Enn af ritstjórum

Þessi umræða um Davíð Oddsson jaðrar við geðsýki. Sá sem telur það skipta sköpum fyrir Íslendinga hver ritstýrir hvaða málgagni ofmetur annaðhvort persónutöfra ritstjórans eða áhrifagirni fólksins í landinu, nema hvorttveggja sé. Fólk er ekki nautheimskir sauðir sem hleypur upp til handa sér og fóta af því Davíð segir eitthvað.

Samt er fólk þegar farið að hrópa nöfn einsog Ólafur Thors eða Bjarni Ben eða þvíumlíkt. Það vantar bara hómóerótískar lýsingar Kristjáns Albertssonar á Hannesi Hafstein yfirfærðar á Davíð Oddsson til að fullkomna sirkusinn. En Davíð Oddsson er hvorki Ólafur Thors né Hannes Hafstein. Það er engin reisn yfir því fyrir fyrrum forsætisráðherra og síðar seðlabankastjóra að verða ritstjóri Morgunblaðsins. Öðru nær eru það kaldhæðnisleg örlög að foringinn sem enginn þorði að andmæla sé skyndilega orðinn leiguþý fyrir stuttbuxnadeildina.

Hérna er maður sem rústaði hagkerfið, gerðist sekur um stríðsglæpi fyrir stuðning við tilhæfulaust stríð í fjarlægu landi, seldi Landssímann fyrir minna en tekjur fyrirtækisins á einum ársfjórðungi, seldi bankana þeim sem settu þá á hausinn, andmælti eigin peningamálastefnu undir eins og hann var kominn í Seðlabankann, aðhafðist samt ekkert og hrökklaðist loks úr embætti eftir að hafa brennt allar brýr að baki sér. En sá vegsauki slíkum manni þá að fá að verða ritstjóri Morgunblaðsins, enda þriðja valdamesta embætti landsins ef marka má suma!

Þegar þeir svo reka hann þaðan leikur hann kannski í auglýsingum fyrir Nýja Kaupþing. Slagorðið verður: „I didn’t do it!“ Svo skeyta þeir inn gömlu upptökunum af John Cleese að segja: „Köööööbþíggh,“ og allir sjá að þessi maður hlýtur að vera guð. Þegar það verður orðið gamalt verður hann daglegur gestur Björns Bjarnasonar á ÍNN þar sem þeir geta þusað saman um kaldastríðið, kommúnista og óreiðumenn. En þá verða Íslendingar vonandi farnir að hugsa um eitthvað annað en handónýtan feril Davíðs Oddssonar.

Að öðrum kosti legg ég til að Laddi verði gerður ritstjóri Morgunblaðsins.