Suttungamiði skilað

Suttungamiði skilað var grín sem gekk of langt. Í fyrstu prentaði ég 10 eintök og gaf vinum og vandamönnum. Yrkisefni ljóðanna var allt ámóta lítilfjörlegt, tilgerðarlegt og melódramatískt, skrumskæling á hinu og þessu sem ég var látinn lesa í bókmenntasögutímum í MS. Áður en ég vissi af var orðin til eftirspurn eftir kverinu og á endanum voru eintökin orðin hundrað. Ég viðurkenni það góðfúslega að allt efni í bókinni er óvandað drasl.
Kápuna af Óðni gubbandi hannaði Aðalsteinn Atli Guðmundsson. Útgefandi bókarinnar var Málfundafjelag vinstrisinnaðra ungskálda, óformlegur félagsskapur sem ég stofnaði utanum slíka óformlega útgáfu. Mér vitandi kom aðeins ein önnur bók út undir þeim merkjum áður en það lognaðist útaf. Nafn félagsins rétt einsog nafn bókarinnar gefur vísbendingu um hversu alvarlega við tókum okkur.
Úr bókinni:
Dæmisaga II
Eitt sinn var maður,
sem stóð við vegkant,
og seldi drauma í dós.
En fór á hausinn,
því verðið
var algjör martröð.