Gervikjötætan ég

Ég er kjötæta. Mér finnst kjöt gott en margt grænmeti vont á bragðið (mér finnst laukur reyndar oft góður en hann var alveg skelfilega illa í mig ef hann er ekki afskaplega vel steiktur). Ég er ekki á leiðinni að hætta að borða kjöt … alveg.

En ég hef lengi verið áhugasamur um gervikjöt af ýmsu tagi. Lengi vel var það rannsóknarstofukjötið sem heillaði mig en síðan tók ég eftir því að allskonar kjötlíki urðu meira áberandi í umræðunni.

Ég man reyndar sérstaklega eftir umræðu um kjötlíki tengdri frétt frá Guardian. Þar voru gagnrýnendur úr tveimur hópum mjög reiðir. Annars vegar grænmetisætur sem töldu að það væri rangt að líkja eftir kjötbragði og hins vegar kjötætur sem töldu það aðför að sjálfsmynd sinni að bjóða upp á svona gervidót. Ég þoli illa þegar fólk reynir að staðsetja sig á hinum gullna meðalvegi en þetta var svo galið í tvær áttir að ég gat varla annað en tekið afstöðu gegn þessum öfgavitleysum.

Málið er auðvitað að flest kjöt sem maður borðar er ekki gott nema rétt kryddað og/eða með sósum. Það segir sig sjálft að kjötið sjálft er ekki endilega nauðsynlegt.

Í upphafi árs tókum við ákvörðun á heimilinu að prufa jurtakjötið kerfisbundið. Við vorum nokkuð samstíga um þetta. Þetta er blanda af öllum þessum ástæðum sem þið þekkið. Loftslagsmál og heilsa auðvitað. En líka það að þó ég sé kjötæta þá tel ég að okkur beri skylda bæði til að koma í veg fyrir illa meðferð á dýrum og að leita annarra leiða til að sækja næringu.

Þannig að við höfum prufað hitt og þetta. Það sem hefur helst hitt í mark hjá mér Oumph! hamborgarinn. Hann er alveg frábær á bragðið. Ég tek fram að ég er ennþá að nota alvöru ost ennþá. Þegar ég er að elda kjöt þá er ég allur á nálum og „gæti fyllsta hreinlætis“ af því að ég er að hugsa um sýkla. En maður getur andað rólega með gervikjötið. Það er þá bara eins og meðhöndla brauð.

Ég hef líka fundið veganhakk sem ég er ánægður með. Það er frá Anamma og fæst í Bónus. Ég hef prufað það í lasagna, með spaghetti og á pizzur. Auðvitað getur maður ekki komið fram við þetta nákvæmlega eins og kjöt en munurinn er hverfandi. Það er líka alveg hræódýrt.

Eftir að hafa borðað gervihakkið nokkrum sinnum í röð og síðan skipt aftur yfir í kjöt þá finn ég fyrir því að það fer verr í líkamanum. Hálfgerð ónot í maganum hafa oft fylgt kjötáti en verður miklu meira áberandi þegar maður finnur ekki fyrir neinu slíku eftir kjötlíkið. Það sama gildir um hamborgarana. Manni líður bara betur að sleppa kjötinu.

Þannig að ég geri ráð fyrir að gervikjöt af ýmsum gerðum verði sífellt meira áberandi á okkar matarborðum næstu árin. Við verðum ekki grænmetisætur eða vegan á einni nóttu en við hver veit hvað gerist með áframhaldandi þróun.

Furðusögur kvenna

Fyrir nokkrum árum skoðaði ég kynjahlutfallið í bókahillunni minni (sem er eiginlega ekki alvöru bókahilla heldur Goodreads/Calibre). Það var skelfilegt. Ég las miklu fleiri bækur eftir karla en konur.

Það væri hægt að skýra þetta á mismunandi vegu. Í fyrsta lagi gæti verið að karlar skrifuðu einfaldlega betri bækur á þeim sviðum sem ég les helst (furðusögur af ýmsu tagi). Í öðru lagi gæti verið að skrif kvenna höfði ekki til mín. Í þriðja lagi gæti verið að það séu einfaldlega miklu færri konur sem skrifa slíkar bækur. Í fjórða lagi gæti verið að eitthvað sé athugavert við það hvernig ég finn mér bækur til að lesa.

Mér fannst fyrsta skýringin … ólíkleg. Önnur skýringin er mögulega bara umorðun á þeirri fyrstu. Þriðja skýringin er að vissu leyti líkleg en jafnvel þó færri konur skrifi furðusögur þá gæti þýtt að þær konur sem skrifa bækur í þessum geira hafi þurft að leggja meira á sig til að koma sér á framfæri og þær séu þá jafnvel betri en meðalkarlinn. Fjórða skýringin hafði þann kost að hún varpaði ábyrgðinni á mig. Ég þurfti að leggja mig fram til að lesa fleiri furðusögur eftir konur.

Ég held að það sé ekki endilega þannig að ég hafi forðast bækur eftir konur heldur að markaðsetning bóka – líkt og markaðsetning á til dæmis leikföngum – sé mjög kynskipt.

Þegar ég fór að lesa furðusögur þá leiddu hillurnar í bókabúðunum mig mjög einfaldlega frá Douglas Adams til Terry Pratchet yfir í Neil Gaiman. Ég man ekki eftir konum þarna inn á milli. Ég man allavega ekki eftir að hafa séð til dæmis Ursula K. Le Guin þarna þó hún hefði augljóslega passað við hliðina á Gaiman. Þetta lagaðist ekkert þegar bókabúðirnar sem ég verslaði í færðust á vefinn.

Þannig að ég fór að leita eftir fleiri bókum eftir konur. Reyndar hrasaði ég fljótlega þegar ég ályktaði að Kim Stanley Robinson væri kona (þrátt fyrir að Community hafi verið með góðan brandara um karlinn Kim).

Hérna kemur ófullkominn listi yfir konur í furðusagnageiranum sem ég hef verið að lesa undanfarið (C. L. Polk er ekki á listanum enda er ég nýbyrjaður að lesa bók eftir hana).

  • Naomi Novik
  • Silvia Moreno-Garcia
  • N.K. Jemisin
  • Ann Leckie 
  • Maggie Stiefvater
  • Sarah Monette/Katherine Addison

Eftir þennan lestur get ég allavega afskrifað þá skýringu að karla skrifi almennt betri bækur en konur. Sömuleiðis kveð ég þá hugmynd að bækur eftir konur höfði ekki til mín. Það hefur líklega eitthvað verið athugavert við það hvernig ég hef valið mér lesefni í gegnum tíðina, hvort sem sökin var mín eða bara afleiðing markaðsetningar.

Allar konurnar sem ég listaði þarna hafa skrifað mjög góðar bækur sem allir furðusagnalesendur myndu njóta þessa að lesa. En ég ég breiðleitraði nöfn tveggja kvenna af því að ég mun í framtíðinni reyna að lesa allt sem þær skrifa.

Fyrst skal nefna Ann Leckie. Imperial Radch bækurnar hennar eru stórkostlegar vísindaskáldsögur og nýjasta bókin hennar The Raven Tower er frábærlega óvenjuleg fantasía.

Síðan er það Sarah Monette sem stundum notar höfundanafnið Katherine Addison. Hún er sá höfundur sem ég er glaðastur að hafa fundið. Ég spændi í mig Doctrine of Labyrinths bækurnar. Kyle Murchison sögurnar eru dásamlega Lovecraftlegar en – ólíkt Lovecraft – lausar við þennan óþægilega rasistaundirtón. Smásagnasöfnin hennar eru frábær. En The Goblin Emperor er algjörlega uppáhalds.

Ef þú lest bækur eftir konurnar sem ég hef nefnt og ert ekki hrifinn af neinu þá ertu kannski ekki aðdáandi furðusagna – þú ert aðdáandi karla.

Fórnarlambamenning Sigmundar Davíðs

Sigmundur Davíð birti nú um helgina langa og heimskulega grein um menningarbyltingu. Það væri hægt að taka hana fyrir lið fyrir lið og benda á rangfærslur og útúrsnúninga (og arfaslakar hugtakaþýðingar). Kannski að einhver nenni því. Það sem mér finnst mikilvægara er að velta fyrir mér hvers vegna Sigmundur er að skrifa þessa grein.

Þó Sigmundur eyði töluverðu púðri í að fordæma svokallaða fórnarlambamenningu þeirra sem berjast fyrir réttindum minnihlutahópa þá snýst grein hans að miklu leyti í að mála valdamikla aðila sem sem fórnarlömb.

Kröfulisti starfsmanna Stanford háskólans til stjórnenda sem átti að kosta 25 milljónir dollara „slær þó líklega flest met“ að mati Sigmundar. Verst er auðvitað að „Stanford-háskóli er sem stendur í miklum fjárhagsþrengingum“ að sögn Sigmundar. Samkvæmt tölum háskólans sjálfs þá átti hann um 28 milljarða dollara í fyrra. Það gerir Stanford fjórða ríkasta háskóla Bandaríkjanna.

Sú hugmynd að eyða einum tíunda úr einu prósenti auðæfa skólans til þess að bæta fyrir og koma í veg fyrir kerfisbundna mismunun er að mati Sigmundar hið raunverulega hneyksli.

Hvers vegna er Sigmundi svona í mun að mála hina ríku og valdamiklu sem fórnarlömb? Er það kannski fyrst og fremst stéttarvitund hans sjálfs? Er það vegna þess að jafnrétti er ógn við forréttindi hans sjálfs? Auðvitað, en ekki bara það.

Greinin er hluti af almennu menningarstríði hægri manna. Það snýst um að blása upp ákveðin mál, snúa út úr þeim og reyna að koma í veg fyrir samstöðu almennings.

Sigmundur er alveg miður sín yfir því að svört líf skipti máli. Öll líf skipta máli. Ég geri fastlega ráð fyrir að þegar minning sjómanna er heiðruð þá mæti Sigmundur með mótmælaskilti til að benda á að það séu ekki bara sjómenn sem drukkna.

Kynþáttahyggja hefur í gegnum tíðina verið eitt helsta tól valdastéttarinnar til að koma í veg fyrir samstöðu almennings og það sést einna best í Bandaríkjunum. Þetta er gert með því að hræða hina hvítu með því að svartir eða „Mexíkanar“ (af hinum ýmsustu þjóðernum) séu að koma til að stela frá þeim vinnunni eða nota velferðarþjónustu ætlaða þeim. Í stað þess að mynda samfylkingu hinna lægra settu þá fara þessir hópar er að berjast – á meðan „arðræninginn situr og hlær“.

Við þurfum að skilja að réttindabarátta minnihlutahópa er barátta okkar allra. Samstaðan er eina leiðin til að tryggja okkur öllum betra líf þannig að við þurfum að gefa skít í fórnarlambamenningu hinna ríku og valdamiklu.

Samsæri nýju menningarbyltingarinnar

Höfundaréttshafi 	Gage Skidmore from Peoria, AZ, United States of America
Höfundaréttshafi Gage Skidmore from Peoria, AZ, United States of America

Ég held að Mike Cernovich sé nafn sem allir ættu að þekkja. Því miður.

Bakgrunnur hans er kjánalegur. Fyrrverandi kona hans er lögfræðingur sem auðgaðist mjög í Kísildal. Þegar þau skildu fékk hann einhverjar milljónir í Bandaríkjadölum. Hann taldi að femínismi hefði eyðilagt hjónabandið þannig að hann eyddi kröftum sínum (og peningum sinnar fyrrverandi) í andfeminískan áróður. Þar má t.d. nefna Gamergate.

En hann er frægari fyrir að dreifa Pizzagate áróðri. Það er heimskuleg samsæriskenning um barnaníðshring Demókrataflokksins sem náði hápunkti sínum þegar vopnaður maður réðst inn á pizzastað í Washington DC.

Það sem ég vildi beina sjónum lesenda að eru árásir Cernovich á fræga menn, aðallega þó sem hafa gagnrýnt öfgahægrið sem er að rísa í Bandaríkjunum.

Það sem hann gerir (að eigin sögn) er að borga einhverjum fyrir að leita að einhverju vafasömu í fortíð þessara manna. Það eru til dæmis gömul tíst. Frægasta dæmið er James Gunn, leikstjóri Guardians of the Galaxy myndanna. Cernovich gróf upp eitthvað vafasamt tíst úr fortíð Gunn og notaði það í herferð til þess að láta Disney reka leikstjórann. Hann var rekinn og ráðinn aftur.

Cernovich gerði það sama við þáttastjórnandann Sam Seder. Hann fann gamalt tíst þar sem Seder var að ráðast með hæðni á stuðningsfólk Roman Polanski. Seder var líka rekinn og ráðinn aftur.

Dan Harmon (höfundur Community og Rick and Morty) lenti líka í Cernovich. Hann fann gamalt grínmyndband sem Harmon hafði gert áður en hann varð frægur. Það var snúið út úr því og reynt að láta reka hann frá Rick and Morty. Það tókst ekki að reka hann en Harmon þurfti að þola allskonar ömurlegheit á meðan þessu stóð.

Fyrir almenning hefði verið auðvelt að skilja öll þessi mál sem eitthvað „political correctness gone mad“. En í raun var það bara öfgahægrimaðurinn Cernovich með hjálp stuðningsmanna sinna (og botta) að búa til deilumál.

Mér verður því hugsað til Cernovich þegar maður heyrir til dæmis fréttir af því að þáttur af Golden Girls hafi verið tekinn af streymisveitum vegna meintrar andlitssvertu. Ég myndi allavega vilja vita hver það var sem kvartaði yfir þessu. Mér finnst mun líklegra að Cernovich eða einhver álíka sé að reyna að búa til deilur frekar en að einhver hafi í raun verið hneykslaður á Klassapíunum.

Fölnuð málning og friðardúfur?

Tákn friðar og ofbeldis á Norður Írlandi

[Skrifað eftir heimsókn til Derry sumarið 2008 og birtist fyrst í tímaritinu Ský]

Derry/Londonderry er næststærsta borg á Norður Írlandi. Þessi tvískipting á nafninu er ákaflega táknræn. Derry er komið af upprunalega írska nafninu en Londonderry vísar til tengsla við höfuðborg Englands. Bæði nöfnin eru í raun opinber, annað frá sjónarhóli breskrar stjórnsýslu en hitt á sveitastjórnarstiginu á Norður Írlandi. Derry er notað af lýðveldissinnum sem eru almennt kaþólikkar en Londonderry af sambandssinnum sem eru almennt mótmælendur. Derry er þó algengara heitið.

Bogside
Bogside

Síðustu ár hefur verið friðsælt í Derry en svo hefur ekki alltaf verið.
Borgin stendur rétt við landmærin að írska lýðveldinu og meirihluti borgarbúa eru kaþólikkar. Á sjöunda áratugnum blossuðu upp óeirðir í borginni. Það voru margar ástæður fyrir óánægjunni. Húsnæðismál voru ofarlega þar á baugi þar sem erfitt var fyrir kaþólikka að komast í húsnæði á vegum borgarinnar. Kosningaréttur var ekki heldur jafn í borginni. Kjördæmi voru afmörkuð þannig að vægi atkvæða kaþólikka var minna en mótmælenda og þar að auki var atkvæðisréttur tengdur því að menn ættu fasteignir.

Ég við vegginn fræga
Ég við vegginn fræga

Á tímabili tóku lýðveldissinnar sig til og notuðu vegatálma til að afmarka hverfi kaþólikka í Derry. Í kjölfarið var máluð setning á vegg sem er enn viðhaldið. „You are now entering Free Derry“ – „Þú ert að koma inn í Frjálsu Derry“. Hápunktur átakanna í Derry, og líklega á Norður Írlandi í heild, var að sennilega hinn svokallaði Blóðugi sunnudagur þar sem breskir hermenn skutu 14 óvopnaða borgara til bana og særðu 13 í viðbót.

Bloody Sunday
Bloody Sunday

Í dag er öldin önnur. Götur Derry eru friðsælar. En fortíðin er allsstaðar. Veggmyndir hafa í gegnum tíðina verið algengt tákn í áróðursstríðinu á Norður Írlandi. Frægustu myndirnar í dag eru væntanlega í Derry. Þar eru myndir málaðar af hóp listamanna sem kenna sig við kaþólska hverfið Bogside þar sem þær eru. Myndirnar eru úthugsaðar. Þær sýna sögu baráttunnar í borginni. Þarna eru myndir af fórnarlömbum Blóðuga sunnudagsins ásamt myndum af öðrum sem létust í ofbeldinu. Óhugnanlegustu myndirnir eru af börnum. Annars vegar 14 ára stúlku sem var skotin til bana af breskum hermönnum og hins vegar ungum dreng sem heldur á bensínsprengju.

 

Annette McGavigan, 14 ára, var myrt af breskum hermanni árið 1971.
Annette McGavigan, 14 ára, var myrt af breskum hermanni árið 1971.
Drengur með bensínsprengju
Drengur með bensínsprengju

Þarna má líka sjá mynd af Bernadette Devlin sem stjórnaði baráttunni í Bogside og var kosin á breska þingið. Á þinginu kýldi hún breska innanríkisráðherrann og hárreitti þegar henni var neitað um að tjá sig um ofbeldið á Blóðuga sunnudeginum sem hún hafði orðið vitni að. Einnig er mynd af föngum sem létust í hungurverkfalli í upphafi níunda áratugarins.

Bernadette Devlin
Bernadette Devlin
Fórnarlömb hungurverkfallsins
Fórnarlömb hungurverkfallsins
Friðardúfa
Friðardúfa

Mynd af friðardúfu er síðust í röðinni. Á yfirborðinu er þessi mynd óður til friðarins. Á upplýsingaskilti fyrir framan myndina eru hins vegar skilaboð frá listamönnunum sem sýna að friðurinn er skilyrtur. Þar stendur að friður án frelsis sé ekki mögulegur. Hið umrædda frelsi er þá að öllum líkindum tengt sameiningu við írska lýðveldið. Það er önnur mynd tengd hungurverkfallinu sem ekki er tengd Bogside listamönnunum. Þar eru nöfn þeirra sem létust í hungurverkfallinu rituð á vegg fangaklefa en þakið hefur verið rofið og þar flýgur fugl í frelsið. Hann táknar væntanlega anda þeirra sem létust.

Fangar sem létust í hungurverkfalli
Fangar sem létust í hungurverkfalli

Bogside hverfið er hlaðið táknum. „Free Derry“ veggurinn stendur þarna enn. Á svæðinu eru líka ótal írskir fánar á ljósastaurum sem flestir eru málaðir grænir, hvítir og appelsínugulir. Sömu litir eru á gangstéttarbrúnum. Á leikvöllum við skóla eru írsku fánalitirnir líka notaðar til að afmánaarka leiksvæðin. Þetta eru skýr tákn um að íbúarnir telji að svæðið eigi að tilheyra írska lýðveldinu. En það sjást fleiri fánar.

Karlsvagninn
Karlsvagninn
Fánar Palestínumanna og Baska
Fánar Palestínumanna og Baska

Meðal þeirra er blár fáni með stjörnumerkinu karlsvagninum en hann er tákn lýðveldissinnaðra sósíalista (IRMA) sem bera ábyrgð á ýmsum ofbeldisverkum á Norður Írlandi. Rétt hjá hangir fáni basknesku sjálfsstæðishreyfingarinnar ETA.

Stutt frá má sjá veggmynd af Che Guevera þar sem lögð er áhersla á írskt ætterni hans. Á sama svæði má líka sjá margar vísanir í baráttu Palestínumanna. Á einum stað má sjá fána Írlands og Palestínu renna saman í eitt.

Önnur tákn á svæðinu eru óformlegri. Krass og krot innihalda oft grófari skilaboð. Á húsþaki sem snýr að hverfi mótmælenda stendur RIRA RULES.
Skammstöfunin stendur fyrir Real Irish Republican Army og er klofningshópur úr írska lýðveldishernum sem ekki vildi leggja niður vopn eftir friðarsamkomulögin á tíunda áratugnum. Samtökin eru þekktust fyrir sprengingar í bænum Omagh á Norður Írlandi þar sem tuttugu og níu manns létust og yfir tvöhundruð slösuðust.

„SINN FEIN SCUM“ og aðrar áletranir með nafni stjórnmálaflokksins benda til þess að margir telji að flokkurinn hafi svikið lit með þátttöku sinni í friðarferlinu. BRY er algengt krot, það stendur fyrir Bogside Republican Youth, ungir lýðveldissinnar í Bogside hverfinu.

Borgarmúrar verja "Fountain" hverfi mótmælenda.
Borgarmúrar verja „Fountain“ hverfi mótmælenda.

Í öðrum borgarhluta er hægt að sjá hina hliðina. Borgarmúrarnir og háar girðingar takmarka aðgang að Fountain hverfinu. Þar búa sambandssinnar af mótmælendatrú. Táknin þar vísa til Bretlands og sambandsfáninn blaktir víðsvegar.

Fánar Englands, Skotlands, Wales and Ulster umkringja breska fánann
Fánar Englands, Skotlands, Wales and Ulster umkringja breska fánann

Kantsteinar eru málaðir bláir, hvítir og rauðir. Á svæðinu eru veggmyndir eins og í Bogside. Sumar eru þær þó áberandi fölnaðar. Mynd af Theodore Roosevelt Bandaríkjaforseta og tilvitnun þar sem hann áréttar að forfeður hans hafi verið mótmælendur sem börðust við kaþólikka á Írlandi.

Teddy Roosevelt
Teddy Roosevelt

Þarna má líka sjá myndir þar sem vísað í bandalag Ulster (héraðið sem Norður Írland tilheyrir samkvæmt fornri írskri skiptingu) og Bretlands.

No Surrender
No Surrender

Þær veggmyndir sem best er viðhaldið í Fountain hverfinu eru við æskulýðsklúbb (Cathedral Youth Club) á svæðinu. Meðal mynda þar er merki Ulster Defence Association sem eru samtök sambandssinna sem stunduðu vopnaða baráttu.

Lindsey Mooney meðlimur UDA lést árið 1973 þegar sprengja sprakk of snemma.
Lindsey Mooney meðlimur UDA lést árið 1973 þegar sprengja sprakk of snemma.
Æskulýðsklúbbur (Cathedral Youth Club)
Æskulýðsklúbbur (Cathedral Youth Club)
Æskulýðsklúbbur (Cathedral Youth Club)
Æskulýðsklúbbur (Cathedral Youth Club)

Orrustan við Somme í Seinni heimstyrjöldinni er sterk táknmynd sambandssinna. Í orrustunni létust margir írskir sjálfboðaliðar sem flestir voru úr röðum sambandssinna. En vísunin er einnig tengd páskauppreisn írskra lýðveldissinna í Dublin sem lýðveldissinnar vísa oft í. Sú uppreisn var álitin gróf svik enda var tilgangur hennar að nýta sér bága stöðu Breta vegna heimsstyrjaldarinnar. Þessir atburðir áttu báðir sér stað árið 1916.

Í hverfi mótmælenda
Í hverfi mótmælenda

Á einum vegg er málaður fáni Óraníureglunnar, appelsínugulur með fjólublárri stjörnu, litlum enskum fána í horninu og áletruninni „In God We Trust“. Óraníureglan fagnar árlega sigri Vilhjálms af Óraníu yfir Jakobi II.

West Bank Loyalist Youth
West Bank Loyalist Youth

Á næsta vegg við er mynd með merki West Bank Loyalist Youth sem eru ungir sambandssinnar á svæðinu. Krotið í Fountain hverfinu er sem fyrr segir oft tengt við umsátrið um Derry.

Taigs out
Taigs out

Einnig má sjá áletrunina „Taigs out“ en Taig er niðrunarorð yfir kaþólikka. Mikið er um niðrandi vísanir í IRA. Þar að auki má sjá neikvæðni í garð lögreglunnar: „Ef svín gætu flogið væri lögreglustöðin við Strand road flugvöllur“. Annað krot vísar í ýmis samtök, sum vopnuð en önnur minna þekkt. Á einum vegg á niðurníddu húsi er rauð skuggamynd af vopnuðum meðlim Ulster Freedom Force sem eru samtök nátengd Ulster Defense Association. Einhver hefur teiknað bros á þessa óhuggulegu fígúru.

Í hverfi mótmælenda
Í hverfi mótmælenda

Það sem er mest áberandi í Fountain hverfinu er ekki krot og myndir heldur almenn niðurníðsla. Mörg hús eru yfirgefin og mörg þeirra sem enn er búið í eru fátækleg. Þeir sem vilja búa í Fountain hverfinu þurfa líka að búa við stimplunina mótmælandi og sambandssinni í borg sem er að meirihluta byggð kaþólikkum. Það er ekki skrýtið að þeir flytji annað.

Lögreglumenn vakta hverfið. Fölnuð málning og hús í niðurníðslu
Lögreglumenn vakta hverfið. Fölnuð málning og hús í niðurníðslu

Nýlega var afhjúpuð ný veggmynd í Derry, sú tólfta í seríu Bogside listamannanna. Á henni er kaþólikkinn John Hume sem hlaut friðarverðlaun Nóbels fyrir hlut sinn í friðarferlinu ásamt Móður Teresu, Nelson Mandela og Martin Luther King sem einnig hlutu verðlaunin. Sambandssinninn og mótmælandinn David Trimble sem hlaut verðlaunin með Hume fær hins vegar ekki að vera með á myndinni. Enn er friðurinn skilyrtur.

Veggmynd sem var verið að mála þegar ég heimsótti borgina
Veggmynd sem var verið að mála þegar ég heimsótti borgina

Enginn veit hver framtíðin verður í Derry og Norður Írlandi. Tákn baráttunnar eru enn þarna. Hve djúpt rista þessar ögranir? Eru þær bara táknrænnar fyrir fortíðina, menningararfinn, eða þýða þær að ofbeldið gæti blossað upp aftur? Eru myndirnar aðallega fyrir túristana sem vilja sjá minnismerki um ofbeldið? Hvað eru íbúarnir að hugsa?

Saga ofbeldsins í Derry vekur allavega suma til meðvitundar um almenn áhrif vopnaframleiðslu
Saga ofbeldsins í Derry vekur allavega suma til meðvitundar um almenn áhrif vopnaframleiðslu

Hættan er aðallega fólgin í því að ungt fólk sjái ofbeldið í rómantísku ljósi. Menjar óróans eru yfirþyrmandi en hugsanlega koma þær því ekki til skila hve hræðilegt ástandið raunverulega var. Nokkrum dögum eftir að ég yfirgaf Derry var pizzasendill myrtur og upp blossaði ótti við að hér væri afturhvarf til obeldis fyrri ára. Real IRA sem var sakað um morðið neitaði hins vegar sök og líklega var þetta hversdagslegt ofbeldi sem teljast líklega góðar fréttir í Derry.

Myndasafn

Ella-málið: Úr lífi alþýðunnar

Ég rakst á eftirfarandi grein á Tímarit.is. Þetta eru undir fyrirsögninni „Úr lífi alþýðunnar“ í Lesbókinni. Smjörhól hennar ömmu kemur við sögu en það er þó tveimur árum eða svo áður en forfeður mínir fluttu þangað.

Ég veit ekkert um höfundinn (Jón Sigfússon) en ég á erfitt með að skilja þetta öðruvísi en að þarna sé reiður og kaldhæðinn tónn vegna aðfarar yfirvalda að þessu fátæka fólki. Ég varð reiður að lesa þetta og gat ekki annað en deilt þessu.

ELLA-MÁLIÐ

Eftir Jón Sigfússon, Ærlæk

FRÁ VORI 1892—94, var vinnumaður á Ærlæk hjá þeim hjónum Sigfúsi Einarssyni og Oddnýju Jóhannesdóttur, er þá bjuggu þar. Hét hann Elías og var Jónsson.

Mun hafa verið fæddur á Árholti, í kringum 1870 [11. júlí 1866 – 23. jan. 1941]. Hjá foreldrum sínum ólst hann upp og síðar vandalausum, í sárri fátækt og mun í æsku hafa verið með beinkröm, sem hann bar menjar um alla ævi síðan, því hann var með knýttar og bæklaðar hendur. Var hann því aldrei fullfær til allrar vinnu eða neinn afkastamaður. En natinn var hann við að gæta kinda og góður yfirstöðumaður, en í þá daga tíðkaðist að standa hjá fé í haga, ef beitt var og nokkuð að veðri. Elías var því frekar eftirsótt hjú, enda húsbóndahollur, notinvirkur og trúr í bezta lagi.

Eignir átti Elías litlar nema kindur, sem hann hafði á kaupi sínu og gáfu honum dálitlar tekjur. Þær munu hafa verið um 20 alls.

Almennt var Elli, en svo var hann oftast nefndur, talinn fremur einfeldningur, en þó er mér næst að halda, að hann hafi verið í meðallagi gefinn, ef hann hefði hlotið sæmilegt uppeldi, en því var ekki að heilsa, því engrar hafði hann notið uppfræðslu nema aðeins það allra minnsta, sem komist var af með til að ná fermingu.

Þegar hér var komið sögu, var Elli rúmlega hálfþrítugur og vinnumaður á Ærlæk, eins og áður segir. Samtíða honum þar var kvenmaður einn á bezta aldri, er Kristín hét og var Gunnarsdóttir, kölluð Krita. Ævi hennar hafði verið svipuð og Ella, nema ef til vill enn hörmulegri, ef verra gat verið. Ung hafði hún misst móður sína. Var umkomuleysið sárt, en fátækt og allsleysi fram úr hófi, en uppfræðsla engin. Enda var hún á hrepp eftir að faðir hennar, Gunnar á Smjörhóli lézt, og sjálfsagt haft misjafna aðbúð.

Fram að þessu höfðu menn gjört sér lítið títt um hagi þeirra Ella og Kritu, og saga þeirra lítið skráð á bókfell. En nú verður snögg breyting á þessu. Það sem sé gerist sá atburður, sem bæði fyrr og síðar hefir átt sér hliðstæður, án þess að allt hafi verið sett á annan endann. En það var það, að Krita verður þunguð af völdum Ella. Eins og ærlegum og góðum föður sómdi, hafði Elli nauðsynlegan undirbúning vegna þessarar væntanlegu barnsfæðingar. Meðal annars var hann búinn að útvega dvalarstað handa barninu o. s. frv., enda hefði Elli vel haft sig fram úr því, að ala upp barnið af sjálfsdáðum. En þetta átti ekki þannig að fara. Réttvísin tók ráðin af Ella og stjórnaði af meiri vizku og líklega réttlæti.

Einhvern nasaþef fékk hreppstjórinn, sem þá var Björn Jónsson í Sandfellshaga, af því hvernig komið væri, og hans fyrstu viðbrögð voru þau, að skipa ljósmóðurinni í sveitinni að rannsaka málið. Man eg að ljósmóðirin kom að Ærlæk og sló sér fljótlega á tal við Kritu og lét talið berast að klæðnaði hennar; spurði meðal annars hvort hún væri í vaðmálsskyrtu, en Krita sagðist vera í léreftsskyrtu næst sér. Því vildi yfirsetukonan ekki trúa og þráttuðu þær um þetta nokkra stund, þangað til Krita stóðst ekki mátið lengur og til að sanna mál sitt reif skyrturnar upp um sig. En yfirsetukonan athugaði það sem yfirvaldið hafði fyrirskipað.

Hér kemur útdráttur úr dómsmálabók Þingeyjarsýslu, frá þeim tíma, um þetta Ella-mál:

Árið 1893, þriðjudaginn 18. júlí, var réttarhald að Ærlæk, til að hefja rannsókn í tilefni af bréfi hreppstjórans í Skinnastaðahreppi, dags. 15. júní sama ár. Segir þar að Elías sé 27 ára gamall, hafi flutzt vistferlum í Ærlæk 1892. Játar Elías að hafa haft samræði við Kristínu: Að réttarhaldinu loknu er Elíasi bannað að hreyfa sig nokkuð af heimilinu fyrst um sinn, en vera alltaf til staðar þangað til ráðstafanir verði gjörðar.

Árið 1893, föstudaginn 21. júlí, var lögregluréttur settur og haldinn að Ærlæk af settum rannsóknardómara Einari Benediktssyni, til að halda fram rannsókn þeirri er hafin var með réttarhaldi að Ærlæk. Ber Elías allt það sama um samræði við Kristínu. Þess er getið að Elías sé einfaldur og svari spurningum bjánalega. Sjálfur játar hann að hann hafi oft fundið til þekkingarleysis síns og einfeldni, enda aðrir notað sér það í viðskiptum við hann.

Einnig er Sigfúsi Einarssyni húsbónda Elíasar uppálagt að láta ekki Elías ganga úr greipum réttvísinnar.

Þennan sama dag var héraðslæknirinn, Björn Blöndal á Sjávarlandi, kvaddur til að rannsaka og gefa vottorð um andlegt ástand Elíasar og Kristínar.

Árið 1893, mánudaginn 28. ágúst, var settur aukaréttur af Einari Benediktssyni á Skinnastöðum.

Réttvísin gegn Elíasi Jónssyni frá Ærlæk.

Verjandi málsins var sr. Þorleifur, sem þá skilaði aftur skjölum málsins, sem voru mörg og ýmiskonar, um hegðun og andlegt ástand Elíasar og Kristínar, og ennfremur skírnar- og fermingarvottorð.

Eftir að skjöl öll höfðu verið lesin upp, lýsti sr. Þorleifur því að hann hefði ekki fleira fram að færa, en það varnarskjal, sem hann hefði lagt fram.

Var þá málið tekið upp til dóms.

Árið 1893, mánudaginn 2. okt., var — aukaréttur Þingeyarsýslu settur og haldinn á skrifstofu Þingeyarsýslu að Húsavík, af sýslumanni Benedikt Sveinssyni [faðir Einars].

Réttvísin gegn Elíasi Jónssyni frá Ærlæk.

Dómurinn:

Það er löglega sannað í máli þessu með skýlausri eigin játningu ákærða í sambandi við önnur rök, sem upplýst eru, að hann hefur tvívegis á síðastliðnu og yfirstandandi ári framið holdlegt samræði með hreppsómaganum Kristínu Gunnarsdóttur, sem þá ásamt honum var til heimilis á Ærlæk.

Eftir langt mál var svo dómurinn uppkveðinn.

Því dæmist rétt vera:

Hinn ákærði, Elías Jónsson, vinnumaður frá Ærlæk, á að sæta eins mánaðar fangelsisvist við venjulegt fanga viðurværi. Einnig á hann að borga allan af máli þessu löglega leiðandi kostnað, þar á meðal 4 krónur til hins skipaða talsmanns, Þorleifs prests Jónssonar á Skinnastað.

Dóminum ber að fullnægja með aðför að lögum.

Ben. Sveinsson.

Víkur nú sögunni aftur til dagsins 21. júlí. Eftir að hinn setti rannsóknardómari, Einar Benediktsson, hafði lokið yfirheyrslunni yfir Ella og Björn Blöndal athugað andlegt ástand hans, var ferðinni beint að Smjörhóli. En þar höfðu hreppsyfirvöldin komið Kristínu fyrir til dvalar, til að fjarlægja hana frá Ella. Í förinni voru leiðtogi fararinnar Björn hreppstjóri, Björn læknir Blöndal og setti dómarinn Einar skáld Benediktsson ásamt fylgdarmanni sínum Ólafi Sveinar Hauk. Er ólíklegt að í annan tíma séu sagnir af að fríðari eða tignari fylking hafi kvatt dyra á Smjörhóli.

Ekki er mér kunnugt um hvað þar hefur gerzt, þó sjálfsagt geymist eitthvað um það í réttarskjölum frá þeim tíma, ef þau eru þá ekki glötuð. En fundi Kritu hafa þeir að sjálfsögðu náð. Bárust fréttir um það eftir lækninum, að langt myndi þess enn að bíða að Krita yrði léttari.

Skjöplast þótt skýr sé, segir gamalt máltæki, og mátti heimfæra það upp á Björn lækni, því ekki var heimsókninni fyrr lokið og menn riðnir úr garði, en Krita tók joðsótt og ól barnið, sem svo mikið tilstand hafði verið út af. Það var meybarn, sem síðar hlaut í skírninni nafnið Jóhanna, fædd 21. júlí 1893.

Ævisaga Kritu varð ekki löng úr þessu, því hún lézt á Smjörhóli sama ár, þann 7. október. Varð það með þeim hætti að hún fór út á hlað til að sækja barnarýur, sem breiddar höfðu verið til þerris upp á snúru. Þegar dvaldist að hún kæmi inn aftur og farið var að gá að, lá hún örend á hlaðinu.

Talin hafa orðið bráðkvödd. Vitnaðist þó síðar, þó aldrei yrði það hljóðbært, að banameinið var engu að síður „hor og ófeiti“, eins og það er orðað í kirkjubók Skinnastaðasóknar, um þá sem létust í móðuharðindunum 1785.

Mikið höfðu yfirvöldin garfað í þessum málaferlum og sýnt mikinn dugnað, en í öllum þessum önnum virðist hafa gleymzt að athuga um að barnsmóðirin hefði sæmilegt fæði og aðhlynningu, annars hefði Krita sennilega ekki orðið hordauð.

Samkvæmt dómsniðurstöðu réttvísinnar átti Elli að afplána sök sína með eins mánaðar fangelsisvist við venjulegt fanga viðurværi og greiða allan málskostnað.

Fangelsi var þá ekki nær en á Akureyri og þangað fór Elli, en ekki lifði hann eingöngu upp á vatn og brauð, eftir því sem honum sagðist sjálfum frá. Hann lét hið bezta yfir verunni. Mat hefði hann fengið að borða, bæði mikinn og góðan, þann sama og sýslumaðurinn borðaði sjálfur og allir voru honum góðir. Ekkert þurfti hann að gera á daginn, en rólaði sér í hengirúminu eins og hann hafði löngun til. Er ekki að efa að Elli sagði satt frá. Mun almennt hafa verið litið svo á, að hann hefði ekki með sök sinni unnið til þeirrar harkalegu meðferðar, sem réttvísin ákvað honum. Aldrei fyr á ævi sinni hafði Elli farið eins langa ferð eða séð sig eins mikið um, svo þó hann væri alla daga manna yfirlætislausastur, þá hafði hann séð svo margt nýstárlegt í þessari ferð, að hann vitnaði stundum síðar á ævinni til hennar og hóf þá venjulega mál sitt eitthvað á þessa leið: „Það var þegar eg fór inneftir“.

Langt um verra en tugthúsið var þó það, að missa allar eigur sínar. En þær voru allar teknar af Ella upp í málskostnaðinn, svo þegar hann vorið eftir (1894) fluttist frá Ærlæk ofan í Kelduhverfi í vinnumennsku til Þórðar Flóventssonar bónda í Krossdal, var hann slyppur og snauður. Átti þá ekki annað en fötin sín og vasaúrið sitt, sem yfirvöldunum hafði láðst að taka af honum. Um úrið sitt þótti Ella fjarskalega vænt, sem von var, enda var það honum svo nauðsynlegt, þar sem hann ætíð var einangraður frá öðrum og fjarri bæ við kindurnar; lét hann sér líka mjög ant um það og hafði í úrkassa, sem hann svo vafði vasaklút eða einhverju öðru utan um og bar það þannig í vasanum á vestinu sínu. En lánið getur verið hverfult og í þetta sinn reyndist það svo.

Yfirvöldin uppgötvuðu fljótlega yfirsjón sína og fundu ráð sem dugði. Þeim hugkvæmdist það, að Elli myndi einhvern tíma koma í orlofsferð austur í Öxarfjörð til að finna kunningjana og sjá litlu dóttur sína. Ef svo færi, var ferjumaðurinn á Ferjubakka fenginn til að ná úrinu af honum. Þessi ráðagerð heppnaðist. Ferjumaðurinn náði úrinu af Ella og það komst í hendur hreppsnefndaroddvitans, sem falið hafði verið að koma því í verð. Er ekki að orðlengja það, að oddvitinn hampaði úrinu framan í hvern sem var og bauð til kaups fyrir eitthvað, hvað lítið sem væri, en enginn vildi kaupa. Virtist svo sem menn hefðu einkennilega litla löngun til að eignast þetta úr. Varð endirinn sá, að nokkru seinna átti Þórður Flóventsson, húsbóndi Ella, ferð hér austur yfir Jökulsá og keypti þá úrið á 4 krónur og færði Ella það.

Eftir þetta fluttist Elli aldrei úr Kelduhverfi. Var vinnumaður á ýmsum bæjum, þangað til ævinni lauk í hárri elli. Munu allir ljúka upp einum munni um það, að Elli hafi verið maður meinhægur, grandvar, trúr og hollur sínum húsbændum, enda þurfti réttvísin aldrei að hafa hendur í hári hans, utan þetta eina sinn.

Jóhanna Elíasdóttir ólst upp á góðu heimili, þar sem hún naut sömu ástar og umhyggju eins og hún hefði verið ein af fjölskyldunni, enda mat hún það að verðleikum. Hún var svo trygglynd, að hún batzt vináttuböndum við. fjölskylduna, sem entust ævina út.

Meðal annars heimsótti hún þetta vinafólk sitt einu sinni á ári allt fram á síðustu ár. Alla ævi var Jóhanna veikbyggð og heilsutæp.

Naut hún sín þess vegna miður en skyldi. Jóhanna giftist og bjó með manni sínum á jörð í Kelduhverfi um tugi ára, eða allt til dánardægurs.

Með manni sínum eignaðist hún tvö börn, sem bæði eru á lífi, pilt og stúlku. Þeim gekk vel að læra og eru mannvænleg, engu síður en fólk er almennt. Bæði eru þau flutt úr fæðingarsveit sinni. Hann er búfræðingur að menntun. Hún er húsfreya í sveit.

Spéspeki Heimilistímans

Guðmar afi minn batt inn bækur og tímarit á sínum efri árum. Meðal þess sem hann batt inn voru gömul tölublöð af Heimilistímanum (1974-1981). Af einhverjum ástæðum fór ég í gegn um öll þessu bindi. Ég las ekki allt en ég las margt. Ég hef væntanlega verið 11-13 ára.

Mér datt núna í hug að kíkja aðeins á hvað væri að finna í Heimilistímanum. Ég á þessi bindi frá afa en þau eru í geymslu þannig að ég kíkti á Tímarit.is. Ég var ekki kominn langt af stað þegar ég fór að fylgjast með bröndurunum.

Það sem maður tekur fyrst eftir er að það er eiginlega ekkert fyndið þarna og stundum sér maður hvernig þýðendur hafa klúðrað bröndurum (sem voru ekki endilega fyndnir til að byrja með). Það væri hægt að flokka brandarana í örfáa flokka. Heimsk/heimskir/heimskar/ömurleg/ömurlegar/ömurlegir eiginmenn/eiginkonur/börn. Kynlíf. Drykkjuskapur.

Einu brandararnir sem mér finnst nálgast fyndni eru þeir sem ekki falla í þessa flokka. Ykkur til… skemmtunar(?) hef ég klippt út myndbrandarana úr fyrstu fjórum tölublöðum Heimilistímans.

Jóríkur: Síðasti karlinn

Y: The Last Man er ein af þeim teiknimyndasögum sem eru taldar með þeim bestu sem hafa komið út á öldinni. Í stuttu máli deyja allir karlar á jörðinni. „Hetjan“ okkar hann Yorick lifir af og þarf að bjarga sér í sturluðum heim á meðan hann leitar að sinni sönnu ást.

Sagan náði að halda mér við efnið. En mér fannst þetta aldrei vera nógu gott. Persónurnar náðu mér aldrei almennilega. Eftirleikur plágunnar virkaði ósannfærandi á mig. Auðvitað þarf að gefa sér ákveðna hluti til að þjóna sögunni en það hefði bara þurft að gera þetta allt betur.

Skógarhöggsjónurnar

Þar sem ég lék mér með Masters of the Universe á unga aldri ákvað ég að prufa að horfa á endurskotið á systur He-Man, She-Ra (She-Ru?), á Netflix. Ég féll alveg fyrir þeim. Ég las mér til um konuna á við þættina, Noelle Stevenson og komst að því að hún hefði líka verið með teiknimyndasögur sem heita Lumberjanes.

Ég var mjög hrifinn. Kannski ekki alveg jafn hrifinn og af t.d. Giant Days (sem ég las næst á undan) en það skýrist kannski af því að Lumberjanes miðar við aðeins yngri aldurshóp en þær sögur.

Í stuttu máli snúast sögurnar um ævintýri stúlkna í skátasumarbúðum. Það kemur fljótt í ljós að margt dularfullt er á seyði í kring. Það er kannski hægt að líkja þessu við þættina Gravity Falls eða kannski Stranger Things án hryllingsins.

Fyrir utan að berjast og/eða vingast við skrýmsli fjalla sögurnar um vináttu stúlknanna. Tvær þeirra [HÖSKULDUR!!] byrja líka saman. Þá kemur við sögu transeinstaklingur.

Ég mæli hiklaust með Lumberjanes fyrir unglingastig og lengra komna nemendur á miðstigi (enskukunnátta auðvitað nauðsynleg). Kannski yngstu í framhaldsskóla en mögulega finnst þeim þetta of barnalegt. Síðan mega fullorðnir lesa þetta líka.

Annars má geta þess að ég er enn að lesa í svarthvítu og fattaði því t.d. ekki að ein persónan fékk bláan lit í hárið fyrren það var nefnt í textanum.

Er næsta ár árið sem við getum sleppt tvöþúsund?

Ég var að skrifa vísun í árið 2012 og ég hugsaði með sjálfum mér: Gæti ég skrifað, eða sagt, bara ’12. Ekki séns. Við höfum ekki getað gert svoleiðis síðan ’99. Það væri gaman að vita hvað stoppar okkur. Ég veit það bara ekki nákvæmlega.

Vissulega er það þannig að þegar ég segi bara tólf þá líður mér eins og ég sé að tala um tíma dags frekar en ár. Það er líka þannig ef maður ætlar að tala um árabil. Ef maður skrifar eða segir 12-14 þá líður manni eins og maður sé að taka sér langan hádegisverð en ekki að tala um tímabil í lífi manns. Ef maður segir árin 12 til 14 er það eins og maður sé að tala um unglingsár Jesú.

Þegar er verið að tala um þá sem fæddust fyrstu níu ár aldarinnar, sérstaklega þegar þau sjálf eru að tala, þá eru þetta núll-fimm módel, núll-sex módel og svo framvegis. Kannski að maður ætti að benda þeim á að núll-núll-sjö módel sé svalara en bara núll-sjö en þá þyrfti maður líka að útskýra fyrir þeim hver þessi James Bond sé.

Ég er ekki viss um að þetta kerfi virki jafnvel á fyrsta tuginn. Er einhver ellefu módel? Hljómar ekki vel. Ég veit ekki hvernig yngsta kynslóðin reddar sér. Kannski hefði ég átt að spyrja afa mína og ömmu. Ekki ömmur.

Virkar ’20? Það er vissulega ennþá á klukkustundabilinu en ekki alvarlega. En ég held ekki. Ég held að það séu enn smá óþægindi í máltilfinningunni. Tuttugu hljómar ekki eins og ár.

Ég held að næsta ár sé árið. Hægt og rólega verður auðveldara að tala um fortíðina. Þau sem fæðast á næsta ári geta andað rólega og sagt að þau sé fædd tuttugu og eitt. Miklu betra sko. Ég hefði getað spurt Siggu ömmu út í þetta. Hún fæddist ’21 og var örugglega ákaflega fegin.