Gagnlegir þrívíddarprentaðir hlutir

Ég hef átt þrívíddarprentara í eitt og hálft ár eða svo. Mér finnst einna skemmtilegast að prenta einfalda gagnlega hluti. Þetta eru nokkur dæmi um það. Sumt kemur af Thingiverse, sumu hef ég breytt til að það passi og síðan er sumt ég hef teiknað upp frá grunni.

Pennahaldari á teikniborðið mitt
Pennahaldari á teikniborðið mitt (upphaflega stykkið rifnaði af). Beint af Thingiverse.
Hnappar á vekjaraklukku
Hnapparnir á þessari gömlu vekjaraklukku voru brotnir þannig að ég mældi og teiknaði upp nýja hnappa (svarti hringurinn). Hræódýr klukka auðvitað en mér leiðist að henda hlutum.
Sturtusápuhaldari
Þessi sápuskammtari er of þungur fyrir aðrar hillur í sturtunni þannig að ég hannaði og prentaði haldara sem smellur á rörið.
Snjallsímahaldari á þrífót
Gunnsteinn hefur gaman af því að taka upp myndbönd og þarf stundum að gera það núna í staðinn fyrir að mæta á flautuæfingar. Ég þarf reyndar að finna góðan bolta sem er auðveldara að herða og losa.
Wii-U festing aftan á sjónvarpið
Til þess að spara pláss tók ég Wii-U festingar sem voru til á Thingiverse og breytti þeim þannig að þær myndu smella á sjónvarpsfestinguna.
Sama festing frá öðru sjónarhorni.
Sama festing frá öðru sjónarhorni.
Uppþvottavélamerking
Það er gott að geta séð og merkt hvort það sé hreint eða óhreint eða í uppþvottavélinni. Þetta er byggt á enskri hönnun á Thingiverse. Ég er reyndar ekki ánægður með þetta prent. Ég notaði „strauja“ fídusinn og það var bara ekki að virka. Ég skipti um lit í miðju prenti til að hafa textann skýran.
Núna hreint!
Núna hreint!
Kassi utan um skjá og stýringu á þrívíddaraprentaranum.
Þrívíddarprentarinn kemur svolítið hrár og meðal þess sem ég gerði var að prenta þetta stykki af Thingiverse sem hýsir líka Raspberry Pi 4 tölvu sem stýrir prentaranum.
Skúffur á prentarann
Það er nauðsynlegt að geyma ýmislegt smádót og verkfæri fyrir þrívíddarprentarann. Þessi skúffa kemur beint af Thingiverse.
Kefli fyrir plastrúllur
Til að spara plast þá kaupi ég áfyllingar án rúllu. Þetta kefli passar nákvæmlega þannig að ég get fært nýjar rúllur beint á.
Snúrudóterí
Ég fann þetta á Thingiverse fyrir upptökuborðið í Kistunni.
Hirsla fyrir breytistykki
Ég vildi fela þetta breytistykki undir upptökuborðinu þannig að ég teiknaði upp þetta litla „hólf“. Stykkið fellur þarna inn og snúran kemur út um gat á endann og það haggast ekkert.
Fjöltengjahengi
Mjög einfalt Thingiverse stykki til að festa fjöltengi. Ég hef prentað þónokkur svona.
Valslöngva
Það er líklega ekkert gagn að þessari valslöngvu en hún er skemmtileg.

Raspberry Pi 4 sem vinnutölva

Frá því að ég heyrði fyrst af Raspberry Pi örtölvunum hef ég verið heillaður af þeim. Ég setti upp leikjatölvuhermi, sjónvarpstölvur og allskonar. Allt hræódýrt.

Þegar ég var að setja upp vinnuaðstöðu hérna í Kistunni hugsaði ég með sjálfum mér að ég myndi ekki nenna að ferja fartölvuna endalaust á milli. Stundum er ég bara að vinna í handritum eða einhverju öðru sem þarf eiginlega engan kraft til að keyra. Þannig að ég ákvað að kaupa eitt stykki Raspberry Pi 4 með 4gb vinnsluminni fyrir slíkt. Það virkaði bara vel.

Ég orðaði það einhvern tímann þannig að Pæið hafi verið álíka öflug og vinnutölvan sem ég hafði á skólabókasafninu í Húsaskóla. Sú þurfti auðvitað að keyra Windows sem er þungt stýrikerfi á meðan Raspbian/Raspberry Pi OS er alveg rosalega létt. En síðan er það bara þannig að vinnutölvan mín var ekki öflug.

En fyrir ekki svo löngu síðan kom út ný útgáfa af Pi 4, nú með 8gb vinnsluminni. Ég ákvað að kaupa hana ekki strax. En auðvitað náði ég að réttlæta fyrir mér að kaupa nýju útgáfuna (sú gamla er komin í þrívíddarprentarann).

Ég ákvað að gera smá tilraunir með nýju tölvuna og í stað þess að setja upp staðlaða stýrikerfið þá ákvað að ég að prufa önnur stýrikerfi.

Ubuntu Mate

Ég valdi Ubuntu Mate af því að það er líkt Linux Mint sem ég nota daglega. Það virkaði ákaflega vel. En síðan ákvað ég að tengja annan skjá við pæið. Þá hætti tölvan allt í einu að spila myndbönd. Það virkaði fínt þegar ég var bara með einn skjá. Ef ég hefði bara viljað hafa einn skjá þá var Ubuntu Mate best.

Manjaro

Ég hef aldrei verið heillaður af Manjaro. Það er samt mjög vinsælt stýrikerfi. En ég ákvað að prufa það. En þá virkaði ekki hljóðúrtakið. Þannig að ég get spilað myndbönd en ég er ekki mikið í þöglu myndunum. Síðan var ég bara ekki að fíla kerfið sjálft. Bara einfaldir hlutir eins og að fletta í valmyndinni virka ekki eins og ég myndi vilja.

Raspberry Pi Os

Ég hef notað Raspberry Pi Os reglulega. Það virkar mjög fínt. Vandinn er að það er hannað fyrir allar útgáfur Pæ. Þannig að það er ekki að nýta vinnsluminnið í nýju tölvunum til að flýta fyrir manni, til dæmis í valmyndinni. Á meðan Linux Mint umhverfið, Cinnamon og jafnvel líka Mate, virkar vel fyrir fólk sem elskaði Windows XP notendaumhverfið þá er Raspberry Pi Os svolítið eins og Windows 95. Ég þarf að athuga hvort ég geti ekki bara fengið annað gluggaumhverfi.

En það virkar auðvitað að spila myndbönd og hljóð kemur auðveldlega. Það sem vantar kannski helst í hin stýrikerfin er raspi-config tólið sem getur reddað öllu sem maður vill stilla í Pæ. Í hinum kerfunum er þetta innlimað í almennu stillingarnar og er ekki að virka nógu vel.

Niðurstaðan er síðan auðvitað að Raspberry Pi er orðin nógu öflug tölva fyrir þá sem er mest í léttri vinnslu. Það er reyndar hægt að gera tölvuvert meira en ég hugsa svolítið um allt þetta fólk sem er á rándýrum tölvum til að hanga á Facebook og vinna í ritvinnslu. Það er þá ágætt að kaupa bara tölvu sem kostar bara 75 dollara.

Fátæk börn verðskulda ekki neitt

Ég fann mjög persónulega fyrir valdatöku frjálshyggjunnar á Íslandi þegar ég var 12-14 ára. Ég þurfti að fara í tannréttingar. En ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Jóns Baldvins var að ráðast á kerfið. Þegar ég mætti í fyrsta tímann var ekki ljóst hvernig greiðsluþátttaka foreldra yrði. Tannréttingarfræðingurinn var ábyrgur og sagði að hann vildi ekki byrja meðferð meðan ekki væri á hreinu hve mikið það kostaði.

Síðan varð ljóst hvernig þetta yrði. Kostnaði var velt yfir á fjölskyldurnar.

Þetta var ekki góður tími í atvinnumálum sem hafði mikil áhrif á mitt heimili. Ég fann mjög sterkt fyrir þessum þrýstingi á þessum árum. Það voru ekki til miklir peningar. Ég vissi líka að tannréttingar kostuðu mikið. Þannig að í hvert skipti sem ég mætti í tíma þá fann ég fyrir blöndu af skömm og samviskubiti.

Ég talaði auðvitað ekki um þetta við neinn. Það var ekki vel séð að vera fátækur. Þegar ég mætti í skólann í skóm sem voru keyptir í Rúmfatalagernum fékk ég að heyra það. Öll föt sem ég átti voru gagnrýnd á svipaðan hátt. „Er þetta úr Hagkaup?“ var lína sem ég heyrði mjög oft.

Samspil tilfinninga hjá mér á þessum aldri var flókið. Mig langaði í hitt og þetta en skammaðist mín þegar ég fékk eitthvað. Fannst það peningasóun. Sérstaklega ef það var eitthvað dýrt. Þegar ég eignaðist Nike skó var ég ánægður, ekki út af merkinu heldur af því að skórnir entust. En það var líka skömm. Þetta var sóun. Ég var auðvitað líka hræddur um að einhver myndi taka að sér að skemma þá. Mér leið eiginlega betur þegar ég fékk falsaðar Levi’s gallabuxur þó það væri hæðst að mér.

Lukkulega var ég ekki mjög lengi með spangir. Þá var ég bara með góm og víra á bak við framtennur. Ég endaði fór sjaldnar og sjaldnar í tíma til að athuga hvernig gekk. Annar vírinn losnaði og ég endaði með að fjarlægja hann alveg sjálfur. Að lokum brotnaði gómurinn ég fékk ekki af mér að mæta til að láta laga hann eða fá nýjan. Tennurnar hafa sem betur fer haldist að mestu á réttum stað.

Það sem er ótrúlegast er líklega að skömmin er ennþá til staðar. Ég reyni að gagnrýna frjálshyggju með almennum rökum en staðreyndin er sú að ég hef fundið sjálfur fyrir afleiðingum þessarar mannfyrirlitningarstefnu sem refsar ekki bara fátækum heldur börnum þeirra líka. Það að láta okkur finna fyrir að peningaskortur þýði að við verðskuldum ekki neitt.

Það að ég sé langt til vinstri á pólitíska skalanum er auðvitað nátengt því að ég upplifði að heimili mitt var selt á nauðungaruppboði. Ég vil ekki að önnur börn upplifi það sama og ég. Þessi skömm eitrar mann fyrir lífstíð. Það verður aldrei auðvelt að fátækari stéttum en við ættum að stefna að kerfi sem er mannúðlegt.

Ég get ekki fyrirgefið stjórnmálamönnum sem leiða Sjálfstæðisflokkinn til valda. Ekki þá og ekki núna. Efnahagsstefna flokksins er gjaldþrota. Keisarinn er berrassaður. Það ætti öllum að vera ljóst að flokkurinn hefur ekkert fram að færa annað en græðgi og þjónkun við hina ríku.

(Trans)fólk og fegurð

Það var manneskja sem ég sá oft þegar ég var táningur. Mig minnir að hún (manneskjan) hafi verið á miðjum aldri. Hún leyfði sér uppreisn gegn viðteknum venjum varðandi útlit og klæðaburð. Ekki áberandi. Ekki mikið. Ég vissi ekkert hvað þetta þýddi og ég ætla ekki að giska núna þó ég hafi vissulega greinilegri hugmyndir um hvað var á seyði. En ég get ímyndað mér að litlar uppreisnir hafi kostað mikið hugrekki, sérstaklega á þessum tíma á Akureyri.

Þegar ég var aðeins eldri var önnur manneskja sem kom alveg út úr skápnum með að vera trans á Akureyri. Hún var ótrúlega hugrökk. En maður heyrði fólk í kringum sig tala um hana á mjög niðrandi hátt. „Hvað á maður að kalla hann eða hana eða þetta?“ Ég held að samkennd mín með samkyhneigðum hafi yfirfærst á transfólk þannig að ég tók aldrei undir svona tal. En ég sagði aldrei neitt. Ég var kannski réttum megin í skoðunum en ég var ekki hugrakkur.

Ég velti oft fyrir mér öllum þessum hann/hún/þetta bröndurum þegar ég heyri fólk kvarta yfir þeim persónufornöfnum sem transfólk kýs sér. Ætli þessir kvartarar hafi ekki sagt svipaða brandara á sínum tíma?

Þegar ég fór hlusta/horfa á hlaðvarpið Harmontown „kynntist“ ég manneskju sem kom hægt og rólega út úr skápnum sem trans. Sérfræðingur í gleri (sbr. glösum og slíku) sem heitir Jane. Á nokkrum árum kom hún reglulega í heimsókn útskýrði fyrir fólki hvernig hún sæi sjálfa sig. Mjög áhugavert. Áhrif hennar á áheyrendur komu síðan í ljós þegar einhver uppistandaragaur sem gestur og fór að segja frekar milda transfóbíska brandara. Áhorfendur voru bara alls ekki í stuði að heyra svona kjaftæði.

Ég er allavega kominn yfir það að hunsa transfóbíska brandara. Ég hef slökkt á nokkrum uppistöndum sem ég hef verið að horfa á af því að ég nennti ekki að hlusta á svona rugl. Ég tek fram að ég er ekki að segja að þessir uppistandarar séu vondar manneskjur. Það er eiginlega frekar að mér finnist þeir vandræðalega hallærislegir. Íhald dulbúið sem uppreisn gegn valdi er bara kjánalegt. Það má hiklaust gera grín að Caitlyn Jenner en transfóbísku brandarar Ricky Gervais eru ekki bara árás á hana heldur á transfólk almennt.

Jane náði að kenna mér, og líklega mörgum öðrum, að hugsa um kyn og transfólk. Til dæmis að pakka þeirri hugmynd að allir sem eru trans þurfi að ganga í gegnum allar skurðaðgerðir sem eru í boði.

Kannski er það Jane að þakka að ég endaði einhvern veginn með fullt af fólk úr transsamfélaginu á Twitter. Það var ekkert með vilja gert. Ég bara fattaði allt í einu að það var fullt af transfólki þarna.

Ég sé reglulega pósta frá transfólki sem er óöruggt með útlit sitt. Þá langar mig að vera týpan sem getur einlæglega tjáð því að það sé fallegt. En málið er að ég er eiginlega aldrei að tjá mig um útlit fólks. Mér finnst það ekki mitt hlutverk. Mér finnst að álit mitt ætti yfirhöfuð ekki skipta neinn máli. Nema kannski mína nánustu.

En þeir sem vilja að aðrar manneskjur upplifi sig ljótar eru týpurnar sem tjá sig mest. Vilja að orðin þeirra særi og minnki sjálfstraust.

Þannig að í staðinn fyrir að kommenta við myndirnar ykkar þá skrifaði ég þessa bloggfærslu, aðallega til að segja: Ég sé fegurð ykkar.

Samsæriskenningarugl og rangfærslur í Mogganum

Það virðast einhverjir enn kaupa Moggann. Ég veit ekki hvers vegna. Núna gengur um Twitter grein sem var birt þar, væntanlega í dag. Greinin er eftir Önnu Karen Jónsdóttur (BS hagfræði) og fjallar um Black Lives Matter hreyfinguna. Þessi grein fór ekki á flakk af því að hún er vel skrifuð og ígrunduð. Það er næstum erfitt að gera upp á milli hvort er verra, málfarið eða efnið.

Samkvæmt Önnu Karen þá er málflutningur BLM byggður á misskilningi eða rangfærslum. Hún segir:

Árið 2019 voru 10 svartir óvopnaðir skotnir til dauða samkvæmt gagnagrunni Washington Post.

Það er margt athugavert við þessa fullyrðingu. Í fyrsta lagi er hún röng. Það voru 14 óvopnaðar svartar manneskjur skotnar til bana af lögreglu árið 2019 skv. umræddu gagnasafni. Í öðru lagi þá er skilgreiningin á að vera „vopnaður“ mjög óljós. Lögreglan skaut allavega fjóra sem voru „vopnaðir“ með leikföngum. Í þriðja lagi er hérna einungis verið að tala um þá sem eru skotnir. Þið munið að t.d. George Floyd var kraminn til bana. Í fjórða lagi er hérna gert ráð fyrir að það sé alltaf réttlætanlegt að drepa fólk ef það er „vopnað“. Hérna erum við að tala um land þar sem stjórnarskráin ver réttindi fólks til að bera vopn.

Tölfræðin er mjög einföld. Svart fólk er mun líklegra til að vera drepið af lögreglu en aðrir hópar og þá sérstaklega þegar það er óvopnað.

Til samanburðar voru 48 lögreglumenn myrtir. Hver sá sem lýsir yfir stuðningi við lögregluna á þessum morðum á hins vegar á hættu að vera rekinn úr vinnu eða skóla.

Ég myndi vilja gagnrýna þetta en ég skil ekki einu sinni hvert Anna Karen er að fara hérna. „Hver sá sem lýsir yfir stuðningi við lögregluna á þessum morðum“ er bara óskiljanleg rugl. Satt best að segja væri rökréttast að skilja þetta þannig að hún sé að tala um þá sem styðja að lögreglufólk sé myrt en ég held að hún meini það örugglega ekki. Ég veit ekki hvort hún er að tala stuðning við lögreglu þegar lögreglumenn eru drepnir eða stuðning við morð lögreglu á óvopnuðu svörtu fólki. Ef hún meinar það fyrrnefnda þá er það án efa rugl. Allavega væri ég til í að fá lista yfir fólk sem hefur verið rekið fyrir að sýna samúð þegar lögreglumenn eru drepnir.

Notkun Önnu Karenar á hagtölum bendir til þess að það sé einhver brotalöm í hagfræðimenntun hennar, eins og sést hér:

Þrátt fyrir að vera bara 13,4% þjóðinnar þá eru svartir í langflestum tilfellum yfirgnæfandi meirihluti afbrotamanna. Sem dæmi voru samkvæmt ársskýrslu New York Police Department árið 2019 afbrotahlutföllin þessi:

Hérna tekur Anna Karen fjölda svarts fólks í Bandaríkjunum og yfirfærir á New York borg til að sýna glæphneigð þeirra. En vandamálið er að í New York þá er hlutfall svartra mun hærra en víða annars staðar. Þannig að tölurnar hennar eru mjög villandi. En auðvitað er það aukaatriði því staðreyndin er sú að það er ekki svart fólk sem er líklegra til að vera handtekið fyrir glæpi heldur fátækt fólk.

Þar sem efnahagskerfi Bandaríkjanna hefur verið hannað til þess að gera svart fólk fátækt (leitið að t.d. „red lining“ á netinu) þá er það líklegra til þess að fremja glæpi. Af því að það er fátækt. Af því að því skortir tækifæri.

En Anna Karen telur að rasismi geti ekki verið vandamálið:

Ástæður fátæktar geta verið margar og flóknar. Rasismi er hins vegar langsótt skýring árið 2020. Ef hvíti maðurinn stjórnar efnahagnum milli kynþátta og heldur þannig efnahagsstöðu svartra niðri, ætti þá sá hvíti ekki að hafa sett sig í fyrsta launaflokk á undan Asíubúanum? Slíkt er ekki raunin en Asíubúar eru í flestum mælingum með betri afkomu en hvítir.

Hér kemur til algjör vanþekking hennar á innflytjendastefnu Bandaríkjanna. Það voru lengi miklar takmarkanir á fjölda innflytjenda frá Asíu (sérstaklega reyndar Kína sbr. The Chinese Exclusion Act). Þegar var farið að hleypa inn fleirum frá þessum heimshluta þá var lögð áhersla á að hleypa inn menntuðum einstaklingum. Vel menntað fólk er líklegra til að fá hærri laun og að eignast börn sem menntar sig vel. Þannig að góð efnahagsleg staða fólks sem rekur uppruna síns til Asíu er komin til vegna (rasískrar) innflytjendastefnu. Það er mjög fróðleg umræða um þetta í hlaðvarpinu „Whiting Wongs“.

Hún Anna Karen reynir líka að flytja inn ákveðna tegund af bandarískri íhaldspólitík:

Það eru margir þættir sem hafa áhrif á fátækt. Það má velta því fyrir sér hvort það sé út af menningu eða vegna þess að 70% af lituðum börnum í dag fæðast utan hjónabands.

Við Íslendingar sem erum vön því að börn fæðist utan hjónabands erum frekar hissa á svona málflutningi. Af hverju er hjónabandsstaða eitthvað lykilatriði? Báðir synir mínir er fæddir utan hjónabands. En er ekki líklegra að efnahagslegt umhverfi hafi áhrif á hjónabandsstöðu heldur en öfugt?

Í seinni hluta greinarinnar fer Anna Karen í samsæriskenningastuð. Hún nefnir til Bill Gates og George Soros. Hún bendir líka að Kína hafi lýst yfir stuðningi við Black Lives Matter eins og það sýni hve vafasöm samtökin eru. Það að keppinautar á alþjóðasviðinu noti mannréttindamál til að koma höggi á andstæðinga sína er ekki nýtt og það ógildir ekki mannréttindabaráttuna.

Í dramatísku útspili spyr Anna Karen:

Höfum við gleymt Tiannanmen Square 1989?

Ég játa að ég man mjög vel eftir atburðunum árið 1989 en ég man líka að á Íslandi var það kallað Torg hins himneska friðar. Það er fátt hallærislegra en að nota ensk heiti á svæði utan hins enskumælandi heims.

Þá dregur Anna Karen fram vafasamar fullyrðingar um róttæka fortíð konu sem tengist BLM.

Meðhöndlun fjármagnsins sem þessir fjársterku aðilar leggja hreyfingunni til fer í gegnum Susan Rosenberg og situr hún í fjáröflunarnefnd samtakanna BLM.

Susan þessi er dæmdur hryðjuverkamaður og ævilangur aktívisti, sem hefur leitt til dauða þó nokkurra manna.

Ég ætla ekki að reyna að tæta í sundur fyrri setninguna því að þó hún sé bókstaflega röng þá er það aðallega vegna þess að Anna Karen kann ekki að tjá sig í rituðu máli. Það hvort við ættum að kalla Susan Rosenberg hryðjuverkamann er álitamál (sjá Snopes). En það að hún hafi „til dauða þó nokkurra manna“ byggir ekki á staðreyndum. Hún var ekki dæmd fyrir neitt slíkt, ekki einu sinni ákærð, en hún hefur vissulega verið sökuð um það. Ferill hennar frá því að hún var leyst úr fangelsi fyrir nær tuttugu árum er hins vegar óneitanlega laus við tengsl við ofbeldi eða ógnanir.

Anna Karen vill helst kalla BLM hryðjuverkasamtök og notar þá stórar yfirlýsingar án sannana.

Hreyfingin snýst ekki um rasisma heldur pólitísk völd. Ef þú brennir fyrirtæki, lemur, drepur eða nauðgar öðru fólki og gjörsamlega rústar heilu borgunum, ertu þá ekki hryðjaverkamaður?

Nær ekkert af þessu lýsir BLM en þetta er ágæt lýsing á því hvernig komið hefur verið fram við svart fólk í Bandaríkjunum í gegnum tíðina.

Ég verð að lokum að benda á þessa setningu sem er svo undarleg að ég hálfdáist að henni:

Fólkið sem gagnrýnir nasista Hitlers er á sama tíma búið að lýsa yfir stuðningi við samtökin á samfélagsmiðlum.

Bravó.

Þetta á ekki að vera endanleg yfirferð á greininni. Hvorki málfars- eða efnislega. Bara nokkur atriði sem var einfalt að benda á. Hlutir sem Anna Karen hefði væntanlega getað flett upp sjálf.

 

Nasistar sem styðja málfrelsi

Í morgun endaði ég inni á íslenska hægri Twitter. Sem er versti Twitterinn. Þar sá ég allskonar vitleysu. Ég sá nokkrar deilingar á myndbandi þar sem vondir andfasistar voru að ýta við manni sem var sakleysislegt skilti þess efnis að hann styddi tjáningarfrelsi. Voða vont fólk. Þessu var deilt eins og þetta væri nýskeð. Athugasemdir um hvað 2020 væri brjálað.

Mig grunaði að þarna vantaði eitthvað samhengi. Þannig að ég lagðist í margra klukkutíma rannsóknarvinnu til að komast að því sanna. Djók. Ég bara las athugasemdirnar við upprunalega myndbandið. Þar var snarleg bent á að myndbandið væri ekki nýtt og að það vantaði mikið upp á samhengið.

Ef maður hefur fylgst með öfgahægrinu þá sér maður alltaf sama bragðið sem þeir nota. Fyrst er tjáir einhver viðbjóðslega skoðun. Þessari skoðun er síðan mótmælt og í kjölfarið fara hægrimenn að tala um skoðanakúgun, árás á málfrelsið og reyna að hunsa viðbjóðinn sem var orsakaði reiði vinstra fólksins.

Í þessu tilfelli voru nýnasistar með viðburð í hverfi í London árið 2017 og fólk í hverfinu mætti til að mótmæla. Til að hafa það á hreinu, þegar ég sé nýnasistar, þá meina ég alvöru nýnasistar. Meðal annars gaur sem sagði að Anders Breivik hefði gert það sem marga bara dreymdi um. Þið munið kannski eftir Breivik. Hann drap fullt af krökkum í Útey.

Það var sumsé stuðningur við fjöldamorð sem fór fyrir brjóstið á þessum andfasísku snjókornum. Síðan mætir þessi eini gaur og segist styðja málfrelsi. Allir vita að hann meinar að hann sé nasisti en það er hægt að búa til úr þessu myndband þar sem saklaus gaur er ofsóttur af öfgavinstrimönnum.

Ef við ætlum að tala um mörk tjáningarfrelsið þá er gott að muna eftir hefðbundna dæminu. Þið vitið, þetta með að öskra eldur í troðnu leikhúsi. Ég ætla að halda statt og stöðugt fram að stuðningur við fjöldamorð falli vel og vandlega undir málfrelsi sem má takmarka. Allavega styð ég að fólk safnist saman og mótmæli svona fólki.

Það er áhugavert að það eru ekki svartklæddu anarkistarnir sem ganga þarna harðast fram. Það er kona, væntanlega á mínum aldri eða eldri, sem stuggar við nasistanum. Ég skil hana vel. Þegar ég sé nasista þá fer hnefinn minn að kreppast. Hún bara ýti við honum. Ég myndi ekki vilja fá svona pakk í hverfið mitt.

Ég tek fram að ég skil alveg að fólk sé algjörlega á móti jafnvel sakleysislegum ýtingum eins og sjást í myndbandinu. En það að deila þessu myndbandi í röngu, eða án, samhengi(s) er bara áróðursbrella sem við þurfum að verjast.

Síðan getum við séð hverjir voru að deila myndbandinu. Það var til dæmis Toby Young. Ég ætla ekki að kalla hann nasista. Hann styður reyndar kynbætur á mönnum. Hann er líka í forsvari við einhver samtök sem kenna sig við málfrelsi.

Athugasemdirnar við myndbandið segja líka sitt. Þær voru margar hverjar rasískar. Ábending: Ef þú ert að deila einhverju og sérð að fullt af rasistum eru hrifnir af því þá ættirðu kannski ekki að deila því.

Hvernig ætli fólki líði ef það kemst að því að það var að deila nasistaáróðri? Ætli það hugsi: „Oj, nei. Verð að passa mig á þessum nasistum“? Eða ætli það hugsi: „Æ, nei. Það komst næstum upp um mig“?

Það eru ótrúlega öflugar áróðursvélar í gangi. Helsta vopn okkar gegn þeim er að hafa fólk á okkar bandi sem efast ekki bara um það sem andstæðingarnar hafa fram að færa (sem er það sem ég er að gera hér) heldur samherjarnir sem leyfa sér að spyrja félaga sína hvort það sem þeir eru að deila sé raunverulega satt.

Ef þú átt ekki vin sem leyfir sér að efast um það sem þú segir þá ertu illa staddur.

Að lokum vil ég benda á að samkvæmt röksemdarfærslu hægri manna er öll gagnrýni á þessi skrif mín árás á málfrelsi mitt.

Þegar Barnaheill var rænt af samsæriskölti

Ef þið fylgist með bandarískum stjórn- og þjóðfélagsmálum þá hafið þið væntanlega heyrt um „Q“ og Q-Anon. Þetta er klikkuð samsæriskenning sem hefur náð töluverðri útbreiðslu þar í landi. Það er líka hægt að sjá Q-Anon fólk í athugasemdakerfum íslenskra vefmiðla.

Í stuttu máli er dularfullur gaur sem kallast „Q“, sem á að vera háttsettur embættismaður í Bandaríkjunum, að pósta allskyns rugli á rasistaspjallborð. Miðpunkturinn í málflutningi hans er að Trump sé að reyna að bjarga Bandaríkjunum frá allskonar samsæri Demókrata og ríks fólks. Bjánalegar athugasemdir Trump um hitt og þetta eru túlkaðar sem leynileg skilaboð. Auðvitað er „Q“ ekki raunverulegur embættismaður. Mögulega er hann eigandi rasistaspjallborðsins en það er alls ekki víst.

Kenningarnar eru allskonar og sumar mjög undarlegar. John F. Kennedy yngri (ekki eldri eins og Kjarninn skrifaði) sem fórst í flugslysi fyrir rúmum 20 árum er til dæmis í lykilhlutverki og á að hafa sett slysið á svið til að geta unnið á bak við tjöldin til að upplýsa samsæri.

Q-Anon er költið sem trúir á kenningar „Q“. Það er allskonar fólk en margir hafa nefnt að eldra fólk sé oft líklegra til að falla fyrir þessu. Kenningarnar sem Q-Anon fólk dreifir eru ekki eingöngu komnar frá „Q“. Hópurinn fann til dæmis ekki upp á „Pizzagate“ samsærinu (meintur barnaníðshringur á pizzastað sem Demókratar sóttu töluvert) en var duglegur að dreifa því. Q-Anon finnur líka allsstaðar vísbendingar um samsærin. Tónlistarmyndband Justin Bieber var til dæmis fullt af vísunum í „Pizzagate“ – segir költið.

Q-Anon fólk hefur komist að því að barnaníðsásakanirnar eru líklegar til að fá dreifingar. Í ágúst náði þessi hópur að ræna #savethechildren myllumerkinu. Fullt af fólk deildi óafvitandi áróðri þeirra og mætti jafnvel á mótmæli sem voru ætluð til að vekja athygli á Q-Anon kenningum. Ég sá svoleiðis pósta frá Íslendingum en ég vissi bara ekki hvernig maður ætti að útskýra fyrir fólki að #savethechildren snerist í raun um eitthvað allt annað. Þetta er svona eins og þegar rasistarnar rændu ókeimerkinu og fólk brást við með að úthúða þeim sem bentu á það.

Annars virðist þetta #savethechildren dæmi hafa fjarað að mestu út, m. a. annars vegna þess að Q-Anon komst að því að Bill Gates hafði gefið mikið af peningum til Barnaheilla (Save the Children) og brjálaða samsæriskenningaköltið vildi enga tengingu við Bill Gates. Þetta fólk hatar Bill Gates ekki vegna vafasamra viðskiptahátta heldur vegna þess að það telur að Gates sé að reyna að drepa fólk hægri vinstri með góðgerðarstarfi sínu.

Þó það sé erfitt þá erum við víst á þeim stað að við þurfum að fara að tala um Q-bullið við fólk sem er óafvitandi að falla fyrir samsæriskenningum þeirra. Þetta er ekki bara einhver heimskulegur brandari. Þetta er að dreifast um heiminn og þetta getur verið stórskaðlegt.

Framhaldsskólar með skuldahala

Fyrir nokkrum árum vann ég í framhaldsskóla. Þar sem mínir kjarasamningar gerðu enga kröfu um að mér væri borgað sérstaklega fyrir fundarsetu endaði ég með því að stunda slíkt töluvert (ekki af eigin áhuga). Ég fékk því að fylgjast sérstaklega vel með fjármálum skólans.

Þessi ríkisskóli skuldaði ríkinu peninga. Árin áður hafði skólinn farið fram úr fjárhagsheimildum og þurfti því að skera niður í hinu og þessu næstu árin. Ég mátti t.d. ekki kaupa nema mjög takmarkað af bókum. Á nær öllum fundum sem ég sótti þurfti líka að finna leiðir til að spara. Það var mjög niðurdrepandi. Ég var þó ekki nálægt þegar erfiðustu ákvarðanirnar voru teknar og varð því mjög bylt við þegar ég komst að því að hópi af samstarfsfólki mínu hafði verið óvænt sagt upp.

Í raun þýddi þetta að þeir sem voru í skólanum á þessum árum fengu skerta þjónustu. Ég skil ekki hvernig er hægt að réttlæta slíkt. Þessir nemendur „græddu“ ekki á því að skólinn notaði of mikið af peningum árin áður. Það er ekki eins og þessi yfirkeyrsla hafi verið fjárfesting til framtíðar.

Framhaldsskólar eru auðvitað fastir í neti reiknilíkana þar sem Excel segir til hvað hlutirnir mega kosta – hvort sem forsendurnar séu réttar eða rangar. Sveiflur í nemendafjölda milli ára breyta öllu og það er ekki alltaf hægt að skera niður með litlum fyrirvara. Það er stundum óumflýjanlegt að lenda í mínus.

En hvað á að gera þegar skólar lenda í mínus? Kerfið sem ég sá refsaði nemendum og starfsmönnum. En hefði ekki verið rökréttara að fara yfir fjármál skólans, athuga hvað fór úrskeiðis og sjá hvort þetta var í raun óumflýjanlegt eða jafnvel vegna mistaka og vanrækslu? Ef um væri að ræða lélega fjármálastjórn skólans þá ætti einfaldlega að segja upp þeim stjórnendum sem bera ábyrgð. Ekki refsa nemendum sem hvergi komu nálægt ákvörðunum.

Ég veit ekki hvernig er brugðist við svona málum í dag. Ég hóf auðvitað störf í kjölfar hrunsins en jafnvel þegar birti til í ríkisfjármálum var bág staða skólans notuð í klassískri árás frjálshyggjunnar á opinbera þjónustu. Niðurskurður gerði fólk að lokum sátt við að einkaframtakið tæki við. Þar var hægt að fá peninga.

Stafsetningarvilla en ekki málvilla

Ég er hópnum Málspjall sem Eiríkur Rögnvaldsson setti af stað. Þar ákvað ég að spyrja um nokkuð sem ég hef lengi velt fyrir mér. Það er þessi tilhneiging að setja G-hljóð aftan við orð eins og þú, þau, þó og svo. Ég geri það jafnvel stundum sjálfur.

Þetta er ekki nýtt fyrirbæri. Ég man mjög sterkt eftir þessu G-hljóði hjá Guðmari afa til dæmis. Við vitum líka að þessi orð hafa gjarnan verið til vandræða þegar á að kenna börnum stafsetningu – þóg að það sé ekki jafn áberandi og áður fyrr.

Eiríkur svaraði þessu:

Ég þekki þetta úr „þaug“ og „svog“ en ekki úr hinum orðunum þótt mér finnist trúlegt að þau hafi fengið sambærilegar myndir. Þetta var mjög algengt áður fyrr en ég heyri það sjaldan núna – eða tek lítið eftir því a.m.k. Í Menntamálum 1947 er lögð áhersla á þjálfun sjónminnis og sagt: „Sé það gert, er alveg óhugsandi, að 12—13 ára börn skrifi þaug og þettað — o. fl. svipaðar vitleysur.“ Án þess að ég hafi nokkuð skoðað þetta finnst mér líklegt að ástæðan sé sú að g-inu sé skotið inn til að forðast svokallað „hljóðgap“ þar sem tvö sérhljóð koma saman. Á eftir „þau“ fer mjög oft „eru“ og þá koma saman tvö sérhljóð sem tilhneiging er til að forðast í framburði. Sama gildir um hin orðin. Með aukinni stafsetningarkennslu hefur sennilega dregið úr þessum framburði.

Þegar ég var í þjóðfræðinni lagði ég töluverða áherslu á kenningar um munnlega hefð. Þessar hugmyndir áttu upprunalega að vera upplagið í meistararitgerðinni minni. En þetta varð líka til þess að ég fór að skilja þá gjá sem er milli ritaðs máls og talaðs.

Ritað mál verður alltaf mjög einfölduð útgáfa af töluðu máli. Stafsetning endurómar þetta með því að staðla orð sem eru borin fram á marga ólíka vegu. Við skrifum banki en ekki bánki af því að íslenskufræðingar ákváðu að það væri réttara. Þetta er auðvitað ekki sér-íslenskt og í öðrum tungumálum eru til miklu ýktari dæmi.

Stundum gerist síðan það sem Eiríkur bendir á hér að ofan. Stöðluð stafsetning fer að breyta frumburði. Það er rangt að skrifa þaug þannig að fólk hættir að bera fram þetta G-hljóð. En samt er þetta ekki málvilla í sjálfu sér – bara stafsetningarvilla. Það er ekki það sama.

Við gætum alveg ímyndað okkur þróun á íslensku sem hefði orðið til þess að við myndum bera orðið banki fram eins og það er skrifað. Kannski ef Jón Baldvin hefði verið vinsælli stjórnmálamaður og fólk hefði apað upp eftir honum framburðinn í stað þess að afskrifa hann sem tilgerðarlegan eða ef Halldór Laxness hefði ekki gert uppreisn gegn stafsetningarreglunum.

Ég er ekki að segja að það sé gott eða slæmt að stöðluð stafsetning hafi áhrif á talað mál en ég held að það sé gott að hafa þetta í huga.

„Var myrtur“

Þegar Íslendingabók var í vinnslu var almenningi boðið að fá útprent af upplýsingum um forfeður sína. Ég stökk auðvitað til. Það vill svo til að í ættfræði er yfirleitt fljótlegast að klífa upp karlegginn.

Ætli upplýsingarnar ætli hafi ekki svipaðar þá og núna:

Stefán Jónsson
Fæddur 23. ágúst 1801 á Neðri-Vindheimum, Glæsibæjarhr., Eyj.
Látinn 11. ágúst 1852 í Glæsibæjarsókn, Eyj.
Bóndi á Áslákstöðum, Lögmannshlíðarsókn, Eyjafjarðarsýslu 1845 og 1850.
Var myrtur.

Ég var frekar hissa að sjá síðustu línuna. „Var myrtur“. Ég hafði aldrei heyrt á það minnst að langalangalangafi minn hefði verið myrtur. Ég talaði við Hafdísi systur og hún kannaðist ekkert við þetta.

Ég reyndi að leita að frekari upplýsingum en fann ekkert. Þannig að svo leið tíminn. Ég kíkti í bækur og fann lítið af upplýsingum. Fyrren 2008 að ég var í heimsókn hjá Dagbjörtu vinkonu minni og kíkti í bók um nítjándu öldina. Þar var grein um morðið: „Maðurinn með ljáinn“. Þetta kom mér á sporið.

Hægt og rólega safnaði ég greinum, grúskaði í kirkju- og dómabókum. Það fór saman að ég varð betri að leita að upplýsingum og að meira af upplýsingum kom á netið. Greinarnar voru oft ýktar og með smellibeitufyrirsögnum (þó þær hafi ekki verið skrifaðar fyrir netið).

Morðið var framið á Ásláksstöðum. Það er bær sem er skammt norðan við Akureyri. Þessi mynd sýnir staðsetninguna. Ég setti líka svartan punkt á Búðasíðu 1 þar sem ég bjó 1989-1991. Sumsé rétt hjá.

Hér á eftir fer uppritun mín úr dómabók (ég reyndi ekki að hafa þetta stafrétt):

Ár 1852 hinn 12 August á Bitru í Kræklingahlíð var pólitíréttur haldinn af sýslumanninum í Eyjafjarðarsýslu með vottum Stefáni Jónssyni bónda á Hraukbæ og Jóni bónda Stefánssyni á Mýrarlóni til að gjöra rannsókn áhrærandi sjálfsmorði Jónasar Sveinssonar frá Lögmannshlíð m.m.

Mætti fyrir réttinn Hermann bóndi Sigfússon á Bitrugerði og var brýnd fyrir honum skylda hans að segja satt frá öllu er hann yrði spurður um. Hann skýrir svo frá, að í fyrrakvöld hafi Ásláksstaðabörnin komið hlaupandi sunnan að og hafi það elsta af þeim, Soffía, er var fermd í vor, kallað til sín og beðið sig í guðs bænum að koma suðureftir, hann Jónas Sveinsson væri að drepa hann pabba sinn, kveðst hann svo eftir hafa hlaupið suðureftir, og séð Stefán Jónsson bónda á Ásláksstöðum liggja þar í slægjunni með blóðrás úr sári á bakinu neðantil, þó kveðst hann ekki hafa séð sárið sjálft, heldur skurð á fötunum og skamt þaðan Jónas Sveinsson frá Lögmannshlíð skorinn á háls, er þó með lífi, en ekki svo að gæti neitt talað. Stefán sagði og honum þá að Jónas hefði veitt honum þetta sár með ljá bundnum í orf er hann hefði haft með sér hafði Jónas komið til hans í slægjuna, og sagt ætla að Bitru til sláttar, höfðu þeir sest niður og talað meinlauslega [við hann] saman um veðrið og tíðina, hefði Jónas svo staðið upp og tekið orfið með ljáinn í og rekið sjáinn í sig og sagði: „Þetta ætlaði ég þér, bölvaður“. Kvaðst Stefán þá hafa náð í orfið og náð því af Jónasi og hafi þá gengið þangað sem hann lá og skorið sig á háls með hnífskuta er líka fannst við hliðina á honum blóðugur.

Pétur bóndi Guðmundsson á Bitru var líka kallaður fyrir og var hans vitnisburður „öldungis samhljóður undangangandi vitni“.

Bæði vitnin skíra frá, að Jónas Sveinsson hafi verið greindur maður og lesinn, en fremur undarlegur og ofsafenginn, þegar eitthvað bar út af eða honum þótti fyrir einkum ef hann hefði orðinn drukkinn. Þau neita að Jónasi, hafi neitt verið ráðinn hjá þeim til sláttar.

Kallað var á lækni og Stefán var borinn inn í hús. „[G]jörði hann þá ráð fyrir að hann mundi ekki verða heill af þessu, og vitnaði þá til guðs, að hann hefði verið saklaus við Jónas.“

Læknirinn hlúði líka að Jónasi, taldi hann dauðvona og lét bera hann heim að Lögmannshlíð þar sem hann lést um kvöldið. Stefán lifði um sólarhring lengur. Í kirkjubók kemur fram að amtsleyfi hafi fengist til að jarða Jónas í kirkjugarðinum.

Réttinum var haldið áfram í Lögmannshlíð þar sem Guðmundur Pétursson á Bitru var vottur. Jónas Jónsson bóndi þar á bæ vitnaði um samskipti sín við nafna sinn Sveinsson fyrr um daginn sem morðið var framið.

Jónas Sveinsson hafði komið heim til sín. Hann batt ljá sinn við orf og sagðist ætla að fara að hjálpa Hermanni í Bitrugerði við slátt. Húsbónda hans þótti skrýtið að hann væri að fara svona seint af stað í slíkan leiðangur. Hann sagði líka að Jónas hefði drukkið brennivín – þó ekki hefði séð á honum. SpurðPétur bóndi Guðmundsson á Bitru var líka kallaður fyrir og var hans vitnisburður „öldungis samhljóður undangangandi vitni“.ur um nafna sinn sagði hann að Jón hefði værið „örlyndur maður, en ekki sýndi hann neinn ofsa á þessu heimili“.

Jónas Sveinsson hafði verið að heiman um morguninn áður en morðið var framið. En við skulum fyrst fara aftur til 20. apríl sama árs. Þann dag var aukaþinghald að Ásláksstöðum.

Fyrirtekin sök er Guðmundur Pétursson á Bitru höfðar gegn konu hans Ásdísi Þorsteinsdóttur á Ásláksstöðum til hjónaskilnaðar.

Húsbóndi Ásdísar, Stefán Jónsson, var „svaramaður“ hennar í þessu máli.

Ásdís hafði árið 1850 fætt andvana barn. Hjónin höfðu ekki búið saman um nokkurn tíma og taldi Guðmundur barnið ekki sitt. Ásdís þvertók fyrir það og sagði mann sinn eiga barnið. Þá var kallað fyrir vitnið Jónas Sveinsson hafði líka unnið og búið að Ásláksstöðum.

Jónas vitnaði um að Ásdís hefði sagt sér að Stefán væri faðir hins andvana barns. Ásdís neitaði að hafa sagt honum nokkuð slíkt.

Í dómnum er það nefnt, næstum í framhjáhlaupi, að Ásdís hafi á þessum tímapunkti „auðsjáanlega verið barnsþunguð“ á ný. Reynt var að fá Guðmund til að samþykkja frestun á málinu en hann taldi að það hefði tafist nóg. Fallist var á það.

Hjónabandi þeirra er slitið og má Guðmundur giftast aftur er ekki Ásdís nema með konungsleyfi.

Þann 24. júlí fæddi Ásdís dóttur. Lögregluþing var haldið þann 10. ágúst.

Barnsfaðernislýsingarmál Ásdísar Þorsteinsdóttur vinnukonu á Kaupangi gegn [Jónasi] Sveinssyni giftum manni á Lögmannshlíð. Hann eftirlætur henni eið.

Ásdís kvað Jónas vera föðurinn. Jónas gekkst ekki beinlínis við því en ef hann hefði svarið neitunareið hefði þetta væntanlega verið hans orð gegn hennar. En hann lét það vera og eiður Ásdísar stóð. Jónas var úrskurðaður faðir barnsins.

Eftir þinghaldið fór Jónas aftur heim að Lögmannshlíð. Náði í ljáinn og reið að Ásláksstöðum til að myrða Stefán.

Það voru ekki mörg blöð á Íslandi á þessum árum og útgáfa þeirra ekki endilega mjög regluleg. En þann 12. september birti Þjóðólfur eftirfarandi grein um málið. Ég set ýmsar spurningar við innihald greinarinnar. Ég hef breytt letri þess sem er beinlínis á skjön við það sem kom fram fyrir rétti og/eða kirkjubókum.

Að norðan hefur oss borizt þessi hryggilegi atburður: Maður hjet Jónas, og annar Stefán og býji á Ásláksstöðum í Kræklingahlíð í Eyjafirði. Nú bar svo við, að stúlka ól barn á heimili Stefáns og kenndi Jónasi; en hana kvað skakka 5 vikum, ljet þó stúlkunni eptir eiðinn, svo hún sór á hannn barnið; en það var álit flestra, að Stefán væri hinn rjetti faðir. Þegar Jónas kom frá rjettinum, þar sem barnið var á hann svarið, var hann heima næstu nótt í Lögmannshlíð, þar sem hann átti heimili, en hann var lausamaður. Næsta morgun fór hann af stað þaðan með orf sitt og ljá eitthvað út á bæjina, þar sem hann var í kaupavinnu. Leið hans lá þar um engjar, er Stefán stóð að slætti, og barn hans nokkur hjá honum. Hann gengur til Stefáns og kveður hann; voru þeir gagnkunnugir frá barnsbeini og uppeldisbræðnr. Þeir setjast á þúfu og taka tal saman um hitt og þetta ; en er Jónas stendur upp, sem hann vildi fara leiðar sinnar og kveðja Stefin, sveiflar hana orfinu, og leggur með ljánum ofanvert við mjöðmina í hol í huppinn, og vildi þegar ljósta hann öðru lagi; en Stefán varð skjótari til bragðs, þreif um orfið og náði því. Jónas skundar þá þaðan fáa faðma, tók upp vasakníf sinn og skar sig á háls á barkann framanverðan. Menn voru þar nærri við heyskap af öðrum bæjinn. og sáu atburðinn, en börn Stefáns sögðu þegar til, og komu þá nokkrir þar að í fljótri svipan, til að stumra yfir hinum vegna og vegandanum. Nú var sent eptir lækni, og sá hann strax að báðir voru særðir til ólífis. Lifði Stefán sólarhring og sagði atburðinn allan, sem hjer er talið; en Jónas lifði 3 dægur mállaus, og ljet svo líf sitt. Það þóktust menn hafa fyrir satt, að Jónasi mundi hafa verið þetta í skapi, er hann fór að heiman um morguninn; því hann skildi eptir heima á vísum stað kistulykla sína, er hann aldrei var vanur að skilju við sig. Í prófi því, er sýslumaður hjelt, og vitnaleiðslu um atburð þennan, er mælt að vitni öll hali borið Jónasi vel söguna um æfi hans og hegðan að undanförnu, en Stefáni miður.

Þessi grein, sem er bókstaflega röng í mörgu sem er skjalfest annars staðar. Mikið er af nýjum upplýsingum, þar á meðal að fullyrða að Stefán væri faðir barnsins. Miðað við hve illa er farið með staðreyndir sem eru þekktar set ég stórt spurningarmerki við annað sem kemur þarna fram. Það læðist vissulega að manni sá grunur að einhver nákominn Jónasi hafi komið upplýsingum til Þjóðólfs þar sem reynt var að sverta mannorð Stefáns. Ef svo er þá virkaði það. Allar þær yngri greinar sem ég hef lesið um málið virðast byggja á þessari – þó sumar vísi líka á betri heimildir meðfram.

Nú veit ekkert hver faðerni barnsins umrædda var í raun. Hún hélt föðurnafni sínu Jónasdóttir alla ævi. En það þarf ekki að þýða neitt. Það sem mér finnst undarlegast er að Jónas skuli ekki bara hafa afneitað faðerninu við þinghaldið. Það er ekki eins og að það hafi verið í tísku að trúa konum á þessum árum.

Þar sem það er fátt hryllilegra en að myrða foreldri fyrir framan börn sín þá finnst mér ekki skipta máli hvort Stefán var góður maður eða ekki. Langa-langafi minn hann Kristján var ekki orðinn heils árs gamall þegar faðir hans var myrtur og fékk því aldrei að kynnast honum. Hver sem var faðir stúlkunnar nýfæddu skiptir ekki miklu máli enda ólst hún upp föðurlaus. Jónas tryggði það.

Úr dómabókum Eyjafjarðarsýslu

Skilnaðarmál 20. apríl 1852.

Faðernismál 10. ágúst 1852.

Morðmál 12. ágúst 1852.