Nasistar sem styðja málfrelsi

Í morgun endaði ég inni á íslenska hægri Twitter. Sem er versti Twitterinn. Þar sá ég allskonar vitleysu. Ég sá nokkrar deilingar á myndbandi þar sem vondir andfasistar voru að ýta við manni sem var sakleysislegt skilti þess efnis að hann styddi tjáningarfrelsi. Voða vont fólk. Þessu var deilt eins og þetta væri nýskeð. Athugasemdir um hvað 2020 væri brjálað.

Mig grunaði að þarna vantaði eitthvað samhengi. Þannig að ég lagðist í margra klukkutíma rannsóknarvinnu til að komast að því sanna. Djók. Ég bara las athugasemdirnar við upprunalega myndbandið. Þar var snarleg bent á að myndbandið væri ekki nýtt og að það vantaði mikið upp á samhengið.

Ef maður hefur fylgst með öfgahægrinu þá sér maður alltaf sama bragðið sem þeir nota. Fyrst er tjáir einhver viðbjóðslega skoðun. Þessari skoðun er síðan mótmælt og í kjölfarið fara hægrimenn að tala um skoðanakúgun, árás á málfrelsið og reyna að hunsa viðbjóðinn sem var orsakaði reiði vinstra fólksins.

Í þessu tilfelli voru nýnasistar með viðburð í hverfi í London árið 2017 og fólk í hverfinu mætti til að mótmæla. Til að hafa það á hreinu, þegar ég sé nýnasistar, þá meina ég alvöru nýnasistar. Meðal annars gaur sem sagði að Anders Breivik hefði gert það sem marga bara dreymdi um. Þið munið kannski eftir Breivik. Hann drap fullt af krökkum í Útey.

Það var sumsé stuðningur við fjöldamorð sem fór fyrir brjóstið á þessum andfasísku snjókornum. Síðan mætir þessi eini gaur og segist styðja málfrelsi. Allir vita að hann meinar að hann sé nasisti en það er hægt að búa til úr þessu myndband þar sem saklaus gaur er ofsóttur af öfgavinstrimönnum.

Ef við ætlum að tala um mörk tjáningarfrelsið þá er gott að muna eftir hefðbundna dæminu. Þið vitið, þetta með að öskra eldur í troðnu leikhúsi. Ég ætla að halda statt og stöðugt fram að stuðningur við fjöldamorð falli vel og vandlega undir málfrelsi sem má takmarka. Allavega styð ég að fólk safnist saman og mótmæli svona fólki.

Það er áhugavert að það eru ekki svartklæddu anarkistarnir sem ganga þarna harðast fram. Það er kona, væntanlega á mínum aldri eða eldri, sem stuggar við nasistanum. Ég skil hana vel. Þegar ég sé nasista þá fer hnefinn minn að kreppast. Hún bara ýti við honum. Ég myndi ekki vilja fá svona pakk í hverfið mitt.

Ég tek fram að ég skil alveg að fólk sé algjörlega á móti jafnvel sakleysislegum ýtingum eins og sjást í myndbandinu. En það að deila þessu myndbandi í röngu, eða án, samhengi(s) er bara áróðursbrella sem við þurfum að verjast.

Síðan getum við séð hverjir voru að deila myndbandinu. Það var til dæmis Toby Young. Ég ætla ekki að kalla hann nasista. Hann styður reyndar kynbætur á mönnum. Hann er líka í forsvari við einhver samtök sem kenna sig við málfrelsi.

Athugasemdirnar við myndbandið segja líka sitt. Þær voru margar hverjar rasískar. Ábending: Ef þú ert að deila einhverju og sérð að fullt af rasistum eru hrifnir af því þá ættirðu kannski ekki að deila því.

Hvernig ætli fólki líði ef það kemst að því að það var að deila nasistaáróðri? Ætli það hugsi: „Oj, nei. Verð að passa mig á þessum nasistum“? Eða ætli það hugsi: „Æ, nei. Það komst næstum upp um mig“?

Það eru ótrúlega öflugar áróðursvélar í gangi. Helsta vopn okkar gegn þeim er að hafa fólk á okkar bandi sem efast ekki bara um það sem andstæðingarnar hafa fram að færa (sem er það sem ég er að gera hér) heldur samherjarnir sem leyfa sér að spyrja félaga sína hvort það sem þeir eru að deila sé raunverulega satt.

Ef þú átt ekki vin sem leyfir sér að efast um það sem þú segir þá ertu illa staddur.

Að lokum vil ég benda á að samkvæmt röksemdarfærslu hægri manna er öll gagnrýni á þessi skrif mín árás á málfrelsi mitt.

Þegar Barnaheill var rænt af samsæriskölti

Ef þið fylgist með bandarískum stjórn- og þjóðfélagsmálum þá hafið þið væntanlega heyrt um „Q“ og Q-Anon. Þetta er klikkuð samsæriskenning sem hefur náð töluverðri útbreiðslu þar í landi. Það er líka hægt að sjá Q-Anon fólk í athugasemdakerfum íslenskra vefmiðla.

Í stuttu máli er dularfullur gaur sem kallast „Q“, sem á að vera háttsettur embættismaður í Bandaríkjunum, að pósta allskyns rugli á rasistaspjallborð. Miðpunkturinn í málflutningi hans er að Trump sé að reyna að bjarga Bandaríkjunum frá allskonar samsæri Demókrata og ríks fólks. Bjánalegar athugasemdir Trump um hitt og þetta eru túlkaðar sem leynileg skilaboð. Auðvitað er „Q“ ekki raunverulegur embættismaður. Mögulega er hann eigandi rasistaspjallborðsins en það er alls ekki víst.

Kenningarnar eru allskonar og sumar mjög undarlegar. John F. Kennedy yngri (ekki eldri eins og Kjarninn skrifaði) sem fórst í flugslysi fyrir rúmum 20 árum er til dæmis í lykilhlutverki og á að hafa sett slysið á svið til að geta unnið á bak við tjöldin til að upplýsa samsæri.

Q-Anon er költið sem trúir á kenningar „Q“. Það er allskonar fólk en margir hafa nefnt að eldra fólk sé oft líklegra til að falla fyrir þessu. Kenningarnar sem Q-Anon fólk dreifir eru ekki eingöngu komnar frá „Q“. Hópurinn fann til dæmis ekki upp á „Pizzagate“ samsærinu (meintur barnaníðshringur á pizzastað sem Demókratar sóttu töluvert) en var duglegur að dreifa því. Q-Anon finnur líka allsstaðar vísbendingar um samsærin. Tónlistarmyndband Justin Bieber var til dæmis fullt af vísunum í „Pizzagate“ – segir költið.

Q-Anon fólk hefur komist að því að barnaníðsásakanirnar eru líklegar til að fá dreifingar. Í ágúst náði þessi hópur að ræna #savethechildren myllumerkinu. Fullt af fólk deildi óafvitandi áróðri þeirra og mætti jafnvel á mótmæli sem voru ætluð til að vekja athygli á Q-Anon kenningum. Ég sá svoleiðis pósta frá Íslendingum en ég vissi bara ekki hvernig maður ætti að útskýra fyrir fólki að #savethechildren snerist í raun um eitthvað allt annað. Þetta er svona eins og þegar rasistarnar rændu ókeimerkinu og fólk brást við með að úthúða þeim sem bentu á það.

Annars virðist þetta #savethechildren dæmi hafa fjarað að mestu út, m. a. annars vegna þess að Q-Anon komst að því að Bill Gates hafði gefið mikið af peningum til Barnaheilla (Save the Children) og brjálaða samsæriskenningaköltið vildi enga tengingu við Bill Gates. Þetta fólk hatar Bill Gates ekki vegna vafasamra viðskiptahátta heldur vegna þess að það telur að Gates sé að reyna að drepa fólk hægri vinstri með góðgerðarstarfi sínu.

Þó það sé erfitt þá erum við víst á þeim stað að við þurfum að fara að tala um Q-bullið við fólk sem er óafvitandi að falla fyrir samsæriskenningum þeirra. Þetta er ekki bara einhver heimskulegur brandari. Þetta er að dreifast um heiminn og þetta getur verið stórskaðlegt.

Framhaldsskólar með skuldahala

Fyrir nokkrum árum vann ég í framhaldsskóla. Þar sem mínir kjarasamningar gerðu enga kröfu um að mér væri borgað sérstaklega fyrir fundarsetu endaði ég með því að stunda slíkt töluvert (ekki af eigin áhuga). Ég fékk því að fylgjast sérstaklega vel með fjármálum skólans.

Þessi ríkisskóli skuldaði ríkinu peninga. Árin áður hafði skólinn farið fram úr fjárhagsheimildum og þurfti því að skera niður í hinu og þessu næstu árin. Ég mátti t.d. ekki kaupa nema mjög takmarkað af bókum. Á nær öllum fundum sem ég sótti þurfti líka að finna leiðir til að spara. Það var mjög niðurdrepandi. Ég var þó ekki nálægt þegar erfiðustu ákvarðanirnar voru teknar og varð því mjög bylt við þegar ég komst að því að hópi af samstarfsfólki mínu hafði verið óvænt sagt upp.

Í raun þýddi þetta að þeir sem voru í skólanum á þessum árum fengu skerta þjónustu. Ég skil ekki hvernig er hægt að réttlæta slíkt. Þessir nemendur „græddu“ ekki á því að skólinn notaði of mikið af peningum árin áður. Það er ekki eins og þessi yfirkeyrsla hafi verið fjárfesting til framtíðar.

Framhaldsskólar eru auðvitað fastir í neti reiknilíkana þar sem Excel segir til hvað hlutirnir mega kosta – hvort sem forsendurnar séu réttar eða rangar. Sveiflur í nemendafjölda milli ára breyta öllu og það er ekki alltaf hægt að skera niður með litlum fyrirvara. Það er stundum óumflýjanlegt að lenda í mínus.

En hvað á að gera þegar skólar lenda í mínus? Kerfið sem ég sá refsaði nemendum og starfsmönnum. En hefði ekki verið rökréttara að fara yfir fjármál skólans, athuga hvað fór úrskeiðis og sjá hvort þetta var í raun óumflýjanlegt eða jafnvel vegna mistaka og vanrækslu? Ef um væri að ræða lélega fjármálastjórn skólans þá ætti einfaldlega að segja upp þeim stjórnendum sem bera ábyrgð. Ekki refsa nemendum sem hvergi komu nálægt ákvörðunum.

Ég veit ekki hvernig er brugðist við svona málum í dag. Ég hóf auðvitað störf í kjölfar hrunsins en jafnvel þegar birti til í ríkisfjármálum var bág staða skólans notuð í klassískri árás frjálshyggjunnar á opinbera þjónustu. Niðurskurður gerði fólk að lokum sátt við að einkaframtakið tæki við. Þar var hægt að fá peninga.

Stafsetningarvilla en ekki málvilla

Ég er hópnum Málspjall sem Eiríkur Rögnvaldsson setti af stað. Þar ákvað ég að spyrja um nokkuð sem ég hef lengi velt fyrir mér. Það er þessi tilhneiging að setja G-hljóð aftan við orð eins og þú, þau, þó og svo. Ég geri það jafnvel stundum sjálfur.

Þetta er ekki nýtt fyrirbæri. Ég man mjög sterkt eftir þessu G-hljóði hjá Guðmari afa til dæmis. Við vitum líka að þessi orð hafa gjarnan verið til vandræða þegar á að kenna börnum stafsetningu – þóg að það sé ekki jafn áberandi og áður fyrr.

Eiríkur svaraði þessu:

Ég þekki þetta úr „þaug“ og „svog“ en ekki úr hinum orðunum þótt mér finnist trúlegt að þau hafi fengið sambærilegar myndir. Þetta var mjög algengt áður fyrr en ég heyri það sjaldan núna – eða tek lítið eftir því a.m.k. Í Menntamálum 1947 er lögð áhersla á þjálfun sjónminnis og sagt: „Sé það gert, er alveg óhugsandi, að 12—13 ára börn skrifi þaug og þettað — o. fl. svipaðar vitleysur.“ Án þess að ég hafi nokkuð skoðað þetta finnst mér líklegt að ástæðan sé sú að g-inu sé skotið inn til að forðast svokallað „hljóðgap“ þar sem tvö sérhljóð koma saman. Á eftir „þau“ fer mjög oft „eru“ og þá koma saman tvö sérhljóð sem tilhneiging er til að forðast í framburði. Sama gildir um hin orðin. Með aukinni stafsetningarkennslu hefur sennilega dregið úr þessum framburði.

Þegar ég var í þjóðfræðinni lagði ég töluverða áherslu á kenningar um munnlega hefð. Þessar hugmyndir áttu upprunalega að vera upplagið í meistararitgerðinni minni. En þetta varð líka til þess að ég fór að skilja þá gjá sem er milli ritaðs máls og talaðs.

Ritað mál verður alltaf mjög einfölduð útgáfa af töluðu máli. Stafsetning endurómar þetta með því að staðla orð sem eru borin fram á marga ólíka vegu. Við skrifum banki en ekki bánki af því að íslenskufræðingar ákváðu að það væri réttara. Þetta er auðvitað ekki sér-íslenskt og í öðrum tungumálum eru til miklu ýktari dæmi.

Stundum gerist síðan það sem Eiríkur bendir á hér að ofan. Stöðluð stafsetning fer að breyta frumburði. Það er rangt að skrifa þaug þannig að fólk hættir að bera fram þetta G-hljóð. En samt er þetta ekki málvilla í sjálfu sér – bara stafsetningarvilla. Það er ekki það sama.

Við gætum alveg ímyndað okkur þróun á íslensku sem hefði orðið til þess að við myndum bera orðið banki fram eins og það er skrifað. Kannski ef Jón Baldvin hefði verið vinsælli stjórnmálamaður og fólk hefði apað upp eftir honum framburðinn í stað þess að afskrifa hann sem tilgerðarlegan eða ef Halldór Laxness hefði ekki gert uppreisn gegn stafsetningarreglunum.

Ég er ekki að segja að það sé gott eða slæmt að stöðluð stafsetning hafi áhrif á talað mál en ég held að það sé gott að hafa þetta í huga.

„Var myrtur“

Þegar Íslendingabók var í vinnslu var almenningi boðið að fá útprent af upplýsingum um forfeður sína. Ég stökk auðvitað til. Það vill svo til að í ættfræði er yfirleitt fljótlegast að klífa upp karlegginn.

Ætli upplýsingarnar ætli hafi ekki svipaðar þá og núna:

Stefán Jónsson
Fæddur 23. ágúst 1801 á Neðri-Vindheimum, Glæsibæjarhr., Eyj.
Látinn 11. ágúst 1852 í Glæsibæjarsókn, Eyj.
Bóndi á Áslákstöðum, Lögmannshlíðarsókn, Eyjafjarðarsýslu 1845 og 1850.
Var myrtur.

Ég var frekar hissa að sjá síðustu línuna. „Var myrtur“. Ég hafði aldrei heyrt á það minnst að langalangalangafi minn hefði verið myrtur. Ég talaði við Hafdísi systur og hún kannaðist ekkert við þetta.

Ég reyndi að leita að frekari upplýsingum en fann ekkert. Þannig að svo leið tíminn. Ég kíkti í bækur og fann lítið af upplýsingum. Fyrren 2008 að ég var í heimsókn hjá Dagbjörtu vinkonu minni og kíkti í bók um nítjándu öldina. Þar var grein um morðið: „Maðurinn með ljáinn“. Þetta kom mér á sporið.

Hægt og rólega safnaði ég greinum, grúskaði í kirkju- og dómabókum. Það fór saman að ég varð betri að leita að upplýsingum og að meira af upplýsingum kom á netið. Greinarnar voru oft ýktar og með smellibeitufyrirsögnum (þó þær hafi ekki verið skrifaðar fyrir netið).

Morðið var framið á Ásláksstöðum. Það er bær sem er skammt norðan við Akureyri. Þessi mynd sýnir staðsetninguna. Ég setti líka svartan punkt á Búðasíðu 1 þar sem ég bjó 1989-1991. Sumsé rétt hjá.

Hér á eftir fer uppritun mín úr dómabók (ég reyndi ekki að hafa þetta stafrétt):

Ár 1852 hinn 12 August á Bitru í Kræklingahlíð var pólitíréttur haldinn af sýslumanninum í Eyjafjarðarsýslu með vottum Stefáni Jónssyni bónda á Hraukbæ og Jóni bónda Stefánssyni á Mýrarlóni til að gjöra rannsókn áhrærandi sjálfsmorði Jónasar Sveinssonar frá Lögmannshlíð m.m.

Mætti fyrir réttinn Hermann bóndi Sigfússon á Bitrugerði og var brýnd fyrir honum skylda hans að segja satt frá öllu er hann yrði spurður um. Hann skýrir svo frá, að í fyrrakvöld hafi Ásláksstaðabörnin komið hlaupandi sunnan að og hafi það elsta af þeim, Soffía, er var fermd í vor, kallað til sín og beðið sig í guðs bænum að koma suðureftir, hann Jónas Sveinsson væri að drepa hann pabba sinn, kveðst hann svo eftir hafa hlaupið suðureftir, og séð Stefán Jónsson bónda á Ásláksstöðum liggja þar í slægjunni með blóðrás úr sári á bakinu neðantil, þó kveðst hann ekki hafa séð sárið sjálft, heldur skurð á fötunum og skamt þaðan Jónas Sveinsson frá Lögmannshlíð skorinn á háls, er þó með lífi, en ekki svo að gæti neitt talað. Stefán sagði og honum þá að Jónas hefði veitt honum þetta sár með ljá bundnum í orf er hann hefði haft með sér hafði Jónas komið til hans í slægjuna, og sagt ætla að Bitru til sláttar, höfðu þeir sest niður og talað meinlauslega [við hann] saman um veðrið og tíðina, hefði Jónas svo staðið upp og tekið orfið með ljáinn í og rekið sjáinn í sig og sagði: „Þetta ætlaði ég þér, bölvaður“. Kvaðst Stefán þá hafa náð í orfið og náð því af Jónasi og hafi þá gengið þangað sem hann lá og skorið sig á háls með hnífskuta er líka fannst við hliðina á honum blóðugur.

Pétur bóndi Guðmundsson á Bitru var líka kallaður fyrir og var hans vitnisburður „öldungis samhljóður undangangandi vitni“.

Bæði vitnin skíra frá, að Jónas Sveinsson hafi verið greindur maður og lesinn, en fremur undarlegur og ofsafenginn, þegar eitthvað bar út af eða honum þótti fyrir einkum ef hann hefði orðinn drukkinn. Þau neita að Jónasi, hafi neitt verið ráðinn hjá þeim til sláttar.

Kallað var á lækni og Stefán var borinn inn í hús. „[G]jörði hann þá ráð fyrir að hann mundi ekki verða heill af þessu, og vitnaði þá til guðs, að hann hefði verið saklaus við Jónas.“

Læknirinn hlúði líka að Jónasi, taldi hann dauðvona og lét bera hann heim að Lögmannshlíð þar sem hann lést um kvöldið. Stefán lifði um sólarhring lengur. Í kirkjubók kemur fram að amtsleyfi hafi fengist til að jarða Jónas í kirkjugarðinum.

Réttinum var haldið áfram í Lögmannshlíð þar sem Guðmundur Pétursson á Bitru var vottur. Jónas Jónsson bóndi þar á bæ vitnaði um samskipti sín við nafna sinn Sveinsson fyrr um daginn sem morðið var framið.

Jónas Sveinsson hafði komið heim til sín. Hann batt ljá sinn við orf og sagðist ætla að fara að hjálpa Hermanni í Bitrugerði við slátt. Húsbónda hans þótti skrýtið að hann væri að fara svona seint af stað í slíkan leiðangur. Hann sagði líka að Jónas hefði drukkið brennivín – þó ekki hefði séð á honum. SpurðPétur bóndi Guðmundsson á Bitru var líka kallaður fyrir og var hans vitnisburður „öldungis samhljóður undangangandi vitni“.ur um nafna sinn sagði hann að Jón hefði værið „örlyndur maður, en ekki sýndi hann neinn ofsa á þessu heimili“.

Jónas Sveinsson hafði verið að heiman um morguninn áður en morðið var framið. En við skulum fyrst fara aftur til 20. apríl sama árs. Þann dag var aukaþinghald að Ásláksstöðum.

Fyrirtekin sök er Guðmundur Pétursson á Bitru höfðar gegn konu hans Ásdísi Þorsteinsdóttur á Ásláksstöðum til hjónaskilnaðar.

Húsbóndi Ásdísar, Stefán Jónsson, var „svaramaður“ hennar í þessu máli.

Ásdís hafði árið 1850 fætt andvana barn. Hjónin höfðu ekki búið saman um nokkurn tíma og taldi Guðmundur barnið ekki sitt. Ásdís þvertók fyrir það og sagði mann sinn eiga barnið. Þá var kallað fyrir vitnið Jónas Sveinsson hafði líka unnið og búið að Ásláksstöðum.

Jónas vitnaði um að Ásdís hefði sagt sér að Stefán væri faðir hins andvana barns. Ásdís neitaði að hafa sagt honum nokkuð slíkt.

Í dómnum er það nefnt, næstum í framhjáhlaupi, að Ásdís hafi á þessum tímapunkti „auðsjáanlega verið barnsþunguð“ á ný. Reynt var að fá Guðmund til að samþykkja frestun á málinu en hann taldi að það hefði tafist nóg. Fallist var á það.

Hjónabandi þeirra er slitið og má Guðmundur giftast aftur er ekki Ásdís nema með konungsleyfi.

Þann 24. júlí fæddi Ásdís dóttur. Lögregluþing var haldið þann 10. ágúst.

Barnsfaðernislýsingarmál Ásdísar Þorsteinsdóttur vinnukonu á Kaupangi gegn [Jónasi] Sveinssyni giftum manni á Lögmannshlíð. Hann eftirlætur henni eið.

Ásdís kvað Jónas vera föðurinn. Jónas gekkst ekki beinlínis við því en ef hann hefði svarið neitunareið hefði þetta væntanlega verið hans orð gegn hennar. En hann lét það vera og eiður Ásdísar stóð. Jónas var úrskurðaður faðir barnsins.

Eftir þinghaldið fór Jónas aftur heim að Lögmannshlíð. Náði í ljáinn og reið að Ásláksstöðum til að myrða Stefán.

Það voru ekki mörg blöð á Íslandi á þessum árum og útgáfa þeirra ekki endilega mjög regluleg. En þann 12. september birti Þjóðólfur eftirfarandi grein um málið. Ég set ýmsar spurningar við innihald greinarinnar. Ég hef breytt letri þess sem er beinlínis á skjön við það sem kom fram fyrir rétti og/eða kirkjubókum.

Að norðan hefur oss borizt þessi hryggilegi atburður: Maður hjet Jónas, og annar Stefán og býji á Ásláksstöðum í Kræklingahlíð í Eyjafirði. Nú bar svo við, að stúlka ól barn á heimili Stefáns og kenndi Jónasi; en hana kvað skakka 5 vikum, ljet þó stúlkunni eptir eiðinn, svo hún sór á hannn barnið; en það var álit flestra, að Stefán væri hinn rjetti faðir. Þegar Jónas kom frá rjettinum, þar sem barnið var á hann svarið, var hann heima næstu nótt í Lögmannshlíð, þar sem hann átti heimili, en hann var lausamaður. Næsta morgun fór hann af stað þaðan með orf sitt og ljá eitthvað út á bæjina, þar sem hann var í kaupavinnu. Leið hans lá þar um engjar, er Stefán stóð að slætti, og barn hans nokkur hjá honum. Hann gengur til Stefáns og kveður hann; voru þeir gagnkunnugir frá barnsbeini og uppeldisbræðnr. Þeir setjast á þúfu og taka tal saman um hitt og þetta ; en er Jónas stendur upp, sem hann vildi fara leiðar sinnar og kveðja Stefin, sveiflar hana orfinu, og leggur með ljánum ofanvert við mjöðmina í hol í huppinn, og vildi þegar ljósta hann öðru lagi; en Stefán varð skjótari til bragðs, þreif um orfið og náði því. Jónas skundar þá þaðan fáa faðma, tók upp vasakníf sinn og skar sig á háls á barkann framanverðan. Menn voru þar nærri við heyskap af öðrum bæjinn. og sáu atburðinn, en börn Stefáns sögðu þegar til, og komu þá nokkrir þar að í fljótri svipan, til að stumra yfir hinum vegna og vegandanum. Nú var sent eptir lækni, og sá hann strax að báðir voru særðir til ólífis. Lifði Stefán sólarhring og sagði atburðinn allan, sem hjer er talið; en Jónas lifði 3 dægur mállaus, og ljet svo líf sitt. Það þóktust menn hafa fyrir satt, að Jónasi mundi hafa verið þetta í skapi, er hann fór að heiman um morguninn; því hann skildi eptir heima á vísum stað kistulykla sína, er hann aldrei var vanur að skilju við sig. Í prófi því, er sýslumaður hjelt, og vitnaleiðslu um atburð þennan, er mælt að vitni öll hali borið Jónasi vel söguna um æfi hans og hegðan að undanförnu, en Stefáni miður.

Þessi grein, sem er bókstaflega röng í mörgu sem er skjalfest annars staðar. Mikið er af nýjum upplýsingum, þar á meðal að fullyrða að Stefán væri faðir barnsins. Miðað við hve illa er farið með staðreyndir sem eru þekktar set ég stórt spurningarmerki við annað sem kemur þarna fram. Það læðist vissulega að manni sá grunur að einhver nákominn Jónasi hafi komið upplýsingum til Þjóðólfs þar sem reynt var að sverta mannorð Stefáns. Ef svo er þá virkaði það. Allar þær yngri greinar sem ég hef lesið um málið virðast byggja á þessari – þó sumar vísi líka á betri heimildir meðfram.

Nú veit ekkert hver faðerni barnsins umrædda var í raun. Hún hélt föðurnafni sínu Jónasdóttir alla ævi. En það þarf ekki að þýða neitt. Það sem mér finnst undarlegast er að Jónas skuli ekki bara hafa afneitað faðerninu við þinghaldið. Það er ekki eins og að það hafi verið í tísku að trúa konum á þessum árum.

Þar sem það er fátt hryllilegra en að myrða foreldri fyrir framan börn sín þá finnst mér ekki skipta máli hvort Stefán var góður maður eða ekki. Langa-langafi minn hann Kristján var ekki orðinn heils árs gamall þegar faðir hans var myrtur og fékk því aldrei að kynnast honum. Hver sem var faðir stúlkunnar nýfæddu skiptir ekki miklu máli enda ólst hún upp föðurlaus. Jónas tryggði það.

Úr dómabókum Eyjafjarðarsýslu

Skilnaðarmál 20. apríl 1852.

Faðernismál 10. ágúst 1852.

Morðmál 12. ágúst 1852.

Takmörkuð greindarvísitala

Hvað er mælt með greindarvísitölu. Greind segja margir. Ég held ekki. Greindarvísitala er í raun ágæt í því að mæla þætti í fari fólks sem eru líklegir til þess að hjálpa þeim að komast áfram í okkar samfélagi. En þetta er ekki greind, eða allavega ekki nema mjög þröng skilgreining á greind. Ákaflega þröng skilgreining.

Í stuttu máli þá er fullt af fólki sem myndi án efa mælast með háa greindarvísitölu sem ég myndi hiklaust kalla vitlaust. Síðan er til fólk sem myndi ekki skora mjög hátt á slíkum prófum en er án efa gáfað.

Það er líklega nauðsynlegt að taka fram að ég er ekki að tala um hluti eins og tilfinningagreind. Ég er að meina það sem við myndum almennt tala um þegar við segjum að fólk sé klárt eða gáfað.

Það segir líka sitt að greindarpróf eru svo gölluð að það er hægt að æfa sig til að fá hærri niðurstöðu. Niðurstöðurnar eru alltaf háðar einhverju sem hefur ekkert með greind að gera.

Greindarpróf hafa alltaf mótast af reynsluheimi þeirra sem semja þau. Sumsé hvað höfundunum finnst mikilvægt, hvernig þeir tala og hvernig þeir upplifa heiminn. Síðustu áratugi hafa þó orðið töluverðar framfarir í þeim efnum. Þó er rétt að nefna að þó fræðin hafi batnað þá þýðir það ekki að öll próf séu orðin betri.

Þetta leiðir okkur að spurningu sem er, að mínu mati, ekki gagnleg. Markast greind frekar af erfðum eða umhverfi? Undirliggjandi spurning er síðan hvort „kynþáttur“ fólks ákvarði greind þess.

Lengst af voru greindarprófin gerð nær eingöngu af hvítum köllum í efri stéttum samfélagsins og áhrif þeirra eru ennþá mikil. Þessir hvítu kallar komust mjög óvænt að því að hvítir karlar í efri stéttum samfélagsins væru klárastir af öllum. Hvítir kallar hafa í gegnum tíðina verið sérstaklega duglegir að finna leiðir til að staðfesta að þeir séu frábærir. Það er eitt af mörgu sem þeir eru bestir í.

Þegar á leið þá kom auðvitað í ljós að meintir yfirburðir hvítra kalla voru hverfandi. Eftir því sem kvenréttindi hafa orðið almennari þá hefur kynjamunurinn nær horfið.

En hvað með þessu meintu „kynþætti“? Sá munur hefur líka minnkað gríðarlega. Að hluta til er það vegna þess að prófin eru ekki lengur hvítukallamiðuð heldur sjáum við nokkuð sem hefur verið kallað Flynn-áhrifin. Flynn er reyndar hvítur kall en hann hefur bent á að fólki gengur sífellt betur í greindarprófum. Er fólk sífellt að verða greindara?

Þegar við höfum Flynn-áhrifin í huga þá verður augjóst að umhverfisáhrif hljóta að vera veigamikill þáttur í því sem er mælt með greindarvísitölu.

Þegar ég heyri fólk tala um að erfðir séu langmikilvægastar þegar kemur að greind þá hugsa ég um Mowgli og önnur börn sem eru alin upp án aðstoðar mannfólks. Ef við myndum leggja greindarpróf fyrir Mowgli um leið og hann kemur úr frumskóginum þá myndi hann ekki skora hátt. Umhverfið hefur því töluverð áhrif.

En það er ekki bara í einhverjum hugarflugsdæmum um frumskógarbörn sem við sjáum áhrif umhverfis. Þau áhrif eru nefnilega alltumlykjandi. Menntun skiptir gríðarlegu máli. Menntun foreldra skiptir máli. Næring skiptir máli. Mengun skiptir máli. Efnahagur skiptir máli.

Vandinn er að það er voðalega erfitt að mæla umhverfisáhrif á greind. Þú getur ekki einangrað þessar breytur. Það hafa verið gerðar rannsóknir á tvíburunum sem hafa verið ættleiddir í sitt hvora fjölskylduna en þær segja okkur lítið. Þetta eru nefnilega svo fá dæmi og það var almennt lítill munur á fjölskyldunum sem ættleiddu tvíburana. Umhverfið var sumsé næri eins.

Þegar fólk heldur því fram að greind fólks sé aðallega mörkuð af erfðum þá er það ekki bara skaðlegt af því að þetta eru léleg vísindi heldur líka vegna þess að fólk hrapar að ályktunum um greind annarra vegna uppruna þeirra.

Þetta leiðir mig að alræmdri bók þessa daganna. The Bell Curve: Intelligence and Class Structure in American Life kom út árið 1994. Á sínum tíma var hún jörðuð enda byggði hún ekki á traustum vísindum eða góðri stærðfræði. Þar sem gagnrýnin á bókina var að mestu leyti byggð á kynþáttahyggjunni sem í henni birtist þá yfirsést mörgum að hún er fyrst fremst ætluð til að réttlæta stéttaskiptingu samfélagsins. Þeir sem eru á neðstu stigum samfélagsins séu það vegna þess að þeir eru heimskari en hinir ríku og menntuðu. Staða þeirra markast af erfðafræðilegum takmörkunum sem þýðir að allar hugmyndir um að bæta stöðu þeirra með menntun sé einfaldlega sóun á peningum.

Eftirlifandi höfundur bókarinnar Charles Murray tilheyrir ekki fræðasamfélaginu. Hann vinnur fyrir íhaldssaman hugsanatank*. Skrif hans eru fyrst og fremst pólitísk og eru fjármögnuð af ríku fólk sem vill borga lægri skatta. Þó meðhöfundur hans (sem drapst um svipað leyti og bókin kom) hafi verið háskólamaður segir það sitt að rannsóknir þeirra voru ekki birtar í ritrýndum fræðiritum. Slík fræðirit hefðu vonandi bent á allavega sumar villurnar áður en að birtingu kom.

Á Íslandi höfum við ekki jafn mikla sögu af kerfisbundinni kynþáttahyggju og Bandaríkin, Frakkland eða Bretland en við höfum ríka sögu af stéttamismunun þó hún hafi lengi verið í þagnargildi. Skólar mismunuðu nemendum á grundvelli uppruna þeirra (og gera líklega enn þó það sé hverfandi). Nemendur af fátækum heimilum voru álitnir heimskir og að það væri ekkert gagn í að mennta þá. Börn hinna ríku fengu forgang í réttu skólana. Þetta var skelfilegt kerfi sem eitraði samfélagið. Við viljum vonandi ekki snúa til baka í þessum málum og um leið hljótum við að sjá hættuna þegar ruslvísindi sannfæra fólk um að stimpla fólk með annan hörundslit heimskt.

Ég held að greindarpróf segi okkur ekki mikið og geri ekki mikið gagn. Þau eru gölluð og hafa haft skaðleg áhrif á ótalmarga. Það er vissulega gaman að fá góða niðurstöðu úr slíku prófi en það hefur ekkert mikið meiri þýðingu en önnur próf sem maður hefur tekið í gegnum tíðina. Það er fátt vandræðalegra en þegar fólk montar sig af greindarvísitölu sinni – sérstaklega þegar þetta „fólk“ er maður sjálfur fyrir tuttugu árum.

* Ég veit að margir kalla þetta hugveitur en að mínu mati er þetta tankur.

Þöggun hinna valdamiklu

Haukur Örn Birgisson skrifaði andlausa bakþanka í Fréttablaðið í gær. Ekki frétt. En ég ætla að gagnrýna skrifin af því að það er ekkert auðveldara. Ég veit ekki hvort ég er að rýna til gagns en allavega er þetta gaman.

Við skulum byrja á fullyrðingu Hauks.

Kannanir í bandarískum háskólum sýna að tveir þriðju nemenda tjá ekki skoðun sína í kennslustund af ótta við að móðga samnemendur sína.

Mér fannst þessi tala frekar vafasöm. Verst er auðvitað að Haukur vísar ekki á neitt – bara óljós á „kannanir“. Ég leitaði og fann eina könnun sem hann gæti verið að tala um.

More than two-thirds (68 percent) of college students say their campus climate precludes students from expressing their true opinions because their classmates might find them offensive.

Ef Haukur er að vísa í þessa könnun þá er hann auðvitað að mistúlka hana. Það sem þessir stúdentar segja er ekki að þeir séu hræddir við að tjá skoðanir sínar heldur að sumir séu það. Þetta virðist því aðallega segja manni að stúdentar trúi áróðurslínu hægri sinnaðaðra fjölmiðla í Bandaríkjunum. Ég tók reyndar eftir að svarhlutfall í könnunni var um 44%. Það er ekki neinn grunnur til að fullyrða um heildina.

Hvað liggur að baki þeirri trú að málfrelsi sé í hættu í bandarískum háskólum? Almennt er það bara að einstök mál eru blásin upp. Ein birtingarmynd þess er þegar „ögrandi“ fyrirlesarar mæta mótmælum þegar þeim eru boðið að tala á háskólasvæðum. En hvaðan koma þessir „ögrandi“ fyrirlesarar og hver er að bjóða þeim?

Ef við skoðum samtök á borð við Turning Point USA sem borga þessum fyrirlesurum sjáum við að þau eru verkefni bandarískra milljarðamæringa sem eru að reyna að troða áróðri inn í háskóla. Þá er stundum mótmælt og þau mótmæli eru kölluð árás á málfrelsi. Í raun er verið mótmæla áróðri.

En er ekkert raunverulegt vandamál? Eru vinstri sinnaðir stúdentar ekki alltaf að „aflýsa“ grey hægri sinnuðum prófessorum sem þora að nýta málfrelsi sitt? Nei. Þvert á móti. Það eru vinstri sinnaðir prófessorar sem lenda í því að vera reknir fyrir skoðanir sínar. Það er vandamál. Samtök eins og Turning Point USA mála sig sem málsvara málfrelsis en vilja síðan sjálf reka þá sem eru þeim ósammála.

Kannski að það væri hægt að rökræða við Hauk ef hann nefndi einhver raunverulega dæmi. En hann talar í hálfkveðnum vísum.

Markmiðið er jafnvel að þagga niður í þeim sem hafa „ranga“ skoðun. Útiloka þá frá umræðunni. Margt bendir til þess að íslensk umræðuhefð sé á slíkri vegferð.

Það er mikilvægt að geta tjáð skoðun sína um menn og málefni án þess að ummælin séu kölluð hatursfull af þeim sem eru manni ósammála.

Málið er að sumar skoðanir eru hatursfullar. Sumar skoðanir eru líka rangar – í þeim skilningi að þær eru ekki sannar. Síðan eru til rangar skoðanir sem eru ígildi þess að öskra „eldur“ í troðnum bíósal. Ef þeim er svarað með því að benda á að 1) það sé enginn eldur og 2) það sé hættulegt að segja að hræða fólk í þessum aðstæðum þá er ekki verið að ráðast á málfrelsi neins.

Þegar við skoðum hryðjuverkamenn sem ráðast á moskur eða svart fólk sjáum við að þeir eru undir áhrifum fólks sem öskrar „eldur! eldur!“. Þegar fólk vogar sér að svara haturspostulunum þá er það ásakað um árás á málfrelsið sjálft. Það má ekki heldur gagnrýna stórfyrirtæki fyrir að græða á hatri eða auglýsa það.

Hinir ríku og valdamiklu hafa sína málsvara. Þeir geta fjármagnað fjölmiðla til að koma „réttum“ skoðunum á framfæri. Síðan eru frasar eins og aflýsingarmenning notaðir til að brjóta á málfrelsi hinna valdalitlu – í nafni málfrelsis. Öllu er blandað saman í eina hrúgu til að rugla umræðuna. Ýkt dæmi um bjánalega gagnrýni eru notuð til að hunsa alla.

Þessu tengt:

Fórnarlambamenning Sigmundar Davíðs

Samsæri nýju menningarbyltingarinnar

Gervikjötætan ég

Ég er kjötæta. Mér finnst kjöt gott en margt grænmeti vont á bragðið (mér finnst laukur reyndar oft góður en hann var alveg skelfilega illa í mig ef hann er ekki afskaplega vel steiktur). Ég er ekki á leiðinni að hætta að borða kjöt … alveg.

En ég hef lengi verið áhugasamur um gervikjöt af ýmsu tagi. Lengi vel var það rannsóknarstofukjötið sem heillaði mig en síðan tók ég eftir því að allskonar kjötlíki urðu meira áberandi í umræðunni.

Ég man reyndar sérstaklega eftir umræðu um kjötlíki tengdri frétt frá Guardian. Þar voru gagnrýnendur úr tveimur hópum mjög reiðir. Annars vegar grænmetisætur sem töldu að það væri rangt að líkja eftir kjötbragði og hins vegar kjötætur sem töldu það aðför að sjálfsmynd sinni að bjóða upp á svona gervidót. Ég þoli illa þegar fólk reynir að staðsetja sig á hinum gullna meðalvegi en þetta var svo galið í tvær áttir að ég gat varla annað en tekið afstöðu gegn þessum öfgavitleysum.

Málið er auðvitað að flest kjöt sem maður borðar er ekki gott nema rétt kryddað og/eða með sósum. Það segir sig sjálft að kjötið sjálft er ekki endilega nauðsynlegt.

Í upphafi árs tókum við ákvörðun á heimilinu að prufa jurtakjötið kerfisbundið. Við vorum nokkuð samstíga um þetta. Þetta er blanda af öllum þessum ástæðum sem þið þekkið. Loftslagsmál og heilsa auðvitað. En líka það að þó ég sé kjötæta þá tel ég að okkur beri skylda bæði til að koma í veg fyrir illa meðferð á dýrum og að leita annarra leiða til að sækja næringu.

Þannig að við höfum prufað hitt og þetta. Það sem hefur helst hitt í mark hjá mér Oumph! hamborgarinn. Hann er alveg frábær á bragðið. Ég tek fram að ég er ennþá að nota alvöru ost ennþá. Þegar ég er að elda kjöt þá er ég allur á nálum og „gæti fyllsta hreinlætis“ af því að ég er að hugsa um sýkla. En maður getur andað rólega með gervikjötið. Það er þá bara eins og meðhöndla brauð.

Ég hef líka fundið veganhakk sem ég er ánægður með. Það er frá Anamma og fæst í Bónus. Ég hef prufað það í lasagna, með spaghetti og á pizzur. Auðvitað getur maður ekki komið fram við þetta nákvæmlega eins og kjöt en munurinn er hverfandi. Það er líka alveg hræódýrt.

Eftir að hafa borðað gervihakkið nokkrum sinnum í röð og síðan skipt aftur yfir í kjöt þá finn ég fyrir því að það fer verr í líkamanum. Hálfgerð ónot í maganum hafa oft fylgt kjötáti en verður miklu meira áberandi þegar maður finnur ekki fyrir neinu slíku eftir kjötlíkið. Það sama gildir um hamborgarana. Manni líður bara betur að sleppa kjötinu.

Þannig að ég geri ráð fyrir að gervikjöt af ýmsum gerðum verði sífellt meira áberandi á okkar matarborðum næstu árin. Við verðum ekki grænmetisætur eða vegan á einni nóttu en við hver veit hvað gerist með áframhaldandi þróun.

Furðusögur kvenna

Fyrir nokkrum árum skoðaði ég kynjahlutfallið í bókahillunni minni (sem er eiginlega ekki alvöru bókahilla heldur Goodreads/Calibre). Það var skelfilegt. Ég las miklu fleiri bækur eftir karla en konur.

Það væri hægt að skýra þetta á mismunandi vegu. Í fyrsta lagi gæti verið að karlar skrifuðu einfaldlega betri bækur á þeim sviðum sem ég les helst (furðusögur af ýmsu tagi). Í öðru lagi gæti verið að skrif kvenna höfði ekki til mín. Í þriðja lagi gæti verið að það séu einfaldlega miklu færri konur sem skrifa slíkar bækur. Í fjórða lagi gæti verið að eitthvað sé athugavert við það hvernig ég finn mér bækur til að lesa.

Mér fannst fyrsta skýringin … ólíkleg. Önnur skýringin er mögulega bara umorðun á þeirri fyrstu. Þriðja skýringin er að vissu leyti líkleg en jafnvel þó færri konur skrifi furðusögur þá gæti þýtt að þær konur sem skrifa bækur í þessum geira hafi þurft að leggja meira á sig til að koma sér á framfæri og þær séu þá jafnvel betri en meðalkarlinn. Fjórða skýringin hafði þann kost að hún varpaði ábyrgðinni á mig. Ég þurfti að leggja mig fram til að lesa fleiri furðusögur eftir konur.

Ég held að það sé ekki endilega þannig að ég hafi forðast bækur eftir konur heldur að markaðsetning bóka – líkt og markaðsetning á til dæmis leikföngum – sé mjög kynskipt.

Þegar ég fór að lesa furðusögur þá leiddu hillurnar í bókabúðunum mig mjög einfaldlega frá Douglas Adams til Terry Pratchet yfir í Neil Gaiman. Ég man ekki eftir konum þarna inn á milli. Ég man allavega ekki eftir að hafa séð til dæmis Ursula K. Le Guin þarna þó hún hefði augljóslega passað við hliðina á Gaiman. Þetta lagaðist ekkert þegar bókabúðirnar sem ég verslaði í færðust á vefinn.

Þannig að ég fór að leita eftir fleiri bókum eftir konur. Reyndar hrasaði ég fljótlega þegar ég ályktaði að Kim Stanley Robinson væri kona (þrátt fyrir að Community hafi verið með góðan brandara um karlinn Kim).

Hérna kemur ófullkominn listi yfir konur í furðusagnageiranum sem ég hef verið að lesa undanfarið (C. L. Polk er ekki á listanum enda er ég nýbyrjaður að lesa bók eftir hana).

  • Naomi Novik
  • Silvia Moreno-Garcia
  • N.K. Jemisin
  • Ann Leckie 
  • Maggie Stiefvater
  • Sarah Monette/Katherine Addison

Eftir þennan lestur get ég allavega afskrifað þá skýringu að karla skrifi almennt betri bækur en konur. Sömuleiðis kveð ég þá hugmynd að bækur eftir konur höfði ekki til mín. Það hefur líklega eitthvað verið athugavert við það hvernig ég hef valið mér lesefni í gegnum tíðina, hvort sem sökin var mín eða bara afleiðing markaðsetningar.

Allar konurnar sem ég listaði þarna hafa skrifað mjög góðar bækur sem allir furðusagnalesendur myndu njóta þessa að lesa. En ég ég breiðleitraði nöfn tveggja kvenna af því að ég mun í framtíðinni reyna að lesa allt sem þær skrifa.

Fyrst skal nefna Ann Leckie. Imperial Radch bækurnar hennar eru stórkostlegar vísindaskáldsögur og nýjasta bókin hennar The Raven Tower er frábærlega óvenjuleg fantasía.

Síðan er það Sarah Monette sem stundum notar höfundanafnið Katherine Addison. Hún er sá höfundur sem ég er glaðastur að hafa fundið. Ég spændi í mig Doctrine of Labyrinths bækurnar. Kyle Murchison sögurnar eru dásamlega Lovecraftlegar en – ólíkt Lovecraft – lausar við þennan óþægilega rasistaundirtón. Smásagnasöfnin hennar eru frábær. En The Goblin Emperor er algjörlega uppáhalds.

Ef þú lest bækur eftir konurnar sem ég hef nefnt og ert ekki hrifinn af neinu þá ertu kannski ekki aðdáandi furðusagna – þú ert aðdáandi karla.

Fórnarlambamenning Sigmundar Davíðs

Sigmundur Davíð birti nú um helgina langa og heimskulega grein um menningarbyltingu. Það væri hægt að taka hana fyrir lið fyrir lið og benda á rangfærslur og útúrsnúninga (og arfaslakar hugtakaþýðingar). Kannski að einhver nenni því. Það sem mér finnst mikilvægara er að velta fyrir mér hvers vegna Sigmundur er að skrifa þessa grein.

Þó Sigmundur eyði töluverðu púðri í að fordæma svokallaða fórnarlambamenningu þeirra sem berjast fyrir réttindum minnihlutahópa þá snýst grein hans að miklu leyti í að mála valdamikla aðila sem sem fórnarlömb.

Kröfulisti starfsmanna Stanford háskólans til stjórnenda sem átti að kosta 25 milljónir dollara „slær þó líklega flest met“ að mati Sigmundar. Verst er auðvitað að „Stanford-háskóli er sem stendur í miklum fjárhagsþrengingum“ að sögn Sigmundar. Samkvæmt tölum háskólans sjálfs þá átti hann um 28 milljarða dollara í fyrra. Það gerir Stanford fjórða ríkasta háskóla Bandaríkjanna.

Sú hugmynd að eyða einum tíunda úr einu prósenti auðæfa skólans til þess að bæta fyrir og koma í veg fyrir kerfisbundna mismunun er að mati Sigmundar hið raunverulega hneyksli.

Hvers vegna er Sigmundi svona í mun að mála hina ríku og valdamiklu sem fórnarlömb? Er það kannski fyrst og fremst stéttarvitund hans sjálfs? Er það vegna þess að jafnrétti er ógn við forréttindi hans sjálfs? Auðvitað, en ekki bara það.

Greinin er hluti af almennu menningarstríði hægri manna. Það snýst um að blása upp ákveðin mál, snúa út úr þeim og reyna að koma í veg fyrir samstöðu almennings.

Sigmundur er alveg miður sín yfir því að svört líf skipti máli. Öll líf skipta máli. Ég geri fastlega ráð fyrir að þegar minning sjómanna er heiðruð þá mæti Sigmundur með mótmælaskilti til að benda á að það séu ekki bara sjómenn sem drukkna.

Kynþáttahyggja hefur í gegnum tíðina verið eitt helsta tól valdastéttarinnar til að koma í veg fyrir samstöðu almennings og það sést einna best í Bandaríkjunum. Þetta er gert með því að hræða hina hvítu með því að svartir eða „Mexíkanar“ (af hinum ýmsustu þjóðernum) séu að koma til að stela frá þeim vinnunni eða nota velferðarþjónustu ætlaða þeim. Í stað þess að mynda samfylkingu hinna lægra settu þá fara þessir hópar er að berjast – á meðan „arðræninginn situr og hlær“.

Við þurfum að skilja að réttindabarátta minnihlutahópa er barátta okkar allra. Samstaðan er eina leiðin til að tryggja okkur öllum betra líf þannig að við þurfum að gefa skít í fórnarlambamenningu hinna ríku og valdamiklu.