Live at Wembley

Út er kominn (kominn út úti en ekki kominn inn í þetta land held ég) er Live at Wembley dvd diskur. Þetta voru ekki síðustu tónleikar Queen, einir 10 tónleikar sem þeir spiluðu á eftir þessa í Magic-túrnum. Þetta eru hins vegar síðustu tónleikarnir í borginni sem Queen var stofnuð í. Tveir tónleikar í röð, seldist upp á báða um leið, 150.000 miðar fóru einsog skot. Að vissu leyti má segja að það sé erfitt að velja milli þessara tónleika og tónleikanna í Búdapest sama ár. Ég á Búdapest á video þannig að ég er sáttur við valið.

Þessi dvd diskur er líka fyrsta tækifærið sem maður hefur til að sjá óklippta Queentónleika, yfir tveir tímar að lengd. Aukaefnið er líka áhugavert og vel þess virði, heimildarmynd, viðtöl og hápunktar hinna tónleikanna á Wembley.

Merkilegt hvað þetta lítur vel út enda hafa þeir sem sjá um þessi mál fyrir Queen staðið sig einsog algerir hálfvitar í dvd útgáfu (og flestu öðru reyndar). Minningartónleikarnir um Freddie slepptu öllum hljómsveitunum sem spiluðu einar (án þess að Queenmeðlimir spiluðu með), G’n’R var sleppt, Metallica líka og síðast en ekki síst var Extreme sleppt. Extreme eru einir um að keppa við George Michael um atriði kvöldsins, þeir voru alveg frábærir.

Greatest Video Hits diskurinn var svosem ágætur, ægilega aumt „easter egg“ á honum (örlítið öðruvísi útgáfa af Bo Rhap myndbandinu) og í raun færri myndbönd en voru til dæmis í Greatest Flix boxinu. GVH diskurinn var hins vegar með frábært aukaatriði þar sem Brian May sýnir hvernig lagskiptingin í Bo Rhap er samansett, ef maður efaðist um að Freddie væri snillingur áður en maður sá það þá hvarf allur vafi eftir á.

Ég veit hins vegar að þessir menn geta gert hlutina rétt og vel. Freddie „boxið“ er merki um það. Ég efast um að glæsilegr minjagripur um nokkurn tónlistarmann hafi komið út. Tíu geisladiskar með nær öllu efni sem hægt var að komast yfir, viðtölum, ólíkar útgáfur laga eftir því hvernig þau þróuðust, heil bók um Freddie með glæsilegum myndum og síðast en ekki síst tveir dvd diskar með myndböndum og heimildarmynd. Það var allra mörgu krónanna virði.

Ég bind vonir við betri tíð, ég veit að það er verið að vinna í Queen „boxum“ sem verða svipuð því sem kom út um Freddie, mikið efni er til óútgefið eða sjaldgæft (hef heyrt mikið af því og það er vel þess virði að gefa út).