Það er vetrarleyfi (í febrúar væntanlega) í heimavistarskólanum) en tvær stúlkur þurfa að bíða lengur eftir því að verða sóttar. Hryllingsmynd.
Í fyrsta lagi var ég að lesa mér til um Anthony Perkins og syni hans. Í öðru lagi var ég velta fyrir mér hvers vegna Emma Roberts (Julia er frænka, Eric pabbi) væri svona óljós í huga mér (ég hef víst bara séð hana í Adult World). Í þriðja lagi var ég að kíkja á kvikmyndaferil Kiernan Shipka. Svo var spurning í Doug Loves Movies um vinsælustu myndirnar með mánaðarheiti í nafninu.¹
Þannig að allt í einu var The Blackcoat’s Daughter út um allt. Leikstjóri og handritshöfundur er Oz Perkins. Bróðir hans Elvis samdi tónlistina. Aðalhlutverkin eru Emma Roberts og Kiernan Shipka (og Lucy Boynton sem ég hafði ekki hugsað um nýlega en var í Sing Street
(2016) sem of fáir hafa séð). Svo er James Remar líka þarna, gaur sem hefur verið í ótal myndum t.d. undarlegu endurgerðinni af Psycho.
Lengst af vissi ég ekkert hvað væri á seyði. Á góðan hátt. Andrúmsloftið byggt upp … Í svona myndum skiptir mig mestu máli að endirinn réttlæti það sem á undan kom. Mér fannst það takast ágætlega en það eru greinilega ekki allir á sama máli. Ég gæti hugsað mér að horfa á hana aftur. Eiginlega er hún að hækka í áliti hjá mér þegar ég er að skrifa þetta og pæla.
Myndin vísar vel og vandlega í fræga hryllingsmynd, samt ekki Psycho.
¹ Spurningin sem Doug spurði var um myndir sem væru nefndar eftir mánuðum. Þessi mynd er líka þekkt sem February.