Ljóðabækur

Þá er að snúa sólarhringnum við. Hvað er betra að hafa fyrir stafni þegar þannig er ástatt hjá manni en endurraða í ljóðabókahillunni? Var með hillumetrana mína tvo alla í stafrófsröð en hef nú komið öllum nýrri bókum fyrir í ógeðslegu lerberghillunni minni, sem er hryllilegur geymslustaður fyrir allt nema kassa en verður að duga.

Á allskonar bækur sem mér hefur enn ekki auðnast að finna tíma til að lesa almennilega. Söng steinasafnarans eftir Sjón höfum við Jón Örn þegar gagnrýnt í Garðskálanum en ég hef enn ekki haft mig í að lesa hana almennilega. Ég stytti mér leið framhjá dauðanum hefur legið að hálfu óbætt hjá garði síðan síðustu jól. Sömuleiðis Glæpaljóð Guttesens frá í sumar. Svo finnst mér ég aldrei vera búinn að lesa bækurnar hans Steinars Braga sama hve oft ég les þær – sem raunar hlýtur að vera kostur. Tvær nýjar Nykursbækur hef ég fengið í hendurnar á síðustu dögum sem ég þarf að lesa sem fyrst: Fimmta árstíðin eftir Toshiki Toma og prósasafnið Vaxandi nánd eftir Guðmund Óskarsson, sem hlýtur að vera metnaðarfyllsta útgáfa Nykursskálds til þessa.

Af bókum sem ég hef nýverið lesið almennilega mæli ég með Wide Slumber For Lepidopterists eftir Angelu Rawlings, Blótgælum Kristínar Svövu, Fjallvegum í Reykjavík eftir Sigurlín Bjarney Gísladóttur og Þjónn, það er fönix í öskubakkanum mínum! eftir Eirík Örn Norðdahl. Allt stórgóðar bækur. Þá má ekki gleyma ljóðaantólógíunni 131.839 slögum með bilum. Mæli líka með henni. Fyrst ég er byrjaður þá mæli ég líka með Ljúgðu Gosi, ljúgðu, eftir Steinar Braga – sem er alger snilld – og fyrir þá sem fíla svarta ketti um nótt mæli ég með Í felum bakvið gluggatjöldin eftir Þórdísi Björnsdóttur.

Ef ég hef verið óduglegur að plögga bækur fyrir fólk má segja að því sé hér með komið til skila í bili. Þá er aldrei að vita nema einhver verði svo góður að plögga næstu bókunum mínum þegar þær koma.

Þetta hafa verið heilmikil orð yfir lítinn verknað. Þyrfti líklega að endurskipuleggja alla bókaskápana fyrst ég er á annað borð byrjaður, taka til á skrifborðinu og reyna svo að lesa eitthvað af ólesnu bókunum mínum svo maður geti allavega þóst vita hvað hefur verið á seyði í ljóðabókaútgáfu á Íslandi á þessu ári og því síðasta. Sem minnir mig á að ég uppfærði áðan listann yfir þær ljóðabækur sem mig vantar, en það hef ég aldrei gert áður. Listann má finna hér og þessar bækur má gefa mér, skipta á eða selja. Allar uppástungur eru líka vel þegnar í athugasemdakerfið neðst á listanum.