Endurómun upphafsins

Af kápu: „Laust fyrir miðnætti varð piltinum ljóst hvað það var sem hann heyrði, óð tunglsins. Hann þusti út til að faðma að sér ljósdropana sem seytluðu niður úr himnunum en greip í tómt og allt missti marks.
Það var á efsta degi samkvæmt Greenwich Mean Time en hann var á Íslandi, sem enn var landfræðilegum klukkutíma á eftir. Tunglið stóð aftur á móti á kosmískum tíma svo bitförin voru þá þegar orðin greinanleg, en þau sá pilturinn ekki.
Fyrst féll myrkrið á Greenwich á miðnætti, svo dreyfði það úr sér til austurs. Allajafna hefði Ísland verið næst en þann dag var heimurinn öfugsnúinn. Mitt á milli alþjóðlegu dagalínunnar og Greenwich var pilturinn þannig svo lánsamur að deyja ekki fyrr en deginum eftir Ragnarök.
Og meðan heimurinn snerist upp í andhverfu sína stóð hann í tunglsljósi og glímdi við ritstíflu sem bjargað gæti heiminum, með einungis örfáar mínútur til stefnu …“
Bókina má lesa endurgjaldslaust hér.
Hér má hlusta á viðtal við mig sem birtist í Víðsjá í tilefni af útgáfu bókarinnar.
Davíð Stefánsson um Endurómun upphafsins (fréttatilkynning):
„Það eru ó! í þessari bók. Og þau eru ekki sett fram í hæðni hrútspungsins eða annarra súrsaðra kynfæra heldur í fúlustu alvöru; þau eru mælt fram vegna þess að ó! er vel fram mælanlegt og gjaldgengt til tjáningar. Þarna eru líka blóm, og hrafnar, og stjörnubjartur himinn, og sólstafir, og röðulgeislar – hellings aragrúi af fallegum fyrirbærum sem fáir skilja lengur, í raun og veru.
Samt er Endurómun upphafsins ekki rómantísk bók, ekki í þeim skilningi að allt skuli dýrkað sem fagurt er, bara vegna þess og þess vegna. Hún er hálf-rómantísk, þannig, að í stað þess að sneiða framhjá því sem kalla mætti eðlislæga þörf manneskjunnar fyrir rómantík og fagurfræði tekur hún á þessum fyrirbærum og kljáist við rómantískar tilhneigingar sem eru illa gjaldgengar í „tough-love-bling-bling-pow-wow“ heimi. Hér fer fram tveimur lýsisglímum samtímis – í annarri slæst Arngrímur við hefðina með samtímann að vopni og í hinni berst Vídalín við samtímann með rómantískan kuta. Enn hefur enginn farið með sigur af hólmi, þótt á halli.
Við höfum stigið langt inn í heim sýndarveruleikans, og þá gildir einu hvort við blekkjum okkur til að halda að heiminn sé að finna í raunveruleikasjónvarpi eða í ljóði – allir staðgenglar rjúfa tengslin við hinn raunverulega heim, eða, öllu heldur, afmá skilin á milli raunveruleika og skáldskapar. Hvar erum við? Hver erum við? Hvert förum við?
Ljóð eru ekki frumheimild um heiminn. En ljóðabókin sem hvílir á fingrum mér er ári góð – vel ígrunduð og falleg átakabók, ekki hispurslaus (enda eiga ljóð ekki að vera hispurslaus) heldur lúmsk og undirförul, í jákvæðasta mögulega skilningi þeirra orða.“
Í draumum liggur fallið – ritdómur Þórdísar Gísladóttur (kistan.is):
Arngrím Vídalín Stefánsson, sem nýlega sendi frá sér ljóðabókina Endurómun upphafsins, held ég að óhætt sé að kalla ungskáld með góðri samvisku, en Arngrímur er fæddur árið 1984.
Bók Arngríms samanstendur af 65 ljóðum sem skipt er í þrjá hluta. Fyrsti hlutinn hefur inngangsorðin „Í upphafi var ljóðið….“ en einkennandi fyrir þennan hluta bókarinnar er orðræða um sköpunina. Fyrsta ljóðið (og svo kom þögnin / genesis) lýsir fæðingu lífs sem kviknaði af ljóði. Textarnir sem á eftir koma eru náttúrustemningar, oft dálítið draumkenndar og rómantískar.
Þema annars hluta bókarinnar er ástin í ýmsum myndum en ekki síður óttinn við höfnun og missi og þá sorg sem gjarna er fylgifiskur fyrstu ástarinnar. Þarna kemur rómantíska skáldfíflið við sögu og náttúran leikur áfram stórt hlutverk.
Síðasti hluti bókarinnar höfðaði best til mín en þar er missir tengsla áberandi þema. Fólk missir tengsl við upprunann og sjálft sig um leið. Ástin er sem fyrr alltaf í návígi en þarna er angurværð áberandi og drungalegir hrafnar sveima yfir.
Arngrímur sækir töluvert í íslenskan bókmenntaarf. Þórbergur og Jónas eru í bakgrunni en einnig er vísað í goðafræði og Biblíuna. Það er töluverður snjór í þessari bók, talað er um fannbreiður hugans og grasið er snævi þakið en einnig finnur lesandinn fyrir gusti sunnanáttar og sér sólstafi og dögg á júnímorgni. Draumar, þrár og vonir eru áberandi, stundum kannski tómar óraunhæfar hillingar.
Í upphafi stendur að bókin sé tileinkuð einhvers konar Paradís og voninni um að finna hana. Þetta hljómar óneitanlega rómantískt og vissulega eru mörg ljóðanna draumkennd. En mér finnst ekki síður hægt að segja að Arngrímur afbyggi rómantíkina, höfnun og sorg eru sjaldnast langt undan og mælandinn veit að hann er hugsanlega að reyna að fanga eintómar hillingar.
Útlit og umbrot bókarinnar gleður augað. Kápan er á allan hátt aðlaðandi og textann á bakhliðinni, sem vel má telja síðasta ljóðið eða jafnvel það fyrsta ef svo ber undir, er gaman að lesa. Myndskreytingar Fífu Finnsdóttur koma líka sérlega vel út.
Um daginn sagði eitt af virtari og þekktari skáldum Íslands í útvarpsviðtali eitthvað á þá leið að ekki væri hægt að gera útdrátt eða segja neitt af viti um ljóð með því að ætla sér að segja um hvað ljóðabók fjallaði. Það kann töluvert að vera til í þessu en þó finnst mér sjálfsagt að reyna að nálgast og kynna texta ljóðabóka með því að segja frá efninu.
Arngrímur Vídalín Stefánsson hefur sent frá sér bók með dálítið heillandi gamaldags en um leið ungæðislegum tóni, sem gefur fyrirheit um að einhvers meira og ennþá dýpra sé að vænta frá honum þegar fram líða stundir. Hér er á ferðinni fyrirtaks mósaíkverk. Þegar allir bútar eru komnir á sinn stað má vel hugsa sér ljóðin mynda lymskulegan orm sem nartar í skottið á sjálfum sér.
Harpa Jónsdóttir, rithöfundur, um Endurómun upphafsins:
„Bókin sem ég keypti heitir Endurómun upphafsins eftir yngissveininn Arngrím Vídalín Stefánsson […] Það væri líka freistandi að segja eitthvað í áttina að: ,,mikið assgoti er hann ebbnilegur strákurinn“ eða ,,hann á nú eftir að ná langt þessi“, en það væri hvorki rétt né sanngjarnt. Því að þó að Arngrímur sé bæði efnilegur og eigi eflaust eftir að ná langt þá er Endurómun upphafsins alvöru bók sem stendur alveg sjálf hér og nú en ekki aðeins sem forsmekkur eða fyrirboði að einhverju sem koma skal seinna. Og Endurómunin er ansi hrein góð. Mér finnast náttúrljóðin best og (haustkoma) fannst mér sérlega sterkt og skemmtilegt. Sum ljóðin fundust mér full rómantísk við fyrsta lestur, en svo þegar ég las þau aftur daginn eftir voru mörg þeirra bara falleg og ég hugsaði hvað ég get nú stundum verið harðsvíruð kerling. Andi bókarinnar er samt rómantískur og fallegur, þrátt fyrir að heimsómi og náttúruspjöll fái á baukinn.
Svo ég fari nú í jólagjafahandbókargírinn þá mæli ég með þessari bók í pakkana. Ekki síst handa ungu hugsandi fólki. Alveg rakið handa stóra frænda/frænku sem þig langar að gefa eitthvað smávegis en þú hefur bara ekki hugmynd um hvað, tilvalið handa kærastanum/kærustunni og ljóðaunnendum á öllum aldri.“
Stjörnuvals á röngum snúningi – ritdómur Sigurðar Hróarssonar (Fréttablaðið):
Sjá nánar hér.