Hugsanlega er Óli Lokbrá ekki nákvæmasta þýðingin á Sandman. Sandman er einhver frægasta teiknimyndasaga síðustu ára (nógu fræg til að ég þekki hana), hún er eftir Neil Gaiman. Neil Gaiman þekki ég hingað til bara fyrir skáldsögur sínar (og reyndar bók um Hitchhikers Guide to the Galaxy), fyrst bókina Good Omens sem hann skrifaði með Terry Pratchett og síðan hinar sem ég hef síðastliðið hálft ár tekið mig til að lesa. Nú tek ég stökkið yfir í hið óþekkta.
Nútímateiknimyndasögur eru mér lokuð bók svo ég sé alveg heiðarlegur, veit lítið um þær og hef nær ekkert lesið. Reyndar hef ég aldrei lesið mikið af teiknimyndasögum, ekki einu sinni af þeim sem voru gefnar út á gullöld íslenskrar teiknimyndaútgáfu. Lesið aðeins Sval og Val, Viggó Viðutan og svo framvegis. Goðheimabækurnar eru undantekningin í þessu því þær las ég allar af miklum áhuga og á meiraðsegja þrjár af fimm (hinar hafa verið ófáanlegar lengi) sem komu út á íslensku. Reyndar skilst mér að Goðheimar séu komnir upp í svona 12 á dönsku.
Nú byrja ég og veit ekki hvað mér mun finnast.