Eipað með soldátum

Aldrei fór það svo að ég bloggaði ekki um ferð mína upp á þá hersetnu Miðnesheiði. Þar situr enginn ormur á gulli, ólíkt fínni heiðum. Eini ormurinn þar að kalla mætti er íslenska ríkið.

Það kemur engum á óvart sem hefur komið þangað að hermennirnir nenni ekki að vera þar, þó ekki nema væri leiðindanna vegna. Menn fara víst í herinn til að sprengja og skjóta og svoleiðis, altént mun minnstur hlutinn skrá sig til að reka flugvelli og bjarga íslenskum sæförum. Enda þótt einkunnarorð þyrlusveitarinnar muni vera „What we do so that others may live“. Það finnst mér merkileg einkunnarorð fyrir hersveit.

Ísland úr NATO nælan mín vakti enga athygli. Ekki bjóst ég við öðru, fannst bara fyndið að hafa hana. Einn hermannanna spurði mig hvort ég hefði leikið í Flags Of Our Fathers. Ég hélt nú ekki.