Grískt salat

Hér verður enginn formáli um sögu gríska salatsins og hvernig það er í raun álíka grískt og Sigurjón Kjartansson. Vindum okkur í þetta. Þetta er einfalt og fljótlegt. Öll hlutföll eru bara einhvern veginn því þetta er jú salat, fjandakornið, og fer alfarið eftir smekk hvernig fólk vill hafa það. Við byrjum á innihaldsefnum, sem eru hreint ekki flókin. Ef einhver segir ykkur að eitthvað meira eigi heima í grísku salati þá skuluð þið hlæja upp í opið geðið á viðkomandi og segja að einhver gaur á internetinu viti nú betur. Það fer ekkert lambhagasalat í þetta, segi ég.

Gúrka, rauðlaukur (hér skalott), tómatar, rauð paprika og ólífur)

Ég átti til skalott og það má vel nota hann í staðinn fyrir rauðlauk (eða sleppa lauknum ef maður er andlauksinna). Ólífurnar eru blandaðar tegundir frá Olifa. Vanalega nota ég grænar, steinlausar ólífur (fást oft í Hagkaup) en það er misjafnt hvað fæst í verslunum sem maður á leið um. Þessar eru góðar og passa vel með salatinu en steinarnir fylgja. Sannir ólífuperrar kunna að tyggja í kringum steinana svo það kemur ekki að sök. Ég nota „heilsutómata“ (andstætt eiturtómötum, eða eitthvað) en í raun er jafnvel betra að nota stóra íslenska tómata því það kemur meiri safi úr þeim. Gúrkan er, þið vitið, gúrka. Paprikan er sömuleiðis paprika og ekkert meira um það að segja.

Feta frá Taverna

Tvennt skiptir höfuðmáli hérna: osturinn og olían. Það er nefnilega ýmislegt kallað feta sem ég myndi ekki kalla feta. Evrópusambandið er sammála mér. Það er til dæmis aldrei kúamjólk í feta. Nóg um það. Stundum fæst grískur feta í Melabúðinni en í Hagkaup, Krónunni og kannski víðar má fá þennan frá Taverna. Hann er engan veginn fullkominn en í bærilegum gæðaflokki. Svo má líka nota geitafeta frá Háafelli ef maður vill fá íslenskan blæ í þetta. Hann fæst í fjórum gerðum kryddlagar, kostar sitt en er hverrar krónu virði. Svo fær maður að klappa geitum í leiðinni ef maður fer í Háafell svo ég mæli með heimsókn þangað. Ég get ekki ímyndað mér að þið hafið neitt betra að gera, nema veri það að búa til grískt salat.

Frantoia olio extra vergine di oliva, frá Palermo.

Til eru alls konar ólífuolíur en með þessu salati þarf hún að vera bragðmikil. Þess vegna dugar ekkert hefðbundið sull. Ég nota ósíaða Frantoia jómfrúarolíu frá Sikiley sem fæst hjá Barbera, en þar fást fleiri tegundir sömuleiðis. Einnig mætti nota Pugliaolíuna frá Olifa eða dásamlegu spánsku olíurnar sem Mundo ferðaþjónusta flytur inn. Aðalatriðið er að olían sé góð, manni sjálfum þyki hún góð, og að nógu miklu af henni sé drullað yfir salatið. Fyrir ketófólk þá er um að gera að troðfylla salatskálina af feta og drekkja öllu í olíu, en vert er að minna á að hófsemi er dyggð (ókei, ég lýg).

Við erum ekki komin hingað til að spara örðu við okkur. Ef við deyjum skyndilega ofan í salatskál (gæti alveg gerst) þá er eins gott að við skiljum glöð við þessa jarðlegu tilvist.

Gúrka skal þannig skorin

Allt þarf að vera í bitastærð í grísku salati, það má ekki skera grænmetið of smátt. Ég flysja hýðið af gúrkunni á þrem stöðum áður en ég sker hana eftir endilöngu og loks í bita, því það er óþarfi að það sé mikið af því í salatinu. Salatið á að vera mjúkt og blautt. Mín vegna mætti fjarlægja hýðið alveg ef smekkur er fyrir því, en mér finnst gott að hafa eitthvað af því eftir.

Paprika bituð svona

Bitastærðar vegna skal paprikan einnig skorin þannig.

Hvað er betra en tómatar? Ekkert!

Og dvergtómatar skulu helmingaðir. Stórir tómatar skulu skornir til helminga, hvor helmingur í þrjá báta og bátarnir varlega helmingaðir. Laukurinn er svo skorinn eftir smekk (helst í langar ræmur, segi ég, sem að vísu er ekki vel gerlegt með skalottlauk).

Salt og pipar er nauðsyn

Höfum eitt alveg á hreinu: Við erum engir villimenn. Það skiptir engu hver uppskriftin er: Ef tómatar eru notaðir, hvort sem er ferskir eða í sósu, þá verður að salta þá og helst pipra ögn líka og svo þarf að olíubera þá. Smáræði af salti dregur fram bragðið og olía er það sem gerir lífið þess virði að lifa því, svo tómatar án olíu eru glatað tækifæri. Við viljum ekki borða grískt salat með örðu af eftirsjá, svo við söltum og drögum fram olíuna. Piparinn er til þess að ná smá jafnvægi í yfirgengilega sæluna sem af þessu hlýst. Þetta gerum við áður en fetaosturinn fer yfir. Smá salt og pipar og eins og tvær matskeiðar af ólífuolíu, svo er öllu salatinu hrært saman.

Ó, guð. Fegurðin!

Síðasta skrefið er að skera fetann í breiðar lengjur, rífa þær svo yfir salatið og olíubera. Ekki skera ostinn í teninga, í alvöru. Feta sem skerst snyrtilega í teninga er sennilega ekki voða góður feta. Rífðu hann, hvort sem er í bita eða tætlur. Svo má allteins bara setja stórt stykki af feta ofan á, sturta olíu yfir og láta gott heita. Hann rifnar nógu vel undan gafflinum og blandast salatinu (ef hann rifnar ekki þá er það ekki ostur sem hæfir þessu salati). Er þetta alltof mikið salat? Nei! Það er aldrei of mikið. Þess utan fer ég léttilega að því að éta þetta allt einn.

Voila! Ókei, ég kann ekki að taka myndir fyrir fimmaur.

Sumum þykir betra að blanda ekki frekar eftir að osturinn er kominn ofan á og þannig hef ég það stundum, en núna langaði mig til að hræra öllu smá saman til að fá meiri keim í ostinn af öllu saman. Þessu má gjarnan skola niður með góðu rauðvíni eða ísköldu rósavíni ef það er sjóðheitt í veðri og þú situr úti á palli með þetta, en við búum á Íslandi svo það er ekki sennilegt að það muni nokkru sinni verða.

Svona geri ég grískt salat og persónulega finnst mér það vera besta salat í veröldinni, að öðrum ólöstuðum.

Ingredients

Instructions

  1. Blandist saman. Ekkert flóknara en það.

Author: Arngrímur Vídalín

1 thought on “Grískt salat

  1. Þú ert nú alveg frábær penni, kæri vinur! Hlakka til að sulla saman svona fínu salati við tækifæri. Haltu áfram að deila svona fíneríi með okkur hinum 😉

Skildu eftir svar við Sigrún Svafa Ólafsdóttir Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Gefðu einkunn