Meira um stílæfinguna

Ásgeir Berg Matthíasson, úrvalsþýðandi, spekingur, launbróðir minn og consiglieri, hefur bent á tiltekin líkindi milli pistils Stefáns Fr. Stefánssonar á æðibunulega repúblíkanavefnum amx og stílæfingarinnar hér neðar á síðunni. Vitaskuld eru öll slík tengsl tilfallandi.

En ég vil endilega koma stórglæsilegum málflutningi Stefáns á framfæri fyrst ég á annað borð lét mig hafa það að garfa í þeim grautarpotti. Á einum stað segir hann um Ögmund Jónasson:

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, á hrós skilið fyrir að tala tæpitungulaust við BBC um Icesave, IMF og íslensk efnahagsmál. Þar talar hann máli Íslands betur en allir ráðherrar hafa gert í þessari lánlausu vinstristjórn, enda varla heyrst múkk í þessu liði á alþjóðavettvangi á meðan þörf hefur verið fyrir trausta forystu. Hann á eftir að verða skeinuhættur fyrir stjórnarparið þreytulega, Jóhönnu og Steingrím, í þessari rimmu – gæti orðið örlagavaldur þeirra.

Skömmu síðar segir hann um Össur Skarphéðinsson:

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sem hefur verið á flótta frá ástandinu og varla birst í íslenskum fjölmiðlum nema sem einhver váleg skuggamynd á bakvið Jóhönnu, talar hreint út og það við BBC af öllum fjölmiðlum. Kannski ágætt að íslenskur ráðherra tali loks við þá stöð.

Spurningarnar sem brenna á mér við lesturinn eru æði margar, en til að gæta velsæmis læt ég mér nægja að spyrja aðeins einnar: Nákvæmlega hversu illa gefinn er þessi maður?