Mig rak í rogastans þegar ég sá orðið tómthússkattur í þessari frétt Morgunblaðsins. Fyrst hélt ég að þetta væri einhver misskilningur hjá Samfylkingunni en nánari athugun leiðir í ljós að þetta er einhver tugga meðal íslenskra stjórnmálamanna sem stöðugt er endurtekin. Til dæmis talar Bjarni Benediktsson um tómthússkatt í frétt frá því fyrir fimm árum. Í ljós kemur að þetta er misheppnuð þýðing á hugtaki úr ensku, vacant home tax, sem tekur eldra hugtak merkingarnámi.
Stundum held ég að almenn vitneskja um fyrirbæri sem nefnast orðabækur sé orðin takmörkuð. Sjáum hvað íslensk nútímamálsorðabók segir:
Mér finnst svosem ekkert skrýtið að almenn þekking á þurrabúðum sé ekki meiri en þetta. Orðið tómthús er sjálft ekki sérlega gagnsætt og því ekki að furða þótt fólk haldi að það jafngildi tómu húsi. Orðabækur eru þó öllum aðgengilegar og ég hefði haldið að embættismannastéttin, sem að uppistöðu er hámenntuð, myndi kannast við orðið úr skólagöngu sinni.
Hvernig er orðið tómthús þá samansett? Gluggum í orðsifjabók Ásgeirs Blöndal:
Og þar höfum við það. Óskandi væri að fólk fyndi annað orð yfir skatt á búsetulausar fasteignir, því að kenna þetta við tómthús gerir fátt annað en firra fólk skilningi á stétta- og stjórnmálasögu landsins. Ein hugmynd væri að kalla það sínu rétta nafni: braskskatt.
Ég fór með Lomma að sjá Tindersticks í Háskólabíó í kvöld. Langt síðan ég hef komið í A-salinn og sakna hans alltaf sem bíósalar.
Snögglega birtist mér þverskurður af samleið minni og A-salar, í tímaröð.
Í þessum sal sá ég Jurassic Park og það var ógleymanleg upplifun. Þá fyrst langaði mig að verða vísindamaður — einn af góðu vísindamönnunum. Ungur var ég gefinn góða fólkinu.
Löngu síðar fór ég nokkuð skakkur í sama sal að sjá Plan 9 From Outer Space á vegum klúbbsins Filmundar. Ógleymanlegt einnig, en á annan hátt. Sá einnig Night of the Living Dead og margt annað gamalt og gott.
Þar voru svo haldnir útgáfutónleikar Jagúarplötunnar Get the Funk Out og samsvarandi stuttmynd, skelfilega léleg, látin rúlla á tjaldinu á meðan. Eftir á að hyggja finnst mér platan líka léleg, en það fannst mér ekki þá. Að mörgu leyti hef ég mýkst með aldrinum en að þessu leyti harðnað.
Í menntó fór skólinn í ferð í A-salinn til að sjá nútímatónskáld flytja verk sitt um býflugur. Sumir kennararnir veinuðu úr hlátri allan tímann meðan nemendur sem höfðu meiru að tapa héldu sig á mottunni.
Þarna útskrifaðist ég úr Menntaskólanum við Sund og mun aldrei gleyma því að sitja ´á sviðinu með hvítan koll í kjöltunni.
Sama ár á sama sviði kenndi Róbert Haraldsson mér í fílunni. Mér þykir enn vænt um það námskeið og finnst skelfilegt hvernig því var slátrað.
Ekki löngu síðar sótti ég þar fyrirlestur Davids Lynch um innhverfa íhugun og spjallaði við hann á eftir á sviðinu góða — um allt annað en innhverfa íhugun, sem honum skiljanlega leiddist. Hann virtist dapur því enginn vildi tala við hann um efni fyrirlestrarins. Ég skammast mín enn. Sendi þér afsökunarbeiðni út í kosmósinn, elsku David.
Strax eftir bankahrun hentu heimskir stjórnmálamenn ríkisútvarpinu beint í hakkavélina. Í A-salnum var þá haldinn stór mótmælafundur, sem ég sem útvarpsfíkill og -unnandi sótti, en fundurinn skilaði engum árangri svo ég muni. Allt fólkið sem þá var rekið er ennþá rekið í dag.
Á nefndu sviði útskrifaðist ein stjúpdætra minna úr menntaskóla. Um leið sá ég ýmsa gamla kennara mína orðna hvíta og komna á eftirlaun, sem var á sinn hátt sérstök upplifun. Hvítir kollar uppi á sviði, rétt að byrja; hvítir kollar úti í sal, komnir langleiðina.
Á vori hverju síðan 2014 hef ég fengið að sjá, út um eldhúsgluggann, flóðgátt hvítra kolla fleyta glöðum ungmennum á móts við framtíðina úr þessum sal, og mér verður hlýtt í hjartanu.
Kvöld eitt rétt fyrir fertugsafmæli mitt tróðu þar upp Tindersticks og salurinn fylltist af mjúkri og sérstæðri baritónhlýju Stuarts Staple, sem ég átta mig skyndilega á að er ekki töffari heldur krúttmonsa, meðan landsþekktur maður dansaði sitjandi eins og andsetinn væri tveim röðum framan við mig. Eftir á að hyggja hefði ég átt að beina myndavélinni að honum, en þess í stað tók ég 30 sekúndna mynd af hljómsveitinni.
Þannig varð mér samfylgd okkar, þessa salar og sviðs sem mér þykir svo vænt um, skyndilega hugleikið. Og margt auðvitað ónefnt. Guð má vita hvenær ég fæ næst að koma í A-salinn góða.
Uppáhalds karlkyns ljósmyndarinn minn gaf út nýja bók í síðasta mánuði, hinn ástralski Trent Parke. Ég er vanur því að það sé ekkert sérstaklega erfitt að nálgast bækur allajafna, en þannig er það ekki í myndlistarheiminum virðist vera. Ekki ein einasta bók eftir hann er fáanleg og mögulega verða þær aldrei prentaðar aftur. Gangvirðið á bókunum hans er eftir því komið út í algjöra vitleysu og ég hreinlega skil ekki hvað listamaðurinn fær út úr því að prenta ekki bara nýtt upplag meðan eftirspurnin er svona.
Bækurnar hans seljast hraðar en miðar á Taylor Swift, svo ég stökk á nýju bókina. Og svo vill til að í henni, innan um aðallega myndir sem ekki hafa áður birst (settar saman í röð sem segir söguna af því kuski sem mannkyn er í alheimssögunni, horfið um leið og það birtist), eru einmitt nokkrar af þeim myndum sem ég held allramest upp á af öllum þeim sem ég hef hingað til séð eftir hann. Af öllu að dæma er nýja bókin rosaleg. Ég rambaði á YouTube-myndband þar sem einhver gaur flettir gegnum alla bókina en hætti fljótlega að horfa því ég vil fá að njóta bókarinnar sjálfur þegar ég fæ hana í hendur, leyfa henni að koma mér á óvart.
Ég er ofsalega spenntur fyrir þessari bók, Monument eftir Trent Parke.
Önnur bók sem mig dauðlangar að eignast er eftir hann og konuna hans Narelle Autio sem líka er ljósmyndari. Eins og allar aðrar bækur sem þau hjón snerta er sú ófáanleg, en hún heitir The Seventh Waveog snýst um baðstrandarmenningu Ástrala. Myndirnar í henni eru hreint út sagt ótrúlegar, allar teknar á filmu með vatnsheldri Nikonvél og margar þeirra, teknar neðan flæðarmáls, sýna syndandi fólk í ótrúlegustu fljótandi stellingum. Þau eru svo miklir snillingar bæði tvö að hálfa væri nóg.
Strákur sem ég hafði aldrei áður heyrt um en mun vera sonur Beckhamhjónanna og heita Brooklyn gaf út ljósmyndabók, ekki af eigin ástríðu heldur af því Penguin hringdi í hann og bað hann um að gera það. Bókin er troðfull af sjálfsmyndum teknar með aðstoð spegils með dýrustu fáanlegu myndavél á þeim tíma (Leica M10). Svo eru myndir af honum sem hann tók ekki sjálfur en það hver tók þær myndir er víst aldrei gefið upp í bókinni. Ljósmyndarar hafa keppst við að drulla yfir þessa bók af ýmsum ástæðum og ég verð að viðurkenna að mér var pínu skemmt yfir þessum bókardómi hér, sem er aðeins fyrri helmingur af ítarlegri níðdómi. Ég nenni ekki að sjá seinni helminginn, þetta dugar mér.
Aumingjans strákurinn. Stórfyrirtæki mættu alveg íhuga hvað þau eru að gera krökkum þegar þau ginna þau út í að prenta peninga handa sér með þessum hætti.
Nú þegar skammur ljósmyndaferill hans er yfirstaðinn, ferill sem otað var að honum eins og hugmynd sem hann aldrei hefði fengið sjálfur, þá ætlar hann víst að reyna fyrir sér sem kokkur. Ég vona innilega að honum gangi það vel þó að mig gruni að fáir muni verða til þess að vilja smakka matinn hans.
Ég man þegar bloggið var að byrja um aldamótin hvernig umræðan var. Nú væri fólk farið að skrifa opinberlega um sturtuferðir sínar, tíðahvörf og tíðindalausar ferðir á dekkjaverkstæði. Þetta þótti sprenghlægileg sjálfhverfa enda augljóst að enginn hefði áhuga á að lesa svoleiðis leiðindi.
Auðvitað var margt misjafnlega skemmtilegt skrifað á bloggsíður þá eins og nú, rétt eins og alstaðar annarsstaðar þar sem fólk tjáir sig. Kannski fólk ætti bara að halda kjafti og vera filtersætt á Instagram frekar en að taka af allan vafa um innihaldsleysi lífsins, taka nokkur góð dökkfeis við Dynjanda?
Mér varð hugsað til þessarar kröfu sem þá heyrðist, fyrir um 23 árum, að það sem bloggið helst skorti væri innihald. Það þyrfti eitthvað meira, kannski ekki djúpar akademískar pælingar en í það minnsta eitthvað meira krassandi en óumbeðnar fréttir úr snittuboðum og tæknisögulegar skemmtisögur af muninum á túr- og retúrofnum, og helst eitthvað sem samræmst gæti stílfagurfræði Morgunblaðsins. Þessi nýfæddi skratti var þó fljótur að éta ömmu sína og innan fárra ára var Moggabloggið fætt. Þar gat hver sem er bloggað um fréttir þannig að skoðanir þess birtust inni á fréttavefnum sjálfum. Andri Snær líkti þessu við að fá dagblaðið útkrotað inn um lúguna, eftir að hafa fyrst farið rúnt milli nágrannanna.
Þar vantaði heldur ekki hversdagslegar færslur enda orðið alvanalegt að tjá sig um allt og ekkert á opinberum vettvangi. Mér finnst stundum eins og samfélagsmiðlanotkun töluvert margra kynslóða hafi mótast af tilkomu þessa leiðindafyrirbæris sem Moggabloggið var (og reyndar er, þó það fari lítið fyrir því núorðið). Það segir líka töluvert um Facebook að þar sést ekki ungt fólk. Þar er enda ekkert að sjá nema eitt af þrennu:
Stjórnmálatengd öskurapakattalæti
Hvunndagssögur (stundum í öskurapastíl)
Tilþrif í einkalífinu
Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að samfélagsmiðlar séu eitur, en þó að ég hafi kannski helst hætt á Facebook af fyrstnefndu ástæðunni (þó margar fleiri ástæður megi telja), er þetta síðasttalda ef til vill mesta eitrið. Á níunda áratugnum voru góðborgarar lafhræddir við hlutverkaspil en nútildags ganga samfélagsmiðlarnir einna helst út á að leika uppdiktuð hlutverk, bara mun leiðinlegri hlutverk en Drekar og dýflissur buðu upp á.
Oftnefnt dæmi er ofurmamman sem er búin í ræktinni áður en krógarnir eru skriðnir á lappir og er þá þegar tilbúin með vel útilátinn morgunverð, skutlar krökkunum svo í leik- og grunnskóla, fer svo að forstjórast í verðlaunanýsköpunarfyrirtækinu sínu, tekur hádegisverðarfund með Félagi kvenna í atvinnulífinu á Apótek, og er á dularfullan hátt alltaf með tandurhreint heimili, þriggja rétta kvöldverð og fullkomin englabörn sem aldrei kasta grjóti oní skurð. Þá eru ótaldar fjallgöngurnar, brönsin, Jakobsvegirnir, selfístundir með vinkonum á happy hour á Snafs, dásamlegu utanlandsferðirnar og allt þetta hitt sem lætur okkur hinum líða illa með sjálf okkur.
Um þetta fjalla Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir og gamla skólasystir mín Helga Lára Haarde hvor í sínu lagi í Vísi. Í dag er svo viðtal við þær um þau skaðlegu áhrif sem af því hlýst að vera sífellt að bera sig saman við aðra á samfélagsmiðlum. Ég vona að sem flest lesi þetta. Samfélagsmiðlar eru skolli lúmskt eitur, því í grunninn sjáum við myndir og texta sem lýsa hamingjusömu lífi ósköp venjulegs efrimillistéttarfólks. Og jafnvel þótt við þekkjum kannski ekki margar ofurtýpur af því tagi sem lýst er að ofan, þá safnast stakar færslur okkar mörghundruð facebookvina saman í heildarmynd sem merkir einfaldlega að þú ert sorp með allt niðrum þig, meðan allir aðrir eru normal hamingjuhrólfar, blómálfar og meistarakokkar með eigin atvinnurekstur. Þá hættir fólki til að reyna að vera eins og ofurfólkið á samfélagsmiðlunum, en áttar sig ekki á því að meintu ofurfólki líður svona líka. Keppni í að lifa sem innihaldsríkustu lífi á internetinu gerir tæpast mikið fyrir raunverulegt líf þeirra sem þykjast lifa því.
Fólk vill eðlilega helst draga upp sem besta mynd af sjálfu sér en það getur haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd annarra. Gömul skólasystir hleypur upp og niður Esjuna tíu ferðir á dag (og ekki bara upp að Steini), en þú kemst ekki nema másandi upp tröppurnar að Akureyrarkirkju. Svo rennur til dæmis upp einhver skáldaður dagur tileinkaður feðrum og allir keppast við að setja inn krúttlegar myndir og lýsa margslungnum sönnunargögnum um að þeirra pabbi sé sá besti sem til hefur verið. Það er að segja, allir nema einmitt þín börn.
Það getur verið erfitt að minna sig á að það sé nú ekki alveg satt þegar þetta er það sem blasir við manni á hverjum degi. Að líf annarra sé betra en þitt. Fyrir utan svo öskrin úr apahellinum sem sýna eiga að allir vita betur en allir aðrir hvernig hlutirnir eigi að vera. Svo hoppar upp auglýsing fyrir Skógarböðin og þú fattar skyndilega að frændi þinn var að deila henni í von um að vinna ókeypis aðgang að sundlaug sem er 500 kílómetrum frá heimili hans. Næsta færsla fyrir neðan er frá mömmu; hana langar að vinna rafknúið sláttuorf, þó að hún búi á Hrafnistu. Þín eigin fjölskylda er endurgjaldslaust orðin að gangandi auglýsingastofu.
„Þetta er voðalegur tímaþjófur,“ segirðu á kaffistofunni, en veist innst inni að þú getur ekki hætt. Hætt að lesa um hvunndagsleiðindi annarra. Costcoferðir og hvað það sé nú dýrt í Sky Lagoon. Gremjupósta vegna sorphirðumála í Grafarvoginum („þetta fólk í ráðhúsinu hefur nú aldrei komið austur fyrir læk“), sem einhver einn eða tveir eru ósammála („mér finnst nú sorphirðan alveg til fyrirmyndar hérna í Feykifold“). Máfafaraldur í Sjálandshverfi og rottufaraldur í miðbænum (nei, hin sortin af rottum). Jón Örn orðaði þetta hvað best þegar hann sagðist ekki geta hætt á Facebook vegna þess að þar væri spjallvefur húsfélagsins.
Ekki svo að skilja að ég ætli mér að hræsna með því að gagnrýna fólk fyrir að nýta sér samfélagsmiðla. Ég var mjög virkur á Facebook þar til í nóvember síðastliðnum þegar mér varð loksins nóg boðið sakir stöðugs áreitis og múgæsings, ekki svo mjög vegna hvunndagsfærslna um fermingar og kisuna Táslu (ef það er eitthvað sem ég sakna þaðan, þá væri það einmitt það). Svo er ég ennþá á Instagram en á að vísu ekki í öðrum samskiptum þar en að setja inn ljósmyndir sem ég tek, skrifa aldrei neitt.
Nei, ég skrifa þennan langhund meira í viðleitni til að hugsa upphátt á þessum vettvangi, sem fyrir furðulega mörgum árum þó skammt virðist síðan hlaut ákúrur fyrir að vera leiðindapleis fyrir plebba með sýniþörf. Nú er kominn annar vettvangur fyrir slíkt nema nú eru þar nánast bókstaflega allir. Mér finnst það í senn pínu fyndinn umsnúningur en jafnframt umhugsunarverður. Í sjálfu sér þykir mér það gott að fólk sé orðið minna feimið við að tjá sig opinskátt um líf sitt og líðan, sorgir og sigra. En mér þykir líka skringilegt að sjá megnið af þessum hversdagsfærslum snúast upp í auglýsingar með hinum og þessum hætti. Ég nefndi við einhvern nýverið að ég íhugaði að halda upp á fertugsafmælið mitt í haust og var þá spurður hvernig ég ætlaði að fara að því að bjóða fólki í það, eins og það sé yfirhöfuð ekki hægt nema á Facebook.
Hvernig ætlarðu eiginlega að komast til Ísafjarðar ef þú átt ekki öfluga gormaskó? Til Tene nema að eiga loftbelg?
Ég myndi vilja óska þess að bloggið sneri aftur af krafti, að fólk skrifaði hingað út á netið í samfelldu, ígrunduðu máli, heldur en í fljótfærni og örsneiðum inn í lokaða auglýsingamaskínu jafnaldra míns í Kaliforníu. Það er ekkert sem bendir til þess að það sé raunhæft eins og er, að sú breyting geti orðið. En það væsir heldur ekki um einsetumenn eins og mig hérna úti í óbyggðum internetsins.
Ég fór allt í einu að velta fyrir mér hvenær sautjándi júní yrði. Þá mundi ég að hann er löngu liðinn. Það hefur bara ekki verið neitt til að minna á sumar hérna í ár svo ég pældi ekki mikið í því fyrr en núna.
Fór út að ljósmynda í dag og miðbærinn var steindauður. Svolítið eins og í kringum aldamót, nema nú voru þessar örfáu hræður allar erlendir ferðamenn. Flestir staðir lokaðir og fólk sat eins og illa gerðir hlutir í rigningunni, ekki alveg með á hreinu hvað væri hægt að gera í þessum undarlega bæ. Svarið er auðvitað það sama og það hefur alltaf verið: óskaplega fátt. Ungir grétu; aldnir gnístu tönnum. Fólk svo þjakað að það gat ekki beðið eftir að komast heim til Coventry.
Eldri karlmaður var vakinn upp af örvæntingu sinni, að hann hefði sólundað öllu sparifé sínu í þennan makalausa áfangastað, eins snauðan og hann er dýr, óvænt þegar hálfétið pylsubrauð ´féll af himnum ofan í höfuð mannsins, eins og sending, úr kjafti máfs. Maðurinn tók pjönkur sínar og gekk burt hægum skrefum, bugaður, og kvað svo lágt fyrir munni sér að ég varla greindi það:
Flúinn er dvergur, dáin hamratröll,
dauft er á himni, lítið norðurljósa …
Til allrar hamingju var bókabúð beint fyrir framan þar sem sumir leituðu skjóls í eins miklum skröksögum um menningu víkinga og þeir gátu í sig látið. Gæti ég endurgreitt ykkur öllum ykkar hörmungarför, kæru vinir, þá glaður gerði ég það. En ég er víst aðeins efnalítill kennari hér á þessari sömu eyju sem hrafnar fundu en máfar numu. Svona er nú lífið grimmt. En þetta fólk svindlar víst ekki á sér sjálft; það yrði aðeins einhver annar til þess ef við yrðum ekki fyrri til.
Fólk álpast hingað líka í von um að sjá hvali synda í fallegum vöðum en er allt eins líklegt til að sjá ríflega áttræðan karl taka þá í sundur með skutlinum sínum. Ekki veit ég hvað þessi hveli hafa gert honum, ef til vill drepið pabba hans sem lét hann lesa Moby Dick aðeins of oft, en stundum held ég að þessi gamli maður sé ef til vill langreyður (þarna sjáið þið að y skiptir máli, sama hvað sumir segja).
Gneistinn bloggar skemmtilega um Stephen King sjónvarpsmyndina The Langoliers (hvað í fjandanum sem það orð á nú að merkja), sem hann hefur ekki séð og vill ekki sjá, og tilraunaútgáfu af sömu mynd sem er sérlega áhugaverð. En hann hefur lesið nóvelluna sem er meira en ég hef gert.
Ég sá The Langoliers á Stöð 2 forðum daga þegar hún var ný, nema hún var sýnd í tveim hlutum eins og þá var algengt. Nútildags þykir hins vegar ekkert tiltökumál að gera mynd eins og Oppenheimer sem er töluvert lengri en báðir helmingar The Langoliers samanlagðir. En ég sá aðeins fyrri hlutann. Það liðu mörg ár áður en ég náði að klára myndina, og seinni hlutinn olli mér töluverðum vonbrigðum.
Plottið í myndinni er eins flott og þau verða. Flugfarþegar ranka við sér af værum blundi og allt fólkið sem ekki svaf er horfið úr vélinni. Flugstjórinn sömuleiðis og varaflugstjórinn, en til allrar lukku er annar flugstjóri meðal farþega sem ekki hvarf svo hann getur lent vélinni, að sjálfsögðu á flugvellinum í Bangor í Maine þar sem höfundur sögunnar sjálfur bjó, þó að vélinni hafi upphaflega verið stefnt til Boston. Skýringin á því meikar núll sens fyrir okkur sem erum ögn kunnug landafræði austurstrandarinnar og skiljum þá staðreynd að það breytir engu á hvorum vellinum er lent þegar það er ekkert fólk til á jörðinni. Sagan hummar alveg yfir þessa ákvörðun flugstjórans og veitir engar skýringar á því, enda er þetta fyrst og síðast til að keyra áfram þann hluta plottsins sem snýr að leiðinlegum kaupahéðni sem er á leið til Boston til að fremja bisnessseppuku. Hann auðvitað eipsjittar yfir því að eiga að lenda í Bangor frekar en Boston. Það að einhver vilji alls ekki fara til Bangor er sennilega raunsannasti hluti sögunnar. Þessi kaupahéðinn er vel að merkja leiðinlegasta persóna myndarinnar og alveg ferlega illa leikin, af sama gaur og lék kókaínfíkna lögmanninn í True Romance (þar stóð hann sig betur, og hann deyr líka í þeirri mynd ef einhver var forvitinn).
Þau lenda í Bangor og átta sig fljótt á því að ekkert virkar. Samlokurnar í fríhöfninni bragðast eins og pappír, bjórinn er flatur, og þá rennur upp fyrir þeim að ef þetta sé tilfellið, þá muni flugvélabensín ekki brenna heldur. Þau eru föst, og það eru hrikaleg hljóð í bakgrunninum. Einhverjar verur, ábyggilega ekki ljúfar sem kanínur, eru að nálgast. Þarna endar fyrri helmingur myndarinnar og mér fannst þetta geðveikt, alveg fullkomið nánast. Kannski hefði þetta bara átt að enda þarna því seinni helmingurinn er eins leiðinlegur og hann er tilgangslaus. Allur seinni helmingurinn er rifrildi á flugvellinum meðan Langolierarnir nálgast, en svo fatta þau að þessi tímalausi dauði staður er öðruvísi inni í flugvélinni, þar sem er ennþá tími, og þar af leiðandi getur vélin enn brennt eldsneyti. Svo þau ákveða að fljúga af stað aftur og reyna að finna þetta tímahlið sem þau óvart flugu í gegnum.
Það sem er óþolandi er að þetta tekst þeim og allt endar vel. Nema þrír farþeganna drepast í tímalausa flugvellinum í Bangor. Áhorfandanum gæti ekki verið meira drull. Þetta eru illa skrifaðar persónur, sem er óvanalegt fyrir King. Eða kannski eru leikararnir bara svona ósjarmerandi og lélegir.
Tilraunaútgáfan af myndinni sem Gneistinn talar um er allt annað fyrirbæri. Hver einasti rammi í myndinni, og nú er ég ekki viss um hve marga ramma á sekúndu við erum að tala um hérna, er prentaður út í svarthvítu. Pappírinn næst krumpaður og krambúleraður á alls kyns vegu. Sagan er stytt umtalsvert svo hún er aðeins rúmur klukkutími, og síðan er tekin ljósmynd af hverjum ramma og þeim raðað saman eins og hreyfimynd. Stundum er pappírinn rifinn eða látinn krumpast til að tákna tilfinningar eða stemningu í myndinni, og allt bætir þetta töluverðri dýpt við upprunalegu myndina. Skyndilega verður þetta allt saman öllu áþreifanlegra, nauð persónanna raunverulegri um leið og öll áferð myndarinnar er óraunverulegri, draumkennd nánast.
Og það sem best er: endinum er breytt. Þau lifa ekki af flugið í gegnum tímahliðið, því þegar persóna Dean Stockwell (ó, Quantum Leap, hvað hétu þeir þættir aftur á íslensku?) áttar sig á því að aðeins fólkið sem svaf hvarf ekki síðast, þá fara hlutirnir öðruvísi en búast mætti við. Ef þau fljúga í gegn vakandi þá hverfa þau öll úr tilverunni, fattar hann og æpir yfir alla flugvélina. Ég man ekki hvernig þeim tókst öllum að lúlla sér í gegnum þetta í upprunalegu útgáfu myndarinnar, en í þessari gerð er of seint að afstýra slysinu og þau hverfa öll í óminni tímans. En af því að myndin var tekin eins og hún var tekin þá höldum við að allt muni bjargast, því allt stefnir að því. Svo nýi endirinn er ekki aðeins gjörbreyting, heldur hreinlega sjokkerandi. Svona eins og ef Tinni og félagar stæðu hlæjandi í lok þáttar og yrðu allt í einu plaffaðir niður af fjöldamorðingja. Þetta er það óvænt vending.
Allt í allt er The Langoliers mynd sem mér hefur þótt gaman að horfa á stundum, þrátt fyrir snubbóttan endinn og þá vanvirðingu við hina augljósu reglu að þegar skrímslið er of hræðilegt til að sýna það, þá skuli maður einmitt ekki sýna það. Þetta vígtennta kókópöffs í lokin fer alveg með myndina. En þessi furðuútgáfa af sömu mynd, The Timekeepers of Eternity, prentuð að því er virðist á laserprentara og síðan ljósmynduð, er stórkostlega merkilegt listaverk. Sagan verður ekkert betri þó hún sé stytt og allt það, nema fyrir endinn. Og þetta er mynd sem ég held að allir hryllingsunnendur ættu að bera sig eftir að sjá. Hin allra þolinmóðustu gætu svo viljað bera saman við upprunalegu myndina, en það er alger óþarfi held ég.
***Ekki er um að villast að hér á eftir fer efni sem spillt gæti Færeyinga sögu og The Wire fyrir fólki***
Skammt er síðan ég horfði á The Wire (ísl. Í heyranda holti) frá upphafi til enda og hafði ekki áður séð. Eins og svo oft fannst mér margt minna á Íslendingasögu í nútímanum. Það er sennilega ekkert frumlegt en ég fór að velta fyrir mér hvort það væri, einhvers staðar þarna í þessum mikla efniviði, einhver þráður fyrir mig að elta og ef til vill skrifa um. Kræsilegustu persónurnar til að líta til væru sennilegast Omar Little, Stringer Bell, Snoop (sýkópatastelpan með naglabyssuna; ég held að Stephen King hafi kallað hana óhugnanlegasta illkvendi allra tíma), og svo náttúrlega löggurnar sem jaðra stundum við að vera hálfu verri en krimmarnir (vont er þeirra ranglæti, verra þeirra réttlæti, eins og þar segir).
Í fimmtu og síðustu þáttaröð fannst mér þessi pæling byrja að ljúkast upp fyrir mér og það er enn margt fyrir mig að melta og ígrunda, og síðan þarf ég auðvitað að horfa aftur. En svona til gamans hér langar mig aðeins að bera saman Omar Little og Sigmund Brestisson. Meira skilur þá að en sameinar, en þetta síðarnefnda er samt að mér finnst skemmtilega hliðstætt.
Nálega frá upphafi sinnar sögu er Sigmundur í nokkurs konar útlegð ásamt Þóri bróður sínum, rétt eins og Omar Little stendur utan við valdastrúktúr undirheimanna, er sjálfs sín herra. Faðir þeirra og föðurbróðir höfðu þá verið vegnir af Hafgrími og handbendum hans, en meðal þeirra var Þrándur í Götu þótt hann aðhefðist ekkert sjálfur annað en að eggja til atlögu (hann kallar Hafgrím skauð, sem fyrir forvitna merkir allt í senn: forhúð á hestsgöndli, kvensköp, sverðsslíður, bleyða), og féll Hafgrímur sjálfur. Þrándur vill næst láta drepa drengina en þykist hafa verið að gantast þegar viðtökurnar verða dræmar og fóstrar drengina þess í stað. Nema hvað, hann sendir þá síðan á laun til Noregs svo þeir muni aldrei snúa aftur til Færeyja (með hvaða hætti sem það er gert, tekur hann fram, og við skiljum þegar) og greiðir silfur fyrir (kunnuglegt stef).
En aldrei skal láta annan fremja sín eigin ódæði og þiggjandinn er enginn Júdas, hann er meiri skógarhöggsmaður. Margt hefði Þrándur getað lært af Disneymyndinni um Mjallhvíti. Þrándur áttar sig heldur ekki á því að hann er persóna í sögu og því sé augljóst að bræðurnir snúi aftur og leiti hefnda. En það mun ekki fara eins og nútímalesanda er vant að búast við. Þetta er ekki Hrafninn flýgur (sem hefst á þeim spakmælum að vopn séu bitlaus gagnvart orðum, en snýst síðan mest um að halda kjafti og drepa sem mest).
Hvað um það, sagan segir síðan af ævintýrum Sigmundar Brestissonar í Noregi og víðar, sem bersýnilega er hið allra mesta hreystimenni sem nokkru sinni hefur komið úr Færeyjum og þó víðar sé leitað, öllum fremri í sérhverri íþrótt að undanskildum Ólafi Tryggvasyni Noregskonungi. Eftir heilmikinn hernað, sem af fara miklar frægðarsögur sem berast á undan Sigmundi heim, snýr hann loks sjálfur aftur, þreyttur á því að sér sé brigslað fyrir að hefna ekki föður síns. Omar mættur með haglarann út í Skúfey. Haglarinn í þessu tilviki er nýfundinn átrúnaður á Þorgerði Hörðabrúði, sem í ýmsum frásögnum er einhvers konar magísk tröllskessa eða vættur, og vernd Hörðabrúðarinnar er bundin í hring sem hann skyldi aldrei lóga. Hringurinn er haglarinn, en fram að þessu hafði Sigmundur aðeins trúað á mátt sinn og megin, eins og fleiri sagnahetjur fyrir kristnitöku. Omar trúir mest á sjálfan sig; haglarinn er bara verkfæri.
Sigmundur tekur til óspilltra málanna að brytja þá niður sem myrtu föður sinn og frænda og hefðu jafnvel drepið þá bræður einnig, hefði einn maður ekki staðið í vegi fyrir því. Þránd ætlar Sigmundur síðan að leiða til Hákons jarls til sættagerðar, sem Þrándi lýst vitanlega ekkert á því hvað veit hann hvað hans bíður þar. Munurinn á Sigmundi og Omar er að fyrrnefndi er heiðursmaður og ekki sérlega slyngur, en þó að Omar láti plata sig tvisvar svífst hann einskis og er iðulega mörgum skrefum á undan andstæðingum sínum. Fer svo á endum að Sigmundur eignast forræði yfir eyjum öllum og þjarmar nú mjög að Þrándi. Gerist síðan kristinn fyrir tilstilli Ólafs Tryggvasonar, heldur samt haglaranum og reynir að kristna Færeyjar en fær alla upp á móti sér fyrir tilstilli Þrándar. Fer svo í skjóli nætur með lið og lætur skíra Þránd með valdi og alla hans menn, en gætir hvorki að varnaðarorðum þess efnis að lifi Þrándur verði það hans bani, og að lógi hann ekki haglaranum verði það einnig hans bani.
Nú sér lesandi að það er fátt beinlínis sameiginlegt með Omar Little og Sigmundi Brestissyni, utan að þeir eru í andstöðu við gamla valdið og leita hefnda eftir sína. Að lokum hallar svo undan fæti hjá báðum og örlög þeirra beggja eru ekki einasta sjokkerandi og óvænt, heldur furðu lík. Að ýmsu öðru leyti minnir Sigmundur meira á Stringer Bell, sem telur sig réttan arftaka valdsins og unir engum mótbárum gegn fyrirætlunum sínum. Stringer trompast þegar undirmenn hans skilja ekki hvers vegna stjórn yfir götuhornum skiptir ekki í sjálfu sér máli þegar hann mætir með viðskiptafræðimódelið sitt á gangsterafund, eipsjittar síðan á Avon Barksdale með játningu á morði frænda hans til að virðast stærri maður, og þar með eru örlög hans ráðin. Sigmundur neitar að bæta morðið á Leifi Össurarsyni, sem framið var í hefndarskyni, enda hafi nú dauður jarl fyrir löngu ákveðið að hann skyldi óbættur — og þar ráðast örlög Sigmundar að endingu.
En víkur nú sögu aftur að gildrunni sem lögð er fyrir Omar og Sigmund. Omar hefur verið duglegur að hreinsa út greni andstæðinga sinna með haglarann á lofti og ber nú svo til að hann, ásamt föruneyti, brýst inn í blokkaríbúð á að giska á tíundu hæð eða svo, og situr þar lið fyrir þeim. Förunautar Omars eru vegnir við litla viðhöfn og Omar sjálfur er króaður af á bakvið sófa, kemur engum vörnum við, haglarinn hvergi í seilingarfjarlægð, og á um tvo kosti að velja: falla þar eða kasta sér út um glugga upp á von og óvon um að lifa af fallið. Þetta er dautt val, eins og kennari minn Róbert Haraldsson kallaði það í fílunni forðum daga. Óvinir hans hlaupa þegar að glugganum og sjá að Omar er horfinn, hvernig sem á því stendur.
Þrándur á hinn bóginn mætir með lið og brennir hús Sigmundar, en Sigmundur og Þórir bróðir hans hafa séð við þeim og eru ekki á staðnum. Sigmundur vegur einn úr launsátri en er á flótta og stendur loks, haglaralaus, við þverhnípi og getur sig hvergi varið. Þeir bræður kasta sér fram af hamrinum út í sjó og ætla sér að synda í burt. „Þar fóru þeir nú,“ segir Þrándur og er þeir leita Sigmundar og Þóris, þá finnast þeir hvergi.
Omar skakklappast enn um Baldinnamæri með sinn haglara eins og göngustaf („eigi skal haltur ganga meðan báðir fætur eru jafnlangir“, sagði Omar, er manna vígfimastur var þeirra er þá voru einfættir) og murkar enn lífið úr fólki. Fer síðan inn í sjoppuna sína gamalkunnu að kaupa sígó og prins póló, þegar drengur sem lítt hefur komið við sögu fyrr álpast inn í sjoppuna og ber á hann kennsl. Omar sér litla ógn í drengnum og ætlar sér að greiða fyrir góssið, en veit ekki fyrr en hann hefur verið skotinn af skömmu færi í höfuðið. Er þá Omar Little úr sögunni. Munið krakkar, að reykingar drepa.
Er þá að segja frá Sigmundi að honum skolar einum l´ífs á land í Suðurey eftir mikið volk í illskeyttu hafi, „og var þá svo máttfarinn að hann mátti eigi ganga og skreið upp í fjöruna.“ Af hendingu býr þar skammt frá einn af nótum Þrándar að nafni Þorgrímur illi (með svona viðurnefni þarf maður enga óvini) og synir hans tveir. Þeir drepa Sigmund varnarlausan þar í fjörunni, ræna líkið og fela.
Hér lýkur þessum samlestri að sinni. Það sem án vafa er óvæntast í Færeyinga sögu er að Þrándi þykir illt hvernig farið er fyrir frænda sínum sem hann þó sjálfur ætlaði að myrða, og beitir fjölkynngi til að komast að því hver muni hafa komið Sigmundi fyrir kattarnef. Í báðum sögum heldur pólitíkin áfram með sínum skærum í undirheimum Færeyja/Baltimore. Sæmdarvíg ganga áfram á báða bóga og að endingu er Þrándi steypt af stóli og nýtt fólk tekur við Götuhornunum.
Viðtakendur beggja sagna átta sig á því að það skiptir engu máli þó að einhverjum einum eða tveim skúrkum sé kálað, þeir spretta upp eins og gorkúlur eftir sem áður, og hið sama gildir um stjórnmálastéttina sem kynslóð eftir kynslóð lofar öllu fögru, vill útrýma skærum og glæpum en stendur svo valdalaus gagnvart sjálfri sér og kerfinu meðan samfélagið brennur. Starf hennar er tilgangslaust. Starf löggunnar er tilgangslaust. Það eina sem hefur tilgang er hver hefur töglin og hagldirnar á götunni eða í Götu. Það er eina fólkið sem kemst áfram í lífinu og hefur að einhverju að stefna, enda þótt lífið sé gjarnan stutt og dauðsmátinn ferlegur.
Síðast en ekki síst þá er enginn góður kall og enginn vondur kall, þetta er allt bara spurning um samhengi og hagsmuni. Það er nefnilega alveg rétt sem Hákon jarl varar Sigmund við þegar síðarnefndi kveðst vilja til Færeyja, að „hafið er torsóttlegt til eyjanna og brim mikið“; bara ekki í þeirri merkingu sem augljósust er. Ofbeldi getur af sér ofbeldi og Færeyjum verður ekki bjargað frekar en Baltimore. Þar stendur til þessa dags stytta af Þrándi í Götu, standandi keik á einhverjum illskiljanlegum ás sem kannski heimamenn einir skilja.
Ég hef líkt og flestir fengið minn skerf af undarlegum tilboðum sem fela í sér að ég vinni tiltekið verkefni fyrir aðila sem skilur ekki að fólk nenni ekki að sjálfboðaliðast kringum alla hans tilveru.
Eitt slíkt dæmi sem rifjast reglulega upp fyrir mér er þegar falast var eftir því að ég mætti á alþjóðlega kvikmyndahátíð og stýrði umræðum við tiltekinn leikstjóra eftir sýningu á nýjustu mynd hans. Nú eru slík verkefni alveg á mínu færi og sérsviði en ég hafði hvorki séð eina einustu mynd eftir umræddan leikstjóra né heyrt um viðkomandi fyrr.
Kjáni sem ég var að reikna með því að haft hefði verið samband við mig vegna fræðilegrar þekkingar á bókmenntum og kvikmyndum fór ég að telja upp hvers konar vinnu þetta myndi útheimta af minni hálfu:
Ég myndi þurfa að kynna mér verk viðkomandi leikstjóra í það minnsta sæmilega, svo ég yrði samræðuhæfur um fleiri myndir en þessa einu og gæti þar með dregið upp sameiginlega þræði í höfundarverkinu og greint í samræðu við leikstjórann.
Vitanlega þyrfti ég að eiga þess kost að sjá nýju myndina ekki sjaldnar en tvisvar og jafnvel oftar, því einkanlega yrði ég að hafa þokkalegt vit á henni.
Allt tæki þetta töluverðan tíma frá öðrum störfum mínum (mikilvægum, að mér fannst, en ekki verkbeiðanda), fyrir utan svo kvöldið sjálft í bíóhúsinu.
Svo ég spurði, eftir að hafa útlistað þetta allt saman, hvort það væri ekki þóknun fyrir viðvikið. Hvort það nú væri, maður: heill frípassi á kvikmyndahátíðina sjálfa. Umbunin fyrir verkefni sem tæki mig minnst þrjá heila vinnudaga var semsagt að fá mér að kostnaðarlausu að verja ennþá meiri tíma launalaust frá vinnu.
Höfum það alveg á hreinu að kvikmyndahátíð er ekkert annað en ráðstefna. Kvikmyndirnar sjálfar eru erindin og umræðurnar á eftir eiga að snúa um erindin og samhengi þeirra í listinni. Það er ábyggilega hægt að bjóða hvaða jólasveini sem er að stýra einhverjum yfirborðskenndum umræðum eftir bíósýningu, en ef þú biður fræðimann um að gera það þá gengur ekki að láta eins og kvikmyndahátíðin sjálf sé ekki vinna fyrir viðkomandi, hann mun alltaf nálgast þetta eins og ráðstefnu.
Maður mætir fjandakornið ekki á ráðstefnu, þó það heiti kvikmyndahátíð, til að blaðra innihaldslaust eins og Kolbrún Bergþórsdóttir í sjónvarpssetti, hvað þá að mæta nálega fyrirvaralaust á ráðstefnu sem maður hefur ekki sýnt nokkurn próaktífan áhuga á, til að þykjast hafa hundsvit á listamanni sem maður fær ekkert svigrúm til að yfirleitt kynna sér, til þess eins að fá ráðstefnugjöldin niðurfelld. Gjöldin á ráðstefnuna sem maður ætlaði sér ekki yfirleitt að mæta á, ekki síst vegna annarra verkefna (sem svo vill til að maður er í launaðri vinnu annars staðar við að sinna).
Það er ekki það, ég hefði svosem alveg þekkst boðið fyrir einhverja málamyndagreiðslu. En þessi aumingjans leikstjóri var tæpast kominn alla leið til Íslands til þess eins að vera afgreiddur svona billega eða af svo lítilli virðingu fyrir verkum hans. Sama þó svona hátíðir séu illa fjármagnaðar þá verður að vera einhver standard annar en sá að véla B.A.-nema í hinum ýmsu menningarfræðum til að kollast á sviðinu, um leið og það verður að vera kristaltært að fræðimenn hafa engan áhuga á því að taka kauplaust að sér störf annarra.
Svo eðlilega afþakkaði ég. Mér fannst ég heyra furðuna í þöglu innhólfinu hinum megin. Var auðvitað aldrei beðinn aftur og hef ekki saknað þess. Svo vegur enn salt innra með mér öllum þessum árum síðar, hvort ég eigi að vona að einhver góður hafi fengist í þetta launalausa verkefni leikstjórans vegna, eða að enginn hæfur hafi fengist prinsípsins vegna.
Mér hefur virst að almenna stemningin í þjóðfélaginu sé sú að fólki leiðast prinsípmenn og ítrekað rekið mig á það, svo kannski er það ég sem er fíflið í þessari sögu.
Mann setur hljóðan þegar Perlan í samkrulli við Samtök ferðaþjónustunnar kvartar til samkeppnisyfirlitsins undan því að Náttúruminjasafn Íslands ætli að setja upp sýningu á náttúruminjum „í beinni samkeppni við sig“. Er mönnum ekki sjálfrátt eða ultu þeir kannski á hausinn? Þarf einu sinni að útskýra fyrir fólki hve mikið eip þetta er? Jú, greinilega. Því þetta er álíka vitrænt eins og ef Víkingasögusafnið færi í mál við Þjóðminjasafn Íslands vegna „beinnar samkeppni“; ef einhverjum jólasveini áskotnaðist sautjándu aldar pappírssnifsi og færi í mál við Árnastofnun.
Íslenskar ríkisstofnanir hafa lagalegar skuldbindingar um miðlun upplýsinga til almennings. Það þó að einhver fígúra úti í bæ stofni fyrirtæki um sams konar fræðslu kemur hinu opinbera ekkert við, enda er sá rekstur alfarið á ábyrgð viðkomandi.
Fleirum virðist óskiljanlegt hvernig samspil ríkis- og einkarekstrar virkar. Til að mynda virðist ráðherra vísinda, nýsköpunar og iðnaðar telja að ríkið eigi að lágmarka kostnað af rekstri opinberra stofnana, til dæmis Háskóla Íslands, en verja þeim mun meiri fjármunum til stofnana í einkaeigu, til dæmis Háskólans á Bifröst (sjá t.d. hér og hér). Það hvarflar ekki að ráðherranum að hlutverk hennar er að halda úti opinberu menntakerfi fyrir alla og að aðrir rekstraraðilar á sama „markaði“ verði að sjá um eigin rekstur á eigin kostnað. Þannig virkar þessi kapítalismi sem ráðherrann þykist trúa á en gerir greinilega ekki. Auðvitað er jákvætt að framboð á háskólamenntun sé sem allra mest en ríkið ber aðeins skyldu gagnvart sínum eigin stofnunum. Það skýtur því skökku við þegar opinberar stofnanir sæta niðurskurði svo hægt sé að veita hærri styrkjum til einkaaðila.
Á Íslandi virðast sömuleiðis margir aðhyllast þau trúarbrögð að ríkið eigi alls ekki að reka sinn eigin fjölmiðil, en í nafni lýðræðis sé annað ómögulegt en að ríkið haldi einkareknum fjölmiðlum á lífi enda gætu þeir annars ekki rekið sig í svo smáu samfélagi, ekki síst sakir þess að rekstrarumhverfi fjölmiðla hefur gjörbreyst á internetöld. Á Íslandi er fyrirkomulagið nefnilega þannig að hver sá sem stofnar fjölmiðil virðist eiga heimtingu á opinberu fé til að halda rekstrinum úti ef fyrirtækið rekur sig ekki — og jafnvel þó það ræki sig með hagnaði. Það var lengi trú mín að kapítalismi snerist ekki síður um að fyrirtæki mættu fara á hausinn en ég hef greinilega haft rangt fyrir mér. Kapítalismi virðist fremur ganga út á að leggja niður ríkismiðilinn og verja sömu fjármunum í einkarekna fjölmiðla því enginn vill kaupa áskrift hjá þeim á hvorn veginn sem er.
Þá er einnig kvartað undan því að ríkisútvarpið sé „á auglýsingamarkaði“, sem eru merkingarlaus orð enda er sá markaður botnlaus hít. Ríkisútvarpið getur ekki hirt auglýsingatekjur af einkareknum miðlum vegna þess einfaldlega að ríkisútvarpið er hrein viðbót á auglýsingamarkaði. Fari RÚV út þá breytist ekkert fyrir hina sem eru eftir. Eins og svo margt annað er innihaldslaust sífrið um „samkeppni“ ríkisútvarpsins við aðra fjölmiðla ekki annað en einmitt það.
Bankar mega heldur ekki fara á hausinn, en því síður má ríkið reka banka; svo þegar bankar fara á hausinn neyðist ríkið til að kaupa bankana frá gjaldþroti til þess eins að selja þá aftur. Þessi lógík gengur bersýnilega upp í hausnum á ýmsu fólki á alþingi, þó að ýmislegt megi út á hana setja.
Hið opinbera hefur margvíslegum skyldum að gegna gagnvart íbúum ríkisins, til að mynda að halda úti grundvallaralmannaþjónustu. Undir það hlutverk fellur meðal annars rekstur safna, menntastofnana, heilbrigðisstofnana og ríkismiðils í almannaþágu. Þetta er gert af ótal ástæðum en ekki síst til þess að tryggja að óháð því hvernig fyrirtækjum reiðir af á almennum markaði, þá sé sú þjónusta alltaf til staðar fyrir alla sem hafa á henni þörf. Hlutverk hins opinbera er ekki að halda uppi fjárhagslega óburðugum einkafyrirtækjum sem sækja inn á svið almannaþjónustunnar, til að mynda með stofnun fjölmiðla, einkaskóla eða fræðslusýninga.
Gangi þeim aðilum sem allra best sem stofna fyrirtæki í samkeppni við almannaþjónustuna, en þeir verða að átta sig á að það er úr þeirra eigin ranni sem samkeppnin kemur, ekki af hálfu ríkisins. Hið opinbera ber því eðlilega enga ábyrgð á því hvernig þeim reiðir af. Ef þeirra er ágóðinn þá er áhættan þeirra sömuleiðis.