Ég bloggaði fyrst árið 1999 en vissi þá ekki að það væri til neitt sem héti blogg og uppfærði síðuna ekki nema örsjaldan áður en ég gafst upp. Þann 26. febrúar 2002 byrjaði ég aftur að blogga á mjög handvirkan hátt á heimasíðu sem var hýst hjá Símanum. Sumarið 2003 færði ég mig yfir á vefinn Kaninka sem Páll Hilmarsson stjórnaði. Sumarið 2006 ákvað ég síðan ég vildi hýsa eigin vef og bjóða öðrum að blogga og stofnaði truflun.net.
Skoðanir þær sem koma fram í bloggfærslum eru mínar eigin og þurfa ekki að tengjast neinum félagasamtökum sem ég er í og alls ekki vinnuveitendum mínum. Þeir sem skrifa athugasemdir bera ábyrgð á eigin skrifum. Ég geri þá kröfu að allir komi fram undir réttu nafni og gefi upp tölvupóstfang þar sem hægt er að ná í þá. IP tala allra sem skrifa athugasemdir er skráð. Í undantekningartilvikum eyði ég athugasemdum en það er þá vegna þess að ekki er farið eftir þeim skilyrðum sem ég set eða vegna þess að um ærumeiðandi ummæli er að ræða.
Lesendur mínir ættu að athuga að stundum segi ég brandara sem fólk sem þekkir mig skilur en aðrir eiga erfiðara að skilja. Fólk ætti því stundum að íhuga hvort að ég sé kannski að grínast áður en það skrifar athugasemdir.
Þetta blogg er vefdagbók mín og hún er fyrst og fremst fyrir mig. Undirtitill þess er dagbók og handahófskennt þvaður. Ég geri því augljóslega ekki þá kröfu til mín að allt hér sé frábærlega djúpt, greindarlegt eða frábært. Ég hef líka í seinni tíð rekið mig á að ég er ekkert alltaf sammála þessum gaur sem skrifaði á þetta blogg í fortíðinni.