Hvaða áhrif hefur faraldurinn á mig?

Þetta eru undarlegir tímar. Ég dró mig aðeins fyrr í hlé en aðrir af því að ég hafði áhyggjur af því að astminn minn gerði mig viðkvæmari fyrir veirunni. Lukkulega virðast þær áhyggjur ekki á rökum reistar (þó erfitt sé að vita nokkuð fyrir víst) en ég var byrjaður að fresta því að hitta fólk áður en staðfest smit komu fram á Íslandi.

Það er orðið töluvert langt síðan ég tók upp þátt af hlaðvarpinu mínu Botninn. Önnur plön í Kistunni eru líka í biðstöðu. Það er enginn spenntur að borga fyrir aðgang að upptökuveri í þessu ástandi.

Ég hef hins vegar afrekað að taka upp tvo þætti af Stories of Iceland hlaðvarpinu mínu. Það er alltaf mikið niðurhal á þeim þáttum og það er alveg smá peningur að koma inn í gegnum Patreon.

Ég var líka rétt byrjaður að stofna einkahlutafélag um reksturinn minn – Gneistinn – menningarmiðlun ehf. – og þó kennitalan sé komin þá er ég ekki einu sinni búinn að stofna bankareikning. Ekki bara til að forðast fólk heldur vantaði mig tóner í prentarann og það var merkilega erfitt að redda því.

Ég er að vinna í 2-3 spilahugmyndum sem ég ætti að geta klárað fyrir sumarið þannig að þau komi út fyrir jól en ég er svolítið frosinn eins og er. Ástandið í þjóðfélaginu er þannig að maður veit ekki hvort það sé góð hugmynd að keyra hugmyndir áfram.

Ég hélt að ég gæti fljótlega farið að borga sjálfum mér reglubundinn laun – frekar en reiknað endurgjald – en maður veit ekkert hvaða áhrif ástandið hefur. Það lítur út fyrir að þetta hafi ekki verið góður tími til að hætta í öruggu starfi og byrja að byggja upp rekstur.

Mér fannst vanta uppbyggilega afþreyingu fyrir fólk á þessum tímum þannig að ég gerði alvöru úr því að endurvekja prófarkalestur Rafbókavefsins. Eftir á fór ég að pæla að á sama tíma voru ótal fyrirtæki að setja upp vefverslanir. Það er verkefni sem reynir á sömu kunnáttu og að setja upp vefþjón fyrir Rafbókavefinn fyrir utan að vefverslanir eru kerfi sem sett eru upp á hverjum degi um allan heim þannig að það eru til miklar og góðar leiðbeiningar fyrir svoleiðis á meðan ég var líklega sá fyrsti sem setti upp þessa útgáfu af DP-kerfinu. Ég er ekki endilega góður að græða peninga á hugmyndum mínum og hæfileikum.

Fyrir svona viku ákvað ég að klippa mig og snyrta skeggið. Eitthvað var einbeitingin léleg þannig að ég náði að raka of mikið af. Það endaði með skeggi sem var styttra en það hefur verið í ótalmörg ár. Lukkulega þarf enginn að sjá þetta nema fjölskyldan. Strákunum fannst þetta ekki gott lúkk. Þar sem ég hafði verið að grínast í Gunnsteini, sem missti tönn, með því að syngja „Hann er tannlaus greyið“ fór Gunnsteinn að syngja fyrir mig „Hann er skegglaus greyið“. Ég bætti við eitthvað á þessa leið „skeggið hann missti rakstursslysi í“.

Stóra spurningin sem við höfum spurt okkur á heimilinu er hvort við höfum kannski fengið vírusinn. Allavega gekk yfir alda hóstandi fjölskyldumeðlima. Var það vírusinn? Enginn fékk nema nokkrar kommur í hita en aftur á móti hafa margir sem Eygló umgekkst í vinnunni fengið staðfestar greiningar. Ef það verður mögulegt að prófa hvort maður hafi myndað mótefni gegn vírusnum þá langar mig í það próf.

Þar sem við vorum hóstandi héldum við strákunum meira og minna heima fyrir páskafrí. Hvað við gerum eftir páska kemur í ljós. Páskaplönin mín eru annars öll horfin. Eygló ætlaði að fara með strákana austur á meðan ég væri heima að klára ýmislegt í framkvæmdum hérna heima við. Þar sem margir þeirra sem Eygló og strákarnir ætluðu að hitta fyrir austan eru mögulega viðkvæmir fyrir vírusnum þá var auðvitað hætt við þá ferð. Mér finnst líka ekkert frábær hugmynd að vera í háværum framkvæmdum meðan nágrannarnir eru allir heima.

Í staðinn hef ég verið að baka ýmislegt. Hef núna plön um að steikja kleinur við tækifæri. Heimatilbúin páskaegg eru líka á dagskránni á fimmtudag/föstudag. Ég hef gert svoleiðis nokkrum sinnum áður. Ekkert flókið, bara bræða súkkulaði í form. Líklega verður síðan settur einhver þrívíddarprentaður karakter á toppinn.

Ég hef verið að leika mér í tölvuleik sem heitir Epiphany. Sá er eftirherma af langsamlega uppáhaldstölvuleik mínum: Boulder Dash. Epiphany er opinn hugbúnaður og einhver hefur tekið að sér að búa til tól þar sem maður getur sjálfur búið sér til ný borð til að spila. Ég skemmti mér töluvert í gær að búa til snöggt borð og síðan spila það. Það var erfiðara en maður hefði haldið. Ég fann auðvitað galla í hönnun minni sem ég þurfti að laga en síðan þurfti maður smá lagni til að klára borðið.

Mér er farið að leiðast tilbreytingaleysið og að hanga inni. Tilhugsunin um að loftmengun í borginni sé í sögulegu lágmarki vekur hjá mér langanir til að fara út að hjóla en það væri ekkert rosalega góð hugmynd. Ég þyrfti líka að setja nagladekkinn undir og svona.

Í heild hef ég það ágætt en hef auðvitað áhyggjur af framtíðinni eins og þið hin. Maður getur vonað að komandi kreppa verði til umbóta í samfélaginu en auðvitað er alltaf hætta á hinum gagnstæða. Maður verður allavega að gera sitt best til að bæta heiminn.

Kasína – reglur

Eftir að hafa hlustað á hlaðvarpsþátt um sögu mannspila – hins hefðbundna spilastokks (The History of the English LanguageHouse of Cards) fór ég að rifja upp hvernig maður spilar kasínu. Við barnabörnin spiluðum það oft við afa og ömmu. Ég hafði hins vegar aldrei spilað það við strákana sem er synd og skömm.

Ég leitaði og fann allskonar reglur. Flestar voru gjörólíkar því sem við spiluðum í Stekkjargerðinu. Þetta ætti ekki að koma á óvart þar sem kasína hefur verið spiluð á Íslandi frá hið minnsta 19du öld. Það sést í öðru bindi af bók Jóns Árnasonar Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur sem gefin var út árið 1887. Spilið hefur síðan gengið manna á millum og breyst.

Ég spjallaði líka við fjölskylduna, bæði Hafdís systir og Eyþór Gylfa hjálpuðu. Að lokum fann ég góðar reglur, kunnuglegar að mestu. Það að þær komu frá Dalvíkurskóla kom ekki á óvart. Ekki var heldur neitt óvænt við niðurstöðurnar þegar ég rakti konuna sem er skráð fyrir þeim, Dóróþeu Reimarsdóttur, saman við mig í Íslendingabók og sá að hún á djúpar svarfdælskar rætur.

Það sem var ólíkt var helst tvennt. Annars vegar að hún talar um að 20 stig þurfi til að sigra en í Stekkjargerðinu voru þau 21. Hins vegar segir hún að spilarar fái fimm spil á hönd en ég er vanur fjórum spilum. Það tel ég reyndar vera mikilvægari reglu af því að fjórir ganga upp í 52. Ef þú ert hins vegar með fjögur spil í borði og hvor spilari fær alltaf fimm spil þá gengur það ekki upp (52) sem þýðir að lokagjöfin verður bara fjögur spil á mann. Þannig að ég held fjögur spil á hendi sé hiklaust réttara þó flest annað geti verið álitamál.

Reglurnar hérna eru byggðar á grunni Dóróþeu.

Gildi spilanna

Spilin hafa öll tölugildi sem notuð eru til að reikna hvernig má taka slagi. Tvistur er 2, þristur er 3 og svo framvegis. Kóngurinn er 13, drottningin 12 og gosinn 11. Ásinn gildir bæði 1 og 14.

Að taka slagi

Þú getur tekið sexu með sexu, ás með ási. Þú getur líka tekið ás með því að leggja tölugildi hans og við tölugildi annars spils. Þannig að þú getur tekið ás (1) og drottningu (12) með kóngi (13). Ef það eru tvistur, þristur og fimma í borði þá gætirðu tekið hvoru tveggja (2+3 & 5) með einni fimmu.

Gangur spilsins

Stokkið spilin. Gjafari gefur hinum fyrst 2 spil, sjálfum sér 2 spil, leggur 2 upp í loft á borðið, hinum 2 spil, sjálfum sér 2 spil og leggur aftur 2 upp í loft á borðið. Þá er hvor með 4 spil og 4 spil snúa upp í loft á borðinu. Afgangurinn af spilunum er geymdur og gefið aftur þegar báðir eru búnir með spilin sem þeir fengu á hendina.

Sá sem ekki gaf á að gera fyrstur og svo er skipst á að gera. Hann má taka eins mörg spil úr borðinu og hægt er með einu spili sem hann hefur á hendi. Ef hann getur ekki tekið slag þarf hann að leggja niður spil.

Þegar öll spilin eru búin af hendi er gefið aftur eins og áður nema að engum spilum er bætt við í borðið (jafnvel þó engin spil séu eftir þar).

Þegar síðasta umferðin er búin (þegar spilin úr stokknum hafa öll verið gefin) og sá sem fékk síðasta slaginn hefur hirt síðustu spilin af borðinu, er farið í stigatalningu. Ef enginn hefur náð 21 þá eru spilin stokkuð upp á nýtt og sá sem ekki gaf síðast skal vera gjafari núna.

Stigatalning

Spaða tvisturinn kallast litla kasína og tígul tían kallast stóra kasína.

  • Litla-kasína gefur 2 stig
  • Stóra-kasína gefur 5 stig
  • Að hreinsa borðið á meðan spilað er („svippur„) gefur 1 stig
  • Sá sem átti síðasta slaginn hirðir restina af spilunum úr borðinu og fær þar að auki 1 stig.
  • Fleiri spaðar í loks pils gefa 1 stig (spaðarnir)
  • Fleiri ásar í lok spils gefa 1 stig (ásarnir)
  • Fleiri spil í bunkanum í lok spils gefa 1 stig (bunkinn)

Það er best að reyna að ná sem flestum spilum, spöðum og ásum í bunkann. Ef bunkarnir eru jafnstórir fær hvorugur stig. Sama gildir ef hvor spilari er með tvo ása.

Sigurvegari

Sá vinnur sem fyrr fær 21 stig. Áður en vinningstölunni er náð eru allar líkur á að spilastokkurinn klárist einu sinni eða oftar.

Líf í Rafbókavefinn?

Ég stofnaði Rafbókavefinn árið 2011. Hann var meginhluti meistaraverkefnis míns í hagnýtri menningarmiðlun. Þarna eru vel á annað hundrað rafbækur í opnum aðgangi. Til að byrja með tók ég aðallega texta frá Netútgáfunni og breytti í rafbækur (epub og mobi). En ég vildi gera meira.

Ég fékk Svavar Kjarrval með mér í lið. Hann hafði byggt bókaskanna með afa sínum. Þannig gátum við myndað bækur sem voru komnar úr höfundarétti. En það er mikil vinna að breyta myndaðri bók yfir í rafrænan texta. Fyrst þarf að ljóslesa textann. Þá fer sérstakt ljóslestursforrit yfir textann og reynir að endurskapa hann í rafrænu formi.

En ekkert ljóslestursforrit er fullkomið þannig að Svavar setti upp vefkerfi (byggt á kóða frá erlendri fyrirmynd) þar sem hver sem er gat skráð sig og hjálpað til við að lesa yfir textana. Við kölluðum það dreifðan prófarkarlestur. Það gekk vel í nokkurn tíma en það var samt erfitt að halda starfinu virku til lengri tíma. Það var alltaf mikil vinna hjá mér.

Að lokum fjaraði þetta út. Bókaskanninn bilaði. Vefkerfið klikkaði og við höfðum ekki tíma til að koma öllu aftur af stað. En mig langaði alltaf að gera meira.

Þegar vírusinn fór af stað hugsaði ég með mér að nú væri gott að geta farið í dreifðan prófarkrlestur. Þar sem ég hafði í millitíðinni lært töluvert um rekstur vefkerfa þá tók ég mig til og leigði sýndarvél og prufaði að setja upp nýjustu útgáfu af vefkerfinu. Það var mikil vinna og að lokum fékk ég hjálp frá forriturunum og saman uppgötvuðum við villu í kóðanum. Ég þurfti þá líka að þýða kerfið upp á nýtt, allavega þann hluta sem snýr að notendum. Ég keyrði það í gegn. Og núna er hægt að skrá sig aftur í dreifðan prófarkarlestur.

En það hefur fleira breyst. Lýðfjármögnun er orðinn raunverulegur möguleiki aftur. Ég er búinn að setja upp söfnunarsíðu á Karolina Fund þar sem fólk getur stutt okkur. Hingað til hef ég borgað nær allt sjálfur (Svavar þurfti kostaði á sínum tíma skannann og hýsinguna en núna get ég beðið um stuðning á einfaldan hátt. Hvort sem það eru fyrirtæki eða að einstaklingar þá getið stutt okkur.

Ég er líka búinn að setja fram hugmyndir um að búa til hljóðbækur. Við getum gert það í upptökuverinu í Kistunni. Þannig að ef við fáum nægan stuðning getum við gert ótrúlega margt.

Þú getur hjálpað með því að skrá þig í dreifðan prófarkarlestur eða með því að gefa okkur pening á Karolina Fund.

Ég er búinn að setja inn fjórar bækur í dreifðan prófarkarlestur. Þetta eru bækur sem búið var að skanna á bækur.is og það var tiltölulega auðvelt að ljóslesa þær og setja inn í kerfið. Ég mun auðvitað bæta við fleiri bókum eftir því sem á líður en þetta er ágæt byrjun.

Íslenskar sögur og sagnir Þorsteinn Erlingsson (1858 – 1914)
Norsk æfintýri (1. bindi) Peter Christen Asbjørnsen 1812 – 1885, Jørgen Engebretsen Moe 1813 – 1882, Jens Steindór Benediktsson 1910 – 1946
Fjalla-Eyvindur Jóhann Sigurjónsson (1880-1919)
Systurnar Guðrún Lárusdóttir 1880 – 1938

Nasistar eru trúðar (Jojo Rabbit – höskuldar)

Um daginn fór ég í bíó og sá Jojo Rabbit. Mér fannst myndin frábær og ég held að flestir séu sammála mér. En ekki allir. Eftir að hafa séð myndina rakst ég á gagnrýni á myndina sem fór voðalega í taugarnar á mér. Í nýjustu Stundinni er síðan grein þar sem vísað er í mjög svipaða gagnrýni.

Jojo Rabbit fjallar um tíu ára strák, Jojo, í Þýskalandi nasismans. Áróður nasismans hefur virkað svo vel að hann tilbiður Hitler. Síðan komumst við að því að mamma hans er andfasísk í meira lagi og hefur tekið að sér að fela gyðingastúlku (Elsa) í húsinu.

Það sem fólk hefur helst út á myndina er þrennt:

  1. Nasistarnar eru sagðir vera of kjánalegir.
  2. Of mikil áhersla á góða nasista.
  3. Elsa ber þess lítil merki að vera gyðingur.

Það að nasistarnir í myndinni séu of kjánalegir byggir á falskri valklemmu. Það er nefnilega hægt að vera bæði trúður og skrýmsli. Þegar nasistar voru að komast til valda þá var auðvelt að sjá að þeir voru hlægilegir. Gæsagangandi hálfvitar. Ef við horfum á fréttamyndir í dag með drungalegri hljóðrás þá gleymum við oft hvað þetta var bjánalegt. Þegar við sjáum ris fasista í samtíð okkar þá er auðvelt að segja að þeir séu bara trúðar því að þó þeir séu vissulega trúðar þá geta þeir verið stórhættulegir. Myndin gerir þetta alveg frábærlega. Við fáum Gestapóliða í heimsókn og þeir líta út eins og fávitar en síðan verður ógnin skyndilega raunveruleg af því að þeir hafa vald og vilja til þess að framfylgja sinni heimskulegu heimssýn.

Þegar þessir gagnrýnendur segja að það sé of mikil áhersla í myndinni að það hafi verið til góðir nasistar þá virðist það byggja á mjög undarlegum skilningi á því hvað nasisti sé. Þetta sést helst á Klenzendorf höfuðsmanni sem leikinn er af Sam Rockwell. Hann sýnir í myndinni að hann sé góð manneskja en það sem gerir hann að góðri manneskju er að hann er ekki nasisti. Um leið og hann kemur fram á sviðið þá er manni ljóst að hann hefur enga trú á leiðtogum landsins. Það er ekki hægt að setja samasemmerki milli þess að vera þýskur hermaður og að vera nasisti. En hann er ekkert fullkominn. Hann berst fyrir landið sitt, og þar með nasista, þó hann ætti að vita betur.

Persóna Jojo sjálfs hefur líka verið nefnd sem dæmi um góðan nasista. Slíkt finnst mér varla svaravert. Slíkt byggir á því að misskilja myndina. Tíu ára börn geta ekki verið nasistar. Tíu ár börn sem alla ævi hafa fengið innrætingu úr öllum áttum hafa engan grunn til að taka slíka afstöðu.

Varðandi Elsu og skort á því að persóna hennar beri einhver merki þess að vera gyðingur þá finnst mér það í raun frábært. Það voru ótalmargir gyðingar í Þýskalandi sem höfðu aðlagað sig nær fullkomlega að samfélaginu. Þeir höfðu jafnvel tekið kristna trú. Stundum var þessi aðlögun varnarviðbrögð gegn mögulegum ofsóknum en hún var líka merki þessi að margir gyðingar litu fyrst og fremst á sig sem Þjóðverja. Sem dæmi um þetta er að ákaflega margir gyðingar börðust fyrir Þýskaland í Fyrri heimsstyrjöldinni. Þetta er að mörgu sambærilegt við þá Vestur-Íslendinga sem börðust í sama stríði. Þeir vildu sýna þjóðhollustu sína. Þeir töldu að með því að berjast fyrir landið sitt þá yrðu þeir metnir að verðleikum, sem fullgildir borgarar. En Hitler ofsótti ekki bara þá gyðinga sem skáru sig úr hópnum. Hann ofsótti gyðinga sem aldrei sóttu samkunduhús sem og þá er sóttu kirkjur. Hann ofsótti gyðinga sem höfðu aðlagað sig svo vel að þýsku samfélagi að þeir gáfu börnum sínum germönsk nöfn eins og Elsa.

Mér finnst Jojo Rabbit vera frábært innlegg nú þegar við sjáum ris fasista um víða veröld. Við megum hlæja að þessum bjánum en við þurfum að taka þá nógu alvarlega til þess að geta barist gegn þeim.

Einelti til bættra lífshátta?

Dan Harmon, aðalhöfundur Community og meðhöfundur Rick & Morty, talaði nokkrum sinnum í hlaðvarpinu sínu um reynslu sína úr skóla þar sem hann var lagður í einelti af fólki sem fannst hann ekki fara nógu oft í bað. Hans viðbrögð við þessu var að fara enn sjaldnar í bað.

Marc Maron, sem leikur í Glow, hefur mikið talað um það í hlaðvarpinu sínu hvernig móðir hans, sem sjálf er þjáð af anorexíu, náði með tali sínu um þyngd hans að ala með honum lotugræðgi (hún sagði honum m.a. að hún hefði ekki getað elskað hann ef hann væri feitur).

Þetta minnir mig alltaf á kjallaragrein sem Guðbergur Bergsson skrifaði einhvern tímann sem heitir „Um nauðsyn eineltis“. Þið getið giskað hvað gerpinu finnst um einelti. Hann heldur að hann geti læknað offitu með því að níðast andlega á fólki. Það sýnir auðvitað hve litla innsýn hann hefur í sálarlíf annars fólks.

Lexían er auðvitað að þú getur ekki bara ætlast til þess að neikvæð styrking hafi sjálfkrafa einhver ákveðin jákvæð áhrif á fólk. Ætli sé ekki betra að vera heiðarlegur eineltishrotti sem vill bara pína fólk heldur en sadisti sem reynir að afsaka annarlega hegðun sína með góðum ásetningi? Ég held það allavega.

Arcane – hlutverkaleikjatímaritið

Ég byrjaði að spila hlutverkaleiki (roleplay, spunaspil, hugleiki) árið 1994. En það var á vormánuðum árið 1996 sem ég kíkti inn í Bókabúðina Eddu í göngugötunni á Akureyri (sem var enn göngugata) og rak augun í Arcane: The Roleplaying Magazine.

Ég veit ekki hvernig það kom til að Bókabúðin Edda ákvað að kaupa inn Arcane. Helst dettur mér í hug að búðin hafi samið við útgefendurnir um einhvern pakka. Það er erfitt að útskýra hve óvenjulegt var að finna eitthvað svona á Akureyri. Það bara gerðist ekki. Reyndar seldi Bókabúð Jónasar Magic spil nokkru seinna en fyrir nörda var eiginlega ekkert á Akureyri.

Allavega keypti ég blaðið og ég hélt áfram að heimsækja Eddu mánaðarlega þar til búðin sjálf hætti. Einhverju seinna reyndi ég að kaupa blaðið (og helst eldri eintök með) í gegnum netið og þá hafði útgáfu þess verið hætt.

Ég var að taka til í geymslunni um helgina og rakst þá á kassa sem var m.a. merktur Arcane. Ég ætlaði að grípa hann upp en í staðinn gúgglaði ég og fann öll eintökin frá 1-20 skönnuð í hárri upplausn. Þannig að ég hef verið að glugga í þessi gömlu blöð.

Fyrsta blaðið sem ég keypti var nr. 6 og mér þykir auðvitað vænst um það. Það er ekki erfitt að sjá hvers vegna ég tók eftir því, kross með eldglæringum skreytir forsíðuna.

Efni blaðsins var margskonar. Leiðarinn var skrifaður af fráfarandi ritstjóra og í kjölfar þess þurfti ég að fletta upp orðinu Xenophobia. Það var samt ekki fjallað um útlendingaandúð heldur langaði ritstjóranum að nota X sem upphafsstaf í grein áður en hann hætti.

Mikið af blaðinu er gagnrýni um ný spil eða upprifjun á gömlum og góðum. Það sést að Arcane var stofnað í safnkortaspilaæðinu sem gekk yfir á þessum tíma. Þau eru mjög áberandi og það fór mjög í taugarnar á innilegustu hlutverkaleikurunum.

Fréttatilkynning um Netrunner
Fréttatilkynning um Netrunner – Lesið endilega.

Eitt af spilunum sem fjallað var um í þessu tölublaði kallaðist Netrunner. Það var hannað af Richard Garfield sem er frægastur fyrir að hafa búið til Magic: The Gathering og næstfrægastur fyrir King of Tokyo. Sögusvið Netrunner er það sama og í Cyberpunk 2020 sem var fyrsti hlutverkaleikurinn sem ég spilaði. Spilið fékk 9/10 og ég keypti það auðvitað. En það náði sér aldrei á flug enda of mörg safnkortaspil í boði, ég held að Bjössi hafi kannski keypt það en enginn annar í kringum mig. Spilið var síðan endurgert löngu seinna sem Android: Netrunner og fleiri kannast við það þaðan.

Þarna er líka fjallað um GURPS: Goblins. Hlutverkaleikur þar sem spilarar eru þessi andstyggilegu og heimsku kvikyndi. Bjössi keypti það en mig minnir að varla hafi verið hægt að spila það vegna þess að það fór bara út í kjánalæti.

Ein eftirminnileg grein fjallaði um það þegar spilapersónur deyja, mismunandi sjónarhorn spilara og stjórnenda. Alveg bráðnauðsynlegar pælingar. Það voru líka greinar um að búa til eigin leik, fróðleg yfirferð um gufupönk (ég held ég hafi ekki heyrt á gufupönk fyrren að ég las um það þarna.) og  ævintýri sem hægt var að nota í ótal spilum

Smellið á myndina til að lesa ruglið í heild sinni.

Forsíðugreinin fjallaði um andúð kristilegra afturhaldsafla í Bandaríkjunum á hlutverkaleikjum. Það er í sjálfu sér alveg stóráhugaverð saga. Þegar ég las hana aftur núna tók ég eftir því að vitnað er í Neil Gaiman þarna (og dómur um eina Sandman bók!) en ég hef örugglega ekkert vitað hver það var. Eftirminnilegast er auðvitað teiknimyndasaga eftir Jack Chick (mjög ruglaður kristilegur afturhaldsseggur) sem fjallar um að hlutverkaleikir leiði til svartagaldurs og sjálfsmorða – en Jesús bjargar auðvitað sínu fólki (það var víst gerð mynd eftir þessu – líklega í háði).

Samkvæmt því sem ég hef lesið hætti Arcane útgáfu vegna þess að auglýsingatekjur drógust saman. Það gerðist aðallega vegna þess að stærsti auglýsandinn – TSR sem gaf út Dungeons & Dragons – fór á hausinn. Þar töldu menn að safnkortaspil bæru helst ábyrgðina vegna þess að spilarar hefðu ekki efni á að kaupa bæði bækur Magic spil. Leifarnar af TSR síðan voru keyptar af Wizards of the Coasts sem hafði einmitt gefið út Magic: The Gathering.

En ég er allavega þakklátur fyrir að hafa fengið svona innsýn inn í stærri heim hlutverkaleikja um hríð. Ég man ekki eftir því að hafa, fyrr eða síðar, mætt í hverjum mánuði í bókabúð til að kaupa tímarit. Endilega kíkið á það ef þið hafið áhuga á hlutverkaleikjum.

Opinn hugbúnaður í rekstri

Eftir að hafa skoðað Twitterþráð um kostnað fyrirtækis við hugbúnað fór ég að pæla í því hvað ég er að spara með opnum hugbúnaði.

Ég nota Nextcloud í staðinn fyrir OneDrive/Google Drive/Office 365/Trello og margt fleira. Auðvitað þarf einhverja tölvukunnáttu að setja upp Nextcloud.

Það er Linux Mint á tölvunum.

Libre Office kemur í staðinn fyrir Microsoft Office – það spilar líka rosalega vel með Nextcloud.

Gimp/Krita/Inkscape í myndvinnslu – hef aldrei notað Photoshop að neinu ráði.

Í umbroti nota ég Scribus.

Fyrir upptöku og klippingu nota ég OBS Studio, Audacity og Kdenlive.

Margir nota ekkert póstforrit en þegar ég fór af Gmail byrjaði ég að nota Thunderbird og það er dásamlegt skipulagstól sem vinnur líka frábærlega með Nextcloud.

Bókhaldið er ennþá í lokuðu kerfi en mig langar að breyta því.

Þó það sé lítill kostnaður í þessu reyni ég reglulega að gefa þessum verkefnum peninga (þó mörg þeirra séu bara mjög vel fjármögnuð nú þegar).

Gráskallakastalateningaturn

Ég á þrívíddarprentara. Ég prenta mest af hagnýtum hlutum, festingum og slíku. Stundum hanna ég eitthvað en oftast snýst það bara um að sameina tvö módel í eitt.

Áhugaverðasti vefurinn fyrir eigendur þrívíddarprentara er Thingiverse. Þar getur maður fundið ótal módel til prentunar. Ég hef prentað ýmislegt þaðan og það á líka við um teningaturninn (turn/gríparabrú) sem ég var að búa til.

Þegar ég varð sex ára fékk ég Gráskallakastala (Grayskull) í afmælisgjöf. Hann er löngu glataður eins og flest dót sem ég átti í æsku. Þannig að þegar ég sá að hægt var að búa til teningaturn sem byggður var á þessum kastala sló ég auðvitað til.

Ég var ekki alveg viss um hvernig ég ætlaði að hafa tilbúna módelið en endaði með að prenta það í silfurgráum lit. Þá tók ég þessa mynd. Ég var frekar ánægður með þetta þó ekki hafi allt virkað fullkomlega. Mig langaði samt örlítið að gera aðeins betur. Þannig að ég ákvað að kaupa mér málningarprey og prufa að fá smá lit á turninn.

Gráskallakastali var ekki einlitur og, það sem meira er, þá voru öll leikföngin í aðeins mismunandi litum. Ég ákvað því að prufa að grunna með svörtum og spreyja síðan aðeins með dökkgrænum. Ég var bara töluvert sátur við útkomuna. Ég er ekki viss um að ég hefði getað keypt mér mikið flottari teningaturn.

Sjónvarpsáhorf sem lestrarkennsla

Það eru margir að tala um lestrarkunnáttu* íslenskra barna. Eitt mikilvægt atriði sem fólki yfirsést almennt er textun á erlendu sjónvarpsefni og kvikmyndum.

Mín kynslóð hafði kannski ekki jafn mikinn aðgang að afþreyingarefni á ensku og kynslóð barna minna en við höfðum mun meiri aðgang en áður hafði þekkst. Það sem ég held að aðgreini okkur sé ekki fyrst og fremst magnið heldur textun.

Ástæðan fyrir því að ég lagði hart að mér að læra að lesa var ekki til að lesa bækur heldur til að lesa texta. Ég þurfti að læra að lesa nógu hratt til að missa ekki af textanum. Þetta var ótrúlegur hvati.

Í dag er hverfandi aðgangur að textuðu efni. Við erum með barnaefni á íslensku og síðan erum við með ótextað efni á ensku. Það er hverfandi aðgangur að textuðu efni fyrir krakka.

Ef við lítum framhjá lestrarþættinum og pælum í málkunnáttu þá veldur þetta auðvitað því að krakkar læra ensku fljótt og örugglega. En ég held að skortur á textun valdi um leið ákveðnu rofi milli íslenskukunnáttunnar og enskunnar. Í stað þess að læra ensku með hliðsjón af íslensku, eins og mín kynslóð gerði að miklu leyti, þá læra krakkar mörg ensk orð án tengingar við íslenskuna. Það verður til þess að sum hugtök skilja þau bara á ensku. Þau finna sumsé ekki alltaf svar á íslensku. Mig grunar að þetta verði jafnvel líka til þess að enskuskilningurinn verði ekki jafn góður og hann gæti orðið.

Þetta er reyndar ekki endilega nýtt vandamál. Það var ekki endilega stór kynslóð sem fékk mikið af textuðu barnaefni. Það kom nefnilega fljótt upp krafa um talsetningu sem var skiljanleg og jafnvel nauðsynleg fyrir yngstu börnin en olli því að krakkar sem voru að læra að lesa fengu ekki jafn mikla æfingu í að lesa – og lesa hratt. En um leið og talsetningarkynslóðin vildi horfa á eitthvað meira en barnaefni þá fékk hún textað efni.

Núna er aðgangur að ótextuðu barnaefni á ensku nær endalaus og aðgangur að textuðu barnaefni hverfandi. Þegar krakkarnir eldast þá tekur síðan við enn meira af ótextuðu efni.

Þannig að ef ráðamenn vilja efla lestur, ensku- og íslenskukunnáttu þá ættu þeir að reyna að koma íslenskum texta á sem mest af því efni sem krakkarnir okkar eru að horfa á.

* Það þarf auðvitað að auka fjárframlög til bókaútgáfu, bókasafna og skóla. Það eiga allir að vita. Ég held hins vegar að færri átti sig á mikilvægi textunnar.

Allraheilagasta hrekkjavakan

Ég hef núna tvisvar séð morgundaginn kallaðan allraheilagramessu. Augljóslega er það rangt. Kaþólikkar halda allraheilagramessu 1. nóvember. Halloween er stytting á „All Hallows’ Eve“ sem gæti útlagst sem aðfangadagskvöld allraheilagramessu.

Halloween er náttúrulega aðlögun á keltneskri hátíð sem kallað samhain (en borið fram hér um bil sá(v)en af því að Írar eru klikk). Þar sem sú hátíð markar skil árstíða þá er mjög einfalt að jafna samhain við íslenska dagatalið, sumsé við lok sumars og fyrsta vetrardag. Í fornum heimildum eru þetta veturnætur. Það væri vissulega þjóðlegt og skemmtilegt.

Það væri reyndar gaman að fara í írskan gír á þessum tímamótum. Hafa brennur og grímubúninga og sleppa bandarískum nammipælingum. Almennilega jaðarhátíð (liminal).

En það er einfaldast að kalla þetta hrekkjavöku. Ef maður hugsar um það þá passar þetta orð miklu betur við það hvernig bandaríska hátíðin er haldin heldur en orðið „halloween“. En við Íslendingar höfum ekkert rosalega mikla hefð fyrir hrekkjum á þessum degi. Krakkar hérna vaka ekki heldur neitt sérstaklega langt frameftir. Ég held að hrekkjavaka sé bara eina orðið sem við höfum sem getur keppt við halloween og mér finnst bara svo afskaplega pirrandi að nota slettur þegar góð orð eru í boði.