Fór á tónleika á Grand Rokk með Ensími og 200.000 naglbítum með Eygló og Hjördísi, kostaði 700 kall sem er mjög fínt verð. Við komum okkur fyrir á þakinu sem er ofan við stigann fyrir framan sviðið.
Naglbítarnir stigu á svið og spiluðu lög af væntanlegum disk. Styst er frá því að segja að sá diskur verður keyptur um leið. Villi er alltaf svo skemmtilegur á sviði. Þeir tóku stórskemmtilegt atriði þegar Villi þurfti allt í einu að skipta um gítar til að spila Hæð í Húsi. Þeir spiluðu ekki óskalagið sem ég bað um. Það heitir 200.000 naglbítar þannig að það er séns að þeir hafi bara haldið að ég væri svona afskaplega ánægður með hljómsveitina sjálfa þannig að mér hafi fundist nauðsynlegt að hrópa nafnið á henni. Og ég söng og þeir rokkuðu. Þessir fyrrverandi skólafélagar eru í uppáhaldi þó Villi sé hættur að heilsa mér.
Síðan kom Ensími á svið. Trommarinn þeirra er áhugaverður, hann hefur eina stærstu tungu sem ég hef séð og mikið fyrir að stinga henni útúr munninum. Ég hafði raunverulegar áhyggjur af því að hann myndi lemja tunguna með trommukjuðanum. Tungan hlítur nú samt að gera hann vinsælan hjá dömunum. Fyrir utan trommarann þá var Ensími óspennandi.
Það reyndi einhver fyllibytta að stela sætinu hennar Eyglóar meðan hún skrapp á klóstið en ég losnaði við hann með sparka taktfast í bakið á honum.
Reykingarnar voru farnar að hafa áhrif á okkur Eygló þannig að þegar lokalagið var tilkynnt fórum við frekar fegin út. Loftræstingu takk! Eða bara banna þessar helvítis reykingar.
Gerðum heiðarlega tilraun til að fara á Dillon en þar var ægileg röð (!) svo við slepptum því og fórum heim.
Ég hélt einu sinni tónleika með 200.000 naglbítum á Vopnafirði, Hofsball.