍
{110-85-ø-ø}

Ég var búinn að ákveða að horfa á Palm Springs án þess að vita um hvað hún væri. En síðan var það í fyrradag sem ég heyrði einhvern nefna „þetta er eins og [fræg kvikmynd] nema að …“. Ég náði samt að setjast niður og horfa án þess að muna þetta. Fyrren auðvitað að „X“ gerðist. Mér hefur samt ekki enn tekist að gleyma tvistinu í Nafni rósarinnar sem einhver höskuldaði fyrir mér fyrir þrjátíu árum.

Þetta er ekki beint tvist en ef þið eruð svona skrýtin eins og ég þá verð ég að vara ykkur við höskuldum en myndin er allavega góð og nær einhvern veginn að lifa af samanburðinn við frægu myndina. Bara níutíu mínútur og fyndin.

Höskuldur!

Höskuldur!

Höskuldur!

Þetta eru sömu aðstæður og í Groundhog Day. Nokkurn veginn. Við byrjum í miðjum klíðum. Við kynnumst persónunum ekkert utan lúppunnar.

Andy Samberg (Brooklyn 99) festist fyrstur í brúðkaupi vinafólks kærustunnar en fleiri fylgja með seinna (sama dag samt, hah ha). Cristin Milioti (mamman úr How I Met Your Mother) er systir brúðarinnar (Camila Mendes úr Música) og er ekki með allt á hreinu í sínu lífi. Myndin snýst mikið til um þeirra samband.

Við höfum líka JK Simmons að leika mann sem á erfitt með að stjórna tilfinningum sínum. Mögulega hefur hann gert slíkt áður. June Squibb (Thelma) er á svæðinu en aðallega bara í einu atriði.

Myndin fer í aðrar áttir en Groundhog Day. Aðallega vegna þess að einmanaleikinn er bæði betri og verri með einhverjum öðrum. Himnaríki, Hreinsunareldur, eða Helvíti? Hver veit.

Það er ómögulegt að enda svona mynd en ég var allavega ekkert ósáttur.

Poor Things (2023)👍👍
{109-84-53-ø}

Þetta er einskonar Frankenstein. Hryllingur, vísindaskáldskapur, grín, gufupönk og töfraraunsæi. Skrýtin en góð skrýtin. Ekki fyrir alla (varla einu sinni flesta).

Ég hef bara séð The Favourite af myndum Yorgos Lanthimos og var ekki jafn hrifinn og margir. Ég hafði ekkert á móti henni, alveg einn þumall upp en ekki mikið meira en það. Það var eitt og sér ekki sérstakur hvati til þess að sjá Poor Things.

En í dag var ég að vinna á bak við tjöldin í Menningarsmyglinu hans Ásgeirs (framtíðarvarðveisla) og rakst á það sem hann skrifaði um Poor Things (og Barbie) þannig að ég ákvað að horfa á hana til þess að geta lesið greinina óhræddur við höskulda (það var alltaf stigsmunur á okkur varðandi þol fyrir slíku).

Poor Things er greinilega undir áhrifum Frankenstein en er í grunninn að afbyggja viðkvæma og eitraða karlmennsku. Munið, það að sýna okkur til að horfa á hlutina frá nýju sjónarhorni er ekki árás.

Myndin er óþægileg til að byrja með. Líklega er sá hluti of fráhrindandi fyrir marga en mér fannst húmorinn vega upp á móti. Þetta er nefnilega ótrúlega fyndin mynd.

Poor Things er líka bara flott. Það kemur alveg sérstaklega vel út að blanda fagurfræði gufupönks saman við töfraraunsæi (eða bara ævintýri).

Emma Stone er sérstaklega frábær. Willem Dafoe og Mark Ruffalo eru upp á sitt besta. Kathryn Hunter fær ekki mikið pláss en er eftirminnileg. Ramy Youssef er líklega með vanþakklátasta hlutverkið en er bráðnauðsynlegur sem „eðlilegi gaurinn“ til að landa bröndurum.

Nekt og kynlíf gæti fælt fólk frá og á köflum er það alveg sérstaklega og viljandi óþægilegt.

Small Soldiers (1998)👍👍
{108-83-ø-ø}

Tækni fyrir vopn er notuð í leikfangaframleiðslu og strákur þarf að takast á við herskáa tindáta (plastdáta). Blanda af tölvuteiknimynd, stopphreyfingu og lifandi myndum.

Ég er yfirlýstur aðdáandi Joe Dante en þegar auglýsingar fóru að birtast fyrir myndina Small Soldiers varð ég hissa og hræddur, mjög hræddur. Hún leit skelfilega út. Einhver undarleg eftiröpun á Toy Story? Hvað er málið Joe?

Flestir gagnrýnendur virtust vera á sama máli (Maltin gaf þó tvær og hálfa sem er meira en ég bjóst við) en ég mæli alveg með því að lesa það sem Jonathan Rosenbaum hafði að segja um myndina.

Við þurfum að lokum að horfast í augu við óttann þannig að ég ákvað að horfa loksins á Small Soldiers. Tók bara rúmlega aldarfjórðung.

Það komu fljótlega nokkrir góðir brandarar. Þannig að ég hugsaði með mér að þetta yrði allavega ekki skelfilegt. Síðan urðu brandararnir bara fyndnari.

Þetta er stórkostleg mynd. Hjálpaði það að væntingarnar voru lágar? Kannski en ég held að það skýri ekki hlátursköstin sem ég fékk yfir henni.

Small Soldiers er augljósasta ádeilumynd Joe Dante og auðvitað er hún að gera grín að öllu sem hún virðist vera á yfirborðinu.

Reyndar var það leikfangaframleiðslan sem greip mig fyrst. Það var verið að nota alvöru þrívíddarprentara (plús tæknibrellur). Þessi tækni er nefnilega gömul en fór ekki á flug fyrren einkaleyfi runnu út.

Tónlistin er frá Jerry Goldsmith sem samdi fyrir flestar myndir Dante með hann lifði. Inn í tónlistina hans er blandað saman vísunum í ýmislegt, s.s. Transformers (teiknimyndaseríuna). Þar að auki koma fyrir vel valin popp- og rokklög.

Leikaraliðið er ótrúlegt. Engar ýkjur. Foringi vondu leikfanganna hefur rödd Tommy Lee Jones og góði foringinn er Frank Langella. Við það bætast margir (þálifandi) úr Dirty Dozen og This is Spinal Tap. Síðan eru Christina Ricci og Sarah Michelle Geller með sem dúkkur.

Leikararnir sem við sjáum eru Gregory Smith (sem ég hef varla séð í neinu öðru en er fínn), David Cross (sem gæti verið launsonur eins fastaleikara Dante), Kirsten Dunst (sem er stórkostleg hérna), Phil Hartman (myndin er tileinkuð minningu hans), Ann Magnuson (hetjumamma) og Kevin Dunn (þið hafið líklega séð hann víða).

Síðan eru fastaleikarar hans Dante: Dick Miller, Wendy Schall og Robert Picardo (launfaðir David Cross). Síðan sjáum við líka frú Futterman (Jackie Joseph sem lék í upprunalegu The Little Shop of Horrors) örsnöggt upp í rúmi með Rance Howard (pabba Ron og Clint og afi Bryce Dallas Howard).

Dirty Dozen leikarar:

  • Ernest Borgnine(!)
  • Jim Brown
  • Bruce Dern (hálfgerður fastleikari Dante)
  • George Kennedy
  • Clint Walker

Spinal Tap meðlimir:

  • Christopher Guest
  • Michael McKean
  • Harry Shearer

The Ox-Bow Incident (1943)👍👍🖖
{107-82-ø-ø}

Myndin gerist árið 1885 í Villta vestrinu. Lögreglustjóri lítils bæjar er fjarverandi þegar fréttir berast um að bóndi í grenndinni hafi verið myrtur. Bæjarbúar hafa engin umsvif en vilja leita morðingjann uppi og taka hann af lífi án dóms og laga.[#]

Ég valdi að horfa á The Ox-Bow Incident af einfaldri ástæðu. Á yfirliti mínu yfir kvikmyndir sem ég hef séð er að minnsta kosti ein frá hverju ári frá 1930 til dagsins í dag. Nema 1943 og 1945. Það eru ekki margar frábærar myndir frá þessum árum (hvað ætli valdi?) en ég fann þessa á lista Maltin yfir hundrað myndir frá tuttugustu öldinni sem þú (hann nefnir þig persónulega) þarft að sjá. Núna er ég kominn með sextíu og átta af þeim.

Réttlæti, samviska, múgræði, lög og regla.

Söguþráðurinn er frekar fyrirsjáanlegur. Leikurinn er á köflum stífur og síns tíma. Þetta er eitthvað sem myndi gera margar myndir gjörsamlega óáhugaverðar en hérna skiptir það nær engu máli. Myndin er sígild.

Það eru margir ákaflega góðir leikarar hérna. Henry Fonda, Harry Davenport og Dan Andrews er með stærstu hlutverkin. Síðan er Harry Morgan í leikarahópnum þó ég hafi ekki þekkt hann strax. Ég man aðallega eftir honum úr Dragnet (1987) þar sem hann lék sömu persónu og í upprunalegu sjónvarpsþáttunum.

Anthony Quinn leikur mexíkanskan mann (ef þið vitið ekki þá var Quinn Mexíkani en lék oft persónur af öðrum uppruna) og nær að vera áberandi svalur. Þessi utan eru bæði hvít kona og svartur maður hluti af leitarhópnum. Mér skilst að kvikmyndin sé þar með formlega séð „Woke“.

Ekki nema 77 mínútur og það dugar.

Leonard Maltin gefur ★★★★ sem ég er mjög sáttur við.

God Bless America (2012)🫳
{106-81-ø-ø}

Hvað ef þú myndir bara myrða andstyggilega fólkið? Raunveruleikasjónvarpsdómara? Haturspredikara?

Mér líkar við Bob(cat) Goldthwait en ég hef alltaf verið svolítið efins um kvikmyndirnar sem hann hefur leikstýrt og því forðast þær. Þessi ádeila virkar ekki fyrir mig. Hún er eins og minna stíleseruð Natural Born Killers.

Samt er ég á því að atriðið í kvikmyndahúsinu ætti að vera sýnt í hverju einasta bíó fyrir hverja einustu mynd.

Maltin gefur ★★ og ég er svolítið hissa á örlætinu (miðað við hans vanalega smekk).

Looper (2012)👍👍
{105-80-ø-ø}

Glæpasamtök langt í framtíðinni nota tímaferðalög skemmra í framtíðinni til að vinna fyrir sig skítaverkin.

Önnur mynd (sjá Brick) eftir Rian Johnson og aftur með Joseph Gordon-Levitt í aðalhlutverki. Bruce Willis lokar síðan lúppu með því að mæta aftur í tímaferðalagsmynd.

Ég var mjög hrifinn. Söguþráðurinn er flækja og þó ég hafi setið eftir með spurningar held ég að það sé hægt að svara þeim. Mig langar að horfa á myndina aftur við tækifæri til þess að átta mig betur.

Veikasti punkturinn í sögunni er kannski að lúpperarnir hefðu líklega getað skipulagt líf sitt betur en líklega á það við um okkur flest.

Maltin gefur tvær og hálfa sem er níska.

Nashville (1975)👍🖖
{104-79-ø-ø}

Ég veit ekki hvernig ég ætti að súmmera upp söguþráðinn. Það eru margir þræðir.

Nashville er stútfull af kunnuglegum andlitum (og höndum) þessa tíma. Scott Glenn, Julie Christie, Henry Gibson, Lily Tomlin, Geraldine Chaplin, Karen Black, Shelley Duvall, Ned Beatty, Elliott Gould… Þegar hendurnar á Jeff Goldblum birtust þekkti ég þær strax. Skrýtið.

Ég get alveg séð hve góð þessi mynd er en um leið heillaði hún mig ekki sérstaklega lengst af. Endirinn var samt vel heppnaður og fékk mig til að endurskoða aðeins álit mitt á því sem á undan hafði gengið.

Annars finnst mér eins og ég hafi verið hrifnari af seinni Altman-myndum sem ég hef séð. The Player, Short Cuts, Gosford Park og A Prairie Home Companion. Ég hef samt ekki horft á neina þeirra nýlega.

Maltin gefur ★★★★ og flestir virðast hrifnari en ég.

Nightmare Alley (2021)🫳
{103-78-ø-ø}

Maður með fortíð (ekki sérstaklega spennandi) finnur sér samastað í karnivali. Hann heldur áfram og gerir hluti og missir áhuga minn.

Of löng. Kannski hefði þetta verið skárra með betri aðalleikara. Bradley Cooper gerir lítið fyrir mig. Í kringum hann eru góðir og skemmtilegir leikarar Willem Dafoe, Ron Perlman, Toni Collette, David Strathairn, Richard Jenkins og Rooney Mara (sem ég held ég hafi ekki séð í neinu öðru).

Myndin þjáist af oflengd. Fyrsti hlutinn er góður, miðjan missir flugið og uppgjörið er fyrirsjáanlegt. Aðallega var mér bara sama.

Bláendalokin eru mjólkuð eins og það eigi að koma okkur á óvart hvernig fer fyrir aðalpersónunni.

Bastarden (2023)👍👍
{102-77-52-ø}

Kapteinn á eftirlaunum fær leyfi til að reyna að rækta land á jósku heiðunum um miðja átjándu öld en lendir í útistöðum við aðalsmann í nágrenninu. Myndin snýst um stétt og stöðu, kynjamisrétti og fordóma.

Myndin gerist á tímum Friðriks V Danakonungs sem er sýndur sem velmeinandi fyllibytta sem er að minnsta kosti hálfur sannleikur (í hans tíð fór Danmörk á kaf í þrælahald í Vestur-Indíum). Ártöl eru óljós en mögulega var Kristján VII orðinn kóngur (flestir tengja hann væntanlega við Struensee) í lok myndarinnar.

Þetta er enn ein mynd sem var í uppáhaldi hjá Ásgeiri frá því í fyrra (eða hittifyrra, það er erfitt að velja útgáfuár). Þarna er líka Mads Mikkelsen í aðalhlutverki sem var í uppáhaldi hjá Ásgeiri. Hann hafði alveg rétt fyrir sér. Þetta er frábær mynd.

Melina Hagberg er flott sem Anmai Mus.

Það er óhætt að mæla með þessari.

Brick (2006)👍
{101-76-ø-ø}

Unglingur rannsakar morð fyrrverandi kærustu sinnar. Allt í Film Noir stíl en söguviðið er venjulegur „framhaldsskóli“ í Bandaríkjunum.

Rian Johnson gerði bestu myndina í síðasta Star Wars þríleiknum. Hann reyndi að brjóta upp mynstrið og bæta við syndir forkvalanna. Því miður guggnaði Disney og leyfði hinum andlausa J.J. Abrams að snúa aftur og eltast við væntingar leiðinlegustu aðdáendanna.

Johnson gerði í kjölfarið hina flottu Knives Out og uppfærði formúlu gamaldags glæpasagna með frábærum leikurum.

Brick kom rúmlega áratug áður en ég tók eftir Rian Johnson.

Ég var augnablik að átta mig á að þetta væri Joseph Gordon-Levitt undir lubbanum. Það er merkilegt af því ég átti auðvelt með að þekkja hann sem krakka í eldgömlum þáttum af Roseanne. Hann er með myndina á herðum sér og nær að vera sannfærandi með talanda og slangur tekið beint upp úr gömlum Noir-myndum.

Af öðrum leikurum verð ég að nefna Lukas Haas sérstaklega. Hann er ekkert sérstaklega ólíkur sjálfum sér eins og ég man eftir honum úr Vitninu.

Í smáatriðum er úrlausn morðsins flókin (jafnvel fáránleg í flækjum). Sem er í Noir-stíl. Um leið er myndin svo trygg hefðum þessarra kvikmynda raunverulegi sökudólgurinn er auðþekktur.

Mér fannst myndin vera alveg á mörkunum að vera stórkostleg. Það sem vantaði var jafnvægi í tóninum. Við höfum fáránleika þess að spila með þessar klisjur í samhengi unglinga en um leið alvarleika lífs og dauða. Brick sveiflast eiginlega á milli.

Veronica Mars sjónvarpsþættirnir komu nokkrum sinnum upp í hugann meðan ég horfði. Ég held að þar hafi einmitt tekist að ná þessu jafnvægi.

En Brick er fáránlega metnaðargjörn í því hvernig hún reynir að vera trú forminu sem líkt er eftir. Það bara gengur ekki alveg upp.

Maltin var frekar hrifinn og gaf ★★★.

MaXXXine (2024) 👍👍
{100-75-51-ø}

Maxine er búin að sigra heim listrænna kvikmynda og snýr sér að meginstraumskvikmyndum. Þá bankar fortíðin upp á. Framhald af X og Pearl. Þessi er alls ekki fyrir alla frekar en hinar myndirnar í seríunni

Þetta er uppáhaldsmyndin mín í seríunni. Sem er ekki almenn skoðun. Þeir dómar frá almennum áhorfendum gefa til kynna að eitt ákveðið atriði snemma í myndinni hafi farið illa í marga (skilaboð til þeirra sem áttuðu sig ekki á feminískum boðskap fyrri myndanna?). Sjálfur er ég ekkert sérstaklega hrifinn slíku jukki en ég komst yfir það.

Sögusviðið er Los Angeles árið 1985 og mér fannst takast mjög vel að endurskapa þann tíma. Þar að segja, þetta virkaði ekta á mig með þeim fyrirvara að ég þekki þetta bara úr kvikmyndum og sjónvarpi. Mig grunar að það hafi í raun verið markmiðið frekar en raunverulegur raunveruleiki.

Tónlist níunda áratugarins er vel nýtt og það var sérstaklega gaman að fá lag frá Frankie Goes To Hollywood sem heyrist of sjaldan.

Mia Goth keyrir þessa mynd áfram eins og hinar tvær en það er sérstaklega gaman að fá Kevin Bacon í hlutverk skíthæls. Svo var Sophie Thatcher (Heretic og Companion) í einskonar gestahlutverki. Fékk ekki mikið að gera en skemmtilegt að sjá hana. Danski leikarinn Giancarlo Esposito er eftirminnilegur sem umboðsmaður Maxine.

Hér á eftir koma mögulegir höskuldar. Það er alveg hægt að giska á hluta af lokaatriðinu út frá því sem ég er að segja.

Myndin er auðvitað ádeila eins og margar góðar hryllingsmyndir. Hún fjallar um hræðsluna við djöfladýrkun sem tröllréð öllu á þessum tíma og hefur snúið aftur síðustu ár. Þessi mynd er eiginlega and-Særingarmaðurinn. Jafnvel glittar í gagnrýni á það hvernig hryllingsmyndir hafa notað djöfladýrkun í gegnum tíðina.

Svolítið Hollywood Boulevard þarna í lokin. Vantaði aðeins að það væri gengið alla leið.

Stjörnur og önnur einkunnagjöf

Þegar kemur að stjörnugjöf er ég alveg vonlaus. Satt best að segja eru stjörnur vonlausar (sérstaklega í heimi þar sem fjórar stjörnur eru túlkaðar sem meinfýsin árás). Þær geta í besta falli náð að endurspegla skoðanir þess sem gefur stjörnurnar.

Jafnvel innan þess samhengis erum við, flest allavega, oft ósamkvæm sjálfum okkur. Við erum ekki vélar. Við erum stundum í vondu skapi. Það er pirrandi fólk í kringum okkur í bíósalnum, myndin er úr fókus, hljóðið er illa stillt, auglýsingar sýndu bestu atriðin, leikari fer í taugarnar á okkur… Mér finnst líka góðar myndir yfirleitt betri þegar ég sé þær í bíó.

Stjörnurnar sjálfar eru oft illskiljanlegar. Ég hef til dæmis tekið eftir fólk sem talar um dóma Leonard Maltin áttar sig ekki einu sinni á hvaða skala hann gefur myndum einkunn. Ef þú heldur að fimm stjörnur séu hæsta mögulega einkunn hans eru allar líkur á að þér finnist hann yfirleitt ósanngjarn.

Það eru nokkrar leiðir til að nálgast stjörnugjöf. Sumir telja að hæsta einkunn, fjórar eða fimm stjörnur, þýði fullkomnun. Sem er fínt ef við þekkjum þeirra viðmið.

Þannig að mér líkar ekki þegar stjörnugjöf gagnrýnenda er umreiknuð í skala frá einum til tíu. Fyrir utan ólíka nálgun eru allar líkur á að gagnrýnandinn hafi sjálfur námundað stjörnurnar þannig að umreikningur gæti ýkt þá námundun töluvert.

Mér líkar persónulega best við normalkúrvunálgun. Flestar myndir eru á miðjunni en fæstar á sitt hvorum endanum. Mér þykir Leonard Maltin ágætur í því. Ég er með yfirlit um 24 þúsund kvikmyndir sem fengu einkunn í síðustu kvikmyndahandbókum hans.

BOMB [Útgáfa Maltins af ★]: 1011
★½: 2591
★★: 5445
★★½: 7224
★★★: 5732
★★★½: 1758
★★★★: 468

Þetta er ekki fullkomin kúrva en langflestar myndir fá þarna miðlungseinkunn.

Þegar ég er að rembast við að gefa stjörnur lendi ég í augljósum vanda. Ólíkt Maltin (og hans ritstjórnarmeðlimum) þarf ég ekki að sjá allar myndir. Ef mér finnst myndir líta út fyrir að vera lélegar horfi ég ekki á þær. Ef mér finnst þær vonlausar þegar ég er búinn að horfa á fimmtán mínútur slekk ég bara.

Mín kúrva af stjörnugjöfum verður því aldrei nálægt þeirri sem við fáum hjá Maltin. Ef við miðum við hans kvarða myndi ég eiginlega aldrei gefa minna en tvær stjörnur. Um leið er skekkja hinum megin því ég er að eltast við kvikmyndir sem eru almennt taldar sérstaklega góðar.

Þannig að ég hef látið vera að gefa stjörnur hérna á blogginu. Ég byrjaði því að tjákna skoðun mína með þumlum og handabendingum. Í stað þess að hafa stjörnur vildi ég gefa til kynna hve ánægður ég væri með myndina.

Mjög ánægður eru tveir þumlar.
Ánægður er einn þumall.
Sáttur er höndin að lyfta upp.
Tímasóun/frekar ónægður er höndin að þrýsta niður.
Mjög óánægður er þumall niður.

Þetta er allt bundið við upplifun mína. Stundum langar mig til þess að gefa til kynna að kvikmynd sé klassísk. Það er það næsta sem ég kemst því að gefa stjörnur. Mig vantar hins vegar tjákn fyrir kvikmyndir sem hafa sinn sess í kvikmyndasögunni, og jafnvel kvikmyndauppeldi, þrátt fyrir að vera „útrunnar“ að öðru leyti.

Að lokum má ég til með að nefna að uppáhaldskvikmyndir mínar eru ekki nærri því alltaf þær sem ég tel vera bestar. Ég veit vel að ég elska margar myndir sem eru langt frá því að vera áberandi góðar.

The Amateur (2025)🫴
{99-74-ø-32}

Tölvu- og öryggissérfræðingur hjá CIA verður fyrir persónulegu áfalli og hyggur á hefndir.

Það má alveg horfa á þessa mynd. Hún var aldrei leiðinleg, jafnvel þó sýnishornin sýnt full mikið. Rami Malek er það besta við hana.

Höskuldaívaf hér eftir en ekki alvarlegt.

Við vitum að amatörasérfræðingurinn er ógeðslega gáfaður. Okkur er nefnilega sagt að hann sé með greindarvísitölu upp á 170. Það er erfitt að vera klisjukenndari. Þetta er Big Bang Theory aðferðin.

Í staðinn hefði hann átt að vera hæfur. Ekki bara í einhverjum súperdúper tölvugaldri heldur með því að falla ekki á einföldum prófum. Handritshöfundar Big Bang Theory vissu hvað Faraday-búr væri. Síðan notar hann bara Goggle og Windows (Gunnsteinn segist ekki vera viss um að þetta hafi verið MicroSoft) eins og það opni ekki endalausar öryggisholur.

Síðan gengur allur söguþráðurinn út á stórfenglegar tilviljanir sem ég hélt að yrði útskýrð en … ekkert svo gott.

Godfather Coda: The Death Of Michael Corleone (1990/2020)👍
{98-74-ø-31}

Francis Ford Coppola er mikið fyrir að breyta og reyna að bæta myndir sínar. Það tekst misvel. Apocalypse Now er betri án fiðurfés. Ég var hins vegar mjög ánægður með Cotton Club Encore, þó með þeim fyrirvara að ég hef ekki raunverulegan samanburð við þá upprunalegu.

Þriðja Godfather-myndin fékk skelfilega dóma og ég vissi það áður en ég sá hana fyrst þannig að ég hafði aldrei neinar sérstakar væntingar til hennar. Mér fannst hún hvorki skelfileg né frábær.

Það er frægt að Winona Ryder hætti við að leika í myndinni skömmu áður en tökur hófust þannig að Francis ákvað að fá dóttur sína til að leika dóttur Michael Corleone. Sofia (nú leikstjóri) fékk skelfilega dóma fyrir leik sinn. Hún passar allavega illa inn í mynd þar sem nær allir í kringum hana eru í toppformi. Ég segi næstum því mér hefur alltaf þótt sá sem leikur bróður hennar, hann Anthony, einnig afskaplega andlaus þar til kemur að óperuatriðinu í lokin.

Nú er kannski fulllangt síðan ég sá þessa síðast þannig að ég er ekki alveg viss hvað vantar. Nýja útgáfan byrjar allavega af krafti. Við fáum strax að vita að viðskiptasamningar við Vatíkanbankann eru kjarni söguþráðarins. Gott.

Myndin hefur verið stytt sem er fínt. Sofia fær minna pláss í myndinni. Líka fínt. Kannski mun Francis fá liðsinni vinar síns George Lucas til að fjarlægja hana alveg úr myndinni og setja Ryder í staðinn.

Mér finnst einsog Bridget Fonda sé mun minna í nýju útgáfunni en þeirri upprunalegu. Ég er ekki alveg viss um að það sé framför þó það þjóni auðvitað því að stytta lengd myndarinnar.

Annars er helst galli myndarinnar mögulega sá að Robert Duvall og samband hans við Michael átti að vera meginþráður myndarinnar. Það gekk ekki upp, minnir vegna launadeilna, þannig að við sitjum uppi með Duvallslausa Godfather-mynd.

En myndin er samt uppfull af frábærum leikurum. Andy García, Joe Montegna og Eli Wallach eru þar efstir á blaði. Sá síðastnefndi hefur verið í töluverðu uppáhaldi hjá mér frá því ég sá hann first sem aldraðan og sjóndapran leigumorðingja í myndinni Tough Guys. Ég held að það hafi örugglega verið leikur hans í þessari mynd sem varð til þess að Joe Montegna fékk hlutverk í The Simpsons sem mafíósinn Fat Tony.

Athugið þegar Catherine Scorsese, móðir Martin Scorsese, leikur eldri konu sem biður Andy García um að hjálpa til í hverfinu. Það er líka gaman að mamma hans Andy er leikin af sömu leikkonu og „brá sér afsíðis“ með Sonny Corleone (Jimmy Caan) í brúðkaupi Connie í fyrstu myndinni.

Sá hluti myndarinnar sem fjallar ekki um persónuleg sambönd Corleone-fjölskyldunnar er, sem fyrir segir, um viðskipti við Vatíkanbankann. Margt af því er byggt á raunverulegu hneyksli og dauða Jóhannesar Páls fyrsta. Hérna er spunnið út frá ýmsum samsæriskenninum um þau mál.

Snemma í myndinni sjáum við Michael Corleone nota gamalt bragð ræningjabaróna (og tæknibilljónamæringa samtíma okkar) til hreinsa orðspor fjölskyldunnar. Hann býr til stofnun utan velgerðarmál sem þjónar samt aðallega hans eigin hagsmunum.

Burtséð frá öllum samsæriskenningum er ljóst að viðskiptaheimurinn sem Michael vill tilheyra er jafn miskunnarlaus og grimmur og sú glæpastarfsemi sem hann stundaði meginpart lífs síns. Aðalmunurinn er að þarna berst kerfið fyrir þig en ekki gegn þér.

Persónulegur kjarni myndarinnar er auðvitað endanleg glötun Michael Corleone. Hann hefur með aðild sinni að ofbeldi og glæpum kallað yfir sig og fjölskyldu sína endalausar hörmunar. Hann lætur eins og hann hafi bara verið viljalaust verkfæri aðstæðna en það var auðvitað líka eitthvað í honum sem gerði hann að miskunarlausum morðingja.

Þetta er hiklaust betri útgáfa af þriðju Godfather-myndinni. Hún mun samt alltaf vera í skugganum af hinum tveimur. Þær eru meistaraverk í kvikmyndasögunni. Þessi er réttnefndur viðauki.

The Longest Day (1962)🫴
{97-73-ø-30}

Lengsti dagurinn stendur undir nafni. Þetta eru þrír klukkutímar sem ég fann fyrir og var ekki alveg að nenna. Myndin er endurtekningasöm. Við þurfum að gefa öllum kvikmyndastjörnunum tækifæri á að vera svalar í mynd. Svona eins og allar ofurhetjurnar þurfa að fá góðan tíma í Marvelmyndum.

Það eru vissulega margir frægar leikarar í myndinni. Sumir frægir þá, aðrir frægir seinna. Ég missti til dæmis alveg af William Shatner. Sean Connery er bara brandarakall (þessi kom út sama ár og fyrst Bond-myndin Dr. No). Það væri kannski best að horfa á þessa mynd heima í stofu og pása þegar upp kemur endlit sem einhver kannast við.

Þessi D-Dagur lítur út fyrir að hafa verið miklu skemmtilegri en sá sem Spielberg sýndi í Saving Private Ryan. Fólk deyr alveg en ekki það er fleiri töffaralínur.

Harðsnúni John Wayne virkar ekki jafn spennandi á mig og hann virtist gera á þá sem voru ungir ’62. Samt er þetta sama ár og hann lék í The Man Who Shot Liberty Valance og sú frammistaða virkar ennþá.

Robert Mitchum er bara harðjaxl og ekkert mikið meira en það. Virkar líklega fyrir marga.

Það voru líka margir handrithöfundar að myndinni. Með annarra Noël Coward(!).

Þetta er mynd sem skrifast meira á framleiðandann Darryl F. Zanuck en leikstjórana þrjá.

Þetta er svolítið eins og fræðslumynd á köflum. Persónur eru í byrjun myndarinnar að fara með tölfræði sem á greinilega að upplýsa áhorfendur en virka bara kjánalegar. Stundum virkar „rödd guðs“ betur.

Þetta er ekkert alslæm mynd. Sumir brandarar virka. Síðan er alveg hægt að dást af því hve faglega margt er gert. En það er erfitt að gleyma að þetta er frá sama ári og Lawrence of Arabia sem gerir þessa bara amatörslega í samanburðinum.

Maltin gefur ★★★★ enda var hann ungur ’62.

The Informer (1935)🫳
{96-72-ø-ø}

Árið er 1922. Gypo hefur verið rekinn úr írska lýðveldishernum (þeim upphaflega) í miðju frelsisstríði Íra. Hann vill gera vel við stúlkuna sína en á enga peninga. Þá sér hann veggspjald þar sem lofað er verðlaunum fyrir upplýsingar um dvalarstað félaga hans.

Einhvers staðar heyrði ég að The Informer væri ein fyrsta verulega góða mynd John Ford. Þar sem ég er ákaflega hrifinn af The Man Who Shot Liberty Valance (1962) og Stagecoach (1939) ákvað ég að kíkja á mynd eftir hann sem væri ekki vestri. Mér þótti líka áhugavert að myndin er gerð eftir bók írsks frænda Ford.

Þetta er ekki sígild mynd þrátt fyrir lofsyrði Maltin og Halliwell. handritið er stirt og endurtekningarsamt. Írskir hreimar leikara eru almennt vandræðalegir. Varðandi hvernig Írar eru sýndir í myndinni er kannski einfaldast að nefna að það er nokkrum sinnum minnst á gullpotta. Þá er lítið að finna um samhengið sem myndin gerist í.

Þrátt fyrir þetta er aðalleikarinn Victor McLaglen nokkuð góður og minnti mig svolítið á drykkjumenn sem ég hef hitt um ævina. Mér var bara alveg sama hvort hann myndi lifa eða deyja.

Tónlist Max Steiner hefur elst nokkuð vel. Hún má heita sígild kvikmyndatónlist.

Maltin gefur ★★★½ sem er óhóflegt. Hann segir að hún standi enn fyrir sínu og þá síðasta útgáfa kvikmyndahandbókarinnar hafi komið út 2015 þá grunar mig að sú lína hafi verið skrifuð á áttunda eða níundaáratugnum.

Gladiator (2000)🫴
{95-ø-ø-ø}

Herforingi er svikinn af nýjum keisara, fjölskylda hans myrt og hann endar sem skylmingaþrælll sem ögrar keisaranum með því vera súper dúper frábær í að drepa aðra þræla.

Vissuð þið að Gladiator er ekki sögulega nákvæm? Ótrúlegt alveg.

Ég held ég hafi ekki séð myndina frá því ég fór á hana í bíó þann ellefta júní árið 2000 (klukkan átta). Ekki séð þörf á því. Ég var að pæla í að fara á hana í aðdraganda þess að nýja myndin (hét hún ekki örugglega Gladiators?) kom í bíó. Ég sleppti því og nýju myndinni.

Það eru höskuldar hér.

Þessi mynd er næstum góð og næstum léleg. Joaquin Phoenix í hlutverki vonda keisarans er nálægt því að ofleika um of en þó án þess að vera sérstaklega skemmtilegur. Það eru líka skemmtilegar línur í myndinni sem hafa liftað áfram.

Er yður skemmt, eður hvað?

Lokaniðurstaðan er að þó langa útgáfan hafi orðið fyrir valinu þá varð myndin aldrei leiðinleg. Hún virkaði ekki einu sinni sérstaklega langdreginn. Það er ákveðið afrek.

Tölvugrafíkin eldist ekki sérstaklega vel. Allt virkar gervilega. Kannski af hún líkist mjög því myndefni sem hefur verið notað í ótal óspennandi heimildarmyndum síðasta aldarfjórðunginn.

Tónlistin er ákaflega vel heppnuð hjá Hans Zimmer. Sér í lagi þetta einfalda stef sem kemur inn á milli.

Það hefði verið viðeigandi að gefa (sögulega ónákvæman) þumal niður eða upp en ég leyfi myndinni að fá sitt meh. Hún verðskuldar það.

Zombieland (2009)🫴
{94-71-ø-ø}

Uppvakningagrínmynd. Ólíklegur hópur einstaklinga ákveður að ferðast saman um stund.

Mörg fyndin atriði. Leikararnir flottir. Emma Stone, Woody Harrelson, Jesse Eisenberg og Abigail Breslin (stelpan úr Little Miss Sunshine).

Þar til að kom að lokauppgjörinu. Það virkaði á mig eins og einhver hefði séð fyrir sér nákvæmlega hvernig það yrði og því þröngvað fram þær aðstæður. Vandinn er að þarna þurfa persónur að taka ítrekað ákaflega heimskulegar ákvarðanir. Þetta virtist ekki vera sama fólkið og við höfðum verið að fylgjast með meginhluta myndarinnar.

Maltin gefur ★★½ sem er hátt miðað við hann en nokkuð sanngjarnt.

Vlny / Öldur (2024) 👍👍
{93-70-50-29}

Starfsfólk Tékkóslóvakíska útvarpsins ögrar ritskoðunartilburðum ríkisstjórnarinnar í aðdraganda Vorsins í Prag (1968).

Myndin var sýnd til minningar um Ásgeir vin minn. Þegar hann fékk fréttirnar um að hann væri með krabbamein bauð hann systur sinni og mömmu á þessa mynd sem hann hafði þá þegar séð. Þessi mynd var líka á lista hans yfir bestu myndir ársins (ásamt t.d. Elskling og Heilögu fíkjunni, gleymdi að nefna það).

Enski titillinn Waves virðist vera notaður almennt um þessa kvikmynd. Ég þýði þetta sem Öldur í merkingunni „öldur ljósvakans“. Bylgjur gæti líka gengið upp.

Þó ég þekki sögu Vorsins í Prag að einhverju leyti þekki ég þessa afmörkuðu sögu ekki neitt. Myndin gerir auðvitað ráð fyrir að áhorfendur viti hvernig fer. Bjartsýnin og frelsið lifa ekki af sumarið.

Það eina sem ég var efins með í myndinni er ástarsagan. Hún virkar smá eins og einhverjum hafi þótt vanta eitthvað slíkt. Nema að hún hafi verið sönn. Ekki veit ég neitt um það.

Það vottar aðeins fyrir höskuldi í næstu málsgrein.

Sögulega áhugaverðasti hluti myndarinnar er auðvitað það sem gerðist á meðan innrás Sovétríkjanna (og ríkja Varsjárbandalagsins) stóð. Ég myndi alveg vilja sjá heimildarmynd um hvernig starfsfólk útvarpsins reyndi að halda útsendingunni gangandi.

Það mætti vel setja Öldur í almennar sýningar í Bíó Paradís þannig að fleiri geti fengið að sjá.

Þessi mynd markar annars tímamóti í áramótamarkmiði sem ég setti mér. Það var að horfa á allavega fimmtíu myndir frá síðustu árum (viðmiðið 2023-2025) á þessu ári. Ég verð að viðurkenna að ég vandaði mig aðeins að láta þetta passa.

Nomadland (2020) 👍👍
{92-69-ø-ø}

Frances McDormand leikur ekkju sem hefur misst heimili sitt. Hún býr í sendiferðabíl og notar hann til að ferðast um Bandaríkin og vinna sem farandverkamaður. Hún tilheyrir samfélagi flakkara og við kynnumst ýmsum úr hennar heimi. Margir þeirra eru að leika sig sjálfa (eða útgáfu af sjálfum sér).

Það eru líka ýmsir atvinnuleikarar með og þar verð ég að nefna David Strathairn sem leikur mögulegan rómantískan valkost. Hann er alltaf í svolitlu uppáhaldi hjá mér (sérstaklega í þeim myndum sem hann hefur gert með John Sayles) og þið hafið örugglega séð hann í ótal myndum þó þið þekkið ekki nafnið.

Myndin er að einhverju leyti ádeila á kapítalisma þó það sé yfirleitt í bakgrunninum. Amazon sleppur síðan frekar létt frá myndinni sem tímabundinn vinnuveitandi aðalsögupersónunnar. Myndin gerist reyndar um 2011 eða svo þannig að kannski var fólk á þeim tíma ekki farið að pissa í flöskur vegna óhóflegs eftirlits.

Það sem er kannski í aðalhlutverki er sú togstreita sem persóna McDormand býr við. Hún virðist þrá að tilheyra samfélagi og byggja upp sambönd en hefur einnig sterka löngun til þess að vera á eigin vegum, sjálfri sér næg.

Ég mæli alveg með myndinni. Hún er á köflum þung en líka hlý og það eru alveg fyndin atriði inn á milli.

Nuovo Cinema Paradiso (1988) 👍👍🖖
{91-ø-ø-29}

Leikstjóri rifjar upp æsku og uppvöxt, sér í lagi í tengslum við kvikmyndahúsið (Nuovo) Cinema Paradiso.

Ég sá þessa ekki í bíó á sínum tíma en heyrði líklega fyrst um hana þegar hún fékk Óskarinn sem besta erlenda myndin (fyrir) árið 1989. Líklega sá ég hana fyrst á RÚV þann 25. desember 1992.

Myndin náði mér strax og ég sá hana fyrst. Þetta er samt ekki mynd sem ég horfi oft á. Ég átti hana aldrei á dvd eða spólu. Hún hefur alltaf verið spari.

Ég veit nákvæmlega hvenær ég horfði síðast á hana. Hún var á RÚV þann 26. janúar 2019. Ég bauð Gunnsteini níu og hálfs árs að horfa með mér og hann þáði það, entist alla myndina og þótti góð. Á Facebook bætti ég við:

Honum fannst samt frekar ótrúlegt að þetta væri stutta útgáfan af myndinni.

Mig grunar að ég hafi bara aldrei séð löngu leikstjóraútgáfuna (hún er til í mörgum útgáfum).

Þegar ég sá að myndin væri sýnd í Bíó Paradís sem hluti af Stockfish gat ég ekki sleppt því. Gunnsteinn kom með en því miður passaði þetta ekki við plön Ingimars (Minecraft-myndin).

Nuovo Cinema Paradiso er nostalgísk þroskasaga um að elska kvikmyndir og sérstaklega bíó. Sögusviðið er aðallega Sikiley (viðeigandi eftir að hafa séð Godfather-myndirnar).

Endurlitshluti myndarinnar byrjar rétt eftir lok seinna stríðs. Drengurinn Totò bíður óþreyjufullur eftir því að faðir sinn snúi aftur frá Rússlandi. Ástríða hans er bíó. Ekki bara kvikmyndir heldur líka bara töfrarnir sem felast í tækninni, filmunni og sýningarvélinni.

Myndin af uppfull af eftirminnilegum persónum og atriðum. Hún er bæði fyndin og dramatísk. Jafnaldri minn sem leikur ungu útgáfuna af söguhetjunni er einfaldlega stórkostlegur. Ein besta frammistaða barnaleikara sem ég man eftir (The Fall er kannski í efsta sætinu).

Tónlistin er eftir Ennio Morricone og þarf ég að segja meira? Meginstefin eru yndislega falleg.

Það að myndinni tekst að tengjast minni persónulegu (og margra annara) nostalgíu og bíóást er að hún gerist á stað og stund sem er mjög fjarri mér. Þar að auki tengi ég ekki við ítölsku kvikmyndirnar sem eru sýndar í hinu Sikileyska Bíó Paradís. Myndinni tekst samt að brúa þetta bil.

Ég játa að ég tengdi líka við tilfinninguna sem ég fékk þegar ég fór framhjá Borgarbíó núna síðast þegar ég var á Akureyri. Húsið þar sem ég sá flestar bíómyndir fyrstu tuttugu ár lífs míns er ekki lengur bíó. Ég hafði ekki einu sinni geð í mér að skoða hvað væri þar núna.

Þessi mynd er ein af mínum allra uppáhalds. Stendur með Matinee með bestu myndirnar sem hafa verið gerðar um bíóást.

Maltin gefur ★★★½ sem mér þykir nirfilslegt.

The Godfather Part II (1974)👍👍🖖
{90-ø-ø-28}

Hvor er betri? Godfather eða Godfather part II? Ég hef aldrei getað svarað því. Ég lít eiginlega á þær sem heild.

Höskuldar, varist ef þið hafið ekki séð.

Því verður samt ekki neitað að uppbygging kvikmyndarinnar er mögnuð. Sögum feðganna er fléttað saman. Vito Corleone flýr Sikiley eftir að fjölskylda hans hefur verið myrt og sonur hans Michael sem er sjálfur að eyðileggja eigin fjölskyldu, eitraður af ofbeldinu sem faðir hans varð fyrir og beitti.

Það vantar samt eitt sem hefði mögulega gert myndina enn betri. Upprunalega átti Clemenza að vera lykilpersóna í samtíð Michael og fortíðinni með Vito.Þá hefði fortíðin verið saga Vito og tveggja manna sem sviku son hans seinna meir.

Því miður kom eitthvað óljóst í veg fyrir að Richard S. Castellano sneri aftur þannig að persónan Fimmengla Frankie fyllti í skarðið. Grátlegt.

Það þarf ekki að segja mikið um aðalleikarana í tíð Michael. Keaton, Pacino, Cazale, Duvall og Talia Shire snúa aftur. Þó er rétt að nefna að leiklistarkennarinn Lee Strasberg er í hlutverki Hyman Roth. Í þingyfirheyrslunum spyr Roger Corman hver gamli maðurinn við hlið Michael sé á meðan Harry Dean Stanton er ábúðarfullur á bak við vitnið.

Í fortíðinni kemur Robert De Niro og nær einhvern veginn að fylla skarð Brando. Er nokkuð meira að segja um hann? Síðan er Bruno Kirby flottur sem hinn ungi Clemenza.

Það er eitt atriði sem ég man ekki eftir að hafa talað um eða heyrt talað um. Það er atriðið með þingmanninn og myrtu konuna. Miðað við hve ákveðinn Michael var við þingmanninn þegar þeir ræddu sín mál finnst mér augljóst að þetta hafi verið fyrirfram planað. Einhverjir á vegum Corleone-fjölskyldunnar gáfuþingmanninum svefnlyf og myrtu síðan konuna.

Mér finnst þetta spegla atriðið í fyrri myndinni. Í stað þess að drepa hross er manneskju fórnað til að koma fram vilja Guðföðursins. Þetta bendir líka til þess að Michael er, þrátt fyrir yfirlýsingar um að vilja snúa baki við glæpum, mun vægðarlausari en Vito.

Lágpunktur Michael er auðvitað í lok myndarinnar þegar hann lætur drepa bróður sinn. Hann hefur unnið stríðið og glatað sálu sinni (kristilegt orðalag er viðeigandi þegar um er að ræða Guðföðurinn).