Bréf til Kolbrúnar

Ég á ekki sjónvarp. Þannig að meðan Kiljan rúllaði í gær horfði ég á þáttinn frá því vikunni áður á netinu.

Það var greinilegt að Kolbrún Bergþórs hefur lesið hugskeytið mitt um að hún myndi aldrei framar koma mér á óvart, og þarmeð svarað spurningunni um hvort við yrðum nokkru sinni sammála um einn einasta hlut, þegar hún lýsti því yfir að Bréf til Láru væri úreld – eitthvert samhengislaust röfl sem hún hefði fílað þegar hún var ung og róttæk, en ætti ekkert erindi við samtímann.

Ekkert erindi við samtímann! Hefur hún í alvöru lesið bókina? Ef Kolbrún var róttæk á yngri árum má andskotinn vara sig núna, því ég get ekki annað sagt en mér þyki þetta ansi róttæk afgreiðsla á einhverri merkilegustu íslensku bók síðustu aldar. Ekkert erindi við samtímann? Höfum við þá yfirleitt nokkurt erindi við samtímann?