Í gær fórum við Eygló til Hjördísar að hitta bókasafnsfræðiklíkuna. Nils, Danni og Halli komu allir. Danni kom með eitthvað Star Trek spil með sér en það var nú ekki spilað enda spurningarnar frekar erfiðar, flestar úr upprunalegu sjónvarpsseríunni. Við spiluðum þess í Séð & Heyrt spilið (Ármann, hvers vegna færðu sérstakar þakkir í bæklingnum með því spili?) en kláruðum það ekki (hættum þegar Halli kom).
Við fórum þá í Party & Co sem er nú nokkuð skemmtilegt. Ég og Nils rúlluðum þessu upp þannig að það var haft á orði að við hlytum að hafa verið bræður í fyrra lífi. Reyndar var stórfurðulegt að ég skyldi vera svona góður í spilinu þar sem ég var ennþá steiktur, mældist með 39° hita áður en við fórum. Ég tók mig meiraðsegja til og gróf upp einu ljósu buxurnar sem ég á því það var ennþá sól þegar við fórum þangað. Reyndar eru þessar buxur með einhverjum smá blettum.
Þegar spilinu var lokið lagði ég mig í sófa því ég var orðinn ægilega slappur, meðan þau voru að spjalla þá reyndi ég að koma með eitt og eitt komment í samtalið. Ég hresstist síðan strax við þegar ég fór út í ferska loftið þegar við fórum heim.