Ella-málið: Úr lífi alþýðunnar

Ég rakst á eftirfarandi grein á Tímarit.is. Þetta eru undir fyrirsögninni „Úr lífi alþýðunnar“ í Lesbókinni. Smjörhól hennar ömmu kemur við sögu en það er þó tveimur árum eða svo áður en forfeður mínir fluttu þangað.

Ég veit ekkert um höfundinn (Jón Sigfússon) en ég á erfitt með að skilja þetta öðruvísi en að þarna sé reiður og kaldhæðinn tónn vegna aðfarar yfirvalda að þessu fátæka fólki. Ég varð reiður að lesa þetta og gat ekki annað en deilt þessu.

ELLA-MÁLIÐ

Eftir Jón Sigfússon, Ærlæk

FRÁ VORI 1892—94, var vinnumaður á Ærlæk hjá þeim hjónum Sigfúsi Einarssyni og Oddnýju Jóhannesdóttur, er þá bjuggu þar. Hét hann Elías og var Jónsson.

Mun hafa verið fæddur á Árholti, í kringum 1870 [11. júlí 1866 – 23. jan. 1941]. Hjá foreldrum sínum ólst hann upp og síðar vandalausum, í sárri fátækt og mun í æsku hafa verið með beinkröm, sem hann bar menjar um alla ævi síðan, því hann var með knýttar og bæklaðar hendur. Var hann því aldrei fullfær til allrar vinnu eða neinn afkastamaður. En natinn var hann við að gæta kinda og góður yfirstöðumaður, en í þá daga tíðkaðist að standa hjá fé í haga, ef beitt var og nokkuð að veðri. Elías var því frekar eftirsótt hjú, enda húsbóndahollur, notinvirkur og trúr í bezta lagi.

Eignir átti Elías litlar nema kindur, sem hann hafði á kaupi sínu og gáfu honum dálitlar tekjur. Þær munu hafa verið um 20 alls.

Almennt var Elli, en svo var hann oftast nefndur, talinn fremur einfeldningur, en þó er mér næst að halda, að hann hafi verið í meðallagi gefinn, ef hann hefði hlotið sæmilegt uppeldi, en því var ekki að heilsa, því engrar hafði hann notið uppfræðslu nema aðeins það allra minnsta, sem komist var af með til að ná fermingu.

Þegar hér var komið sögu, var Elli rúmlega hálfþrítugur og vinnumaður á Ærlæk, eins og áður segir. Samtíða honum þar var kvenmaður einn á bezta aldri, er Kristín hét og var Gunnarsdóttir, kölluð Krita. Ævi hennar hafði verið svipuð og Ella, nema ef til vill enn hörmulegri, ef verra gat verið. Ung hafði hún misst móður sína. Var umkomuleysið sárt, en fátækt og allsleysi fram úr hófi, en uppfræðsla engin. Enda var hún á hrepp eftir að faðir hennar, Gunnar á Smjörhóli lézt, og sjálfsagt haft misjafna aðbúð.

Fram að þessu höfðu menn gjört sér lítið títt um hagi þeirra Ella og Kritu, og saga þeirra lítið skráð á bókfell. En nú verður snögg breyting á þessu. Það sem sé gerist sá atburður, sem bæði fyrr og síðar hefir átt sér hliðstæður, án þess að allt hafi verið sett á annan endann. En það var það, að Krita verður þunguð af völdum Ella. Eins og ærlegum og góðum föður sómdi, hafði Elli nauðsynlegan undirbúning vegna þessarar væntanlegu barnsfæðingar. Meðal annars var hann búinn að útvega dvalarstað handa barninu o. s. frv., enda hefði Elli vel haft sig fram úr því, að ala upp barnið af sjálfsdáðum. En þetta átti ekki þannig að fara. Réttvísin tók ráðin af Ella og stjórnaði af meiri vizku og líklega réttlæti.

Einhvern nasaþef fékk hreppstjórinn, sem þá var Björn Jónsson í Sandfellshaga, af því hvernig komið væri, og hans fyrstu viðbrögð voru þau, að skipa ljósmóðurinni í sveitinni að rannsaka málið. Man eg að ljósmóðirin kom að Ærlæk og sló sér fljótlega á tal við Kritu og lét talið berast að klæðnaði hennar; spurði meðal annars hvort hún væri í vaðmálsskyrtu, en Krita sagðist vera í léreftsskyrtu næst sér. Því vildi yfirsetukonan ekki trúa og þráttuðu þær um þetta nokkra stund, þangað til Krita stóðst ekki mátið lengur og til að sanna mál sitt reif skyrturnar upp um sig. En yfirsetukonan athugaði það sem yfirvaldið hafði fyrirskipað.

Hér kemur útdráttur úr dómsmálabók Þingeyjarsýslu, frá þeim tíma, um þetta Ella-mál:

Árið 1893, þriðjudaginn 18. júlí, var réttarhald að Ærlæk, til að hefja rannsókn í tilefni af bréfi hreppstjórans í Skinnastaðahreppi, dags. 15. júní sama ár. Segir þar að Elías sé 27 ára gamall, hafi flutzt vistferlum í Ærlæk 1892. Játar Elías að hafa haft samræði við Kristínu: Að réttarhaldinu loknu er Elíasi bannað að hreyfa sig nokkuð af heimilinu fyrst um sinn, en vera alltaf til staðar þangað til ráðstafanir verði gjörðar.

Árið 1893, föstudaginn 21. júlí, var lögregluréttur settur og haldinn að Ærlæk af settum rannsóknardómara Einari Benediktssyni, til að halda fram rannsókn þeirri er hafin var með réttarhaldi að Ærlæk. Ber Elías allt það sama um samræði við Kristínu. Þess er getið að Elías sé einfaldur og svari spurningum bjánalega. Sjálfur játar hann að hann hafi oft fundið til þekkingarleysis síns og einfeldni, enda aðrir notað sér það í viðskiptum við hann.

Einnig er Sigfúsi Einarssyni húsbónda Elíasar uppálagt að láta ekki Elías ganga úr greipum réttvísinnar.

Þennan sama dag var héraðslæknirinn, Björn Blöndal á Sjávarlandi, kvaddur til að rannsaka og gefa vottorð um andlegt ástand Elíasar og Kristínar.

Árið 1893, mánudaginn 28. ágúst, var settur aukaréttur af Einari Benediktssyni á Skinnastöðum.

Réttvísin gegn Elíasi Jónssyni frá Ærlæk.

Verjandi málsins var sr. Þorleifur, sem þá skilaði aftur skjölum málsins, sem voru mörg og ýmiskonar, um hegðun og andlegt ástand Elíasar og Kristínar, og ennfremur skírnar- og fermingarvottorð.

Eftir að skjöl öll höfðu verið lesin upp, lýsti sr. Þorleifur því að hann hefði ekki fleira fram að færa, en það varnarskjal, sem hann hefði lagt fram.

Var þá málið tekið upp til dóms.

Árið 1893, mánudaginn 2. okt., var — aukaréttur Þingeyarsýslu settur og haldinn á skrifstofu Þingeyarsýslu að Húsavík, af sýslumanni Benedikt Sveinssyni [faðir Einars].

Réttvísin gegn Elíasi Jónssyni frá Ærlæk.

Dómurinn:

Það er löglega sannað í máli þessu með skýlausri eigin játningu ákærða í sambandi við önnur rök, sem upplýst eru, að hann hefur tvívegis á síðastliðnu og yfirstandandi ári framið holdlegt samræði með hreppsómaganum Kristínu Gunnarsdóttur, sem þá ásamt honum var til heimilis á Ærlæk.

Eftir langt mál var svo dómurinn uppkveðinn.

Því dæmist rétt vera:

Hinn ákærði, Elías Jónsson, vinnumaður frá Ærlæk, á að sæta eins mánaðar fangelsisvist við venjulegt fanga viðurværi. Einnig á hann að borga allan af máli þessu löglega leiðandi kostnað, þar á meðal 4 krónur til hins skipaða talsmanns, Þorleifs prests Jónssonar á Skinnastað.

Dóminum ber að fullnægja með aðför að lögum.

Ben. Sveinsson.

Víkur nú sögunni aftur til dagsins 21. júlí. Eftir að hinn setti rannsóknardómari, Einar Benediktsson, hafði lokið yfirheyrslunni yfir Ella og Björn Blöndal athugað andlegt ástand hans, var ferðinni beint að Smjörhóli. En þar höfðu hreppsyfirvöldin komið Kristínu fyrir til dvalar, til að fjarlægja hana frá Ella. Í förinni voru leiðtogi fararinnar Björn hreppstjóri, Björn læknir Blöndal og setti dómarinn Einar skáld Benediktsson ásamt fylgdarmanni sínum Ólafi Sveinar Hauk. Er ólíklegt að í annan tíma séu sagnir af að fríðari eða tignari fylking hafi kvatt dyra á Smjörhóli.

Ekki er mér kunnugt um hvað þar hefur gerzt, þó sjálfsagt geymist eitthvað um það í réttarskjölum frá þeim tíma, ef þau eru þá ekki glötuð. En fundi Kritu hafa þeir að sjálfsögðu náð. Bárust fréttir um það eftir lækninum, að langt myndi þess enn að bíða að Krita yrði léttari.

Skjöplast þótt skýr sé, segir gamalt máltæki, og mátti heimfæra það upp á Björn lækni, því ekki var heimsókninni fyrr lokið og menn riðnir úr garði, en Krita tók joðsótt og ól barnið, sem svo mikið tilstand hafði verið út af. Það var meybarn, sem síðar hlaut í skírninni nafnið Jóhanna, fædd 21. júlí 1893.

Ævisaga Kritu varð ekki löng úr þessu, því hún lézt á Smjörhóli sama ár, þann 7. október. Varð það með þeim hætti að hún fór út á hlað til að sækja barnarýur, sem breiddar höfðu verið til þerris upp á snúru. Þegar dvaldist að hún kæmi inn aftur og farið var að gá að, lá hún örend á hlaðinu.

Talin hafa orðið bráðkvödd. Vitnaðist þó síðar, þó aldrei yrði það hljóðbært, að banameinið var engu að síður „hor og ófeiti“, eins og það er orðað í kirkjubók Skinnastaðasóknar, um þá sem létust í móðuharðindunum 1785.

Mikið höfðu yfirvöldin garfað í þessum málaferlum og sýnt mikinn dugnað, en í öllum þessum önnum virðist hafa gleymzt að athuga um að barnsmóðirin hefði sæmilegt fæði og aðhlynningu, annars hefði Krita sennilega ekki orðið hordauð.

Samkvæmt dómsniðurstöðu réttvísinnar átti Elli að afplána sök sína með eins mánaðar fangelsisvist við venjulegt fanga viðurværi og greiða allan málskostnað.

Fangelsi var þá ekki nær en á Akureyri og þangað fór Elli, en ekki lifði hann eingöngu upp á vatn og brauð, eftir því sem honum sagðist sjálfum frá. Hann lét hið bezta yfir verunni. Mat hefði hann fengið að borða, bæði mikinn og góðan, þann sama og sýslumaðurinn borðaði sjálfur og allir voru honum góðir. Ekkert þurfti hann að gera á daginn, en rólaði sér í hengirúminu eins og hann hafði löngun til. Er ekki að efa að Elli sagði satt frá. Mun almennt hafa verið litið svo á, að hann hefði ekki með sök sinni unnið til þeirrar harkalegu meðferðar, sem réttvísin ákvað honum. Aldrei fyr á ævi sinni hafði Elli farið eins langa ferð eða séð sig eins mikið um, svo þó hann væri alla daga manna yfirlætislausastur, þá hafði hann séð svo margt nýstárlegt í þessari ferð, að hann vitnaði stundum síðar á ævinni til hennar og hóf þá venjulega mál sitt eitthvað á þessa leið: „Það var þegar eg fór inneftir“.

Langt um verra en tugthúsið var þó það, að missa allar eigur sínar. En þær voru allar teknar af Ella upp í málskostnaðinn, svo þegar hann vorið eftir (1894) fluttist frá Ærlæk ofan í Kelduhverfi í vinnumennsku til Þórðar Flóventssonar bónda í Krossdal, var hann slyppur og snauður. Átti þá ekki annað en fötin sín og vasaúrið sitt, sem yfirvöldunum hafði láðst að taka af honum. Um úrið sitt þótti Ella fjarskalega vænt, sem von var, enda var það honum svo nauðsynlegt, þar sem hann ætíð var einangraður frá öðrum og fjarri bæ við kindurnar; lét hann sér líka mjög ant um það og hafði í úrkassa, sem hann svo vafði vasaklút eða einhverju öðru utan um og bar það þannig í vasanum á vestinu sínu. En lánið getur verið hverfult og í þetta sinn reyndist það svo.

Yfirvöldin uppgötvuðu fljótlega yfirsjón sína og fundu ráð sem dugði. Þeim hugkvæmdist það, að Elli myndi einhvern tíma koma í orlofsferð austur í Öxarfjörð til að finna kunningjana og sjá litlu dóttur sína. Ef svo færi, var ferjumaðurinn á Ferjubakka fenginn til að ná úrinu af honum. Þessi ráðagerð heppnaðist. Ferjumaðurinn náði úrinu af Ella og það komst í hendur hreppsnefndaroddvitans, sem falið hafði verið að koma því í verð. Er ekki að orðlengja það, að oddvitinn hampaði úrinu framan í hvern sem var og bauð til kaups fyrir eitthvað, hvað lítið sem væri, en enginn vildi kaupa. Virtist svo sem menn hefðu einkennilega litla löngun til að eignast þetta úr. Varð endirinn sá, að nokkru seinna átti Þórður Flóventsson, húsbóndi Ella, ferð hér austur yfir Jökulsá og keypti þá úrið á 4 krónur og færði Ella það.

Eftir þetta fluttist Elli aldrei úr Kelduhverfi. Var vinnumaður á ýmsum bæjum, þangað til ævinni lauk í hárri elli. Munu allir ljúka upp einum munni um það, að Elli hafi verið maður meinhægur, grandvar, trúr og hollur sínum húsbændum, enda þurfti réttvísin aldrei að hafa hendur í hári hans, utan þetta eina sinn.

Jóhanna Elíasdóttir ólst upp á góðu heimili, þar sem hún naut sömu ástar og umhyggju eins og hún hefði verið ein af fjölskyldunni, enda mat hún það að verðleikum. Hún var svo trygglynd, að hún batzt vináttuböndum við. fjölskylduna, sem entust ævina út.

Meðal annars heimsótti hún þetta vinafólk sitt einu sinni á ári allt fram á síðustu ár. Alla ævi var Jóhanna veikbyggð og heilsutæp.

Naut hún sín þess vegna miður en skyldi. Jóhanna giftist og bjó með manni sínum á jörð í Kelduhverfi um tugi ára, eða allt til dánardægurs.

Með manni sínum eignaðist hún tvö börn, sem bæði eru á lífi, pilt og stúlku. Þeim gekk vel að læra og eru mannvænleg, engu síður en fólk er almennt. Bæði eru þau flutt úr fæðingarsveit sinni. Hann er búfræðingur að menntun. Hún er húsfreya í sveit.

Spéspeki Heimilistímans

Guðmar afi minn batt inn bækur og tímarit á sínum efri árum. Meðal þess sem hann batt inn voru gömul tölublöð af Heimilistímanum (1974-1981). Af einhverjum ástæðum fór ég í gegn um öll þessu bindi. Ég las ekki allt en ég las margt. Ég hef væntanlega verið 11-13 ára.

Mér datt núna í hug að kíkja aðeins á hvað væri að finna í Heimilistímanum. Ég á þessi bindi frá afa en þau eru í geymslu þannig að ég kíkti á Tímarit.is. Ég var ekki kominn langt af stað þegar ég fór að fylgjast með bröndurunum.

Það sem maður tekur fyrst eftir er að það er eiginlega ekkert fyndið þarna og stundum sér maður hvernig þýðendur hafa klúðrað bröndurum (sem voru ekki endilega fyndnir til að byrja með). Það væri hægt að flokka brandarana í örfáa flokka. Heimsk/heimskir/heimskar/ömurleg/ömurlegar/ömurlegir eiginmenn/eiginkonur/börn. Kynlíf. Drykkjuskapur.

Einu brandararnir sem mér finnst nálgast fyndni eru þeir sem ekki falla í þessa flokka. Ykkur til… skemmtunar(?) hef ég klippt út myndbrandarana úr fyrstu fjórum tölublöðum Heimilistímans.

Jóríkur: Síðasti karlinn

Y: The Last Man er ein af þeim teiknimyndasögum sem eru taldar með þeim bestu sem hafa komið út á öldinni. Í stuttu máli deyja allir karlar á jörðinni. „Hetjan“ okkar hann Yorick lifir af og þarf að bjarga sér í sturluðum heim á meðan hann leitar að sinni sönnu ást.

Sagan náði að halda mér við efnið. En mér fannst þetta aldrei vera nógu gott. Persónurnar náðu mér aldrei almennilega. Eftirleikur plágunnar virkaði ósannfærandi á mig. Auðvitað þarf að gefa sér ákveðna hluti til að þjóna sögunni en það hefði bara þurft að gera þetta allt betur.

Skógarhöggsjónurnar

Þar sem ég lék mér með Masters of the Universe á unga aldri ákvað ég að prufa að horfa á endurskotið á systur He-Man, She-Ra (She-Ru?), á Netflix. Ég féll alveg fyrir þeim. Ég las mér til um konuna á við þættina, Noelle Stevenson og komst að því að hún hefði líka verið með teiknimyndasögur sem heita Lumberjanes.

Ég var mjög hrifinn. Kannski ekki alveg jafn hrifinn og af t.d. Giant Days (sem ég las næst á undan) en það skýrist kannski af því að Lumberjanes miðar við aðeins yngri aldurshóp en þær sögur.

Í stuttu máli snúast sögurnar um ævintýri stúlkna í skátasumarbúðum. Það kemur fljótt í ljós að margt dularfullt er á seyði í kring. Það er kannski hægt að líkja þessu við þættina Gravity Falls eða kannski Stranger Things án hryllingsins.

Fyrir utan að berjast og/eða vingast við skrýmsli fjalla sögurnar um vináttu stúlknanna. Tvær þeirra [HÖSKULDUR!!] byrja líka saman. Þá kemur við sögu transeinstaklingur.

Ég mæli hiklaust með Lumberjanes fyrir unglingastig og lengra komna nemendur á miðstigi (enskukunnátta auðvitað nauðsynleg). Kannski yngstu í framhaldsskóla en mögulega finnst þeim þetta of barnalegt. Síðan mega fullorðnir lesa þetta líka.

Annars má geta þess að ég er enn að lesa í svarthvítu og fattaði því t.d. ekki að ein persónan fékk bláan lit í hárið fyrren það var nefnt í textanum.

Er næsta ár árið sem við getum sleppt tvöþúsund?

Ég var að skrifa vísun í árið 2012 og ég hugsaði með sjálfum mér: Gæti ég skrifað, eða sagt, bara ’12. Ekki séns. Við höfum ekki getað gert svoleiðis síðan ’99. Það væri gaman að vita hvað stoppar okkur. Ég veit það bara ekki nákvæmlega.

Vissulega er það þannig að þegar ég segi bara tólf þá líður mér eins og ég sé að tala um tíma dags frekar en ár. Það er líka þannig ef maður ætlar að tala um árabil. Ef maður skrifar eða segir 12-14 þá líður manni eins og maður sé að taka sér langan hádegisverð en ekki að tala um tímabil í lífi manns. Ef maður segir árin 12 til 14 er það eins og maður sé að tala um unglingsár Jesú.

Þegar er verið að tala um þá sem fæddust fyrstu níu ár aldarinnar, sérstaklega þegar þau sjálf eru að tala, þá eru þetta núll-fimm módel, núll-sex módel og svo framvegis. Kannski að maður ætti að benda þeim á að núll-núll-sjö módel sé svalara en bara núll-sjö en þá þyrfti maður líka að útskýra fyrir þeim hver þessi James Bond sé.

Ég er ekki viss um að þetta kerfi virki jafnvel á fyrsta tuginn. Er einhver ellefu módel? Hljómar ekki vel. Ég veit ekki hvernig yngsta kynslóðin reddar sér. Kannski hefði ég átt að spyrja afa mína og ömmu. Ekki ömmur.

Virkar ’20? Það er vissulega ennþá á klukkustundabilinu en ekki alvarlega. En ég held ekki. Ég held að það séu enn smá óþægindi í máltilfinningunni. Tuttugu hljómar ekki eins og ár.

Ég held að næsta ár sé árið. Hægt og rólega verður auðveldara að tala um fortíðina. Þau sem fæðast á næsta ári geta andað rólega og sagt að þau sé fædd tuttugu og eitt. Miklu betra sko. Ég hefði getað spurt Siggu ömmu út í þetta. Hún fæddist ’21 og var örugglega ákaflega fegin.

Heimsveldi

Ég horfði á heimildaþáttaröðina Empire (2012) með Jeremy Paxman. Þar fjallar hann um breska heimsveldið og arfleifð þess.

Það sem vakti strax athygli mína á fyrstu mínútunum er hvernig skjátextinn var. Aðaltungumál þáttanna var enska en það var tekið viðtal við ýmsa þegna heimsveldisins sem töluðu oft eigin tungumál. Sama hvert tungumálið var þá stóð bara í skjátextanum „talandi útlent tungumál“. Ég veit ekki hverjir sáu um þessa textun en framleiðendurnir hefðu átt að tryggja að hún væri í lagi. Það að endalaust um útlend tungumál virkar voðalega heimsveldis- og/eða nýlendusinnað.

Annað dæmi frá fyrstu mínútunum var frá pólóleik á Indlandi. Þar heyrist í lýsingu á leiknum sem er á ensku. Það er allt þýtt vel og vandlega þar til nöfn leikmanna koma fram. Þá stendur bara „(mumbles)“. Nafnið var ekki muldrað – það var bara „útlenskt“. Ég öfunda skjáskrifarann ekki að þurfa að reyna að rita nöfn á tungumáli sem hann skilur ekki (kannski það hefði verið hægt að finna Indverja sem talar ensku til að skrifa skjátextann?) en þetta er voðalega aumt.

Af þáttunum sjálfum er það að segja að þeir líta út eins og þeir séu gagnrýnir á breska heimsveldið svo lengi sem þú þekkir ekki sögu þess. Þá tekurðu eftir að heilu þjóðarmorðin eru hunsuð eða fljótafgreidd á sama tíma og mikil áhersla er lögð á uppreisnir og hefndaraðgerðir innfæddra gegn breskum yfirráðum.

Paxman eyðir líka töluverðri orku í að benda á góð áhrif sem breska heimsveldið hafði. Fyrst virkar það bara eins og hálfgert grín en síðan verður það bara aumkunarvert.

Ég lærði alveg eitthvað af þessum þáttum en ég get varla mælt með þeim. Þetta virðist helst ætlað að reyna að útskýra fyrir Bretum, sem ekki þekkja söguna, að breska heimsveldið hafi ekki verið frábær hugmynd án þess þó að ögra þeim um of.

Risadagar

Ég er enn í teiknimyndasöguham og er áfram að lesa allt í rafbókalesaranum mínum á svarthvítum skjá þó sögurnar séu flestar í lit.

Giant Days er gjörólíkt flestu sem ég hef lesið, hvort sem það eru teiknimyndasögur eða hefðbundnar bækur. Aðalsöguhetjurnar okkar eru þrjár breskar háskólastúdínur (Esther, Susan og Daisy) í Sheffield sem við fylgjum í gegnum námið. Sagan kláraðist í fyrra sem hentar mér vel af því að ég á erfitt með að njóta efnis í smærri skömmtum.

Ég veit ekki beinlínis hvað heillaði mig við sögurnar. Sumt tengi ég reyndar beint við. Susan hellir sér í stúdentapólitíkina og er í raun í uppreisn gegn stöðnuðu kerfi. Það passaði frekar vel við mig. Sumt minnti mig líka á dvölina í Írlandi. Þar endaði ég með ókunnugu fólki í íbúð. Ég náði þó ekki að tengja við sambýlinga mína en eignaðist samt fullt af vinum.

Fæst hafði þó slíka skírskotun í mitt líf. En það heillaði mig samt. Stærsta ástæðan var líklega að mér líkaði svo við persónurnar. Þær virka raunverulegar þó heimurinn sé ýktur. Þannig mætti líkja þessu við sjónvarpsþættina Community.

Mér þótti vænt um Daisy og Susan en ég gjörsamlega dýrkaði Esther. Ég efast um að ég sé einn um það. Hún er svona goth/emo (gotnesk tilfinningavera?) í útliti en aldrei stereótýpa. Kannski er hún smá „Manic Pixie“ en hún er það á sínum eigin forsendum en ekki til að uppfylla hlutverk draumastúlku einhvers stráks.

Ef ég væri enn með skólabókasafn þá myndi ég kaupa alla vega eitt bindi af Giant Days fyrir elstu á miðstigi og uppúr. Ég held að margir fyrrverandi safngestir mínir myndu heillast af þessu. Fyrir unglinga er þetta síðan gráupplagt.

Þessi saga er líklega best af því „nýja“ efni sem ég hef lesið á árinu. Ef þið viljið ekki lesa þetta af skjá, hvað þá svarthvítum skjá, þá á Nexus auðvitað Giant Days.

Óaðlaðandi hatur

Ég tók ekki þátt í nýlegum „leik“ á Facebook þar sem fólk var að tala um hluti sem það þoldi ekki að leiddist. Ég skrifaði snöggt um það færslu sem mér fannst, eftir á, líta út fyrir að ég væri að setja mig á háan hest. Það var ekki ætlunin.

Um það leyti sem ég varð fertugur ákvað ég að hætta að tala um hluti sem fara í taugarnar á mér eða mér leiðist. Lesendur þessa blogg eru án efa hissa og spyrja hvers vegna ég sé þá t.d. að tala um Facebook eða AirBnB. Það sem ég er að segja á aðallega við um menningar- og afþreyingarefni. Sömuleiðis er ég að hugsa um frægt fólk s.s. áhrifavalda og annað sem ég fatta ekki. Hins vegar er það þannig að fyrirtæki, stofnanir og kerfi á, og þarf, að gagnrýna.

Nú væri kannski eðlilegt að skilja mig þannig að ég sé bara að líta stórt á mig, að ég sé betri en aðrir. Það er ekki ætlunin. Ekki beint. Ég áttaði mig bara á að ég fékk kjánahroll þegar ég sá fólk á mínum aldri, og eldra, kommenta við fréttir um eitthvað sem unga fólkinu finnst hipp og kúl. Komment eins og: „Er þetta eitthvað merkilegt? Ég hef aldrei heyrt um x.“

Ég er ekki að segja að ég sé betri en þetta fólk. Þvert á móti er ég þetta fólk. Ég hef aldrei heyrt um „x“! Ég er bara að reyna að fela hve hallærislegur ég er. Það að fatta ekki eitthvað þegar maður er fertugur er ekki merki um að maður sé að standa gegn straumnum. Maður er þvert á móti í hringiðunni með öllum hinum sem fylgjast ekki með.

Ef ég vildi gæti ég notað „afaklausuna“ til að tala um hluti sem mér hefur lengi þótt asnalegir. Og ég geri það stundum. En ég reyni að forðast það. Það er minna tengt því að vera fertugur og meira um að átta mig á sannleikanum í línu sem Steve Martin segir í í L.A. Story:

Ég held að þú áttir þig ekki á því hve óaðlandi hatur er.

(I don’t think you understand how unattractive hate is.)

Þannig að ég er ekki að reyna að setja mig á háan hest. Ég er bara að reyna að vera minna hallærislegur og óaðlaðandi. Ókei, kannski er ég líka að vonast til þess að verða betri manneskja með tímanum.

Það má alltaf vona.

Verðskuldandi fólk (um borgaralaun og fleira)

Ég hef mjög blendnar skoðanir á borgaralaunum. Mér vissulega þægilegt að fá svoleiðis. Þá gæti ég einblínt á að koma í verk öllu því sem mig langar að gera en er ekki gróðavænlegt. Ég gæti farið á fullt t.d. í Rafbókavefnum. Ég gæti klárað heimildamyndina mína. Allskonar sniðugt. Ég gæti líka tekið mér tíma til að byggja upp spilaútgáfuna mína og haft grunn til að græða alvöru peninga.

Mér finnst það líka góð hugmynd að losa fólk undan þeim kvöðum sem felst í því að skrá sig atvinnulaust eða berjast við að fá örorku viðurkennda – hvað þá að fá einhvern styrk í gegnum t.d. sveitarfélögin. Þú værir með einhvern ákveðinn punkt sem tryggir grunnframfærslu.

En við vitum að það er nógu erfitt að ákvarða hvað t.d. atvinnulausir og öryrkjar eiga að fá til að lifa af. Um leið kemur spurningin hvað fólk „verðskuldar“. Verðskulda allir atvinnuleysisbætur? Svarið sem kerfið gefur er nei. Ef þú hefur t.d. ekki unnið nógu marga mánuði á ákveðnu tímabili þá færðu ekkert eða skertar greiðslur.

Það sama gildir um öryrkja. Kerfið setur fólk í reiknilíkan og segir þeim að það verðskuldi ákveðið hlutfall af hæstu upphæð. En ef einhver er metinn 50% öryrki þá þýðir það ekki þú getir gengið inn í hálft starf sem hentar þér á móti. Hvorki markaðurinn né hið opinbera tryggir slíkt. Ferðu þá á atvinnuleysisbætur á móti? En þegar þær renna út? Færðu þá styrk frá sveitarfélaginu? Fólk rúllar á milli í kerfinu sem reynir að meta hvort það verðskuldi eitthvað.

Sú hugmynd að það sé hægt að meta hvort fólk verðskuldi eitthvað, hvort sem það sé vegna atvinnuleysis, örorku eða bara fátæktar er gölluð. Vissulega getum við alltaf fundið fólk sem allir geta verið sammála um að séu verðskuldandi en við missum um leið í sprungurnar fólk sem vissulega þarf á hjálp að halda.

En hverjir verðskulda ekki hjálp? Þeir sem eiga pening? Þeir sem eiga bakland? Þeir sem þurfa ekki mikið? Glæpamenn? Þeir sem eru ungir? Þeir sem eru gamlir? Á sama hátt og við getum fundið þá sem verðskulda hjálp okkar þá getum við fundið þá sem verðskulda hana ekki.

Grunnvandamálið við hugmyndina um þá sem verðskulda hjálp og þá sem verðskulda ekkert er að við getum aldrei búið til kerfi sem reiknar slíkt út. Þú getur búið til dæmi, og fundið þau, en einstaklingar eru miklu flóknari en að við getum stillt einhverjar breytur og fundið réttu lausnina.

Við getum yfirfært sömu hugmynd á menntun og heilbrigðisþjónusta. Við getum ekki reiknað út hverjir séu „verðskuldandi“. Ættu lugnalæknar að spyrja fólk hvort það hafi reykt áður en þeir ákveða hvort meðferðin verði ókeypis? Mér finnst einfalt að segja nei við þessari spurningu en ég veit að það er til fólk sem myndi segja já.

Það er kannski ágætt að nota reykingar sem dæmi sem upplýsir allt hitt. Ef við viljum úrskurða að reykingafólk verðskuldi ekki meðferð við lungnasjúkdómum þá erum við í mörgum tilfellum að segja að heimskuleg ákvörðun ósjálfráða barns eigi að móta líf þess. Ef vinir þínir byrjuðu að reykja og þú hermdir eftir af því að þú vildir ekki vera útundan þá skaltu borga fyrir þau mistök það sem eftir er ævi þinnar – ekki bara með lélegum lungum heldur beinhörðum peningum.

Við erum auðvitað á hverjum degi að refsa fullt af fólki fyrir heimskulegar ákvarðanir sem það tók á barnsaldri. Ef þú ákveður 16 ára að sleppa framhaldsskóla og fara að vinna þá áttu skilið lægri laun það sem eftir er ævi þinnar. Það skiptir engu máli hvort þetta var ákvörðun eða nauðung. Ef þú hafðir tök á því að halda áfram menntun þinni þá færðu sama dóm og þeir sem vildu bara hafa efni á að hella sig fulla um hverja helgi.

Ég vil taka fram að ég tel líka ósanngjarnt að þeir sem ákváðu að drekka sig fulla um hverja helgi sextán ára þurfi að gjalda þess alla ævi. Við vitum að það geta verið allskyns ástæður á bak við slíkt. Kannski var áfengi eina þunglyndislyfið sem þú hafðir aðgang að. Ég hef líka verið í þeirri stöðu að hjálpa námsfólki sem hafði kannski tekið slæma ákvörðun varðandi menntun sína þegar það var sextán ára. Síðan ákvað menntamálaráðherra að ef þetta fólk væri orðið 25 ára verðskuldaði það ekki annað tækifæri til menntunar. Ég er ennþá reiður yfir því.

Borgaralaun eru sú hugmynd af við verðskuldum öll grunnframfærslu. Ég er hrifinn af þeirri hugmynd en ég á erfitt með að trúa að slíkt gangi í gegn. Ég held að reynslan sýni líka að þar sem þetta hefur verið reynt hefur hugmyndin verið svo útvötnuð að hún hefur orðið t.d. að verri útgáfu af örorkutryggingum. Margir halda að það sé fyrsta skrefið að almennum borgaralaunum en ég sé það ekki gerast með slíkum hænuskrefum. Ég held að þetta sé frekar tækifæri til að gera ómanneskjulegt kerfi verra.

Kvennastríðið

Ég var á tímabili mikill aðdáandi Cracked. Þegar vefritið var upp á sitt besta birti það ákaflega skemmtilega listafærslur. „Topp tíu…“, „Fimm dæmi um…“ og svo framvegis. Margt stórfyndið. Síðan var Cracked selt og fór í ruglið eftir að Facebook plataði þau, og marga fleiri vefi, í að leggja áherslu á myndbönd. Það endaði með að fólk var sagt upp og allir hlekkir sem Facebook-síðan þeirra dældi út hlekkjum á voru gamlar greinar með örlítið breyttum fyrirsögnum. Þannig gafst maður upp á þeim.

En áður en allt fór til fjandans kom Cracked verulega skemmtilega á óvart með því að birta alvöru fréttamennsku frá Írak um baráttunni við ISIS.

Svo liðu nokkur ár og ég var að hlusta á hlaðvarpið Harmontown, sem var mitt uppáhalds. Þá kom gestur að nafni Robert Evans. Ég þekkti ekki nafnið – nema sem kvikmyndaframleiðandann sem frægur er fyrir allskonar fleira en bara kvikmyndaframleiðslu. Þessi Robert Evans var að tala um ferð sína til Rojava (sjálfstjórnarsvæði, eða ríki, Kúrda í Sýrlandi). Þetta var stuttu eftir að fréttir bárust af því að félagi Haukur hefði fallið í bardaga á svæðinu þannig að ég sperrti upp eyrun. Síðan nefndi Evans að hann hefði unnið hjá Cracked og ég fattaði strax að þetta væri sá sem hafði skrifað þessar frábæru greinar á sínum tíma.

Þar sem hann hafði í spjallinu nefnt að hann væri að gera hlaðvörp sjálfur stökk ég til og fann þau. Ég hlustaði fyrst á hljóðbók/hlaðvarp hans um bandaríska fasista – þar sem „Íslandsvinurinn“ George Lincoln Rockwell var í aðalhlutverki. Þetta birtist sem hluti af hlaðvarpinu Behind The Bastards þar sem Robert fjallar um ýmsa illvirkja sögunnar með oft skemmtilegum vinkli. Með honum eru ýmsir félagar hans, margir fyrrverandi starfsmenn Cracked en nýlega poppaði hann Spencer Crittenden úr Harmontown líka upp. Robert les handrit og gestirnir spyrja hann út úr ef eitthvað er óskýrt. Síðan er upptökustjórinn Sophie skemmtileg í sínu aukahlutverki að ótaldri henni Anderson.

Fyrir utan BtB er Robert með hlaðvarpið Worst Year Ever með Katy Stoll og Cody Johnston (sem eru líka reglulegir gestir fyrrnefnda varpsins). Þegar þau gáfu þáttunum nafnið var það vísun í forsetakosningarnar í Bandaríkjunum en augljóslega kom í ljós að þetta var best heppnaða hlaðvarpsnafn allra tíma.

Ég mæli með öllu þessu sem ég hef nefnt hér að ofan en ég vil sérstaklega nefna The Women’s War sem er nýlega byrjað. Hlaðvarpið byggir á ferð Robert Evans til Rojava. Það er auðvitað gjörólíkt hinum sem byggja að mestu á húmor sem hefði alveg getað birst á Cracked.

Í The Women’s War er Robert að sem vinstri maður, jafnvel anarkisti ef maður vill flokka hann nánar, að reyna að nálgast tilraunina í Rojave á gagnrýnin hátt. Hans efasemdir minna mig verulega á hvernig ég sjálfur hef hugsað um svæðið. Það er að mörgu leyti eins og draumsýn vinstri manna um möguleikann á minnkaðs vægi kapítalista og jafnréttis, sérstaklega kynjajafnréttis en líka milli Araba og Kúrda.

Ég ætla ekki að greina sérstaklega mínar skoðanir á Rojava – geri það kannski þegar þáttaröðin hefur lokið göngu sinni – en ég ætla að mæla sterklega með þeim. Þetta er áhugaverðasta hlaðvarp sem ég veit af í dag.