Musteri hæverskunnar

Ég hvet lesendur eindregið til að hlusta á þennan merkilega hlaðvarpsþátt. Mér þykir ég raunar alveg skelfilega illa reprisenteraður, nýt nær engrar athygli þáttastjórnenda meðan Loðmfjörð, Guttesen, Norðdahl og Lilliendahl þiggja meiriháttar hýðingar. Í öllu falli hlýt ég að krefjast þess að fá meiri dagskrártíma síðarmeir.

Að því sögðu vil ég biðja þær tvær manneskjur sem keyptu Endurómun upphafsins á síðasta ári – á sama tíma og ég þakka fyrir tvöþúsundkallinn – vinsamlegast að yfirgefa maka sína, krjúpa frammi fyrir altari hæversku minnar og iðrast kaupa sinna. Bókin seldist svo illa síðasta árið að hún hefur nú verið fjarlægð úr búðum með öllu. Þær neita að höndla hana. Og það er ævarandi ljóður á ráði fólks að hafa keypt slíka bók.

Ég á kannski 70 stykki eftir af henni. Hvort ætti maður þá að semja uppá nýtt um dreifingu á henni – í von um að grunlausar sálir séu enn til sem vilji kaupa hana fullu verði – eða hreinlega gefa pdf-ið á netinu?